Lífið 1.-9. Júlí 2005

Fréttavefurinn  Lífið á Sigló   

1. til 9. júlí 2005

Föstudagur 1. júlí 2005 

Ein gömul:  Rauðku meistararnir Haraldur Þór Friðbergsson og Snorri Stefánsson 

Ljósmyndari Ókunnur 

Föstudagur 1. júlí 2005  --  KK og Ellen koma á Sigló í kvöld

Ellen og KK ferðast um landið – Raddir og gítar --- Systkinin Ellen og Kristján Kristjánsbörn ferðast um landið og leika á tónleikum þessa vikuna. Þau leika lög frá löngum og farsælum ferli beggja í bland við nýjar perlur sem þau hafa verið að taka inn á efnisskrána undanfarið ásamt nokkrum tökulögum. Síðustu vikurnar hafa þau komið fram á nokkrum tónleikum og hafa viðtökurnar verið frábærar og skemmst er að minnast tónleika á Kirkjudögum þar sem þau léku í sneisafullri Hallgrímskirkju. Flutningur þeirra þykir vera einlægur og að sama skapi laus við óþarfa skraut enda er ekki annað á ferðinni en gítar og raddir.   -- G.A. 

Föstudagur 1. júlí 2005 

Þessar ungu "síldarstúlkur", 

þær María ?,  Aníta Elefsen og Steinunn Sveinsdóttir, ásamt öðru starfsfólki Síldarminjasafnsins bjóða gesti velkomna dag hvern kl. 10-18. 

Söltunarsýningar verða á laugardögum 9. júlí-13.ágúst. 

Þeir bæjarbúar sem sýna gestum sínum safnið þurfa ekki sjálfir að greiða aðgangseyri. - 

Þjónustuaðilar sem vilja koma upplýsingum á framfæri við ferðamenn, eru beðnir um að láta Steinunni vita í síma 844-0104 eða með tölvupósti: herring@siglo.is 

Föstudagur 1. júlí 2005  

Á fundi bæjarráðs Siglufjarðar þann 30. júní var eftirfarandi ályktun samþykkt og send fjölmiðlum og sjávarútvegsráðuneyti. ---  

"Bæjarráð Siglufjarðar lýsir yfir miklum vonbrigðum og áhyggjum af stöðu mála varðandi loðnuveiði í sumar og leggur áherslu á að rannsóknir og veiðar verði ekki slegnar af strax heldur verði leitað allra leiða til þess að af loðnuveiði geti orðið á þessu sumri þar sem um gríðarlega mikla hagsmuni er að ræða fyrir þau sveitarfélög sem hlut eiga að máli og þar með landið allt. Leggur bæjarráð til að kannaðir verði möguleikar á að gefa út bráðabirgða kvóta á loðnu sem byggir á þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir.” 

Föstudagur 1. júlí 2005             

Annar flokkur karla. -- KS - Fjarðabyggð á Siglufjarðarvelli, laugardaginn 2 júlí, klukkan 16:00 Allir hvattir til að mæta og styðja stráka á uppleið.         Kveðja annar flokkur KS. 

Föstudagur 1. júlí 2005  -- Hann er liðtækur nú sem fyrr hann Ragnar Helgason, en hann kom við á Síldarminjasafninu í morgun og splæsti fyrir starfsmenn eitt lítið splæs, sem ekki vafðist fyrir honum að vinna fljótt og vel.  

Ljósmynd: Sveinn Þorsteinsson-- svennith@simnet.is 

Laugardagur 2. júlí 2005 

Þessi ungi drengur kom hjólandi yfir Lágheiðina, frá Ólafsfirði til að vera við ættarmót fjölskyldu sinnar.   -  Hann heitir Ari Sigþór Heiðdal Björnsson. Amma hans er Guðrún Jónsdóttir, sem lengi átti heima við Hvanneyrarbraut 66 á Siglufirði og afi hans er Ari Eðvalds. Hann var rétt nýkominn til Siglufjarðar þegar ég hitti hann í gær og bar hann sig vel eftir ferðina. 

Laugardagur 2. júlí 2005 --  Í gær var heitasti (heili) dagur sumarsins á Siglufirði, en hitinn var lengst af deginum um 16 °C á veðurstöðinni í Bakka, þó svo að hærri tölur hafi sést á mælum í skjóli undir húsveggjum. Þó náði Kári (vindurinn) ekki að derra sig, því mest fór 10 mínútna meðalvindur  í 6 m/s og var þó oftast í um 0,5 - 3 m/s í gærdag.  Myndin er tekin um 16:30 í gær við anddyrið hjá Eysteini fisksala. 

Laugardagur 2. júlí 2005 --   KK og Ellen voru á Sigló í gærkvöld með tónleika í kirkjunni, eins og komið hefur fram hér á síðu minni.  Ég mætti að sjálfsögðu. Mjög góð aðsókn var og vel var látið af flutningi þeirra.   --  Þar sem tónlist og leikur KK hefur undanfarin ár fallið nokkuð vel að mínum tónlistarsmekk, þá ætla ég að setja smá myndasyrpu frá tónleikunum 

Laugardagur 2. júlí 2005  --  Vandfarið er á þennan veiðistað sem hér sést. En þetta er á enda sjóvarnargarðsins framundan Öldubrjótnum. Eins gott er að fullorðinn sé með í för barnanna sem þarna eru að veiða, en auðvelt er að misstíga sig og detta í stórgrýtinu sem garðurinn er gerður úr. 

Laugardagur 2. júlí 2005   -- Ég notaði myndavélina til að skjóta á þessa ránfugla þar sem þeir voru á hólmanum í Eyrartjörn,- hefði ég notað byssu "BANG BANG" og þeir væru dauðir.-- Þeir standa þarna tilbúnir til að hremma kolluunga ef þeir skyldu villast frá móður sinni, en það kemur fyrir. 

Laugardagur 2. júlí 2005 

Aðsent:   

Bara að láta vita að hún Eva Karlotta er komin á klakann. Hún spilaði og söng á Celtic Cross í gærkvöldi (föstudag) og verður þar aftur í kvöld. ----   

Er ekki rétt að hvetja Siglfirðinga sunnan heiða til að mæta. 

Hún er síðan á leiðinni norður og verður með námskeið á Þjóðlagahátíðinni og treður eftir hana, upp á nokkrum stöðum á norðurlandi meðan hún staldrar við á heimaslóðum. Hún fer síðan utan í ágúst.  -- 

Kveðja - Leó. 

Sunnudagur 3. júlí 2005  -- Ein gömul: 

"Buldi við brestur og brotnaði þekjan", var ljóðlína sett í drápu, þegar þekjan á "Ákavíti" gaf eftir undan snjóþunga sem á henni hvíldi. En í upphafi var þak stóra mjölhúss SR "burstaþak," það er eins og torfbæirnir okkar hér fyrr á öldum. En þar sem húsið stendur þvert á norðanáttina sögðu margir Siglfirðingar að í norðan hríðarveðri mundi skafa á milli burstanna sem yrði burðarvirkjum ofviða Ráðamenn og verkfræðingar voru á öðru máli, en myndin sýnir hvernig fór.  -- Ljósmynd: Hinrik Andrésson

Sunnudagur 3. júlí 2005    

Lítil saga:   Þessi litli kríuungi, var á miðjum Langeyraveginum seinnipartinn í gær, móðirin reyndi árangurslaust að koma unga sínum af götunni  til baka í sefið, en unginn var greinilega ekki með á nótunum, því hann fór þvert á vilja móður sinnar. 

Ég stöðvaði bíl minn og sótti kauða og fór með hann að jaðri uppfyllingarinnar vestanmegin. 

Það undarlega við þennan flutning var að kría sem vön er að bregðast harkalega við og gogga í höfuð mans komi maður nærri hreiðri, hvað þá unga, lét hún sér nægja að flögra yfir vettvangi. 

En strax og ég hafði sleppt unganum á öruggu svæði, settist krían hjá honum og unginn hjúfraði sig hjá móður sinni, sennilega búinn að fá nóg af mannfólkinu. 
Vegfarendur: Gætið að ungunum 

Sunnudagur 3. júlí 2005 

Ekki veit ég hvort þessi fugl eins og tugir annarra, er sofandi í þessari stellingu (með opin augu). Eða aðeins á vaktinni í hvíldarstöðu.  En fuglarnir héldu sundi sínu áfram þrátt fyrir strekkings vind í morgun er myndin var tekin. 

Sunnudagur 3. júlí 2005 Síðbúin afmæliskveðja frá Kína -- Ég reyndi að senda þér mynd af mér og ömmu í gær i tilefni dagsins, en myndin fór ekki út úr outboxinu. Ég heiti Birgir Stefánsson er sonur Stefáns Birgisson og Svövu Gunnarsdóttur. Ég bjó fyrstu 12 ár ævi minnar á Kirkjustíg 1 en fluttist þaðan til Vestmannaeyja með fjölskyldu minni. Ég bý núna í Shanghai í Kína þar sem ég stunda viðskipti og nám í kínversku. mbk. Birgir Stefánsson 

Hrafnhildur Stefánsdóttir var 68 ára í gær  

Mánudagur 4. júlí 2005  

Ein gömul:  Upphaf skólaferðalags með Drang . Ljósmyndari ókunnur

Mánudagur 4. júlí 2005 --  Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þær vinkonur Sigfúsína Stefánsdóttir og Erla Hallgrímsdóttir færa dúfunum fyrir framan Síldarminjasafnið góðgæti, um leið og þær fara framhjá á sinni daglegu göngu fram á fjörð.  Myndin var tekin í gær 

Mánudagur 4. júlí 2005  

Aðsent: 

Sæll Steingrímur sendi þér mynd af fyrsta Lax sumarsins sem veiddur er í ánni Hrollu.  ---- Veiðimaðurinn er Siglfirðingurinn Tómas Kárason Fílapensill með meiru . 

Kveðja Óli Kára.- 

Hann virðist kunna fleira en að syngja pilturinn sá, - til hamingju Tommi.  SK 

Mánudagur 4. júlí 2005   --  Í dag koma góðir gestir til Siglufjarðar þegar norski menningarmálaráðherrann, Valgerd Svarstad Haugland, og menntamálaráðherra Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, heimsækja Síldarminjasafnið ásamt fríðu föruneyti. Í lok heimsóknarinnar verður síldarsöltun og bryggjuballi slegið upp um kl 14:30. Starfsmenn safnsins bjóða bæjarbúa og aðra gesti velkomna á þessa söltun og vonast til að sjá sem flesta.  (Meðfylgjandi ljósmynd er af málverki Kristínar Jónsdóttur frá árinu 1930) 

Mánudagur 4. júlí 2005 

Golfkennsla 9. júlí.  Gunnlaugur Erlendsson, golfkennari verður með kennslu á Hóli, Siglufirði laugardaginn 9. júlí n.k. ----

Kennsla fyrir börn og unglinga.--- Frá kl. 9-11 verður ókeypis kennsla fyrir börn og unglinga fædd 1990-1997. Þeim sem hentar ekki að mæta kl. 9 mega mæta síðar í tímanum. 

Athugið að nú verður öllum kennt saman. -- Þeir sem ætla að mæta í kennsluna verða að tilkynna þátttöku í síma 863 2417 (Ólafur Þór). Kylfur og kúlur á staðnum. ---- 

 Almenn kennsla frá kl. 11:30.---  Tímapantanir eru í síma 863 2417 (Ólafur Þór). 

Verð á hverjum 30 mínútna tíma er kr. 2.500. Tveir saman í tíma greiða kr. 1.500 hvor. 

Golfkennsludagar í sumar: --  9. júlí, 23. júlí og 13. ágúst. --  Golfklúbbur Siglufjarðar. 

Mánudagur 4. júlí 2005  

Myndlistarsýning - 

Myndlistarmaðurinn Tolli – Þorlákur Morthens – mun opna sýningu á nýjum olíumyndum sínum í ráðhúsinu á Siglufirði föstudaginn 8.júlí kl. 17:00. Myndirnar á sýningunni eru allar tengdar náttúrunni og til sölu. 

Tolli verður viðstaddur opnun sýningarinnar og mun hljómsveitin Flís leika tónlist. Sýningin verður svo opin daglega frá kl. 14:00-18:00 til 17.júlí.

Menningarmálanefnd Siglufjarðar --   

Mánudagur 4. júlí 2005  Einn af  24    

Ágúst Orri er í sumarbúðum í Danmörku eins og stendur og ég fékk fregnir af því að hann hefði komið í sjónvarpinu!  -  

Svo ég fór á stúfana og vitir menn þar var kauði og kom 2svar sinnum í fréttinni.   Børn fra 12 lande i samme lejr     Ágúst er sonur Áka Vals og Katrínar Andersen 

Þriðjudagur 5. júlí 2005 

Ein gömul:  Tveir frægir "karakterar" --  

Þetta voru á meðal þekktustu einstaklinga á Siglufirði, á fimmta áratug fyrri aldar: 

Sveinbjörn Guðmundsson og Hannes Garðarsson, en þarna hafa þeir komið við á Ljósmyndastofu Kristfinns til að falla í kram þess tíma, en það var hálfgert tískufyrirbrigði að skreppa á ljósmyndastofu á árunum 1940-1955 

Þriðjudagur 5. júlí 2005 -- Í gær komu góðir gestir til Siglufjarðar þegar Norski menningarmálaráðherrann, Valgerd Svarstad Haugland, og menntamálaráðherra Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, heimsóttu Síldarminjasafnið ásamt fríðu föruneyti.  Myndin hér sýnir Örlyg fyrir miðju á myndinni með ráðherrana á hvora hönd, þorgerði á hægri hönd en Valgerd á vinstri hönd, ásamt aðkomu gestum, starfsmanni safnsins, Steinunni Sveinsdóttur, bæjarstjóranum Runólfi Birgissyni og fleirum.   

Þriðjudagur 5. júlí 2005


 Kríur og silfurmávar nutu góðs af síldarsöltun Síldarminjasafnsins í gær, þegar krakkar hentu til þeirra innvolsi frá síldinni. - 

Hart var barist um hvern bita. 

Þriðjudagur 5. júlí 2005    Aðsent: - Við Oldboys-ingar brugðum okkur til Akureyrar um helgina og tókum þátt í Pollamóti Þórs. Við mættum með tvö lið . Yngra lið sem keppir í polladeild þ.e. 30 ára og eldri og lenti það lið í 17 sæti af 29 liðum.  --  Eldra liðið okkar keppir í lágvarðadeild þ.e. 40 ára og eldri og lenti í 3 sæti af 24 liðum. Ég sendi þér nokkrar myndir með . Yngra liðið er í rauðum búningum og það eldra í bláum . Alli A----    

Þriðjudagur 5. júlí 2005 -- Snjóflóðavarnagarðarnir Litli boli og Stóri boli, það er óhætt að segja að hönnunin og verkið sjálft sá einstakt meistaraverk. Garðarnir falla alveg inn í umhverfið, og EF (með áherslu) framhaldið, það er gróðursetningin  hefði verið með sama glæsibrag, þá mundu ókunnir vart átta sig átta sig á því að þarna væri um mannanna verk að ræða, varðandi garðana og umhverfið, sem vart er hægt að gefa annað en falleinkunn fyrir. 

Þriðjudagur 5. júlí 2005 --- Tugþúsundir rúmmetrar ef efni hafa verið fluttir úr árfarvegi Skútuár nú í sumar, efnið hefur verið notað til vegagerðar og uppfyllingar á vegum bæjarins, og einnig hefur efni farið í ákveðna hluta snjóflóðavarnargarðana í norðurbænum.   Allt þetta svæði mun svo fyllast að nýju þegar framkvæmdir á Héðinsfjarðargöngum hefjast (hvenær sem það verður) En uppgröfturinn þaðan mun fylla þetta svæði og meira til, þannig að gott er fyrir bæinn að hagnýta sér efnið nú.

Þriðjudagur 5. júlí 2005 Fulllestaður stór malarflutningabíll valt norður af Hverfisgötu í morgun. Enginn meiddist, þó litlu munaði er bifreiðarstjórinn reyndi að komast upp í bifreið sína, er hún rann á góðri ferð niður brekkuna sem þarna er. Bíllinn hafði staðið þarna í um 5 mínútur mannlaus, þegar hann rann skyndilega af stað. Ekki er vitað um orsök þess, en bíllinn skall niður af háum steingarð við veginn og skorðaðist á milli veggs og húss sem þarna er. Talsverðar skemmdir eru á húsinu sem er íbúðarhús og bíllinn nánast ónýtur. Þarna á svæðinu hafa átt sér miklar vegaframkvæmdir og nýbúið var að  malbika. 

Miðvikudagur 6. júlí 2005 

Ein gömul:     Þrjú þekkt andlit frá síldarárunum; 

Sigurður Gunnlaugsson skrifstofumaður, Þórarinn Dúason hafnarvörður og Georg Pálsson skrifstofustjóri.

Miðvikudagur 6. júlí 2005 --  Dagskrá Þjóðlagahátíðar hefst í dag klukkan 13:30 á Torginu, með því að þaðan verður farið með rútu að gatnamótum Skarðsvegar Fljótamegin og þaðan gengið yfir Siglufjarðarskarð að Skógræktinni í Skarðdal, þar sem grillveisla í boði Sparisjóðs Siglufjarðar tekur á móti göngufólki. ---  Sérstök Myndamappa um viðburði Þjóðlagahátíðar verður birt hér á síðunni, jöfnum höndum, (eftir hvern dag) -  Sveinn Þorsteinsson mun aðstoða við myndatökur á vettvangi, og ef til vill frá fleirum.  Myndin er tekin á Torginu á Þjóðlagahátíð 2004 

Miðvikudagur 6. júlí 2005  

Allt útlit er fyrir að mikið fjölmenni verði á Siglufirði um helgina. Það er ekki aðeins að Þjóðlagahátíðin verði haldin með pompi og prakt og árgangur ´65 mæti á svæðið eins og áður hefur komið fram, heldur hafa þeir sem fæddir eru 1955 einnig ráðgert að hittast á Sigló þessa sömu helgi. 

Má því gera ráð fyrir að kátt verði á hjalla í  Síldarbænum næstu daga. 

Myndin var tekin á síðasta undirbúningsfundi sunnan heiða og er það alveg ljóst að eini strákurinn í hópnum getur engan vegin dulið ánægju sína yfir því að fá að vera innan um þessar föngulegu meyjar. 

Miðvikudagur 6. júlí 2005  Aðsent.  -  Skrapp út í Langeyrarhólma upp úr miðnætti 5. júlí og setti m.a. niður þennan myndarlega grænlenska loðvíði.   Sigurður Ægisson  

Miðvikudagur 6. júlí 2005  

Vefmyndavélin - Nú áður en langt um líður kemur vefmyndavélin, og lifandi myndir frá henni á síðu mína, en undirbúningur vegna hennar er í góðum höndum og allt á fullu varðandi málið. 

Miðvikudagur 6. júlí 2005 -- Skarðsganga Þjóðlagahátíðar hófst aðeins seinna en auglýst var. Orsökin var sú að fleiri fóru í gönguna en gert hafði verið ráð fyrir svo tími fór í að útvega farartæki að startstað við gatnamót Siglufjarðarvegar og Skarðsvegar. Þrátt fyrir þoku og "kulda" 6 °C lá vel á fólkinu, en alls mættu um 60 manns auk amk. þriggja hunda með eigendum sínum.  Myndin er tekin klukkan 14:08 á Skarðsvegi rétt áður en lagt var af stað í gönguna  

Fimmtudagur 7. júlí 2005 --  Komið upp úr þokunni Þessa mynd tók Jón Dýrfjörð í gær þegar komið var upp úr þokunni vestanverðu á Skarðsvegi, en hann var einn göngumanna. Engin þoka var efst í fjallinu en þoka niðri í hlíðunum báðum megi. Tugir mynda sérðu ef þú smellir á hnappinn Skarðsganga hér fyrir neðan. Þar eru myndir frá upphafi göngunnar, á leiðinni og á Grillsvæðinu í Skógræktinni sem Sparisjóðurinn bauð upp á.      


Fimmtudagur 7. júlí 2005

 Ein gömul:  

Gamlir bílstjórar fyrri tíma

Þormóður Stefánsson og Gottskálk Rögnvaldsson 

Fimmtudagur 7. júlí 2005 --  Þjóðlagahátíð: Upphaf gleðinnar, segir í dagskránni, voru tónleikar í Bátahúsinu, með ljóðrænu ívafi. En þar lék hópurinn Ensemble Unicorn, Austurríki -- En Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Theodór Júlíusson voru sögumenn. Þetta voru erótískar kímnisögur úr tídægru Boccaccio og tónlist frá 14. öld.  

Fimmtudagur 7. júní 2005  Þjóðlagahátíð:   Dragagangur fór fram í Gránu; í gærkveldi: 

Raddir fortíðar og hljóðmyndir. . Flytjendur Davíð Þór Jónsson. Sigtryggur Baldursson og Helgi Sv Helgason. Hljómar á meðan hátíðin stendur. (og þoka)      
Ljósmyndir Sveinn Þorsteinsson 

Fimmtudagur 7. júní 2005 --  Ekki veit ég hvernig ég á að orða það, en þetta er greinilega viðkvæmt á meðal fólks. En það hefur verið haft samband við mig og mér bent á að betur mætti ganga frá eftir slátt í kirkjugarðinum inni á firði, en (ma.) ein kona (búsett utanbæjar) hringdi í mig og tjáði mér, að seint í gærkveldi hefði hún ásamt fleirum komið til að líta eftir leiði móður sinnar, en hún hefði verið sár yfir því að sjá legsteininn þakinn grasi eftir sláttuvél, sem greinilega hefur þeytt grasinu yfir allt nálægt, en ekki hirt um að fjarlægja það. Ég sjálfur er ekki viðkvæmur fyrir grafreitum, mínar minningar felast fyrst og fremst í minningum og ljósmyndum, ekki rándýrum grafreitum. En ég er ekki einn í heiminum og fólk á rétt á sínum tilfinningum og er ég sammála því, að þessi meðferð legsteina og blómabeða í kirkjugarði sem skilin eru eftir þakin grasi, er ekki sómasamlegur frágangur, því bendi ég á þetta eftir að hafa farið á vettvang fyrir hádegið í morgun 

Fimmtudagur 7. júní 2005  

Stromp-námskeið fyrir unglinga, Kennari: Jón Geir Jóhannsson ---- Á námskeiðinu er farið í grunnatriði stompsins, margskonar hljóðgjafar reyndir, bæði innan dyra og utan. Námskeiðinu lýkur með tónleikum á Ráðhústorginu.


Föstudagur 8. júlí 2005 Ein gömul:   Jóna Möller og Freyja Jónsdóttir 

Föstudagur 8. júlí 2005 ---  Allskonar námskeiðahald, og fyrirlestrar á vegum Þjóðlagahátíðar fara fram nú um þessa daga á Siglufirði. Ég leit inn á nokkra staði í dag og tók myndir 

Föstudagur 8. júlí 2005    Þjóðlagahátíð

 Tónleikar voru í gærkveldi í kirkjunni, en þar lét  voru á dagskrá: 18 hugleiðingar um íslensk þjóðlög. Frumfluttar útsetningar á þjóðlögum úr safni sr. Bjarna Þorsteinssonar fyrir píanó eftir Ríkarð Örn Pálsson. Renata Iván, spilaði á  píanó. --- Í Bátahúsinu og Gránu voru einnig tónlekar, 

Í Bátahúsinu voru Söngvar og slættir frá Ögðum í Noregi; -Astri Skarpengland, söngur -- Elizabeth Gaver, harðangursfiðla - Hans-Hinrich Thedens, harðangursfiðla og gítar --- Þá fluttu í Gránu Tónlist frá Tyrkjaveldi Hadji Tekbilek ásamt Steingrími Guðmundssyni og Sigtryggi Baldurssyni. 

Mikil ánægja fólks var með þessa þrennu tóleika sem voru hver á eftir öðrum í gærkveldi og flestir vor á öllum stöðum  Myndin hér sýnir  Renata Iván og Ríkarð Örn Pálsson, eftir lok tónleikana í kirkjunni. 

Föstudagur 8. júlí 2005 

Aðsend athugasemd     Í gærmorgun var haft samband við þig og kvartað undan slæmum frágangi og lélegum vinnubrögðum við sláttur í kirkjugarðinum. Hið rétta er hinsvegar að verkinu var alls ekki lokið, ekki var búið að slá nema hálfan garðinn. Nú er búið að slá, raka, fjarlægja hey og þrífa upp í kringum leiðin.  Mér finnst þessi umræða alls ekki eiga rétt á sér og finnst ósanngjarnt gagnvart starfsmönnum garðana að kvarta undan verki þegar því er ólokið. Hinsvegar eru allar ábendingar vel þegnar og bendi ég fólki á hafa samband við okkur starfsmenn Kirkjugarða Siglufjarðar.  --- Kveðja  Halldór Hermannsson     

Föstudagur 8. júlí 2005  Ný vefsíða: Sigló-Myndir - myndir og fleira frá Framköllunarstofunni "Sigló Myndir" 

En þar færðu einnig ýmsar ljósmyndavörur ofl.      (Óvirkur tengill í dag 2019)

Föstudagur 8. júlí 2005  --  Tjaldvörður bæjarins og Björgunarsveitin, buðu þeim sem voru í tjöldum aðstoð sína við að taka niður tjöld sín í morgun. 

Um klukkan 6 í morgun var vindur orðinn allhvass eða 22,8 m/s (meðalvindur í 10 mínútur) og aftur klukkan 10:00 - 22,4 m/s. Tjaldgestum var boðin aðstaða í Barnaskólanum meðan blési, sem nokkrir þáðu með þökkum,-  um hádegisbil var vindur kominn niður 10-12 m/s  ------------------------------

Laugardagur 9. júlí 2005  --- Ein gömul:  Ekki veit ég hvar þessi einmanna SHELL "tankur" hefur verið staðsettur, á Siglufirði eða annarsstaðar.  >>>>>>>>

En takið eftir stól kollinum neðan við gluggann, (á annarri hæð) sennilega til að fara þar inn í húsið, þar sem aðalinngangurinn er á kafi í snjó. 

Laugardagur 9. júlí 2005 Þjóðlagahátíð: Vésteinn Ólason hélt fyrirlestur um sagnadans; sögur í tónlist,  klukkan 13:00 í gær á kirkjuloftinu, --- þá var í kirkjunni klukkan 20:00 "Ó dóttirin hin fríða". Kammerkór Norðurlands

Íslensk kórverk, m.a. frumflutt nýtt verk eftir Snorra Sigfús Birgisson Stjórnandi: Guðmundur Óli Gunnarsson --- 

Þá var í Bátahúsinu klukkan 21:30 "Við  skulum hald´ á Siglunes"  Þjóðlagasveitin Islandica flutti m.a. stemmur Siglfirskra kvæðamanna frá upphafi 20. aldar. ----  Kaffi Torg klukkan 23:00 "Vottur" Útgáfutónleikar Flís-tríósins, til minningar um Hauk Morthens.---    


Laugardagur 9. júlí 2005 

Opnun listaverkasýningar Tolla, í Ráðhúsinu hófst með viðhöfn klukkan 17:00 í gær -- Þar afhenti Tolli bæjarstjóranum gjöf til Siglfirðinga, málverkið sem hér er mynd af til hliðar og er auðvitað eftir listmálarann. 

Á sama tíma lék Djasstríóið Flís fyrir gesti sýningarinnar, sem voru margir. ---   

(Tolli = Þorlákur Morthens)


Laugardagur 9. júlí 2005 Viðar og Gotti  Í gær og í kvöld verða Víðir ( Venna Hafliða ) og Gotti ( Stjána Elíasar ) með kassagítar stemningu á skemmtistaðnum Hressó í 101 Reykjavík. Herlegheitin hefjast kl 22 bæði kvöldin. 

Laugardagur 9. júlí 2005  --  

Júlíus Hraunberg söng og lék blandaða tónlist á sviði Torgsins, seinni partinn í gær. 


Laugardagur 9. júlí 2005 

Tóti trúbú söng og lék (mátulega dempað) fyrir þá sem versluðu í Versló í gær, og féll söngur hans og leikur  vel í viðskiptavinina. 

Með Tóta á myndinni er hinn ungi verslunarstjóri Guðmundur Gauti Sveinsson, ekki mjög hress með það að ljósmyndarinn vildi hafa hann með á myndinni. 

Laugardagur 9. júlí 2005 --- Eva Karlotta, nýkomin heim eftir að hafa gert garðinn frægan í TV2 í Danaveldi. --- Karlotta tók lagið á Allanum í gærkveldi -- Þegar inn var komið heyrði ég karlmannsrödd, sem kom frá ungum manni að nafni Svanur Knútur Kristinsson, en hann var að "hita upp" fyrir Karlottu. Viðar er söngvari með hljómsveitinni Hraun, en mun ættaður úr Skagafirði, Vestfjörðum og víðar en búsettur í Reykjavík, var mér sagt. Karlottu þarf held ég ekki að kynna frekar. 

Laugardagur 9. júlí 2005 

Stefán Einarsson verktaki var er á fullu í morgun við undirbúning á framkvæmd verks sem hann hefur fengið í tengslum við væntanleg ! 

Héðinsfjarðargöng. Þarna er hann að keyra eina af vinnuvélum sínum um borð í gamlan herflutningapramma, en sjóleiðin er eina leiðin með svona verkfæri til Héðinsfjarðar, án náttúruspjalla.

þó svo að erfitt geti orðið að losna við þau að fullu þegar á land er komið í Héðinsfirði, en það má laga ef vilji er fyrir hendi.