Leó R Ólason skrifar
VISNES BAKARARNIR og
Þegar hið mikla ævintýri hófst sem bjargaði þjóðinni fyrir horn og gerði hana sjálfstæða, fluttist fólk alls staðar að af landinu til Siglufjarðar svo og erlendis frá því Þar var nóg að gera fyrir vinnufúsar hendur. Dugnaður og atorkusemi voru lykilorðin sem lögðu grunninn að því samfélagi sem varð til í þessum bæ á Tröllaskaganum við Grímseyjarsundið.
Hvaðan er þetta Visnesnafn komið?
Jón Kr. Olsen vélvirkjameistari og vélstjóri (10. sept. 1921-24. apríl 2011). var fæddur í Visnes í Noregi. Hann fluttist með foreldrum sínum til Íslands árið 1924.
Bjuggu þau um stuttan tíma á Akureyri, en sama ár settust þau að í Hrísey þar sem faðir hans rak vélaverkstæði og útgerð.
Árið 1929 fluttu þau til Siglufjarðar þar sem faðir hans stofnaði Vélsmiðju Siglufjarðar.
Jón byrjaði að vinna í smiðju föður síns 14 ára gamall, en var síðar á námssamningi í vélvirkjun og lauk prófi frá Iðnskóla Siglufjarðar 1942 og fékk meistarabréf í iðn sinni árið 1947.
Hann byggir neðri hæð hússins að Grundargötu 19 og nefndi það Visnes eftir heimabæ sínum.
Jóhanna Sveinsdóttir og Sigurpála Jóhannsdóttir
ókunnur ljósmyndari
Jón Kr. Olsen vélsmíðameistari
Mynd frá. https://issuu.com/vikurfrettir/docs/18.tbl.2011
Árið 1945 eru bræðurnir Bjarni, Tómas og Jón Sigurðssynir fluttir til Siglufjarðar frá Hnífsdal og kaupa húsið af þeim Norska, en hann flytur til Njarðvíkur og stofnar þar vélsmiðjuna Ol. Olsen hf. Jón byggir hæð ofan á húsið en Bjarni og Tómas bjuggu báðir á neðri hæðinni. Þetta byrjaði sem sagt á því að Vestfirðingurinn Bjarni Sigurðsson frændi minn tók sig upp og lagði í ævintýraferð til síldarbæjarins Siglufjarðar eins og svo margir gerðu á liðinni öld. Þetta var eins og fram kemur hér að ofan árið 1945, og þremur árum síðar kvæntist hann Þuríði Haraldsdóttur. Þau hófu sinn búskap í Visnesi og var hann síðan við það hús kenndur.
Bjarni Sigurðsson og þuríður Haraldsdóttir
Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson
Óttar bakari.
Næsti kafli hefst síðan þegar Bjarni og Úbba, eins og Þuríður var alltaf kölluð, voru flutt á Hvanneyrarbraut 78 og búin að eignast sína fimm drengi.
Þá frétti ég að Óttar Bjarnason skólabróðir minn hafi keypt sér trommusett, en við höfðum svo sem ekki átt mikið samneyti fram að þeim tíma.
Árið var 1969 sem var reyndar fermingarárið okkar Óttars, og þá urðu heilmikil vatnaskil í tilverunni, í það minnsta í mínu lífi, því hann réði mig í nýstofnaða unglingahljómsveit og þar með var tónlistaráhugi minn tendraður sem hefur ekki slokknað síðan.
Það átti þó ekki fyrir Óttari að liggja að þeyta húðir til langframa því lífið á það stundum til að taka skarpar beygjur og koma flatt upp á okkur mannfólkið. Í fjórða bekk í Gaggó var fyrsta barn hans á leiðinni og alvaran tók þá heldur betur við af hinum áhyggjulausu unglingsárunum.
Seinna sagði Óttar mér að sér hefði þótt það súrt að horfa á eftir rútunni bruna úr bænum um vorið með bekkjarbræður og systur hans í skólaferðalag, en hann var þá á röltinu niður í bæ til að beita. Bjarni faðir hans hafði gert honum ljóst að það væri alls ekki nóg að búa börnin til, það þyrfti nefnilega líka að sjá fyrir þeim.
Óttar Bjarkan Bjarnason. Ljósmyndari ókunnur.
Óttar gekk Iðnskólann á Siglufirði og hóf síðan nám í bakaraiðn í Leifsbakaríi. Árið 1978 fluttu Óttar og Guðrún á Sauðárkrók þar sem hann lauk meistaranámi, en keyptu Sauðárkróksbakarí um áramótin 1983-84 og ráku það til haustsins 2006.
Þá fluttust þau í Kópavoginn, þar sem Óttar starfaði fyrst sem öryggisvörður hjá Securitas, en þó lengst af sem húsvörður við Salaskóla.
Óttar lést 31. janúar 2009 aðeins 53 ára gamall.
Kristbjörn Bjarnason var hörku góður söngvari rétt eins og Óttar bróðir hans og Róbert frændi hans.
Hér er hann að syngja á Siglfirðingasamkomu á Catalinu
ókunnur Ljósmyndari
Kristbjörn bakari.
Ég leyfi mér að kalla Kristbjörn bakara þrátt fyrir að hann hafi ekki lokið námi, en hann var einfaldlega afbragðsgóður bakari þrátt fyrir það.
Kristbjörn var yngsti Visnesbróðirinn og heilum 10 árum yngri en Óttar.
Eftir að Óttar hafði tekið við rekstri Sauðárkróksbakarí, fluttist hann einnig á Krókinn og fór á samning hjá bróður sínum. Hann starfaði þar í nokkur ár, en gerðist síðan afgreiðslumaður í raftækjaversluninni Rafsjá. Næst lá leiðin til Danmerkur í skóla þar sem hann nam framleiðsluverkfræði (held ég fari nokkuð rétt með þýðinguna á danska heitinu). Þar dvaldi hann einnig í nokkur ár ásamt eiginkonu sinni Þuríði, en flyst aftur til landsins og þá til Siglufjarðar þar sem hann átti verulegan þátt í að setja upp Kítinverksmiðjuna í Síberíu.
Eftir það er hann kominn aftur á Sauðárkrók og starfar nú fyrir Atvinnuþróunarfélagið Hring hf. Því næst liggur leið hans suður og hann opnar Ískerðina Bíóís í apríl 2010. Ég heimsótti „bakarann“ í ísbúðina á sínum tíma og verð að segja að þetta er ein flottasta ísbúð sem ég hef komið í og þá á ég fyrst og fremst við fjölbreytileikann og vöruúrvalið.
Bíóísinn (sleppum Því að nefna hvaðan hugmyndin um nafnið er komin) var hreint ótrúlega bragðgóður og minnti óneitanlega á annan slíkan með sama nafni. Þá stóð hann að framleiðslu á veisluístertum sem voru öllu glæsilegri en þær sem var að hafa í verslunum og ljóst að á þessu sviði naut hann þess að hafa starfað og numið í bakaríinu nyrðra. Því miður var ísbúðin glæsilega ekki lengi í rekstri þar sem hráefnið frá Emmess ís hækkaði í verði með hverri sendingu, en það var uppistaðan í ístertugerðinni.
Kristbjörn flutti eftir þetta til Noregs og hefur búið þar síðan.
Róbert Óttarsson bakarameistari, fjórði frá vinstri, ásamt starfsfólki sínu í Sauðárkróksbakarí
Ljósmynd: mbl.is/Björn Jóhann.
Róbert bakari.
Róbert er sonur Óttars og Þórdísar Ingimarsdóttir, en hann fæddist á Siglufirði skömmu fyrir jólin árið 1972. Hann fór til Reykjavíkur þegar unglingsárin voru að baki og komst á samning í bakaríinu Korninu, en stoppaði þó stutt við á þeim bæ.
Þar var honum fljótlega sagt að hann yrði að taka sér nokkuð langt sumarfrí því það væri lítið að gera um þær mundir, en sú tilhögun hentaði honum ekki sérlega vel. Hann hringdi því í karl föður sinn og spurði hvort ekki vantaði mann í vinnu á Króknum.
Í framhaldinu var samningurinn fluttur norður. Róbert kláraði samning hjá föður sínum og lauk sveinsprófi í fjarnámi frá Iðnskólanum í Reykjavík. Síðar útskrifaðist hann einnig sem bakarameistari frá FNV.
Um fimm ára skeið dvöldu Róbert og eiginkona hans Selma Barðdal Reynisdóttur, í Árósum í Danmörku við nám. Hún nam uppeldis og sálfræðiráðgjöf, en hann markaðshagfræði. Við heimkomuna stóð ekki til að halda áfram á bakarabrautinni, en stundum verða örlögin önnur en að er stefnt.
Sauðárkróksbakarí.
Ljósmynd: Leó R. Ólason
Róbert Óttarsson kaupir Sauðárkróksbakarí af föður sínum í september 2006 og gerði síðar á því talsverðar breytingar. Lögð var meiri áhersla á kökugerð og kaffihús, gömul og sambyggð fasteign sunnan við bakaríið var keypt, rifin og byggð upp skemmtileg útiaðstaða þar sem hægt var að setjast niður með kaffi og með því á góðum dögum í skjóli fyrir norðangolunni.
Síðast þegar ég kom við í Sauðárkróksbakarí tók ég eftir gömlum uppskriftum sem prýddu vegg inni í kaffihúsinu.
Róbert sagði mér að þær hefði hann erft frá Ingimar Láka, afa hans á Siglufirði sem bakaði lengi hjá Kaupfélagi Siglufjarðar.
Í dag starfa allt frá 10 manns á veturna upp í 20 manns á sumrin við bakaríið.
Aðrir bakarar sem tengjast.
Ingimar Hallgrímur Þorláksson ( 23. júní 1924-13. janúar 2011) fæddist og ólst upp á Siglufirði, vann um skeið hjá Síldarverksmiðjunni Rauðku, stundaði sjómennsku, en lærði síðan bakaraiðn og starfaði sem bakarameistari hjá Kaupfélagi Siglfirðinga að Hvanneyrarbraut 42 eitthvað fram á níunda áratuginn. Hann varð eftir það stöðvarstjóri vörubílastöðvarinnar og handflakari í frystihúsi Þormóðs Ramma meðan það var rekið við Vetrarbrautina. Ingimar var móðurafi Róberts Óttarssonar.
Elísabet Jónsdóttir sem var aldrei kölluð annað en Bettý, var dóttir Jóns í Visnesi bróðir Bjarna. Hún var reyndar ekki bakari sjálf, en hún var gift Sverri Stefáni Sigþórssyni bakarameistara sem fluttist til Siglufjarðar ásamt foreldrum sínum aðeins þriggja ára að aldri.
Hann lærði bakaraiðn sina í Félagsbakaríinu á Siglufirði, en þau fluttust til suður árið 1961 og festu þá kaup á litlu bakaríi við Þórsgötu og nefndu það eftir götunni.
Árið 1974 fluttu þau bakaríið í Kópavoginn í sama hús og fjölskyldan bjó sem var að Borgarholtsbraut 19. Þar var líka opnuð ísbúð sem að sjálfsögðu var nefnd Bettís. Að auki ráku þau Kremgerðina í Hafnarfirði og um tíma Valhúsgögn ásamt Haraldi Sigurgeirssyni. Því má svo bæta við til gamans að fyrstu tækin sem notuð voru í Aðalbakaríinu á Siglufirði voru tæki úr Þórsbakaríi þegar verið var að endurnýja þar á bæ.
Heimildir: Morgunblaðið, mbl.is, Róbert Óttarsson, Kristján Elís Bjarnason.
Samantekt: Leó R. Ólason.
Ýmsar myndir tengdar Visnes fjölskyldunni
Visnes húsið 1980, þarna við Tunnuverksmiðjuna.
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson
Aftari röð: Tómas Sigurðsson, Kristján Sigurðsson, Bjarni Sigurðsson, Arnór Sigurðsson og Jón Sigurðsson.
Fremri röð: Herdís Sigurðardóttir, Olga Sigurðardóttir og Kristjana Sigurðardóttir.
ókunnur ljósmyndari
Aftari röð frá vinstri: Arnór, Kristján, Jón og Tómas.
Fremri röð: Kristjana, Olga og Herdís, allt börn Sigurðar Guðmundssonar og Elísabetar Jónsdóttur.
ókunnur ljósmyndari
Efri röð: Elísabet Jónsdóttir, Jón Sigurðsson, Sigurpála Jóhannsdóttir og Hörður Jónsson, Fremri röð, Birgir Jónsson, Tómas Jónsson og Lilja Jónsdóttir.
ókunnur ljósmyndari
Bræðurnir Jón, Kristján, Tómas og Arnór Sigurðssynir.
ókunnur ljósmyndari
Jón Sigurðsson og Tómas Sigurðsson
ókunnur ljósmyndari
Kristján Sigurðsson, Arnór Sigurðsson og Tómas Sigurðsson.
ókunnur ljósmyndari
Húsið VISNES
Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson
Bjarni Sigurðsson og faðir hans
Sigurður Guðmundsson
ókunnur ljósmyndari
Viðbótar upplýsingar
Fólkið í Visnesi.
Segja má að sagan hafi byrjað úti í Noregi, vestur í Hnífsdal svo og auðvitað einnig norður á Siglufirði. Eftir það spinnast þræðirnir saman og mynda heilstæðan vef sem er eins og púslað saman af einhverjum yfirnáttúrulegum skrifara, sem virðist geta ritað sögu okkar allra jafnvel áður en hún raungerist. Lífið er nefnilega stundum eins og leikrit og við erum leikararnir sem fylgjum handritinu og öllum þeim óvæntu uppákomum og beygjum sem það tekur á meðan sýningunni stendur.
Í smábænum Visnes sem er sunnarlega á vesturströnd Noregs og skammt frá Haugasundi fæddist Olav Ingvald Visnes Olsen (1889-1973), en hann virðist hafa kynnst konu sinni Bjarnrúnu Magðalenu Jónatansdóttur (1895-1970) frá Sigluvík á Svalbarðsströnd einhverntíman um eða skömmu fyrir 1920.
Þau munu fyrst um sinn hafa búið í Noregi en þar fæddust elstu börn þeirra Ólöf María (1920-1975) og Jón O. Olsen (1921-2011). Það er svo síðla árs 1924 að þau flytjast til Íslands og setjast þar að, fyrst á Akureyri en síðar sama ár úti í Hrísey þar sem Olav setur upp vélsmiðju og stundar útgerð, en þar fæðast Sverrir Hartvig (1925-2005) og Karl Hinrik (1926-2013).
Árið 1929 taka þau sig upp aftur og flytjast til Siglufjarðar þar sem Olav stofnar Vélsmiðju Siglufjarðar, en þar fæðast yngstu synir þeirra þeir Bjarni Gísli (1931-2016), Henry (1936-1938) og Birgir (1937-2019). Það er svo að Grundargötu 19 sem Olaf hefur byggingu húss síns sem átti væntanlega að verða framtíðarheimili fjölskyldunnar og nefnir það Visnes eftir heimabæ sínum. En áætlanir eiga það oft til að breytast fyrirvara lítið, Olav lauk aðeins við byggingu neðri hæðar hússins, en þá seldi hann bæði húsið og vélsmiðjuna og fluttist með fjölskyldu sína til Ytri-Njarðvíkur þar sem hann stofnaði Vélsmiðju Ol. Olsen hf. árið 1945.
Víkur nú sögunni til Íslands og vestur á firði í annað lítið þorp sem er Hnífsdalur. Þar bjuggu hjónin Sigurður Guðmundur Guðmundsson (1874-1955) frá Unaðsdal á Snæfjallaströnd og Elísabet Rósinkransa Jónsdóttir (1881-1930) frá Höfða á Höfðaströnd í Jökulfjörðum. Mig langar til að skjóta því hér inn í söguna að Elísabet þessi átti bróður á Siglufirði sem var Leó Jónsson sjómaður og síðar smiður sem gjarnan var kenndur við Slippinn, auk þess að vera afi skrifara. En þau Sigurður og Elísabet bjuggu lengst af í Ysta-húsinu í Hnífsdal og eignuðust fjölda barna sem voru í aldursröð: Kristján Guðmundur (1907-1909), Kristján Guðmundur (jan. 1910-2003), Sigríður (des. 1910-1938), Jón (1912-1999), Olga (1913-2003), Kristjana (1915-2007), Herdís (1916-1992), Arnór (1920-2009), Bjarni (1921-2004) og Tómas (1922-2016). Á þessum tíma lágu leiðir fjölmargra ungra og athafnasamra manna og kvenna hvaðanæva af landinu til ævintýrabæjarins Siglufjarðar og það átti meðal annars við um mörg barna þeirra Sigurðar og Elísabetar. Þau týndust í Síldarbæinn eitt af öðru uns þangað voru komin þau Jón, Olga, Kristjana, Arnór, Bjarni og Tómas.
Jón Sigurðsson í fótbolta með Tómasi Jónssyni og tveimur frændum frá Akureyri.
ókunnur ljósmyndari
Tómas Jónsson og Kristján Bjarnason
ókunnur ljósmyndari
Aftari röð Birgir Jónsson og Hörður Jónsson,
Fremri röð, Tómas Jónsson, Lilja Jónsdóttir og Elísabet Jónsdóttir. Þetta eru börn Jóns Sigurðssonar og Sigurpálu Jóhannsdóttur sem bjuggu í Visnesi. Birgir skar út myndina
ókunnur ljósmyndari
Neðri hæð Visneshússins er byggð 1933, en Jón sem kom til Siglufjarðar 1936 kaupir hana líklega 1945 og virðist fljótlega fara að undirbúa byggingu efri hæðarinnar. Þegar því var lokið að mestu, flytur hann upp en selur bræðrum sínum þeim Bjarna og Tómasi neðri hæðina 1947. Þar bjuggu þeir með fjölskyldur sínar, en neðri hæðinni var líklega skipt í tvö íbúðarrými sem íbúar þurftu þó að deila með sér eldhúsinu. Í öðrum hlutanum bjuggu Tómas ásamt Steinunni konu sinni og sonunum Yngva og Trausta, en í hinum bjó Bjarni ásamt Þuríði konu sinni og sonunum Sigurði, Haraldi, Kristjáni og Óttari. Eins og fyrr segir flutti Jón á efri hæðina og bjó þar með Sigurpálu konu sinni og Herði syni þeirra og um tíma einnig Elísabetu (Bettý) dóttir þeirra, en síðar bættust við þau Birgir, Lilja og Tómas. Sigurður faðir þeirra Visnesbræðra flytur svo til Siglufjarðar 1949 frá Hnífsdal og býr hjá Jóni til dauðadags, en hann hafði misst konu sína 19 árum áður. Annars var Visnes svolítið eins og félagsheimili því að ættingjar og tengdafólk kom gjarnan við þegar það átti leið í bæinn.
Tómas Sigurðsson flytur úr Visnesi út í verkamannabústaði 1948 eða 49 með sitt fólk, en Bjarni 1963 með sinni fjölskyldu út á Hvanneyrarbraut 78.
Þeir bræður áttu og gerðu út Þormóð Ramma SI 32 sem strandaði við Sauðanes laugardaginn 25. nóvember 1950, en þann bát höfðu þeir keypt af Skafta á Nöf. Kristján sem bjó þá tímabundið hjá Arnóri bróður sínum var skipstjóri og Tómas vélstjóri, en hásetar voru Jón Sæmundsson og Halldór Pétursson þá aðeins 16 ára gamall. Jón átti að fara þessa örlagaríku ferð en var veikur svo að Tómas fór í hans stað. Báturinn fékk á sig brot í fjarðarmynninu þegar hann var á heimleið úr róðri og hvolfdi við það. Næsta alda sem reið yfir rétti bátinn svo aftur við. Strax og báturinn komst á réttan kjöl var sent út stutt neyðarkall sem heyrðist á Loftskeytastöðinni en talstöðin varð síðan óvirk.
Báturinn var þá orðinn vélarvana og hálffullur af sjó, en stýrið var í lagi og það tókst að koma upp fokku og lensa undan vindi fyrir Nesoddann. Hann hraktist upp undir ós Engidalsár og tók þar niðri en losnaði aftur þegar flæddi að og strandaði að lokum inni í klettabás við svonefnt Hjallanes. Íbúarnir á Sauðanesi fylgdust með því sem gerðist og gat látið vita nánar um atburðarrásina símleiðis. Menn úr Björgunarsveitinni á Siglufirði brugðust fljótt við og héldu yfir fjallið undir forystu Sveins Ásmundssonar en Sigurður Jakobsson var leiðsögumaður hópsins. Verulega slæmt veður var á fjallinu og þurftu björgunarmenn að skríða sums staðar vegna veðurhæðar og þar var einnig mikil hálka. Hefur þessi ferð því verið hin mesta svaðilför. Bátsverjar vörpuðu belg sem bundinn var við færi í sjóinn og rak hann upp í fjöru. Voru þeir síðan dregnir í björgunarstól til lands hver á fætur öðrum sem gekk nokkuð vel.
Náðist því að bjarga mönnunum áður en illa fór, þrátt fyrir erfiðar aðstæður og slæmt veður á strandstað. Gistu síðan bæði björgunarmenn og skipbrotsmenn að Sauðanesi, alls um 20 menn. Báturinn brotnaði síðan í spón þarna í fjörunni, en nokkru síðar fóru þeir bræður á snurpubát á strandstaðinn og náðu upp vélinni. Mörgum árum síðar kom Trausti á Sauðanesi með eitt skrúfublaðið af bátnum sem hann hafði þá fundið í fjörunni. Þekktist það meðal annars af því að búið var að sjóða í það vegna þess að það skemmdist meðan báturinn var í eigu Skafta þegar hann strandaði, en náðist aftur út nánast óskemmdur. Blaðið er nú varðveitt í sumarbústaðnum sem þau Óttar Bjarnason og Guðrún Sölvadóttir keyptu forðum daga handan fjarðarins og stendur nokkuð sunnan við Ráeyri af Kristfinni Guðjónssyni ljósmyndara og Jónu Guðbjörgu Stefánsdóttur, sem þau síðan endurbyggðu á svo glæsilegan hátt.
Pétur Gautur sem var fulltrúi bæjarfógeta flutti inn á efri hæðina árið 1962 þegar Jón flytur úr bænum ásamt fjölskyldu sinni, en hann staldraði þar aðeins við í tvö ár. Árið 1964 eftir að Pétur Gautur var fluttur úr bænum fór Jón norður ásamt syni sínum Tómasi, en húsið var þá opið og vildi Jón líta þar inn. Þeir fóru inn og upp á háaloft þar sem þeir fundu fyrstu skíði Tómasar, en hann hafði verið mikill afreksmaður á skíðum á sínum yngri árum og einnig fundu þeir mikið magn af flöskum sem höfðu verið notaðar undir einhverja saft á sínum tíma. Ekki fylgdi þó sögunni hvort flöskurnar voru allar tómar eða hvort eitthverjar þeirra geymdu eitthvað innihald frá árum áður.
9. jan. 1964 brann Tunnuverksmiðja ríkisins á Siglufirði til kaldra kola. Kviknaði í timburgólfi meðfram skorsteini og var eldur lengi falinn í timburstafla, áður en hann blossaði upp. Austan Tunnuverksmiðjunnar stóðu tvö hús, og var mjög óttast að í þeim kviknaði. Gluggar sviðnuðu og rúður sprungu í þeim báðum og það rauk úr þaki þeirra beggja um tíma. Slökkviliðinu tókst þó að verja húsin, meðal annars með því að negla stórar asbestplötur fyrir glugga þeirra. Eftir brunann var ákveðið að endurbyggja Tunnuverksmiðjuna og að ekki skyldi lengur búið í húsunum að Grundargötu 17 þar sem Sigríður móðir Björns Dúasonar og Steinunn Scram bjuggu og 19 sem var Visnes og voru þau rifin nokkru síðar.
Heimildir: Tómas Jónsson, Kristján Bjarnason, mbl.is, Siglfirðingur, Mjölnir.
Samantekt: Leó R. Ólason.