Lífið 18.-25. ágúst 2003

Fréttir 18.til 25. ágúst 2003



18. ágúst  2003

"Hann setti svip á bæinn" 

Björn Jónasson keyrari. 

Fæddur 23. júní 1889-- dáinn 19. febrúar1966   

Meira um Björn keyrara: Sett hér inn 2018


18. ágúst.  2003

Stálvík SI 1 var í gærkveldi að taka "af snúning" (ágiskun) togvíra sinna, dró þá á eftir sér spöl út fjörðinn í kvöldsólinni og snéri síðan aftur inn að bryggju þegar vírarnir höfðu verið dregnir inn. 

Viggó SI er á leiðinni inn fjörðinn. 

18. ágúst.  2003

"Smábátarnir" hafa verið að fiska allvel á línu og færi að undanförnu, sem dæmi: Gunnar afi SH 474 lagði línu í gærmorgun, 34 bala og kom inn í gærkveldi um 11 leitið með alls 8.5 tonn af vænum fiski, þar af 6.5 tonn af ýsu. Mikið ber á aðkomu bátum hér um þessar mundir, þeir láta beita línuna á heimaslóð fyrir sunnan og vestan, keyra henni norður á Siglufjörð og aflanum síðan á markað fyrir sunnan. Þessi mynd hér fyrir ofan er af bátnum Örn G.K .62 frá Sandgerði, en hann var að koma í land í morgun eftir að hafa lagt línuna sína. 

Skipverjar á Erninum, þeir Ólafur Einarsson og Heimir Karlsson, með þeim á myndinni er Sigurður Sigurðsson hafnarvörður að bóka komu þeirra í morgun. Þetta er fyrsta koma þeirra hingað (nær miðunum) en þeir hafa gert út frá Skagaströnd í sumar. Heimabátarnir hafa einnig aflað vel, en eru að verða búnir með kóda sinn, sumir raunar búnir af því. Þá hefur mikið borið á ýsu við bryggjurnar, og á kvöldin "sýður" víða í höfninni þegar smáufsinn er að vaða. Mikið líf í sjónum um þessar mundir. 

18. ágúst 14:00 2003  Kampakátar pæjur. Það lá vel á þessum krökkum, strákum og stelpum, sem voru að kæla sig í Bolatjörninni fyrir sunnan Stórabola í dag, um klukkan 14 í dag. 

18. ágúst 14:24  2003

Michael Ernst, heitir hann þessi þýski hjólreiðakappi, sem var þarna kófsveittur, að koma upp í háskarð, frá Siglufirði, en hann hjólaði upp alla leið þrátt fyrir brattann. 

Hann hafði komið í bæinn í gegn um göngin, dvalið eina nótt á Sigló og haldi síðan á brattann. 

Hann sagðist hafa skoðað Síldarminjasafnið og skoðað sig um í bænum og höfnina - og var ánægður með allt sem fyrir augun bar. 

Hann sagðist hafa flúið hitana heima fyrir, og fannst enn fullheitt uppi í há skarði þar sem hitinn var 22 °C gráður og logn. 

Klukkan 14:35 í dag. 

18. ágúst  2003

Bláberjalyng. Það er ekki mjög áhugavert að fara til berja, víða í hinum hefðbundnu berjalöndum Siglfirðinga. 

Lítið er um ber víða, og berjalyng víða fölnað, eins og komið væri haust . 

Nokkrar kenningar eru uppi um hvað veldur, sumir telja fiðrildalirfu valda þessu og enn aðrir telja að frost sem kom eftir hitabylgjuna í vor hafa drepið lyngið. 

Ekki veit ég hvað þetta kvikindi heitir sem er á myndinni hér til hliðar. 

Útlit berjalings má sjá hér neðar 

18. ágúst  2003

Orðsending - nú er búið að uppgötva mjög jákvætt við, hina "vammlausu Fljótamenn" sem hér hafa verið iðnir við að skemma gróður og angra íbúana. Þetta eru fyrirtaks hraðahindranir í bænum, við viljum ekki skemma bílana okkar, og hægjum því á kerrunum okkar, og stoppum þar til þeim þóknast að færa sig. Það verða engir árekstrar á milli bifreiða eða manna á meðan.

Það má ekki reka þær, það má ekki skjóta þær, það má ekki skera þær og heldur ekki keyra á þær, því þá þarftu bæði að borga skemmdina á bílnum þínum og borga bóndanum. (vonandi, að frádregnum sláturkostnaði)

Keyrum varlega, þær gætu birst þér að óvörum, þær leynast allstaðar við og á vegum landsins, þessar rollut...... sem hafa hlotið slæmt uppeldi frá eigendum sínum.

-----------------------------------------------------

19. ágúst  2003 

Ég biðst velvirðingar á því að síða mín lá niðri um smátíma, sitt hvoru megin við miðnætti síðastliðið. Ástæðan var að sú "bandvídd" sem síðu minni var ætlað, "tæmdist" vegna meiri fjölda heimsókna en plássið sem ég hef, og gerði ráð fyrir. Ég hafði samband við miðlara minn strax er ég vissi af þessu, (tölvupóst fór að rigna inn til mín, til að láta mig vita) sem kippti þessu í lag. --- Svarið er hér:

Hello Steingrimur, Your account has been upgraded to v4.0 hosting package with 25 gigs bandwidth per month. Jarrod




19. ágúst  2003

"Hann setti svip á bæinn"

Sigurður Kristjánsson, kambi.  

Fæddur 14. desember 1924 - dáinn 19. mars 1987 



19. ágúst 

Júlía GK 400 Þessi bátur, ásamt eiganda sínum og fjölskyldu hans er að flytja til Siglufjarðar. 

Það eru hjónin Reynir Karlsson og Júlía Óladóttir ásamt börnum, en þau hafa búið í Sandgerði undanfarin ár. 




19. ágúst 14:50  2003

Bátahúsið. 

Fyrsta "sperran" var hífuð upp og komið fyrir, í dag í væntanlegu Bátahúsi, sem "Berg hf" er að byggja norðan við Síldarminjasafnið, Roaldsbrakkann, á vegum safnsins. 

20. ágúst  2003

Hinn skæði "póst" vírus sem herjað hefur landsmenn frá í gærmorgun hefur gert mörgum skaða - og Siglfirðingar hafa ekki allir sloppið heldur. Vitað er um nokkra Siglfirðinga sem urðu fyrir skaða tengdum vírusnum. 

Víruspósti rigndi yfir mann, í sumum tilfellum svo hundruðum skipti, einnig þrátt fyrir að viðkomandi hafi haft fullkomnustu vírusvarnir og eldveggi . www.simnet.is netmiðillinn, gat ekki heldur komið í veg fyrir að viðskiptavinir hans urðu fyrir barðinu á vírusnum. 

Ég slapp heldur ekki, og af hans orsökum hrundi nettengingin mín um 3 leitið í gær, og er ekki komin í lag (11:35 í dag) þrátt fyrir tilraunir tæknimanns. En það kemur. Gott ráð til þeirra á meðan þetta ástand varir, er að opna ekki póstforritin, fara heldur á netið og opna póstinn þar, hjá viðkomandi miðli, td www.simnet.is osfv. Ég gerði það á annarri tölvu í morgun og henti þar út, á annað hundrað póstsendingum sem gera má ráð fyrir að hafi verið sýktar, jafnvel póstur "frá" þekktum netföngum eins og siglo@siglo.is - innihaldið var með enskum texta

20. ágúst  2003

Saltsýruleki Alvarlegur saltsýruleki kom upp eftir að margra tonna saltsýru tankar höfðu verið fluttir frá hafnarsvæðinu að húsvegg Primex hf. 

Slökkviliðið og lögregla. var kallað út í öryggisskyni, en starfsmenn, umboðsaðila og Primex, hafði áður tekist að stinga tréfleig í fingur stórt gat sem dottið hafði á tankinn (tæring) 

En þar sem gera mátti ráð fyrir að sýran yrði fljót að éta timbrið upp, var farið í það að tæma tankinn eins fljótt og auðið væri. 

Enginn skaði varð, utan nokkra lítra. sem runnu vel útþynntir vatni, í niðurfall til sjávar. 

Orðsending frá í gær = Því miður, þá er nettenging mín enn óvirk, af völdum VÍRUS - og þarf ég að gera mér ferð á morgun fimmtudag, inn á Akureyri með vél mína. Þessar línur vann ég á óhefðbundinn, og mjög seinlegan hátt, frá CD diski og tölvunni í Rafbæ. Sjáumst ! SK 

ES. nú ætla ég að leita að nú vírusforriti, sennilega frá Friðrik Skúlasyni (íslenskt virusforrit) og henda hel.... Norton úr vél minni.

Ferð mín til Akureyrar, tók lengri tíma en ég gerði ráð fyrir, þar sem vél mín (tölvan) var tæpa 5 tíma á verkstæði í stað 1 klukkutíma eins og mér hafði verið gefin von um, en vandamálið reyndist tæknimönnum erfiðara en þeir áttu von á. Og ekki bætti um betur, þegar heim kom. 

Vandamálið var aðeins leyst að hluta, en yfirsést hafði að breyta svokölluðum VP1 tölum í PVC töflu, sem stillt var á IDSN tengingu í stað A DSL - en vinur minn Júlíus Hraunberg, þekkti vandamálið og leysti það, og ég komst í samband. 
(Síðan hefi ég notað Þjófa, hakkara og vírusvarnar foritið: Bitdefender Total Security og aldrei orðið fyrir skaða, þar sem forritið hefur ávalt komið í veg fyrir slíkar árásir, aðeins látið vita af árásunum, sem skipt hafa hundruðum síðan ég tók það í notkun. (Skrifað október 2024)




21. ágúst  2003

"Hann setti svip á bæinn" 

Steingrímur Eyfjörð Einarsson, sjúkrahúslæknir á Siglufirði. 

Fæddur 19. maí 1894 -- dáinn 29. júlí 1941 

21. ágúst . 2003  Síða mín Lífið á Sigló, verður í fríi frá uppfærslum til mánudags 25. ágúst, vegna fjarveru minnar úr bænum, en ég unglingurinn, ætla að slást í för eldriborgara á Siglufirði, í 3ja daga ferð, vestur á Snæfellsnes - Sjáumst hress, að því loknu. 



25. ágúst 2003

Þá er ég kominn til starfa aftur eftir langa helgi á Snæfellsnesinu. Sveinn Þorsteinsson tók nokkrar ljósmyndir fyrir mig á meðan ég var í burtu, sem þú sérð með því að smella HÉR. 

Þetta er um myndir af Óla Kára og hans mönnum við vinnu við Gránugötuna, og starfsmenn Berg hf við vinnu, við bátahúsið fyrir Síldarminjasafnið. ofl.



25. ágúst 2003

"Hann setti svip á bæinn"

Óskar Garibaldarson,verkalýðsleiðtogi. fæddur 1. ágúst 1908 -- dáinn 2. ágúst 1984

-- Meira um Óskar (sett hér inn 20018)





25. ágúst. 2003   Ferðin til Snæfellsnes, með eldra fólkinu á Siglufirði, gekk vel og var öllum til ánægju.

Viðkomandi mynd er tekin af Snæfellsjökli, við sólsetur þann 22

Snæfellsnes Ferð 2003



25. ágúst. 2003

Sprengja, fannst af göngugarpi er var á göngu vestan við Hafnarhyrnu í gær í um 600 metra hæð, en það var Guðmundur Lárusson rafvéla meistari, sem fann sprengjuna, sem að öllum líkindum bresk æfingar sprengja frá því á stríðsárunum og talin stórhættuleg. 

En menn frá landhelgisgæslunni, meðal Sigurður Ásgrímsson (Siglfirðingur) eru á leið á vettvang til að skoða málið. 

Guðmundur var vel útbúinn til fjallgöngu og var meðal annars með staðsetningartæki, sem losar hann við að fara með sprengju sérfræðingunum aftur upp í fjallið, og vísa frekar á staðinn, staðsetningar tölur hans nægja. 

Ljósmynd: Guðmundur Lárusson 



25. ágúst. 10:54   2003

Malbikun, hófst í morgun á Tjarnargötu, frá Hafnarbryggju. 

Og verður haldið út norður götuna og síðan upp Gránugötu, og sér þá fyrir endann á þeim tilfæringum og óþægindum sem verið hafa í sumar vegna þessara framkvæmda. 

En Siglfirðingar fá að launum þægilegri Gránu- og Tjarnargötu til að aka eftir. 



25. ágúst. 10:54  2003

Stálvík og Múlaberg voru að landa rækju í morgun við Óskarsbryggju. - Þeir eru vanir að landa við Ingvarsbryggju (togarabryggjuna), en sennilega eru það malbikunar undirbúningur og framkvæmdir sem valda því að þeim er beint á Óskarsbryggju, að þessu sinni.