Lífið 15.-18. mars 2006

Fréttavefurinn Lífið á Sigló

12 til 18 mars 2006

Sunnudagur 12. mars 2006

Ein gömul:

Þessi er frá þeim tíma er karlmenn fóru til rakara til að fá klippingu, í dag fara menn aftur á móti á hárgreiðslustofur til sömu þarfa.

Þarna er Ægir Kristjánsson rakari á stofu sinni við Aðalgötu 34

Í stólnum situr Jóhann Örn Mathíasson

Mynd frá 1965

Sunnudagur 12. mars 2006

Ábendingar hafa komið um, varðandi Vasagönguna sem sagt var frá hér síðastliðinn föstudag, þar sem í upphafi voru nefndir tveir Siglfirðingar sem þar hefðu tekið þátt.

Síðar um hádegið sama dag kom upplýsing um þann þriðja og seinnipart dagsins um þann fjórða, og í gærkveldi kom upplýsing um fimmta Siglfirðinginn.

Og nú er það spurningin: "Hvar eru Siglfirðingar EKKI ?" smelltu Vasagönguna til að sjá nöfn þeirra allra.

Listann má skoða HÉR

(Föstudagur 10. mars 2006)

Sunnudagur 12. mars 2006 -- Námskeið í "ullarþæfingum" var haldið í Grunnskólanum í gær, leiðbeinandi var Margrét Steingrímsdóttir. - Myndin sýnir þrjár af þeim sem mættu ásamt leiðbeinandanum. - Sú litla Margrét Selma Steingrímsdóttir, sem var með ömmu sinni, sagði, "Sjáðu, þetta gerði ég"

Sunnudagur 12. mars 2006

Skíðaparadís á Siglufirði og Bikarmót S.K.Í. í flokki 13 - 14 ára var haldið í Skarðdal í gær, við bestu fáanlegu aðstæður á landinu, sól með köflum, léttur sunnan andvari og hiti aðeins ofan við frostmark í fjallinu.

Ég skrapp í fjallið, (ekki á skíðum) fékk far með snjótroðara um svæðið og tók slatta af myndum.

Nú er svo komið að þetta skíðasvæði er farið að nálgast það að vera ekki lengur best varðveitta leyndarmálið á Íslandi, þar sem heimsóknum aðkomufólks fer sífjölgandi, en fljótt flýgur "fiskisagan."

Myndasería frá heimsókn minni í gær, er HÉR


Sunnudagur 12. mars 2006

Fyrst var það Útvegsbanki, svo kom Íslandsbanki sem nú sagði sitt síðasta seinni partinn í gær þegar nafn bankans "sáluga" var tekið niður og í kvöldfréttum fjölmiðla kom fram að nú heiti bankinn GLITNIR

Í gærkvöld um klukkan 19:00 voru svo menn að fjarlægja allar minningar um fyrra nafn, inni í bankanum á Siglufirði og væntanlega setja upp ný tákn, fyrst innandyra og síðan utandyra og á myndunum sem teknar voru í morgun sést niðurstaðan.

Þrjár myndir hérna til hliðar og neðan við

Ekki finnst mér þetta æpandi "lógó" eigi heima þarna

Æpandi ógeðsleg staðsetning

Sunnudagur 12. mars 2006

Í gær laugardaginn 11. mars var opnuð ný BT. verslun í Kringlunni. Þegar opnað var um morguninn, var talið að í biðröðinni hafi þá staðið u.þ.b. 1500 manns.

Verslunin var áður í suðurenda Kringlunnar sem áður nefndist Borgarkringlan, en er nú á neðri hæðinni rétt hjá Tiger og Útilíf. Staðsetningin eftir flutning verður að teljast mun betri, auk þess sem hin nýja verslun er u.þ.b. fjórfalt stærri en sú gamla. Siglfirðingurinn Leó Ingi Leósson er, og hefur um nokkurt skeið verið verslunarstjóri í BT. í Kringlunni.

Sunnudagur 12. mars 2006 Hann er einbeittur á svipinn hann krummi, sem flaug fram hjá þegar ég var að taka veðurmynd dagsins í hádeginu.

Sunnudagur 12. mars 2006 Aðsent frá Ó.G.: Þessar myndir voru teknar í gær laugardag og voru fiskarnir vigtaðir 29,5 kg og 31 kg. sá sem heldur á þessum fiskum heitir Gunnar Þór Óðinsson sem er að róa á bátnum Gunnar Jó SI 173. -- Þetta er raunar ekkert einsdæmi í afla Siglufjarðarbáta upp á síðkastið, en sama dag kom Keilir SI 145 með um 10 tonn af álíka vænum fiski að landi.

Mánudagur 13. mars 2006

Ein gömul: Þessi mynd þarfnast vart neina frekari skýringa, annarra en þeirri að hún er tekin árið 1973

Mánudagur 13. mars 2006 Þessi kolla virtist vera eitthvað lasin eða óvenju róleg þar sem ég sá hana austan götunnar við Síldarminjasafnið í gær um fjögur leitið í gær. Hún opnaði augun aðeins til hálfs er ég nálgaðist og lokaði þeim síðan aftur. Sennilega veik.

Mánudagur 13. mars 2006

Það væri synd að segja að veturinn á Siglufirði hafi verið harður, þó svo umhleypingasamt hafi verið.

Og máltækið á svo sannarlega vel við þetta tímabil: "Það er aldrei vont veður á Siglufirði, aðeins misjafnlega gott" --

Og veðrið nú síðustu daga hefur verið indælt, sólskin logn og blíða, ef frá er talið nokkurra tíma vindur og él seinnipartinn á laugardag fram á nóttina.

Myndir sem tekin var klukkan 16:00 í gær, sýnir að enginn snjór er á láglendi - raunar enginn fyrr en langt upp í fjöllum og nægur snjór á Skíðasvæðinu í Skarðsdal, eins og sjá má hér neðar á síðunni og myndaseríu.

Mánudagur 13. mars 2006 -- Í sjónvarpinu í gærkveldi kom lýsing á því sem gæti hent ef Kötlugos hæfist. Þar sem um allt að 2000 manns þyrftu að yfirgefa heimili sín og sumir í þeim hópi, bændur í næsta nágrenni hefðu ef til vill ekki nema 1-2 klukkustundir til að forða sér, allt eftir hversu öflugt væntanlegt Kötlugos yrði sem vísindamenn áætla að gæti komið á morgun eða á næstu árum, það er að nokkuð öruggt að það verður ekki mjög lengi að bíða, þó svo það gæti skipt árum ekki síður en dögum. Þetta má skilja á viðtölum við vísindamenn í fjölmiðlum.

Varðandi þessa umræðu - er ekki tímabært að stjórnvöld styrki viðkomandi bændur sem næst búa þessu hættusvæði til að kaupa lífbáta, gúmmíbjargbáta eins og bátar og skip hafa, það ætti að vera fljótlegt að setja slíka báta í kerru og forða sér á hæðstu hæðir ef ferð er ekki greið annað og hafa þar bátana tilbúna til notkunar. Ég tala ekki um ef keyptir væru fullkomnir lokaðir plastbjargbátar eins og millilandaskipin nota ? Þetta er dýrt verkefni.

En eru mannslíf ekki dýrmætara hér heima á fróni ?

Mánudagur 13. mars 2006 Það verður spennandi að fylgjast með á kynningarfundi samgönguráðherra "Ísland altengt": Sími, sjónvarp og nettenging á háhraða til allra landsmanna! -- Kynningarfundur Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra, um Fjarskiptaáætlun til ársins 2010 verður haldinn í Bíó Café, Siglufirði, miðvikudaginn 15. mars kl. 20:00. Í áætluninni eru framsækin markmið stjórnvalda um öflugri fjarskiptanet og bætt aðgengi allra landsmanna að hvers kyns fræðslu og afþreyingarefni. Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Samgönguráðuneytisins,http://www.samgonguraduneyti.is Svo er það spurningin, "Hvenær komumst við Siglfirðingar í raunverulegt samband" ? Mætum á fundin til að hlusta og spyrja.

Mánudagur 13. mars 2006

Aðsent: Heill og sæll Steingrímur - Bestu þakkir fyrir hjálpina. Mér var bent á að þú hefðir verið með okkur á fréttavefnum þínum og fór að gá.

Mér brá nú nokkuð við að sjá að þar var talað um Valtýr og einhverja fylgdarmenn.

Með ferðinni var ég að láta gamlan draum rætast, þ. e. að fara að vetrarlagi á skíðum í Hvanndali. Til að sá draumur yrði að veruleika varð ég að nefna þetta við rétta menn. Þessi ferð tókst frábærlega og við náðum því að fara að mestu á fjallaskíðum.

Hins vegar hefði ferðin ekki orðið löng ef ekki hefði notið við reynslu hinna tveggja ónefndu mann.

Ég ætlaði reyndar að gefa þér færi að smella mynd af þeim en það fór sem fór. Annar samferðarmannanna var Skúli Magnússon héraðsdómari sem einnig hefur margra ára reynslu sem björgunarsveitarmaður og fjallaleiðsögumaður.

Hinn heitir Haraldur Örn Ólafsson pólfari með meiru. Þess bera að geta að þeim voru í skýjunum yfir þessum norðlensku ölpum og fjölbreytileika landslagsins en fyrir utan að skíða yfir Héðinsfjarðarvatnið þá var það ógleymanlegt að skíða frá Hvanndölum niður Víkurbyrðina alveg að skýlinu. Ekki var laust við að adrenalínið flæddi um menn enda bratt og mikið hjarn. Ekki er mér kunnugt um hvort menn hafa skíðað þarna niður fyrr. Upp hefðum við ekki komist nema á alvöru broddum. -- Með bestu kveðju Valtýr Myndasyrpa >>

Þriðjudagur 14. mars 2006 --- Kollan sem sagt var frá í gær og virtist ekki vel heilbrigð hafði gefið upp öndina í morgun, snjóað hafði yfir hana og til viðbótar ekið yfir hana (væntanlega eftir að snjóaði síðastliðna nótt ?) Fuglaáhugamaður kom hræinu fyrir með viðeigandi hætti með hugsanlega fuglaflensu í huga, sem þó má telja ólíklegt að hafi grandað fuglinum.

Þriðjudagur 14. mars 2006

Ein gömul:

Sútararnir Barði Ágústsson og Ægir Jóakims árið 1972

Þriðjudagur 14. mars 2006 Það eru ekki komin jól -- þó hafa vangaveltum skotið upp, um hvernig ásýnd við Torgið verður um næstu jól. Verða komnir mislitir flekar í æpandi litum með tilheyrandi áletrunum fyrir marga glugga á byggingum umhverfis Torgið ?

Verður þetta orðinn óhugnanlegur tískufaraldur, eða mun Tækni og byggingarnefnd koma í veg fyrir að slík leyfi verði leyfð oftar en nú er komið ?

Margir hafa haft samband við "Lífið á Sigló" varðandi hið "æpandi" skilti Glitnis sem enginn kemst hjá því að sjá nema "hörðustu fyrrverandi kommarnir, sem líta undan þegar þeir eiga leið um svæðið (eins og einn ónefndur komst að orði við mig)-

Ég ætla ekki hafa allt eftir sem mér hefur borist í pósti og í eyra varðandi "hlerann", en tvö lýsingarorðið mega gjarnan fljóta. "Sjónmengun og Umhverfisslys"

Öllum ber saman um að nafnið sé gott og lóðréttu ræmurnar sem límdir eru innan á gluggana einnig, en "gluggahlerinn" væri betur komið á ofarlega norðurhlið hússins, og það með jákvæð viðhorf. -----------

Svipað og ofanritað er á götubylgjunni. Jákvæð viðhorf: Tveir póstar hafa komið til mín morgun. Hér kemur annar þeirra: "Ég sá á síðunni hjá þér að “margir” hafi haft samband vegna nýja skiltisins utan á “Íslandsbankahúsinu” og tjáð óánægju sína. Ég ætla þá að vera einn til að lýsa yfir ánægju minni með þetta skilti, finnst þetta afar vel heppnað merki hjá Glitni og þetta kemur mjög vel út að mínu viti. Vil því bara lýsa yfir ánægju með þessar breytingar á útliti hússins og finnst þær mjög vel heppnaðar í alla staði. ÞH - Hitt er efnislega svipað.


Þriðjudagur 14. mars 2006

Við verðum víst að bíða í nokkra daga eftir að samgönguráðherra heimsæki okkur með upplýsingar á kynningarfundi sínum "Ísland altengt" sem vera átti á morgun, en samkomulag hefur verið um að fresta þeim kynningarfundi þar til eftir að tilboðin í Héðinsfjarðargöng verða opnuð þann 21. mars næstkomandi og blanda báðum málefnum saman í einn fund með ráðherranum, sem verður miðvikudaginn 29. mars á Bíó Café klukkan 20:00

Þriðjudagur 14. mars 2006

Að fljúga um loftin blá eins og fuglinn hefur í gegn um aldir verið draumur margra. Það er ekki á hverjum degi sem segja má að flogið sé eins og fuglinn á Siglufirði, en það gerði Jón Atli Ólafsson, sem er á ferðalagi um landið sér til ánægju og tekur flugið á viðkomustöðum. Hann var á Siglufirði í slíku flugi um klukkan 14:00 í dag.

Eftir að ég spurði hann á hvaða ferðalagi hann væri, en hann var "greinilega aðkomumaður" kom hið óvænta í ljós.

Hann var með Siglfirskt blóð í æðum og á raunar enn ættingja hér, en langafi hans var Karl Magnússon (kola Kalli).

Fyrir utan að "taka flugið" þá selur Jón svona búnað sem kostar um 500 þúsund.

Miðvikudagur 15. mars 2006

Ein gömul:

Togarinn Hafliði allur......

Þarna er dráttarbáturinn Goðinn að leggja af stað með Togarann Hafliða SI 2 áleiðis til Englands þar sem hann var brytjaður niður í brotajárn, ástæður förgunar var margvísleg, en aðallega þó vegna þess óhapps sem varð í höfninni á Siglufirði........

En það var SNJÓR sem var orsakavaldur.

Miðvikudagur 15. mars 2006 -- Ég mátti til með að senda þér þessar myndir af þeim Hans Ragnarsyni, Jónasi Halldórssyni, Arnari E. Ólafssyni og Ingvari Erlingssyni, allir frá SR-Vélaverkstæði, þar sem þeir eru að vinna við borholutoppa fyrir Reykjanesvirkjun. Þeir eru hér á vegum V.S.Framtak ehf. sem er með þetta verk ásamt annarri uppsetningu á vélbúnaði fyrir Hitaveitu Suðurnesja. Sjálfur lærði ég vélvirkjun hjá SRV á árunum 1977 til 82 og er nú tæknifræðingur og verkstjóri hjá Framtaki. Með kveðju, Sigurður Óli Guðmundsson (Siggi Óli)

Miðvikudagur 15. mars 2006 -- Eftir miðjan dag í gær flaug lítil flugvél yfir Siglufjörð. Flugmaður var Hörður Geirsson starfsmaður Minjasafnsins á Akureyri og ljósmyndari. Hann sendi okkur Siglfirðingum þessar myndir til skoðunar. Takið sérstaklega eftir myndinni þar sem kirkjan okkar er miðdepillinn og svona skínandi hvít. Fyrir þá sem eru fjarri staðnum; þá gerði hér svolítið snjóföl fyrir þremur dögum sem er nú óðum á förum í mildu og hlýju veðri.

Hörður Geirsson er sérstakur áhugamaður um flugsögu Íslendinga og hefur beitt sér sérstaklega fyrir leit að týndum flugvélum frá stríðsárunum. Í tengslum við það var Hörður kosinn Maður ársins á Norðurlandi 2003.

Þakkir og kveðjur til Harðar -- ÖK & SK


Fimmtudagur 16. mars 2006

Jón Dýrfjörð er 75 ár í dag ---

Jón fagnar einnig ásamt konu sinni Erlu Eymundsdóttur 50 ára hjúskaparafmæli þeirra

Eins og allir Siglfirðingar hafa þau bæði verið virkir þátttakendur í atvinnu og félagslífi Siglfirðinga í áraáratugi

Til hamingju bæði tvö, SK

Fimmtudagur 16. mars 2006 Ein gömul: Hún var illa útleikin gamla netastöðin eftir snjóflóðið sem kom beljandi niður um klukkan 21:00 19. desember 1973 á svæðið þar sem Stóri og Litli boli hindra nú að álíka skaði geti endurtekið sig, en mikill skaði varð og nærri lá við mannskaða þegar flóðið féll.

Myndin sýnir rústir netastöðvarinnar fyrrverandi og þáverandi hænsnahúss, sem snjóflóðið olli. Í húsinu voru um 500-600 hænsni og tókst að bjarga um 300 þeirra. Einnig tók flóðið með sér barnaleikskólann Leikskálar stóð raunar ónotaður, því að hann var aðeins rekinn að sumarlagi. Gjöreyðilagðist skálinn. Aðeins munaði um þremur metrum, að flóðið lenti á íbúðarhúsi þar sem í bjuggu hjón með tvö börn. Haft var eftir hjónunum, að þau hafi í fyrstu haldið að fjallið væri að falla á húsið, svo mikill var skruðningurinn frá flóðinu. Þá lenti flóðið á bílskúr með allmörgum bílum í, en vegna þess, hve skúrinn stóð lágt, (felldur inn í landslagið) lagðist flóðið yfir hann og varð þar ekkert tjón. Flóðið var um 200 metra breitt miðsvæðis, en náði að teygja sig niður í fjöru, ásamt braki frá Leikskálahúsinu.

Fimmtudagur 16. mars 2006

Frétt frá Herhúsfélaginu Nú í byrjun mars kom listakonan Guðrún Kristjánsdóttir til Siglufjarðar til þess að vinna að list sinni. Guðrún vinnur mestmegnis málverk með olíulitum á striga, stuttmyndir og einnig umhverfisverk.

Fjöll og snjór hafa verið yrkisefni hennar. Hún hefur haldið sýningar víða um heim, m.a. á Norðurlöndunum, Hollandi, Þýskalandi, Ítalíu og Spáni.

Á síðasta ári var hún með tvær sýningar í New York. Nú síðast tók hún þátt í sýningu í Orkuveitu Reykjavíkur í Gallerí 100°

Hér á Siglufirði er hún mála og klippa vídeómyndir sem hún hefur tekið á undanförnum árum.

Gesta vinnustofan í gamla Herhúsinu mun vera nær fullbókuð næsta hálfa árið.

Fimmtudagur 16. mars 2006

Auglýst eftir umsóknum í minningarsjóð Guðfinns Aðalsteinssonar.

Á aðalfundi KS þann 22. mars n.k. er ætlunin að í fyrsta sinn verði veittur styrkur úr minningarsjóði Guðfinns Aðalsteinssonar sem stofnaður var á síðasta ári af fjölskyldu Guðfinns.

Í reglum sjóðsins segir m.a.:

"Sjóðurinn er stofnaður til minningar um Guðfinn Aðalsteinsson, stuðningsmann KS, og er stofnupphæð kr. 300.000,- veitt af fjölskyldu Guðfinns.

Sjóðnum er ætlað að styðja fjárhagslega við þá iðkendur KS sem kallaðir eru til landsliðsæfinga, valdir eru í landslið Íslands í yngri flokkum eða þurfa á annan hátt fjárhagslegan stuðning vegna knattspyrnuiðkunar sinnar.

Jafnframt er sjóðnum ætlað að styðja við sérstök verkefni á vegum félagsins til uppbyggingar yngri flokka starfi og tekur stjórn KS ákvörðun um hvaða verkefni er styrkt úr sjóðnum á ári hverju.

Föstudagur 17. mars 2006

Ein gömul:

Það er ekki víst að allir átti sig á því í snarheitum hvaða hús er þarna verið að byggja og annað/önnur sem verið er að rífa.

Myndin er tekin snemma á árinu 1974 og er af ?



Svar: Verið er að byggja upp núverandi húsakynni Þormóðs Ramma og rífa niður húskynni Rauðku

Föstudagur 17. mars 2006 Andlitslyfting á vefsíðu SR-Vélaverkstæðs. Vefsíðan er mikið endurbætt hvað efnisval og útlit snertir, auk margra ljósmynda sem eru á síðunni, og nú einnig kynning á SR-Byggingavörur. -- Síðan er að vísu enn í vinnslu, en megin þemað er komið í gagnið.

Smelltu HÉR til að skoða.


Föstudagur 17. mars 2006

Karlakórinn Þrestir frá Hafnarfirði, elsti starfandi karlakór landsins er kominn í bæinn og heldur tónleika í kirkjunni í kvöld klukkan 20:30

Miðaverð er 1.500 krónur

Gestir tónleikanna er Karlakór Siglufjarðar.


Laugardagur 18. mars 2006

Ein gömul:

Eitthvað kom Kiwanisklúbburinn Skjöldur við sögu, þegar þessi mynd var tekin árið 1976.

Þarna er Björn Jónasson glaðhlakkur, þó svo að virðist sem hann hafi óviljugur verið dreginn í þennan föngulega kvennahóp.

Laugardagur 18. mars 2006

Karlakórinn Þrestir kom hingað til Siglufjarðar í boði Karlakórs Siglufjarðar og heimsótti Síldarminjasafnið og þáði þar veitingar. Svo var Konsert í Siglufjarðarkirkju, þar fluttu Þrestir sitt prógramm og síðan Karlakór Siglufjarðar. Svo sungu kórarnir saman nokkur lög.

Á morgun halda svo kórarnir til Akureyrar, en þar verður Kóramót haldið í Glerárkirkju, en þar munu koma saman 4 kórar. Sveinn Þorsteinsson --

Viðkomandi mynd er af Karlakórnum Þresti og Karlakór Siglufjarðar. Fleiri myndir koma síðar í syrpu - en ég fór úr bænum snemma í morgun og hafði ekki tíma til að ganga frá syrpunni, ég kem til baka seinni partinn. SK

Laugardagur 18. mars 2006 Eins og fram kom hér fyrir ofan, þá var ég fjarverandi í dag, ég skrapp á Blönduós og naut þar dagsins með syni mínum Valbirni og konu hans Álfhildi - Þar sem ég kom seinna til baka en ég ætlaði - þá kemur syrpan af myndum Sveins frá heimsókn Karlakórsins Þrastar, ekki fyrr en á morgun Sunnudag 19., auk annars efnis sem mér hefur borist í dag.