1. apríl 2004 Ein gömul:
Myndin er tekin í Æskulýðsheimilinu 1964 +/-
Þarna má sjá ma. Kristján Hauksson, Theódór Ottósson.
1. apríl 2004 Leikfélag Siglufjarðar frumflutti Silfur hafsins 27. mars sl. í Kaffi Torgi.
Uppselt var á sýninguna og komust færri að en vildu. Fyrir sýningu var boðið upp á glæsilegan kvöldverð, en það hefur verið venjan á frumsýningu nokkur undanfarin ár hjá leikfélaginu. Á sýninguna mætti höfundur verksins Ragnar Arnalds og eiginkona hans Hallveig Thorlacius. Einnig var þar Hrund Ólafsdóttir gagnrýnandi Morgunblaðsins.
Eins og áður hefur komið fram er leikstjóri Linda María Ásgeirsdóttir og höfundur og stjórnandi tónlistar er Elías Þorvaldsson. Með honum spiluðu Ómar Hauksson á bassa og Stefán Friðriksson á trommur. Leikendur eru 17 talsins, þar af 14 nýliðar hjá L.S.
Frumsýningargestir virtust vera mjög ánægðir með það sem birtist þeim á fjölunum og þökkuðu bæði leikstjóra og höfundi fyrir í lok sýningar.- Næstu sýningar verða 1. apríl kl. 21:00, 3. apríl kl. 21:00, 4. apríl kl.20:30, 9. apríl kl. 22:00 (Uppselt) og aukasýning á páskadag kl. 20:30. Miðapantanir eru í síma 467 2000 og 866 1269. Miðasala hefst 1 klst. Fyrir hverja sýningu.
1. apríl 2004
Skíðamót Íslands stendur nú yfir á Siglufirði. Mótið átti að halda á Ísafirði en eins og kunnugt er, þá var þar ekki nægur snjór.
Í Skarðdal á Sigló er nægur snjór þrátt fyrir að talsvert hefur hitastig á svæðinu (Siglufirði) aukist, sem dæmi 12-16 C° í gærdag og enn er logn og blíða.
Væntanlega verða fréttir af mótinu á vefsíðu Skíðafélagsins http://www.siglo.is/sss/ Þessi mynd var tekin í morgun. (siglo.is var vefur Siglufjarðar)
1. apríl 2004 Hólmurinn á Langeyrartjörn er nú ekki lengur landfastur og Stefán á Nesi búinn að skila verkinu af sér.
Búið er að dreifa mold og lífrænum áburði yfir hólmann. Fuglinn er þegar farinn að heimsækja hólmann, en eftir er að dreifa grasi yfir hann til að flýta fyrir uppgræðslunni.
Þá mun flutningabíll koma í dag með gamlan vita frá Djúpavogi, og samhliða kemur þyrla frá varnarliðinu, sem flytja mun vitann yfir í hólmann.
Síðan, þ.e. klukkan 17:30 í dag mun svo Runólfur bæjarstjóri formlega opna fuglunum aðgang, með því að gefa hólmanum nafn, en heyrst hefur að hann verði nefndur "Neshólmi". (óstaðfest) Ath. (2023) Annað nafn festis við hólmann og er kallaður frá upphafi Lageyrarhólmi
Bæjarstjórn og fleiri embættismenn munu mæta. Undirbúningur og frumkvöðull þessa verks hefur verið í höndum garðyrkjufræðingsins okkar Arnars Jónssonar
2. apríl 2004
Ein gömul:
Stefán Friðleifsson og Hallur Garibaldason við flökun í Frystihúsi SR 1960 Kári Sumarliðason sést í bak á milli.
2. apríl 2004 Primex. Unnið er að breytingum í verksmiðju Primex á Sigló. Gert var gat á þakið til að ná þaðan út stórum tönkum, og síðan aðrir nýir og fullkomnari sem smíðaðir voru hjá SR-Vélaverkstæði, settir í staðinn. Myndirnar hér fyrir neðan sem voru teknar seinnipartinn í gær, sýna annan þann gamla hífaðan burt, en hinn þeirra nýrri bíður eftir hífingu.
2. apríl 2004
Everest skíðabúnaður. Kynning á allskonar skíðabúnaði fór fram í verslun SR-Byggingavörum á vegum "Everest" og SR-Byggingavörur klukkan 20:00 í gærkveldi. Þangað var m.a. boðið þátttakendum og gestum Íslandsmótsins á Skíðum (alpagreinar) sem haldið er í Skarðsdal.
Þessi kynning verður síðan endurtekin í tengslum við Unglingameistaramótið sem haldið verður hér 16-17 apríl n.k. Miklar og góðar veitingar stóðu gestum til boða.
2. apríl 2004
Aprílgabb - - Ekki átti ég von á að þetta litla aprílgabb með "neshólmann" í gær næði til að virka, en samkvæmt viðbrögðum meðal annars spurningar í síma um komutíma þyrlunnar ofl.
En auðvitað var þetta oft svo fáránlegt, en stundum láta menn blekkjast, ma. ég sjálfur, það er víst mannlegt. (En uppástunguna af aprílgabbsins var garðálfurinn okkar, þó ekki efnislega) En hér kemur smá fróðleikur um "Hólmann" sem ég fékk sent í morgun. ---
Sæll Steingrímur - ég hafði gaman af 1. aprílgabbinu í gær um hólmann - það var flott – ég vildi segja þér að þetta er gömul hugmynd margra um hólmann sjálfan - ekki síst hafa nágrannar þarna á Túnunum lengi látið sig dreyma um þetta svona til fegurðarauka.
Nú, ef á að eigna þetta einhverjum þá eru það tveir menn sem hafa barist sérstaklega fyrir þessu og svo er það náttúrulega bæjar stjórnendum að þakka verkið. Skarphéðinn Guðmundsson hefur lengst af verið helsti hvatamaðurinn innan bæjarstjórnar á síðustu kjörtímabilum og svo fékk hann heldur betur liðsauka þegar Sigurður Ægisson tók við prestakallinu. Siggi tók málið upp á sína arma og setti þann þrýsting á sem þurfti.
Uppástungur að nöfnum hafa því komið í samræmi við þetta: Héðinshöfði eða Héðinshólmi og Prestshólmi. -- Hreinn Júlíusson sem hannaði verkið og var eftirlitsmaður framkvæmda stingur upp á nafninu Kríuhólmi - en Kríuhólmi var einu sinni á Leirunum miklu austar þó.
Þá er hægt að stinga upp á nafni. nn
2. apríl 2004
Olíuskipið Keilir losaði hér í morgun um 300 tonn af olíu.
2. apríl 2004
Fáir bátar voru í höfninni í morgun, flestir voru á sjó eða að gera veiðarfærin klár eins og skipverjar á fiskibátnum Keilir SI 145
2. apríl 2004
Starfsmenn Rarik, þessa heiðursmenn hitti ég inni hjá SR-Byggingavörur eftir hádegið í dag, Óli Agnarsson, Helgi Antonsson fv. starfsmaður Rarik og Árni Skarphéðinsson.
2. apríl 2004
Kynning á Samsung-vörum: SR-Byggingavörur opnaði formlega helmingsstækkun á verslunarplássi sínu í dag eftir hádegið og jafnframt var þar kynning á Samsung vörum, sjónvörpum DVD spilurum, myndbandstækjum, myndavélun, myndbandstökuvélum, örbylgjuofnum og fleiri heimilistækjum, framleidd af Samsung. Meðfylgjandi mynd sýnir Guðmund Einarsson verslunarstjóra, Jóhann Jónsson sérfræðingur hjá Radíó Naust / Samsung og Hermann Einarsson innkaupastjóri.
3. apríl 2004
Ein gömul. Kári Jónsson og Sveinn Björnsson
3. apríl 2004
Í gærdag um kl 17:00 fóru leikarar Leikfélagsins um götur bæjarins og verslanir og gerðu að gamni sínu, dönsuðu og glöddu vegfarendur.
Þetta vakti mikla ánægju og gleði viðstaddra. En þetta uppátæki var hluti af kynningu vegna leikritsins Silfur hafsins eftir Ragnar Arnalds, sem nú er á "fjölunum" á Siglufirði.
4. apríl 2004
Ein Gömul:
4. apríl 2004
Ég fór í leikhús í gærkveldi, - og sá leikritið Silfur hafsins.
Það er orðið langt síðan ég hefi farið á slíkan vettvang, en ég sé ekki eftir því að hafa farið, langt því frá.
Ég er að vísu enginn sérfræðingur á leiklist, en ég tel þó að ég geti haft skoðun eins og einhverjir af þessum postulum sem allt þykjast vita um leiklist og skrifa sem oftast í blöðin þarna fyrir sunnan og... oft þvert ofan á aðsóknartölur og álit almennings.
Ég sé ekki eftir þessari kvöldstund eins og áður segir.
Mér fannst þetta alveg frábært, bæði sagan á bak við verkið, stór og mikil saga sem þjappað er saman í stutta sögu svo að vel kemst til skila.
Leikararnir allir, flestir nýliðar, fannst mér standa sig virkilega vel, -- en af öðrum ólöstuðum, -
Árni Stefánsson, þú er alveg frábær, það er eins og þú hafir aldrei gert annað en að vera á sviði- þú ert sannkallaður senuþjófur.
Árni Biddu eins og flestir kalla þig. Það eina sem mér fannst slæmt var heyrnin mín sem er ekki eins og einu sinni var, þannig að sumir fannst mér, tala stundum of lágt.
4. mars 2004 Bátahúsið skoðað -- Nú á dögunum (2. apríl sl.) voru hér á ferð hönnuður og verkfræðingur Bátahússins og skoðuðu í fyrsta sinn það sem þeir höfðu teiknað og lagt á ráðin um. Þeir eru Árni Páll Jóhannsson leikmyndahönnuður og Gunnar St. Ólafsson verkfræðingur.
Árni Páll ákvað allt um útlit hússins og Gunnar skipulagði verkfræðilega þáttinn og sá þriðji Leifur Benediktsson verkfræðingur vann síðan allar smíðateikningar.
Þess má geta að Árni Páll hefur hannað leikmyndir við fjöld kvikmynda og víða sett upp sýningar s.s. Galdrasetrið á Ströndum og Gunnar hefur unnið mikið við uppbyggingu Síldarminjasafnsins í 12 ár. það var heimsókn hönnuða - Á myndinni til vinstri: Sigurður Hlöðversson tæknifræðingur Siglufjarðarkaupstaðar, Starfsmenn safnsins; Sveinn Þorsteinsson smiður og Hafþór Rósmundsson, Gunnar St. Ólafsson, ?, og Örlygur Kristfinnsson safnvörður