Lífið í 13.-19. nóvember

Fréttavefurinn Lífið á Sigló

13. til 19. 2005

Sunnudagur 13. nóvember 2005 Gömul syrpa: Skólaskemmtun Gagnfræðaskólans árið 1977--

Þessi mynd hér fyrir neðan er í raun þrjár myndir, þær voru ekki upphaflega teknar með það fyrir augum að setja þær saman í eina, enda ekki auðvelt verk í "myrkrakompu" - En í dag á dögum tölvutækninnar þarf nánast aðeins að smella á einn takka, og má furðu sæta með tilliti til myndatökunnar sjálfrar, hvernig til tókst, þó örlítið bjöguð sé. --- Hellingur af myndum til viðbótar; smelltu HÉR


Sunnudagur 13. nóvember 2005

Þetta gæti verið einskonar "veður mynd" í líkingu við þær sem settar eru inn daglega í hádeginu, nema að þessi var tekin að kvöldi, nánar tiltekið klukkan 20:05 í gærkveldi - 640 ASA 1/5 sek -

Vélinni haldið þétt við dyrakarminn út á svalir mínar.

Mánudagur 14. nóvember 2005 Tvær gamlar: Úr "lausu lofti": Það ætti ekki að vefjast fyrir kunnugum að sjá út hvaða hús þetta eru sem sáust úr farþegaflugvél á leið frá Reykjavík. Á annarri myndinni er Sjúkrahúsið miðdepillinn, en á hinni sést Hvanneyri. Ausandi rigning var þegar myndirnar voru teknar, að hausti árið 1977


Mánudagur 14. nóvember 2005 Aðsent: Sæll Steingrímur. --- Við systkinin – Albert Einarsson og Sigríður Þ Einarsdóttir – vorum stödd á heimaslóðum á Sigló núna í nóvember. Með okkur voru dóttir Siggu, Þórunn og sonur minn Einar (Albertsson). Erindið á Sigló var að rýma fyrir nýjum íbúum á Hólavegi 15. Í erlinum kom upp sú staða að við þyrftum að borða og stakk ég upp á að við reyndum Bíó Café. Án þess að orðlengja þetta fengum við þessar fínu móttökur. Finni sýndi okkur stoltur húsakynnin og það getur hann líka verið. Maturinn frábær og vel útilátinn og verðinu stillt í hóf. Af því að Bíó Café er nú einu sinni hluti af lífinu á Sigló vildum við endilega koma því á framfæri að við mælum með staðnum. -- Bestu þakkir og kveðjur. -- Albert Einarsson

Mánudagur 14. nóvember 2005 -- Vegrið - Verið er að vinna við uppsetningu á vegriði við gatnamót Hverfisgötu norðari og Hávegar. Þörf fyrirbyggjandi framkvæmd vegna slysahættu í hálku og eða mistaka ökumanna. -- Það eru starfsmenn SR-Vélaverkstæðis sem þarna voru að störfum klukkan 14:00 í dag; Þorleifur Halldórsson og Heimir Birgisson

Þriðjudagur 15. nóvember 2005 Ein gömul: Þetta eru þeir Jón Sigurbjörnsson og Stefán Þórarinsson (sýnist mér) En þarna eru þeir að vinna við að hreinsa upp bryggjustaura og fleira sem féll til við niðurrif á gömlum síldarbryggjum


Þriðjudagur 15. nóvember 2005 Ný heimasíða:

Heimasíða Svenna í Siglufirði.

Ljósmyndir og fleira tengt Siglufirði.

Einfalt og þægilegt viðmót.

Góð og ódýr leið fyrir þá sem vilja setja myndir og fleira á netið með "stæl" http://www.123.is/



Þriðjudagur 14. nóvember 2005---

Aðsent: ----

Sælt veri fólkið. --

Undanfarna daga hefur svo sem ekki bæst neitt við tegundafjöldann í röðum flækingsfugla við presthús, en einstaklingarnir eru þó orðnir fleiri, oftast 10 silkitoppur, 7 hettusöngvarar, 3 gráþrestir og 1 svartþröstur. Læt fylgja hér með nokkrar myndir sem ég hef tekið nýverið.

Kveðja. Sigurður Ægisson

Þriðjudagur 14. nóvember 2005 Gamall og lúin húshluti var rifinn í morgun. Byggt var við húsið fyrir nokkrum árum til að stækka það. Síðar hafa nýir eigendur ákveðið að rífa gamla hlutann, til að "minnka við sig" bæði vegna óhentugra og of stórrar íbúðar fyrir fjölskylduna sem hafði með öllu flutt sig í nýrri hlutann. Auk þess lækka fasteignagjöldin og upphitunarkostnaður nokkuð við þessar ráðstafanir en nægt pláss er eftir sem áður. Þetta er húseignin Hlíðarvegur 11 (áður heimili Halldórs Gestssonar)

Þriðjudagur 15. nóvember 2005

Ég mætti þessum skólakrökkum í morgun á Hlíðarvegi.

Ég smellti af þeim myndum sem þú sér með því að smella HÉR


Miðvikudagur 15. nóvember 2005

Ein gömul:

Hverjir ætli átti sig á því hvaða hús þetta er sem þarna stendur í björtu báli.

Slökkviliðið notaði húsið á sínum tíma til æfinga og kveikti í því en það átti að rífa það

Þetta hús gekk undir nafninu Dalabær - þá nyrsta hús bæjarins

Ath. 2019 - Þessi síða http://www.123.is/sksiglo/ varð ekki langlíf. En viðkomandi myndir og frásagnir má finna á vef mínum Heimilkdarsíða www.sk2102.com Finnið leitarhnappinn á forsíðunni og fleiri stöðum og skrifið haförninn í leitareitinn sem upp kemur. Svo má smella á More á hverri síðu og finna þar á gulu tenglsíðunni það sem þið viljið skoða..

Miðvikudagur 16. nóvember 2005

Haförninn Siglufirði-Ég hefi sett upp einskonar "útibú" við vef minn, sem ég hýsi hjá www.123.is

Ég mun á næstu vikum, smátt og smátt senda þangað myndir, sennilega 100-150 myndir í hvert sinn, eingöngu til að byrja með, myndir tengdar Síldar og olíuflutningaskipinu Haförninn Siglufirði.

En eins og þeir eldri muna þá var skipið skráð hér á Siglufirði og var eign Síldarverksmiðja Ríkisins.

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa verið þar um borð meirihluta á tímabilsins árin 1966-1969, en skipið var selt úr landi árið 1970.

Þessar "Hafarnarmyndir" voru teknar um borð, frá borði og í nálægð skipverja ofl. þegar þeir voru í landi, heima sem erlendis. Þetta eru að vísu engar tæknilegar gæðamyndir, enda allar fluttar í stafrænt form fyrir um þrem - fjórum árum, en tækninni hefur mikið farið fram síðan. En ég læt það duga. Til þeirra sem til þekkja, er vinsamlega bent á að Athugasemdir sem hægt er að bæta við einstakar myndir til dæmis nöfn, eru vel þegnar mér og öðrum til ánægju og fróðleiks. http://www.123.is/sksiglo/


Miðvikudagur 16. nóvember 2005

Hópur Siglfirðinga skrapp til Prag um síðustu helgi, en aðal uppistaða hópsins voru Kiwanis konur og makar.

Hrönn Einarsdóttir var þar einnig með og sendi hún mér nokkrar myndir frá ferðinni má skoða HÉR

Miðvikudagur 16. nóvember 2005 Ljóðakvöld á Bíó-Barnum. -- Í dag er dagur Íslenskrar tungu. Af því tilefni munu nokkrir valinkunnir bæjarbúar flytja sín eftirlætis ljóð og fjalla stuttlega um höfunda þeirra. Flutningurinn fer fram á Bíó-Barnum og hefst kl. 20.30 og lýkur um klukkustund síðar. Húsið verður opnað kl. 20.00. Aðgangur er ókeypis. --- Þetta er tilvalið tækifæri til að eiga notalega kvöldstund og ná sér í andlega næringu. -- Þessi atburður er sá fyrsti í röð margra mánaðarlegra atburða sem menningarhópur Umfélagsins Glóa hyggst standa fyrir meðan hugmyndir og dugur endist.


Miðvikudagur 16. nóvember 2005

Vonandi verður þetta ekki daglegur viðburður að hús verði rifin hér á Siglufirði, en í gær var það á Hlíðarvegi 11 en í morgun Mjóstræti 1 sem brann fyrir nokkru og ekki talið að borgaði sig að byggja að nýju innan steinrammans með klæðningunni sem eftir varð.

Þetta virtist ætla að verða auðveld bráð fyrir hrammi Hreins Kára sem stjórnaði tryllitækinu.

Miðvikudagur 16. nóvember 2005- - Fyrirtæki nóvembermánaðar var kjörið í dag af hálfu Kaupmannafélags Siglufjarðar.

Fyrir valinu var Hárgreiðslustofa Sillu. (Sigurlaug Hauksdóttir) Myndin er tekin eftir hádegið í dag eftir afhendingu viðurkenningarinnar.

Miðvikudagur 16. nóvember 2005-- Maður nóvembermánaðar var kjörinn í dag af hálfu Kaupmannafélags Siglufjarðar.

Fyrir valinu var Elías Þorvaldsson tónlistamaður og kennari. Myndin er tekin eftir hádegið í dag eftir afhendingu viðurkenningarinnar.

Fimmtudagur 17. nóvember 2005 -- Ein gömul: Litirnir í þessari mynd eru ekki alveg eðlilegir, en ég gat ekki staðist þá freistingu að setja hana á netið.

Þetta eru greinilega kvenfélagskonur, en ég man ekki öll nöfnin svo ég sleppi þeim að sinni. Ljósmynd: (? góf)

Fimmtudagur 17. nóvember 2005 Dagur Íslenskrar tungu Barnaskóakrakkar heimsóttu gamla fólkið á Skálahlíð klukkan 10:00 í morgun, þau voru að koma úr þeim leiðangri er ég heyrði söng þeirra, þar sem þau voru að syngja sérpantað lag fyrir tvo af bæjarstarfsmönnunum þeim Hafþóri Kolbeins og Hákoni Antons. En þeir félagar voru að vinna við vatnshana við Hvanneyrarbraut. Myndir HÉR

Fimmtudagur 17. nóvember 2005 Þessar tvær myndir voru teknar klukkan rúmlega 16:00 í gær og sýnir norðurhimininn óvenju bjartan miðað við undanfarna daga. "Kroppaða" myndin af tunglinu er að vísu engin "NASA kópía" en er þó nokkuð greinileg þrátt fyrir það.

(140 mm og 300 mm brennivídd)

Fimmtudagur 17. nóvember 2005 --- Dagur Íslenskrar tungu -Ljóðakvöld sem Ungmannafélagið Glói stóð fyrir var haldið á Bíó Café í gærkvöld. Ég staldraði þar við fyrripart kvöldsins. Nokkrar myndir af flytjendum og gestum á meðan ég dvaldi á staðnum eru hér á tenglinum Myndir HÉR

Föstudagur 18. nóvember 2005

Ein gömul: Kristine Þorsteinsson - Þórhalla Hjálmarsdóttir og Sigurlaug Sveinsdóttir.

Ljósmynd: Guðný Ósk Friðriksdóttir - (ár ?)

Föstudagur 18. nóvember 2005 Aðsent: Sælt veri fólkið. - Gráþrestirnir voru alls 6 talsins við presthús þriðjudag, sem er helmings fjölgun. En silkitoppurnar einungis 3 og eins hettusöngvararnir, og auk þess 1 svartþröstur. -- Læt fylgja hér tvær myndir. Kveðja. Sigurður Ægisson


Föstudagur 18. nóvember 2005 Hvaðan ætli peningarnir verði teknir? Margir voru þess fullvissir að ríkisstjórnin forðum hafi ekki aðeins svikið Siglfirðinga og Ólafsfirðinga þegar þeir frestuðu gerð Héðinsfjarðarganga, heldur einnig að þeir hefðu brotið lög.--

Samkvæmt fréttum Rúv.: Hæstiréttur hefur úrskurðað Vegagerðin sé skaðabótaskyld gagnvart Íslenskum aðalverktökum og NCC International vegna missit af hagnaði sem fyrirtækin kynnu að hafa notið, hefði ekki verið ákveðið að fresta gerð Héðinsfjaðrajarðganga. -- Gerð jarðganganna var boðin út, en ákveðið var síðan að fresta framkvæmdum. - Íslenskir aðalverktakar og NCC áttu lægsta tilboð, 6,2 milljarða króna. Síðan var ákveðið að að fresta framkvæmdum og öllum tilboðum var hafnað.

Íslenskir aðalverktakar og NCC höfðuðu mál í kjölfarið og kröfðust skaðabóta. -- Héraðsdómur sýknaði Vegagerðina, en Hæstiréttur hefur nú úrskurðað að vegagerðin sé skaðabótaskyld. -- Þá er Vegagerðinni gert að greiða eina komma átta milljónir króna vegna málskostnaðar

Föstudagur 18. nóvember 2005

Ný heimasíða: Hrönn Einarsdóttir er búin að koma upp heimasíðu með miklu úrvali af myndum sem hún hefur tekið á sínum stutta en gróskumikla ljósmyndaferli --- Tengillinn að síðu hennar er http://www.123.is/hippi


Föstudagur 18. nóvember 2005

Verið var í að lesta gáma af rækju í neytendaumbúðum frá Rækjuverksmiðju Þormóðs Ramma Sæberg hf. í morgun.

Ástandið í augnablikinu um framhald vinnslu er ekki gott, en starfsmenn eru kvíðnir um framtíðina, sagði einn þeirra í morgun.

En eitthvað mun verið að vinna í málefnum verksmiðjunnar, en tveir af ráðamönnum hennar eru erlendis í viðkomandi erindum.

Föstudagur 18. nóvember 2005

Stjórnir knattspyrnudeilda KS og Leifturs hafa komist að samkomulagi um samstarf meistaraflokka karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu næsta leiktímabil.

Sameiginlegt lið mun leika undir nafninu KS - Leiftur og tekur liðið sæti KS í 2. deildinni. Vonast stjórnir félaganna til þess að umrætt samstarf sé aðeins upphafið að nánara samstarfi þessara félaga í framtíðinni.

Marko Tanasic verður yfirþjálfari liðsins en ráðinn verður þjálfari honum til aðstoðar á næstu misserum.

Föstudagur 18. nóvember 2005 Skíðasvæðið í Skarðsdal verður opnað eftir hádegið og fram eftir degi- og væntanlega einnig um helgina. Gott skíðafæri er á svæðinu og nægur snjór. -- Þessi mynd var tekin í morgun upp úr klukkan 10:00

Laugardagur 19. nóvember 2005 Ein gömul:

Ingibjörg Sveinbjörnsdóttir - Kristín Hannesdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir

Laugardagur 19. nóvember 2005

Aðsent:

Eins og alþjóð veit er skíðasvæði Siglfirðinga í Skarðsdal eitt besta skíðasvæðið á landinu og nú eru aðstæður til skíðaiðkunar sérstaklega hagstæðar, nægur snjór og frábært skíðafæri.

Starfsmenn skíðasvæðisins haf undanfarna daga unnið að því að opna skíðalyfturnar og nú um helgina verður neðri lyftan og t-lyftan opin.

Ráðgert er að Bungulyftan veði opnuð á næstunni. Upplýsingar um skíðasvæðið má finna á heimasíðu Skíðafélagsins http://www.siglo.is/skisigl , sími umsjónarmanns er 467-1806. -- Bestu kveðjur, Hjörtur Hjartarson.

Myndir > HÉR




Laugardagur 19. nóvember 2005

Þessi mynd var tekin rétt fyrir hádegið í morgun


Laugardagur 19. nóvember 2005

Mikið og gott starf hefur verið unnið af hálfu Foreldraráðs SSS, sem börn félagsmanna og önnur börn hafa notið góðs af -

Nú á sunnudaginn (á morgun) heldur foreldraráðið Stórbingó Skíðafélagsins Skíðaborgar sem verður haldið í Allanum kl 20:00. --- Meðal vinninga eru: Dagsverk frá Berg, vikudvöl í Vökuíbúð, gasgrill frá Olís, læri frá Eystein og margir veglegir vinningar frá fyrirtækjum bæjarins sem stutt hafa vel við bakið á foreldraráði SSS.

Einnig verða skíðabuffin vinsælu til sölu á staðnum. --

Meðfylgjandi mynd er af einum keppanda á Andrésar Andar leikjunum, Jóni Óskari Andréssyni.

Kaupmenn!!- Kaupmannafélagið boðar til rabbfundar í Bíó Café mánudaginn 21. nóvember klukkan 18:15