24. maí 2004
Ein gömul:
Guðbrandur Guðbrandsson, Hannes Garðarsson og Birgir Steingrímsson
24. maí 2004 Unnið er á fullu við lagfæringar og breytinga á Torginu, lagning gangstíga ofl. Þá hefur Bæjarráð Siglufjarðar og bæjarstjórn samþykkt að bjóða út gatnaframkvæmdir við Háveg nyrst og Hvanneyrarbraut frá sjúkrahúsi.
Framkvæmdir í miðbænum, á svæðinu neðan kirkju. Páll Samúelsson, sem er Siglfirðingum að góðu kunnur, hefur fengið framkvæmdaleyfi til þess að byggja tröppur og hanna svæðið neðan kirkju og hefur hann fengið BÁS ehf. til þess að framkvæma verkið fyrir sig. Páll ákvað að ráðast í framkvæmdina til minningar um foreldra sína er bjuggu hér á Siglufirði. Framkvæmdin er því samvinnuverkefni bæjarins og Páls en hann mun bera kostnað af þessu verki. Meir um þetta á vef bæjarins, ásamt yfirlitsmynd á: siglo.is http://www.fjallabyggd.is/is/frettir-og-tilkynningar/framkv_mdir_a__hefjast___mi_b_num-
Ath: 2015 Ekki lítur sú síða sem á er bent, eins út og var á vef Siglufjarðar árið 2004, en ef til vill má finna á vefnum yfirlitsmynd þá sem þar er bent á.
24. maí 2004
Þessir snáðar voru að róa á Langeyrartjörn eftir hádegi í dag.
Ég þekki ekki nöfnin, en Sölvi Guðnason (eldri) mun vera afi þeirra allra var mér sagt.(?)
24. maí 2004 -- Þetta er ekki æskilegt útlit á árbakka, í þessu tilfelli sunnan við Hólsbrúna, en þetta eru allt 60-70 sentímetra djúp beltisför eftir jarðýtu og eða beltagröfu sem þarna hafa farið yfir ána. Þessi skurður eða hvað kalla skal, er ekki aðeins augnangur, heldur einnig hindrar það þá sem hafa notið þess að fá sér göngutúr meðfram ánni.
Vonandi verður þetta lagað fljótlega, annað hvort til svipaðs ástands og var, eða sett í þetta uppfylling, ef nota þarf þessa leið oftar.
24. maí 2004
Hólsbrúin, sem flestir kalla hana eða brúin yfir Fjarðará, eins og hún heitir á pappírum, heyrir bráðum, væntanlega fortíðinni til, það er brúin sem þessi mynd sýnir. En samkvæmt upplýsingum Vegagerðar (B.G.) er eftirfarandi upplýsingar um Fjarðará ( Hólsá) og Héðinsfjarðargöng:
„Verið er að ganga frá útboðsgögnum vegna brúar yfir Fjarðará og þau afhent á morgun, þriðjudag (25.5) og tilboð opnuð 15. júní. Við erum að undirbúa að koma rafmagni upp að gangamunnum Siglufjarðarmegin og Ólafsfjarðarmegin. Við erum að semja við landeigendur í Héðinsfirði og reiknað með að því ljúki í haust. Gert er síðan ráð fyrir að Vegagerðin hreinsi frá gangamunna í Héðinsfirði næsta sumar og er Þorsteinn Jóhannesson á Siglufirði að gera kostnaðaráætlun og framkvæmdaáætlun á það fyrir okkur.“
25. maí 2004
Ein gömul:
Hvalskurður, þarna er Kristinn Georgsson að skera hval,
- í bakgrunni er "Hvala- Páll": Páll Pálsson og ?
25. maí 2004
Hérna kemur smá frétt af tuðrusparki.—Aðsent, Frétt + myndir:
Mánudaginn 24 maí spilaði G.K.S. sinn fyrsta leik í Íslandsmóti 3 deildar. Leikið var við Reyni Árskógsströnd á þeirra heimavelli. Leiknum lauk með sigri okkar í G.K.S. 3 - 2. -- Þeir komust í 2 - 0 en með seiglu og baráttu náðum við yfirhöndinni og sigruðum.
Þeir sem skoruðu mörkin Róbert Haraldsson úr vítaspyrnu, Gunni ( tengdasonur. - Habbós ) og svo Habbó sjálfur og var það mark númer 117 á Íslandsmóti hjá honum og er hann með markahæstu mönnum landsins.--
Einnig má geta þess að Mark Duffield spilaði sinn 368 leik á Íslandsmóti og er hann leikjahæsti maður landsins og setur því nýtt leikjamet með hverjum leik sem hann spilar. Einnig má geta þess að áhorfendur komu frá Ólafsfirði og Akureyri eins og sjá má á einni myndinni. Nokkrar af þessum myndum tók Hörður Bjarnason verðandi leikmaður G.K.S. Alli A
25. maí 2004
Hólminn í Langeyrartjörn hefur að því er ég best veit ekki enn fengið opinbert nafn, - en það hefur ekki aftrað "landnemum" að hreiðra um sig, þarna virðast a.m.k. ein kolla liggja á hreiðri, -og ef blikar eru vanir að skiptast á við maka sinn að liggja á eggjum.
Það veit ég ekki, en það var mér sagt að þarna séu komin 3 hreiður.
En ekkert hefur Álftin látið sjá sig þarna enn, þrátt fyrir að hólminn hafa verið þeim ætlaður. --
Eigum við ekki bara að kalla hólmann; Langeyrarhólma, er það ekki bara ágætt nafn ?
25. maí 2004 Væntanlega hafa einhverjir saknað þess að ekkert nýtt vegna dagsins í dag var komið á vefinn minn í morgunsárið. En ástæðan fyrir því var ekki leti, - Nortoninn minn vírusvarnarforritið og eldveggur brást mér seinnipartinn í gær og Troya/vírus (VBS/Psyme) komst inn fyrir hjá mér og gerði vél mína nær óvirka, þannig að meðan vélin var teng netinu réðist þessi "andskoti" á Norton-eldveggin og lét hann hafa svo mikið að gera, að hann varð óvirkur og hann yfirtók um leið allt vinnsluminnið. Eftirá kom í ljós að þessi vírus sem "fæddist" 8. apríl sl. var ekki til á skrá hjá Norton og raunar ekki heldur hjá tveim öðrum vírus-varnarframleiðendum, en Mcafee þekkti hann, sem og varð til þess að ég henti Norton út og tók inn í staðin Mcafeepakka. Og allt er komið í lag eftir andvökunótt.
26. maí 2004
Ein gömul:
Björn Ólafsson, lengst til hægri ?. Hverjir eru hinir?
26. maí 2004
Ó.B. Kvartettinn, heldur sína fyrstu tónleika í Allanum-sportbar Siglufirði, föstudaginn 28. maí 2004 klukkan 21:00. -
Ó.B. Kvartettinn var stofnaður árið 2002 og hefur komið fram nokkrum sinnum, td. á consertum Karlakórs Siglufjarðar og á Sauðárkrók og víðar, en hefur ekki haldið sjálfstæða tónleika fyrr. ---
Á dagskrá eru lög úr ýmsum áttum s.s. klassísk kvartettlög, bellmann söngvar, lög og textar eftir Bjarka Árnason, Írsk lög við texta Jónasar Árnasonar omfl. --
Kvartettinn skipa: 1. tenór: Birgir Ingimarsson, 2. tenór: Óskar Elefsen, 2. bassi: Steinn Elmar Árnason, 1. bassi og undirleikari: Sturlaugur Kristjánsson. ---
Að tónleikunum loknum mun Dansband Dúa Ben leika fyrir dansi fram á rauða nótt. Miðaverð á tónleikana og ball kr. 1.500., ballið kr. 800
26. maí 2004
Þessi hópur "tilheyrir" Leikskólanum, en farið var í göngutúr og leik utan skólans í góða veðrinu í morgun.
26. maí 2004 Allir nemendur og kennarar Tónlistarskóla Siglufjarðar voru í hádeginu í dag saman komnir við skólahúsið - Hinn fríðasti hópur eins og sjá má á myndinni - þarna fór fram sérstök myndataka nokkurra ljósmyndara en í undirbúningi er útisýning á ljósmyndum á síldarhátíðinni í sumar -
Til viðmiðunar er gömul ljósmynd sem barst frá Noregi í fyrra en þar sést mikill mannsöfnuður fyrir framan Norska sjómannaheimilið fyrir 70-80 árum. Húsið var reist 1915 af norsku trúboðsfélagi; Den Innre Sjömannsmission, sem rak þarna kristilegt sjúkra- og félagsheimili í 50 ár.
26. maí 2004
Múlaberg SI 22 kom með Stálvík SI 1 í togi inn fjörðinn rúmlega 13:30 í dag og sigldi síðan með Stálvíkina samhliða inn og upp að bryggju.
En Stálvík varð fyrir alvarlegri vélarbilun og komst því ekki til hafnar af sjálfsdáðum
27. maí 2004
Ein gömul:
Pása hjá SR-:
Georg Andersen, Birgir Guðnason, Bjarni Júlíus Ólafsson, Halldór Bjarnason og Geir Guðbrandsson
27. maí 2004
Þessi mynd var tekin í blíðunni í gær, er ég og kona mín fengum okkur göngutúr frammi í fjarðarbotni.
Holsáin þar sem Skarðdalsáin sameinast henni er í forgrunni, en gerður hefur verið grjótgarður eða stífla, til að skapa þetta vatnasvæði með tveim hólmum í miðju.
28. maí 2004
Ein gömul:
Spilakvöld / verðlaunaafhending hjá SR - Jón Ágústsson, Snorri Jónsson, Svandís Guðmundsdóttir, Jens Gíslason, ????, Björg Guðmundsdóttir og Anna Sigmundsdóttir
28. maí 2004 Óvenjuleg vinnubrögð, en vel heppnuð. -- Byggður var vinnupallur "liggjandi" - við Íslandsbankann (norðurhlið) - og síðan reistur - og komið fyrir með krana á réttan stað við húsvegginn. Síðar verður hann aftur færður til vesturs þegar lagfæringu er lokið á viðkomandi svæði. En nýleg múrhúð er orðin lek og ónýt og þarfnast endurnýjunar. -
Það er Tréverkstæðið Berg sem byggði vinnupallinn. Myndirnar voru teknar seinnipartinn í gær.
28. maí 2004
Það var mikið um að vera á Leikskálum seinnipartinn í gær. Elstu nemendurnir- 6 ára, útskrifuðust með pompi og prakt -og að lokinni þeirri athöfn tók önnur við;
Lögregluþjónninn Adólf Árnason flutti fróðlegt og myndrænt erindi um hættur í umferðinni og lýsti því hvað börnin ættu að gera og hvað skyldi varast þegar þau þyrftu að fara á milli húsa og eða í skólann á næsta hausti-
Og til að kóróna allt saman voru Guðrún Pálsdóttir og Skarphéðinn Guðmundsson fulltrúar Rauðakrossins mætt og afhendu öllum krökkunum öryggishjálma til eignar og nota er þau væru á hjóli, línuskautum og í öðrum sambærilegum leik.
28. maí 2004
Eins og sagt var frá síðastliðinn miðvikudag, þá bilaði vélbúnaður um borð í Stálvík. Þjónustuaðilar voru fljótir að kippa því í lag og fór Stálvíkin aftur út í gærkveldi, - en komst rétt út fyrir fjörðinn er önnur bilun varð og Björgunarbáturinn Sigurvin fór til að draga Stálvíkina í land í nótt.
Myndin sýnir Stálvíkina í togi í nótt. Ljósmynd Ómar Geirsson skipstjóri (Stráka)
29. maí 2004
Ein gömul -
Brugðið á leik.
Skoðaðu myndina og sjáðu hve fljót(ur) þú ert að átta þig hvar myndin er tekin.
Til samanburðar EFTIR að þú hefur skoðað, en ert ekki viss, þá es svarið hér aðeins neðar, önnur ljósmynd frá byggðarlagi, en annað sjónarhorn. -
29. maí 2004 -- Í Tónlistarskólanum á Dalvík (gamla skólanum, fjólubláa húsinu) er myndlistarsýning sem byrjar í dag, laugardag kl. 14-30 og verður á sunnudag 14-20 og mánudag 14-18. Þar sýna m.a. fjórir prestar (Bolli Gústavsson fv. sóknarprestur í Laufási og vígslubiskup, Sighvatur Karlsson sóknarprestur á Húsavík, Sigurður Ægisson á Siglufirði og Örn Friðriksson fv. prófastur í Mývatnssveit). Auk þeirra verða fjórar konur frá Akureyri með sýningu á efri hæð hússins. Þetta er á vegum Lionsmanna á Dalvík, liður í árlegu uppistandi um hvítasunnu sem nefnist Vorkoma og hefur verið síðastliðin 24 ár, að mér skilst. Og yfirleitt eru 700-800 manns sem mæta til að skoða. Bolli er með blýants- og pennateikningar og eina pastelmynd, Sighvatur með olíu- og akrýl myndir, Sigurður og Örn með vatnslitamyndir.
Eitthvað af þessu er til sölu, en flest er þó í einkaeign. Hér er lítið sýnishorn; þrjár af ljósmyndum sem Sigurður Ægisson tók.
Siglufjörður er sjáleg borg; segir í ónefndu kvæði
30. maí 2004
Ein gömul og enn brugðið á leik:
Ég þekki þessa menn, en þekkið þið þá?
Sá eldri er 73ja en hinn 70 (2004) - þeir sinntu báðir æskulýðsstörfum á yngri árum og eru einmitt þarna í einu slíku verkefni. Hvað heita þeir? -
Myndin er tekin 1974 +/-
Svarið neðst á síðunni
30. maí 2004
Eitt hundrað ár (árið 2004) eru frá því að heiðursmaðurinn Einar Ásgrímsson fæddist, heiðursmaður sem allir eldri Siglfirðingar þekktu; bóndinn á Reyðará. Unnur Stefánsdóttir ekkja hans, börn og ættingjar héldu upp á þessi tímamót, ásamt fjölda vina og gesta í Skálahlíð seinnipartinn í gær með veglegri veislu, veislu sem sæmdi höfðingsskap þeirra hjóna Unnar og Einars forðum daga á Reyðará á Siglunesi.
Ég var þarna mættur með myndavél mína og ekki hvað síst til að minnast margra heimsókna á Reyðará sem unglingur, þá með föður mínum, en faðir minn var meðal vina þeirra hjóna, sérstaklega þó Einars sem heimsótti faðir minn reglulega á útvarpsverkstæðið er Einar kom í kaupstaðarferð. -
30. maí 2004
Aðsent: Falleg mynd úr Drangey -
Ég fór út í Drangey um daginn með bekknum mínum og smellti þar nokkrum.
Hér er ein þeirra. Kv: Arnar Þór Björnsson
31. maí 2004
Ein gömul: -
Þrír góðir saman;
Þ Ragnar Jónasson, Kjartan Bjarnason og Sigurjón Sæmundsson – Þarna við vígslu Sjúkrahúss Siglufjarðar 15. desember 1966
31. maí 2004
Aðsent:
Nætursólin hefur verið falleg síðustu kvöld og því vildi ég senda þér mynd sem ég tók fyrir utan bæinn nú í kvöld.
Kveðja, Halldór Þormar Hermannsson
p.s. Fleiri myndir hans eru á síðu Halldórs: http://drooler.deviantart.com/gallery/
31. maí 2004
"Sniglarnir" renndu við á Siglufirði í hádeginu í dag, á leið sinni hringinn í kringum landið. Ferðin hófst í Reykjavík og haldið austur.
Héðan komu þeir frá Ólafsfirði. Á leið sinni hafa þeir kynnst öllum tegundum veðráttu, - nema stórhríð. Þeir voru heppnir með veðrið á Siglufirði, en hér var norðan gola og yfir 16 °C hiti.
Þeir tóku stóran rúnt um bæinn til að sýna sig og sjá aðra. Þeim var boðið upp á heita súpu á kaffi Torg, en þar á eftir var haldið á plan Síldarminjasafnsins, -til myndatöku. Og síðan lagt í hann á ný.
Alls voru þarna 21 glæsilegir fákar á ferð og ekki lét unglingurinn Kiddi G. sig vanta frekar en hinn daginn, en hann var í forystu er komið var til Siglufjarðar og auðvitað fór hann á startstað í Rvk. þegar lagt var í´ann á dögunum.
Svar við spurningu hér ofar: Þetta eru Hannes Baldvinsson og Steingrímur Kristinsson. Þarna í Æskulýðsheimilinu við Vetrarbraut að hengja upp ljósmyndir nemanda í ljósmyndafræðum á vegum Æsklýðsheimilsins. Námskeið sem haldið ar árlega á heimilinu, á vegum nokkurra góðra manna.