Hanna Þorláksdóttir fæddist á Siglufirði 11. júní 1937.
Hún lést á Borgarspítalanum 25. apríl 1995.
Foreldrar hennar voru
Ásta Júlíusdóttir og
Þorlákur Þorkelsson.
Systkini hennar eru
Sigurður Þorláksson,
Stella Þorláksdóttir,
Valbjörn Þorláksson, 1934 árg.
Anna Þorláksdóttir (tvíburi við Hönnu) og
Róbert Þorláksson.
Hálfsystkini hennar sammæðra eru
Unnur, Brynhildur Sigurðsdóttir
Reinhart Harry Sigurðsson.
Útför Hönnu fór fram frá Langholtskirkju.
-------------
Hanna Þorláksdóttir frá Siglufirði er látin aðeins 57 ára gömul. Hanna var á margan hátt lánsöm kona. Hún átti góða að sem studdu hana með ráðum og dáð. Var mjög ánægjulegt að fylgjast með hvernig hún rækti tengslin við sitt fólk. Hún var ekki einungis þiggjandi í slíkum samskiptum heldur var hún einnig mjög gefandi. Þeirri hlið sneri hún ætíð að okkur hér í Sjálfsbjargarhúsinu. Þannig var hún í mínum huga og veit ég margra annarra góð kona með stórt hjarta, sem húsmóðir á stóru heimili. Eftirfarandi lýsing á Hönnu og aðstæðum hennar er tekin úr viðtali er tekið var við hana fyrir tímarit Sjálfsbjargar árið 1973 þegar hún flutti í Sjálfsbjargarhúsið. "Þegar við litum inn til Hönnu Þorláksdóttur frá Siglufirði var allt á ferð og flugi. Fólk var að koma og fara. Allir virtust eiga erindi við Hönnu og hún tók gestum sínum með geislandi gleði."
Hún tók mér opnum örmum er ég hóf störf hjá Sjálfsbjörgu síðla árs 1989. Hún hafði starfað við símvörslu hjá Sjálfsbjörgu frá 1. mars 1985. Sinnti hún starfinu af kostgæfni og eljusemi þannig að eftir því var tekið allt fram á síðasta ár þar til hún veiktist.
Horfinn er okkur samferðamaður er við, samstarfs- og samferðamenn hennar í Sjálfsbjargarhúsinu, munum ætíð minnast fyrir þrautseigju, lífsgleði og umhyggjusemi. Systkinum hennar og öðrum ástvinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Hönnu Þorláksdóttur.
Tryggvi Friðjónsson.
Hanna Þorláksdóttir - Fermingardagur, þá fötluð á Sjúkrahúsi Siglufjarðar, eftir bílslys.
Ljósmynd: Kristfinnur