Sunnudagur 7. nóvember 2004
Ein gömul:
Lífið á Sigló 3. júlí árið 1963 á Aðalgötunni fyrir framan Snyrtibúð og Aðalbar (áður Apótek; Schiöth) Aðalbúðina, þar sem fólkið er að bíða eftir Morgunblaðinu, sem aldrei var borið út á þessum tímum, en kom oftast í bæinn að kvöldi um klukkan 22:00-23:00. Og þar neðar í götunni er gamla Póst og Símahúsið.
Mánudagur 8. nóvember 2004 -- BINGÓ - HAPPDRÆTTI Kvenfélags Sjúkrahússins var haldið seinnipartinn í gærdag í Allanum.
Fullt hús gesta var og keppt var um fjölda eigulegra vinninga. Hér á þessum stað sem áður hét Alþýðuhúsið voru annarskonar samkomur haldnar á þessum degi; 7. nóvember árlega, öðru til dýrkunar en þeirri hjálpsemi og kærleika sem nú er í fyrirrúmi. Það var þegar kommúnisminn og leiðtogarnir voru dýrkaðir í þessu húsi. Ég mætti hjá kvenfélagskonum í gær og tók nokkrar myndir (ég spila ekki bingó) Smelltu HÉR til að sjá fleiri myndir.
Mánudagur 8. nóvember 2004
Aðsent: Í gær kl.15:30 fór fram athöfn í Tónlistarskóla Siglufjarðar, þar sem Louise Kr Theodórsdóttir tónmenntakennari gaf til minningar um eiginmann sinn Ragnar Má Hansson rafvirkja, sem lést þann 18. október 2003, litla harmonikku af Delicia gerð.
Elías Þorvaldsson tók við gjöfinni fyrir hönd skólans og þakkaði þann hlýhug sem Louise sýndi tónlistarskólanum. Helen S. Hraunberg spilaði því næst eitt lag á hina nýju harmonikku. ljósmynd Júlíus Hraunberg
Mánudagur 8. nóvember 2004 -- Mikið þreyttur og að niðurlotum kominn, eftir langa og dygga þjónustu við eigendur sína. -- Pylsuvagninn," sem stóð baka til við Norska sjómannaheimilið. (nú Tónskólinn) - Myndin er tekin 3. ágúst 1963
Þriðjudagur 9. nóvember 2004
Ein gömul:
Sem betur fer þá er þetta ÞOKA inni yfir Siglufirði, þoka sem felur byggðina og sjóinn, en EKKI sjór eins og þeir svartsýnustu vísindamenn hafa spáð, að verði eftir eina til tvær aldir. Þó eru til vísindamenn sem telja slíka hækkun sjávar hreina þvælu.
Hvað um það, það er tilkomumikil sjón að sjá fjörðinn okkar hulinn slíkri þoku.
Myndin er tekin í ágúst 1963
Þriðjudagur 9. nóvember 2004
Málaraverkstæðið: Bjarni Þorgeirsson málarameistari rekur ásamt fjölskyldu, litla málningarvöruverslun þar sem allt fæst til málningarvinnu, allt frá minnstu penslum til tæknilegra leiðbeininga beint frá meistaranum.
Einnig hefur hann á sínum snærum röska og góða málara sem ætíð eru til í fjölbreytta málaravinnu.
Ég leit inn hjá Bjarna málara í morgun og spjallaði við hann, en verslunardeildin varð eins árs síðastliðinn sunnudag 7. nóvember.
Myndin er af Bjarna við "kassann," bak við hann er málverk sem Bjarni hefur málað.
Þriðjudagur 9. nóvember 2004 Þeir eru enn við sama heygarðshornið framsóknarmenn í Skagafirði í dag, eins og mergur þeirra var fyrir 70 árum þegar þeir gerðu allt hvað þeir gátu til að gera Siglfirðingum lífið leitt á uppgangi síldaráranna, þegar Siglufjörður og önnur síldveiðiþorp og bæir "stálu" frá bændum í Skagafirði leiguliðunum sem lifðu fyrir náð bændanna sem hálfgerðir þrælar, en gátu loks frjálsu höfði strokið með því að fara til vinnu fyrir launum í beinhörðum peningum á Sigló og fleiri síldarstaða það er ekki launum greitt með fæði og húsaskjóli ásamt smáaurum skammtað til annarra nauðsynja. Og enn reyna þeir að hafa áhrif á tilveru okkar
Siglfirðinga, ef marka má ályktun Kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi sem beinir eindregnum tilmælum til Alþingis að fresta gerð Héðinsfjarðarganga milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar.
Miðvikudagur 10. nóvember 2004
Ein gömul:
Þessi mynd kemur yngri kynslóðinni til að velta vöngum- og ef til vill þeim eldri einnig. Þeir sem ekki þekkja húsin, þá er þarna til hægri Póst og símahúsið við Aðalgötu/Grundargötu, svo og þar sem verið að stækka húsið í norðurátt. Svo þegar því verki var lokið, þá var gamlahúsið brotið niður og byggt annað við og á sama stað.
Hrærivélin stendur þarna á Grundargötunni.
Myndin er tekin 26. ágúst 1963
Fimmtudagur 11. nóvember 2004 Nú á síðustu dagur rignt yfir okkur netverja úr öllum áttum, einskonar keðjubréf þar sem fólk er kvatt til framsenda- og að versla ekki við olíufélögin, nema BENSÍN.
Það er hvatt er til að hunsa öll önnur viðskipti við olíuþjónustur, og hvað Siglufjörð varðar; Bensínstöðina og Olísverslunina.
Ég framsendi ekkert af þeim fjórum póstum sem ég fékk með þessu efni.
Málið er einfalt: Ef við Siglfirðingar förum eftir þessu rugli, þá erum við að herja meira á saklausa umboðsaðila hér á Siglufirði en olíufélögin sjálf eða forkólfana- og skerðum með því hluta af þeim tekjum sem þær fjölskyldur hér hafa sem lífsviðurværi af þessari þjónustu.
TAKIÐ EKKI ÞÁTT Í ÞESSU RÁÐABRUGGI, á Siglufirði amk. Vissulega ber að fordæma þann þjófnað sem forkólfarnir hafa viðurkennt og beðist afsökunar á að hafa framkvæmt. Látum dómstólana um að hegna þeim, og vonum að dómarnir verði í samræmi við þann 5 mánaða fangelsisdóm sem einstaklingur fékk á dögunum, fyrir að stela bensíni fyrir um 400 þúsund krónur með krítarkorti. Það er varla hægt að fara fram á vægari dóm, þótt hvítflibbar eigi í hlut.
Fimmtudagur 11. nóvember 2004
Bæjarstjórn Ólafsfjarðar harmar afstöðu framsóknarmanna.
Á fundi bæjarstjórnar Ólafsfjarðar sem haldinn var þriðjudaginn 9. nóvember var eftirfarandi ályktun samþykkt: ”Bæjarstjórn Ólafsfjarðar harmar ályktun kjördæmisþings framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi, haldið í Borgarnesi um nýliðna helgi, þar sem kveðið er á um frestun jarðganga, um Héðinsfjörð til Siglufjarðar. -- Bæjarstjórn Ólafsfjarðar hvetur framsóknarmenn í Norðvesturkjördæmi, sem og aðra þá er kunna að vera í vafa um gildi þessarar framkvæmdar til að kynna sér samfélagslegt gildi jarðganga fyrir byggðarlögin við utanverðan Eyjafjörð, sem og Eyjafjörð allan”. --- Tekið af vef Ólafsfjarðar, sem er vel við haldið með nýjum fréttum af störfum bæjarstjórnar.
Fimmtudagur 11. nóvember 2004
Ein gömul: Fyrsta síldin á síldarvertíðinni 1963.
Síldarbáturinn Strákur SI 145 með fyrstu síldina, landað hjá Hrímnir til söltunar og frystingar 13. júní.
Fimmtudagur 11. nóvember 2004 Skíðasvæðið í Skarðdal.
Enn er verið að vinna við að jafna og fjarlægja stórgrýti og fylla upp í smágil á skíðasvæðinu í Skarðsdal - og ekki að efa að það verður betra og hættuminna en ella. Ég skrapp uppeftir í dag eftir hádegið, ætlaði alla leið á "vinnusvæðið" en hætti við það- og snéri við hjá stjórnstöðinni þar sem dálítið hafði snjóað og smá þæfingur ofar, sem ég vildi ekki leggja í.
Föstudagur 12. nóvember 2004 Ein gömul:
"Ægileg átök." Þetta þætti þó ekki mikil eða þung byrði í dag, þessi hluti þurrkaratromlu sem verið er að hífa þarna út frá Síldarverksmiðju SRN í október 1963. En "draslið" úr verksmiðjunni var þá flutt austur á land þar til uppsetningar, samhliða sem því sem SRN var rifin. Þarna eru tveir rafmagnsdrifnir (/bensín/rafmagn) 3ja tonna kranar að takast á við þurrkaratromlu.
Föstudagur 12. nóvember 2004 -- Dapurlegt: Norðlenskar fréttir Svæðisútvarpsins þ.11.11:
Ólafsfirðingar hafa hlutfallslega minnsta trú á framtíð eigin byggðarlags á næstu árum, en Grímseyingar eru jákvæðastir. Þetta kemur fram í könnun Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri, sem kynnt var í dag. 40 % Ólafsfirðinga segjast hafa trúa á þróun bæjarins og næst þar fyrir ofan eru íbúar Dalvíkurbyggðar, þar er hlutfallið 58 % Allir íbúar Grímseyjar, eða 100 % segjast hafa trú á jákvæðri þróun byggðarlagsins. Á Akureyri segjast 81 % hafa trú á þróuninni. Um fjórðungur íbúa Siglufjarðar, Dalvíkur og Ólafsfjarðar telur frekar líklegt að flytja burt á næstu tveimur til þremur árum, en 16 % prósent Akureyringa. Grímseyingar eru hins vegar ekki á þeim buxunum að flytja, því enginn virðist vera í þeim hugleiðingum.
Laugardagur 13. nóvember 2004
Ein gömul:
Skólaferðalag 28 september 1963
Laugardagur 13. nóvember 2004
Björgunarsveitaræfing - Rústasveit Austurlands. Þeir eru komnir alla leið Austan af fjörðum til æfinga í stóru húsi við Suðurgötu 12 á Siglufirði, sem áætlað er verði rifið áður en langt um líður. Þeir brjóta gat á steinveggi hússins og þreifa sig áfram innan dyra ofl.
Á myndinni er Pálmi Benediktsson sem fer fyrir austanmönnum og Björgvin Smári Jónsson frá Árskógssandi Eyjafirði, en hann er einskonar eftirlitsmaður á vegum Landsbjargar til að fylgjast með æfingunum.
Myndirnar voru teknar í morgun upp úr klukkan 09:35 --
<<<<<<<< Laugardagur 13. nóvember 2004 -- Til gamans birt: Úrdráttur úr Heilbrigðissamþykkt Siglufjarðar frá árinu 1920