Lífið 1.-5. Nóvember 2005

Fréttavefurinn Lífið á Sigló

1. til 5. nóvember 2005

Þriðjudagur 1. nóvember 2005 -- Aðsent: Sæl. -- Í gær voru hér (við presthús) 3 hettusöngvarar (1 kvk + 2 kk), 1 svartþröstur (kvk), 2 gráþrestir og 2 silkitoppur. Frétti af 1 silkitoppu og 1 hettusöngvara (kvk) við hús að Laugarvegi 15, hjá Sigurjóni Jóhannssyni; silkitoppan búin að vera þar í 4-5 daga, en hettusöngvarinn var nýkominn.-- Skyldu vera flækingar víðar? - Tók þessa mynd af gráþresti í morgun. - Kveðja. Sigurður Ægisson

Þriðjudagur 1. nóvember 2005

Ein gömul:

Trillukarlarnir Páll Pálsson og Valtýr Jónasson 1976

Þriðjudagur 1. nóvember 2005 -- JE-Vélaverkstæði -- Eins og fram kom hér á vefnum í fyrra mánuði, þá skruppu starfsmenn JE-Vélaverkstæði til Kaupmannahafnar ásamt mökum sínum, svona aðeina að slappa af eftir langa og stanga törn við vinnu sína. Ég fékk sendar nokkrar myndir frá ferðinni, sem eru HÉRNA Ljósmyndari ókunnur


Þriðjudagur 1. nóvember 2005

Aðsent:

Okkur langar að minna á Evrópuboltann í kvöld, en vegna óvenjulegra aðstæðna verður boltinn sýndur í Bíósalnum í kvöld og annaðkvöld á risaskjá.

Í kvöld kl.19:30 PSV - AC MILAN og kl.22:20 REAL BETIS - CHELSEA. ---

Kveðja Bíó Café.

Miðvikudagur 2. nóvember 2005 ----

Sending frá prestinum: 3 fuglamyndir. Sælt veri fólkið. Það ber helst til tíðinda að gráþrestirnir eru orðnir 3 við presthús. - Auk þess voru hér 2 hettusöngvarar (1 kvk + 1 kk), 1 svartþröstur (kvk) og 3 silkitoppur, auk 20-30 skógarþrasta, eins og verið hefur undanfarnar tvær vikur eða svo. Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar seinni partinn í gær. Hér er líka einn saddur og ánægður eftir máltíðir dagsins, hvílandi á öðrum fæti. Kveðja. Sigurður Ægisson

Miðvikudagur 2. nóvember 2005

Ein gömul:

Dýpkunarpramminn Björninn, eign þeirra félaga Aage Johansen og Björns Þórðarsonar.

Myndin er tekin sumarið 1976

Miðvikudagur 2. nóvember 2005 --- Körfubíll Slökkviliðsins á Siglufirði, var skoðaður og "tekin út" í gær af Sænskum sérfræðingi, sem ferðast hefur um landið til að yfirfara og skoða þessi þarfa tæki hjá bæjarfélögum sem eru svo heppin að eiga slíkan búnað. Búnaðurinn allur var í fyrsta flokks ásigkomulagi, enda vanir menn sem hafa um hann séð frá upphafi. Á myndinni eru; Svíinn og aðili frá Slökkviliði Akureyrar; Viðar Þorleifsson varðstjóri sem hingað kom með Svíanum og svo Slökkviliðsstjórinn okkar,

Ámundi Gunnarsson er til hægri á myndinni . Því miður láðist mér að fá nöfn aðkomumannana.

Miðvikudagur 2. nóvember 2005 -- Líkamsræktarstöðin Siglufirði var í gær opnuð með promp og prakt klukkan 17:00. Sigurður Hlöðversson tæknifræðingur bæjarins og Sigurður Jóhannesson fyrir hönd bæjarins opnuðu stöðina formlega með ávörpum. Tækjabúnaður stöðvarinnar er hinn fullkomnasti og í mjög góðu ásigkomulagi, sagði mér fagmaður, en búnaðurinn var keyptur notaður á um 4 milljónir króna. Ekki hefi ég á hreinu hver heildarkostnaður byggingarinnar, sem er áföst íþróttahúsinu kostar, en starfsfólkið sem er 6 manns er hið ánægðasta með búnað og aðstöðuna í heild. Vonandi verða Siglfirðingar duglegir að sækja Líkamsræktarstöðina, svo tilganginum verði fullnægt. Hér eru myndir sem teknar voru í tilefni opnunarinnar.

Miðvikudagur 2. nóvember 2005 >>>>>>>>>>>>>>>>>>>>

Aðsent:

Sæll Steingrímur Á mánudagskvöldið er ég var að blogga þá datt mér smá vísa í hug og þar sem hún tengist nú síðunni þinni , þá ákvað ég að senda þér hana ... Kv. ggs :) www.blog.central.is/gauti

  • Á vefnum má nú fugla sjá,
  • Munka , toppa og þresti
  • Á Hvanneyri þeir sofa hjá
  • Arnheiði og Sigga prest

Miðvikudagur 2. nóvember 2005

Hellan er komin út með fjölbreyttu efni að vanda. Viðtöl við Abbý og Valey - Finna Hauks. Ásamt fréttum úr bænum og fleiru góðgæti

Miðvikudagur 2. nóvember 2005 Aðsent: UNDIRSKRIFTARSÖFNUN -- með kröfu um staðsetningu flugvallar í Reykjavík. Siglfirðingar eru hvattir til að rita nöfn sín á blöðin sem liggja frammi í verslunum bæjarins næstu 10 daga. ---- Textinn er: Reykjavíkurflugvöllur er tenging landsbyggðarinnar við höfuðborgina, stofnanir hennar og ýmsa þjónustu sem þar er veitt. Mikilvægi þessa flugvallar kristallast m.a. í nálægð hans við stærstu og best búnu sjúkrahús landsins. Þegar flogið er suður með bráðveikt eða slasað fólk er fráleitt að í framtíðinni skuli lent í útjaðri höfuðborgarsvæðisins eða enn fjær þessum sjúkrahúsum, hvað þá á Keflavíkurflugvelli, og auka þannig verulega við þann flutningstíma sem nú er. Lífsnauðsynlegt er að flugvélar í sjúkraflugi geti að jafnaði lent í Reykjavík. Við sem ritum nöfn okkar hér undir gerum þá kröfu til allra sem um þetta mál fjalla, að tryggt verði um ókomna tíð það greiða aðgengi að höfuðborginni, og sérstaklega sjúkrahúsunum þar, sem Reykjavíkurflugvöllur veitir okkur í dag. --- Siglfirðingar látum okkar álit í ljós og skráum okkur öll. -- Framfarafélagið Snorri Pálsson

Miðvikudagur 2. nóvember 2005

Áhugaverð skrif ungs manns, sem eru þess virði að slappa af yfir og lesa til enda.

Það er Siglfirðingur sem skrifar - Sonur Leós R Ó og Sigrúnar. Þú færð rós í hnappagatið frá mér Leó Ingi. --

Smelltu HÉR --

Því miður, þá finnst ekki síðan nú við uppfærslu árið 2019

Miðvikudagur 2. nóvember 2005 Skíðasvæðið opnað í dag -- Gamla aðferðin notuð við "snjóframleiðslu -- "

Á meðan Akureyringar og Dalvíkingar eru í harðri samkeppni um það hvor verður á undan að gangsetja snjóframleiðslutækin skjóta Ólafsfirðingar þeim ref fyrir rass og opna sitt skíðasvæði með góðum snjó í brekkunum sem kom bara upp á gamla mátann ofan úr skýjunum. Skíðasvæðið verður opnað eftir nokkrar mínútur eða klukkan 14 og verður opið til klukkan 18 í dag. ---- Þessi frétt er úr www.dagur.net í dag

Er ekki nægur snjór í Skarðsdal ?

Fimmtudagur 3. nóvember 2005

Ein gömul: Í fótbolta 1976(?) Ath: Mig langar mig að benda á að myndin er mjög sennilega tekin 1966 - 67 og byggi ég það á þrennu. Fyrri ástæðan er sú að á myndinni má þekkja Jóhann Skarphéðinsson í baráttu við markmann gestaliðsins og æfði hann knattspyrnu einvörðungu til 14-15 ára aldurs (flutti suður eins og fleiri), en hann er fæddur 1953. Í annan stað hef ég trú á að hann sé þarna á yngra ári sínu í 4.flokki og myndin því tekin 1966 og undirritaður því að spila þarna aftar á vellinu í vörninni á eldra ári í sama flokki. Síðasta forsendan er sú sem gleggst er fyrir alla velunnara knattspyrnu á Sigló, en hún er sú að KS-búningarnir sem þarna eru notaðir voru löngu aflagðir 1976. Ég er ekki frá því að leikmaðurinn sem er fjær sé Gunnar Trausti Guðbjörnsson. -- Meira til gamans gert en að málið sé af einhverju mikilvægi. Kær kveðja, Guðmundur. Stefán --

Þetta er mjög sennilega rétt hjá Guðmundi, en þessi mynd og fleiri svipaðar voru í filmumöppu minni frá árinu 1976 -- en hafa sennilega blandast þangað fyrir mistök, úr safni "Halla Nonna" sem þá hefur tekið myndina. En ég varðveiti filmusafnið hans. SK

Fimmtudagur 3. nóvember 2005 Tvær vinkonur mínar sendu mér þessar myndir sem teknar voru í gær, án þess að þær vissu af hvor annarri, enda á sitt hvorum stað í bænum. Katrín Sif Andersen tók myndina til vinstri klukkan 19:52 -- Og Hrönn Einarsdóttir hina klukkan 17:09 en -- Hvar var ég með mína vél? - Þetta fór fram hjá mér.




Fimmtudagur 3. nóvember 2005

Aðalfundur Siglfirðingafélagsins

Fimmtudagur 3. nóvember 2005

Aðsend beiðni:

Breyttur tími: - Bingó-Happdrætti Kvenfélags Sjúkrahússins þann 6. nóvember næstkomandi hefst klukkan 14:00 en ekki klukkan 16:00 eins og stendur í Tunnunni



Föstudagur 4. nóvember 2005

Ein gömul:

Ég veit hverjar þær eru, amk. flestar, en ég hefi ekki nöfnin þeirra allra á takteinum, en ef einhver vill vera hjálplegur, - þá sendir hann mér nöfnin og ég færi þau inn.

Því miður er myndin ekki skörp, en vekur þó minningar. Tekið 1975(?)

Föstudagur 4. nóvember 2005 Skíðasvæðið í Skarðsdal Verið var í morgun að moka leiðina upp að Skíðasvæðinu í Skarsdal, snjótroðarinn var mættur á svæðið og undirbúningur á fullu við að opna svæðið - Hvort það tekst í dag að ljúka við það er ekki vitað, en væntanlega verður svæðið tilbúið á morgun. Nánar verður sagt frá því hér á Lífinu á Sigló

Laugardagur 5. nóvember 2005 Ein gömul: Þessi mynd er ekki frá sviðsetningunni frægu á Ivo Jima , heldur hátíðleg og raunveruleg stund hjá Skíðafélaginu þegar fyrsta mastrið við nýja skíðalyftu var reist í Hólsdalnum árið 1977. Á myndinni eru: Sigurjón Erlendsson sem leit á klukku sína rétt áður en hafist var handa, -- Ágúst Stefánsson og Bjarni Þorgeirsson






Laugardagur 5. nóvember 2005 Frábært lesefni - Það leynast margir ritsnillingar á Íslandi:

Stolið úr dagbók: http://blog.central.is/hugdettur? =

"Ég fór á skemmtilegan fund í gær. Það var aðalfundur Félags húsbílaeigenda. Fundurinn var haldinn á Akranesi svo ég fékk að fara í gegnum göngin. Fundurinn hófst með því að formaður tilnefndi fundarstjóra.

Það tók 1 mínútu. Fundarstjóri kynnti gjaldkera sem fór yfir reikningana og niðurstöðutölur rekstrarársins. Það tók u.þ.b. 3 mínútur. Síðan var orðið gefið laust en enginn vildi tala svo formaður bauð til kaffis. Þá hafði fundurinn staðið samtals í tuttugu mínútur.

Kaffið tók 45 mínútur. Þá var byrjað aftur á fundinum. Næst átti að kjósa fólk í stjórn í stað fólks sem vildi hætta í stjórn. Uppstillinganefnd var búin að redda nýju fólki svo aðrir komu ekki til greina. Því var stjórnarbreytingin afgreidd með lófaklappi á 3 mínútum.

Svo var óskað eftir fjórum í ferðanefnd og fjórum í skemmtinefnd. Í þessar nefndir hafði uppstillinganefnd engin nöfn. Síðar fattaði ég af hverju. Það vantaði nefnilega tvo í uppstillinganefnd þar sem aðeins einn ætlaði að sitja áfram. Enginn vildi í skemmtinefnd. Enginn vildi heldur í ferðanefnd.

Samt tókst að fá ein hjón, aðallega af því að þau voru hneyksluð á áhugaleysi hinna. Þá var tekið hlé í tíu mínútur til að plotta og makka. Svo fékkst einn kall í viðbót og þá vantaði einn. Enginn vildi vera í skemmtinefnd. Þá ákvað fundarstjóri að stjórnin skyldi bara finna fólk í þau störf sem enn vantaði í.

Það var samþykkt með svakalegu lófaklappi. Þar klappaði langmest fólkið sem ekki vildi vera í neinni nefnd. Þegar það var búið var mig farið að langa í ís svo ég fór á Olíssjoppuna og keypti mér einn ol-ís í brauði með súkkulaðimúrhúð.

Meðan ég var að mölva niður múrhúðina leitaði ég að SÓLÓ en fann ekki. Líklega er hann kominn eitthvert í húsaskjól til lagfæringa. Kláraði ísinn minn niðri við smábátabryggju en fór ekki út af því það var komin rigning og ég vildi ekki blotna af því mér var illt í hálsinum. Svo fór ég heim. ------ Í dag er mér ennþá illt í hálsinum"

Laugardagur 5. nóvember 2005

Norðurlandsmót í Boccia var haldið í Íþróttahúsinu á Siglufirði í dag --

Ég skrapp á staðinn og tók nokkrar myndir.

Smelltu HÉR

Laugardagur 5. nóvember 2005 -- Það virðist sem "offramleiðsla" hafi verið á verðlaunapeningum, þannig að mér var veittur einn. - Ég (SK til hægri) fékk aldrei rökstudda skíringu á því fyrir hvað Hörður Júlíusson útibússtjóri Íslandsbanka sem var aðal fjárfestir vegna verðlauna, veitti keppendum og þáttakendum verðlaun og "afganginn" mér eins og fyrr segir. Ljósmynd: Sveinn Þorsteinsson + Myndasyrpa Guðný Óska Friðeiksdóttir