Sunnudagur 20. febrúar 2005 -- Ein gömul:
Áður en göturnar voru breikkaðar og malbikaðar.
Sunnudagur 20. febrúar 2005 -- Þorrablót Allans var í gærkveldi, þangað skrapp ég og tók nokkrar myndir áður en borðhaldið sjálft hófst.
Sunnudagur 20. febrúar 2005
Það var nóg að gera hjá vinkonunum í Aðalbúðinni við að afgreiða blóm í tilefni af konudeginum í dag.
Greinilegt var að mikill áhugi er á hjá ungum sem gömlum að gleðja "kellu" sína með blómvendi.
Mikið úrval var hjá þeim af blómum og vöndum, það var erfitt var að velja, sérstaklega fyrir karla eins og mig sem verð að játa að ég hefi reynt að gleðja konu mína með öðru en blómum hingað til.
Það verður opið hjá þeim í Aðalbúðinni til klukkan 15:00
Sigmar Magnússon er á myndinni hér fyrir neðan
Sunnudagur 20. febrúar 2005
Þeir trúa á vorið þessir feðgar Björn Jónsson smiður og sonur hans Jón Ingi Björnsson, þar sem þeir voru að mála fjölskyldubátinn í morgun, til að hafa hann ferðbúinn þegar grásleppan kemur.
Þetta er báturinn Ingiborg SI 60
Mánudagur 21. febrúar 2005 -- Ein gömul: Sörbukten við Jan Mayen. Bjargbáturinn á myndinni er af Haferninum, en þeir sem á myndinni eru, fengu að skreppa í land á eyjunni Jan Mayen. Það var blíðskaparveður og lágdauður sjór þegar lagt var í hann frá borði Hafarnarins, raunar alveg þar til við gerðum okkur klára til að taka land, búið var að drepa á vélinni til að vernda skrúfuna og árarnar teknar fram, þegar skyndilega eins og hendi væri veifað, komu hver stóraldan á fætur annarri og fleytti bátnum þversum langt upp á land með tilheyrandi gusugangi. Engum varð meint af nema menn blotnuðu rækilega. - Þarna erum við að búa okkur undir að snúa bátnum með stefnið til sjós. Allt tókst að óskum, því þarna voru hraustir strákar: Sigurður Jónsson bátsmaður - Bergsteinn Gíslason loftskeytamaður - Sigurður Ásgrímsson dagmaður í vél - Guðbrandur Sigþórsson háseti og Guðmundur Björnsson dælumaður - Það sést rétt á einn okkar á bak við Sigurð Jónsson, sem er Sigurjón Kjartansson háseti.- Haförninn flutti síld frá síldarmiðunum.
Timburmaðurinn Steingrímur Kristinsson tók myndina sumarið 1967
Mánudagur 21. febrúar 2005 -- Þau eru nokkuð mörg áhugamálin sem Siglfirðingar stunda, sumir láta sér nægja fingurbjargir og jafnvel minna, aðrir kjósa að hafa það tröllaukið eins og þessir bílar á þessum myndum. Þessir bílar hefur verið breytt til torfæru og jöklaaksturs. Eigendur þeirra eru Gunnar Júlíusson útgerðarmaður mfl. og Guðni Sveinsson lögregluþjónn mfl. Þeir hafa unnið að þessum breytingum í frítímum sínum og notið til þess aðstoðar vina og kunningja, meðal annars Jóns Aðalsteins Hinrikssonar sjómanns mfl. sem er þarna á myndunum, en hann hefur dvalið þarna á "verkstæðinu" flestum frístundum sínum við bílana. Nú seinni partinn í dag mun hann fara á þeim sexhjólaða suður til að láta steypa á bílinn hjólabretti úr trefjaplasti
Þriðjudagur 22. febrúar 2005 Ein gömul: "Verðlaunamynd" ? Spurningin er: Er þetta verðlaunamyndin, eða sú sem fyrrverandi verkstjóri minn og vinur, Jóhann G Möller er að taka og Hólmfríður Magnúsdóttir fylgist svo náið með ? - Raunar var Hólmfríður að forðast það að verða fyrir myndasmiðnum, en mér tókst að ná þessu augnabliki. Jóhanni var skemmt er hann sá myndina, en Jóhann var þarna að taka myndir fyrir Alþýðublaðið er ný verslun K.F.S. var tekin í notkun ári 1966.
Þriðjudagur 22. febrúar 2005 -- Febrúarblað Hellunnar er komið út: Meðal efnis er opnuviðtal við skíðakappann Birgi Guðlaugsson, umfjöllun um útnefningar Kaupmannafélags Siglufjarðar um „Siglfirðinga mánaðarins“, opna með efni frá Grunnskóla Siglufjarðar, fréttir úr bæjarlífinu, myndir frá öskudeginum og fastir þættir í blaðinu, eins og sjávarsíðan og vísnahornið....
Þriðjudagur 22. febrúar 2005 -- HJÓL M/HJÁLPARMÓTOR - VALUR JOHANSEN -Söfnunin hefur gengið framar öllum vonum! Að sjálfsögðu vissum við öll að fólk hér í bæ og víðar kom svo í ljós, myndi taka sig saman þegar eitthvað svona á í hlut, ennnnnnnn.......
Meira neðst á þessari síðu. ++ Lesa má um upphaf söfnunarinnar á síðunni Lífið 13-19. febrúar
Þriðjudagur 22. febrúar 2005
Fyrstu pensilför vorsins ?
Mark Duffield málarameistara úti við í ár, voru framkvæmd í morgun í birtingunni, þessi mynd af var tekin klukkan 11 í morgun er hann var að mála hús Efnalaugarinnar við Aðalgötu. Fyrstu pensilför hans úti við á síðasta ári voru 20 apríl, er hann hóf málningu á húsinu Aðalgata 2-
Eru þetta "gróðurhúsaáhrif" eða bara eðlilegt náttúrufyrirbrigði þetta tíðarfar? En í gær um klukkan 16:00 komst hitinn í 15 °C og nær allur snjór farinn, -- nema í Skarðsdal.
Þriðjudagur 22. febrúar 2005
Aðsent:
Þá er talstöðin í Björgunarskýlið í Héðinsfirði komin á sinn stað og þökkum við Beco og Radíóþjónustu Sigga Harðar fyrir gjöfina.
Ég fór kl. 9.30 í morgun til Héðinsfjarðar og setti stöðina upp og prófaði og virkar hún vel.
kv Ómar Geirsson / Björgunarsveitin Strákar
Miðvikudagur 23. febrúar 2005 --- Ein gömul: Bergsveinn Gíslason loftskeytamaður í góðum félagsskap.
Með Haferninum í Rotterdam árið 1967: Guðný Ósk Friðriksdóttir, Halla Jóhannsdóttir, Bergsteinn Gíslason og Birna Björnsdóttir. Þau standa þarna við ísbíl og gæða sér á ís, þó svo að hitastigið hafi ekki verið í hærri kantinum á þessum tíma í Rotterdam að vori. Þau skruppu í land til að versla og skoða sig um í borginni.
Mynd tekin með myndavél Guðnýjar af ókunnum manni. (Olumpus half frame vél)
Miðvikudagur 23. febrúar 2005
Þessi tvö fley, komu inn fjörðinn í gær um klukkan 14:00.
Olíuskipið Keilir og netabáturinn Kristinn Friðrik SI 5 102
Miðvikudagur 23. febrúar 2005 -- Kveðja frá Kanada.
Komdu sæll og blessaður vinnur, Hvernig hefurðu það? Héðan er allt gott að frétta. Veðrið er heitt og dásamlegt og það er alltaf nóg að gera. Ég lofaði að senda þér nokkrar ljósmyndir af brúðkaupi okkar Kym og vona að þú getir birt þær á Lífið á Sigló.
Brúðkaup Chris og Kym í Canada - 28. desember 2004 - Hjónavígslan okkur fór fram þann 28 des. 2004 uppi í sveit í 9,000 manna bæ sem heitir Trail, 800 km austur af Vancouver. Þar bjuggu afi minn og amma í gamladaganna og fjölskyldan mín er enn tengd svæðinu. Það komu 50 manns í brúðkaupið og veðrið var ofsa fallegt. Þetta var náttúrulega kanadískt brúðkaup og tilfelli á skautum! Og svo keyrði Kym Zamboni vélina sem kom gestunum mikið á óvart! Þá var skemmtilegt skautapartý á dagskrá. Seinna meir var borðað og drukkið, alveg helling af spaghetti, og rauðvín frá besta framleiðanda í Kanada. Við Kym biðjum að heilsa öllum á Siglufirði og viljum heyra frá sem flestum. Endilega hafið samband á netfangið chrisogkym@yahoo.ca
Miðvikudagur 23. febrúar 2005
Þessi steinn sem þarna sést á brúninni rétt vestan við munna Strákagangna og Hreinn Júlíusson stendur við, kom ofan úr fjallinu einhvern tíma í nótt.
Steinninn lenti á vegarkantinum fjall megin, síðan á vegriðinu, yfir það og stöðvaðist á brúninni.
Gott að enginn var á ferðinni þarna á þessu augnabliki.
Miðvikudagur 23. febrúar 2005 -- MENNINGARSJÓÐUR SPARISJÓÐS SIGLUFJARÐAR
Sjóðurinn auglýsir hér með eftir umsóknum um styrki vegna menningar- og líknarmála. -- Með umsókn þarf að fylgja til hvers styrkurinn er ætlaður. Frestur til að skila inn umsókn er til mánudagsins 7. mars nk Sjóðurinn mun styrkja á árinu 2005 samtals kr.1.850.000. Umsóknir óskast sendar til: Menningarsjóðs Sparisjóðs Siglufjarðar, Túngötu 3 Siglufirði
Nánari upplýsingar veita stjórnarmenn, Ólafur Jónsson, Guðrún Árnadóttir og Hermann Jónasson
Fimmtudagur 24. febrúar 2005 -- Ein gömul: 1964 +/-
Kristján Ásgrímsson síldarsaltandi og kona hans Guðrún Sigurðardóttir
Fimmtudagur 24. febrúar 2005 -- Leikskálakrakkarnir, einn aldurshópurinn var í göngutúr um norðurbæinn í morgun ásamt fóstrum sínum. Ég mætti þeim og bað um að fá að taka ljósmynd af hópnum, sem mér var veitt fagnandi.
Fimmtudagur 24. febrúar 2005 -- Þessir krakkar voru bæði að selja, kaupa og forvitnast. Þau stilltu sér upp fyrir mig. Allur ágóðinn af þessari Torgsölu krakkanna rennur til Rauðakrossins, ágóðinn sem raunar er 100% þar sem allur söluvarningurinn eru hlutir sem þau hafa fengið gefins með hús úr húsi söfnun, í tilefni af þessu jákvæða málefni. Þau eru þarna við anddyri Íslandsbanka og Siglufjarðarapóteks.
Föstudagur 25. febrúar 2005
Ein gömul:
Á Hvanneyrarbrautinni árið 1965. Jarðýtan þarna komin til að bjarga vélskóflunni frá veltu, sem tókst með miklum tilþrifum og víraflækju.
Föstudagur 25. febrúar 2005
Aðsent:
Ég var á göngu niðrá bryggju og varð mjög hissa þegar ég tók eftir þessu, enda svolítið mjög áberandi.
Frekar mikill sóðaskapur í fólki, algjör óþarfi að henda þessu bara beint í höfnina og akkúrat á svona áberandi stað, þetta var þarna vítt og dreift um þetta svæði þar sem hann er á. GH
ES: mér sýnist þetta vera inni í Bátadokkinni, en bryggja og stefni báts speglast þarna í annars tærum sjónum. SK
Föstudagur 25. febrúar 2005
Aðsent: -- 24. Febrúar 2005 -
Fyrirlestur í efra skólahúsi Grunnskóla Siglufjarðar- Ólafur sparisjóðsstjóri og Sigurður skrifstofustjóri skelltu sér í skólann í dag og héldu fyrirlestur fyrir nemendur í 9. og 10. bekk.
Fræddu þeir nemendur meðal annars um starfsemi Sparisjóðsins, styrki sem Sparisjóðurinn veitir, sparnað, lántöku og hvað það þýðir að gerast ábyrgðarmaður. Í lok fyrirlestrar tilkynntu Ólafur og Sigurður að Sparisjóðurinn mun bjóða nemendum fría rútuferð á Samfés dansleik sem farið er á, á vegum Æskulýðsheimilisins. Myndir sem teknar voru við þetta tækifæri geturðu skoðað með því að smella hér á vef Sparisjóðsins. kveðja DP --
Þessi vefur er því miður ekki aðgengilegur í dag, en upp kemur nú "síða Arionbanka
Föstudagur 25. febrúar 2005
Aðsent:
Hér er Styrbjarnardys sagði Steini verkfræðingur, er hann gekk um Dalaskarð fyrir skemmstu við annan mann.
Styrbjörn stal mat úr hjalli nágranna síns til forna, var eltur uppi á leið yfir Skarðið, drepinn eins og hver annar ótíndur glæpamaður og heygður á staðnum.
Misjöfnum sögum fer af því hvort hann bjó á Hóli eða var húskarl á Dalabæ eða í Höfn. --
Þarna er ráðgert að leggja vegarslóða næsta sumar úr Skarðdal og norður að Hafnarhyrnu vegna stoðvirkjanna sem setja á upp ofan Fífladala. Í baksýn er Snókur og enn fjær er Hólsskarð og Almenningshnakki. ÖK
Laugardagur 26. febrúar 2005 -- Ein gömul: Sunna "brennur" í júní 1963.
Eins og sjá má í dag,- þá tókst slökkviliðinu fljótt og vel að ráða niðurlögum eldsins sem flestir bjuggust við í fyrstu að mundi ekki takast þar sem eldsmaturinn var mikill.
Laugardagur 26. febrúar 2005 -- Skíðasvæðið í Skarðsdal. Nægur snjór er þar ennþá þrátt fyrir að víða sé snjórinn horfinn úr byggð og hlíðum. Aðeins á einstaka stað á braut lyftanna hefur þurft að flytja snjó aðeins til, en allsstaðar uppi í dalsbotni er nægur snjór. Fólk kemst með lyftunum óhindrað á dásamlegt skíðasvæði, eins og einn Reykvíkingurinn sem ég mætti sagði við mig á ferð minni þar uppi í dag eftir hádegið. Myndir HÉR
Sunnudagur 27. febrúar 2005
Ein gömul:
Bílvelta á Hvanneyrarbraut fyrir 40 árum.
Engin slys urðu, en bílstjórinn tók ekki eftir (eða mundi ekki) vegagerðar framkvæmdunum er hann kom heim til sín í myrkri um hánótt.
Sunnudagur 27. febrúar 2005 Aðsent: --- Hefur lagning vegslóða á Hafnarfjalli farið í umhverfismat? Ef ekki er ekki þörf á því, eða fellur slík vegalagning undir framkvæmdir sem þegar eru í gangi í fjallinu? Hér er þó um annað "svæði" að ræða, án þess að ég reyni að skilgreina það. Ég held að Siglfirðingar verði að hugsa svolítið betur um umhverfi sitt því staðurinn hefur í dag helst aðdráttarafl í gegnum upplifun á ýmsum hlutum, og þá tala ég um ferðamennsku (söfn, útilíf, menning). Staðurinn verður ekki ómerkilegri við það að skreyta hann vegi en upplifunin verður skert. Þetta er svæði sem ég heimsæki alltaf er ég kem heim og þekki ég vel til þarna uppi. Það eru fáir orðnir staðirnir á Íslandi sem við mennirnir höfum ekki merkt okkur og nokkrir eru í og við Siglufjörð. Er ekki óþarft að bæta gráu ofan á svart?
Kveðja, Ásbjörn Thór Á. Blöndal, Noregi. ---------------
Þetta erindi sýnist mér vera beint til okkar Siglfirðinga "sem heima" sitjum og ef einhver vill eitthvað til málanna leggja til viðbótar, þá skal ég koma því hér fyrir á síðu minni. En ég vil leggja orð í belg. Mig langar til að lýsa ánægju minni yfir því að einhverjum hefur dottið í hug að gera göngustíga um fjöllin okkar, sem er raunin. Ég var eins og fluga upp um öll fjöll þegar ég var ungur, en er vart til þess fær nú, en ef til vill gæti ég og fleiri sem komnir eru af léttasta skeiði upplifað þá ánægju aftur að ganga á fjöll, þegar göngustígarnir koma. Og að lokum; mér finnst að þessir svokölluðu náttúrusinnar ættu að gera sér grein fyrir að þó svo að margir þeirra séu hávaðasamir, þá hefi ég þá trú að þeir eigi ekki eins marga samherja og þeir láta í veðri vaka. Og svokallað umhverfismat einhverra pólitísktráðna manna með misjafnar skoðanir og oft á tíðum enga þekkingu á viðkomandi tilefni, er ekkert annað bull í mínum huga hvað göngustígana varðar,- að minnsta kosti.
Sunnudagur 27. febrúar 2005
Aðsent:
Myndir frá einsöngs- tónleikum nemenda á 6. stigi við Tónlistarskóla Siglufjarðar.
Tónleikarnir sem voru vel heppnaðir, voru haldnir í Siglufjarðarkirkju þann 16. febrúar síðastliðnum.
Þessir nemendur eru tenórarnir Björn S. Sveinsson og Þorsteinn B. Bjarnason. Kennari þeirra og undirleikari er Renáta Ilona Iván. Kv EÞ.
Sunnudagur 27. febrúar 2005
Pálshús - Mjóstræti 2-
Það sem vakir fyrir mér vegna þessarar myndar, er að geta þess að þessi gata Mjóstræti. Þar sem aðeins tvö hús eru kennd við; númer 1 og 2, og að ég held megi fullyrða; eina gatan á Siglufirði sem ekki er hægt að keyra enda á milli vegna lítils snjóruðnings, skafl sem þarna er eftir hindrar.
Þeir sem eiga Pálshús eru þar fæddir og uppaldir, þó svo þeir starfi á Suðurlandinu, en þeim gæti dottið í hug að skreppa "heim" sem þeir gera mjög oft á ári, þá væri gott að þessi ruðningur væri farinn, ein skóflustunga með tæki
Mánudagur 28. febrúar 2005
Ein gömul:
Sama svæðið, og hér fyrir neðan, tekið frá öðru sjónarhorni árið 1943
Ljósmynd: Hinrik Andrésson
Mánudagur 28. febrúar 2005
"Villimannahverfið" - var þetta svæði sem sést á myndinni kallað á unglingsárum mínum 8 -15 ára.
Þarna á þessu svæði bjuggu annálaðir prakkarar sem voru "heimsfrægir" í augum "kjaftakerlinganna og karlana" sem áttu í eilífu stríði við "pörupiltana" sem þarna réðu ríkjum, Meðal annarra þann, sem fæddist og átti heima í dökk gula húsinu með brúna þakinu, fyrir miðri myndinni og var þar í forystu á svæðinu um árabil.
Flest húsin sem prakkararnir áttu heima í eru horfin, en minningin lifir enn í hugum margra.
Þar á meðal mín sem fæddist í húsinu númer 1 við Mjóstræti. Myndin var tekin klukkan 14:00 í gær.
Mánudagur 28. febrúar 2005
Aðsent: Myndir frá Goðamótinu á Akureyri sem lauk í gær á Akureyri. En við sendum A,B og C lið í 5. flokki. Stelpurnar í 5. flokki stóðu sig vel og yngsta liðið gerði sér lítið fyrir og náði 2. sæti í mótinu sem er frábær árangur sérstaklega þegar litið er til þess að þær voru að spila gegn mun eldri stelpum.
Nöfnin á stelpunum ef við byrjum á efstu röð frá vinstri: Margrét Baldursdóttir (Baldurs Ben.), Kristín Júlía Ásgeirsdóttir (Ásgeirs og Huldu), Rebekka Rut (Rósu Daggar), Katrín Ásgeirsdóttir (Ásgeirs Sölva og Erlu), Daníela (Önnu Hermínu og Jóa), Róbert Haraldsson þjálfari. --
Neðri röð frá vinstri: Jóhanna Jóhannsdóttir (Jóa Mara), Margrét Thelma. (Vals Bjarna), Ástrós Jóhannesdóttir, (Bjarka og Esterar), Helga Eir (Huldu og Sidda) og framan þær er Selma Dóra markvörður liðsins (Óla og Dóru Sallýjar).
Á myndina vantar 3 stelpur sem að voru líka að keppa Það voru þær Kristín Margrét, Sabrína og Hrafnhildur.
Með kveðju, Hulda.
Þakkarbréf 2005
Frá Katrínu Andersen og Val - 22. febrúar 2005
HJÓL Með HJÁLPARMÓTOR
- VALUR JOHANSEN -
Söfnunin hefur gengið framar öllum vonum!
Að sjálfsögðu vissum við öll að fólk hér í bæ, og víðar kom svo í ljós, myndi taka sig saman þegar eitthvað svona á í hlut, ennnnnnnn.......
...Að á fyrstu 2 tímunum voru kr 21.500 komnar frá einstaklingum og það var á meðan ég fór í bæinn og dreifði bréfunum! Sem er allt síðunni Steingríms að þakka.....
...Að á fyrsta sólarhring voru kr 300.000 komnar inn frá einstaklingum og fyrirtækjum!
Þegar þau fyrirtæki og félög hér í bæ voru búin að fá samþykki, tókst okkur að safna fyrir hjólinu og vel það.
Þess vegna pantaði ég aukahluti sem okkur hafði ekki dreymt um að geta gert og það er td. bakkgír, stór karfa aftan á hjólið ofl.
Svo er til afgangur í viðhald og nýtt batterí þegar þar að kemur.
Ég veit ekki alveg hvernig ég á að segja ykkur hvernig þetta skeði en málið er að þegar ég fékk bréfið í hendur frá TR fór ég beint heim og skrifaði þetta annars hálf danska bréf til ykkar og án þess að lesa það yfir eða að ná að hugsa málið mikið lengra var ég farin af stað!!!
Þetta skeði allt saman svo hratt að ég fékk strax tækifæri til að segja Val frá þessu öllu saman.
Ég vildi fyrir það fyrsta, ekki vekja hjá honum falskar vonir um hjól en þegar ég mætti í vinnuna daginn eftir hringdi ég í Val til að segja honum fréttirnar því þá voru komnar kr 200.000. Hann átti ekki til orð yfir að fólk hér í bæ og annarstaðar hugsaði svona og gæfi honum styrk! Hann gat ekki annað en grátið yfir þessum ósköpum og kom ekki neinu orði upp.
ER EKKI GOTT AÐ HJÁLPA ÖÐRUM !
Við höfum engin orð yfir hversu STÓRT þetta er sem þið hafið gert. Við getum ekki þakkað ykkur nóg fyrir allan skilninginn, hjálpina og hvað þá stuðninginn á þessu máli.
En ég get þó sagt ykkur að ég hringdi í Danina sem búa til hjólið og þeir töluðu um að setja það á flutning þann 02. mars.
Valur gat valið á milli 3ja lita og hann valdi að sjálfsögðu “stráka” litinn bláan ;)
Og þegar ég nefni “stráka” er það vegna þess að hann bíður eins og lítill strákur eftir jólunum.
Hann er það spenntur að ég er mest hrædd um að hann sé með Reykjarvíkurferð á prjónunum, að hann stingi svo í samband á Ketilás og svo koll af kolli......
ENN OG AFTUR EINS OG MAÐUR SEGIR Á DÖNSKU,
- TUSIND TAK FOR HJÆLPEN -
KÆR KVEÐJA,
KATRIN SIF ANDERSEN & VALUR JOHANSEN