Lífið 23.-31.október 2005

Fréttavefurinn Lífið á Sigló

23 til 31. október 2005

Sunnudagur 23. október 2005 -- Reisugilli -- Þessi mynd er tekin árið 1976 - þegar steypuvinnu var lokið við hitaveitutankinn, sem nú er í eigur Rarik hitaveitu. Þá er að finna á tenglinum nokkrar myndir frá Siglufirði, hús og mannvirki frá árinu 1976 -- mörg þeirra eru horfin í dag. Myndir HÉR

Sunnudagur 23. október 2005 Þessi mynd er sett svona til uppfyllingar, en ég tók myndina klukkan 17:22 í gær, er ég var að koma frá Akureyri á leið heim.

Horft er til vesturs yfir Skagafjörðinn, frá Almenningum.

Sunnudagur 23. október 2005 - Raggi Gísla SI 73 2594 á leið í róður í morgun

Mánudagur 24. október 2005 - Í klakaböndum Þessa mynd tók Hrönn Einarsdóttir í dag frammi í Skógrækt: Leyningsfoss

Mánudagur 24. október 2005

Ein gömul: Gæti það verið - að þessi mynd sé frá síðustu "alvöru" síldarsöltuninni á Siglufirði? -- Myndin er tekin árið 1976.

Ég man ekki í hvaða húsi þessi söltun fór fram, en síldin kom með síldarbátnum Reykjaborg RE 25. ---

Síldinni hafði verið komið fyrir í bæði tré og plast kössum um borð og var "ísuð" -- Myndirnar sem ég tók þarna eru af lakara taginu tæknilega, en þarna inni var mikil gufa, sem og settist á linsu myndavélarinnar, án þess að ég hafi tekið eftir fyrr en eftir á. - En þær segja sína sögu.----

Viðbót: Sæll Steingrímur! -- Ég held að það sé rétt hjá þér, að þetta er mynd frá síðustu "alvöru söltun" á Siglufirði.---

Hún var á vegum Lagmetisiðjunnar Siglósíld og fór fram í suður hluta hinnar nýbyggðu frystigeymslu Þormóðs ramma.

Ekki man ég hve mikið var saltað í þetta sinn en síldin var síðan notuð sem hráefni í framleiðslu verksmiðjunnar og hefur líklega verið seld til Rússlands eða Svíþjóðar. --

Með bestu kveðju, Hannes P. Baldvinsson.

Mánudagur 24. október 2005

Bakktorgið við innkeyrsluna í bæinn, hefur verið í uppbyggingu í sumar og í haust. Síðustu vikur hefur vinna þar legið niðri, mest vegna lélegrar tíðar.

Þessir tveir, Halldór Jóhann Einarsson og Benedikt Stefánsson voru að vinna við hleðslu grjótgarða nú um helgina. -

Halldór er úr Skagafirðinum, en þar í sveit eru margir snillingar við grjótgarðabyggingu.

Myndin var tekin seinni partinn í gær.

Föstudagur 21. október 2005 Aðsent: ÁFRAM STELPUR --- Höldum saman upp á kvennafrídaginn í DAG. -- Hittumst við kirkjuna kl. 14.30 --- Gaman væri ef einhverjar kæmu með kröfuspjöld eins og í denn.--- Svo höldum við áfram niður tröppurnar og marserum að Bíó Café (samkvæmt auglýsingu frá þeim). -- Mætum saman og fáum allar með okkur. --- Baráttukveðjur - Áhugafólk um jafnréttisbaráttu :) Karlar, ungir sem gamlir: Styðjum stelpurnar, við getum ekki án þeirra verið. -

Ég mæti með myndavélina og "skýt" á allt sem hreyfist. SK

Mánudagur 24. október 2005 Frá SSNV Fréttatilkynning send út þann 21. október 2005 -- Tengiliður og nánari upplýsingar; Ómar Hauksson, atvinnuráðgjafi á Siglufirði, s. 460 5612 / 897 1935 tölvupóstur omar@ssnv.is Tikynningin öll hér neðar.

Mánudagur 24. október 2005 -- Fjöldamet var slegið á Siglufirði í dag þegar konur ungar sem gamlar gengu frá kirkjunni, niður kirkjutröppur og niður Aðalgötu. Annar eins hópur hefur ekki sést samankominn í einni göngu á Siglufirði, frá því að fólk almennt tók þátt í skrúðgöngum á 1. maí og 17. júní hér áður fyrr. Og þess er að geta að mjög lítið fór fyrir þeim örfáu körlum sem í hópnum voru. Síðan hélt hópurinn inn á Bíó Café og Bíó salnum drakk þar kaffi saman og þar var auðvitað einnig mikil ös. Allt í tilefni Kvennafrídagsins.

Myndasería frá göngunni og heimsókninni í "Nýja Bío". Myndir HÉR

Þriðjudagur 25. október 2005

Ein gömul:

Ekki man ég hvað þarna fór fram.

En þessir ungu og efnilegu menn (árið 1976) eru Birgir Guðlaugsson - Birgir Björnsson - Hreinn Júlíusson - Björn Jónasson og Rögnvaldur Þórðarson.

Allir Kiwanis félagar.

Þriðjudagur 25. október 2005-- Aðsent: -- Sælt veri fólkið. Nú þegar vetur er búinn að heilsa okkur í Siglufirði er nauðsynlegt að fara að hugsa til smáfuglanna. Margir hér í bæ eru raunar löngu teknir að kasta út einhverju góðgæti dag hvern fyrir þessa litlu vini. ---- Í morgun voru a.m.k. 30 skógarþrestir í trjánum uppi á Hvanneyri og þar að auki einn óvæntur gestur. Þar var kominn hettusöngvari, karlfugl. --- Læt fylgja hér tvær myndir, sem teknar voru í morgun. Önnur er af skógarþresti, sem líkar afar vel að narta í epli í kuldanum, og hin er af umræddum flækingi, sem einnig þótti hinn mjúki biti ljúffengur, auk þess að fá banana í eftirrétt. --- Mér þætti vænt um ef fólk léti mig vita af slíkum torkennilegum fuglum á næstu dögum, vikum og mánuðum. -- Kveðja. Sigurður Ægisson

Skógarþröstur

Hettusöngvari

Þriðjudagur 25. október 2005

Aðsent: Foreldrar og forráðamenn barna í Leikskóla Siglufjarðar

Aðalfundur Foreldrafélagsins verður haldinn í dag miðvikudaginn 26. október kl. 20:00 í leikskólanum.

Farið verður yfir starfsemi félagsins síðasta vetur og hvað verði á döfinni þann næsta. Öllum er óhætt að mæta því ekki verður kosið í neina stjórn. Við vonumst til að sjá ykkur kæru foreldra því við ætlum jú að tala um mál er snúa að börnum okkar. Stjórnin.


Miðvikudagur 26. október 2005

Ein gömul:

Bryggjuliðið að störfum 1976 (víravinna)

Miðvikudagur 26. október 2005

Nokkuð hefur snjóað í gærkveldi, nótt og fram að hádegi að minnsta kosti.

En þó ekki svo að þurft hafi að moka götur bæjarins, þar sem allir bílar eru komnir á vetrardekkin, og Siglfirðingar almennt góðir (hæfir) ökumenn, hvað akstur í snjó snertir.

En Siglfirskir ökumenn eru afleitir ökumenn þegar kemur að því að þeir leggi bílum sínum, sem allt of mikið er um að sé lagt ólöglega við öll tækifæri, enda hafa þeir ekki þurft að kvíða áminningu og eða kærum fyrir það, þar sem slíkt umferðarlagabrot hafa verið látin afskiptalaust af hálfu lögreglu á Siglufirði.

Miðvikudagur 26. október 2005

Talsvert hefur bætt í snjókomuna nú eftir hádegið (14:15) Þessa mynd tók ég á þeim tíma. Ekki voru þó göturnar orðnar ófærar, en ég ætlaði því að gera mér erindi fram á fjörð, þar sem Rarikmenn eru sagðir vinna við að leggja jarðstreng frá Ásnum til byggðar þvert yfir botn fjarðarins ámóta stefnu að flugvelli austur- vestur. En vegna skafrennings og snjóblindu hætti ég við þá ferð, til að verða ekki sjálfum mér og ef til vill öðrum til vandræða, ef ég færi út úr "slóðinni" og festi bílinn minn sem er bara venjulegur 6-7 ár Lanser fólksbíll með drifi aðeins að framan. --

Varðandi framkvæmdirnar, þá vill stundum brenna við að þeir sem stjórna framkvæmdum frá skrifborði í Rvk., á lagningu síma og rafmagnsstrengja og fleiru norður í landi, láta ekki hefja ekki verk fyrr en vetur konungur er genginn í garð og geta svo ekki lokið verkum fyrr en á næsta vori, með opna skurði ófrágengnum gangstéttum og tálmunum.

Fimmtudagur 27. október 2005

Ein gömul:

Reisugilli Rafveitu Siglufjarðar (?) vegna Neðri virkjunar 1976


Á myndinni eru meðal annarra:

Ragnar Guðmundsson - Guðmundur Davíðsson - Bjarni Þorgeirsson og Guðlaugur Karlsson

Fimmtudagur 27. október 2005

Fréttatilkynning: Undirskriftasöfnun með kröfu um staðsetningu flugvallar í Reykjavík.

ÁFRAM, hagsmunasamtök íbúa í Dalvíkurbyggð, hafa nú hrundið af stað undirskriftarsöfnun til að árétta þá hagsmuni sem í húfi eru fyrir allt landsbyggðarfólk, þegar rætt er um flutning innan landsflugs úr Vatnsmýrinni. Sérstaklega er minnt á þá öryggishagsmuni sem tengjast sjúkraflugi,...... meira - Undirskriftum verður væntanlega einnig safnað á Siglufirði Fréttatilkynningin er neðst á súnni hér

Fimmtudagur 27. október 2005 -- 10 kvölda Bridgeskóli á vegum Bridgefélags Siglufjarðar hófst í gærkveldi í húsnæði Skeljungs á Siglufirði. Námskeiðin eru ókeypis í boði Bridgefélagsins. Leiðbeinendur verða Sigurður Hafliðason, Ólafur Jónsson, Þorsteinn Jóhannsson og Kristín Bogadóttir. Ég leit þangað inn í gærkveldi, en þá var Sigurður Hafliðason að fara yfir tilhögun námskeiðsins, myndin til vinstri,- og hin sýnir hópinn sem mættur var. Á myndinni hér neðar er Sigurður Hafliðason

Fimmtudagur 27. október 2005 - Bæjarkarlarnir hófu að hreinsa snjó af götum bæjarins fyrir klukkan 6 í morgun og um hádegisbilið höfðu flestar götu og svæði verið hreinsuð.

Fimmtudagur 27. október 2005

Þessa mynd fékk ég senda, en hana tók Guðmundur Ragnarsson fyrr í mánuðinum.

Á myndinni er Starfsmaður Vegagerðarinnar - Hreinn Júlíusson - Steingrímur Kristinsson og Sigurður Hlöðversson

Fimmtudagur 27. október 2005 Sælt veri fólkið aftur. - Þegar ég hafði nýlokið við að senda inn myndina af hettusöngvaranum síðast, komu tveir aðrir, einnig karlfuglar. Í morgun var svo mættur einn garðsöngvari, sem myndin er af, og einnig svartþröstur (kvenfugl). -- Það virðist því ýmislegt á sveimi í firðinum þessa dagana. - Kveðja. Sigurður Ægisson

Fimmtudagur 27. október 2005

Í sannleika sagt -- þá verð ég að viðurkenna að ég var svo "blautur á bak á við eyrun" að mér fannst ekkert sjálfsagðara, en að þeir væru búnir að ljúka nefndu verki -þar sem bæjarkarlarnir eru öllu jöfnu fljótir til verka. ----

En ég var að koma úr bæjarrúnti nú klukkan 13:40 og sá að þessu var ekki lokið eins og ég hélt.

Raunar sá ég hvergi neitt snjóruðningstæki að vinnu og víða hefur ekki verið stungið niður tönn. Ef til vill hafa "karlarnir" farið eftir beinum fyrirmælum bæjarstjóra um að takmarka hreinsun (?) Það hefur margsinnis komið fram að staðreyndin er sú að það ÞARF að spara.

Til viðbótar þá er hér einn af þremur póstum sem beið mín: SK

Ég er bara ekki sammála þér varðandi þessi ummæli þín um snjómokstur í bænum...

Fimmtudagur 27. október 2005 "Bæjarkarlarnir hófu að hreinsa snjó af götum bæjarins fyrir klukkan 6 í morgun - og um hádegisbilið höfðu flestar götu og svæði verið hreinsuð." -

Þegar ég fór í vinnu í morgun þá var búið að moka hjá leikskólanum (sem er mjög gott) aðkoma að efra skólahúsi og einnig því neðra var “ömurleg” -- En það var búið að moka TORGIÐ ..... nú þætti mér gaman að vita hver er forgangsröðun í Siglufirði varðandi snjómokstur.....

Eða er eitthvað skipulag sem er farið eftir? -- - Gott væri að þetta kæmi fram hjá stjórnendum bæjarins. “Því eins og við vitum eru til ótal “sérfræðingar í snjómokstri hér í bæ” --- Ég veit ekki hvort að þessi umræða á að vera á heimasíðu þinni eða einfaldlega undir “umræðan” - Með kveðju. HE --

Ath. Umræðan er opin SK,

Fimmtudagur 27. október 2005 Viðbót við snjómokstursumræðuna: Sæll Steingrímur. Vegna umfjöllunar um snjómokstur þá vil ég koma því á framfæri að til eru reglur um forgangsröðun og eftir þeim hefur verið farið í mörg ár. --- Reglurnar er hægt að fá á bæjarskrifstofu auk þess sem þær hafa verið auglýstar í Tunnunni á hverjum vetri í nokkur ár. ----

Ég get fullyrt það hér og nú og staðið við það alls staðar og hvenær sem er að hvergi á landinu er snjómokstur betri en hér á Siglufirði. Varðandi það að búið sé að moka við Torgið snemma morguns þá er það einfaldlega þannig að í gegnum Torgið, niður Aðalgötu og Gránugötu, liggja leiðir í helstu atvinnustaði og þjónustuaðila bæjarins og það er því mikilvægt að þar sé búið að moka snemma morguns. Sama á við t.d. um Túngötu að Heilbrigðisstofnun. ----- Því miður er ekki hægt að moka allar leiðir í einu og þetta er gert eftir ákveðnu kerfi sem reynst hefur ágætlega hingað til. Það er engin ófærð á götum bæjarins og það er auðvitað alltaf ákveðið matsatriði hvort nauðsynlegt er að hafa moksturstæki í gangi allan sólarhringinn meðan svo er. ---- Kveðja Þórir Hákonarson

Föstudagur 28. október 2005

Aðsent:

Alltaf gaman að benda á duglega Siglfirðinga.

Einn þeirra er Jórunn Frímannsdóttir, fædd þann 1. október 1968. Foreldrar hennar eru Þórunn Jensen og Frímann Jósef Gústafsson (Frímann Gústa). ---

Jórunn sækist eftir 4 sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík sem fer fram 5. nóvember nk.

Hún er með netsíðuna www.jorunn.is og er með kosningaskrifstofu í Glæsibæ sem er opin virka daga frá kl.14-10 og frá 14-18 um helgar.--

Hún er varaborgarfulltrúi í dag og eigandi www.doktor.is sem hún rekur ásamt manni sínum Sigurbirni Jónassyni.-- Þessi mynd var tekin við opnun kosningaskrifstofunnar. H

Föstudagur 28. október 2005 Aðsent: -- Sæl öll. -- Það bættist í hópinn í dag, þegar grannsöngvari og silkitoppa komu í eplatréð við prestshúsið. --- Náði þessum myndum við það tækifæri. Enn bið ég fólk um að hafa augun opin fyrir slíkum aufúsugestum og láta mig vita er þeir sjást. --- Kveðja. Sigurður Ægisson

Grannsöngvarinn hér fyrir ofan. Silkitoppan til hægri >>>

Föstudagur 28. október 2005 Aðsent: Hallo Steingrimur okkur langar að senda litla kveðju 'Alasundi hjer er 21 stiga hiti og sól, - (www.dagbladet.no ) Jens og Sigrún biðja að heilsa ykkur öllum á Sigló góða helgi.

Föstudagur 28. október 2005 -- Slæm tíðindi, sem gengisþróun undanfarna mánuði á að líkindum stærstan þátt í, ásamt lélegu verði á mörkuðum: - Frétt af síðu Morgunblaðsins: 16 starfsmönnum sagt upp hjá Þormóði ramma- Sæbergi

Fyr­ir­tækið Þormóður rammi - Sæ­berg hf hyggst segja upp 16 starfs­mönn­um á Sigluf­irði, en þar er fyr­ir­tækið með rækju­vinnslu. Lín­ey Árna­dótt­ir, for­stöðumaður Svæðismiðlun­ar Norður­lands vestra, sagði í viðtali við Frétta­vef Morg­un­blaðsins í dag að fyr­ir­tækið hefði til­kynnt þeim um hópupp­sagn­irn­ar sem koma muni til fram­kvæmda um þarnæstu mánaðamót. Sagði Lín­ey að sér skild­ist sem loka ætti til­tek­inni deild vinnsl­unn­ar á Siglufirði. „Upp­sögn­in kem­ur til fram­kvæmda um mánaðamót­in nóv­em­ber/​des­em­ber. Við vor­um lát­in vita af því fyr­ir nokkr­um dög­um,“ sagði Líney -- Ekki náðist í helstu ráðamenn fyr­ir­tæk­is­ins í dag.

Laugardagur 29. október 2005 Þeir voru víða að leik krakkarnir í gær, þrátt fyrir hríðina, og snjórinn sem var þeim kærkomin. Þessir krakkar voru að leik á snjóruðningi sem kom frá Fossveginum nokkru norðan við hús mitt við Hvanneyrarbraut og veifuðu mér er ég var að koma heim seinni partinn í gær, - Þar sem ég var með aðdráttarlinsu á vél minni tilbúna, þá smellti ég auðvitað á krakkana í gegn um hríðarkófið. Þeir þekktu mig greinilega, en hvað þeir heita veit ég ekki, en þeir voru ekki í kallfæri.

Laugardagur 29. október 2005

Ein gömul:

Það verður að viðurkennast, að vegurinn vestan við Strákagöng var og er raunar enn, frekar ófrýnilegur að sjá, að minnsta kosti frá þessu sjónarhorni.

Myndin var tekin haustið 1976

Laugardagur 29. október 2005 Talsverð rigning var hér seinni partinn í gær og fram yfir miðnættið, en rigning mældist yfir 13 mm á tímabilinu 15-24 Síðar fór að kólna örlítið.

Snjómokstur hefur gengið samkvæmt áætlun og allar "aðal leiðir" færar, en aðrar ekki nema stærri bílum. Gott hefði verið hefði ég átt jeppa í morgun, þá hefði ég komist í mína venjulega hringferð. En svona er Ísland í dag, sagði maðurinn.

Myndin er tekin á Túngötunni í morgun.

Laugardagur 29. október 2005 Þessir drengir heita Siggi og Halldór sögðu þeir, en þeir heimsóttu mig í gærkveldi til að selja mér frosna rækju, en þeir eru í 10. bekk og eru að safna peningum til óvissuferðar 10. bekkjar.

Sunnudagur 30. október 2005 Þessi hressilegi maður heiti Helgi Pálsson, hann rekur verslunina Álnavörubúðin í Hveragerði. Hann er gamall Siglfirðingur.

Sveinn Þorsteinsson sem dvalið hefur í Hveragerði undanfarnar vikur, sendi mér þessa mynd ásamt fleirum sem eru á tenglinum HÉR - Myndirnar sýna meðal annars verslunina innandyra. og annan gamlan Siglfirðing; Víðir Togga eins og flestir eldri Siglfirðingar þekkja hann.

Sunnudagur 30. október 2005

Ein gömul:

Þetta er endinn á Sunnubagganum og bryggjan sem var fyrir framan hann árið 1976

Sunnudagur 30. október 2005 -- Þessar voru teknar í morgun


Mánudagur 31. október 2005

Gamlar myndir:

Þeir eiga ekkert einkaleyfi á því kaupmennirnir að draga fram ímynd jólanna löngu fyrir tímann, flestum til ama (?).--

En ég vona þó að þessar minningar í myndum gleðji marga, sérstaklega þá yngri sem þátt tóku í barnaballi Kiwanis um jólin 1976 --- Smellið HÉR

Mánudagur 31. október 2005 Aðsent: Sæl. -- Á laugardag voru silkitoppurnar við prestshús orðnar 6 og að auki mættir tveir gráþrestir. -- Í gær bættist svo hettusöngvari (kvk) við; þeir eru núna í allt 4 (3 kk); kvenfuglarnir eru brúnir með rauðbrúna hettu, sbr. meðfylgjandi ljósmynd, en karlfuglarnir gráir með svarta hettu. Þessir fuglar eru fyrir vikið stundum nefndir munkar (og heita það reyndar á norsku, MUNK). Einnig fylgir hér mynd af öðrum gráþrastanna. Kveðja. Sigurður Ægisson

Mánudagur 31. október 2005 - - Aðsent: Útför Guðbjargar Magneu Franklínsdóttur, sem fara átti fram þriðjudaginn 1. nóvember er frestað til miðvikudagsins 2. nóvember vegna ófærðar. Aðstandendur

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

Fréttatilkynning send út þann 21. október 2005

Tengiliður og nánari upplýsingar; Ómar Hauksson, atvinnuráðgjafi á Siglufirði, s. 460 5612 / 897 1935 tölvupóstur omar@ssnv.is

Þann 4. nóvember 2005 standa Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Svæðisráð Svæðisvinnumiðlunar Norðurlands vestra fyrir málþingi um atvinnumál á Norðurlandi vestra. Yfirskrift málþingsins er Norðurland vestra 2020 og verður það haldið í Verinu, húsnæði Háskólans á Hólum á Sauðárkróki. Málþingið stendur frá 10:30 til 17:00.

Á málþinginu verður reynt að varpa ljósi á þróun atvinnulífs á Norðurlandi vestra síðustu fimmtán árin og hvernig líklegt er að atvinnulíf muni þróast á næstu 15 árum, en í tengslum við málþingið hefur verið gerð nokkuð umfangsmikil könnun á framtíðarsýn atvinnurekenda á Norðurlandi vestra. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir hefur framsögu á málþinginu en þennan dag mun ráðherra einnig tilnefna starfshóp til undirbúnings að vaxtarsamningi fyrir Norðurlands vestra.

Á málþinginu verður reynt að draga fram hvernig atvinnulíf hefur þróast á undanförnum árum, staða atvinnulífs í dag verður skoðuð sérstaklega og reynt að skyggnast inn í framtíðina með aðstoð atvinnurekenda og sérfræðinga á sviði atvinnu- og menntamála. Yfirskrift málþingsins verður Norðurland vestra 2020, og er hugmyndin að varpa ljósi á mögulega framtíð atvinnuveganna til þess tíma.

Í raun má segja að málþinginu sé ætlað að svara eftirfarandi þrem spurningum.

1. Hvernig hefur atvinnulífið á Nv þróast síðustu 15 árin?

2. Hver er staða atvinnulífsins í dag og hvaða kraftar verka á það?

3. Hvernig má búast við að atvinnulífið verði á Nv eftir 15 ár?

Leitast verður við að svara ofangreindum spurningum útfrá ólíkum forsendum og í anddyri ráðstefnuhússins verður sett upp sýning, þar sem þróun atvinnumála á Norðurlandi vestra í fortíð, nútíð og framtíð verður gerð skil. Kynntar verða niðurstöður viðamikillar könnunar sem gerð var meðal atvinnurekenda á Norðurlandi vestra í þeim tilgangi að varpa ljósi á framtíðarsýn þeirra.

Erindi framsögumanna, sem eru virtir fræðimenn og þátttakendur í Íslensku atvinnulífi, munu fjalla m.a. um vaxtasamninga, samstarf atvinnurekenda, þróun mannfjölda, uppbyggingu lítilla fyrirtækja, áhrif menntunar á menningu og atvinnulíf ásamt mikilvægi jákvæðrar ímyndar fyrir Norðurland vestra. Að fyrirlestrum loknum verða settir saman umræðuhópar sem ætlað er að ræða nánar það sem fram kemur á málþinginu. Hverjum hópi er falið tiltekið umfjöllunarefni tengt atvinnuþróun og er þeim ætlað að komast að niðurstöðu um hvert sé æskilegt að stefna og hvaða leiðir séu vænlegar til að ná árangri í atvinnuþróun Niðurstöður hópanna verða kynntar í lok málþingsins.

Norðurland vestra 2020

Málþing um atvinnumál á Norðurlandi vestra

Dagskrá

Tími: Föstudaginn 4. nóvember 2005 kl. 10:30 – 17:00

Staðsetning: Í Verinu, húsnæði Háskólans á Hólum á Sauðárkróki

Málþingsstjóri: Vilhjálmur Egilsson

Sýning á framtíðarsögum í opnu rými – vegvísar til 2020

Sýningin opnar klukkan 9:30.

Fundarsetning:

Formaður SSNV Ársæll Guðmundsson 10:30 – 10:40

Opnun ráðstefnunnar

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ráðherra tilnefnir starfshóp til undirbúnings vaxtarsamningi 10:40 – 11:15 fyrir Norðurland vestra

Vaxtarsamningar og klasasamstarf

Elvar Knútur Valsson, verkefnisstjóri hjá Impru 11:15 – 11:35

Hvernig atvinna verður stunduð á Norðurlandi vestra eftir 15 ár? 11:35 – 11:55

Ásgeir Jónsson, Lektor við Háskóla Íslands og hagfræðingur við KB banka

Umræður og fyrirspurnir 11:55 – 12:15

Matarhlé

Uppbygging lítilla fyrirtækja

Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs 13:00 – 13:20

Afl menntunar í menningu og atvinnulífi

Skúli Skúlason, rektor Hólaskóla 13:20 – 13:40

Hverju svaraði kötturinn Lísu í Undralandi?”

Kristín Björnsdóttir, markaðsstjóri hjá FOCAL 13:40 – 14:00

Umræður og fyrirspurnir 14:00 – 14:30

Kaffihlé 14:30 – 14:45

Umræðuhópar 14:45 – 16:00

Þátttakendum málþingsins er skipt í nokkra hópa. Hverjum hópi er falið tiltekið umfjöllunarefni tengt atvinnuþróun og er hópunum ætlað að komast að niðurstöðu um hvert sé æskilegt að stefna og hvaða leiðir séu vænlegar til árangurs.

Léttar veitingar 16:00 – 17:00

Niðurstöður hópa kynntar í hvíta herberginu og heimasíða SSNV opnuð og kynnt. 16:15

Málþingi slitið 17:00