Jólakveðjur til vina og vandamanna.
Nú fyrir jólin gefst ÖLLUM sem það vilja, tækifæri til að koma jólakveðju með mynd og stuttum texta hér á Lífið á Sigló.
Viðkomandi sendir mér á Netfangið mitt einfaldan texta og mynd, og ég birti það síðan á sérstakri síðu.
Allt án endurgjalds.
Ljósmynd gæti verið fjölskyldumynd eða einhver falleg sem einhver úr fjölskyldunni hefur tekið. ****
Miðvikudagur 1. desember 2004 - - Ein gömul: Dagur ÞH 66 (SI) og Aldan SI 85 að veiðum fram af Siglufirði. Ljósmynd: Már Jóhannsson.
Miðvikudagur 1. desember 2004 -- Frystiskipið Silver Copenhagen var að losa í morgun 220 tonn af rækju frá Canada, til Rækjuverksmiðju Þormóðs Ramma Sæberg.
Miðvikudagur 1. desember 2004 -- Bæjarkarlarnir hafa verið að skreyta bæinn með allskyns jóla ljósadúndri- og í morgun voru þeir að reisa jólatré á Torginu
Miðvikudagur 1. desember 2004 -- Þessir krakkar frá Leikskólanum, voru á leið með dagmömmum sínum, til að fara með mjólkurfernur í fernugám vegna endurvinnslu. Þau voru fljót að raða sér upp er mig bar að garði, þegar þau voru stödd framan við Apótekið.
Fimmtudagur 2. desember 2004 -- Ein gömul: Tveir þekktir tónlistamenn í sögu Siglufjarðar:
Sigurður Demens Fransson og Geirharður Schmidt Valtýsson.
Myndin er tekin: 12. apríl 1964
Fimmtudagur 2. desember 2004 -- Á Slökkvistöðinni á Siglufirði rétt fyrir hádegið í dag, færði Lion klúbbur Siglufjarðar grunnskólakrökkum litabók um brunavarnir.
Í leiðinni notaði slökkviliðsstjórinn, Ámundi Gunnarsson tækifærið og fræddi börnin um þær hættur sem leynast hvarvetna- og hvernig bregðast skuli við þeim.
Fimmtudagur 2. desember 2004
Stofnfundur framfarafélags á Siglufirði, verður á Kaffi Torgi - Gluggabarnum föstudagskvöldið 3. des. kl. 20,00
Gott fólk hefur fengist til stjórnarsetu, Þegar búið verður að klappa það upp og ljúka félagsstofnun verður kynning á markmiðum félagsins.
Meðal gesta fundarins verður fulltrúi frá landssamtökunum „Landsbyggðin lifi” sem mun kynna starfsemi samtakanna. Siglfirðingar látið ekki ykkar eftir liggja og takið þátt í því að efla bæinn í framfarasókn.
Undirbúningsnefndi. Hermann Einarsson Sími 467-1559
Föstudagur 3. desember 2004 --
Ein gömul: Sigríður Júlíusdóttir - Árdís Þórðardóttir og Karólína Guðmundsdóttir
Frá afhendingu verðlauna á Skarðsmóti 16. maí 1964
Föstudagur 3. desember 2004 -- Kvenfélagið Von var með sinn árlega basar og happdrætti í dag klukkan15:30.
Er ég leit þangað inn rétt rúmlega eftir opnun var mikið gengið á birgðirnar, þó mikið hafi verið hlaðið á borðin og voru kvenfélagskonur að vonum ánægðar. Á boðstólum var það hefðbundna; útskorið laufabrauð, kleinur og fleira góðgæti. Happdrættisbók mun liggja frammi í Aðalbúðinni. Þá munu félagskonur halda fund miðvikudaginn 8. desember í Safnaðarheimilinu klukkan 20:00
Laugardagur 4. desember 2004 -- Ein gömul:
Sjávarborg með eigendurna á þaki. Talið frá vinstri: Magnús, Árni, Björn, Kjartan, Þórður, Björn, Guðbrandur, Árni og Kristján.
Myndin er tekin 20. maí 1964 (birt í Morgunblaðinu 24. júní, s.á.)
Föstudagur 3. desember 2004 - - Íslandsbanki. Starfsfólk Íslandsbanka á Siglufirði er greinilega komið í jólaskap- og buðu í dag upp á léttar uppákomur frá klukkan 14 -16 í dag. Þegar ég leit þar inn klukkan 15:40 þá hljómaði þar rómantísk músík frá hljómborði undir stjórn Sturlaugs Kristjánssonar og viðskiptavinir nutu þess, sumir í biðröð eftir afgreiðslu og aðrir afslappaðir yfir kaffibolla og kökum. Svo verður alla föstudaga fram að jólum.
Laugardagur 4. desember 2004 -- Allinn Sportbar, sem er í eigu hjónanna Ólafíu Ingibjargar Sigríðar Guðmundsdóttur sem allir þekkja sem "Lóu" - og manni hennar Haraldar Björnssonar, á eins árs rekstrarafmæli nú í desember.
Ég skrapp með myndavélina til þeirra í gærkveldi og tók mynd af þeim hjónakornunum og óskaði þeim til hamingju. þau voru mjög ánægð með afkomuna þetta fyrsta ár þeirra í eigin rekstri.
Laugardagur 4. desember 2004 - Rauðvínsklúbbur Siglufjarðar eru þær kallaðar þessar broshýru meyjar, en þær koma saman reglulega í Allanum og njóta félagsskapar hvor annarrar. Þær voru kátar að venju er ég tók af þeim mynd í gærkveldi. Auðvitað þekki ég þær allar, en ég á það til að gleyma nöfnum (er að verða sljór !) og nenni ekki að grufla upp nöfn tveggja þeirra, svo ég sleppi hinum einnig- í bili. (Guðlaug, - ég vona að þú sendir mér nöfnin)
Laugardagur 4. desember 2004 -- Stofnfundur Framfarafélags Siglufjarðar (nafn þess er ekki endanlega ákveðið) var stofnað í gærkveldi á Kaffi Torg.
Í fyrstu stjórn félagsins voru kosin: Hermann Einarsson formaður, Hannes Baldvinsson gjaldkeri, Aðalsteinn Arnarsson ritari, Guðlaug Guðmundsdóttir meðstjórnandi, Kristinn Georgsson meðstjórnandi, Mariska van der Meer varamaður, Margrét Ósk Harðardóttir varamaður og Guðný Róbertsdóttir varamaður.
Sigurður Hlöðversson endurskoðandi, Signý Jóhannesdóttir endurskoðandi og Sigurður Fanndal endurskoðandi (v.m).
Margir tóku til máls á fundinum, meðal annars gestur fundarins Ragnar Stefánsson, sem hélt fróðlegt erindi um samsvarandi félagasamtök í Eyjafirði, sem hann meðal annarra er aðili að. ---
Ég tók nokkrar myndir á fundinum sem þú sérð ef smellt er HÉR
Laugardagur 4. desember 2004 --
Ein gömul: Ólafur Baldvinsson, Baldvin Júlíusson og Kristján Bjarnason.
Myndin er tekin 1964
Mánudagur 6. desember 2004 -- Ein gömul: Þessi mynd var tekin 21. júní 1964, svo yngra fólk man ekki eftir þessu útliti á "Tónskólanum" okkar, sem þá var í eigu Norðmanna, og hét "Norsk Fiskerheim" Þarna eru dátar af Norska varðskipinu Draug F 313 sem strandaði á Hellunni við Siglufjörð daginn áður.
Mánudagur 6. desember 2004 -- Aðsent: Okkur langar að þakka Eimskipafélaginu fyrir góða gjöf, en flutningadeildin undir forustu Gottskálks H. Kristjánssonar sem gaf Björgunarsveitinni Strákar, 40 feta þurrgám og fluttu hann frítt norður. Gámurinn verður notaður til að geyma kappróðrabátana og það sem þeim tilheyrir. -- fh. Stráka kv: Ómar G.
Þriðjudagur 7. desember 2004
Ein gömul: Ungir skíðamenn á skíðanámskeiði á Siglufirði 21. júní 1964
(nöfn þeirra eru mér ókunn)
Þriðjudagur 7. desember 2004
Lionsklúbbur Siglufjarðar hefur ákveðið að bjóða þeim sem ekki eiga gott með að sinna krossum á leiði ættmenna sinna í Kirkjugörðum Siglufjarðar, heildarpakka sem felst í því; að klúbburinn tekur krossinn að sér fyrir ákveðið gjald.
Þ.e. að klúbburinn geymir krossinn, lætur yfirfara hann áður en hann er settur upp, tengir hann og tekur niður og kemur í geymslu til næstu nota.
Þeir sem sýna þessu áhuga geta talað við Hörð í síma 867-7497867-7497, eða Júlíus í síma 845-4689845-4689.
Miðvikudagur 8. desember 2004
Ein gömul:
Þórarinn Dúason og Pétur Þorsteinsson hafnarverðir
Myndin er sennilega tekin um 1964-1965
Ljósmynd: Einar Hermannsson
Miðvikudagur 8. desember 2004
Hvað ætli að það sé, sem vantar á þessa mynd? - Það eru götuljósin. Rafmagnið fór af bænum í dag er unnið var við að grafa vegna annarra "ljósastaura" uppi í Skarðdal, grafan hjó í sundur einn háspennustrenginn sem liggur til bæjarins frá Skeiðsfossvirkjun. Óvenju langur tími leið, miðað við rafmagnsrof fyrri tíma, að rafmagn kæmist á aftur sem var þegar díselstöð rafveitunnar var ræst. Reynt var að spara rafmagnið, meðal annars með því að slökkva á öllum götuljósum í bænum, en það dugði ekki þar sem jólaljósaglingrið logaði áfram hjá húseigendum- og þurfti því að skammta raforkuna til einstakra bæjarhluta um há anna tímann fyrir kvöldmatinn, þar sem díselrafstöðin annaði ekki þörfinni. Þessi mynd er tekin klukkan 17:30 er myrkur var skollið á, engin götuljós, (með örfáum undantekningum), aðeins jólaglingur og ljós í húsum. Viðgerð mun hafa lokið seint í nótt.
Miðvikudagur 8. desember 2004 Stöð 2 datt út í gærkveldi, fyrst myndaðist órói á skjánum sem endaði með því að "myndlykillinn" datt út, það er myndin sást rugluð. Ekki er vitað fyrir víst hvort þetta er af orsökum rafmagnstruflana frá í gær, en það mun hafa vantað varahluti til viðgerðar, en þeir eru að sögn væntanlegir í dag. Fyrir þá sem horfa á Stöð 2 var þetta slæmt þar sem á þriðjudaga er einn besta dagskráin fyrir spennumynda "fíkla" eins og mig, en þó þykir mér sárast áhugaleysi og lítilsvirðing þeirra 2stöðvarmanna fyrir sunnan, að láta ekki áhorfendur á Siglufirði vita um ástandið, með því að láta texta renna yfir skjáinn um stöðuna, það er viðgerðarhorfur (á meðan hægt var að horfa, fram til 20:50) Það gera þessir herrar með tilliti til stór Reykjavíkursvæðisins þegar sendir dettur út þar. Og ekkert er getið um neinar bilanir á vef þeirra, hvorki í gærkveldi né í morgun er ég leitaði.
Miðvikudagur 8. desember 2004 Fréttatilkynning: Tunnan dagskrár og auglýsingablaðið sem kemur vanalega út á miðjum miðvikudegi, seinkar að þessu sinn vegna bilunar í prentvél. Varahlutir eru á leiðinni. Siglfirðingar og Fljótamenn eru beðnir velvirðingar á þessari töf. --- Í leiðinni: Kubbadagatölin eru komin, þau fást bæði með og eða án spjalds og ljósmyndar.
Ólafur Jóhannsson við kryddblöndun á Söltunarstöð Skafta Stefánssonar, Nöf. - Sonur hans Björn, var einnig að vinna hjá Skafta þennan dag, 23. júlí 1964
(sá þriðji er mér ókunnur)
Fimmtudagur 9. desember 2004
Að gefnu tilefni. Í fyrra dag, fyrrakvöld og í gær fékk ég á annan tug töluskeyta, sem öll áttu það sameiginlegt að fjallað var um óhöpp þriðjudagsins, það er rafmagnsbilun og bilun á sendi Stöðvar 2.
Ég var spurður um orsakir og hvenær vænta mætti að viðgerðum verði lokið og svo framvegis.
Að þessu gefn utilefni, þá vil ég beina til, það er bjóða þeim aðilum sem sjá um viðgerðir vegna óhappa sem ofar nefndum og öðrum sem varða almenning, pláss hér á vefnum svo þeir geti komið upplýsingum á framfæri.
Það væri ekki aðeins góð þjónusta við almenning, ef upplýsingum um gang mála væri komið til mín á Lífið á Sigló, hringið í mig drengir og stúlkur og ég mun setja viðkomandi á síðuna samstundis og þangað gæti fólk leitað, frekar en að eyða dýrmætum tíma ykkar viðgerða og þjónustumanna í að svara óþörfum og tefjandi símtölum. Með vinsemd. SK
Fimmtudagur 9. desember 2004
Kominn heim frá Kabúl. Friðrik Már Jónsson, sem verið hefur með friðargæsluliði Sameinuðu þjóðanna í Kabúl í Afganistan kom á heimaslóðir í gærkveldi til að sækja móðir sína sem býr ein á Sigló, en ætlar að dvelja fyrir "sunnan" hjá börnum og barnabörnum um jóladagana. Ég leit við hjá Frigga og rabbaði við hann smá stund um veru hans þarna á meðal múslimanna, sem hann fullyrðir að séu allt ágætis fólk, það sé varla 5 % þjóðarinnar sem sé andvígt veru þeirra þarna og örfáir sem sýna andúð eða hafa sig í frammi með yfirgang. Aðspurður um fjölmiðlafárið og þingumræður, sagðist hann hafa lítið um það að segja, nema að teppakaupin margumtöluðu hafi jú verið slæm mistök yfirmanns, hins vegar virtust þeir sem hæst hafa látið í sér heyra hér heima, ekki þekkja hinn raunverulega bakgrunn né staðreyndir málsins. Á myndinni hér er Friðrik Már, dóttir hans Margrét Marsibil og móðir hans Guðbjörg Friðriksdóttir, en þau fóru suður nú um hádegisbilið í dag.
Föstudagur 10. desember 2004
Verslunin SR-Byggingavörur er 1 árs í dag. Öllum er boðið upp á kaffi og meðlæti- með fleiru.
Föstudagur 10. desember 2004 -- Ein gömul:
Þjálfaranámskeið júlí 1964:
Aftari röð: Magnús Gunnlaugsson, Bogi Nílsson og Ásgeir Gunnarsson.
Fremri röð: Björn Sigurbjörnsson,Einar Hjartarson og Tómas Hallgrímsson
SR-Byggingavörur.-
Þangað fór ég í morgun í tvöfalt morgunkaffi með tertum og fíneríi, í tilefni af afmæli verslunarinnar og Óskars Berg Elefsen verkstjóra hjá SR-Vélaverkstæði. Á myndinni eru Guðmundi Ó Einarsson verslunarstjóri, Helga Óladóttir lagerstjóri og Hermann Einarsson innkaupastjóri. Ég smellti á nokkrum myndum í kaffistofunni, sem þú sérð ef þú smellir HÉR
Föstudagur 10. desember 2004
Íslandsbanki og börnin. Krakkar frá Leikskálum heimsóttu Íslandsbanka í morgun, þar komust þau í kynni við jólasveininn, fullt af namm og söng.
Laugardagur 11. desember 2004
Ein gömul:
Matthías Jóhannsson og Björn Friðbjarnarson
Ljósmynd: Einar Hermannsson
Laugardagur 11. desember 2004
Fréttablaðið. Þó að Fréttablaðinu sé dreift ókeypis og allir geti lesið sem vilja, þá er ekki víst að allir hafi tekið eftir og lesið meðfylgjandi frétt úr fylgiriti Fréttablaðsins "ALT" þann 9. desember.
Þess vegna birti ég hana hér og vona að Fréttablaðið skammi mig ekki fyrir það.
Að auki er hér önnur mynd sem sýnir hús Fréttablaðsins með skreytingu frá SR-Vélaverkstæði.
Laugardagur 11. desember 2004
"Loðnufréttir"
Úr blaðinu Fiskifréttir sem út kom í gær: "Ekki náðist viðunnandi mæling á loðnu í haustleiðangri. --
Höfum ekkert til að byggja tillögur á, --- en ég sé heldur engar forsendur fyrir því að 2002 árgangurinn hafi misfarist", segir Hjálmar Vilhjálmsson fiskifræðingur.
Engra tillaga um veiðimagn er að vænta fyrr en í janúar n.k.
Laugardagur 11. desember 2004 70 ára gömul auglýsing um jólasamkomur á Siglufirði. -- Úr safni Þórs Jóhannssonar.
Laugardagur 11. desember 2004
Aðsent: Lionsmenn hafa tekið að sér að tengja og sinna krossum á leiðum í Kirkjugörðum Siglufjarðar hér eru þeir að tengja krossana í gamla kirkjugarðinum í gærkveldi. J.H.
Laugardagur 11. desember 2004
Oddur Guðmundur Jóhannsson hélt upp á afmæli sitt í dag á Sambýlinu við Lindargötu, en Oddur verður 50 ára 15. desember næstkomandi. Það var fjölmennt í heimsókn hjá honum, ég heimsótti þangað minn gamla vin og staldraði þar stutt við yfir kaffisopa og góðgæti. Það var stöðugur straumur fólks gamlir vinir og kunningjar. Ég tók nokkrar myndir áður en ég yfirgaf staðinn.
Laugardagur 11. desember 2004 Tennis og badmintonfélag Siglufjarðar hélt upp á 40 ára afmæli sitt í íþróttahúsinu í dag. Í leiðinni heiðruðu félagar þess formanninn Jóhannes Egilsson sem hefur verið formaður frá stofnun félagsins öll 40 árin, ávallt endurkjörinn einróma.
Einnig var María Jóhannsdóttir heiðruð fyrr langt og dyggilegt starf í þágu yngri kynslóðarinnar, þjálfun- og aðra starfsemi fyrir félagið. Þá var einnig dyggum stuðningsaðilum þakkaður stuðningur á undanförnum árum og fulltrúum tveggja fyrirtækja, sem mættir voru, afhentur þakklætisvottur.