Snorri, Jens og Palli

Snorri, Jens og Palli


 Súkkulaði - sagan

Skrifuð af Jens Gíslasyni rafvirkja

Þannig var að við rafvirkjarnir hjá SR,  Jens , Snorri og Viddi Magg vorum lengi með stóra skál á borðinu í kaffistofunni okkar, og í henni ópal ofl. salgæti.

Páll Jónson verkstjóri á trésmíðaverkstæðinu átti stundum erindi á verkstæðið hjá okkur og var fljótur að renna á skálina og tók alltaf handfylli af namminu.

Við vorum ekki sáttir við þetta og vorum að hugsa hvernig við gætum stoppað Pál í græðginni.

Svo var það einn daginn að ég þurfti í Apótekið, og þá mundi ég að hafa heyrt um súkkulaði lengjur sem virkuðu laxerandi og fengjust í apótekum.

Apótekarinn afgreiddi mig með mixtúruna sem mig vantaði og svo spurði ég hann hvort þessar laxerandi súkkulaðilengjur væru til. Apótekarinn sagði já en það þarf resept frá lækni til að fá þær, ég spurði apótekarann hvort hann gæti ekki bjargað mér því ég væri með hægðatregðu og hefði ekki tíma í að fara til læknis.

Apótekarinn sagði að hann mætti alls ekki afgreiða þær nema með resepti. Apótekarann grunaði að eitthvað væri bogið við þetta því hann vissi að ég var tengdasonur Eggerts Theodórssonar eins mesta hrekkjalóms Siglufjarðar, hann horfði stíft í augun á mér og sagði,  ég veit að þú segir ekki satt en segðu mér hvað þú ætlar að gera með þetta.

Ég sá að best væri að leggja spilin á borðið og sagði honum að ég ætlaði að gefa þetta Eggerti tengdapabba og Páli Jóns smið til að borga þeim fyrir þeirra hrekki.  

Þá sagði Apótekarinn, ég verð að láta þig hafa þetta því þeir eiga það skilið en þú mátt bara gefa hverjum eina lengju og alls ekki meira, en það voru fimm stykki í pakkanum, og svo máttu alls ekki segja hvar þú fékkst þetta.

 Hér kemur svo atburðarás sem ég mun seint gleyma.

Klukkan var um 10 á föstudagsmorgni á rafmagnsverkstæðinu og ég segist þurfa að skreppa út á trésmíðaverkstæði, en áður en ég kem á trésmíðaverkstæðið set ég upp í mig ópal  og þegar ég kem inn eru menn að fara í gang með vinnuna. 

Páll segir við mig höstugur gefðu mér,  ég tek pakkann úr vasanum og er að opna hann þegar Páll hrifsar af mér tvær plötur og setur þær upp í sig og fer, ég man strax að apótekarinn sagði alls ekki meira en eina plötu, ég hugsaði með mér kannski deyr Páll, en það er skárra því ef hann lifir drepur hann mig.

Ég fer aftur upp á rafmagnsverkstæði og þar er Snorri Jóns,  en hinir eru farnir út að vinna svo ég hugsa að óhætt sé að gefa Snorra eina plötu sem honum finnst mjög góð, þá segir Snorri að Baldur hafi beðið okkur að fara suður í ríkishús og lagfæra biluð ljós.

Við förum þangað gangandi því ekki voru bílar til taks, við kláruðum verkefnið og erum komnir niður á Aðalgötu þegar Snorri fer að nudda magann og segist vera með magaverki svo að við greikkum sporið, en þegar við nálgumst ríkislóðina er Snorri farinn að hlaupa við fót og svo komum við að langa stiganum upp á SRN þar sem rafmagnsverkstæðið var, Snorri hleypur upp stigann og er hann kemur inn á verkstæði er hann byrjaður að girða niður um sig og bakkar inn á klósettið þegar fyrsta gusan kemur, svo var ansi stutt á milli klósettferða hjá Snorra næstu klukkutímana.  

Klukkan korter í tólf stöndum við rafvirkjarnir við gluggann og horfum út á lóðina þegar menn fara að tínast í mat,  Þá birtist Páll sem er með stefnuna á skrifstofuhúsið og þegar hann er kominn hálfa leið kippist hann við og stoppar, en heldur svo áfram með mjög óvanalegu göngulagi, Páll mætti ekki til vinnu eftir hádegið.

Næstu daga forðaðist ég Pál sem nefndi þetta aldrei við mig en hann kom ekki oftar í nammiskálina okkar.  Seinna kallaði kona Páls mig alltaf súkkulaðidrenginn.

Um klukkan 2 eftir hádegið fer ég út á trésmíðaverkstæðið aftur  og segi Steingrími Kristins vini mínum hvað ég hafði gert Páli,  þá leit Steingrímur á mig og sagði, í þínum sporum mundi ég fara úr bænum því Páll drepur þig.
Svo liggur leiðin upp á lager og ég spjalla við Eggert tengdapabba og gef honum eina plötu sem rann glatt ofaní hann, en Eggert komst heim áður en ósköpin byrjuðu og Eggert fór ekki í bridge spilamennsku sem var fyrirhuguð seinnipartinn.

Þá var bara ein plata eftir  þegar ég kem aftur upp á rafmagnsverkstæðið og hitti þar   Vidda Magg sem sporðrenndi henni sæll og glaður og við fórum allir heim í helgarfríið.

Viddi þurfti að skreppa út í Túngötu til foreldra sinna áður en hann færi heim, en hann komst ekki heim fyrr en næsta dag.

Þeir fyrirgáfu mér allir hrekkinn nema kannski Páll  og þeir hafa sennilega hugsað að ég væri góður lærlingur hjá Eggerti tengdapabba.    

Jens Gíslason

Önnur "götubylgju útgáfa" af ofannefnri sögu

Nefndir einstaklingar voru allir starfsmenn Síldarverksmiðjanna á Siglufirði á árunum 1958 til 1970 (u.þ.b.)

Allir voru þeir þekktir fyrir ærslaskap og saklausa hrekki, þó svo að Snorri Jónsson og Jens Gíslason væru athafnasamari hvað framkvæmdir hrekkja varðaði. Páll G Jónsson gerði meira af því að koma með hugmyndir um hrekki sem svo aðrir framkvæmdu með óbeinni þátttöku Palla, allt til gamans gert.

Páll var sælkeri og var oft fljótur til að falast eftir brjóstsykursmola, Ópal og þessháttar þegar einhver var sýnilega á vettvangi með slíkt í fórum sinum. 

Þetta vissu þeir vel félagarnir Snorri og Jens og ákváðu  að hrekkja Pál. Þeir gerðu sér erindi inn á tréverkstæði þar sem Palli réði ríkjum. Þeir gáfu sig á tal við Steingrím og Óskar Garðars þar sem þeirvorum að velta fyrir sér teikningu vegna verkefnis sem þeir  vorum að vinna við, þar skammt var Páll yfir örum teikningum. 

Jens tók upp dós sem innhélt danskt „Ópal“ hældi gæðunum bak og fyrir og gaf Steingrím og Óskari að smakka, og stakk svo dósinni í vasann.  Palli sá til og kom og spurði hvort hann fengi ekki að smakka.  

Nei svaraði Jens og Snorri bætti við; þú þolir þær ekki þær eru svo sterkar. 

Láttu ekki svona drengur hvað heldurðu að ég sé?

Jens lét undan og rétti Palla dós sem Palli skoðaði vandlega. Þetta á að vera gott við hósta og bæta meltinguna sagði Palli eftir að hafa lesið það sem skráð var á hina dönsku dós, hann opnaði dósina og fékk sér að minnsta kosti þrjár ef ekki fjórar töflur og smjattaði. 

Þær eru bragðgóðar en alls ekki sterkar eins og ég hélt sagði Palli og glotti og sagði takk fyrir. Hann hélt síðan áfram að glugga í teikningar sínar. 

Snorri og Jens snéru sér undan og glottu. 

Eftir smá stund fór Jens inn á klósett og lokaði að sér. Þar dvaldi hann óvenju lengi að  Óskari fannst. En Snorri fór á meðan að spyrja þáfélaga um hvaða teikningar þeir værum að skoða og eitthvað fleira. Allt í einu tók Palli viðbragð og rauk að klósettdyrunum og kallaði á Jens  og spurði hvort hann væri ekki að verða búinn. Palli beið ekki svars heldur rauk á útidyrnar og hljóp við fót þvert yfir lóðina í átt til húss skrifstofu sinnar, þar sem var salerni. 

Snorri kallaði hátt: Jens hann er farinn, þú getur komið út. 

Þá fór Steingrím og Óskar að gruna hvað hefði skeð sem og þeir félagar staðfestu síðan. Jens var með tvær eins dósir í vasanum, önnur var með  upphaflegu dönsku pillurnar, en í hina dósina höfðu þeir sett í súkkulaði húðaðar pillur sem ætlaðar voru börnum með hægðartregðu. Ein átti að duga fljótt á barn, en 3-4 virkuðu greinilega mjög fljótt á Palla. 

Ekki fóru sögur af hvort Palli komst nógu snemma á salernið, en hann fór stuttu seinna upp í jeppann sinn og heim.  

Rúmri klukkustund síðar kom Palli aftur og greinlega nýkominn úr sturtu með blautan kollinn, inn á verkstæðið þar sem  Óskar og Steingrímur vorum enn og Palli spurði, og ekki laust við glott á andliti hans: Vissuð þið af þessu hjá djöflunum ? Þeir félagar þóttust ekkert vita og spurðum hvað hann ætti við. Svarið kom ekki en hann muldraði,  þeir skulu sko fá þetta borgað.

Hvernig eða hvort Palla tókst að hrekkja félagana á móti  hefi ég ekki frést af.  Ekki spillti þó þetta atvik neitt fyrir þeim góða anda sem oftast ríkti á SR lóðinni, en mikið var þó skrafað og hlegið af þessu uppátæki þeirra félaga "Snorra" og Jens.