Mánudagur 2. ágúst 2004
Það var mikið um að vera í gær eins og undanfarið. -
Í gærmorgun var helgistund uppi í Hvanneyrarskál klukkan 10:00,
þangað mættu hestamenn úr Glæsi ásamt gangandi og akandi.
Myndir sem ég tók í gærmorgun en komust ekki á netið í gær vegna tölvubilunar, koma nú í ljós ef þú smellirðu HÉR
Mánudagur 2. ágúst 2004 -
Aldrei hafa jafnmargir húsbílar og tjaldvagnar verið á Siglufirði og nú um Verslunarmannahelgina.
Á myndinni má sjá yfir miðbæinn þar sem áberandi eru þessi híbýli manna á ferðalögum.
En þessir vagnar og tjöld voru í nær hverju plássi sem laust fannst í bænum, svo og frammi á firði og Hóli.
Mánudagur 2. ágúst 2004
Á morgunrúntinum, í morgun sá ég litla hreyfingu í tjaldbúðunum.
Einstaka morgunhanar voru að hella upp á könnuna, aðrir flatmöguðu í sólinni (17 °C) við "tjald"skörina og svo eins og gengur var fólk á leið til eða frá snyrtingum með tannburstann sinn og tilheyrandi.
En lítið fararsnið var á fólki. -- Þessi hópur sem á myndinni er, voru víst ekki farnir að sofa, veðrið er alltof gott til að kúrast inni í tjaldi eða heima í rúmi sögðu þau.
Sumir þessara drengja og stúlkna, er heimafólk, aðrir gestkomandi (?).
Aðsendar upplýsingar um nöfn ofl.: Halldór Þormar Hermannson (Hemma Jónasar), Gunnar Freyr Sigurðsson (Sigga Bald), Stefán Heiðar Erlingsson (Erlings Óskarssonar fv. Bæjarfótgeta á Sigló) og ég Guðmundur Óli Sigurðsson, pabbi næstur, Sigurður Oddson og kona hans Margrét Þórarinsdóttir (Minnir alveg endilega að mamma hennar hafi átt heima á Sigló fyrir mörgum árum. Og svo átti Margrét heima á Sigló í nokkur ár. Svo allt er þetta fólk sem á rætur í Siglufirði.)
Mánudagur 2. ágúst 2004
Aðsent: Að beiðni Steingríms, sendi ég hér nokkrar línur um Síldarævintýrið.
Varðandi hátíðina þetta árið þá vil byrja á að þakka bæjarstarfsmönnum, björgunarsveitarmönnum, lögreglunni, skemmtikröftum og öðrum sem að þessu komu fyrir frábært samstarf.
Gestir urðu mun fleiri en búist var við en allt fór afskaplega vel fram, reyndar myndaðist á tímabili umferðarhnútur úti við göng en það leystist allt.
Þeir sem heimsóttu bæinn voru að stærstum hluta fjölskyldufólk og var markmið okkar að bjóða uppá fjölbreytta dagskrá og hef ég ekki heyrt annað en að fólk hafa skemmt sér vel og notið þess sem var í boði. Eflaust er eitthvað sem betur má fara og er það verkefni fyrir þá sem halda utan um Síldarævintýrið á næstu árum!
Með kveðju - Theodór
Þriðjudagur 3. ágúst 2004
Ein gömul: --
Auðvitað þekki ég þennan fyrrverandi skipsfélaga minn og vin.
Það var oft glatt á hjalla um borð í Haferninum forðum, með bestu skipsáhöfn sem nokkru sinni hefur stigið öldurnar, skipshöfn sem var eins og ein stór fjölskylda. Þarna er þetta er bátsmaðurinn í einu atriði í einni af mörgum kvöldvökum sem haldnar voru um borð með og fyrir 24 manna áhöfn Hafarnarins.
Ég ætla ekki að nefna nafn hans, heldur til gamans lofa þeim sem skoða og geta sér til um nafnið.
Nafn hans fyrir þá sem ekki þekkja, er neðst á þessari síðu
Tvær gamlar: Júlí 1965-
Verið að dæla í núverandi Siglufjarðarflugvöll.
Miðvikudagur 4. júlí 2004 -
Abby og Eysteinn.
Þessi hjón, Arnfinna Björnsdóttir og Eysteinn Aðalsteinsson er öllum Siglfirðingum að góðu kunn, Sveinn Þorsteinsson sendi mér þessa skemmtilegu mynd af þeim hjónum, sem hann tók er Síldarævintýrið stóð sem hæst.
En þarna eru hjónin á kafi í afgreiðslu í Fiskbúðinni sinni, þar sem hægt er að fá allt matarkyns sem hugurinn girnist, bæði hrátt og soðið.
Að auki heldur Arnfinna úti verslun með hönnunar vörur og myndir, að mestu sem hún hefur sjálf unnið- og eru þar í Aðalgötu 7 . Margir eigulegir munir.
Miðvikudagur 4. júlí 2004
Flutningaskipið Jaxlinn kom í gærkveldi með tæp 1000 tonn af kolmunna mjöli að austan frá Síldarvinnslunni, en allar geymslur eru þar fullar en nægt pláss hér á Siglufirði.
Á sama tíma var verið að lesta í flutningabíl frá Norðurfrakt af hágæða loðnumjöli frá Síldarvinnslunni á Siglufirði, sem fara á til Akureyrar í fóðurverksmiðjuna þar.
Myndirnar hér fyrir neðan
Miðvikudagur 4. júlí 2004
Erlenda skipið Trinket, kom í morgun til að lesta 630 tonn af loðnumjöli til útflutnings frá Síldarvinnslunni á Sigló.
Fimmtudagur 5. ágúst 2004 - Starfsmenn Suðurverks, sem unnið hafa við gerð snjóflóðavarnargarðanna.
Ég heimsótti svæðið norðanvert og naut fylgdar verkstjórans Guðmundar Sigurbjörnssonar um svæðið, sem og lýsti verkinu, því sem komið er og það sem eftir mun koma.
Það gerir sér enginn grein fyrir nema að koma á svæðið, hversu viðamikið og stórkostlegt verkefni þetta er, fleiri hundruð þúsund rúmmetrar af mold jarðveg hafa verið flutt af svæðinu, þangað sem honum er óhætt og grjót og björg til baka í staðinn. Því er ætlað það hlutverk að fylla upp og styrkja garðana. Þetta virðist ekki mikið að sjá neðan úr bæ, nema það jarðrask sem þessu fylgir, sem er áberandi. Vinnuvélarnar eru einnig á fullu á bak við garðana og sjást ekki nema annað slagið bregða fyrir og þá helst á matar og kaffitímum. Það eru engir venjulegir karlar sem færir eru um að vinna svona verk, það þarf bæði kjark og útsjónarsemi, því oft falla skriður og björg niður hlíðarnar þar sem þeir vinna..
Fimmtudagur 5. ágúst 2004 -
Síld í Siglufirði - Það hefur ekki skeð í háa herrans tíð, að síld hafi veiðst í Siglufirði, en þegar Kristinn Konráðsson var að vitja um nokkur ýsunet í gær inni á firðinum, kom honum á óvart nokkrar síldar sem ánetjast höfðu í net hans, hann hafði séð fiskivöðu og taldi víst að þar væri ufsi á ferðinni, en við nánari athugun reyndist þarna vera bæði ufsa og síldarvöður- og síld í meira magni og í stærri torfum.
Viggó SI lagði í morgun síldarnet á þessum slóðum, en hann er enn ókominn að landi.
Ég mun fylgjast með þessu.
Á myndinni er Kristinn með eina af síldunum sem ánetjuðust í net hans.
Fimmtudagur 5. ágúst 2004
Mér barst í morgun ánægjulegur póstur, þar sem segir að Sparisjóður Mýrasýslu ætli að styrkja síðu mína með veglegu framlagi, sem notað verður til kaupa á nýjum tölvubúnaði.
Kærar þakkir Gísli
Fimmtudagur 5. ágúst 2004 --
200 kg. af netveiddri síld.
Sverrir Björnsson á Viggó SI 67 lagði í gærkveldi 2 síldarnet á "Hellunni" við Siglufjörð og vitjaði í morgun, hann kom núna laust fyrir hádegið í dag með 200 kg. úr þessum róðri. Þetta er að mestu mjög falleg síld alt að 30 -35 sm,.
Hannes Baldvinsson gamalreyndur síldarmatsmaður frá gömlu góðu árunum, skoðaði eina síldina sem var full af sandsílum og bar síldin greinileg merki um vaxandi þroska og komin var í síldina "mör".
Nú er það spurningin; er þetta af Norsk Íslenska stofninum eða eitthvað annað afbrigði? Þetta er einstakt fyrirbæri sem ekki hefur skeð á marga áratugi. Auk þess sem sjómenn segja merki um margar en smáar vaðandi torfur innan og utan fjarðarins.
Föstudagur 6. ágúst 2004 -
Pæjumótið.
Stanslaus straumur húsbíla, bíla, með og án tjaldvagna, var til Siglufjarðar í gærkveldi. Um klukkan 20;00 voru helstu tjaldsvæðin orðin nær full.
Nægt pláss er þó á Hólssvæðinu og víðar í bænum, svo ekki þarf neinu að kvíða þrátt fyrir það að von er á svipuðum eða jafnvel fleiri gestum en um síðustu helgi.
Yfir 1500 keppendur munu mæta til leiks- og ætla má að 2 fullorðnir fylgi flestum krökkunum auk annarra fjölskyldumeðlima.
<<<< Myndin hér er tekin rétt fyrir klukkan 20:00 í gærkveldi.
Smelltu HÉR þá sérðu allar myndir mínar frá mótinu 502 myndir
Föstudagur 6. ágúst 2004
Morgunverður / Pæjumót. Fyrstu hópar liðanna komu til morgunverðar í sal Hótel Lækur.
Föstudagur 6. ágúst 2004 (fyrripart dags) Pæjumótið hófs stundvíslega í morgun, slatti af myndum sem teknar voru ("holt og bolt") frá klukkan 9:30-11:30 eru á myndasíðunni. (tenglar merktir gulum lit) Það var gaman að horfa á krakkana, en þar sem ég er ekki vanur þeim látum og öskrum, sem fullorðna fólkið lét frá sér fara, þá skyggði það á ánægjuna, sérstaklega einstaka "þjálfarar" sem öskruðu á liðin sín, hvatningar og jafnvel skammir. Kannski á þetta að vera svona? Það þarf ekki að taka það fram að veðrið var eins og best var kosið, logn, sólskin og hiti.
Smelltu HÉR þá sérðu allar myndir mínar frá mótinu 502 myndir
Laugardagur 7. ágúst 2004 Morgunverður / Pæjumót - Ég mætti í morgunmat með Pæjunum í morgun og smellti nokkrum myndum af starfsliði og pæjum.
<<<<<< Á þessari mynd er ung snót með elsta sjálfboðaliðanum í eldhúsinu, sem er Anna Lára Hertervig, vel þekkt áhugamanneskja um fótbolta allt frá unglingsárum hennar, en hún er orðin 81 árs. En Anna er þekkt fyrir fleira en fótbolta, hún hefur lengi verið dáð og vinsæl vegna hinna ýmsu starfa sinna til menningarmála ofl. auk þess sem hún og maður hennar fótboltakappi frá fyrri tíð Sveinbjörn Tómasson ráku hér verslun.
Laugardagur 7. ágúst 2004
Hvalir.
Ég frétti að sést hefði til hvala inni á firði í morgun, ég fór að "leita" þeirra og sá 3 hvali austast í firðinum nærri í fjörunni. Það sást greinilega frá þeim blásturs strókar, en vegna fjarlægðar, (of langt frá til myndatöku að gagni) þaðan sem ég var og gáru frá hafgolunni á sjónum, sást ekki hvort hvalurinn var að elta síld eða annað, en síld var talin líkleg þar sem hún hafði sést í vaðandi torfum inni á firðinum í morgun áður en hafgolan fór að blása.
Laugardagur 7. ágúst 2004
Bláberin.
Sveinn Þorsteinsson sendi mér þessa mynd í morgun sem hann tók uppi í Skarðdal af bláberjalyngi.
Eftir myndinni að dæma virðast bláberin vera á hraðri leið til þroska.
Laugardagur 7. ágúst 2004
Aðsent: Sæll Steingrímur, ég sendi þér hérna nokkrar myndir sem ég tók í ferð eldri borgara. Það var farið héðan rúmlega 8 í gærmorgun og fyrst stoppað á Sauðárkróki og síðan ekið fyrir Skaga, svo var snæddur hádegisverður í Kántrýbæ á Skagaströnd. --
Síðan var ekið yfir Þverárfjall og svo hring í Hegranesinu, síðan var haldið heim að Hólum og svo Stóragerði og skoðað þar bílasafn. -- Þaðan var svo haldið í Höfðahóla og þegnar þar veitingar og svo var haldið til Sigló. -- Þetta var frábær ferð í frábæru veðri í boði Kiwanisklúbbsins Skjaldar á Siglufirði.
Hafi þeir kæra þökk fyrir. Sveinn Þorsteinsson Myndirnar HÉR
Nafnið á dansaranum í strápilsinu á myndinni hér ofar á síðunni: Sigurður Jónsson frá Eyri, háseti / bátsmaður á Haferninum 1966-1970