Lífið 8-14 mars



8. mars 2004  

Ein gömul: 

Guðný Friðriksdóttir, Birna H Björnsdóttir, Halla Jóhannsdóttir, ??? og Gyða Valdimarsdóttir

 

Myndin er tekin á Hafarnar-árshátíð 1968 





8. mars 2004   

Gott að vera komin heim aftur, sagði Hermann Einarsson sem hóf störf hjá SR-Byggingavörur nú eftir mánaðamótin. 

Hermann hefur verið við störf á Suðurlandi að undanförnu. 




8. mars 2004   

 Í morgun voru afhent fulltrúa Skíðafélagsins  Skíðaborg, þrenn "Þjálfaraskíði" af tegundinni HEAD Það er SR-Byggingavörur sem færa þeim þessa höfðinglegu gjöf  í tilefni að því að deild innan verslunarinnar er farið að selja fjölbreytt úrval af skíðavörum.

Á myndinni eru Hermann Einarsson (SR), Egill Rögnvaldsson fulltrúi Skíðafélagsins, og Úlfur Guðmundsson (SR) 



8. mars 2004    

Alls hafa borist á land 4.168.668 kg. af loðnu til Siglufjarðar, Skipstjórinn á Guðmundi Ólaf sem búið var að melda í gær, hafði ekki þolinmæði til að bíða eftir löndun hérna og fór annað. 

En Hákon ÞH er væntanlegur með 11-1200 tonn.   

Skipið á myndinni: Bjarni Ólafsson AK 70 - á leið út í gær eftir löndun. 





8. mars 2004   

 Þetta eru kafararnir Guðmundur Ó Einarsson og Skúli Jónsson, þarna eru þeir að undirbúa sig við að kafa og mæla skemmdan skrúfuhring á Stálvík SI. 1

"Skíðmálið" sem þeir eru með og notuðu við mælinguna hefur að vísu ekki hlotið viðurkenningu löglegra yfirvalda um nákvæmni, en þarna er Guðmundur að athuga áreiðanleika þess, með því að mæla hæðina á Skúla. 

Hönnuður þessa nýsmíðaða mælitækis er Ámundi Gunnarsson og sagði hann brosandi: 

"Það má alltaf treysta verkum JE-Vélaverkstæðis". Það lá vel á þeim félögum að venju og létu þeir það óspart í ljós. 

 9. mars 2004  Ein gömul: Helga Haraldsdóttir, (Halla Árna) og Geirlaug Helgadóttir, (Helga Sveins) sem eru að salta, líklega á K.F.S. planinu, 1964-65 

10. mars 2004  Ein gömul: Guðmundur Arason, Halldór Guðmundsson og Sigurður Jónsson. Myndin er tekin á Englandi, 1967  

(Veitingastaðnum Wintergarden, Grímsby) 

 10. mars 2004   Létttónleikar Kvennakórs Siglufjarðar verða haldnir í Allanum sportbar laugardagskvöldið 13. mars kl. 21.30. Fram koma : Kvennakór Siglufjarðar, Sönghópurinn Dyfra, Kirkjukór Siglufjarðar . Stjórnandi og undirleikari : Renáta Iván. -

Dansleikur með Stúlla og Sævari verður eftir tónleika.

11. mars 2004 

Ég hefi oft verið spurður eftir því af hverju ekki sé teljari á síðum mínum sem sýni fjölda heimsókna á síðurnar. Lífið á Sigló

Til að skýra ástæðu fyrir því að enginn teljari er sýnilegur er sú að teljarinn sem ég hefi verið með (vistaður erlendis) hefur átt til nokkuð oft að "standa á sér og hægja á aðgengi síðunnar" þannig að langan tíma tók að hlaða inn forsíðunni þegar svo bar undir, þar sem Explorerinn var lengi að leita af teljaranum. 

Því tók ég hann út. En ég hefi sjálfur, samt mjög fjölbreytilegt yfirlit yfir heimsóknir og fleira og ef þú villt sjá lítið brot af þeim upplýsingum sem ég hefi aðgang að, þá smelltu á myndina, sem sýnir lítið brot febrúar upplýsinga. 

Þar sem segir: Visit per day (næst neðsta lína); 449 Avg. (meðaltal á dag í febrúar) og 584 Max (mest á dag í febrúar) þá er það fjöldi þeirra TÖLVA sem síðuna sækir.

Ath. Þessara tölur eiga við rauntíma,  það er árið 2004, áður en þessi uppfærsla síðunnar var gerð árin 2018-2023






11. mars 2004  

  Ein gömul: Jens Gíslason og Viðar Magnússon 

11. mars 2004  

Það var ýmislegt um að vera í vorblíðunni í morgun, Krakkar af Leikskólanum heimsóttu Örlyg og Síldarminjasafnið. Stefán Einarsson, þriggja manna maki, vann við að undirbúa að gera hólma í Langeyrartjörninni, en verkið var boðið út fyrir nokkru. 

Eldra fólkið á Dvalarheimilinu Skálahlíð fékk sér göngutúr niður í bæinn. Bæjarstarfsmenn voru að dytta að smábátahöfninni. 

Menn frá fyrirtækinu Bás voru að dýpka smábátahöfnina og starfsmenn skíðasvæðisins í Skarðsdal áttu erindi til Olís og fengu sér kaffi í leiðinni. 

Smelltu á tengilinn og skoðaðu. https://www.flickr.com/photos/136670970@N04/sets/72157658710362514

11. mars 2004     Þetta er  Garðyrkjufræðingurinn okkar; Arnar Heimir Jónsson. SR- Vélaverkstæði og Arnar Heimir Jónsson garðyrkjufræðingur hafa í sameiningu unnið að hönnun og smíði jarðgerðartromlu fyrir söfnun á lífrænum heimilisúrgangi.   -  Jakob Magnússon atvinnuráðgjafi hefur aðstoðað ofangreinda aðila við verkefnið, Siglufjarðarkaupstaður hefur einnig styrkt verkefnið með vinnuframlagi.-- Olís hefur að auki styrkt verkefnið myndarlega með fjárframlagi til smíði á nokkrum tromlum.-- Jarðgerðartromla er í raun eins og jarðgerðaílát, en það sem tromlan hefur umfram venjulegu jarðgerðarílátin er að hægt er að velta lífræna úrganginum auðveldlega til í tunnunni, þannig að niðurbrot verður mun hraðvirkara . -- Tvö hólf á tromlunni til að safna, þ.e.a.s. þegar annað hólfið er fullt, er hægt að safnað í hitt hólfið, en einnig haldið áfram að snúa eldri úrganginum þangað til hann er orðin að moltu og tilbúinn til notkunar í trjábeðin. Mjög gott er að nota olíutunnur í tromlurnar og auka þannig notagildi þeirra.  -- Í framtíðinni verður aukinn krafa sett á sveitarfélög að finna viðunandi farveg fyrir lífrænan úrgang, og nú er í bígerð hjá stjórnvöldum krafa um að öll sveitarfélög minnki urðun á lífrænum úrgangi í þrepum á næstu árum.  Fyrsta tromlan er staðsett á sambýlinu og verður prófuð þar á næstu mánuðum 

1. mars 2004  

Nú síðustu daga var haldið hér hundaþjálfara mót: 

Vetrarnámskeið 2004 LEITARHUNDAR, með bækistöðvar á Siglufirði. Mótsstjóri var Gestur Hansson. Þjálfaðir voru bæði menn og hundar. 

Svæðin sem æft var á voru bæði hér innanfjarðar og í nágrenni fjarðarins, Lágheiði og fleiri stöðum.  

Gekk þetta allt eins og í sögu og lauk með kveðjuhófi á Kaffi torg. HÉR  eru 25 myndir sem Ragnar Már Hansson og Gestur Hansson tóku

11. mars 2004  Þessar blómarósir, kennarar við grunnskólann voru þarna á Bensínstöðinni að fá sér næringu í dag, þær sögðu mér hvað þær hétu, en þar sem ég skrifaði ekki nöfnin hjá mér, þá er ég auðvitað búinn að gleyma þeim. Einhver þeirra sendir mér vonandi póst með nöfnunum og ég bæti þeim við.

12. febrúar 2004  Seinnipartinn í gær heimsóttu mig þessir tveir heiðursmenn á vegum Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrennis. Það var normaður félagsins, Ólafur Baldursson og gjaldkerinn Jónas Skúlason. Erindið var að ganga frá samkomulagi um styrk frá Siglfirðingafélaginu til síðunnar Lífið á Sigló og samstarfi við mig um gerð og umsjón, með heimasíðu fyrir Siglfirðingafélagið. 

12. mars 2003 Aðsend frétt úr vefritinu Bæjarins besta.www.bb.is  | 11.3.2004 16:07:00

Guðmundur Guðlaugsson næsti bæjarstjóri Vesturbyggðar?

Á fundi bæjarráðs Vesturbyggðar sem haldinn var í dag var samþykkt að ganga til samninga við Guðmund Guðlaugsson á Siglufirði um að hann taki að sér starf bæjarstjóra í Vesturbyggð. Brynjólfur Gíslason bæjarstjóri í Vesturbyggð staðfesti þetta í samtali við bb.is. 

Guðmundur var á Patreksfirði í dag og ræddi við bæjarfulltrúa. Hann gegndi starfi bæjarstjóra á Siglufirði frá því í október árið 1997 og þar til í febrúar á þessu ári. Áður starfaði Guðmundur sem framkvæmdastjóri Brúnáss á Egilstöðum. 

12. mars 2003  Sparisjóður Siglufjarðar og Siglfirðingafélagið hafa gert með sér samning þess efnis, að Sparisjóðurinn gerist aðal-styrktaraðili Siglfirðingafélagsins.   Ástæður þessa eru þær að Sparisjóðurinn vill auka tengsl við brottflutta Siglfirðinga -og Siglfirðingafélagið vill efla samskipti brottflutta og heimamanna. Samningar þess efnis voru undirritaðir í gærkveldi.  Á myndunum hér fyrir ofan, eru Sigurður Gunnarsson Skrifstofustjóri, Magnús Jónsson deildarstjóri, Ólafur Baldursson  og Jónas Skúlason. á vegum Siglfirðingafélagsins.

12. mars 2004    

Á síðasta ári var Menningarsjóður Sparisjóðs Siglufjarðar stofnaður með framlagi frá Sparisjóði Mýrasýslu.  Stjórn sjóðsins var skipuð fulltrúa sparisjóðsins, bæjarfélagsins og kirkjunnar (sóknarnefndar).  Stjórnina skipa Ólafur Jónsson, Guðrún Árnadóttir og Hermann Jónasson.  

Þetta er í fyrsta skipti sem að styrkir eru veittir úr sjóðnum og var stjórn sjóðsins nokkur vandi á höndum þar sem óskirnar voru fleiri en efni stóðu til.  Stjórnin hittist nokkrum sinnum til að ráða ráðum sínum.  

Full eining er innan stjórnarinnar um skiptingu styrkjanna.  Í gærkveldi var svo úthlutað úr sjóðnum og hófst athöfnin á Kaffi Torg klukkan 20:30  með ávarpi formanns nefndarinnar Ólafi Jónssyni sparisjóðsstjóra, kvennakór tók lagið og sýnt var lítið brot úr leikriti Ragnars Arnalds, Silfur hafsins. Þá fluttu einnig formaður stjórnar Sparisjóðsins Ólafur Marteinsson- og Runólfur Birgisson bæjarstjóri ávarp. Fleiri tóku til máls.

Listi yfir þá er styrk fengu,er hér fyrir neðan

Menningarsjóður 2004

Eftirtaldir aðilar fengu styrk frá 

Menningarsjóði Sparisjóðs Siglufjarðar þann 11. mars 2004.

 Sögufélagið
Var stofnað árið 1943, en hefur ekki starfað formlega síðan 1977.  Í nóvember sl. ákvað hópur einstaklinga að endurreisa félagið.  Félagið mun gefa út rit í sumar sem tileinkað yrði síldinni og stefnt er að árvissum ritum frá félaginu.
Styrkur kr. 75.000



Ein gömul: 

Baksvipur Steina Kristjáns, Valur Johansen og Hinrik Andrésson að dæla smurolíu um borð í togara.

 


13. mars 2004   Ath. Ég verð ekki á Siglufirði frá morgni fram á kvöld í dag - Skrapp til Akureyrar 

 13. mars 2004   Í dag kom í heimsókn á Síldarminjasafnið - Gránu, ungur hljómlistarmaður og tónskáld, Daníel Bjarnason, frá Reykjavík. Tilgangur hans með heimsókn sinni í Gránu var all óvenjulegur, en jafnframt áhugaverður. Hann hefur verið beðinn um fyrir hönd Þjóðlaganefndar á Siglufirði að semja tónverk fyrir hljómsveit, sem koma mun hér í sumar og flytja verkið í húsakynnum Gránu.

Það sem er sérstakt við heimsóknina í dag er að Daníel var að hlusta á húsið Gránu og innviði þess í orðsins fyllstu merkingu. Hann tók upp á segulband þau hljóð og takta sem hægt var að ná úr hinum ýmsu vélum og tólum sem safnið Grána hefur að geyma, hljóð sem notuð verður í verkið, sem og verður notað sem undurspil ("hljóðfæri") með hljómsveitinni sem flytja mun tónverkið. En hljómlistarmennirnir munu nota hefðbundin hljóðfæri við flutning á tónverkinu- og safnið Gránu, hljóð þau og takta sem ná má úr húsi og safngripum. - Erindið í dag var því að finna taktinn fyrir væntanlegt tónverk. 

Meðfylgjandi mynd af Daníel, tók Sveinn Þorsteinsson í dag, inni í Gránu

 (ég var ekki í bænum)

14. mars 2004  Þessi mynd var tekin í dag um klukkan 10 í morgun. Það er lítill snjór í fjöllum eins og sjá má. Sárin í fjallinu vegna framkvæmda við snjóflóðavarnargarðana sjást greinilega.  En þessi sár gróa og garðarnir eiga eftir að veita íbúum Siglufjarðar mikið öryggi og ánægju í framtíðinni.
Ekki síður en Stóri boli hefur nú  þegar sannað gildi sitt.