Barði Ágústsson fæddist í Siglufirði hinn 18. október 1924. Hann lést á Heilbrigðisstofnuninni í Fjallabyggð 8. mars 2012
Foreldrar hans voru hjónin
Steinþóra Barðadóttir, f. 14.5. 1883, d. 6.2. 1961, og
Ágúst Einar Sæby, f. 9.2. 1891, d. 25.10. 1964, og var Barði yngstur fimm systkina.
Þau voru:
Aldís Björg Ágústsdóttir, f. 1912, d. 1995,
Guðrún Hafdís Ágústsdóttir, f. 1915, d. 2000,
Andreas Ágústsson, f. 1917, d. 1941, og
Vilhelm Ágústsson, f. 1921, d. 2003.
Barði Ágústsson sem var barnlaus, bjó alla ævi á Siglufirði. Hann vann almenn verkamannastörf bæði til sjós og lands.
Barði Ágústsson
Margar sögur fara af Barða,, og margar þeirra skráðar.
En Barði var ekki langorður í tilsvörum, heldur stuttar og hnitmiðaðar.
Eina söguna af Barða var ég sjálfur vitni af, saga "beint úr æð"
Barði Ágústsson, stúari. Frásögn SK, eftir minni
Ekki man ég árið, sennilega nálægt 1954 +/-
Á þessum tíma var lítið um vinnu á veturna, en ég naut þó þeirrar gæfu að fá annað slagið vinnu hjá Stúurunum, Jónasi Jónssyni frá Nefstöðum sem þar réði öllu.
Stúarararnir höfðu aðstöðu á jarðhæðinni norðan til í Hafnarhúsinu á Hafnarbryggjunni.
Þar var meðal annars drukkið kaffi í kaffitímum og þegar beðið var eftir að skip kæmi í höfn.
Ég sat á bekk og við lítið borð, þar var Barði við hlið mér, greinileg svolítið pirraður yfir hávaða frá félögum sínum sem voru að rífast. Ég man ekki hvaða umræða var í gangi hjá hópnum, en það var hnakkrifist um einhverjar aðgerðir sem fyrirhugaðar voru, eða hafnar hjá bæjarstjórninni, og rifist var með mikilli heift um aðgerðirnar á báða bóga.
Barði sem ekki hafði tekið þátt í þessum látum frekar en ég, missti loks þolinmæðina.
Hann barði harkalega í borðið, dauðaþögn varð í herberginu á eftir og allir litu til Barða sem svo sagði yfirvegaðri og hvassri röddu.
„Hættið þessu helvítis rausi, þeir ráða þessu mennirnir“
Það mátti heyra saumnál detta, svo mikil varð þögnin eftir að Barði tjáði sig. Svo var smátt og smátt farið að tala saman á rólegri nótum.
Steingrímur
------------------------------------------------------------
Neðan ritaðan heyrði ég haft eftir Barða, setning frá Barða sem situr fast í mér.
Veðurstofan hafði spáð sunnan golu fyrir Norðurlandi í fréttum RÚV, en er menn mættu til vinnu daginn eftir var kominn norðan garri ásamt mikilli rigningu.
Flestir bölvuðu yfir þessum „falspám“ Veðurstofunnar. En þegar augnabliks hlé varð á umræðunni sagði Barði sem þarna var á vettvangi: „Greyin mín hættið þessu væli, sunnan vindurinn kemur aftur“
Þessar tvær myndir eru teknar af Barða. --- Með 800 mm aðdráttarlinsu eins og flestar myndir sem ég tók af Barða, því öllu jöfnu snéri Barði sér undan þegar hann sé mig nálgast, þara kemur mannræninginn” sagði hann einu sinni er ég lyfti upp myndavélinni til að taka af honum ljósmynd, nokkuð sem honum líkaði ekki, Þetta var þó allt i góðu og bað mig að lofa sér að vera í friði.
Sem betur fer sögunnar vegna, þá stalst ég til að taka af honum nokkra myndir með áður nefndri aðferð og vera langt frá honum við þær athafnir.
En Barði var glöggur maður og og ávítaði mig fyrir að stela af sér myndum.
Ekki var hann þó reiður við mig, heldur svona til að láta mig vita að hann hefði séð til mín.
Í staðin fyrir lét ég hann fá við tækifæri, tvær ljósmyndir af honum sem ég hafði tekið, sem einmitt var önnur þeirra af honum og vini hans Magnúsi Guðjónssyni, myndin hér fyrir ofan.
Hann þakkaði mér fyrir með glotti og hressilegu handabandi.
Steingrimur
Ein af götubylgjunni, saga af Barða.
Barði var einn af viðskiptavinum Gests Fanndal. Eitt sem oftar kom Barði við hjá honum á leið heim til sín eftir vinnu til að versla smávegis sem hans var venja.
Gestur þá nýbúinn að fá sendingu af þvottavélum og hvatti Barða til að kaupa eina og færa móður sinni til að létta henni störfin. Barði var á báðum áttum, auðvitað elskaði hann móður sína og vildi allt fyrir hana gera. En var ekki viss um að henni mundi líka við þessa nýju tækni. Gestur var ýtinn, og sannfærði Barða um að mamma hans yrði ánægð.
Barði keypti vélina, og sagðist koma með peningana síðar.
Gestur samþykkti það þar sem hann þekkti Barða vel og hans heiðarleika.
Hann bauðst til að keyra vélinni heim til hans, en Barði sagði það óþarfa og tók vélina bara á öxlina og bar hana heim.
Ekki er til svo að ég viti, frásögn af móttöku gömlu konunnar, en frést hafði að það hefðu liðið margar vikur þar til gamla konan fékkst til að prófa vélina, eftir að Gestur hefði kennt henni á vélina.