Lífið 12.-18. Apríl 2004

Fréttavefurinn Lífið á Sigló  

12. til 18. apríl 2004





12. apríl 2004  

Ein gömul: Spilakvöld SR-inga í kaffisal Hraðfrystihúss SR 1965+/- 

2. apríl 2004  Hlýðninámskeið fyrir hunda verður haldið á Siglufirði. Leiðbeinandi verður Ólafur Pálmi Agnarsson. - þeir sem hafa frekari áhuga hafi samband við Videoval. En námskeiðið er af frumkvæði þeirra Fanneyjar og Steina. 





13. apríl 2004  Ein gömul: 


Eðvald Eiríksson og Þorsteinn Einarsson, starfsmenn: Löndun SR 

13. apríl 2004 ---  Á myndinni hér fyrir neðan  eru hjónin Kristín Þorgeirsdóttir og Kristinn Konráðsson. Þau voru að koma að landi án þess að hafa getað dregið netin vegna veðurs, þau gera út trilluna Hrönn II SI 144 og gera nú út á grásleppu. Frekar tregt hefur  verið hjá þeim sem komið er og kenna þau um ógæftum með hvössum vindi, en aðeins helmingur þess afla sem komið var á sama tíma í fyrra er komið á land nú.  Einnig hefur verið mikið af einhverskonar þörungum í netunum, en slíkt hefur Kristinn ekki séð áður þau 40 ár sem hann hefur stundað hrognkelsaveiðar. 

13. apríl 2004  --   Í vetur hefur farið fram á Króknum “Skagfirska mótaröðin”. Héðan hafa þau feðgin Haraldur Marteinsson og Katrín Haraldsdóttir tekið þátt.  Samanlagt eftir 3 mót var Haraldur meðal 4 efstu í fjórgangi og fór beint í A úrslit, en í tölti var hann í hópi 5-9 efstu og fór í B úrslit.

 Skemmst er frá að segja að Haraldur varð í 4 sæti í fjórgangi og vann B-úrslit í tölti og komst þá upp í A úrslit þar sem hann lenti í 5 sæti.   Sannanlega frábær árangur!

 Um næstu helgi fáum við hin svo tækifæri til að reyna okkur við kappann því þá verður vormót Glæsis haldið á íþróttavellinum við Hólsá.  Keppt verður í fjórgangi og tölti.  Siglfirskir hestamenn hafa æft af kappi undanfarið og margir viljað fara frekar leynt, en fátt dylst þó glöggum augum fréttaritarans.  T.d. voru þeir feðgar frá Barði Símon og Símon að koma með gráa glæsihryssu í bæinn í gær, mánudag, til að hún hefði tíma til að venjast loftslaginu og vellinum.  Siggi í sparisjóðnum hefur æft í loftköstum undanfarið en óvíst er þó með þátttöku í þessu móti, hann gæti viljað ná meiri fullkomnun í samhæfingu knapa og hests!  Þeir bræður Marteinssynir hafa yfirleitt farið með fulla kerru af hrossum inn í Fljót að morgni allra frídaga undanfarið og koma ekki heim fyrr en undir myrkur.

 Óvíst er með þátttöku Gunna Guðmunds í mótinu en heyrst hafði þó fyrir námskeið sem haldið var um daginn að hann stefndi hátt með sín hross á komandi vertíð!  Einnig hafa þeir bræður frá Helgustöðum í Fljótum hafið æfingar svo líklegt er að víða leynist verðugir keppinautar fyrir þá Harald og Ofsa!   Bæjarbúar og gestir okkar Siglfirðinga eru hvattir til að koma og fylgjast með kl 14.00 næstkomandi laugardag.  Minnt er á skráningu sem fer fram í Aðalbúðinni fyrir kl 18.00 á fimmtudag  




14. apríl 2004 


Ein gömul:   

Stefán Friðleifsson, Jón Kristjánsson og Jón Sigurðsson inni á Tréverkstæði SR 1963 +/- 



14. apríl 2004  


Það var mikið fjör að venju í frímínútum barnaskólans í morgun, er ég fór þar framhjá. 


Á myndinni sjást nokkur þeirra 

 15. apríl 2004  Unglingameistaramót Íslands á skíðum verður á Siglufirði 15-18. apríl.

15. apríl 2004   

Ein gömul: 

Um borð í Haferninum 1966 við anker inni á Seyðisfirði.

Stefán Árnason bátsmaður, Snorri Jónsson rafvirki og Salmann Kristjánsson háseti sem er, "utanborðs" á stillingu (er með stutta öryggislínu bundna um mittið)



15. apríl 2004 


Unnið er á fullum krafti inni í Bátahúsinu við bryggjusmíði ofl. Þarna eru bryggjusmiðir frá Berg hf.: 

Sverrir Jónsson, Hallgrímur Vilhelmsson og Þorsteinn Jóhannsson. 

 15. apríl 2004  Hópur félaga í Félagi eldri borga á Siglufirði og í Fljótum, munu leggja land undir fót og dvelja á Hótel Örk í Hveragerði dagana 18-23. apríl.  Vonandi verður hópurinn heppinn með veður, en tryggt er að góða skapið verður með. --- Góða ferð S.K.


15. apríl 2004 

Siglfirðingurinn Ægir Björnsson, gamall skipsfélagi minn á Haferninum er að gera það gott í Svíþjóð og víðar. 

En nýlega hlaut hann eftirsóknarverð verðlaun í Svíþjóð,  það er stærstu verðlaun sem veitt eru fyrir viðhald þar í landi.

Ægir hefur unnið að þróun sérstaks hreinsibúnaðar fyrir olíur og hefur búnaðurinn verið á markaði í nokkur ár, víða um heim.  

Nánari upplýsingar um olíusíuna ofl. má finna á vefnum http://www.europafilter.se/    

Einnig í Morgunblaðinu/Viðskiptablaðinu:  https://www.mbl.is/greinasafn/grein/792421/ 

Meðfylgjandi mynd sýnir Ægir til vinstri með viðurkenningarskjöldinn, ásamt  Leif Östling, Koncernchef Scania




16. apríl 2004  

Ein gömul úr síldinni: 

Móðirinn (?) og Kristín Pálsdóttir (maki: Hans Ragnarsson)  1962 +/- 

16. apríl 2004  Unglingamótinu var frestað um 2-3 tíma í morgun, þar sem sá undirbúningur skíðabrauta sem unnið var við gær hafði snjóað í kaf og þurfti því að hefjast handa að nýju. Þó ekki hefði snjóað í orðsins merkingu niðri í byggð, þá þurfti að moka veginn frá dalbotni alla leið upp að skíðasvæðinu. Og enn snjóaði lítilsháttar, en að var þó logn. Þessir krakkar voru mætt á staðinn í  morgun klukkan  10:15 er ég tók þessar myndir hér fyrir neðan. 




Ein gömul frá 1965 -  

Það eru líklega ekki margir sem kannast við þennan "gaur" 

Þetta er "passamynd" af ormi sem kallast Skeri, sjávarlindýr sem lifir hér við bryggjurnar á Siglufirði, í það minnsta árið 1965 þegar verið var að rífa gömlu löndunarbryggjur SR. 

En þetta er einn af ormunum sem sagðir hafa verið duglegir við að ydda bryggjustaurana í gamla daga, éta og naga þá jafnvel í sundur við botninn. 

Þessi er á stærð við eldspýtu, það sést gjörla í fingur minn á bak við, en ég hélt á kvikindinu spriklandi þegar ég tók myndina. 




17. apríl 2004  

Unglingalandsmótið. Frekar óhagstætt veður var í gær á skíðamótinu,  en þeir létu sig hafa það, og héldu sínu striki. Alli A. sendi mér þessa ljósmynd. 

17. apríl 2004  

Unglingalandsmótið.  Búið er að fresta öllu í sambandi við Alpagreinar – 

Tekin verður ákvörðun um hádegi og verður það lesið inná símsvara. -Veðrið var að versna þegar ég fór niður um 10 leitið meiri úrkoma og ekkert skyggni. - 

Verið er að reyna að útbúa gönguhring neðar. ca. fyrir norðan og ofan skóræktina. -- 

Þessar upplýsingar ásamt myndum af mættum starfsmönnum í morgun, auk annarra mynda  fékk ég hjá Alla A. kl 10:20.   Myndirnar HÉR




17. apríl 2004   

Vormót Glæsis var haldið á Íþróttavellinum við Hólsá í dag, þrátt fyrir krap og kulda. Fátt var um gesti og sumir létu nægja að vera í bílum sínum í velgjunni, þar á meðal ég þann stutta tíma er ég dvaldi við svæðið. 

 Knapinn á myndinni er  Hilmari Snær Símonarson og hesturinn Bassi, - en þetta er hálfgerð skuggamynd, tekin með miklum aðdrætti. 

18. apríl 2004  


Í gær fór fram í íþróttahúsinu við Hvanneyrarbraut, afmælismót í tilefni af 10 ára afmæli félagsins Glói. Til leiks mættu lið Skotfélags Akureyrar (sem unnu norðurlandsriðilinn í vetur), Smárans úr Varmahlíð auk heimamanna í Glóa. ---  

Glói gerði sér lítið fyrir og sigraði á mótinu en Glói hlaut 5 stig, Skotfélag Akureyrar 4 og Smárinn 3 stig.

 Að loknu móti var þátttakendum boðið til pasta veislu á Allanum. Meðfylgjandi er mynd af sigurliði Glóa með bikarinn góða, fyrsti titill félagsins í höfn. 

Á myndina vantar þó Ragnar Hauksson sem varð frá að hverfa fyrir síðasta leikinn.  

Nánar er fjallað um mótið á síðu Glóa www.gloi.tk   Aðsent: J. G. 


18. apríl 2004  

Þeim var haldið kveðjusamsæti, "Gömlu fóstbræðrunum" í Síldarminjasafninu í gærkveldi. 

En fyrr um daginn voru þeir með tónleika í Siglufjarðarkirkju og þar kom líka fram Karlakór Siglufjarðar með nokkur lög og svo sungu kórarnir saman tvö lög.  --- 

Söngstjóri Fóstbræðra er Jónas Ingimundarson en Söngstjóri Karlakórs Siglufjarðar er Elías Þorvaldsson en myndin hér er af þeim félögum.