Miðvikudagur 1. febrúar 2006
Í gær fór fram við Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar smá athöfn í tilefni af því að Sýslumaðurinn afhenti Heilbrigðisstofnunni lyklana af Sjúkrabíl Rauða krossins.
En stofnunin tók þar með við rekstri bifreiðarinnar, sem um langt tímabil hefur verið í höndum lögreglu Siglufjarðar
Lögreglan á Siglufirði og fyrrverandi sjúkraflutningsmenn, sem annast hafa sjúkraflutninga á Siglufirði og nágrenni um langt skeið:
Talið frá vinstri: Adólf Árnason lögregluþjónn - Guðgeir Eyjólfsson sýslumaður - Guðbrandur J Ólafsson lögregluþjónn - Jón Trausti Traustason lögregluþjónn - Ingvar Hreinsson sjúkraflutningamaður - Mark Duffield sjúkraflutningamaður og Guðmundur Ásgeirsson lögregluþjónn. Myndin hér fyrir neðan
Lyklar og skilríki afhent: Guðgeir Eyjólfsson sýslumaður afhendir Valþór Stefánssyni sjúkrahúslækni lyklavöldin af sjúkrabifreiðinni og tilheyrandi, en Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar hefur nú alfarið tekið við sjúkrabifreiðinni og mun sjá um sjúkraflutningana á svæðinu Siglufjörður Fljót, með sínu starfsfólki. -- Á milli þeirra er Guðbrandur J Ólafsson og til hægri Jón Trausti Traustason
Miðvikudagur 1. febrúar 2006 Í gær fór fram athöfn í fundarsal Bátahússins þar sem forráðamenn Sparisjóðs Siglufjarðar afhentu Síldarminjasafninu 5 milljónir króna að gjöf,
Það voru þeir Ólafur Marteinsson stjórnarformaður og Ólafur Jónsson, sparisjóðsstjóri.
Þar voru og stjórnarmenn F.Á.U.M. og fréttamenn. -- Í gjafabréfi segir m.a. að gjöfin sé viðurkenning fyrir ómetanlegt starf við að varðveita sögu síldaráranna og Siglufjarðar.
Aðspurður um það hvað gera ætti við þessa miklu peninga sagði Örlygur safnstjóri að þeir yrðu notaðir til að greiða niður skuldir safnsins. Mikill skuldabaggi hvíldi enn á safninu eftir uppbyggingu síðustu ára en nú sæju menn fram á að honum verði að mestu létt af eftir tvö ár.
Á myndinni hér til hliðar eru: Örlygur Kristfinnsson safnstjóri - Ólafur Marteinsson stjórnarformaður Sparisjóðs Siglufjarðar - Ólafur Jónsson Sparisjóðsstjóri og Hafþór Rósmundsson Stjórnarformaður Síldarminjasafnsins.
F.Á.U.M. = Félag áhugamanna um minjar. Félagið sem kom Síldarminjasafninu á laggirnar Nokkrar myndir frá afhendingunni
Miðvikudagur 1. febrúar 2006
Listi yfir þær nafna hugmyndir sem "Lífið á Sigló" hefur frétt af, er hér til hliðar.
Miðvikudagur 1. febrúar 2006 -- Mikil umræða fer nú fram í fjölmiðlum, alþingi og á meðal almennings í landinu, hvort ríkisstjórn og alþingi ætli nú endanlega að ganga frá farmannastétt og farmskipaútgerð dauðri. Ég sem gamall "farmaður" finn til með þeirri þróun sem hefur farið hratt niður á við undanfarin ár og ef ekkert verður að gert nú á næstu vikum og mánuðum verður svo komið meðal annars að íslenska ríkið verði orðinn styrkþegi Normanna og Færeyinga, þar sem þeir borga nú þegar með flutningum til og frá Íslandi. Í tengslum við þessa þróun, þá var mér send þessi fróðleiksmoli varðandi skipið Green Atlantic sem sést hér fyrir ofan í höfn á Siglufirði 10 apríl 2005
Húsavík 31 Janúar 2006. - Sæll Steingrímur. Ég var að lesa hjá þér og skoða síðuna “Lífið á Sigló” og rakst þar á mynd af flutningaskipi sem heitir Green Atlantic, en skipið hefur oft komið hingað til lands, með frosnar fiskafurðir. Það hefur hins vegar aldrei verið getið um það í blöðum, að skipið var á sínum tíma smíðað fyrir Skipadeild sambandsins (SÍS). -- Skipið hét Jökulfell og var þriðja skipið sem bar það nafn hjá útgerðinni jafnframt sem Jökulfellið var síðasta skipið, sem smíðað var fyrir Sambandið. Það var selt úr landi fyrir nokkrum árum. -- Með bestu kveðjum Hafliði Óskarsson
Fimmtudagur 2. febrúar 2006
Ein gömul: Það er vart hægt að ætlast til að yngri kynslóðin átti sig strax á því af hverju þessi mynd er, en með því að skoða fjöllin fara þeir yngri fljótt að átta sig á að myndin er frá Siglufirði.
Þeir eldri sjá og vita að þetta eru húsakynni Síldarverksmiðjunnar Rauðku, efnarannsókn, skrifstofa og geymslurými í dökkleita húsinu til vinstri Lagerhús í miðju og ketilhús til vinstri.
Allt á horni Gránugötu og Tjarnargötu -- árið 1965
Fimmtudagur 2. febrúar 2006
Halló - Á hvaða leið ert þú, litla gul flotkríli?
Sem var á reki til austurs frá innri höfninn, þarna við innsiglingar tákn. (bauju)
Fimmtudagur 2. febrúar 2006
Aðsent: Ég fékk það skemmtilega verkefni sem sérlegur upplýsingafulltrúi saumaklúbbsins Sjöstjarna að senda þér línu og mynd frá okkur skvísunum í saumaklúbbnum eftir Siglufjarðarferðina okkar um síðustu helgi. >>>>>
Ég fékk samstundis að vita að komin væri mynd af mér, Jónu Báru Hauks og Rikku Guðjóns á heimasíðuna þína, enda ert þú með virkustu fréttamiðlun til Siglfirðinga í heiminum og því varst þú á undan mér, en það aftrar mér nú ekki frá því að ljúka verkefninu sem mér var falið...
Ferðin okkar um síðustu helgi var farin til að halda upp á afmæli hennar Steinu okkar Matt sem er eina okkar sem býr á Siglufirði núna og átti hún fertugsafmæli í fyrra dag (til hamingju Steina okkar) og síðan varð Jónu Bára sem varð fertug 1. janúar og því tvöföld ástæða. Við gistum allar á gistiheimilinu hjá Öllu sem gerði þetta enn skemmtilegra og eins og myndirnar sýna á http://www.123.is/herdis þá skemmtum við okkur konunglega. Við fórum í verslunarferðir og kusum í sameiningar kosningunum með Steinu á laugardeginum, fórum í kosningakaffi til Gunnu Finna. Við fórum svo út að borða eðalmat á Bíó-Kaffi um kvöldið hjá þeim Finna, Sibbu, Höddu og Ægi og skemmtum okkur (og vonandi öðrum) fram eftir nóttu. Sem sé kveðja til þín Steingrímur og allra hinna sem við hittum og náðum ekki að hitta á Siglufirði um helgina, Sjöstjörnur- Rikka, Hulda Alfreðs, Elsinga Konráðs, Konný Agnars, Steina Matt, Rakel Björns, Jóna Bára og Herdís - myndin er tekin á barnum á laugardagskvöldinu - Herdís Sigurjónsdóttir
Fimmtudagur 2. febrúar 2006
Nú hefur Vörumiðlun hætt öllum vöruflutningum til og frá Siglufirði og Norðurfrakt tekið alfarið við þeim flutningnum, en síðasta ferð þeirra Vörumiðlunarmanna var í gær.
Þetta er sagt gert í hagræðingarskyni, og má satt vera þar sem vitað er að suma daga vikunnar hefur það komið fyrir að bílar beggja komi hingað hálftómir.
En svona samkomulag mun hafa verið gert víðar á landinu, þar sem Landflutningar og Flytjandi hafa skipt á milli sín flutningaleiðum, til að vera ekki að berjast í samkeppni um takmarkaðan flutning í mörgum tilfellum.
Svo er að vona að farmgjöldin hækki ekki í framhaldi af samkomulaginu hér, til og frá Siglufirði.
Föstudagur 3. febrúar 2006
Ein gömul: Dýnamít
Þær voru ekki upp á marga fiska reglurnar um flutning og meðferð dýnamíts árið 1966, þegar verið var að skipa upp frá borði erlenda skipsins Irena nokkrum bílförmum af dýnamíti til nota vegna jarðangagerðar í gegn um Strákafjall. Þarna voru jú tveir lögregluþjónar til kvaddur og stendur annar þeirra (Bragi Magg) í dyrum vörubifreiðarinnar.
Að öðru leiti gekk uppskipunin sinn vana gang eins og um mjölsekki eða eitthvað álíka væri um að ræða.
Ég ásamt öðrum forvitnum komust óáreittir á vettvang. Enginn lögreglubíll með blikkljós framan við og aftan vörubifreiðarnar sem fluttu farminn út að gangnamunna, aðeins lögregluþjónar sem sátu inni í vörubílunum á leiðinni.
Föstudagur 3. febrúar 2006
Hrafnaþing?
Nei þetta er einn og sami hrafninn ofan á ljósastur við Snorragötu framan við Síldarminjasafnið, að gæða sér í gær á leifum af þorskhaus.
Föstudagur 3. febrúar 2006 --- Blátoppur í byrjun febrúar.
Það er full snemmt sagði Óskar Berg Elefsen, sendandi myndarinnar af "blómstrandi" blátoppsrunna sem er í garðinum hans, en hann rak augun í þetta í morgun og tók mynd.
Laugardagur 4. febrúar 2006 -- Ein gömul: Á leið heim í hádegismat. Þessi gata væri betur mokuð og meira pláss fyrir bíla og gangandi árið 2006 (ef það væri einhver snjór). En á þessum tíma fyrri part árs þegar myndin var tekin, voru fleiri á ferðinni á tveimur jafnfljótum, en fjórum hjólum. -- Nú telst það jafnvel viðburður að menn fari gangandi heim í hádeginu, öfugt við það sem var þarna árið 1966.
Laugardagur 4. febrúar 2006
Seinni partinn í gær fór fram kynning hjá "SR-Byggingavörur" á ýmsum vörum sem verslunin selur frá BYKO -
En sérfræðingar frá Byko voru þar með sérstaka kynningu á nýjum tegundum af "Gipsonit" plötum, allskyns festingum, verkfærum frá AGA og fleiru.
Þarna voru boðaðir byggingameistarar, smiðir, rafvirkjar og fleiri sem ætla mátti að gagn hefðu af.
Gestum var boðið upp á léttar veitingar meðan á kynningum stóð. Á myndunum eru;
<<<<<< Hermann Einarsson innkaupastjóri SR-Byggingavörur og yfirlitsmyndir hér fyrir neðan, af hluta hópsins sem mættur var.
Laugardagur 4. febrúar 2006
Þorramót íþróttafélagsins Snerpu. Keppt verður í Boccia við bæjarstjórnina klukkan 10:30 í dag í Íþróttahöllinni. Báðir hópar telja sigur sinn vísan, og mikil spenna er í lofti. Ég ætla að mæta og reyna að taka bæjarstjórnina á taugum með því að skjóta á þá ört með myndavél minni -- því auðvitað held ég með Snerpuliðinu (konan mín er í því liði)
Deginum mun svo ljúka í sameiginlegri gleði um kvöldið á þorrablóti á Bíó Café.
Laugardagur 4. febrúar 2006
Ágangur 1982 kominn með heimasíðu >> Komið þið sæl árgangur 1982 ! - Slóðin á síðuna okkar er http://www.blog.central.is/siglo82 -- Þar getum við öll verið í sambandi og ákveðið bekkjarmótið og fleira sem er ákveðið að halda í sumar. Síðan er í fullri vinnslu og hvetjum við ykkur öll að skila inn upplýsingum svo við getum náð í ykkur s.s aðeins árgangur ´82. og svo verður þetta lifandi síða fyrir okkur öll. Kveðja, Ívar Örn Elefsen --- Athugið, einnig er tengill til síðurnar á "Tenglasíða-2" Síðan er ekki sýnileg í dag
Laugardagur 4. febrúar 2006 Þorramót Snerpu stóð sem hæst þegar ég yfirgaf svæðið rétt fyrir hádegið, ekki veit ég hvort mér tókst að trufla bæjarstjórnina í leik sínum, en þeir sýndu ýmis góð tilþrif, en útundan mér heyrði ég þó Óli Kára segja að hann "væri ekki í stuði"
Stór myndasyrpa frá mótinu kemur seinna í dag
Laugardagur 4. febrúar 2006 -- Þorramót Snerpu - Sigurinn lenti í höndum bæjarstjórnarinnar.
Mín "neikvæðu" áhrif og óstuð Óla Kára virðast ekki hafa haft áhrif á sigurvilja bæjarstjórnarinnar sem heildar. "betur væri að svo væri oftar"
Þorramót Snerpu - Kiwanis og Bæjarstjórnar Siglufjarðar Myndir HÉR
Sunnudagur 5. febrúar 2006
Ein gömul: Ekki man ég hvort þessi mynd hefur komið hér áður á vef minn, en þetta eru handboltastúlkur frá Siglufirði og Hofsós, tekið í lok kappleiks sem fram fór á Hofsós sumarið 1966 -- Ég væri þakklátur ef einhver pældi í nöfnum þeirra og sendi mér, - mun ég þá setja nöfnin neðan við myndina
(Kona mín Guðný Ósk Friðriksdóttir er fyrir miðju og var við markvörslu)Sunnudagur 5. febrúar 2006 Þorra-Blót Snerpu var haldið í gærkveldi, sem framhald af Þorramótinu fyrri part dagsins í gær. - Þar fór fram að loknu borðhaldi, verðlaunaafhending, smáuppákomur, Iðjukórinn söng og svo var dansað á eftir.
Nokkrar myndir frá kvöldinu eru hér >> + myndir hjá: Sveinn Þorsteinssson
Mánudagur 6. febrúar 2006 -- Ein gömul: Þessi mynd er til fyrir á vefnum mínum, en hún er vissulega þess virði að skoða hana aftur, og frásögn í Morgunblaðinu 7. mars árið 1970, sem varð tilefni myndatökunnar. En allir Siglfirðingar kannast við þessa kappa: Tengill til greinar: http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=114366&pageId=1410472&lang=is&q=gr%E1sleppunet%20gr%E1sleppunetin
Mánudagur 6. febrúar 2006 Íþróttamaður ársins var kjörin í 27. sinn af hálfu Kiwanis klúbbsins Skjaldar á Siglufirði seinni partinn í gær á Bíó Café, nú fyrir árið 2005. Einnig voru tilnefndir íþróttamenn sem skarað hafa fram úr á árinu 2005.
Ég var á staðnum og tók nokkrar myndir við þetta tækifæri.
Þriðjudagur 7. febrúar 2006 -- Einu sinni Siglfirðingur, alltaf Siglfirðingur.
Friðrik Ingi Frímannsson (Gjertsen), sem ungur flutti héðan til Noregs og býr þar núna, í Olden, er fertugur í dag. Foreldrar hans eru Sigrún Friðriksdóttir (Hrefnu og Fidda) og Frímann Ingimundarson. Á myndinni, sem tekin var 2003, er hann með Þóru Frímannsdóttur, ömmu sinni. Ljósm: ókunnur
Þriðjudagur 7. febrúar 2006
Grétar Rafn fær óvæntan samning hjá AZ Alkmaar -- Landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson skrifaði í dag undir nýjan samning við hollenska félagið AZ Alkmaar sem gildir til sumarsins 2011 og vakti það mikla athygli enda gekk hann til liðs við félagið fyrir hálfu ári og gerði þá samning sem gildir til 2008 með möguleika á tveimur árum til viðbótar.
Hollenska félagið vildi hinsvegar verðlauna hann fyrir góða frammistöðu með þessum samning.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson Fengið að láni hjá Fotbolti.net Lesa meira ---
Þeir sem ekki þekkja til Grétars, þá er hann sonur Guðlaugar I Guðmundsdóttur og Steins Elmars Árnasonar
Miðvikudagur 8. febrúar 2006 -- Ein gömul: Þær hafa held ég aldrei komið fram opinberlega saman þessar, en þær virðast þó greinilega hafa tekið lagið saman. Myndin er tekin í bílskúr einhvers staðar í Reykjavík, þar sem allt var til reiðu til hljómflutnings, magnarakerfi, hljóðfærin og jafnvel upptökubúnaður, eins og raunar mun hafa verið mjög algengt síðustu áratugina í hundraða tali, alt til dagsins í dag. Þetta eru Systurnar Gústa og Billa og Gerða dóttir Billu. Það er Ágústa Lúthersdóttir - Sigurjóna Lúthersdóttir og Ásgerður Guðbrandsdóttir. Ljósmynd: Guðný Ósk Friðriksdóttir
Miðvikudagur 8. febrúar 2006
Það er að verða æ algengara í dag að bátum af þessari hefðbundnu stærð sé breytt með því að byggja yfir þá.
Nýlega byggði JE-Vélaverkstæði yfir Freyr KÓ 77 2575 -
Þessum bát Baddý SI 277 2545 var einnig breytt fyrir stuttu annarsstaðar. --
Myndin er frá í gær, þar sem báturinn lá við bryggju í heimahöfn.
Miðvikudagur 8. febrúar 2006 -- Á varðbergi gæti þessi mynd kallast, en hún sýnir enda Stórabola, snjóflóðavarnargarðsins í suðurbænum og einn af hinum fjölmörgu "skokkurum" á Siglufirði, hvíla lúin bein sín þar í stutta stund samhliða því að virða fyrir sér gott útsýnið.
Fimmtudagur 9. febrúar 2006 Ein gömul: Í gær miðvikudag birtist á síðunni mynd af þremur stúlkum sem stilltu sér upp fyrir ljósmyndarann með hljóðnema í hendi og "tóku lagið" -- Þessi þrjú hér sem eru á þessari mynd, eru af árgangi ´32 eru að spila og taka lagið uppi á sviði fyrir jafnaldra sína og maka þeirra á árgangsmóti árið 1992 á Hótel Höfn (eða Læk) - Fleiri en þar voru hafa sennilega ekki heyrt þetta tríó leika fyrr eða síðar, en þennan dag. -- En þetta eru Jón Helgason - Guðný Friðfinnsdóttir og Óli Björnsson -- Ljósmynd: Guðný Ósk Friðriksdóttir
Fimmtudagur 9. febrúar 2006 Það hafa verið talsverð viðbrigði fyrir okkur hér fyrir norðan á Sigló og raunar víðar að verða fyrir þessari kuldabylgju sem skall á okkur aðfaranótt þriðjudags, fyrst úrhellis rigningu og slyddu og síðan -10-15 °C vindkælingu, sé miðað við hitann sem verið hafði undanfarna daga þar áður. Sumir áttu erfitt með að komast inn í bíla sína á þriðjudagsmorgni síðastliðins vegna allt að 5 mm þykkrar klakabrynju sem á þeim var og frosinna bílhurða.
En hvað sem því líður, þá hefur örugglega verið kaldara þarna uppi á slóð flugvélarinnar á myndinni sem flaug yfir Siglufjörð klukkan 15:30 í gær og hefur að líkindum verið í 30-40 þúsund feta hæð.
immtudagur 9. febrúar 2006
Langir skuggar og stingandi strá.
Mynd frá í gær klukkan 15:28 - rétt áður en sólin hvarf "undir" fjallstoppana og hætti að skína á þessa þúfutoppa of fleira í norðurbænum.
Fimmtudagur 9. febrúar 2006 - Björgunarbáturinn Sigurvin fór í gærmorgun um 80 sjómílur norður í haf til að ná í veiðiskipið Jón Steingrímsson RE 7 973, en skipið hafði fengið veiðarfæri í skrúfuna. Leiðinda veður var á þessum slóðum en ekkert amaði af áhöfninni og höfðu þeir það þokkalegt, en bógskrúfan gat beitt skipinu með stefnið í vind og öldur. Sigurvin og kom að bryggju á Siglufirði með bátinn klukkan 23:35 í gærkveldi, en ferðin hafði gengið vel, ganghraði mun hafa verið um 6 sjómílur með bátinn í togi
Fimmtudagur 9. febrúar 2006
Bryndís Sunna Valdimarsdóttir tengdadóttir Guðrúnar Árnadóttur og Arnars Ólafssonar Suðurgötu 58 Sigló, keppir við karlmennina á úrslitakvöldinu í Söngvakeppni sjónvarpsins 2006. Lag hennar Hjartaþrá sem Sigurjón Brink flytur þann 18. febrúar er eina lagið í úrslitum sem samið er af konu. ----- Lestu meira með því að smella á myndina
Hér tengill til síðu þar sem hægt er að hlusta á lagið hennar: http://servefir.ruv.is/frame2/15.html
Föstudagur 10. febrúar 2006 Ein gömul: Þessi mynd er tekin 19. september árið 1992 framan við Nýja Bíó
Föstudagur 10. febrúar 2006
Eins og fram kom í gær (neðar) þá kom Sigurvin með veiðibátinn Jón Steingrímsson RE 7 til hafnar í fyrrakvöld, en báturinn hafði fengið veiðarfæri í skrúfuna. Báturinn var á Grálúðuveiðum í net.
Svo óheppilega vildi til í slæmu veðri að netatrossa flæktist í skrúfunni. Báturinn er með tvær hliðarskrúfur svo hann gati haldið sjó þar til veður lægði aðeins og Sigurvin sótti hann. Í allan gærdag börðust tveir kafarar við trossuna sem kirfilega og þétt vafin var um öxul og skrúfu.
En því verki lauk seinni partinn í gær. Meðfylgjandi myndir tók Sveinn Þorsteins af öðrum kafaranum Skúla Jónssyni á leið upp með netapart í eftirdragi, sem og hann fékk sér smá kaffisopa í leiðinni til að fá hita í kroppinn eftir volkið neðansjáfar.
Föstudagur 10. febrúar 2006 Ég skrapp til Akureyrar í morgun - verð kominn til baka seinni partinn S.K.
Laugardagur 11. febrúar 2006
Ein gömul:
Bæjarstjórn Siglufjarðar fundar í Bókasafninu á Siglufirði árið 1965
Laugardagur 11. febrúar 2006 Siglfirðingar áberandi á Akureyri:
Prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fer fram um helgina vegna komandi bæjarstjórnarkosninga. Kosið verður um sex efstu sætin og taka tuttugu þátt í prófkjörinu. Á kjörskrá eru á annað þúsund manns. Siglfirðingar eru áberandi í prófkjörinu. Þau Baldur Dýrfjörð og Jóhanna Hlín Ragnarsdóttir sækjast bæði eftir bæjarstjórnarsæti á framboðslistanum. Formaður kjörstjórnar er Siglfirðingur, Anna Þóra Baldursdóttir. (Dóttir Baldurs Eiríkssonar) -- Og síðast en ekki síst er Siglfirðingur framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi; Guðmundur Skarphéðinsson. Guðmundur er búsettur hér á Siglufirði, en er með fasta viðveru á skrifstofu flokksins á Akureyri. -- Myndirnar eru af frambjóðendunum, Jóhönnu Hlín og Baldri Dýrfjörð. Ég var á Akureyri í gær og komst ekki hjá því að sjá þessi andlit sem allstaðar blöstu við á stórum myndum. - Hvernig ætli að gangi með uppstillingarnar til sveitarstjórnarkosninganna hjá flokkunum á Siglufirði og Ólafsfirði ?
Laugardagur 11. febrúar 2006 Eru Siglfirðingar komnir í "guðatölu" ? -- Það taka víst ekki allir allt það sem heilagan sannleika sem í Dagblaðinu stendur, en ef eitthvað er að marka það sem meðfylgjandi mynd segir, þá er að minnsta kosti einn Siglfirðingur kominn í guðatölu, svona eins og kenningar segja í fornbókmenntum. Þarna er átt við Hauk Snorrason. (son Snorra Dalmars og Hildar) (Dagblaðið í gær -aðsent) Hérna geturðu farið inn á sjálft viðtalið í Dagblaðinu, og orð landlæknis við þessari "guðstrú" og ef þú villt fræðast meira um þessa "dýrlinga" geturðu farið hingað
Laugardagur 11. febrúar 2006
Aðsent:
Á síðunniwww.austurferd.blogspot.com segir af ferð Jóns Bjarka Magnússonar Siglfirðings ásamt vini sínum Sigga austur um Síberíu, Mongólíu, Kína, Víetnam og nú í Kambodíu.
Þá er síðan www.gongu.garpar.com teng Siglufirði að því leyti að þar má finna myndir og lýsingar af mörgum gönguferðum sem ég hef farið í undanfarin ár með góðum hópi fólks. Siglfirðingar eru allstaðar. Á fjöllum sem í Austurvegi.
Ég skoða síðuna þína reglulega og hef raunar fylgst með gangi mála á Sigló nær einvörðungu með því að kíkja hérna inn. Ef síðunnar nyti ekki við hefðu tengsl mín við fjörðinn rofnað enn meir en raun ber vitni. - Kveðjur til Siglfirðinga --
Magnús Hannibal Traustason…( Maggi á Sauðanesi )