Aage Schiörh
mbl.is - 20. desember 1969 -
Aage Ridderman Schiöth — Minningarorð
ÞANN 10. þ.m. 1969 andaðist á Sjúkrahúsi Siglufjarðar Aage Schiöth, fyrrverandi lyfsali á Siglufirði. Verður útför hans gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag.
Með honum er genginn stórbrotinn maður, sem eftir var tek ið, hvar sem hann fór, sakir höfðinglegs yfirbragðs og einarðrar framkomu, minnisstæður öllum, sem honum kynntust og harmdauði þeim, sem unnu vináttu hans og traust. Hann var maður mikilla örlaga og ævi hans var viðburðarík og misvindasöm á stundum. —
Honum féllu í skaut framan af ævi flest þau gæði og hnoss, sem eftirsóknarverðust þykja í heimi hér, en átti síðar, er aldur færðist yfir hann við mikla erfiðleika að etja, erfiðleika, sem bugað hefðu marga, en beygðu hann lítt.
Aage Ridderman Schiöth, en svo hét hann fullu nafni var fæddur á Akureyri þann 27. júní 1902 og voru foreldrar hans þau Axel, bakarameistari Schiöth, sem um áratuga skeið setti svip á Akureyrarbæ og var til dauðadags talinn meðal góðborgara þess bæjarfélags og kona hans, Margrethe f. Friis, en hún var fædd og uppalin í Danmörku.
Hún gerðist, eftir að hún flutti til Íslands, mikil blóma og garðræktarkona og er hinn fagri og mikli lystigarður á Akureyri að miklu leyti talinn vera hennar handaverk, svo sem kunnugt er.
Axel Schiöth faðir Aage Schiöth var hins vegar fæddur og uppalinn hér á landi, sonur Hinriks Schiöth bankagjaldkera á Akureyri. Flutti Hinrik á yngri árum sínum hingað til lands frá Danmörku og er hér á landi frá honum kominn allstór ættbogi.
Aage Ridderman Schiöth
Ljósmynd: Steingrímur
Aage Schiöth var ungur settur til mennta. Stundaði hann fyrst nám í gagnfræðaskólanum (nú Menntaskólanum) á Akureyri, en hugur hans mun fljótlega hafa hneigst til lyfja- og efnafræðináms. Hvarf hann því úr skóla, hér á landi, eftir 4 ára nám og sigldi utan til lyfjafræði náms, sem hann stundaði fyrst í Danmörk, en síðan í Þýskalandi og lauk þaðan prófi í þeim fræðum árið 1927.
Árið 1928 var Aage Schiöth veitt Leyfi til lyfjasölu á Siglufirði. Flutti hann þá þegar þangað og hóf þar rekstur lyfjabúðar, sem hann starfrækti til ársins 1958. — Mun rekstur hans í fyrstu hafa verið í smáum stíl, en fyrirtæki hans óx fljótlega fiskur um hrygg, enda fór á þeim árum í hönd mikið uppgangs- og blómatímabil fyrir Siglufjörð, sem stafaði af árvissum síldargöngum fyrir Norðurlandi.
Gerðist Aage Schiöth brátt hinn mesti athafnamaður á staðnum og lagði á margt gjörva hönd auk reksturs lyfjabúðar sinnar. Átti hann t.d. um skeið hlut að útgerð fiskibáta á Siglufirði og stofnaði síðan og rak þar í félagi við Einar Kristjánsson, gosdrykkja- og efnaverksmiðju. Síðar á ævinni fékkst Aage Schiöth nokkuð við tilraunir með niðusuðu hrogna og perlugerð úr síldarhreistri, þá í félagi við fyrirtæki Haraldar Böðvarssonar á Akranesi. — Hann var í eðli sínu stórhuga framkvæmda- og umsvifamaður, hugmyndaríkur og naumast í essinu sínu nema hann hefði mörg járn í eldinum í senn. Þótti vinum hans og velunnurunum á stundum sem hann færðist full mikið í fang og kann það að mega til sanns vegar færast. —
Á fyrstu áratugum búsetu sinnar á Siglufirði hagnaðist Aage Schiöth vel á rekstri sínum og gerðist hann þá efnaður maður. — Var heimili hans þá rómað fyrir höfðingsskap, rausn og myndarbrag og nutu margir góðs af. — Hann var í eðli sínu mannblendinn og mikill félagsmálamaður. Átti hann á Siglufirði þátt í stofnun og stjórn margra félaga og samtaka og þótti þar jafnan hinn besti liðsmaður, er mikið lá við.
Í bæjarstjórn Siglufjarðar átti hann sæti sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins um 8 ára skeið. Þótti hann þar sem annars staðar, þar sem hann lagði hönd að verki, ötull og djarfur baráttumaður fyrir ýmsum framfaramálum, sem vörðuðu kaupstaðinn. Mörgum öðrum trúnaðarstörfum gegndi hann; var hann t.d. um skeið danskur konsúll á Siglufirði. — Hann var um langt skeið og raunar fram á síðustu ár einn helsti liðsmaður Sjálfstæðisflokksins á Siglufirði, vel máli farinn, minnugur vel og sögufróður og hinn harðskeyttasti til sóknar og varnar. — Þótti hann á málþingum nokkuð stórhöggur, er honum rann á skap og galt þess stundum síðar. — Þó var hann jafnan vinsæll meðal samborgara sinna og nauðleitarmenn og þá þeir helst, sem minnst máttu sín og um sárt áttu að binda áttu að honum vísan og greiðan aðgang, meðan efnahagur hans leyfði og jafnvel lengur. Reyndist hann í þeim efnum höfðingi mikill og skar ekki fyrirgreiðslu sína við nögl.
Því er ekki að leyna, að á síðari árum varð Aage Schiöth fyrir mörgum skakkaföllum og óhöppum. Gengu þá efni hans til þurrðar og mjög þrengdist um hag hams allan. Mátti hann hin síðustu ár muna tímana tvenna. — Mótlætinu tók hann með þeirri karlmennsku, sem honum var í blóð borinn og lét ekki bugast, þótt á móti blæsi. Svo sem áður er drepið á var Aage Schiöth maður stálminnugur, margfróður og víðlesinn. Keypti hann og jafnan mikið af erlendum blöðum, tímaritum og fræðiritum, aðallega dönskum og þýskum. — Hafði hann unun af að miðla öðrum af fróðleik sínum og sagði vel og skilmerkilega frá. — Hann var fyndinn í tilsvörum, orðheppinn og skemmtilegur í viðræðum. — Hann þótti skapstór, en var manna drengilegastur, sáttfús og hreinskilinn í tali við hvern sem hann ræddi. — Aage Schiöth var maður fríður sýnum, þéttur á velli og þéttur í lund og hraustur vel, enda var hann á yngri árum sínum hinn ágætasti íþróttamaður. —
Söngmaður var hann og ágætur, og var um langt skeið einn helsti söngmaður og einsöngvari í karlakórnum Vísi. Aage Schiöth var fjórkvæntur.
Fyrsta kona hans var
Gudrun F. Julsö, dönsk að ætt. Hún lést sumarið 1938 í blóma lífsins. Börn þeirra voru 3, Inger, menntuð og glæsileg kona, gift Þóri Kr. Þórðarsyni, prófessor. — Hún andaðist árið 1961, öllum, sem til hennar þekktu mjög harm dauði Synir Aage Schiöth af fyrsta hjónabandi eru
Axel, skip stjóri, nú búsettur í Þýskalandi, kvæntur þýskri konu, Brigitte að nafni og Birgir, kennari á Siglufirði, kvæntur Magdalenu Jóhannesdóttur. Önnur kona Aage Schiöth var Jóhanna Sigfúsdóttir, Sveinssonar, útgerðarmanns á Norðfirði, gáfuð og glæsileg kona. Hún lést árið 1945. Þau voru barnlaus. f þriðja sinn kvæntist Aage Schiöth frændkonu sinni danskri, Anna Margrethe Schiöth. Þau slitu samvistum og voru barnlaus. — Síðasta kona Aage Schiöth er Helga, fædd Westphal, þýsk að ætt. — Hún reyndist manni sínum stoð og stytta í erfiðleikum hans hin síðari ár og nú síðast í veikindum hanns, en sjúkdóms þess, sem nú hefur dregið hann til bana, tók hann að kenna fyrir 1—2 árum. Sjúkleika sínum tók Aage Schiöth af karlmennsku, eins og hans var von og vísa og beið þess, sem verða vildi æðrulaus og óskelfdur — Þau Helga og Aage eignuðust 3 efnilega syni, sem enn eru allir á bernskuskeiði.
Við Aage Schiöth vorum nánir vinir, samstarfsmenn og samherjar um margra ára skeið. — Nú, er leiðir skiljast, get ég með sanni sagt, að fáum mönnum hefi ég kynnst, sem sýnt hafa mér meiri hollustu, trúnað og traust en hann gerði. — Fyrir það tel ég mig standa í ævarandi þakkarskuld við hann, og það engu síður nú er hann er liðinn, en er hann var lífs.
Aage Schiöth taldi sig sjálfur vera aldanskan að ætt og uppruna og hafði stundum um það mörg orð, bæði í gamni og alvöru. — Í eðli sínu var hann þó rammur Íslendingur, sem sýndi það í orði og verki að hann vildi veg Íslands sem mestan og honum rann í skap, er hann taldi, að á það væri (hallað á nokkurn hátt meðal erlendra manna. En fyrst og fremst var hann þó Siglfirðingur. — Á Siglufirði lifði hann og starfaði í blíðu og stríðu og þar vildi hann vera uns yfir lyki, þótt annars staðar hefðu honum e.tv. boðist betri lífskjör, eftir að á móti tók að blása á lífsferli hans. Vegna þessa og vegna þess, sem Aage Schiöth vann Siglufirði meðan hann hafði getu og aðstöðu til veit ég. að Siglfirðingar og aðrir þeir, sem bera hlýjan hug til Siglufjarðar, vildu nú bera hann á skjöldum, er hann verður lagður í mold meðal vina sinna, sem á undan eru gengnir.
Einar Ingimundarson.
----------------------------------------------
Á ÞEIM tíma er Siglufjörður var að þróast úr litlu þorpi í veigamikla framleiðslu- og útflutningshöfn, var Aage Schiöth einn þeirra nýju landnámsmanna, er haslaði sér völl í starfi og lífi. Hann var um langt árabil mikilvirkur þátttakandi í merkilegri þróun lítils sveitarfélags, sem grundvallaðist á síld og síldariðnaði og lagði sem slíkt mikil verðmæti í þjóðarbúið, en bar og gæfu til að þroskast menningarlega og félagslega og treysta þannig samfélags grundvöll sinn.
Í þeirri þróun var Aage Schiöth hinn sanni Siglfirðingur. Hann var einungis lyfsalinn og atvinnurekandinn, ekki einungis bæjarfulltrúinn og stjórnmálamaðurinn heldur jafnframt íþróttaleiðtoginn og söngvarinn — alhliða þátttakandi í daglegum viðfangsefnum samborgara sinna. Greiðasemi hans og hjálpfýsi var sérstök og jafnan á boðstólum hverjum þeim, sem einhvers var vant meðan hann mátti aðstoð veita. Og þannig mun minning hans lifa í hugum Siglfirðinga, sem muna mega þá gömlu daga. En þeir mættu báðir sínu andstreymi Aage Schiöth og Siglufjörður, þó með ólíkum hætti væri.
Í andstreymi sínu var Aage máske stærstur, hið sanna karlmenni. Og í þungu veikindastríði sýndi hann hetjulund, sem á fáa sína líka. Í langri og strangri baráttu heyrðist aldrei frá honum orð, sem ekki bar þeirri hetjulund vitni. Aage Schiöth hefur yljað mörg um um hjarta með fögrum söng sínum, ekki síst í hinum hugljúfa lagi Systkinin: „Hann einnig sér leikur um himininn — drengurinn litli sem dó."
Og sá góði drengur, sem hann sjálfur var, mun nú á nýjum leikvangi uppskera þá ávexti, sem hann hefur til sáð. Farðu vel góði vinur. Þér fylgja þakkir og góðar óskir allra Siglfirðinga. Megi sá, sem öllum snýr á batans veg, vernda og styrkja eftirlifandi ástvini þína.
Siglufirði 16. des. 1969 Stefán Friðbjarnarson.
------------------------------------------------
Norðurland 15 maí 1916 – Frétt frá Akureyri:
Verðlaunaglíma var háð í leikhúsinu fyrra sunnudag að tilhlutun, Ungmennafélags Akureyrar. Verðlaun hlutu: Aage Schiöth í þyngri flokknum og Helgi Jónatansson í léttari flokknum. Aage Schiöth er langyngstur sinna félaga, þeirra er glímdu í þyngri flokknum.
Ath. Sk 2020 er þetta er skráð á síðu mína: Aage Schiöth er fæddur árið 1902 og því aðeins 14 ára í nefndri keppni.
------------------------------------------------------
Samantekt árið 1918, úr blaðinu Þróttur sem gefið var út af Íþróttafélagi Reykjavíkur.
Í fyrravetur var síðast glímt um »Grettisskjöldinn« á Akureyri og bar sigur úr bítum Björn Grímsson verslunarmaður; þá var og glímt um 2 verðlaunapeninga á Gagnfræðaskólanum og hlaut Guðjón Benediktsson verðlaun fyrir kappglímuna, en Aage Schiöth fyrir fegurðarglímu.
---------------------------------------------------
Dagur Akureyri 2018
Hluti greinar vegna jarðarfarar síra Jónasar Jónasson Akureyri
…………………………….. Kvæði Guðmundar söng Aage Schiöth gagnfræðingur…………………
--------------------------------------------
Blaðið Íslendingur í desember 2018 – Frétt
Kvartettinn Bragi. Þessi nýi kvartett lét til sín heyra síðastliðinn sunnudag. Söng hann 12 lög. Verður ekki annað sagt, en að fólk skemmti sér ágætlega eftir lófa klappinu að dæma og flest lögin varð að endursyngja.
1. rödd söng Aage Schiöth. Hefir hann mjög mikla og hljómfagra rödd, bassa söng Jón Steingrímsson, er hans rödd þekkt og aðeins að góðu getinn. Milliraddirnar sungu þeir Þröstur Thorlacius og Þorsteinn Þorsteinsson frá Lóni. Fór söngurinn vel, nema 2 lögunum, sem ekki voru hreint sungin.
Furða hvað þessi flokkur gat eftir jafn stuttan æfingatíma.