Lífið 1.-8. apríl 2006

Fréttavefurinn Lífið á Sigló

1. til 8. apríl 2006

Laugardagur 1. apríl 2006 Ein gömul: Þessi er úr Æskulýðsheimilinu við Vetrarbraut, sennilega árið 1965


Laugardagur 1. apríl 2006

Aftur risapottur í getraunum!! -

Þar sem engin tippari var með 13 rétta síðast þá er risapottur í Íslenskum getraunum um helgina og er reiknað með að 1. vinningur verði 55 milljónir.

Tipparar ætla að sjálfsögðu að gera tilraun til þess að ná í þessar millur og við tökum sameiginlegan seðil á laugardag......meira HÉR

Tengill ekki virkur

Laugardagur 1. apríl 2006 Nýtt andlit á Fréttavefinn Lífið á Sigló er væntanlegt áður en langt um líður, þar verður um hreina byltingu að ræða hvað aðgengi og útlit snertir. Margar nýungar munu bregða fyrir augu þeirra sem skoða. Þar á meðal ein alveg sérstök, sem á sér margra mánaða aðdraganda og undirbúning, og verður ekki aðgengilegt á öðrum vefum en "Lífið á Sigló".

Eins og þeir vita sem fylgst hafa með síðu minni, þá kom ég upp bæði fullkominni veðurstöð og einnig vefmyndavélinni góðu á síðasta ári með aðstoð margra góðra manna, Baldvins Einarssonar, Róberts Guðfinnssonar og margra fleiri, og þá ekki hvað síst dyggri verklegri aðstoð SR-Vélaverkstæðis við smíði og uppsetningu búnaða. Þessu samstarfi er ekki lokið, því þegar nýi vefurinn Lífið á Sigló kemur í gagnið á næstunni, þá mun jafnhliða tekin í notkun beintenging við gervihnött á vegum GOOGLE, lifandi myndskeið (mjög skýr mynd) yfir Tröllaskaga, þar sem greinilega má sjá móta fyrir húsum og götum bæði á Siglufirði og í Ólafsfirði, það er þegar skýjafar hindrar ekki útsýn. Að þessu samkomulagi við GOOGLE hafa unnið í sameiningu, þeir Róbert sem er með annan fótinn að jafnaði í Bandaríkjunum og Baldvin hjá Beco - Þá hefur Sigurður Kristinsson kerfisfræðingur hjá SR-Vélaverkstæði séð um uppsetningu á hinum háþróaða tækni og móttökubúnaði sem komið hefur verið fyrir neðan við húsið mitt við Hvanneyrarbraut 80 á Siglufirði. - Það er heimili mitt. - Síðar með viðbótarbúnaði verður hægt að skoða einstök svæði, svo sem Torgið á Siglufirði, jafnvel þekkja fólk á götu.

Laugardagur 1. apríl 2006 -- Loftseinar falla á jörðina annað slagið, oftast þó agnalitlir. Einn slíkur féll á "Siglufirði" þan 6. september árið 1961 - Vitni voru að þessu tilviki, þar á meðal Jón Þorsteinsson bifreiðarstjóri. En í Þjóðviljanum er vitnað er í forvitnilegt viðtal Hannesar Baldvinssonar við Jón um fyrirbærið. Þar sem ég hefi aðeins ljósrit af nefndri grein, þá kemur hún ekki hér með, en Jón lýsir þessu sem mislitri ljósrák á leið sinni til jarðar, þar sem "loftsteinninn" lenti á tunnugjörð rétt við bíl hans og splundraðist, en eftir varð klessa á stærð við 25eyring (um 12 mm) - Fór Jón með þetta til lögreglunnar, sem síðar ásamt Guðbrandi Magnússyni sendi í pósti til Páls Bergþórssonar veðurfræðings. Ekki er að efa að Hannes Bald man eftir þessu atviki, en nú, mörgum árum seinna vaknaði hjá mér spurning við lestur greinarinnar. --- Hvað varð um þennan loftstein? Hver varð niðurstaða veðurfræðingsins Páls Bergþórssonar ? -

Ég spyr þar sem eiginkona Jóns heitins veit ekki til að nokkru sinni hafi verið haft samband við Jón til að lofa honum að fylgjast með málavöxtum, hvað þá að fá "steininn" góða til baka. Fróðlegt væri ef einhver vissi eitthvað um niðurstöður þessarar rannsóknar hjá Páli Bergþórs og léti "Lífið á Sigló" að vita.

Laugardagur 1. apríl 2006

Skútudalur, frumniðurstöður mælinga á snjóflóðiðnu frá 19. febrúar --- Frumniðurstöður á mælingunum tveggja jarðfræðinga frá snjóflóðadeild Veðurstofunnar gefa til kynna að flóðið hafi verið u.þ.b. 1,2 milljón rúmmetrar. Til samanburðar var "Flateyrarflóðið" mikla 1995 um 430 þúsund rúmmetrar. Flatarmál snjóflóðatungunnar er hóflega áætlað um 1,4 milljón fermetra. Þykkt flóðtungunnar var mæld á 338 stöðum. ---- Þegar búið er að einfalda útlínu flóðtungunnar (taka frá alla smásveiga, flöktið í GPS mælingunum og setja tunguna í tvívíðan flöt) þá var mæld útlína 12,8 km og vantar þá nyrsta hluta flóðtungunnar, um 750 metra, sem ekki var GPS-mældur.

Ekki er búið að merkja brotlínuna inn á kort en í fljótu bragði virðist brotlína meginflóðsins, eftir fjallaeggjum frá Hestaskarðshnjúk og inn fyrir Dísuna, vera um 4,5 km löng. ÖK -- Myndin sýnir hluta snjóflóðasvæðisins


Laugardagur 1. apríl 2006

"Nýjar fréttir" af loftsteininum sem sagt er frá hér aðeins ofar:

1961 – FYRSTI LOFTSTEINNINN SEM FANNST

Guðbrandur Magnússon segir frá því í tímaritinu Veðrinu að 6. september hafi Jón Þorsteinsson bílstjóri á Siglufirði komið auga á blys á suðvesturloftinu "og fylgt því með augunum þar til hann hélt það mundi lenda á bíl hans, en það hafnaði á járngjörð á síldartunnu sem var rétt hjá honum."

Þetta var lítill loftsteinn sem var sendur Veðurstofunni.

Páll Bergþórsson segir í sama riti að Jón hafi verið heppinn að "verða sjónarvottur að svo sjaldgæfum viðburði sem þessum og síðan finnandi að fyrsta loftsteininum sem menn vita til að hér hafi náðst." -- Úr bókinni Siglfirskur annáll eftir Þ. Ragnar Jónasson.


Sunnudagur 2. apríl 2006

Ein gömul: Líf á Torginu --

Framkvæmdir við byggingu ráðhússins hófust í ágúst 1961 og húsnæði Bókasafnsins var tekið í notkun í nóvember 1964.

Myndin gæti því verið tekin 1962-1964, líklega þó 1963.

Sunnudagur 2. apríl 2006 -- Hrognkelsaveiði hefur gengið bærilega að undanförnu þá þegar gefið hefur á sjó, en tíð hefur verið rysjótt. Myndirnar hér fyrir neðan, eru frá komu og löndun bátsins Ingeborg SI 60 6677 seinni partinn í gær.

Mánudagur 3. apríl 2006 -- Þarna eru tvær dúfur að fá sér að drekka úr ferskri tjörninni við Síldarminjasafnið, önnur hættir sér út á veikan klakann, en notar fjöruborðið, en matar síns njóta nokkrir tugir dúfna daglega frá nokkrum dúfuvinum. Þessi á fluginu var á sveimi í nágrenninu

Mánudagur 3. apríl 2006

Það er af fleirum farartækjum en bílunum, sem hreinsa þarf af framrúðunni, nú síðustu daga. En þessi er þó ekki á ferðinni daglega, svo nóg er að líta eftir honum annað slegið. Þetta er Anna SI 6 við Togarabryggjuna á Sigló í gær

Mánudagur 3. apríl 2006 -- Nægur snjór, eins og raunar hefur verið í allan vetur á Skíðasvæðinu í Skarðdal. Það á raunar við um láglendið núna einnig sem gefur skíðaáhugafólki góð tækifæri jafnt á gönguskíðum, brekkuskíðum og snjóbrettum.-

Komið og heimsækið Skíðasvæði Siglfirðinga um páskana, sem og aðra daga. Þar er ekta snjór, hvorki gervi né aðfluttur - Besta skíðasvæði landsins

Mánudagur 3. apríl 2006 -- Vefmyndavél er komin á Skíðasvæðið í Skarðsdal smellið HÉR og veljið annað hvort ActiveX eða Java Mode -- https://www.skardsdalur.is/ -- http://157.157.79.85:8080/view/index.shtml

Þriðjudagur 4. apríl 2006 - Ein gömul: Það hafa orðið miklar breytingar á þessu umhverfi frá 6. áratug fyrri aldar sem þessi mynd sýnir, og því umhverfi sem blasir við í dag árið 2006




Þriðjudagur 4. apríl 2006

Snjóbarinn toppur Strákafjalls í gærdag.

Sól og skafrenningur

Þriðjudagur 4. apríl 2006 -- Ég leit inn hjá "Siglufjarðarseigur" til að gá hvernig gengi með smíði plast bátsins sem smíði á hófst 4. mars síðastliðinn. Þar hitti ég fyrir þá Sverrir Júlíusson og Stefán Jóhannsson, en þeir voru í "handavinnu" eins og Sverrir Sagði og glotti. En þeir voru að vinna viðundirbúning við innréttingar í bátinn ofl.

Þriðjudagur 4. apríl 2006

Snjórinn á götum bæjarins er farinn að minnka og sést víða orðið í malbilkið eftir snjóanna að undanförnu, en hitinn hefur farið nokkrum sinnum vel yfir núllið í gær og í dag.

Talsvert var um snjó á götunum í bænum, dæmi má sjá á snjóruðninginum vestan við Hvanneyrarbrautina á þessari mynd.

Þriðjudagur 4. apríl 2006 --- Rjúpan er að vísu friðuð eins og segir í fréttum og reglugerðum, en Sveinn Þorsteinsson sem var á leiðinni heim í mat nú í hádeginu, lét það ekki á sig fá og gaf skít allar reglugerðir og skaut "föstu skoti" á þessa rjúpu þar sem hún var að spóka sig í góða veðrinu við Hlíðarveginn. Þessi rjúpa verður þó ekki tilreidd, hvorki á matarborði páska né jóla, því Sveinn var með myndavél sína að vopni.

Miðvikudagur 5. apríl 2006

Ein gömul:

Þessi mynd þarfnast varla skýringa, en fyrir þá af yngri kynslóðinni: Þarna var oft mikið fjör á svæði Sérleyfisstöðvar Siglufjarðar þeirra Sleitustaðarbræðra Búdda og Nonna, framan við Eyrargötu 14.

Ljósmynd: Halli Nonni

Miðvikudagur 5. apríl 2006 -- Gripið af www.dagur.net í gær --- Ólafsfjörður / Siglufjörður --- 97 tillögur bárust um nafn á sveitarfélagið. Á morgun verða kynntar 97 tillögur sem bárust um nafn á hið nýja sameiginlega sveitarfélag á Ólafsfirði og Siglufirði. Frestur til að skila inn tillögum rann út þann 24. mars. sl . Eitthvað var um það að sama nafnið kæmi fram í fleiri en einni tillögu þannig að alls eru nöfnin 71 sem nafnanefnd þarf að taka afstöðu til. Nafnanefnd mun funda á morgun miðvikudaginn 5. apríl um tillögurnar og verða nöfnin gefin upp að þeim fundi loknum. \ Ekki höfum við á Degi fregnað hvaða nöfn hafa verið nefnd en þó mun tillaga Sverris Páls Erlendssonar menntaskólakennara frá Siglufirði haf þótt athyglisverð. Hann lagði til að nöfnum gömlu sveitarfélaganna yrði hreinlega skeytt saman þannig að fyrri nafnliðurinn yrði tekinn úr nafni Siglufjarðar en sá seinni úr nafni Ólafsfjarðar. Þá yrði útkoman; Siglu-fjörður. ----- (SiglÓ væri betra: SK)

Miðvikudagur 5. apríl 2006

Siglufjarðarkirkja er vissulega tilkomumikið mannvirki og til sóma þeim sem að byggingu hennar komu. Myndin hér af kirkjunni er komin til vegna vangavelta minna um það við hvaða götu kirkjan stendur, en það er vegna eins af viðfangsefna tengdum vefnum Lífið á Sigló að setja eina húsmynd á vefinn daglega og númer viðkomandi húsa, sem raunar oft vill vefjast fyrir mér þar sem allt og margir húseigendur hafa ekki áhuga á að merkja hús sín. En það er önnur saga. Ég hefi flett nokkrum bókum þar sem Siglufjarðarkirkju er getið, en hvergi fundið vísbendingu um annað en að hún hafi verið byggð upp í brekkunni norður af Búðarhólnum og eða beint upp af Aðalgötunni. Á vegaskiltinu sem ber við tröppur kirkjunnar stendur Lindargata, húsið til hægri, Sambýlið er Lindargata 2- Lindargata 4 er "Barðahúsið." Þá er það Kirkjustígur, og þar sem hús númer 1 og 3 við Kirkjustíg eru tilgreind í þjóskrá sem íbúðarhús og ekkert hús (annað en kirkjan) norðan við, má draga af því ályktun að kirkjan sé hús númer 2 við Kirkjustíg. Sennilega er það svarið ? (myndin var tekin í gær fhd.) Þetta er orðin einskonar langloka hjá mér "út af engu" ! En mér bara datt þetta í hug !

Miðvikudagur 5. apríl 2006-

Eitt það besta sem fram hefur komið á vegum Íslenskra ljósvakamiðla er að mínu mati þáttur Stöðvar 2 & N.F.S., það er kosningasjónvarp þeirra X-2006, sem má segja að hafist hafi í gærkveldi með heimsókn þeirra til Akranes. Mjög ýtarleg og áhugaverð umræða auk fróðleiks sem þar kom fram hjá hinum frábæru fréttamönnum sem greinilega höfðu lesið heima og vissu hvað þeir voru að gera. Það verður tilhlakk þegar þeir koma til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Vonandi verða þeir pólitísku flokkar og menn á svæðinu sem ætla sér að koma saman "lista" fyrir næstu sveitastjórnakosningar, búnir að koma sér saman um hvað þeir ætla að gera og vera tilbúnir hinum hvössu spurningum fréttamannanna, svo við íbúarnir verðum einhverju nær um hvað við ættum að kjósa. Vonandi verða þeir hinu nýja sveitarfélagi til sóma.

Miðvikudagur 5. apríl 2006 Síðbúin leiðrétting vegna APRÍLGABBS.- Flestir - ekki þó allir áttuðu sig á því að seinni hluti frásagnarinnar af væntanlegu nýju andliti á síðu minni, það er samvinna "GOGGLE" og "Lífið á Sigló" væri aprílgabb, en það staðfestist hér með að sú frásögn var aprílgabb, hins vegar er fyrri hlutinn; "andlitsupplyftingin" á rökum reist.

Fimmtudagur 6. apríl 2006

Fyrir 60 árum: (Morgunblaðið)

<<<<<<<<<<<


Fimmtudagur 6. apríl 2006 Halldór Már Stefánsson er gítarleikari sem er að gera góða hluti í Barcelona. Hann er klassískur gítarleikari en einnig er hann trúbador og er að taka þátt í hljómsveitarkeppni. - Vildi bara benda ykkur á þennan Íslending, og það geta allir tekið þátt í að kjósa hann. Hann er í 8.sæti í "augnablikinu" en með ykkar hjálp gæti hann komist framar Þetta er sonur Guðnýjar Páls. kennara á Sigló. -

Fimmtudagur 6. apríl 2006

Varðandi frásögn og hugrenningar varðandi X-2006 þættina hjá Stöð2 & NFS hér fyrir ofan, þá þurfa væntanlegir frambjóðendur í sveitarstjórnarkosningum í vor og ætla að keppa um hilli kjósanda á norðausturhorni Tröllaskaga (SiglÓ) ekki að kvíða því að lenda í "klóm" þáttargerðamanna, þar sem svæðið er ekki á lista hjá þeim yfir væntanlega þáttakendur í þáttunum, því miður.

Fimmtudagur 6. apríl 2006 Ein gömul: Það er að vísu langt í næstu áramót, en þessi sýnir hver eldsmaturinn var um áramót og þrettándann hér áður fyrr. Að minnsta kosti 2-3 snupunótabátar voru brenndir hverju sinni.

Þessi er frá áramótunum 1963-1964



Fimmtudagur 6. apríl 2006

Vinur minn, Hrönn Einarsdóttir fór á vorskemmtun skólana í gær.

Hún tók þar nokkrar myndir og sendi mér


Fimmtudagur 6. apríl 2006

Himininn var kristaltær og sólin skein björt og hrein á Staðarhólshnjúkinn í gær klukkan 19:00 og ekki var að sjá neinar blikur í lofti á þeim tíma, en þó var farið að snjóa í "lognmollunni" (4 m/s) um klukkan 20:30 sem síðar færðist í aukana eftir því sem leið á kvöldið (10-14 m/s)

Fimmtudagur 6. apríl 2006

Höfðingleg gjöf -- Eins og getið var um hér á vefnum í lok mars ákvað Systrafélag Siglufjarðarkirkju að gefa kirkjunni mikla gjöf, í tilefni stórafmælis hennar á næsta ári, þegar hún fagnar 75 ára afmæli sínu. Á fundi sóknarnefndar Siglufjarðarkirkju seinni partinn í gær var umrædd gjöf afhent formlega. Brynja Stefánsdóttir formaður las þá m.a. upp eftirfarandi bréf:

Siglufirði 5. apríl 2006. - Sóknarnefnd Siglufjarðarkirkju.

Á aðalfundi Systrafélags kirkjunnar 29. mars s.l. var samþykkt að gefa eina milljón – 1.000.000 kr. - til kirkjunnar með ósk um að gjöfin nýtist til að létta undir nauðsynlegar framkvæmdir. Einnig að okkur takist að fegra og bæta ástand þessa gamla og merka húss, sem kirkjan okkar er. Vonum við að ástand hennar verði okkur öllum til sóma á 75 ára afmæli hennar á næsta ári.

Með bestu óskum, f.h. Systrafélags Siglufjarðarkirkju, Brynja Stefánsdóttir, formaður.

Guðný Pálsdóttir formaður sóknarnefndar veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði Systrafélagskonum þennan höfðingsskap. Jafnframt afhenti hún stjórn Systrafélagsins plagg, þar sem á var letrað: Með þessu skjali langar okkur að þakka afar rausnarlegt framlag Systrafélags Siglufjarðarkirkju til viðhalds og lagfæringa á Guðshúsi okkar Siglfirðinga, eina milljón króna, sem afhent var formlega í dag, 5. apríl 2006, og góðan hug til Siglufjarðarkirkju fyrr og síðar. Guð blessi óeigingjarnt starf ykkar.

Undir þetta rituðu Sigurður Ægisson, sóknarprestur, og Guðný Pálsdóttir, formaður sóknarnefndar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Systrafélagskonur styrkja kirkjuna, því þær hafa verið duglegar við það í gengum árin, og hlaupið til þar að auki, ef eitthvað hefur bjátað á, aðstoð vantað vegna gestakomu o.þ.u.l. Og ég veit að þær eru ekki hættar; það tilkynntu þær að lokinni afhendingu þessarar frábæru gjafar. -- Þær eru til fyrirmyndar. --

Sigurður Ægisson -- 6 ljósmyndir hér fyrir neðan

Sóknarnefnd og Systrafélagar Fremri röð: Guðrún Árnadóttir - Elín Gestsdóttir - Brynja Stefánsdóttir - Guðrún Björnsdóttir og Magna Sigurbjörnsdóttir - Aftari: Sigurður Ægisson - Hermann Jónasson - Sigurður Hlöðversson - Guðný Pálsdóttir - Guðlaug Guðmundsdóttir - Erla Eymundsdóttir

Fimmtudagur 6. apríl 2006 Sparisjóður Siglufjarðar er kominn með nýja uppfærslu og útlit á heimasíðu sinni slóðin er www.sps.is/

Fimmtudagur 6. apríl 2006 -- Páskafjör í Allanum - Allt frá Óperu Idols endurtekið um páskana Myndin hér fyrir neðan er tekin þegar fjörkálfarnir voru við æfingar. + Auglýsingin

Fimmtudagur 6. apríl 2006

Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar úthlutar styrkjum úr sjóðnum í kvöld klukkan 20:30 í kvöld í Bíó Salnum Allir eru hjartanlega velkomnir.



Föstudagur 7. apríl 2006

Ein gömul:

Lúðrasveit Siglufjarðar --

Sennilega 1966-1965

Ljósmynd: Halli Nonni

Föstudagur 7. apríl 2006 Í fyrra dag birtist hér á síðunni mynd af brennandi nótabátum. Þannig hurfu þeir í tugatali gömlu nótabátarnir á áramótabrennum Siglfirðinga um langt skeið. -- Það sama gerðist á öðrum helstu útgerðarstöðum landsins, Vestmannaeyjum, Keflavík, Akranesi, Ísafirði o.s.frv. -- Sennilega hafa íslensku nótabátarnir skipt hundruðum á árum síldarævintýrisins. Kannski þúsund? Og flestir brunnu þeir svo á áramótabrennum landsmanna eftir að kraftblökkin o.fl. leysti þá af hólmi.

Vitað er um þrjá gamla báta, óbrunna en nær ónýta af fúa. -- En þrír aðrir eru varðveittir í allgóðu standi og sýndir í Bátahúsi Síldarminjasafnsins. Þar er sá yngsti þeirra, hringnótabáturinn (frá 1955?) í viðgerð. Sveinn Þorsteinsson og Sigurður Benediktsson eru hér á mynd að endursmíða hluta af eikargrind í stafni bátsins. Í vor verður hann orðinn fær í flestan sjó með nótinni um borð og öðrum tilheyrandi búnaði. Góður styrkur til þessa verkefnis fékkst frá fjárlaganefnd Alþingis nú í vetur. ÖK -- Fleiri myndir HÉR (tekið á myndavél: Sveinn Þorsteinsson)

Föstudagur 7. apríl 2006 -- Aðsent: Ég hefi lengi ætlað að senda þér linu svona bara til að þakka þér fyrir þina frábæru síðu "sksiglo.is" og geri það hér með. En það sem rak mig til að koma þessu í verk er að í gærkveldi er ég leit á síðuna þína eftir nokkurra daga fjarveru erlendis sá ég umfjöllun um loftsteina. Ég man vel eftir þessum atburði þegar Jón Þorsteinsson kom "loftsteininn" fræga til karls föður míns. Ég man mjög vel eftir þessum hlut og fékk meira að segja að snerta hann. En svo var það, líklega fyrir svo sem tólf til fjórtán árum, eða stuttu eftir að ég flutti suður að ljós sást á lofti á suður- og suðausturlandi að mig minnir, og umræða var um hvort hugsanlegt þar hefði verið loftsteinn a ferð og þá hvort hann hefði hugsanlega lent á landinu. Í þessu sambandi var viðtal við Þorstein Sæmundsson stjarneðlisfræðing og taldi hann það varla hugsanlegt og væri ekki vitað til þess að loftsteinn hefði lent hér á landi. Þessi ummæli Þorsteins urðu til þess að ég talaði við karl föður minn um loftsteini fræga á Sigló. Stuttu seinna sendi svo pabbi mér ljósrit af þeim skrifum sem hann hafði safnað saman um atburðinn á Sigló svona til gamans. Ég fór svo með þessi "gögn" til Þorsteins að gamni mínu. Hann var ekki heima þá, svo ég stakk þessu inn um lúguna hjá honum með nokkrum línum. All nokkru seinna hringdi svo Þorsteinn i mig og sagðist hafa verið í útlöndum þegar ég hafi komið. Við spjölluðum svolítið um þennan atburð á Sigló og sagði hann mér þá að sig muni sterklega að niðurstöður rannsókna hefðu leitt í ljós að umræddur loftsteinn hafi reynst leifar af mannanna verkum en ekki eiginlegur loftsteinn. Ennfremur tjáði hann mér að hann vissi ekki hvað hefði orðið um "steininn" eða hver hefði hugsanlega fengið hann til varðveislu. Bara svona til gamans. Kær kveðja Magnús Guðbrandsson

Föstudagur 7. apríl 2006

Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar Afhenti styrki úr sjóðnum, með athöfn á Bíó Café í gærkveldi.

Nánar HÉR og myndir frá athöfninni >>>

Þessi mynd hér sýnir fulltrúa styrkþega og stjórn sjóðsins: Ólaf Jónsson - Guðrúnu Árnadóttur og Hermann Jónasson.

Myndir HÉR

Spari-styrkir.xlsx

Ræða Sparisjóðsstjóra Ólafs Jónssonar fyrir afhendingu styrkja Menningarsjóðs Sparisjóðs Siglufjarðar: Góðir gestir; Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar afhendir nú í þriðja sinn úr sjóðnum. Framlag ársins til menningarmála á Siglufirði á árinu 2006 er kr. 1.700.000. Framlagið er tilkomið vegna framlags Sparisjóðsins kr. 1.250.000 auk þess sem félagið bætir við vöxtum af höfuðstól sjóðsins kr. 450.000.

Það má því segja að Menningarsjóðurinn sé ávallt háður árlegu framlagi Sparisjóðsins. Samtals er því búið að veita úr Menningarsjóðnum sl. þrjú ár kr. 5.050.000.

Á árinu 2005 var afkoma Sparisjóðsins sú besta í sögunni, hagnaður fyrir skatta var yfir 100mkr.. Í ljósi þessarar góðu afkomu ákvað stjórn Sparisjóðsins að styrkja enn frekar Siglfirskt samfélag.

Ákveðið var að styrkja Síldarminjasafnið um 5mkr. vegna uppbyggingar á bátahúsinu.

Auk framlaga til menningarmála þá eru íþróttamálin styrkt myndarlega, árlega eru íþróttafélög og ýmis félagasamtök á Siglufirði styrkt um 2,5-3mkr. Þannig að venjulega eru árleg framlög Sparisjóðsins til félagsmála á Siglufirði 4-5mkr.

Framlög Sparisjóðs Siglufjarðar til menningar-, íþrótta- og félagsmála á árinu 2005 var 9,5mkr. og vegur þá þyngst styrkur til Síldarminjasafnsins.

Það er því gríðarlegt hagsmunamál fyrir Siglfirðinga að rekstur Sparisjóðsins gangi sem allra best þannig að hægt sé að styrkja enn frekar við félagslífið á Siglufirði.

Því ber að þakka mikinn stuðning bæjarbúa við Sparisjóðinn í gegnum tíðina.

Föstudagur 7. apríl 2006 -- Talsvert snjóaði í nótt, meira en fyrrinótt og áttu snjómoksturstækin litla hvíld frá því snemma í morgun við að hreinsa götur og bílastæði. Þá þurftu margir húseigendur einnig að grípa til skóflunnar og gera hreint fyrir sínum dyrum. Þara er Gunnar Guðmundsson að moka frá sínum dyrum við Suðurgötu í morgun

Föstudagur 7. apríl 2006 Frystiskipið Icestar var hér í morgun/dag að losa hér frosna rækju til Þormóðs Ramma Sæbergs hf. --- En nokkuð reglulega hafa skip komið með frosna rækju hingað til Þ.R.S., og eru nánast einu flutningaskipin sem hingað koma eftir að "óskabarn þjóðarinnar" hætti að láta skip sín koma á landsbyggðina. Að vísu koma olíuskip hingað einnig nokkrum sinnum á ári, annað en áður var.

Föstudagur 7. apríl 2006 Aðsent: Við vitum ekki hvort það hefur komið fram hjá þér áður að annar keppandinn í Idol keppninni í úrslitunum í kvöld á Stöð2, hann Snorri Snorrason á ættir að rekja til Siglufjarðar. Hann er sonur Snorra Þorlákssonar bróðir Inga Láka ofl. - Siglfirðingar geta verið stoltir af honum. --

Bestu kveðjur heim, Stína og Baddi http://www.stod2.is/?PageID=1180


Laugardagur 8. apríl 2006

Ein gömul:

Þessi mynd hefur áður verið birt á vef mínum, einhversstaðar í "Ljósmyndasafni"

En myndina er vel hægt að skoða oftar og á svolítið öðrum vettvangi.

En svona var ferðamátinn á 6. áratuginum síðastliðnum þegar hluti starfsfólks SR fór í hádegismat

Laugardagur 8. apríl 2006 Frá dagur.net - ÚtEy fær styrk úr Þróunarsjóði leikskólanna --- Félags- og skólaþjónustan ÚtEy í samstarfi við leikskóla í Dalvíkurbyggð, Ólafsfirði og Siglufirði fengu úthlutað 250.000 kr styrk frá Menntamálaráðuneytinu úr Þróunarsjóði leikskólanna út á væntanlegt samstarfsverkefni sem ber heitið ,, Stærðfræðin í leik og starfi leikskólans”. Umsjónarmaður verkefnisins er Þóra Rósa Geirsdóttir, kennsluráðgjafi. Úthlutun úr þróunarsjóði er mikil viðurkenning á því starfi sem ætlað er að vinna.