Mánudagur 11. júlí 2005
Ein gömul:
Sú eina sem ég þekki á þessari ljósmynd er Jóna Stefánsdóttir lengst til hægri á myndinni (móðir Örlygs Kristfinns)
Myndin er tekin á Henriksen plani seint á sjötta áratugnum af Kristfinni Guðjónssyni
Mánudagur 11. júlí 2005
Þjóðlagahátíðinni lauk í gær, en fyrir hádegið var flutt verkið Leyndir sálmar í Gránu.
Flytjendur voru: Eva Zöllener og Kristján Orri Sigurleifsson. Og í kirkjunni eftir hádegið kom fram Sinfóníuhljómsveit unga fólksins.
Óhætt er að segja að þetta hafi verið einstök upplifun fyrir þá sem komu til að láta í sér heyra og þeirra sem komu til að njóta þeirra gersema sem þarna voru á boðstólnum, það mátti alltaf finna eitthvað við hæfi hvers einstaklings
Stór myndasyrpa, um 270 ljósmyndir má sjá Hérna
Skðun og álit, má finna neðs á þessari síðu
Þriðjudagur 12. júlí 2005
Ein gömul:
Bjarni Bjarnason (Boddi) og Finnur Jónsson
Þriðjudagur 12. júlí 2005 -- Það Óhapp varð í fjöruborði Innri hafnarinnar þegar verið var að koma fyrir olíuvagni í flutningapramma, að fjörusandur lét undan annarsvegar með þeim afleiðingum að vagninn fór á hliðina. Nokkuð magn af dísilolíu rann úr tanknum í fjöruna og síðan í sjóinn, en vegna snarræðis verktakans sem sótti nálæga gröfu, tókst honum að koma í veg fyrir að tankurinn tæmdist. Allt til þess ætlað lið var hvatt út, það er starfsmenn slökkviliðsins hafnarvörður, lögregla ofl. sem hafa þann starfa að koma veg fyrir að olía dreifist við slík óhöpp. Björgunarsveitarmenn frá Strákum, sögðu þó að þetta væri varla svo mikið magn sem í sjóinn hefði farið að tæki því að reyna að ná einhverju af olíunni upp, en þetta væri ágæt æfing sem gæfi mönnum vísbendingu um hvað betur mætti fara. Olían átti að fara með prammanum til Héðinsfjarðar sem eldsneyti á vinnuvélar þær sem þar eru til að hefja vinnu við að undirbúning Héðinsfjarðarganga. -- Vinstri myndin sýnir aðstæður í fjörunni eftir að vagninn var réttur við, en hin sýnir er slökkviliðsmenn eru að koma búnaði út úr Slökkvistöðinni. sem leiðir svo huga að því hvort sá staður sé sá rétti fyrir þennan búnað ? --- "Strákar" hafa ákveðna skoðun á því.
Miðvikudagur 13. júlí 2005
Ein gömul: Ég þekki á þessari mynd nokkur andlit, en man þó ekki öll nöfnin, né þekki liðið ! Aftari röð: 2. Þorkell Benonýsson, 4. Jóhann G Möller, 6. Björn Magnússon, 7. Guðmundur Guðmundsson, 8. Hilmar Þorkelsson, Fleiri þekki ég ekki (sk)
Ókunnur ljósmyndari
Miðvikudagur 13. júlí 2005 -- Línunnar vitjað. Í gær um klukkan 14:45 var þessi bátur Ásdís Ólöf SI 23 2069 að draga línu sem hann lagði í fyrrakvöld. Ekki veit ég um aflann, en þær 10 mínútur sem ég fylgdist með honum frá svölunum mínum heima, var nánast fiskur á krók. Sennilega var þarna um ýsu að ræða, en greinilegt var þó að einn og einn steinbítur kom á krókinn.
Miðvikudagur 13. júlí 2005 -- Enginn friður er fyrir þessum ljósmyndurum, þeir skjóta á allt sem fyrir augun ber, jafnt á áhugasama húseigendur sem vinna við að dytta að húsi sínu, eða annað sem þeim dettur í hug - Þarna var unnið á fullu í gær við að einangra norðurhliðina á Hvanneyrarbraut 66b.
Myndin er tekin frá svölunum heima; Hv.br. 80. SK
Miðvikudagur 13. júlí 2005
Götulíf á Siglufirði, í morgun -
Aðalgatan
Miðvikudagur 13. júlí 2005 Aðsent:
Ágæti viðtakandi. Fyrir hönd Lionsklúbba á Ströndum og Norðurlandi vestra sendi ég fréttatilkynningu um alþjóðlegar unglingabúðir Lions á Íslandi 2005 sem haldnar verða á Hólum í Hjaltadal næstu vikur. Með tilkynningunni sendi ég einnig mynd frá Hólum í Hjaltadal frá Ásgrími Sigurbjörnssyni á Sauðárkróki. Með bestu kveðju, Eiríkur Loftsson félagi í Lionsklúbbi Sauðárkróks bein@simnet.is s. 453 6422 gsm 899 6422 --- Ath. Nefnda tilkynningu er að finna neðst á þessari síðu -- Ég vil geta þess að hún flýtur hér inn þar sem hún er tengt Siglfirðingum, Lion á Siglufirði, - Ásgrími og fleirum. -- (Lífið á Sigló)
En ég vil í leiðinni leiðrétta landlægan misskilning: Siglufjörður tilheyrir Norðurlandi eystra, sögulega og landfræðilega: Eyjafjarðarsýsla.
Miðvikudagur 13. júlí 2005 -- "Óvissuferð" -- Þetta er fleytan hans Örlygs Kristfinnssonar, sem loksins er kominn í langþráð frí. Varla er hann að fara í langt frí á þessum farskjóta sínum með hluta af fjölskyldu sinni, en Örlygur er mikill fugla og náttúru unnandi, og ætlar eflaust að miðla .þekkingu sinni á meðal þeirra yngstu um borð, en margt er að sjá hér innanfjarðar, mun meira en ókunna grunar.
Fimmtudagur 14. júlí 2005
Ein gömul: Ásgrímur Sigurðsson skipstjóri og Hafliði Helgason bankastjóri
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson
Fimmtudagur 14. júlí 2005
Íslenskar hænur.
Mér var send þessi mynd í gærkveldi, en hún var tekin á Lambanesi nú fyrir stuttu. Það er orðið langt síðan ég hefi barið slíka fugla augum, bæði á mynd og í raunveruleikanum.
Þetta minnir mig á unglingsárin þegar hænsnabú með 2-3 hænum og hönum upp í fjölmargar, var við annað hvort hús á eyrinni, meðal annars í næsta húsi, (fyrir ofan Mjóstræti 1 þar sem ég fæddist og ólst upp) hjá Sæunni og Jóhannes, og gott ef ekki einnig hjá Páli og Ingibjörgu Mjóstræti 2 - sem nú heitir Pálshús. --
Ljósmynd: Óskar Berg Elefsen.
Fimmtudagur 14. júlí 2005 Nú á dögunum voru hér á ferð þrír breskir fuglamerkinga menn sem eru að rannsaka atferli jaðrakana. ---
Ungar og fullorðnir fuglar eru merktir víða um lönd og ferðir þeirra skoðaðar og skráðar.
Lesendur fréttasíðu Steingríms muna eflaust eftir fuglinum sem náðist á mynd í apríllok hér í vor og hafði hann verið merktur á Englandi 1998 og sést síðan hér í firðinum árið 2000. Á myndinni hér til hliðar er Peter Potts með ófleygan jaðraka unga sem hann merkti þriðjudaginn 12. júlí 2005 á Siglufirði.
Örlygur Kristfinnsson
Fimmtudagur 14. júlí 2005 -- Kaupmannafélagið: Fyrirtæki mánaðarins, var að þessu sinni hið glæsilega gistihús Gistihúsið Hvanneyri sem Álfhildur Stefánsdóttir hefur rekið undanfarin ár. En gistihúsið, aðstaða og þægindi eru örugglega með því besta sem þekkist á gistiheimilum landsins. -- Sem dæmi; þá átti Franskur blaðamaður sem hér var fyrir nokkru í sumar, vart orð yfir ánægju sína eftir gistingu þar.. Á myndinni eru formaður Kaupmannafélagsins Freyr Sigurðsson og Álfhildur, við afhendingu viðurkenningarinnar.
Fimmtudagur 14. júlí 2005
Maður mánaðarins að mati Kaupmannafélags Siglufjarðar ver að þessu sinni Íris Gunnarsdóttir, meðal annars fyrir sína þrautseigju og elju, fyrir geisladisk sinn sem hún hefur nýlega gefið út, svo og fyrir félagsstörf.
Föstudagur 15. júlí 2005 Ein gömul: -- Sigurfari SH 125 og fleiri að landa við löndunarbryggju SR á Siglufirði, sennilega um 1964
Ljósmynd Guðlaugur Henriksen
Föstudagur 15. júlí 2005 -- Snjóbráð er ör þessa dagana og snjórinn í fjöllunum óðum að hverfa, þessa mynd tók ég í gær af austurfjöllunum, sem sýnir prófíl annarra "fjalla" sem snjóbráðið hefur myndað
Föstudagur 15. júlí 2005 -- Inngangur að búningsklefum og sturtuaðstöðunni á Hóli hefur verið lagfærður. Starfsmenn vinnuskólans voru í óða önn að leggja lokahönd á verkið í gær. Stóra tréð á myndinni var flutt fyrir nokkrum dögum í nýja trjábeði og á að veita KS lukku í næstu leikjum og hefur vakið stormandi lukku að sögn Arnar garðyrkjufræðings.
ES. Eftir fá ár verður lítið útsýni hjá þeim sem venjulega eru í horn herberginu yfir trjánum ?
Föstudagur 15. júlí 2005 -- Starfsmanna inngangur í neðra skólahús hefur verið lagfærður og búið er að girða utan um ruslatunnurnar. Grunnskólinn tekur þátt í grænfánaverkefninu og hluti af því er að flokka þann úrgangs sem frá þeim kemur. Gert er ráð fyrir að í ruslatunnu portinu verði sér tunnur fyrir lífrænan úrgang og pappír og svo þann úrgang sem ekki er hægt að flokka. Vinnuskólinn sá um verkið.
Föstudagur 15. júlí 2005 -- Starfsmenn Áhaldahúss Siglufjarðar hafa undanfarnar vikur verið að vinna undirvinnu undir fyrirhugaðan gervigrasvöll sem mun verða á Skólabalanum. Búið er að steypa niður staura og Helgi Magg pípari og co eru í óða önn að leggja hitalagnir, því að völlurinn verður hitaður upp. Fljótlega verður svo byrjað á að leggja hellur og kantsteina meðfram vellinum.
Föstudagur 15. júlí 2005 SKARÐSNEFND AÐ STÖRFUM.
Á fundi bæjarráðs þ. 23 mars s.l. var samþykkt eftirfarandi tillaga frá Ólafi Kárasyni: “Bæjarráð Siglufjarðar skipi 3ja manna nefnd til þess að yfirfara og gera tillögur til framtíðar um rekstur skíðasvæðisins í Skarðsdal og framkvæmdir.”
Síðar skipaði bæjarráð eftirtalda fjóra menn í nefndina: Kristján L Möller sem er formaður hennar, svo og Hjört Hjartarson, Hauk Ómarsson og Ólaf Jónsson.
Nefndin hefur haldið nokkra fundi og viðað að sér gögnum frá ýmsum aðilum innan bæjar og utan. Verið er að vinna fyrstu tillögur / áfangaskýrslu vegna nauðsynlegra framkvæmda sem nefndin telur að vinna þurfi í sumar til að tryggja rekstraröryggi svæðisins.
Á síðasta fundi var ákveðið að auglýsa starf nefndarinnar á " Lífinu á Sigló " og gefa bæjarbúum svo og öðrum áhugasömum skíðaiðkendum kost á að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri við nefndina, og er það hér með gert.
Áhugasamir aðilar geta sent formanni nefndarinnar tillögur sínar eða vangaveltur í tölvupósti á netfangið klm@althingi.is
Eins og áður sagði verður áfangaskýrslu skilað í næstu viku og því nauðsynlegt að bregðast hratt við vegna framkvæmda sumarsins, en framtíðarstefnan og tillögur um rekstur svæðisins mega koma síðar.
Sendendum er bent á að þeir geta óskað nafnleyndar á tillögum sínum ef þeir óska þess þ.e. þá verða þær ekki lagðar fram undir nafni viðkomandi, þó svo að formaður nefndarinnar viti nafn sendanda.
Með von um jákvæðar undirtektir -- Kristján L Möller formaður Skarðsnefndar.
Föstudagur 15. júlí 2005
Óvenjulega staðsetning lögreglunnar í fjörunni í Hvanneyrarkrók um klukkan 23:06 í gærkveldi er ég var að búa mig undir að fara að sofa, en þarna er lögreglan að hafa afskipti af veiðimönnum sýndist mér.(?)
Mér var sagt frá annarri óvenjulegri staðsetningu lögreglu í gær (óstaðfest) um að lögreglubifreiðin hafi verið að koma ofan úr Hvanneyrarskál.
Ekki reyndi ég í morgun að ná sambandi við lögreglu til að afla upplýsinga, þar sem ekki er ástæða til að ónáða Neyðarlínuna vegna forvitnilegra spurninga.
Föstudagur 15. júlí 2005 -- Miðað á rækju, sem verið var að taka úr frystigám í sekkjum til flutnings í verksmiðju Þormóðs Ramma Sæbergs í morgun
Föstudagur 15. júlí 2005 -- Þetta glæsilega skemmtiferðaskip sigldi fyrir fjörðinn í morgun klukkan 08:55 í morgun. Rétt sést í "Helluna" við Siglunesið
Laugardagur 16. júlí 2005
Ein gömul:
Jón Gunnlaugsson rafvirki og Níls Ísaksson skrifstofumaður
Laugardagur 16. júlí 2005 -- Einmanna fugl, sem var á lóðinni við Síldarminjasafnið og fylgdist með umferðinni, akandi og gangandi og virtist ekkert óttast.
Ef til vill var fuglinn eitthvað dasaður, um það veit ég ekki, frekar en ég sé viss um hvort þetta sé æðarfugl.
Laugardagur 16. júlí 2005 -- Fjör var í gær, þar sem Stúlli og Kaupmannafélagið buðu upp á lifandi tónlist á sviðinu á Torginu. Hann fékk reyndar óvænta aðstoð þar sem fyrst kom Hallvarður Óskarsson og tók nokkur lög með Stúlla, en Halli er hér á ættarmóti í heimsókn, og síðar tók Kristján Dúi Benediktsson nokkur lög með Stúlla.
Laugardagur 16. júlí 2005
Tónleikar í kvöld kl 22-01 á Hressó í Reykjavík, þar koma fram þeir Víðir (Venna Hafliða) og Gotti (Stjána Elíasar) --
Liðin eru 10 ár síðan þeir leiddu saman hesta sína og ætla þeir að spila lög sem þeir hafa samið í sameiningu og með öðrum í bland við þeirra uppáhaldslög.
Það má því heyra lög sem þekkt eru vegna flutnings, meðal annars PLUNGE, Daysleeper, Spektra, Dire Straits, Pearl Jam, Alice in chains, U2 ofl. ofl..
Laugardagur 16. júlí 2005
Vegna uppfærslu á ADSL kerfi Símans hafa verið nokkrar truflanir á ýmsum svæðum Internetsins, meðal annars bitnaði þetta á svæði því sem Lífið á Sigló er á, þannig að sambandsstreymi var nánast ekkert og stundum alls ekkert á tímabili í gær. --
Beðist er velvirðingar vegna þessa
Laugardagur 16. júlí 2005
Bjarni Sæmundsson kom klukkan 09:30 í morgun stoppaði i nokkrar mínútur og fór svo aftur út.
Laugardagur 16. júlí 2005
Kristinn Georgsson á morgunrúntinum í morgun
Lionshreyfingin heldur árlega unglingabúðir um allan heim í anda fyrsta markmiðs hreyfingarinnar “Að vekja og efla anda skilnings og trausts meðal þjóða.” Föstudaginn 8. júlí komu til landsins fjórtán unglingar frá 12 löndum í Evrópu og munu þeir dvelja hér á landi í þrjár vikur.
Á þessum tíma gefst þeim einstakt tækifæri til að kynnast jafnöldrum sínum frá öðrum þjóðlöndum, viðhorfum þeirra og menningu. Með dvöl í ókunnu landi gefst einnig ómetanlegt tækifæri til að kynnast þeirri þjóð sem sótt er heim.
Eftir komuna til landsins dvelja unglingarnir í viku hjá fjölskyldum á Akranesi og í Borgarnesi. Þá tekur við tólf daga dvöl í Íslensku unglingabúðunum sem í ár eru að Hólum í Hjaltadal. Dvöl þeirra hér á landi lýkur síðan í Reykjavík.
Lionsklúbbarnir á Ströndum og Norðurlandi vestra sjá að þessu sinni um unglingabúðirnar, og er nafn þeirra “North power”. Unglingarnir koma að Hólum föstudaginn 15. júlí og þá um kvöldið verður haldin opnunarhátíð. Næstu daga á eftir munu þeir síðan ferðast um svæðið eftir fjölbreyttri dagskrá sem klúbbarnir hafa sett saman hver á sínu starfssvæði. Meðal annars verður skoðuð náttúra og dýralíf og farið gönguferðir, siglingar, jeppaferð, og veiði auk þess sem byggðarlögin á svæðinu verða skoðuð, söfn og fyrirtæki heimsótt.
Á kvöldvökum kynna unglingarnir sig og sína heimalönd fyrir hópnum en einnig munu þeir m.a. hitta íslenska jafnaldra sína og heimsækja aldraða.
Í tengslum við unglingabúðirnar verður haldin fjölskylduhátíð Lionsklúbbanna á svæðinu, með leik, skemmtum og grillveislu laugardaginn 23. júlí.
Allar upplýsingar um unglingaskipti Lions er að finna á heimasíðu Lions ( http://www.lions.is ) og tengil fyrir heimasíðu unglingabúðanna er að finna á heimasíðu Lionsklúbbs Siglufjarðar ( http://frontpage.simnet.is/siglolions/ ).
Á Ströndum og Norðurlandi vestra eru starfandi níu Lionsklúbbar. Lkl. Hólmavíkur, Lkl. Bjarma á Hvammstanga, Lkl. Blönduóss, Lkl. Skagastrandar, Lkl. Skagafjarðar, Lkl. Björk á Sauðárkróki, Lkl. Sauðárkróks, Lkl. Höfða á Hofsósi og Lkl. Siglufjarðar.
Nú er Þjóðlagahátíðinni 2005 lokið að þessu sinni. Óhætt er að segja að þetta hafi verið einstök upplifun fyrir þá sem komu til að láta í sér heyra og þeirra sem komu til að njóta þeirra gersema sem þarna voru á boðstólnum, það mátti alltaf finna eitthvað við hæfi hvers einstaklings.
Af samtölum mínum við fólk sem ég hafði tal af, heyrði ég ekkert nema ánægjuraddir og ferð aðkomufólks hingað, meðal annars fólks víðsvegar utan úr heimi, hefur verið þess virði að heimsækja Siglufjörð sem endranær.
Það var gaman að fylgjast með því fólki sem greinilega bar þess merki að koma í Bátahúsið, Gránu og sjálft Síldarminjasafnið í fyrsta sinn.
Það var greinilega bæði undrandi og hrifið í senn. Einn af þeim sem ekki hafði komið hingað áður, er mikill tónlistar og þjóðlagaunnandi og kom fyrst og fremst til að njóta þess sem Þjóðlagahátíð bauð upp á, sagði við mig, að jafnvel þó af einhverjum orsökum hefði Þjóðlagahátíð verið frestað, þá hefði heimsókn í Síldarminjasafnið komið í veg fyrir að ferðin hefði verið til einskis.
Hann átti eitt orð yfir safnið: “STÓRKOSTLEGUR bónus í viðbót við Þjóðlagahátíð” sem hann hafði mikla ánægju af að horfa á, og hlusta á hina fjölbreyttu dagskrá.
Ég er enginn fræðimaður né gagnrýnandi, tel raunar að “gagnrýni” sé einfalt hugtak yfir þann sem lætur skoðun sína í ljós á einhverju sem fyrir augu og eyru ber, hvort heldur um er að ræða hljómlist, listaverk, söng og eða raunar hvað sem er.
Hvað svo sem einhver “gagnrýnandi” sem telur sig hámenntaðan og í sumum tilfellum yfir flesta aðra hafna hvað hlutlægt mat varðar. Eða bara “ómenntaður almúgi” eins og ég telja að sé gott eða listrænt.
Það sem fellur í eyra og eða fyrir augu einstaklingsins er og verður alltaf smekksatriði hvað sem öðru líður. Það sem einum þykir frábært, þykir ef til vill öðrum hörmulegt. Það er staðreynd.
Þessi formáli minn tileinkast af því að ég ætla að tjá mig um sumt af því sem fram fór á Þjóðlagahátíð.
Ég vil byrja á því að segja, að framkoma starfsliðs þjóðlagahátíðarinnar var til fyrirmyndar og óaðfinnanleg, sérstaklega þeirra Erlu og Guðný, sem er þó hvergi getið á heimasíðu Þjóðlagahátíðar, amk. ekki auðfundnar.
Af því sem sagt er hér frá fyrir ofan, þá fer ekki milli mála að fólk var almennt ánægt með Þjóðlagahátíðina og það sem hún skyldi eftir.
En hvað stendur upp úr ? Þar kemur að mati “sérfræðinganna” áður nefndu, (?) - og því hvað mér fannst sem sótti flesta atburðina, fyrst og fremst fyrir “Lífið á Sigló”
Ég er ekki mikill unnandi hinnar svokölluðu klassísku tónlistar (nokkrar eru þó undantekningarnar), ég hefi haft mikla ánægju af að hlusta á Hlöðver Sigurðsson syngja ákveðin lög og finnst hann frábær, en ég kann ekki að meta þá tegund flutnings sem hann flutti í kirkjunni, það er ekki honum að kenna, ég efast um að honum hafi nokkurs staðar flaskað í þeim flutningi, það get ég ekki metið þar sem ég tel mig ekki dómbæran á það.
Upphaf gleðinnar var vel flutt bæði músík og texti, enda frábærir listamenn þar að verki. –
Draugaganginum í Gránu sleppti ég, þar sem ég hafði veður af því að þar myndi "þoka" ráða ríkjum sem ekki er gott til myndatöku -
Málverkin hans Tolla; þar var aðeins eitt verk sem ég gat fellt mig við, sem ég raunar hefði ekki keypt þó ég hefði haft efni á því. –
Tónlist úr Tyrkjaveldi, góður flutningur sem ég naut að hlusta á
Leikur þeirra í Djasstríóinu féll í kramið, en ekki þó nóg til að staldra lengi við á Kaffi Torg um kvöldið þann 8. ---
Það eina sem ég hafði VIRKILEGA ánægju af að hlusta á og horfa, það var flutningur Þjóðlagasveitar Tónskólans á Akranesi. Sem fékk 10 í einkunn hvað minn smekk snertir, og svo voru Ólafsfirðingarnir South River Band þeir voru frábærir. –
En svona leit þetta úrfrá mínu sjónarhorni: Eitthvað fyrir alla.
Ég hlakka til næstu hátíðar – þökk fyrir.
En ég vil þó að lokum nefna nokkur atriði sem ég var ekki alveg sáttur við sem ljósmyndari.
Vegna hljóðupptöku, þá voru myndatökur takmarkaðar, það er af sumu leiti réttlætanlegt, þar sem smellur frá myndavélum getur truflað upptöku ef smellirnir heyrðust, en á augnablikum sem ég valdi til myndatöku var yfirgnæfandi hávaði frá hljómflutningi, svo ég trúi ekki að mínir smellir hafa náð að trufla, en hvað um það, mennirnir ráða.
Ein vinsamleg ábending til hljóðupptökumanna:
Þið voruð að taka upp á opnum tónleikum, þar sem fólk keypti sig inn til að njóta þeirra sviðsetninga sem auglýstar voru á dagskrá, en ekki til að láta fjölda þrífóta hindra útsýni bæði fyrir áhorfendum, ljósmyndurum og myndbandagerðarmönnum. Auk þess sem þessir þrífætur voru í stöðugri hættu og að minnsta kosti einn "slapp með skrekkinn" er einn þrífóturinn féll.
Það hefði verið mjög einfalt að undirbúa slíkar upptökur betur með því að hengja hljóðnemana á spotta sem strengdur hefði verið á milli veggja í kirkjunni og eða á milli staura í Bátahúsi, þar sem fæstir hefðu tekið eftir þeim. Þetta gerði sviðsmynd óraunhæfa í mörgum tilfellum.
Þessir viðburðir voru ekki eingöngu haldnir vegna hljóðupptöku.
g enn eitt: Til að koma í veg fyrir að ljósmyndarar noti leiftursljós, sem truflar suma, þá væri björt og góð sviðslýsing æskileg.
Því það hlýtur að vera í allra þágu að til séu bæði hljóðupptökur, ljósmyndir og sjónvarpsefni frá svona viðburði, því þetta allt saman, byggist ekki einungis á fortíðinni, heldur einnig framtíðinni.
Allt sem hindrar hina raunverulegu sýn á ljósmynd og eða myndbandi er ekki æskilegt, hvorki þrífætur, né leiftursljós vegna myndbandsupptöku.
Og vinsamleg ábending til þess sem því ræður:
Engin heimasíða kemur að fullu gagni nema að vera uppfærð miðað við þær aðstæður sem fyrir liggja hverju sinni.
Heimasíða Þjóðlagahátíðar var ekki uppfærð miðað við þær breytingar sem urðu á dagskrá, það var ekki samræmi á vefsíðunni miðað við prentaðar dagskrár – og alls ekki nægar upplýsingar um alla þá sem komu fram og eða komu að máli. Auk þess sem tenglar eru óvirkir.
Steingrímur Kristinsson
Vefsíða þjóðlagahátíðar: http://siglo.is/festival/2005/