Sunnudagur 12. desember 2004 -- Allinn Sportbar var með jólahlaðborð í Allanum í gærkveldi, en Starfsmannafélag SR bauð mérog konu minni þangað í mat, sem ég naut þar með fyrrverandi vinnufélögum og vinum.
Auðvitað tók ég myndavélina með mér og tók nokkrar myndir af SR-ingunum sem þarna voru í meirihluta ásamt mökum, sem og fleiri gestum. Maturinn var alveg sérstaklega góður- og er greinilegt að þeir kunna til verka í eldhúsinu, hefði ég ekki vitað betur hefði ég haldið að kona mín hefði hjálpað til svo góður var maturinn, en hún ætlaði einnig að fara út að borða en hætti við á síðustu stundu.
Ég þakka innilega fyrir mig. --
Smelltu HÉRog skoðaðu nokkrar myndir sem ég tók af handahófi.
Sunnudagur 12. desember 2004 -- Ein gömul:
Kristján Ásgrímsson og Steingrímur Matthíasson - Ljósmynd: Einar Hermannsson
Mánudagur 13. desember 2004 Hvernig útlendingur sér Siglufjörð: Ég rakst á þessa erlendu myndasíðu, þar sem er að finna 11 ljósmyndir teknar á Siglufirði:
Þessi vefur hefur verið aflagður
Mánudagur 13. desember 2004 - Ein gömul:
Jósef Flóventsson og Hafliði Guðmundsson. Ljósmynd: Einar Hermannsson
Mánudagur 13. desember 2004
Félag eldri borgarar á Siglufirði og í Fljótum hélt seinnipartinn í gær hinn árlega jólafund sinn að Skálarhlíð. Þar fór fram hin hefðbundna athöfn, með almennum fundarstörfum hugvekju prestsins, söng Vorboðakórsins og Skálahlíðakórsins (?) og Himnabandið (?) lék undir
Ég mætti EKKI á þennan fund, en kona mín Guðný Ósk Friðriksdóttir gerði það og tók nokkrar myndir sem þú sérð með því að smella HÉR
Mánudagur 13. desember 2004 Það hvessti all hressilega um klukkan 15:00 í dag og um klukkan 15:30 í einni hviðunni brotnaði jólatréð á Torginu.
Sjálfvirkur vindmælir við flugvöllinn sýndi 28 m/s vindhraða um svipað leiti. Myndirnar tvær hér fyrir neðan
Þriðjudagur 14. desember 2004 -- Ein gömul: Ólafur Þór Haraldsson og Hafsteinn Hólm í kaffistofu SR-Niro þann 4. september 1964
Miðvikudagur 15. desember 2004 Ein gömul: Þórður Georg Andersen og Jón Júlíusson. (Jón sterki) Myndin er tekin 26. júlí 1963
Miðvikudagur 15. desember 2004
Hellan er komin út - full af jólaefni
Miðvikudagur 15. desember 2004 Það er gott ef þeir opna augun: Í Morgunblaðinu þann 15. síðastliðinn og einnig í útvarpi er talað um ógnarástand af völdum hættulegrar sýru til Primex á Siglufirði, sem vikulega flutt er til Siglufjarðar í miklu magni landleiðina eftir að “óskabarn þjóðarinnar” gaf upp öndina og hætti að flytja vörur sjóleiðina út á landsbyggðina. Áfram hér neðar
Vissulega er þarna um mjög hættulegt efni að ræða sem þarfnast sérstakrar varúðar við flutning og aðra meðhöndlun, hvort heldur er á sjó eða landi.
En þetta er ekkert nýtt fyrirbæri, sýruflutningar, saltsýra, brennisteinssýra, maurasýra og fleiri hættuleg og ætandi efni hafa verið flutt landleiðina, allt frá árinu 1960 sem ég get staðfest þar sem ég umgekkst þessi efni, það er unnið hjá fyrirtækinu sem meðal annars hafa notað þau í áratugi, það er Síldarverksmiðjur Ríkisins, síðar SR Mjöl og Síldarvinnslan. Og aðrar bræðsluverksmiðjur víða um land nota þessi sömu efni og hafa gert, án þess að Öryggiseftirlit og eða blaðamenn hafi áttað sig á því (?) fyrr en allt í einu núna að gera þyrfti ráðstafanir sem tekið væri eftir.
Ég er ekki efnafræðingur, en ég get að minnsta kosti fullyrt að ef einhver áætlum um slys af völdum bílveltu og eða annars óhapps, þar sem þessi efni væru innanborðs, þá þyrftu engin veruleg umhverfisslys að eiga sér stað af slíkum óhöppum, því öll þessi efni eiga það sameiginlegt að hægt er að eyða áhrifum þeirra.
Það á sér til dæmis stað við notkun þeirra hjá Primex og bræðslunum, efnin renna að lokum til sjávar sem meinlaust vatn eða sápulögur. Bílstjórarnir hafa alla þá þekkingu sem þeir þurfa hvað efnin snertir, sem og þeir sem taka á móti, svo og auðvitað þeir sem meðhöndla viðkomandi eiturefni.
Það þarf að auðkenna bílana blikkandi ljósum og ef til vill takmarka hámarkshraða þeirra sem flytja efnin, svo vegfarendur viti af nálægð þeirra, en margir hverjir keyra um vegi landsins sem einir væru í heiminum.
Og ekki sakar að hvetja viðkomandi stjórnsýslu að opna augun og gera eitthvað í forvarnarstörfunum og veita meira fé til slökkviliðanna til þjálfunar vegna slíkrar hættu, en þeim er ætlað að taka á slíkum málum, jafnvel án þess að fá einhverjar leiðbeiningar að ráði, til að fara eftir.
Spurningin er: Ætla stjórnvöld að gera eitthvað í málinu, eða ætla þeir að loka fyrir þessa flutninga og þar með atvinnurekstrinum, eða ætla þeir sækja peningana sem þessi fyrirtæki afla í þjóðarbúið í Smáralind eða Kringluna? S.K.
Miðvikudagur 15. desember 2004 Fréttatilkynning: Sjóður72 hefur til sölu jólakorta. Sjóður72 var stofnaður á síðasta árið að frumkvæði Jóns Finns Jóhannessonar en honum auðnaðist ekki að ljúka því verki áður en hann lést. Samstúdentar hans úr Menntaskólanum á Akureyri vorið 1972 vildu minnast hans með því að ljúka því sem hann hafði byrjað á og gengu frá stofnun sjóðsins.
Jón Finnur vissi af fylgdist vel með meðbræðrum sínum og vissi um skólasystkini þá sem áttu um sárt að binda og fannst að útskriftarhópurinn ætti að rétta þeim hjálparhönd.
Á síðasta ári stóð sjóðsstjórnin fyrir jólakortasölu og gat með afrakstrinum veitt styrki úr sjóðnum. Fyrir þessi jól hafa einnig verið gefin út jólakort og viljum við bjóða Siglfirðingum þau til kaups. Á Siglufirði eru kortin til sölu hjá Magnúsi Eiríkssyni á umboðsskrifstofu VÍS. Í Reykjavík má nálgast kortin hjá Guðmundi J. Albertssyni Grettisgötu 34 s.551-5186 og 660-5141-
Myndir á kortunum eru af sólsetri séð frá Lambanesi í Fljótum, Sólfarinu eftir Jón Gunnar Árnason og Þingvallabænum. Kortin kosta kr. 150- G.J.E.
Fimmtudagur 16. desember 2004 -- Ein gömul: Þessi mynd er ekki tæknilega fullkomin, sennilega tekin á gamla instamat myndavél, en þó einstök ljósmynd sem segir langa og merka sögu af þessum tveim heiðursborgurum Siglufjarðar, Gústa guðsmanni og Bigga Run, nöfnin sem allir þekkja, það er Ágúst Gíslason og Birgir Runólfsson. -- Ljósmynd: Einar Hermannsson.
Föstudagur 17. desember 2004 - Uppákoma í Íslandsbanka. Í dag mætti hópur eldri borgar í kaffi og mikils og girnilegs meðlætis í boði Íslandsbanka, en nutu áður ljúfra tóna frá Ó.B. kvartettnum sem söng nokkur lög fyrir hópinn. Og síðan kom Vorboðakórinn (aldraðir borgarar) og söng nokkur lög.
Ég mætti að sjálfsögðu og smellti á myndum, sem þú sérð ef þú smellirHÉR
Föstudagur 17. desember 2004 -- Ein gömul: Kristján Hauksson - Kristján Möller - Guðmundur Albertsson og Már Jóhannsson.
Myndin er tekin á 1600 ASA filmu, í Æskulýðsheimilinu við Vetrarbraut þann 1. nóvember 1964
Laugardagur 18. desember 2004
„Loksins, loksins er kominn nægur snjór,“ sögðu skíðaálfarnir, þegar skíðasvæðið í Skarðdal var opnað. En svæðið var opnað í dag.
Ég ætlaði að fara á vettvang til að taka ljósmynd, en um það leiti kom yfir smá él svo ég hætti við. Það verður að bíða betri tíma
Laugardagur 18. desember 2004
Ein gömul:
Ekki þekki ég stelpurnar, en drengurinn er Jón Baldvin Hannesson sem nú er skólastjóri í Giljaskóla á Akureyri
Myndin er tekin í Bókasafni Siglufjarðar 16. nóvember 1964
Viðbót frá Gunnari Trausta árið 2016: Guðbjörg Aðalbjörnsdóttir og Stefanía Skarphéðinsdóttir. Kæmi mér ekki á óvart að niðurlúti drengurinn væri Gummi Ragnars. Hárprúður löngu á undan sinni samtíð meðan að Jón Baldvin Hannesson er með reglugerðarklippinguna enda bjó hann skammt frá Jónasi sem var rakari