Lífið 19.-25. Janúar 2004

Fréttavefurinn Lífið á Sigló 

2004

19. janúar 2004 (mánudagur)

Snjóflóð fór yfir þrjú dæluhús Hitaveitu Rarik á Siglufirði, sennilega á laugardag  þ.17. Skemmdir urðu á fjarskiptabúnaði, útiljósum og grindverki.

Ég fékk upplýsingar um þetta í gærkveldi. Ég mun leita nánari frétta um þetta seinna í dag. Engar skemmdur hafa þó orðið á dælubúnaðinum né það stöðvað eðlilegt rennsli veitunnar. 

Húsin sjálf eru hönnuð með það fyrir augum að þola snjóflóð, sem þau hafa oft sannað á undanförnum árum þar sem snjóflóð hafa áður fallið yfir þau án þess að skaða húsin sjálf.

Meðfylgjandi mynd tók ég um kl 14:30 í gær, án þess að veita neinu óvenjulegu eftirtekt, en við skoðun á myndinni stærri, þá sést akkúrat ekkert nema snjór, engin ljós sem þó lifa venjulega allan sólarhringinn þarna við dæluhúsin, eða þá önnur auðkenni, allt á kafi í snjó

19. janúar 2004  --  Litlu er hægt að bæta við fréttina hér fyrir ofan um snjóflóðið. 

Árni Skarphéðinsson starfsmaður veitunnar sendi mér þessa mynd, er sýnir einn starfsmann á leið að einu dæluhúsinu með skóflu. -- 

Loftnet vegna fjarstýribúnaðar og ljósabúnaður hefur sópast af húsinu, en húsið stendur óhaggað. Árni ætlar að taka þarna fleiri myndir í dag, ma. af snjómokstrinum og senda mér seinnipartinn. Og það gerði hann.  

Skemmdir inni í Skútudal vegna snjóflóðs,  það féll á þrjú af dæluhúsunum þar. Flóðið mun hafa verið um 250 metra breitt en ekki mjög þykkt. Flóðið stoppaði þó ekki fyrr en það hafði farið yfir Skútuána neðst í dalnum. Viðbót við skemmdir voru brotna lofttúður og ljósastaurar. Hér eru myndirnar sem þeir félagar tóku fyrir mig.  

Smelltu HÉR

20. janúar 2004 - Sundlaug Siglufjarðar. Þar kom ég við í morgun ma. í leit frétta. Þar var ekkert að ske um 11 leitið, aðeins einn gestur á leið út. 

Ég spurði afgreiðslustúlkuna (myndin er af stúlkunni) sem heitir Ásta Oddsdóttir, hvar forstöðumaðurinn væri. - 

Jú hann var að slappa af eftir annasaman morgun í heita pottinum. - Þangað fór ég og þar hitti ég Sigurð Friðriksson afslappaðan og brosmildan. Hann sagðist oft skreppa í pottinn þegar tækifæri gæfist, en það væri oftast á þessum tíma dagsins. Sigurður Friðriksson og kona hans Jónína Kristín Jónsdóttir hafa rekið Sundlaug Siglufjarðar um nokkurra ár skeið og líkar það vel, hún var því miður ekki viðstödd að sinni. 

21. janúar 2004 Aðalskipulag Siglufjarðar 2003 – 2023

Kynningarfundur um skipulagstillöguna var haldinn í Ráðhúsinu 2. hæð í gær 20. jan. kl. 17:00

Halldór Jóhannsson landslagsarkitekt mætti á fundinn og gerði grein fyrir skipulags tillögunni. 

Nokkrar fyrirspurnir og athugasemdir komu fram. Kynnirinn, tók ma. fram að nánari upplýsingar og kort mætti skoða á vefnum, án þess þó að það væri skýrt nánar. 

Ég tók sem svo að það hlyti að vera á www.siglo.is -- Þar er nú kominn tengill sem heitir "Aðalskipulag" 

(ath; 2018, tengill fjallabyggðar á þeim tíma)  Myndir HÉR

21. janúar 2004 

Fundur Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra var haldinn á Kaffi Torg í gærkveldi. Þetta var fjölmennur fundur á mælikvarða venjulegrar fundarsóknar á Siglufirði, rúmlega 70 manns. 

Þetta var málefnalegur fundur og margir fundarmenn tóku til máls og komu með fyrirspurnir til ráðherrans, sem og hann svaraði skilmerkilega. 

Ein af spurningunum var varðandi framkvæmdir við brúargerð, vegalagningu og raflagnir að fyrirhuguðu jarðgangaopi vegna Héðinsfjarðarganga, yfir Hólsána og inn í Skútudalinn. 

Svar hans var afdráttarlaust. 

"Það verður byrjað á þessum framkvæmdum í sumar hvað sem hver segir." (nærri því orðrétt)  

Smelltu HÉR og skoðaðu fleiri myndir frá fundinum.




21. janúar 2004 

Þessa smiði, hitti hjá Olís í morgun, þetta eru þeir Hallgrímur Vilhelmsson og Sverrir Jónsson. 

Báðir eru þeir starfsmenn Berg hf. 

22. janúar 2004 -- Vegna umræðu þeirrar sem aftur hefur skapast um Héðinsfjarðargöng, eftir fund utanríkisráðherra í fyrrakvöld, þá birti ég hér til gamans mynd sem tekin var árið 1959 - en þá var "hafist handa" við Strákagöng með því að sprengdir voru um 30 metrar inn í fjallið. Þetta var gert með "viðhöfn" (fyrstu aðgerðir) og á staðinn mættu þingmennirnir; Gunnar Jóhannsson og Einar Ingimundarson sem börðust sem harðast fyrir Strákagöngum á þessum tíma. -- En eftir að 30 metrunum var náð varð langt hlé á framkvæmdum, eða þar til haustið 1965 að fyrirtækið "Efrafall hf." var falin framkvæmdin, sem "lauk" 10. nóvember árið 1967  (skoðið hér) 

Myndin hér fyrir neðan er af þeim sem hófu vinnu við 1. alvöru jarðgöngin á Íslandi árið 1959: 

Einar Hermannsson bifreiðastjóri , Skúli Magnússon bifvélavirki, Alli Rúts, Jón Jónasson verkamaður, Hallgrímur Jónsson bifreiðastjóri, Sigurður Jónsson verkamaður, Guðni Guðnason bifreiðastjóri, Friðgeir Árnason ýtustjóri, verkstjóri og sprengimaður, Kári Jónsson verkamaður, Hlynur Óskarsson verkamaður, Gunnar Jóhannsson alþingismaður og Einar Ingimundarson alþingismaður. Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson 

22 . Janúar 2004  -- Fiskverkun Daníels Baldurssonar ehf., er lítið frystihús, raunar eina frystihúsið á Siglufirði þar sem verkaður er bolfiskur til frystingar og útflutnings. Þar vinna þegar mest er 8-10 manns, en þegar mig bar að garði voru þar aðeins þrír að störfum, þau Daníel Baldursson, sonur hans Baldvin Jörgen Daníelsson og Sólrún Elíasdóttir. 

Þeir feðgar kaupa mest allan fisk sem þeir verka frá markaði. Það er að vísu nokkuð dýr fiskur, en kostirnir er þó margvíslegir; þeir spara vinnu og tafir við verkunina, miðað við það að vakta komu smábátanna og sækja fiskinn sjálfir, því flutningsaðilinn færir þeim fiskinn heim í hús. 

Svo geta þeir ráðið magninu sem þeir taka til verkunar hverju sinni með hliðsjón af þeim tíma sem þeir hafa til að skila sem ferskastri vöru. Fyrir utan bolfiskinn þá verka þeir allar tegundir sem þeir geta fengið, þeir verka þeir einnig Tindabikkju, allt til útflutnings. 

Með því að ganga sjálfir í öll verkin varðandi verkunina, þá gengur dæmið vel upp hjá þeim feðgum, en oft er þó langur vinnudagurinn hjá þeim, en það koma þó stundir á milli sem minna er að gera. 

22. janúar 2004 --  Snjóflóð á Vatnsenda í Héðinsfirði. Þann 21. janúar voru tveir vélsleðamenn á ferð í Héðinsfirði og sáu þá að snjóflóð hafði fallið á Vatnsenda í Héðinsfirði. Sleðamennirnir létu Þorstein Jóhannesson einn af eigendum hússins vita af tjóninu og fór hann ásamt þeim á staðinn til þess að skoða aðstæður. Hér á eftir fer lýsing Þorsteins á aðkomunni: 

Snjóflóðið hefur sennilega fallið laugardaginn 17. janúar á sama tíma og flóðið sem lenti á mannvirkjum hitaveitunnar í Skútudal. Flóðið kom úr Vatnsendaskál, lenti á sumarhúsinu á Vatnsenda, braut það niður og færði hluta þess út á Héðinsfjarðarvatn.

Ekki er vitað um að snjóflóð hafi áður fallið á þessum stað og almennt hefur verið talið að snjóflóð geti ekki borist fram úr Vatnsendaskálinni vegna þess hvað botn hennar er hallalítill.

Árið 1725 féll snjóflóð á bæinn á Vatnsenda, en hann stóð þá um 200m sunnar en steinhúsið sem nú brotnaði niður. Í flóðinu 1725 fórust a.m.k. fjórir.

Eftir þetta mannskæða flóð var bærinn færður 100m til norðurs og var búið á því bæjarstæði fram til 1936. Fyrir aldamótin 1900 mun snjóflóð hafa fallið rétt sunnan við þennan torfbæ og sumar heimildir segja að skemmdir hafi orðið á húsinu.

Þessi snjóflóð munu hafa átt upptök í hlíðinni sunnan við Vatnsendaskál og norðurjaðar þeirra náð að húsunum. 

Þegar Þorvaldur Sigurðsson bóndi á Vatnsenda byggði nýtt steinhús á jörðinni 1936, færði hann bæjarstæðið en um 100m til norðurs á stað, sem talinn var öruggari en gamli bæjarhóllinn. Afkomendur Þorvaldar höfðu  síða endurbyggt steinhúsið og gert það að sumarbústað. Tjón eigendanna er sérstaklega mikið vegna tilfinningalegra tengsla við þennan fagra stað. 

Þessi mynd sýnir það sem eftir er af húsinu. -- Ljósmyndir: Þ.J 

22. janúar 2004 

Síldarminjasafnið "keppir til úrslita á Ólympíuleikvanginum"

Tilkynning hefur borist frá Safnaráði Evrópu (Europian Museum Forum) um að Síldarminjasafnið á Siglufirði hafi verið valið til áframhaldandi keppni til Evrópsku safnaverðlaunanna 2004.

Hefðin er sú að dómnefnd skoðar öll þau söfn sem tilnefningu hljóta og velur um 60% þeirra til aðalkeppninnar. Á árlegum fundi ráðsins, sem að þessu sinni verður haldinn í Aþenu 5.-8. maí í vor, verða úrslit kunngerð og verðlaun veitt. Til þessa fundar er boðið fulltrúum þeirra 40 safna sem standa eftir í keppninni.

Þessi tíðindi eru mjög ánægjuleg og mikils virði fyrir Síldarminjasafnið. Einnig ætti þetta að vera fagnaðarefni fyrir Safnaráð sem tilnefndi Síldarminjasafnið og ákvað þar með fyrstu þátttöku Íslands í þessari virtu keppni.




23. janúar 2004 

Í morgun var verið að flytja norðan úr fjalli, stórgrýti sem notað verður til að fylla upp í gap innan við bryggjurnar í Bátadokkinni. 

Bás er með þetta verk 




23. janúar 2004 

Í briminu undanfarna daga hefur að venju safnast mikill sandur í fjörunni norðan flóðavarnargarðsins. 

Þessum sandi safna bæjarkarlarnir saman í haug og flytja síðan til geymslu og ma. notað til að bera á götur og gangstíga vegna hálku. 




23. janúar 2004 

Egilssíld hf. var enn einu sinni að taka við viðurkenningu fyrir vöruvöndun og fleira. Þetta er í 5. sinn sem Egilssíld fær viðurkenningu frá ICELANDIC USA INC 

Og það sem vekur sérstaka athygli, það er að viðurkenningin er 100%- engir gallar né athugasemdir hafa verið gerðar varðandi framleiðsluferlið, allt frá starfsfólki hjá Egilssíld, að borði neytanda úti í USA eða annarsstaðar. 

Til hamingju Hansi og starfsfólk 

Myndir sýnir Hansa með síðustu viðurkenninguna.

 Fleiri myndir sérðu frá fyrirtækinu Egilssíld ef þú smellir HÉR.

24 janúar 2004 -- Á myndinni hér fyrir neðan eru "Pálsmenn" vinnuhópur undir stjórn Páls G Jónssonar byggingameistara hjá SR. - Árið 1959

Talið frá vinstri: Páll G Jónsson, Jónmundur Hilmarsson, Geir Guðbrandsson, Steingrímur Kristinsson, Júlíus Gunnlaugsson, Einar Björnsson, Þorleifur Hólm og Óskar Garðarsson -- Myndin hér er af hópnum, þarna eru þeir staddir í helgarpásu í Ásbyrgi, en þeir voru að vinna við uppbyggingu á verksmiðju SR á Raufarhöfn. -- Myndin tekin á vél mína af ónefndum gesti í Ásbyrgi. 


25. janúar 2004 

Videoval. Nýir rekstraraðilar hafa tekið við rekstri fyrirtækisins. 

Það eru hjónin Fanney Margrétardóttir og Þorsteinn Sveinsson. (Fanney og Steini) Þau hafa tekið staðinn á leigu næstu 2 árin og nefna hann Videoval. 

Auk þess að vera með videospólur og DVD diska til leigu, þá eru þau með ýmsan annan varning, sælgæti, skótau og jafnvel hundamat ofl. 

Smelltu HÉR til að sjá fleiri myndir 




25. janúar 2004 

Þessi mynd var tekin sumarið 1982, er Lionsfélaga ofl. unnu við að þekja kirkjuturninn með "trapisujárni". 

Talið frá vinstri; 

sr. Vigfús Þór Árnason, Sverrir Sveinsson, Hermann Jónasson, Haukur Jónasson, Salmann Kristjánsson, Haraldur Árnason, Anna Júlía Magnúsdóttir, Ásgeir Björnsson, Jón Dýrfjörð og Pétur Garðarsson