Friðrik Guðjónsson

Friðrik Helgi Guðjónsson útgerðamaður

Friðrik Guðjónsson - Fæddur 9. október 1901 - Dáinn 28. aríl 1991  -  10. maí, var Friðrik Guðjónsson til moldar borinn í Görðum á Álftanesi. Hann andaðist á Landspítalanum 28. apríl sl. eftir erfið veikindi á nítugasta aldursári.

Ævinlega setur okkur hljóð, þegar einhver okkur nákominn, vinur eða velgjörðarmaður, er burtu kvaddur yfir móðuna miklu. Að vísu vissum við, sem þekktum Friðrik vel, að hverju stefndi, þótt þjáningar sínar reyndi hann að dylja sínum nánustu til hinsta dags.

En minninguna um Friðrik Guðjónsson fær dauðinn ekki tekið. Mér er hún kærari en svo, að henni verði lýst, enda náði vinátta okkar yfir rösk 60 ár samfellt.

Friðrik Guðjónsson fæddist á Fossi í Vesturhópi, Húnavatnssýslu.

Foreldrar hans voru

Guðjón Helgason ættaður úr Vopnafirði og kona hans,

Kristín Árnadóttir, frá Hörghóli í Vesturhópi. Síðast voru þau búsett á Akureyri.

Friðrik var uppalinn á Harastöðum í Vesturhópi til nítján ára aldurs og voru

fósturforeldrar hans

Gunnar Jóhannsson og 

Steinunn Bjarnadóttir. Þau reyndust honum sem bestu foreldrar. Friðrik endurgalt elsku þeirra og umhyggju ríkulega, þegar þau þurftu þess með.

Innan við tvítugt fór Friðrik af litlum efnum, en meðfæddum áhuga og sjálfstrausti til náms í Gagnfræðaskólanum á Akureyri og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Stundaði síðan nám við Menntaskólann í Reykjavík 1927 og lauk þaðan stúdentsprófi. Hann lauk kennaraprófi ári síðar eða 1928.

Meðan Friðrik var við nám vann hann við síldarverkun á Siglufirði yfir sumartímann. Þann 19. maí 1928 steig Friðrik sitt mesta gæfuspor á langri lífsleið er hann kvæntist Friðrik;

Ástríður Guðmundsdóttir sjómanns í Reykjavík

? Guðmundsson og

maki hans Margrét Ólafsdóttir.

Ástríður lifir mann sinn við bærilega heilsu, þó komin sé á tíræðisaldur. Hún á sitt heimili á Hrafnistu í Hafnarfirði, sem Friðrik hafði tryggt þeim hjónum með sinni fyrirhyggju. Þar leið þeim vel eftir langa en óvenju farsæla og litríka starfsævi.

Að námi Friðriks loknu héldu ungu hjónin til Siglufjarðar og þar festu þau sér heimili og bjuggu þar að undanskildum árunum 1935 til 1937 að Friðrik var skólastjóri og oddviti á Hellissandi.

Þá flyst Friðrik til Siglufjarðar aftur með fjölskyldu sína, og gerist þar kennari á vetrum, en á öðrum tíma fékkst hann við útgerð. Fór hægt af stað, en sótti með aðgæslu fram, uns hann var orðinn einn af þekktustu athafnamönnum Siglufjarðar. Hann kom mikið við sögu atvinnumála fyrir hönd vinnuveitenda og hafði þá ekki síður í huga hagsmuni þeirra er eingöngu unnu störf sín hörðum höndum.

Hann rak um langt árabil Hraðfrystihúsið Hrímni hf., sem frysti fisk og síld jafnframt söltun síldar. Einnig rak hann Hraðfrystihús á Skagaströnd með öðrum. Hann var umboðsmaður erlendra síldveiðiskipa er bækistöð höfðu á Siglufirði, svo og flutningaskipaeigenda flest allra þeirra skipa, sem þjónustu þurftu á að halda hér við land. Eins og af ofanrituðu má sjá, var Friðrik Guðjónsson mikill athafnamaður til landsog sjávar á þeim árum þegar síld, karfi og þorskur var einn mesti gjaldeyrisstofn þjóðarinnar.

Fyrstu kynni mín af Friðrik Guðjónssyni hófust á þann veg, að við þrír félagar báðum hann að kenna okkur nokkuð af því námsefni í einkatímum heima hjá sér, sem komið gæti að gagni við inntökupróf í framhaldsskóla. Það var auðsótt og kom að fullu gagni. Frá þessum námstímum á heimili Friðriks og frú Ástríðar konu hans þróaðist sú vinátta mín við þau hjón og börn þeirra, sem aldrei hefur skuggi á fallið.

Með tímanum æxlaðist það svo, að ég var um langt árabil starfsmaður Friðriks við fjölþætt verkefni. Frjálslyndi hans og vinátta í starfi var í fullu samræmi við skapgerð hans.

Heimili hans og frú Ástríðar var mér jafnt opið, sem mitt eigið væri. Þar var opið hús íslenskum vinum húsbóndans, sem og erlendum. Húsmóðirin lét sér hvergi bregða þótt erlenda sendiherra með föruneyti bæri að garði, jafnvel þótt húsbóndinn væri víðs fjarri, starfs síns vegna.

Ég var oft vitni að því, með hvílíkri reisn hún tók á móti slíkum gestum. Þá þótti mér gaman að vera eins og einn af fjölskyldunni.

Það fór að hausta í Siglufirði, atvinna dróst saman, síldin blessuð hætti komu sinni að Norðurlandi. Fólk hætti að sækja sumaratvinnu í síldarbæinn, sem útlendingar þekktu sumir hverjir betur en Reykjavík.

Árið 1955 fluttu Friðrik Guðjónsson og fjölskyldan hans í Garðahrepp, þar sem hann hélt umboðsstörfum sínum áfram fyrir hina erlendu viðskiptavini sína í sjávarafurðum, meðan heilsan entist.

Nú er þessi þjóðkunni athafnamaður allur. Ég kveð hann með hrærðum huga og þökk fyrir það hve mikill og sannur vinur hann var mér frá fyrstu kynnum til hinstu stundar.

Hann var góður maður í orðsins fyllstu merkingu.

Ég sendi eiginkonu hans, frú Ástríði, börnum, tengdafólki og afkomendum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Friðriks Guðjónssonar.

Björn Búason 

-------------------------

Friðrik Guðjónsson - Á fyrri helmingi þessarar aldar - og nokkuð fram á þann síðari var Siglufjörður miðstöð síldveiða og síldariðnaðar í landinu. "Silfur hafsins" var einn af gildari þáttum í þjóðarbúskapnum og Siglufjörður einn af hornsteinum verðmætasköpunar í landinu. Margir athafnamenn settu svip á síldarbæinn á þessum gömlu og góðu dögum.

Þeirra á meðal vóru bræðurnir 

Ingvar Guðjónsson og 

Friðrik Guðjónsson, sem báðir stóðu fyrir útgerð og síldarsöltun í áratugi. Ingvar er látinn fyrir mörgum árum, en Friðrik, sem lézt 28. apríl sl. á nítugasta aldursári, verður jarðsettur frá Dómkirkjunni í Reykjavík klukkan 13.30 á morgun [föstudaginn 10. maí 1991].

Friðrik Guðjónsson var fæddur 9. október 1901. Foreldrar hans vóru Kristín Árnadóttir og Guðjón Helgason. Þau eignuðust átta börn. Eftir lifa tvær systur, Hómfríður Guðjónsdóttir og Ásta. 

Friðrik ólst upp hjá fósturforeldrum, Steinunni Bjarnadóttur og Gunnari Jóhannssyni, Harastöðum í Þverárhreppi í Vestur-Húnavatnssýslu.  

Árla ævinnar stóð hugur Friðriks til náms og framtaks. Grunnmenntun hlýtur hann í heimahögum, en sautján ára gamall heldur hann til náms á Akureyri. Þaðan lá leiðin í Menntaskólann í Reykjavík. Þar lýkur hann stúdentsprófi 1927. Kennarapróf tók hann ári síðar.

Árið 1928 kvæntist Friðrik eftirlifandi konu sinni, Ástríð S. Guðmundsdóttir, ættaðri úr Reykjavík. Sama ár flytjast þau til Siglufjarðar. Friðrik varð kennari við Barnaskóla Siglufjarðar en tók jafnframt nemendur á heimili þeirra hjóna.

Ástríður og Friðrik héldu heimili í Siglufirði til ársins 1955, ef undan eru skilin árin 1935-1937, en þau ár var hann skólastjóri á Hellissandi, þar sem hann gegndi einnig oddvitastarfi um sinn. 

En Siglufjörður varð vettvangur hans lengstaf starfsævinnar. Hann hóf atvinnurekstur þar, fyrst ásamt kennslu, en starfaði síðan alfarið við útgerð og síldarsöltun. Hann var alla tíð vel látinn og virtur vinnuveitandi.

Þau hjón, Ástríður og Friðrik, voru vinsæl og vinmörg. Heimili þeirra lá um þjóðbraut þvera í þeirra orða beztu merkingu. Þar mætti gestkomendum allt í senn: reisn, menningarbragur og ljúfmennska. Ekki skemmdi það heimilisbraginn að húsbóndinn var félagslyndur, fjölfróður, og skemmtilegur maður, sem hafð gott lag á að létta lund viðmælenda sinna. Þau góðu hjón settu svip sinn á Siglufjörð um langtárabil.

Friðrik Guðjónsson lifir í minningu þeirra, sem þekktu hann bezt, sem góður drengur, dugmikill athafnamaður og ljúfur og skemmtilegur persónuleiki. 

Í þeirra hópi eru börnin hans sex: séra 

Bragi Friðriksson prestur, 

Kristín Ásta Friðriksdóttir (Stella), 

Steinunn Friðriksdóttir, (Gréta)

Gunnur Friðriksdóttir og 

Fjóla Friðriksdóttir.

Ég á bjartar og góðar minningar, tengdar heimili þeirra Ástríðar og Friðriks. Ég kveð genginn heiðursmann með söknuði og þakklæti og bið honum Guðs handleiðslu. Eftirlifandi konu hans og börnum sendi ég og fjölskylda mín innilegar samúðarkveðjur.

Stefán Friðbjarnarson  

Friðrik Guðjónsson - Ljósmynd: Kristfinnur