Lífið 20.-26. Mars 2005

Fréttavefurinn Lífið á Sigló 

20 til 26 mars 2005


Þriðjudagur 22. mars 2005

  Aðsent:

  Nokkrar myndir úr Kirkjuskólanum

Sumar þeirra eru teknar á aðventunni, eins og sést er jólasveinn í heimsókn. Kirkjuskólanum er lokið að sinni, en hefst aftur í haust. 

Kveðjur Þórunn Alda, Elísa, Siggi Prestur og Steini Sveins.  

Þriðjudagur 22. mars 2005--   Bergþór Morthens - Opnar myndlistarsýningu í Ráðhúsinu á Siglufirði 24 mars til 3 apríl- og verður opnuð á skírdag kl. 14 og opið verður til  kl.18.   -- Þetta er fyrsta einkasýning Borgþórs, en hann útskrifaðist úr myndlistarskólanum á Akureyri síðastliðið vor. 

Bergþór hefur verið búsettur hér á Siglufirði síðan í sumar, ásamt unnustu sinni Elínu Aðalsteinsdóttur sem er hjúkrunarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar.  

 Þriðjudagur 22. mars 2005 

Þetta eru Hörður Harðarson og Sævar Guðjónsson.  

Þeir voru í gær að hagræða og gera við rækjutroll frá togurum Þormóðs Ramma Sæbergs hf. sem verið hafa á karfaveiðum síðustu mánuði, en þeir eru fara á næstunni til rækjuveiða þar sem verð á karfamarkaði hefur ekki verið hagstætt undanfarið þrátt fyrir góða veiði. 

Rækjuverðið hafði þar áður verið komið niður fyrir þau mörk að það borgaði sig að gera út á hana, auk þess sem veiði hafði verið treg undir það síðasta.

 Nú er verð á rækju aftur orðið hagstætt svo skipin búast nú til þeirra veiða. 

 Þriðjudagur 22. mars 2005 -- Nýr bátur á sjó  -- Í morgun var sjósettur nýr plastbátur frá Siglufjarðarseig ehf - Báturinn sem heitir Petra SK 18 2668  - frá Haganesvík, er af gerðinni Seigur 1000 og er í eigu Hermanns Björns Haraldssonar.  Petra var rétt komin á flot þegar hafist var handa við að hífa annan bát á land, en það var Júlía SI 62 2319 -  Það á að stækka Júlíu þannig að skutur hennar nýtist betur.  -- Myndirnar hér fyrir neðan

Petra SK 18  2668

Júlía SI 62  2319

 Miðvikudagur 23. mars 2005  -- Ein gömul:   Það sjá allir sem til þekkja, að myndin sýnir Söltunarstöð Ólafs Henriksen. Myndin er sennilega tekin árið 1946 eða 1947  - Þarna sést að búið er að byggja og mála húsið við Hlíðarveg 1 (hús bak við kirkjuna) en húsið byggði Þráinn Sigurðsson árið 1945 -  Ljósmyndina tók Kristfinnur Guðjónsson.   

 Miðvikudagur 23. mars 2005  -- Ásdísi Sigurðardóttur verður með kennslu í stafgöngu á laugardaginn 26 mars.  Þeir sem hafa áhuga á að læra þessa skemmtilegu íþrótt. -- Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér íþróttina geta einnig skoðað heimasíðu Íþrótta- og ólympíusambands Íslands www.isisport.is   og smella þar á linkinn Ísland á iði. Ásdís verðu með námskeiðið á Siglufirði og útvega stafi fyrir þá sem koma á námskeiðið. Hún ætlar að bjóða upp á tvær tímasetningar annarsvegar kl. 11:00 og svo hins vegar kl.16:30. Kennslutími er ca 1 - 1,5 klukkustund. Ásdís mun hefja námskeiðið á planinu sunnan við Torgið. Skráning er í síma 898-3310    disasiggy@simnet.is. 


 Miðvikudagur 23. mars 2005 

Vinna er hafin við innréttingar vegna viðbyggingar Íþróttahússins, aðstöðu til líkamsræktar ofl. 

Ég leit þar inn í morgun og hitti þar broshýra drengi, greinilega komnir í páskaskap. Þeir gáfu sér tíma til að setjast niður á meðan ég tók af þeim mynd. 

Þetta eru Marteinn Haraldsson og Björn Ingimarsson. Það er verktakinn Ó.H.K. sem vinnur verkið, aðrir starfsmenn voru að sinna verkum annarsstaðar, á þeim tíma sem ég mætti.

Miðvikudagur 23. mars 2005  -- Páskablað Hellunnar er komið út. Meðal efnis er opnuviðtal við Önnu Láru Hertervig, umfjöllun og viðtöl við Siglfirðinga mánaðarins,    DB-fisk og Þórarinn Vilbergsson. Frásögn af þátttöku Magnúsar Eiríkssonar í Vasagöngunni, Opna frá Grunnskólanum, Tóti sendir frá sér nýja disk „Stolnar stundir“, Fjarðarkjafturinn og fleira. -- Bestu kveðjur og gleðilega páska - Nú stefna sjálfsagt margir á Sigló, enda einn af örfáum stöðum sem hafa snjó og svo er vegleg dagskrá hér um páskana. 

Miðvikudagur 23. mars 2005  --  PÁSKAGLEÐI  

 Fimmtudagur 24. mars 2005 

Ein gömul:   

Tunnuskip losað við Hafnarbryggjuna einhvern tíma fyrir 1950

Ljósmynd; Kristfinnur Guðjónsson. 

Fimmtudagur 24. mars 2005  -- BOCCIA

Nokkrir eldriborgarar og félagar úr Snerpu fóru til að keppa í Páskamóti Boccia suður til Reykjavíkur 22. mars síðastliðinn. Þar voru 16 lið sem spreyttu sig í íþróttinni. Siglufjarðardeildin lenti í fjórða sæti. Guðný ÓskFriðriksdóttir var í Siglufjarðarliðinu og tók nokkrar myndir  

 Fimmtudagur 24. mars 2005  -   Vinur minn Oddur Guðmundur Jóhannsson fyrrverandi kranamaður og Íris Eva Gunnarsdóttir.  - Ég mætti þeim á Túngötunni seinnipartinn í gær þar sem þau voru á sinni hefðbundnu gönguferð um bæinn. Oddur sem varð fyrir alvarlegum heilaskaða vegna eitrunar sem hann varð fyrir í vinnu sinni fyrir nokkrum árum, sem orsakaði alvarlega skertra hreyfigetu hjá honum, hann hefur síðustu árin notið umönnunar Írisar sem farið hefur með honum í reglulega göngutúra og þjálfað Odd upp. Hún hefur frá upphafi mælt vegalengdirnar sem þau fara daglega og hún sagði mér að þau væru komin að 1100 kílómetra markinu og mundu ljúka við vegalengd "Hringvegarins´" á komandi sumri.  

 



Fimmtudagur 24. mars 2005  

Hann er ekki af baki dottinn hann Valgeir Sigurðsson. 

Á síðastliðnu ári, þegar norski krónprinsinn kom hingað í heimsókn í tilefni af 100 ára afmæli Síldarævintýrsins, þá flaggaði Valgeir hlemmistórum Norskum fána á rústum Evanger verksmiðjunnar, "Siglufjörds Sildolie og Guanofabrik" eins og verksmiðjan hét réttu nafni.

<<<<   Valgeir Sigurðsson








<<<< Fáninn

En nú er Valgeir nýkominn heim eftir smá frí, hann reisti í gær enn stærri flaggstöng handan við fjörðinn á móts við Bensínstöðina og dró þar að húni 30 fermetra Íslenskan fána. 

Tilefnið?  

„Ég er að flagga fyrir nýjum Íslendingi, Bobby Fischer. 

Nú vantar bara að bæjarstjórnin geri karlinn að heiðursborgara, þá kæmist Siglufjörður örugglega í heimspressuna svo um muni, - 

þó svo að hann mundi örugglega ekki koma hingað hvað þá búa hér, frekar en Íslandi yfirleitt“ sagði Valgeir.   

Fimmtudagur 24. mars 2005      Páskadagskráin á Siglufirði. 

Fimmtudagur 24. mars 2005  ---  Bergþór Morthens opnaði  sína fyrstu einkasýningu í Ráðhúsinu í dag klukkan 14:00 og verður sýningin opin yfir páskana, og til 3. apríl, opið alla dagana frá klukkan 14-18.  -- Góð mæting var strax við opnunina.   Ég tók við það tækifæri nokkrar myndir, myndir sem sýna grunntóninn í verkum hans. Sennilega eru litirnir hjá mér við myndatökuna ekki nákvæmir, þar sem birta frá flúrperum í salnum ná til að trufla dagsbirtuna sem þar var inni, en skoðið



Fimmtudagur 24. mars 2005  -- Skíðasvæðið í Skarðsdal.

<<<<< Jóhann Vilbergsson   --  

Nægur snjór og talsverður fólksfjöldi var á skíðasvæðinu í dag, enda glaða sólskin og 8-10 °C hiti. 

Meðal gesta er Jóhann Vilbergsson margfaldur Íslandsmeistari í Alpagreinum hér áður fyrr. 

Fjölskylda hans er með honum nú á heimaslóðum. Jóhann varð 70 ára síðastliðinn sunnudag.  

   


<<<<<<  Vegurinn og "Bílastæði" norðan við Skíðaskálann í Skarðdal

Föstudagur 25. mars 2005 

Hópur vinnufélaga í heimsókn, þegar Friðrik Stefánsson í Bakka átti 70 ára afmæli árið 1967 -
Myndin er tekin við tröppur heimilis hans að Hvanneyrarbraut 65 Siglufirði
Mynd nr.  10-67-0201-18-sk-0855-SharpenAI-Standard

Fremsta röð frá vinstri:

1.       Steingrímur Magnússon,

2.       Guðlaugur frá Lambanesi

3.       Ásgrímur Sigurðsson

4.       Björn Frímannsson,

5.       Pétur Magnússon  

6.       Þorkell Jónsson Miðsetu

7.       Ólafur Magnússon

8.       Ragnar Helgason Kambi

9.       Frímann Guðbrandsson fv. bóndi

10.   Ragnar Kristjánsson

11.   Guðmundur Bjarnason

Fyrir aftan ofannefnda:

12.   Jón Sigurðsson Skarðdal

13.   Ólafur Eiríksson

14.   Sigfús Steingrímsson

15.   Friðrik Stefánsson í Bakka

16.   Gestur Frímannsson

17.   ?

18.   Helgi Daníelsson

 Föstudagur 25. mars 2005  


Aðsent: Sæll Steingrímur.

 Ég mátti til með að senda þessa mynd sem ég tók þegar ég kom í páskafríið og er af tómat sem ákvað að halda áfram að lifa og spíraði í eldhúsglugganum hjá henni mömmu á Laugarveginum.

 Ég verð líka að nota tækifærið og þakka fyrir skemmtilegar fréttir frá Siglufirði, sem ég veit að eru mikið lesnar og ekki síst af okkur brott fluttu Siglfirðingunum.  

Kveðja, Herdís Sigurjónsdóttir (Ásdísar og Budda) 

 Föstudagur 25. mars 2005  -- Aðsend páskakveðja: Ég er stödd í Californíu og vildi bara kasta smá páska kveðju til fjölskyldu og vina. Og svo auðvita líka til Siglfirðinga. Ef þú mátt vera af því þá væri það mikils metið.  Bið síðan að heilsa til Siglufjarðar.    

Kveðja, Maríanna Leósdóttir Cowell 

Föstudagur 25. mars 2005  --  

Karlakór Siglufjarðar var að æfingu í Bátahúsinu seinnipartinn í gær. 

Ég heimsótti þá og tók nokkrar myndir við það tækifæri, svona til að æfa mig fyrir næstkomandi laugardag, en þá halda þeir stórtónleika með einsöngvurum og uppákomum. 

Föstudagur 25. mars 2005 --  Fílapenslarnir, þessir sem ekki þarf að kreista.  Þeir fóru á kostum í gærkveldi á skemmtun sinni að Kaffi Torg sem lauk ekki fyrr en um miðnætti. Húsfylli var (uppselt) og skemmtu allir sér konunglega. Þeir voru í lokin margsinnis kallaðir upp og sungu nokkur aukalög. Ekki ætla ég að tíunda það frekar, en eins og venjulega þá lét ég skotin duna og árangurinn kemur í ljós þegar þú smellir HÉR

 Laugardagur 26. mars 2005  --  Ein gömul:   

Togarinn Elliði SI 1   Ljósmynd: Hinrik Andrésson 

Laugardagur 26. mars 2005  -- Aðsent: Ég sendi þér hér nokkrar myndir sem ég tók í gær. Við fórum tveir héðan frá Siglufirði upp á Lágheiði í vélsleðaferð (Raggi H. og Sigurjón Páls) útsýnið og veður var frábært eins og myndirnar bera með sér.  

Kveðja, Raggi Hauks.    

 Laugardagur 26. mars 2005   Aðsent: 

Fyrsta AA-deildin á Íslandi varð til fyrir réttum 51 ári. Hún byrjaði eins og flestar aðrar deildir : Með því að þrír félagar vildu hætta að drekka og ákváðu að hittast. Þetta voru þeir Guðmundur J., Jónas G. og Guðni Þ.H.--- Guðni hafði verið búsettur í Vesturheimi og þekkti til AA-samtakanna. Ákváðu þremenningarnir að stofna AA-félag á Íslandi og var formlegur stofnfundur haldinn að kvöldi föstudagsins langa, 16. apríl 1954 í samkomusal vélsmiðjunnar Héðins í Reykjavík.  -- Guðmundur J. sagði eitt sinn: "Oft á stór sál sér samastað í litlum kroppi,“ segir máltækið og sannarlega hefur spíran sem gróðursett var á Íslandi á föstudaginn langa 1954 verið eins og blaktandi strá í upphafi. En fyrr en varði fór það að vaxa og dafna og er í dag orðið að stóru tré sem teygir greinar sínar og laufskrúð um allt Ísland."  --- Í dag eru um það bil 26 ár síðan fyrsta AA-deildin var stofnuð í Siglufirði, margur maðurinn og konan eiga líf sitt og gæfu að þakka tilveru AA-samtakanna. --  Í dag var haldinn afmælisfundur í safnaðarheimili Siglufjarðarkirkju og var vel mætt. Vegna nafnleyndar er ekki hægt að birta myndir frá fundinum, en meðfylgjandi er mynd af " Pontunni " okkar.    --  S.Þ.  

Laugardagur 26. mars 2005  --  Ásdís Sigurðardóttur var með kennslu í stafgöngu í morgun.  Nokkur áhugi er á að læra þessa skemmtilegu íþrótt. -- Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér íþróttina frekar, geta skoðað heimasíðu Íþrótta- og ólympíusambands Ísland swww.isisport.is   og smella þar á tengilinn Ísland á iði. -- Einnig gefur Dísa upplýsingar í síma; 898-3310 og  disasiggy@simnet.is  --  Á myndinni eru; talið frá vinstri Guðný Helgadóttir, Fríða Gylfadóttir, Ásta Oddsdóttir, Svanfríður Pétursdóttir, Margrét og Pálína Kristinsdætur, Ásdís Magnúsdóttir, Jósefína Benediktsdóttir, Halla Kjartansdóttir, Gíslína Anna Salmannsdóttir, Elín Björnsdóttir og Ásdís Sigurðardóttir.    

 Laugardagur 26. mars 2005 

Nýr diskur frá Tóta --

 Á dögunum kom út annar geisladiskurinn frá Þórarni Hannessyni, eða Tóta eins og við köllum hann. Diskurinn heitir Stolnar stundir og á honum eru 12 lög og textar eftir Tóta. Töluvert meira var lagt í þennan disk en þann fyrri, sem heitir Má ég kitla þig? og kom út árið 2001. Lögin eru meira útsett, fleiri hljóðfæri koma við sögu og tónlistin er fjölbreyttari en fyrr. ----  Diskurinn Stolnar stundir var tekinn upp í Ólafsfirði og hljóðblandaður á Akureyri og óskaði höfundur sér oft að Héðinsfjarðargöngin væru nú komin þegar hann var að renna yfir heiðina í hljóðverið. ---  Diskurinn er kominn í sölu hér á Siglufirði og er hann seldur í Videoval og Siglósport, auk þess sem hægt er að banka uppá hjá Tóta eða hringja til að nálgast eintak. Diskurinn kostar 2.000 krónur  Tóti verður með ýmsar kynningar á diskinum á næstunni og í dag ætlar hann m.a. að vera í Videovali kl. 16.00 og Siglósport kl 17.00 og flytja lög af diskinum. 

Einnig mun hann koma fram á stórskemmtuninni Allt frá Óperu til Idols sem verður á Allanum í kvöld.  -- Þeir sem áhuga hafa á að heyra sýnishorn af diskinum geta einnig farið inn á heimasíðuna www.mogo.is  en þar er hægt að heyra brot af öllum lögunum.--  Burt fluttir Siglfirðingar og aðrir sem þetta lesa geta sent tölvupóst á hafnargata22@simnet.is  ef þeir hafa áhuga á að eignast gripinn.  

 Laugardagur 26. mars 2005 Mikil gróska er í allskonar föndri og gerð minjagripa á Sigló. Nú síðustu ár hafa verið hér opin Gallery á þrem stöðum; í Norðurgötu þar sem Þórunn Kristinsdóttir og Fríða Gylfadóttir ráða ríkjum Myndin til vinstri.  Í Suðurgötu "Gallerí Sigló" þar sem Sigríður Björnsdóttir, Ásdís Gunnlaugsdóttir,  Kristín Baldvinsdóttir og Salome Sigfúsína Gestsdóttir vinna saman að fjölbreyttri minjagripagerð. --  Myndin hér fyrir neðan til hægri, er af  Salome, en hún var ein við, er ég heimsótti bækistöðvarnar í dag um klukkan 14:30. --  Þriðja vinnustofan er í Aðalgötunni og þar ræður ríkjum Arnfinna Björnsdóttir, en þar var lokað er ég kom þar í dag.  Þar fyrir utan eru tvær verslanir sem selja ýmsar tegundir minjagripa ásamt fleiru; Aðalbúðin og Gjafakot. 

Þórunn Kristinsdóttir og Fríða Gylfadóttir

Salome Sigfúsína Gestsdóttir