Sunnudagur 15. janúar 2006 --- Ein gömul: "Sennilega" Lionessur (?)
Guðný Friðfinnsdóttir - (?) - Steinunn Jónsdóttir - Ragnheiður Rögnvaldsdóttir (?) - María Lillý Ragnarsdóttir - Bára Stefánsdóttir - Helga Freysdóttir - Hrefna Hermannsdóttir. Ljósmynd, Guðný Ósk Friðriksdóttir: Maí 1992
Sunnudagur 15. janúar 2006
Horft til vesturs frá Suðarnesi (?) á haustkvöldi.
Nappað af heimasíðu: Hrönn Einarsdóttir www.123.is/hippi
Sunnudagur 15. janúar 2006 -- Í morgun sunnudag í birtingunni klukkan 10:40 - kom nýr og betri Sigurvin, Björgunarsveitarinnar Strákar -- Landsbjörg inn á Siglufjörð.
Nokkrir smábátar tóku á móti honum þegar hann kom inn á fjörðinn. Og nokkrum tugum metrum á eftir kom einnig björgunarbáturinn Sveinbjörn Sveinsson, Björgunarsveitarinnar Vopni frá Vopnafirði. Báðum sveitunum voru afhentir bátarnir fyrir helgina. En Sveinbjörn Jónsson tók hér olíu og mannskapurinn slappaði af yfir góðum hádegismat í landi. Myndin til vinstri er af áhöfninni á Sigurvin ásamt formanni sveitarinnar Strákum, Sveini Björnssyni. -- en á hinni er áhöfn björgunarbátsins Sveinbjörns Sveinssonar --Myndasyrpa, ásamt nöfnum eru HÉR (sömu myndir og eru einnig á tenglinum hér neða)
Sunnudagur 15. janúar 2006
Eins og getið er hér um fyrir ofan, þá komu björgunarsveitaskipin Sigurvin Siglufirði og Sveinbjörn Jónsson frá Vopnafirði til Siglufjarðar í morgun.
Ég lofaði að setja nokkrar myndir frá þeim viðburði á vef minn og eru þær eru HÉR
Þá vil ég einnig benda á vefsíðu þeirra á Vopnafirði www.123.is/vopni - en þar er ýmislegt augnayndi og fróðleikur og fleira um sveitina Vopna + myndir
Tengill þessi til "Vopna" er ekki virkur í dag
Mánudagur 16. janúar 2006 Ein gömul: -- Anna Lára Hertervig - Erla Finnsdóttir - Jóna Guðjónsdóttir. Einhver athöfn hjá Lionessum á Sigló í maí 1992
Ljósmynd Guðný Ósk Friðriksdóttir
Mánudagur 16. janúar 2006 -- Ný vefsíða http://www.123.is/siglo/
Síða Guðmundar Albertssonar Meðfylgjandi mynd er ein af mörgum frábærum myndum á síðu hans, myndum sem vonandi á eftir að fjölga.
Mánudagur 16. janúar 2006
Útgerðarmaður Breka KE kaupir Sunnu SI 67 ---
Magni Jóhannsson útgerðarmaður togarans Breka KE hefur keypt rækjufrystitogarann Sunnu SI af Þormóði ramma – Sæbergi.
Hann tekur við skipinu 20. janúar næstkomandi.
Með því fylgir um 1.000 tonna karfakvóti.
Ofanritaðar upplýsingar eru frá síðu:www.skip.is Frekari upplýsingar HÉR
Síðuhlutinn ekki tiltækur í dag
Þriðjudagur 17. janúar 2006
Ein gömul:
Tvær Siglfirskar "þjóðsagnapersónur"
Sveinbjörn Guðmundsson og Hannes Garðarsson
Þriðjudagur 17. janúar 2006 -- Á vef Siglufjarðarkaupstaðar í gær, kom fram að Borgarafundur verður í kvöld vegna sameiningarmála. - Mun bæjarstjórn Siglufjarðar halda opinn borgarafund á Bíó Café kl. 20.00 þar sem kynnt verður staða mála varðandi sameiningarmál við Ólafsfjörð.
Fulltrúar úr samstarfsnefnd munu kynna stuttlega skýrslu RHA og verður síðan opið fyrir fyrirspurnir um allt er viðkemur fyrirhuguðum sameiningarkosningum.
Þriðjudagur 17. janúar 2006 -- Í gærkveldi og í morgun hefur snjóað nokkuð en aðeins safnast í skafla. Engin umferðateppa er þó í bænum sjálfum, þó svo að ófært sé landleiðina til Siglufjarðar og víða á norðurlandi. Bæjarkarlarnir fóru snemma á ról eins og venjulega þegar snjóar eitthvað af ráði og voru búnir að hreinsa flestar götur og gera greiðfærar áður en flestir aðrir fóru á ról. Í gærkveldi og í nótt var einnig allhvast í hviðum og komst vindur í allt að 27.3 m/s klukkan 05:41 í morgun- og frost niður í -12,2 °C laust eftir miðnættið. - Séð suður Hvanneyrarbraut, um það leiti er ég fót á "rúntinn" í morgun
Þriðjudagur 17. janúar 2006 Ullarþæfingar námskeið verður haldið á Siglufirði í febrúar ef næg þátttaka fæst.
Þeir sem hafa áhuga hafi samband Möggu Steingríms í símum 896-5351 eða 461-5263 Frekari sýnishorn á hugmyndum á síðu Huldu systirhttp://www.hulda.org/ Gimburnar -- (Magga er dóttir mín (sk), Ljosm: Margrét M Steingrímsdóttir)
Þriðjudagur 17. janúar 2006 Til þæginda fyrir þá sem þurfa að ferðast um vetrararmánuðina norður eða suður, þá geta þeir fylgst með vegakortum Vegagerðarinnar með því að smella á þessa tengla, sem eru hér og verða framvegis efst á á síðu hverrar viku: og Fljótlegt að smella þegar það nýjasta á Lífinu á Sigló hefur verið lesið. Tenlarnir ekki virkir í dag
Miðvikudagur 18. janúar 2006
Ein gömul: Húsið lengst til hægri er fyrsta síldarbræðslan sem reist var á Íslandi, - hún var reist af norskum manni Thormod Bakkevig árið 1911 (framkvæmdir hófust raunar 1906) - og afkastaði hún um 150 málum á sólarhring (rúmlega 1,1 tonn) Þetta sama ár var í fyrsta sinn flutt út síldarlýsi frá Íslandi nánari upplýsingar er að finna HÉR Fyrir miðri mynd má greina hús Veiðarfæraverslunar Sigurðar Fanndal - og þar ofar húsið Eyri, sem nú er hús Sálarrannsóknarfélagsins á Siglufirði.
Önnur mannvirki, svo sem Söltunarstöðin Bakkervig, síðar Söltunarstöð Halldórs Guðmundssonar, (síðar fleiri) húsin og planið fremst á myndinni, er allt horfið fyrir áratugum. Myndin er sennilega tekin um 1935 af ókunnum ljósmyndara (líklega Norskum)
Miðvikudagur 18. janúar 2006
Borgarafundur var haldinn á Bíó Café í gærkvöld til kynningar á sameiningarmálum varðandi Ólafsfjörð og Siglufjörð. -
Fundurinn var nokkuð fjölmennur, fróðlegur og málefnalegur. Enginn af þeim sem til máls tóku virtist á móti sameiningu sveitarfélaganna, heldur þvert á móti. Ein mjög athygliverð hugmynd kom fram á fundinum að mér fannst, en það var Jón Dýrfjörð sem kom með þá hugmynd og vinur vor Jonni tann tók undir, að við kosningar væntanlegrar sveitastjórnar nýs byggðarkjarna, mundi öllum flokkadráttum kastað fyrir róða, og kosið um menn en ekki flokka.
Það gefur auga leið að tildæmis á Siglufirði, gæti núverandi nafn í pólitíkinni; "Siglufjarðarlistinn" ekki komið fram. Listi með slíku nafni mundi ekki fá mörg atkvæði, hvorki á Siglufjarðar, né Ólafsfjarðasvæðinu. Myndir frá fundinum eru hér + skjal neðst á síunni hér
Miðvikudagur 18. janúar 2006 -- Héðinsfjarðargöng: Sex hæfir til að bjóða í verkið -- Vegagerðin hefur metið alla þá sex aðila sem þátt tóku í forvali vegna Héðinsfjarðarganga hæfa til að bjóða í verkið. Birgir Guðmundsson, svæðisstjóri Norðaustursvæðis hjá Vegagerðinni, segir að þeir muni fá útboðsgögn send um næstu helgi og tilboð verði opnuð 14. mars næstkomandi. -- "Sá sem fenginn verður til að vinna verkið ræður í sjálfu sér hvenær hann byrjar en líklegt er að það verði í júlí í sumar. Verklok eru hins vegar ákveðin 10. desember 2009," segir Birgir.
Héðinsfjarðargöng verða samtals 10,6 km að lengd en með tilkomu þeirra verður akstursleiðin á milli byggðarlaganna 15 kílómetrar. -
Héðinsfjarðargöng - Fyrirtæki sem fá útboðsgögn:
• Íslenskir aðalverktakar hf. og Marti Contractors Ltd, Sviss - • Metrostav a.s., Tékklandi og Háfell ehf.
• Ístak hf. - • Arnarfell ehf. - • Leonhard Nilsen & Sønner As, Noregi og Héraðsverk ehf.
• China Railway Shisiju Group Corp., Kína - Heimild Visir.is 17-1-06
Miðvikudagur 18. janúar 2006 -- Siglfirðingur ársins 2005
Siglufjarðarkaupstaður ásamt kaupmannafélagi Siglufjarðar hafa ákveðið að efna til símakosningar um Siglfirðing ársins 2005, í kvöld milli klukkan 18:30 – 21:30. -- Siglfirðingar nær og fjær eru hvattir til að nýta þetta tækifæri og kjósa þann einstakling sem þeim finnst eiga skilinn titilinn Siglfirðingur ársins.
Símanúmer sem hringt skal í eru eftirfarandi: 460-5600, 460-5616, 460-5617 og 460-5621.
Fimmtudagur 19. janúar 2006 Ýtarlegar Upplýsingar um Sameiningarmál. --- Samstarfsnefnd um sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar gerir tillögu um níu fulltrúa í sveitarstjórn í sameinuðu sveitarfélag, en ekki sjö eins og lagt var til í skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri um sameiningu sveitarfélaganna. Smelltu HÉR til að lesa meira Óvirkur tengill nú
Fimmtudagur 19. janúar 2006 Gamalt og fróðlegt: Bæjarpósturinn >>>>>>>>
Mjölnir 7. júní 1950
Siglufjarðarbíó hefur nú tekið til starfa.
Alþýðuhúsið hefur verið leigt Gísla Þ. Stefánssyni, hótelstjóra, og ætlar hann að reka það sem kvikmyndahús, a.m.k. yfir sumarmánuðina.
Ýmsar smávegis breytingar hafa verið gerðar á húsinu, og sett hefur verið nýtt gólf í það. Aðgöngumiðasalan hefur verið minnkuð og þiljuð snoturlega að innan.
Þá var einnig ákveðið, að allt húsið yrði málað, en engin málning hefur verið fáanleg, svo að af því hefur ekki getað orðið.
Siglufjarðarbíó hefur komist í góð sambönd með myndir, svo vænta má, að það geti sýnt góðar myndir a.m.k. öðru hvoru. ------
Fleira á vefnum: Bíósaga Siglufjarðar
(Meðfylgjandi mynd er úr sýningarklefa Nýja Bíós árið 1982, Kristinn Steingrímsson 14 ára sýningarmaðurvið störf sín, að undirbúa sýningu)
Fimmtudagur 19. janúar 2006 -- "Þau eru mörg störfin sem meðhjálparinn þarf að sinna fyrir prestinn sinn." -- En presturinn er ekki í bænum, en samt þarf að sinna þeim smæstu og þar kemur meðhjálparinn til sögunnar, en Sigurður Ægisson prestur hefur verið rausnarlegur í garð smáfuglananna í vetur sem fyrr og borið fyrir þá allskonar ávexti og korn. Þarna er Þorsteinn Sveinsson aðstoðar meðhjálpari að enda við að dreifa ávöxtunum á trén í garðinum sunnan við prestsetrið.
Fimmtudagur 19. janúar 2006 Ein gömul:
Lokadagar gömlu bygginganna við Henriksenplanið. -- Hrun eftir stormhviðu
Fimmtudagur 19. janúar 2006 --
Svo eru menn að kvarta yfir snjókomu hér á Íslandi og því að þurfa að skafa nokkur snjókorn af bílum sínum á morgnanna.
Ég fékk þessa skemmtilegur syrpu senda í morgun. Mikill snjór í Tékklansdi
Fimmtudagur 19. janúar 2006 Ný heimasíða,
Katrín Andersen er kominn í hóp Siglfirskra vefsíðugaura. Katrín tekur mikið af myndum og er nú byrjuð að smala úr safni sínu yfir á netið.
Slóðin er hér: > www.123.is/snillingur -- og á "Tenglasíða-2"
Föstudagur 20 janúar 2006
Ein gömul: Það er greinilega eitthvað girnilegt sem þessir höfðingjar eru að rýna í þarna á borðinu. ---
Þetta eru blaðamennirnir, þeir Bjarni Jóhannsson fyrir Tímann - Stefán Friðbjarnar fyrir Siglfirðing og Morgunblaðið - Benedikt Sigurðsson fyrir Mjölnir og Þjóðviljann og Jóhann Þorvaldsson fyrir Einherja.
Þarna eru þeir að huga að nýopnaðri dós með niðurlagðri síld, inni á kaffistofu Sigló-Síldar, en verksmiðjan var vígð formlega dag marsmánaðar árið 1962
Föstudagur 20 janúar 2006 Siglfirðingur ársins 2005,
var kjörinn af Siglfirðingum sem hringdu á skrifstofu Siglufjarðarkaupstaðar í fyrrakvöld, þar sem Lionsmenn tóku við uppástungum um tilnefningu. Þetta var sameiginlegt átak Kaupmannafélags Siglufjarðar, bæjarstjórnar Siglufjarðar og Lionsmanna.
"Úrslitin" lágu fljótlega fyrir eftir að símum var lokað í fyrrakvöld og seinni partinn í gær, í upphafi bæjarstjórnarfundar var viðurkenningin formlega kynnt.
Fyrir valinu hafði orðið unglingurinn sem stýrir "Lífinu á Sigló" -
Það var og er vissulega ánægjuleg tilfinning en örlítið blandin að verða slíks heiðurs aðnjótandi, þar sem ég er vanari að fylgjast með álíka atburðum heldur en að vera þátttakandi, og ekki síður vegna þess að ýmsir aðrir áttu skilið svona viðurkenningu, líklega frekar en ég án þess að ég ætli að fara að nefna nein nöfn, þó svo að tveir aðilar séu mér ofarlega í huga.
En hvað um það ég vil þakka öllum sem stofnuðu til þessarar athafnar og ekki síður þeim sem settu nafn mitt á vogarskálina.
Lifið öll heil. -- Innilegt þakklæti. SK
Á mynd 1 er bæjarstjórinn Runólfur Birgisson að afhenda viðurkenninguna og árituðan platta.
Fulltrúar kaupmanna, Lionsmanna, bæjarstjórinn og unglingurinn; frá vinstri, Jón Ásgeir Ásgeirsson, Lionsmeðlimur, Elín Þór Björnsdóttir fulltrúi Kaupmannafélags, Runólfur Birgisson bæjarstjóri, Steingrímur Kristinsson Siglfirðingur ársins 2005, Freyr Sigurðsson fulltrúi Kaupmannasamtaka og Erlingur Sigurðsson Lionsmeðlimur.
Bæjarstjórnin ásamt unglingnum með viðurkenningarnar.
Sveinn Þorsteinssno tók ljósmyndirnar
Föstudagur 20 janúar 2006 Frá Jóni og Erlu -- Hafið þökk fyrir, sk
Föstudagur 20 janúar 2006
Áríðandi leiðrétting Í auglýsingu í Tunnunni láðist okkur að tímasetja þorrahlaðborðið sem verður í dag, föstudaginn 20. janúar (bóndadaginn) en um hádegistilboð er að ræða, s.s. það hefst kl.12. Verið velkomin, og konur ATH! nú splæsið þið á bóndann! - Kveðja, starfsfólk Bíó Café
Laugardagur 21. janúar 2006
Ein gömul: Mér voru færðar nokkrar ljósmyndafilmur frá gamalli tíð hér á dögunum, þar kennir margra góðra grasa, sem ekki hafa áður komið fram opinberlega.
Þessi kona er Fanney Sigurðar - Umhverfið er mér kunnuglegt: Grundargata 6 til vinstri, þar fyrir aftan sést girðingin sem var utan um norðurhluta lóðar gamla pósthússins sem einnig sést aðeins í, og svo sunnan við Aðalgötuna sést Ytra húsið.
Til hægri við það, vestan Grundargötu er Verslun Péturs Björnssonar (Aðalgata 25) og sunnan við það Grundargata 3 og norðan við Aðalgötuna er íbúðarhús Jóseps Blöndals fjölskyldunnar, sem síðar byggði Aðalbúðina (nú Eyrarbúðin) á sama stað eftir að gamla húsið var rifið.
Bíltegundina eða árgerð þekki ég ekki. -- Ljósmynd: Haraldur Sigurðsson.
Laugardagur 21. janúar 2006
Það er lítið rennsli í Hvanneyraránni, sem ekki er óeðlilegt á þessum árstíma, en það hefur oft verið meiri snjór á þessum slóðum en nú í dag
Viðauki vegna Sameingar
Samstarfsnefnd um sameiningu Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar gerir tillögu um níu fulltrúa í sveitarstjórn í sameinuðu sveitarfélag, en ekki sjö eins og lagt var til í skýrslu Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri um sameiningu sveitarfélaganna.
Í skýrslu RHA var lagt til að grunnskólarnir í Ólafsfirði og á Siglufirði verði sameinaðir í eina stofnun með einn skólastjóra og tvo aðstoðarskólastjóra.
Samráðsnefnd telur ekki tímabært að taka þetta skref og leggur þess í stað til að fyrstu ár sameinaðs sveitarfélags verði nýtt til þess að samræma og skipuleggja skólahald í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi, með það að markmiði að eftir að Héðinsfjarðargöng verða opnuð verði rekstur grunnskólanna í Ólafsfirði og á Siglufirði sameinaður í eina stofnun undir einni stjórn.
Í skýrslu RHA er lagt til “að ráðningarsamningum þar sem breytingar verða á fyrirkomulagi verði sagt upp þannig að hendur nýrrar sveitarstjórnar verði eins óbundnar og kostur er,” eins og orðrétt er sagt í skýrslunni.
Samráðsnefnd tekur ekki undir þetta ákvæði í skýrslunni og leggur til að sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags staðfesti nýtt skipurit fyrir sveitarfélagið og geri breytingar á starfsmannahaldi samkvæmt því.
Í öllum meginatriðum gerir samráðsnefnd tillögur RHA að sínum, ef frá eru skilin framangreind atriði og verða þær kynntar í bæklingi sem verður dreift í hús í Ólafsfirði og á Siglufirði mánudaginn 23. janúar nk.
Bæklinginn má sjá hér. .pdf skjal
Í bæklingnum kemur m.a. fram að samráðsnefnd leggur til að ef sveitarfélögin verða sameinuð verði efnt til hugmyndasamkeppni um nafn á sameinað sveitarfélag og íbúar velji síðan nafn úr nokkrum tillögum samhliða sveitarstjórnarkosningum í maí nk.
Samráðsnefnd um sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar efnir til kynningarfunda í næstu viku. Fundurinn á Siglufirði verður í Bíósalnum þriðjudaginn 24. janúar kl. 20 og í Tjarnarborg í Ólafsfirði miðvikudaginn 25. janúar kl. 20.
Árshlutareikningur Ólafsfjarðarbæjar 30. september 2005 .pdf skjal
Árshlutareikningur Siglufjarðarkaupstaðar 30. september 2005 .pdf skjal
Samanlagðir árshlutareikningar Ólafsfjarðarbæjar og Siglufjarðarkaupstaðar 30. september 2005 .
pdf skjöl