Sunnudagur 25. desember 2005 Ein gömul: Mér sýnist maðurinn til vinstri vera Jón Jóhannsson skipstjóri (faðir Jonna tannlæknis) - Sigurlaug Sveinsdóttir (Silla frá Steinaflötum) - manninn til hægri þekki ég ekki. - Ókunnur ljósmyndari.
Sunnudagur 25. desember 2005
Þarna uppi í fjallshlíðinni fyrir ofan Siglufjörð, uppi á hitaveitutanka Rarik trónir vefmyndavélin hjá "Lífinu á Sigló" umlukt jólaljósum sem starfsmenn Rarik komu fyrir á brún tankans.
Sunnan við er kyndistöð Rarik, ef á þyrfti að halda til að skerpa á vatnshitanum, ef gerði dymbilkulda, eða ef eitthvað annað færi úrskeiðis. (myndin var tekin í gær)
Sunnudagur 25. desember 2005
Fegnir hvíldinni eru þeir, að minnsta kosti bílstjórar þessara bíla hjá Norðurfrakt, þó svo að tæknilega gæti verið gott að gefa tryllitækjunum frí annað slagið ?. -
En friðurinn stendur ekki lengi yfir hjá þeim nú sem oft áður, þeir hafa í nógu að snúast.
Mánudagur 26. desember 2005 -- Aðalbjörg Þórðardóttir er 55 ára í dag. Bóndi hennar Ágúst Stefánsson bað mig að lauma þessari sérstöku viðbótar kveðju með þessum myndum; "Til hamingju krúttið mitt" Önnur myndin hér, er tekin á Ítalíu en hin heima á Sigló. En þau eru nú bæði stödd hjá dóttur sinni í Danmörku, og dvelja þar um jólin. - Einnig bestu hamingjuóskir frá "Lífið á Sigló" -- og láttu bóndann dekra við þig.
Mánudagur 26. desember 2005
Ein gömul:
Þórður Guðmundsson á SR-Vélaverkstæði, gæti verið um kring um árið 1950 +/-
Ókunnur ljósmyndari.
Þriðjudagur 27. desember 2005
Í fyrrakvöld undirrituðu 5 knattspyrnumenn nýja samninga við KS.
Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir sameiginlegt lið KS Leiftur en allir þessir drengir eru uppaldir KS-ingar og því frábært að þeir ætli sér að taka þátt í baráttunni við að tryggja KS Leiftri sæti í 1.deild að nýju.
Leikmennirnir eru frá vinstri (myndin lengst til vinstri, hér fyrir neðan): Grétar Örn Sveinsson, Kristinn Baldursson, Ari Már Arason, Agnar Þór Sveinsson (fyrirliði) og Sigurbjörn Hafþórsson.
Gleðileg jól allir KS-ingar nær og fjær, til sjávar og sveita, í sódómu eða Akureyri, bara alls staðar!
Þriðjudagur 27. desember 2005
Barnaball Kiwanis var í gær, ég leit þar inn og tók smá myndasyrpu af gleðskapnum.
Þriðjudagur 27. desember 2005
Jólatréð á Torginu, klukkan 15:00 í gær í slyddurigningu, en þó snjóföl frá því um morguninn, en eftir "hitabylgjuna" tæplega 12 °C hita frá deginum áður en um nóttina kólnaði (um frostmark) snögglega aftur og snjóaði (slydda) örlítið.
Það má heita að logn hafi verið yfir jóladagana, að undanskildum smá hviðum á tímabili og frekar úrkomulítið.
Það er ekta veður að mínu skapi yfir vetrartímann.
Þriðjudagur 27. desember 2005 Það var uppljómað Skíðasvæðið í Skarðsdal í morgun, en ekki sást þó til skíðamanna.
Miðvikudagur 28. desember 2005 Aðsent:
Ég fékk ábendingum um skrif sem á fullt erindi til okkar hér á Siglufirði, ekki aðeins þeim sem í hlut eiga það er lögbrjótunum sjálfum- og ekki hvað síst til lögreglunnar: Það er um hraðakstur sem er því miður er stundaður hér í bæ og sérstaklega á Langeyrarveg um nætur.
Slóðin til ofan nefndra skrifa er að finna hér: http://www.blog.central.is/ibbirokk Því miður; tengill óvirkur
Miðvikudagur 28. desember 2005
Minningarmót um Benedikt Sigurjónsson var haldið á Bíó Café í gærkveldi. Bridgefélag Siglufjarðar hóf á milli jóla og nýárs á síðasta ári fyrsta mótið til minningar um sinn ötula bridgefélaga sem lést fyrir um tveim árum. Ætlunin er að gera slíkt ár hvert.
Að venju voru Skagfirðingar fjölmennir, en Benedikt var Skagfirðingur að uppruna.
Ég tók nokkrar myndir í gærkveldi sem eru hér >>> Myndir HÉR
Miðvikudagur 28. desember 2005 -- Björgunarbáturinn Sigurvin frá Siglufirði, kom með þennan bát Guðrún Jakobsdóttir EA 144 1968 í togi inn til Siglufjarðar laust fyrir 11 í morgun.
Báturinn hafði orðið vélarvana út af Siglufirði.
Miðvikudagur 28. desember 2005
Barnaball Siglfirðingafélagsins var haldið á tilsettum tíma í gær. Ég fékk sendar nokkrar myndir frá ballinu sem eru hérna á tenglinum: Myndir HÉR
Miðvikudagur 28. desember 2005
Í morgun klukkan 11:00 afhentiRóbert Guðfinnsson og dóttir hans Gunnhildur Róbertsdóttir, Dvalarheimilinu Skálarhlíð að gjöf fullkomna nettengda tölvu að gjöf frá fjölskyldum þeirra. --
Þar á eftir afhentu þau föndursheimilinu Iðju, aðra tölvu að gjöf af sömu gerð -
Það þarf vart að taka það fram að þessum rausnarlegu gjöfunum, á báðum stöðum var tekið með þökkum.
Nokkrar myndir frá þessum viðburðum eru hérna
Fimmtudagur 29. desember 2005 -- Hin ódrepandi sveit skíðamanna og fleiri góðra manna, byrjuðu seinni partinn í gær að gera við og lagfæra stærstu ljósaseríu bæjarins, ekki jólaljós, heldur hin hefðbundnu ljós sem lýsa upp brún Hvanneyrarskálar um og yfir áramótin á hverju ári- og teygja sig langt upp í hlíðarnar hvoru megin- og ekki má gleyma ártalinu 2005+2006. Það er unnið hörðum höndum að undirbúningnum, ekki aðeins á þessum vettvangi (vörugeymslu Olís) heldur víðar í bænum við önnur störf þessu tengt.
Fimmtudagur 29. desember 2005
Flugeldasala Björgunarsveitarinnar Strákar hófst í gær eins og venjulega á þessum árstíma í húsnæði sveitarinnar í Þormóðsbúð.
Fimmtudagur 29. desember 2005 Ný Siglfirsk heimasíða www.123.is/herdis Herdís Sigurjónsdóttir. Raunar er Herdís einnig með aðra eldri heimasíðu þar sem einnig er fullt af myndum og fleira efni http://frontpage.simnet.is/herdis/ þannig að greinilegt er að hún er engin viðvaningur. Herdís er dóttur Sigurjóns og Ásdísar Fronpage síðan er ekki aðgengileg, því miður
Fimmtudagur 29. desember 2005 -- Siglfirðingar komnir í áætlunarsamband: Hópferðamiðstöðin
Síðan er ekki aðgengileg
Föstudagur 30. desember 2005 Kveikt var á "blysunum" og ártalinu 2005 í gær á Hvanneyrarskálarbrún og hlíð, öllum sem á horfa til ánægju. Á morgun gamlársdag, verður birt stutt ágrip eftir Þ.R.J., þess skeiðs sem blysin á Hvanneyrarskálarbrún og hlíð og síðan ljósin fóru að gleðja Siglfirðinga og gesti bæjarins um áramótin.
Föstudagur 30. desember 2005 Ein gömul:
Þarna eru Hólm Dýsfjörð - Guðbrandur Sigurbjörnsson - Sigurlaug Sveinsdóttir - Vilhelm Friðriksson - Jóhann Jóhannsson - Sigurður Magnússon og Friðrik Márusson
Föstudagur 30. desember 2005
Þessar þrjár myndir hér eru teknar af KLM í gær uppi í Skarðsdal.
Þessar neðri á meðan bjart var, en þessi til hliðar, eftir að myrkur var komið á.
Svæðið er vel upplýst og prýðilegt skíðafæri.
Föstudagur 30. desember 2005
Í dag og fram yfir áramótin, vefmyndavélin á "Lífið á Sigló" með þetta sjónarhorn eins og sést á þessari mynd sem tekin var með vefmyndavélinni klukkan 11:06 í morgun.
Tilgangurinn með því að sýna aðeins einn ramma, er að sá, að þá geta þeir sem hafa opið á vélina fylgst með flugeldum sem skotið er á þessu svæði, meðal annars á gamlárskvöld klukkan 21:00 - en þá verður flugeldarunu skotið frá Hvanneyrarskálarhlíð, og svo auðvitað allt kvöldið til miðnættis.
Þetta ætti að geta orðið þeim heimamönnum sem ekki komast út til að sjá- og þeim sem eru víðs fjarri, augnayndi. --
Ég vona að þetta komi þokkalega út.
Föstudagur 30. desember 2005 -- Breytt tímasetning --- Skemmtikvöld Karlakórs Siglufjarðar er í kvöld kl. 21:00 --- Húsið opnar kl. 20:00 -- Karlakórinn mun syngja hefðbundin karlakóra lög ásamt léttara efni,
og fáum við fullt af gestum sem syngja með okkur-- Góða skemmtun.
Laugardagur 31. desember 2005 -- Listrænar ljósmyndir: Reynir Þorgrímsson, sonur Þorgríms og Ingibjargar (Túngötu 1 hér forðum) hefur stundað listræna ljósmyndun. Ég fékk hjá honum nokkrar myndir til að kynna þetta áhugmál hans. -- Hann hefur haldið þrjár sýningar á þessu ári. Hann stækkar myndirnar upp í 50 x 65 sentímetra og setur þær síðan á striga og með blindramma, þá verða þær eins og fallegustu málverk. Myndirnar hafa vakið mikla athygli og hann fyrirhugar að halda nokkrar sýningar á komandi ári. Sýnishorn af myndum hans er að finna hér
Laugardagur 31. desember 2005 --- Ein gömul: Kristbjörg Marteindóttir -Júlía Halldórsdóttir - Björn Þórðarson og Elín Jóhannsdóttir
Laugardagur 31. desember 2005
Siglufjarðarkaupstaður og Skíðafélag
Siglufjarðar undirrituðu í dag gamlársdag verksamning um rekstur skíðasvæðanna. Í samningum fellst að Skíðafélagið tekur að sér rekstur skíðasvæða í Skarðsdal og Hólsdal. Samningurinn tekur gildi frá og með 1. janúar n.k. og gildir til eins árs.
Á myndum við undirskrift fyrir hönd Skíðafélagsins;
Magnús Jónasson - og fyrir hönd Siglufjarðarkaupstaðar; Runólfur Birgisson bæjarstjóri, Myndin lengst til vinstri.
Og vottar af undirskrift voru stjórn Skíðafélagsins og fulltrúar bæjarins.
Laugardagur 31. desember 2005
Blys á brúninni í sextugasta sinn. Í bókinni "Siglfirskir söguþættir" sem Þ. Ragnar Jónasson bæjargjaldkeri og fræðimaður (1913-2003) tók saman og kom út fyrir átta árum er kafli um þann sið að kveikja ljós á brún Hvanneyrarskálar um áramót.
Fyrst var kveikt á blysunum um áramótin 1946-1947 og það er því í sextugasta sinn sem brúnin verður lýst upp núna um áramótin.
Fréttavefurinn "Lífið á Sigló" hefur fengið leyfi barna Ragnars til að birta þennan kafla. --
Kaflinn er hér fyrir neðan
Það vakti mikla eftirtekt og ánægju bæjarbúa á Siglufirði þegar í fyrsta sinn voru tendruð blys á brún Hvanneyrarskálar, á þrettándanum árið 1947. Í dagbókum lögreglunnar á Siglufirði 6. janúar það ár er bókað eftirfarandi: "Klukkan 20.45 var kveikt á blysum upp á Hvanneyrarskálarbarminum og náðu blysin upp í hlíðar báðum megin við Hvanneyrarskálina. Blysin voru samtals 35, auk allmargra smærri blysa í hlíðinni neðan við Hvanneyrarskálina. Starfsmenn úr S. R. útbjuggu blysin."
Einn af þeim sem störfuðu við gerð og uppsetningu blysanna, Halldór Bjarnason járnsmiður hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, rifjaði upp haustið 1996 hvernig að þessu var staðið og sagðist honum svo frá: "Blysstangirnar voru um einn metri á lengd og voru vafðar með tjöruhampi og striga og síðan vættar í hráolíu. Margir tóku þátt í því að búa til blysin, en það fór fram í húsakynnum verksmiðjanna, og einnig við það að koma þeim fyrir í fjallinu. Aðeins var hægt að komast með blysin í bíl út að prestssetrinu á Hvanneyri, en síðan þurfti að bera þau upp bratta hlíðina sunnan við Hvanneyrarána. Blysin voru síðan sett í röð, eftir frambrún Hvanneyrarskálarinnar, með jöfnu millibili. Hver maður átti að sjá um fimm blys og kveikja á þeim þegar merki var gefið. Það gerðu allir í einu."
Halldór segir að Guðmundur Einarsson vélstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins hafi átt hugmyndina að þessu, eins og fram kemur í Siglfirðingi 17. janúar 1956. Þar segir einnig: "Hann sá um útbúnað blysanna og fékk í fyrstu nokkra yngri menn úr skíðafélögunum til að koma þeim upp á brúnina og staðsetja þau. Síðan var kveikt á blysunum það seint, að á öllum lifði yfir áramótin."
Næst voru blys tendruð á brún Hvanneyrarskálar á gamlársdag 1947, eins og sjá má á bókun í dagbók lögreglunnar: "Starfsmenn S. R. kveiktu á 48 blysum og flugeldum upp á Hvanneyrarskálarbrún." Þessum sið var síðan við haldið um hver áramót.
Í blaðinu Ísafold og Vörður 6. janúar 1953 segir svo: "Á vegum skíðafélaganna á Siglufirði hafði verið komið fyrir fjölda blysa í Hvanneyrarskál, þannig að fremri brún skálarinnar var þakin blysum frá norðri til suðurs. Um kvöldið var svo kveikt á öllum blysunum samtímis. Laust fyrir miðnætti kom önnur ljósadýrð litlu sunnar í fjallinu beint upp af bænum og þar kom ártalið 1953. Svo kyrrt var, að kerti loguðu úti, hvar sem var í bænum."
Þetta var í fyrsta sinn sem logandi ártal var sett með kyndlum í fjallið ofan við bæinn, undir syðsta Gimbraklettinum. Um það sáu nokkrir ungir menn og var Ragnar Páll Einarsson listmálari foringi fyrir þeim hópi, svo sem frá er greint í Hellunni árið 1991. Þetta var mjög skemmtileg viðbót við ljósaskreytingarnar sem áður voru komnar. Þessir ungu menn héldu þessum sið um fimm áramót. Síðar settu Skíðafélagsmenn ártalið neðan við ljósin á Hvanneyrarskálarbrún.
Í blaðinu Siglfirðingi 21. janúar 1963 er eftirfarandi: "Skíðafélag Siglufjarðar, Skíðaborg sá um áramótaskreytingarnar í Hvanneyrarskál og fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn, með líku sniði og verið hefur. Að þessu sinni var lýsing skálarinnar og ártalið raflýst, sem er einsdæmi hérlendis, og var hið fegursta. Siglufjarðarkaupstaður veitir félaginu fjárhagslegan stuðning í þessari lofsverðu viðleitni, sem um langt árabil hefur gert Siglufjörð öðrum bæjum sérstæðari í áramótaskreytingum."
Eftir að raflýsing var tekin í notkun í stað tjörublysa, var hægt að láta ljósin standa lengur. Þá var byrjað að lýsa það ártal sem var fyrir áramótin. En kl. 24 á gamlárskvöld var síðasta tölustaf í ártalinu breytt svo, að nýja ártalið myndaðist.
Upphafsmönnum og forgöngumönnum þessara framkvæmda, svo og öllum þeim sem starfað hafa að þessu verki, ber að þakka fyrir framtakið og þennan mikla ánægjuauka fyrir bæjarbúa í svartasta skammdeginu. Þeir lögðu á sig mikla fyrirhöfn og erfiði, sérstaklega á meðan notuð voru tjörublys. Þetta er mikil bæjarprýði og talið ómissandi að dómi allra í bænum. Mun þetta hafa verið einsdæmi á landinu, að minnsta kosti í upphafi.