Lífið 22.-31. júlý 2003

Fréttavefurinn Lífið á Sigló 

2003


22.júlí 2003 - Antares VE 18 Kom í gærkveldi með 974.812 kg. af loðnu til bræðslu hjá S.V. Sennilega er þetta í fyrsta sinn sem þetta skip kemur hingað með loðnu.

------------------------

22.júlí - Aðsent (tölvupóstur): Sæll Steingrímur !!!

Þú bentir á að Siglufjörður væri ekki á vefnum www.camping.is en hefurðu tekið eftir því að Siglufjörður er ekki heldur á Íslandsvefnum www.islandsvefurinn.is Er kannski verið að stroka þennan fallega bæ alveg út eða hvað ???? -

Kveðja S...

Athugasemd 2015 - "íslandsvefurinn" ansar ekki í dag 2015


23 júlí - 2003

Mjög fjölmennur borgarfundur fór fram í gærkveldi í bíósalnum á Sigló. Hvert sæti var skipað og staðið með veggjum, og út að dyrum.Margir tóku til máls og höggvið á báða bóga. 

Þarna voru mættir alþingismenn, einn ráðherra, bæjarstjóri Ólafsfjarðar ofl. þaðan, svo og auðvitað bæjarfulltrúar Siglufjarðarkaupstaðar, svo og hinir almennu borgarar. 

Ég mun ekki fara mörgum orðum um fundinn, en þó margt tilefnið hafi verið á dagskránni, var um fátt annað talað en frestun, svik eða hvað menn kusu að kalla það, málefni Héðinsfjarðarganga. 

Ég mun lauslega tjá mig um efni fundarins, með texta undir einstökum myndum sem eru á síðunni Borgarfundurinn 



23:júlí 08:30  2003

Vinna við Tjarnargötu / Gránugötu er samkvæmt áætlun.

Þarna er verið að slá upp fyrir gangstétt á horni gatnanna 



23:júlí 08:45  2003

Suðurverk, verktaki við snjóflóðavarnir. 

Þarna er unnið að jarðvegsskiptum, rétt norðan við Ljósastöðina við Hvanneyrará. 




23:júlí  2003

Gunnar Friðriksson. Ég heimsótti Réttingaverkstæði Gunnars og Stefáns í morgun. Gunnar vinnur nú aðeins einn á verkstæðinu og hefur nóg að gera. 

Aðllaga er þó um minniháttar aðgerðir að ræða, því Siglfirðingar eru góðir ökumenn, svona yfir höfuð. 

Þarna er Gunnar að ganga frá viðgerð eftir rispur sem óviti hafði framkvæmt, en nokkuð mun hafa borið á slíku að undanförnu. 

23: júlí 21:15 2003

Brasilíski söngvarinn og sömbugítarleikarinn IFE TOLENTINO og Óskar Guðjónsson á saxófónn, Ómar Guðjónsson á gítar, Helgi Svavar Helgason, Þorvaldur og Þór Þorvaldsson á trommur. 

Þeir léku ekta Brasilísk Samba og Bossanova, músík í Nýja Bíó í kvöld. Ágætis aðsókn var og virtust áheyrendur njóta vel. Þeir leika og syngja á Akureyri annað kvöld. 


24. júlí - 2003

Aðsend grein: Júlíus Hraunberg.  

"Ekki var mikið á ráðamönnum að græða."      Neðarlega á þeirri blaðsíðu



24. júlí  2003

Málverkasýning: -- Siglfirðingurinn Arnar Herbertsson, er með málverkasýningu í Gránu. 

Þar sýnir hann brons, olíulakk og olíulakk á tré. 

Arnar, "Eini" eins og hann er kallaður af fullorðnum Siglfirðingum, hefur haldið fjölda sam. og einkasýningar á ferli sínum.

Sýningin verður opin fram í ágústmánuð. 




24. júlí   2003  Kynning vegna umræðunnar sem á sér stað þessa dagana um Héðinsfjarðargöng

Fyrstu skrefin, að langri þrautagöngu:    Þingsáliktunartillaga: Sverrir Sveinsson og fleiri. 

24. júlí 13:15  2003

Trillukarlarnir Pétur Guðmundsson, Sigtryggur Kristjánsson og Ólafur Guðmundsson.

 Þessa garpa þekkja allir Siglfirðingar, enda eru þeir farmleiddir á heimaslóðum. Þarna voru þeir félagar að ræða um einn brekkusnigilsháttinn hjá þeim sem ráða í þjóðfélaginu. 

Sigtryggur sem hóf í vor, þriðja ár sitt við fiskeldi hér á firðinum með öll tilskilin leyfi í vasanum, en nú er búið að setja á stofn enn eitt embættið, það er að nú þarf eitt leyfið til viðbótar, fylla þarf út eyðublað (sennilega að borga rausnarlega fyrir það), senda suður og bíða síðan eftir, að þeim þarna fyrir sunnan þóknist að afgreiða og senda viðkomandi viðbótarleyfi. 

Á meðan er Sigtryggur aðgerðarlaus, hann getur ekki viðhaldið fiskeldi sínu sem snýst um það að afla fiskjar, hirða smáfiskinn lifandi og koma honum í kvíarnar, sem staðsettar eru úti á firði. 



24. júlí  2003


Málverkasýning stendur yfir í Sýningarsal Ráðhússins á Sigló.

Þar sýnir verk sín; Reykvíkingurinn Stefán Jóhann Boulter 



24. júlí 14:30   2003

Gallerí Sigló Suðurgötu 6 á Sigló er opið alla daga, þar fer fram allskonar skrautmunagerð, bæði samkvæmt eigin hugmyndum og samkvæmt beiðni fólks. 

Þær eru margar konurnar sem að þessu standa og vinna að þessu, en þessar þrjár voru á fullu, er ég leit til þeirra. 

Þetta eru Sigríður Björnsdóttir, Ásdís Gunnlaugsdóttir og Kristín Baldvinsdóttir

25. Júlí 2003

Eins og sést vegna dagsetningarinnar í dag, þá hefur ekkert markvert borið fyrir augu mín í dag, þrátt fyrir þrjár ferðir í bæinn.

Og minna verður væntanlega á þessum síðum á morgun laugardag, því þá verð ég í boði Kiwanis á ferðalagi austur á land, til Húsavíkur, og kem ekki til baka fyrr en að kvöldi sama dag.

Þá mun ég ma. fara að vinna að ljósmyndum sem teknar verða í þeirri ferð og birti eitthvað á þessari síðu, en það er af eldri borgurum bæjarins og Fljóta, sem Kiwanisfélagar á Siglufirði bjóða árlega, af sinni rausn, til dagsferðar um landið.

------------------------------------------------------

25. Júlí 2003

Loðnuveiði virðist lokið, ef marka má hljóðið í verksmiðju körlunum, en alls hafa borist hingað 32.146.001 kg og mun Siglufjörður hafa tekið á móti mestu magninu af loðnu á þessari vertíð. Að auki komu hingað tæp 1000 tonn af kolmunna. 


27. júlí   Eldri borgarar, 78 talsins, í boði Kiwanisklúbbsins Skjaldar, kom úr ferð sinni um 10 leytið í gærkveldi, eftir mjög vel heppnaða og ánægjulega ferð. 

Hópurinn var mjög heppinn með veður, sól og hiti við brottför, þoka og suddi í Skagafirði og Múlanum, sól á Ólafsfirði, Akureyri og síða alla leið til Húsavíkur, þar sem hita var yfir 20 °C. -- 100 myndir frá ferðinni eru Hérna

27. Júlí Loksins, í morgun rættist gamall draumur hafnarstjórnar og Siglfirðinga, um fyrstu uppskipun á gámum á nýju Óskarsbryggjuna. En í morgun losaði Mánafoss nokkra frystigáma, er tengdir voru síðan rafleiðslum bryggjunnar. 

Óskarsbryggja og lóðin henni tilheyrandi, er fyrirhugað pláss fyrir fyrstaflokks aðstöðu með viðkomandi tækjabúnaði, fyrir allt að 100 gáma. 

Þegar þetta verður tekið í gagnið að fullu, mun um 8 klukkutíma sigling sparast fyrir flutningaskipin, miðað við að losna við að fara með gáma til Akureyrar, sem síðan hefur verið dreift á aðrar Eyjafjarðarhafnir of. staði. 

Pláss það sem er á gömlu Hafnarbryggjunni er bæði of lítið og óhentugt og því tími til kominn að gera breytingar. 

En full not þessarar aðstöðu kemur því miður ekki í gagnið að fullu eins fljótt og vonast var til þar sem svikin loforð ríkisstjórnarinnar vegna Héðinsfjarðarganga, frestast um þrjú ár miðað við það sem hefði orðið ef lægsta tilboði í göngin hefði verið tekið. 

Myndin hér fyrir neðan sýnir gámana og einnig límtrésbita til hægri, sem koma eiga í Bátahúsið hjá Síldarminjasafninu.  Þessi fyrir ofan er af Mánafoss við bryggjuna

27. Júlí  2003

Leyfið komið (munnlegt) Leyfið sem sagt er frá hér framar í fréttinni Trillukarlarnir. En Sigtryggur Kristjánsson hefur beðið eftir kerfiskörlunum vegna þess. 

En það er komið, það er að segja að það hefur verið póstlagt, en honum sagt að hann geti hafið vinnu við flotkvíar sínar samkvæmt því þó hann hafi ekki fengið leyfið í hendurnar. 

Önnur flotkví, fullbúin til notkunar liggur nú í innri höfninni, tilbúin til flutnings, en beðið er eftir minnkandi straumi og logni, þar sem svona því er þung í drætti. 

Myndir sýnir nýju kvína og er gamla Dúan SI í forgrunni, sem hefur verið úrelt.





28. júlí. 

Þeir eru byrjaðir að ramma niður bryggjustaurana í fyrirhugaða "síldarbryggju" fyrir Síldarminjasafnið. (& Hafnarsjóð) 






28. júlí. 2003

Verið var að gera Stálvík SI 1 klára á rækjuveiðar í morgun 



28. júlí. 2003

Síldarvinnslan hefur nú selt loðnuskipið Þórður Jónasson EA 350, sem legið hefur hér við bryggju undanfarið ásamt Gissur ÁR 6, 

Aðili á Akureyri er kaupandinn. 

Ekki hefi ég frekari upplýsingar um kaupandann né til hvers skipið verður notað, en það er "kódalaust" 

28. júlí 2003  Snjóflóðavarnargarðar. Margir hafa sent mér tölvupóst, þar sem ma. er minnst á það við mig, hvort ekki séu til einhverjar útlitsmyndir af væntanlegum görðum, svo fólk geti áttað sig betur á þeim framkvæmdum sem hafnar eru. Myndin hér fyrir neðan, er teikning af norðasta garðinum, ásamt væntanlegu umhverfi. Það er Hávegurinn, sem sést lengst til vinstri. fleiri myndir hér neðar, sem Sigurður Hlöðversson góðfúslega lánaði mér. 


28. júlí 2003

Fréttin af skjólgarðinum á gangstéttinni við Hvanneyri, sem ég sagði frá þann 20. júlí, þar sem ég undraðist staðsetninguna og að leyfi hafi fengist fyrir henni. 

Þá er það upplýst nú, af þeim sem að uppsetningunni unnu, að þarna hafi átt sér stað misskilningur af þeirra hálfu. 

Tækninefndin hafði gefið þetta leyfi munlega en ekki nákvæma staðsetningu, garðurinn hefði átt að vera nokkru austar og ekki hindra gangveginn. 


29. júlí.  2003

Þessir kappar heita Ásmundur Einarsson, Jón Helgi Ingimarsson og Guðlaugur Henriksen. 

Þeir eru jafnframt starfsmenn flutningafyrirtækisins Norðurfrakt ehf, sem er í samvinnu við Flytjanda á Siglufirði. 

Ásmundur er aðaleigandinn og framkvæmdastjóri. Jafnframt sinna þeir allri afgreiðslu og þjónustu við viðskiptavini Skeljungs. 

Þarna eru þeir að fá sér kaffi rétt fyrir kl. 8 í morgun. 



29. júlí. 2003

Þetta eru starfsmenn Pípulagnir Siglufirði ehf.; Ólafur Bjarnason og eigandinn Helgi Magnússon. 

Þeir eru þarna í kaffistofu Norðurfrakt, og eru að bíða eftir að flutningabílarnir verði losaðir af vörum sem þeir pöntuðu frá Reykjavík í gær. 


29.júlí. 2003

Eins og Siglfirðingar vita þá er verið að unnið að miklum endurbótum á holræsakerfi bæjarins undir Tjarnargötu og Gránugötu og jafnframt farið fram jarðvegsskipti á viðkomandi stöðum. 

Einnig nota sum fyrirtækin tækifærið og jarðvegsskipta hjá sér vegna hagræðingar og snyrtingu lóða sinna. 

Þarna er verið að vinna við lóð Skeljungs. Í forgrunni sjást gatnamót Tjarnargötu og Aðalgötu. 


29. júlí  2003

Nýr þáttur á þessari síðu.

"Hann setti svip á bæinn" 

Alfreð Jónsson Þessi maður er öllum eldri Siglfirðingum vel kunnur. Hann heitir Alfreð Jónsson, en var einnig þekktur undir nafninu Alli King Kong. Þetta var mikill íþróttaáhugamaður, ma. góður skíðamaður. 

Hann stundaði alla almenna vinnu, er hann dvaldi hér á Sigló, en síðustu starfsár sín var hann hreppstjóri í Grímsey. Alli var fæddur þann 20 maí 1919 --- Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson 




29. júlí - 2003

Askur ÁR 4 losaði rækju hér í dag um klukkan 16:00. 





29. júlí 2003

Sólberg SI 12 var að lesta ís og gera klárt til næstu veiðiferðar 



29. júlí 2003

Mávur SI 76 var að koma úr róðri, þokkalegur afli á línu, rúmlega 4 tonn. 

Þarna eru skipverjar að sortera fiskinn, þorsk, steinbít karfa og fleiri tegundir fyrir vigtun og sendingu suður á markað. 

30. júlí 2003

Hann setti svip á bæinn" Þormóður Eyjólfsson konsúll, var mikill athafnamaður, síns tíma. 

Hann var einn af fyrstu stjórnendum Síldarverksmiðja Ríkisins, bæjarfulltrúi í áratugi og sinnti mörgum öðrum trúnaðarstörfum. 

Hann var einn af frumkvöðlum Karlakórsins Vísir. Þetta var maður sem mikið bar á jafnt í hinu daglega amstri og viðskiptalífinu, hann var harður pólitíkus. Enda átti hann oft í harðvítugum deilum, sérstaklega við kommúnista. 

Nafn hans sést enn bera fyrir augum á Sigló, nafn fyrirtækisins sem hann stofnaði og sem er enn þann dag í fullum rekstri Þormóður Eyjólfsson hf. - 

Þormóður var fæddur þann, 15. apríl 1882 Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson 


30. júlí 2003

Einn af trukkum Suðurverks sem vinnur við "snjóflóðavarnargarða" bilaði illa er bolti í driftengi brotnaði og orsakaði brotið tengihús hús ofl. 

Sennilega margra tugi þúsunda tjón. (málmþreyta sennileg skýring) 

Þarna er viðgerðarmaðurinn Arnar Eyjólfur Ólafsson bifvélavirki hjá SR-Vélaverkstæði að vinna að viðgerð, ásamt bílstjóranum, Einar Karlsson fyrir utan verksvæðið í morgun 



30. júlí 2003

Jarðrask vegna fyrirhugaðra malbiksframkvæmda hjá Skeljungi olli bilun í síma jarðstreng. 

Þarna er Egill Rögnvaldsson símvirki og aðstoðarmaður hans Sigurður Haukur Ólafsson, að gera við strenginn.

Maðurinn sem styður sig við skófluna, er starfsmaður hitaveitunnar, Óli Agnarsson, en skemmdir urðu einnig á svipuðum slóðum á hitaveitulögn. 



31. júlí  2003

"Hann setti svip á bæinn" Helgi Sveinsson íþróttakennari var svo sannarlega maður sem setti svip á bæinn, ekki aðeins fyrir augum þeirra fullorðnu, heldir einnig yngri kynslóðinni sem leit gjarnan upp til hans og var þeim fyrirmynd. 

Helgi var hér kennari við barna og gagnfræðaskólana um áratugi. Hann var margfaldur skíðakóngur og vann ötull að öllum íþróttamálum, þó skíðaíþróttin hafi verið honum ánægjulegust. 

Helgi var fæddur 3. júlí 1918 - Dáinn 24. febrúar 1979 -  Ljósmynd Kristfinnur Guðjónsson. 



31 júlí.  2003

Þessa fallegu ljósmynd tók Sveinn Þorsteinsson inn við Stífluvatn í gær og sendi mér.

Það var ekki ætlun mín að setja hér inn myndir, annarsstaðar en frá Siglufirði, en ég stóðst ekki freistinguna. 

31. júlí  2003



Ljós um bjartan dag ! Það hefur vakið athygli mína, í allt sumar, að allan daginn, lifir ljós á ljósastaurunum við Túngötu. -- 

Ekki veit ég hvort Rarik er að næla sér í auka sponsur (ekki veitir af ?) eða hvort þetta skipti bæinn engu, hann greiði bara fast gjald (?) fyrir götulýsingu. 

En hvað sem því líður styttist líftíma ljósaperanna, en þær eru rándýrar. 


31. júlí - 2003

Norska flutningaskipið Lómur var að losa hér í morgun, til Síldarvinnslunnar 300 tonn af vítissóda (sodium hydroxide) en fyrirtækið notar um og yfir 30 tonn á mánuði, af þessu efni, sem það blandar og vinnur fyrir Primex hf. 

Áður fyrr var þetta flutt inn í 40 tonna gámum með Eimskip, en þegar Eimskip hækkaði flutningsgjöldin verulega fyrir rúmu ári, þá reyndist hagkvæmara að leigja skip til þessara flutninga og hefur verið gert síðan og sparar fyrirtækið sér með því miljónir. 



31. júlí 2003

Síldarævintýrið, dagurinn sem margir bíða spenntir eftir nálgast óðum. Tjaldvagnar og fólk sem tjaldar upp á gamla mátann eru byrjuð að týnast í bæinn. 

Veður er milt og gott um þessar mundir, 17 C° stiga hiti (kl. 10:00), en sólarlaust. Við vonum að veðrið verði um helgina álíka og það hefur verið síðustu vikur, sól, logn og yfir 20 C° hiti.