Sunnudagur 14. nóvember 2004
Ein gömul:
Í kaffistofu SR Tréverkstæðis. "Pálsmenn:" Helgi Sigurðsson Ásgeir Björnsson - Jón Sigurðsson og Hafsteinn Hólm.
Myndin er tekin 16. maí 1962
Sunnudagur 14. nóvember 2004 -- Afdrep til að dvelja í vegna heimsókna á Skíðasvæði Siglfirðinga, átti þetta hús að verða í upphafi er þau keyptu það. En það varð að sumardvalaparadís í augum hinna nýju eiganda, tveggja fjölskyldna og barna þeirra. Í raun má þó segja að það séu öll tímabil ársins sem komið hafi við sögu frá því þau keyptu húsið í maí síðastliðnum, því þau koma hingað eins oft og kostur er, bæði til að dytta að húsinu og til að njóta þeirrar friðsældar og vináttu sem þau finna fyrir hér.Það kom fljótlega í ljós að það var fleira en Skíðasvæðið sem dró að sér sem þau segja vera svo margt að vart sé hægt að nefna neitt einstakt, auk þess sem kom í ljós að þau áttu rætur að rekja til séra Bjarna. -- Eigendurnir að Hvanneyrarbraut 66 eru þau Hjónin Hannes Bjarnason og Ingibjörg Tómasdóttir, Pétur Bjarni Magnússon og Ragnhildur Erla Bjarnadóttir ásamt börnunum þeirra Magnús Mar Pétursson og Sigrún Erla Pétursdóttir - Bjarni Hannesson og Jón Gunnar Hannesson. --- En myndin sýnir fjölskyldurnar fyrir utan húsið sitt í gær, en Ingibjörg var fjarverandi og vantar því á myndina. ---
Ég heimsótti þau í gær og þáði hjá þeim kaffi og meðlæti. Þetta er mikið skíðaáhugafólk, en Hannes er formaður skíðadeildar Ármanns og Pétur ritari. Þau lögðu áherslu það m.a., að við Siglfirðingar yrðum að gera meira en hingað til, til að kynna þá fjölmörgu möguleika sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða, nota tildæmis hinn árvissa hóp ferðamanna sem kemur á Síldarævintýrið, með því dreifa til þeirra bæklingum og fleira. Myndin af húsinu hér fyri neðan, er auðvitað Hvanneyrarbraut 66.
Mánudagur 15. nóvember 2004 - Ein gömul:
Páll Jónsson - Þorsteinn Einarsson - Eggert Theódórsson - Sigurður Elefsen - Stefán Stefánsson - Halldór Bjarnason og Sigurður Sigurðsson og Hallur Garibaldason og fleiri, hlíða á erindi Vilhjálms Guðmundssonar í Æskulýðsheimilinu 29. desember árið 1963, um ansjósuveiðar og bræðslu í Peru.
Mánudagur 15. nóvember 2004
Happdrætti Badmintonfélags Íslands.
Þessar stúlkur voru að selja happdrættismiða HBÍ í gærkveldi- en þær heita Elísa og Heiða. Þær brostu fyrir mig á meðan kona mín Guðný Ósk fór til að finna peninga í pyngju sinni.
Mánudagur 15. nóvember 2004
Komnir í jólaskap. Það væri synd að segja að ekki hafi legið vel á félögunum hjá SR-Byggingavörur í dag eftir hádegið sem ég leit þar inn.
Hjá þeim er allt morandi í jólavörum, svo miklu að það hálfa væri nóg, eins og máltækið segir.
Fyrir utan lýsandi jólatré og fleiru sem fólk notar um jólin, þá taka þeir að sér að útbúa prófíla, allskonar mynstur úr hinum svokölluðu ljósaslöngum, eftir óskum viðskiptavina; jólatré, bjöllur ofl. og eftir hugmyndum viðskiptavinarins. Þá eru þeir einnig með búnað sem notaður er í kirkjugörðum, eins og til dæmis festingar fyrir krossa.
Sjón er sögu ríkari farið og lítið inn hjá drengjunum, það er ávalt kaffi á könnunni og stundum með því.
Á myndinni eru Hermann Einarsson og Guðmundur Ó Einarsson.
Mánudagur 15. nóvember 2004
Engin uppgerð veikindi áttu sér stað í Grunnskóla Siglufjarðar í dag, eins og heyrst hefur í fréttum af "veikinda" faraldri kennara í skólum á Reykjavíkursvæðinu.
Kennsla fór fram að venjubundnum hætti í Grunnskóla Siglufjarðar í morgun. Það er greinilegt að úti á landsbyggðinni vilja kennarar gefa börnunum gott fordæmi um að gera sér ekki upp veikindi, né brjóta lög.
Þriðjudagur 16. nóvember 2004
Ein "gömul" frá árgangsmóti, árgangs ´53 -
Tekið 14. júlí 1990 -- Ljósmynd V.S.(?) --
Þriðjudagur 16. nóvember 2004
Á hinum ólíklegustu stöðum má sjá að blessuð jólin nálgast. Þeir Örlygur Kristfinnsson og Sveinn Þorsteinsson hjá Síldarminjasafninu voru í óða önn í morgun að telja jólakort og stinga í umslög til að senda áskrifendum víða um land en 1250 kort eru seld með þeim hætti auk þess að seljast á heimamarkaði til einstaklinga og helstu fyrirtækja í bænum. Um 3000 kort seljast árlega og af sölunni er umtalsverður hagnaður fyrir safnið. -- Alls hafa 16 kortaafbrygði komið út þau 15 ár sem Félag áhugamanna um minjasafn hefur verið starfandi og eru á þeim vatnslitamyndir sem Örlygur safnstjóri hefur unnið fyrir útgáfuna. Myndirnar fylgja hér í réttri röð og geta þeir sem áhuga hafa á að kaupa kort og styrkja um leið safnið pantað áskrift í síma 863-1605 eða sent boð í tölvuskeyti á: sild@sild.is --
Þriðjudagur 16. nóvember 2004
Lionsklúbbur Siglufjarðar sem er fyrsti Lionsklúbburinn sem stofnaður er utan Reykjavíkur, er 50 ára í dag.
Afmælishátíð félaga verður þann 20 nóvember kl.20:00 Húsið opnar kl. 19:30
Miðvikudagur 17. nóvember 2004
Ein gömul: Tunnuverksmiðjubruninn 9. janúar 1964.
Jóhannes Egilsson Sigurður Elefsen og Egill Stefánsson að undirbúa reykgrímur, einhver forvitinn (?) í bak.
Miðvikudagur 17. nóvember 2004
Stórþvottur. Starfsmenn Síldarvinnslunnar á Siglufirði voru í gær og í morgun að þvo hitaelement úr þurrkaraofnum bræðslunnar. Þetta er mikið verk, fyrir utan það að ná elementunum úr ofnunum, en fyrst eru þeir fluttir niður að löndunarbryggju, þar er spúlað af þeim mestu óhreinindunum, sóti og ryki, þá er hverju elementi fyrir sig dýft í sjóinn nokkrum sinnum og síðan farið með þau upp í verksmiðju þar sem þeim er dýft í sérstök kör með sterkri sýruupplausn og síðan góða spúlun með heitu vatni, sem gerir þá endanlega hreina sem nýja. Þessi mynd var tekin í gær á Óskarsbryggju
Miðvikudagur 17. nóvember 2004 Um og yfir 30 m/s vindhraði var á tímabili í nótt, upp úr kl. 02:00 úr norðri og norðaustan, þetta á að vísu við snörpustu kviðurnar, samkvæmt sjálfvirkum mælingum vegagerðar og veðurstofu staðsettum norðan til við Siglufjarðarveg og í botni Siglufjarðar.
Sáralítil úrkoma fylgdi þessu, en í staðinn skafrenningur og sá litli snjór sem kom í fyrradag er nær allur fokinn burt, samber meðfylgjandi mynd sem tekin var klukkan 10:30 í morgun. Snjórinn hefur líklega fokið „suður á land“ því þar er víða talsverður snjór á þeirra mælikvarða.
Miðvikudagur 17. nóvember 2004
Talsverð skjálftavirkni hefur verið síðustu 48 klukkustundirnar í kring um Grímsey, samkvæmt upplýsingum frá vef Veðurstofunnar.
Skjálftahrina hefur staðið yfir austur af Grímsey í nótt og í morgun. Stærsti skjálftinn hingað til, samkvæmt sjálfvirkum skjálftamæli Veðurstofunnar, mældist um 3,0 á Richter um klukkan rúmlega átta í morgun.
Skjálftar eru algengir á þessu svæði, sem er um 18 km austur af eynni. --
Skjálftar stærri en 3 á Richter kvarða eru táknaðir með grænum stjörnum á kortinu, óháð því hvenær innan tímabilsins þeir urðu.
Miðvikudagur 17. nóvember 2004
Loðnuskipið Gullber VE 292 kom hingað í morgun vegna brælu, en skipverjar þess hafa verið ásamt 7 öðrum skipshöfnum á skipum sínum, við loðnuleit út af Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum.
Lítið hefur fundist af loðnu til þessa, en eitt skipið mun þó hafa landað um 50 tonnum á Bolungarvík.
Fimmtudagur 18. nóvember 2004
Ein gömul:
Þeir sem eldri eru, muna áreiðanlega eftir þegar Tunnuverksmiðjan brann, en myndin sýnir rústirnar 10 dögum eftir sjálfan brunann , það er 19. janúar 1964
Fimmtudagur 18. nóvember 2004
Eins og sagt var frá hér ofar á síðunni, þá taka þeir á SR-Vélaverkstæði að sér að útbúa prófíla, það er allskonar mynstur eftir óskum viðskiptavina úr hinum svokölluðu ljósaslöngum; jólatré, bjöllur ofl.
Nú eru þeir að huga að fjöldaframleiðslu með sölu á Reykjavíkurmarkaði og fleiri stöðum.
Hér sést verslunarstjórinn Guðmundur Ó Einarsson hjá SR-Byggingavörur á Siglufirði með eitt af sýnishornunum, en myndin var tekin í gærkveldi hjá SR-Byggingavörur.
Fimmtudagur 18. nóvember 2004
Þessa heiðursmenn hitti ég í kaffi hjá Olís í morgun; Elías Þorvaldsson og Kjartan Einarsson.
Föstudagur 19. nóvember 2004 -- Ein gömul:
Hótel Höfn 8. febrúar 1964; Sigríður Ásmundsdóttir - Lára Stefánsdóttir - Guðný Garðarsdóttir og Ester Sigurðardóttir
Föstudagur 19. nóvember 2004
Undanfarin 3-4 ár hefi ég haft slæma "vöðvabólgu" og verki sem því tilheyra, ég hefi látið mig hafa það að mestu, bitið á jaxlinn og bölvað í hljóði.
En þegar ég átti orðið erfitt með að lyfta upp myndavélinni minni, þá varð eitthvað að gera í málinu. Ég prófaði sprautur hjá lækni, bólgueyðandi lyf og jafnvel nálarstungur. Ekkert dugði, þar til læknirinn ráðlagði mér nudd. -
Á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar fékk ég rækilega meðferð hjá Marisku sem fór um mig bæði mjúkum og hörðum höndum. Í dag eftir nokkurra vikna meðferð einu sinni til tvisvar í viku, er ég sem unglingur og stöðugir verkir farnir bak og burt. Kærar þakkir stelpur, fyrir allt- og brosin líka.
Á myndinni, sem ég tók í morgun eru Mariska van der Meer sjúkraþjálfi - Aafke Roelfs sjúkraþjálfi og Sigurbjörg Björnsdóttir ritari og aðstoðarstúlka.
Laugardagur 20. nóvember 2004 - Ein gömul:
Helgi Hallsson - Baldvin Jóhannsson - Einar Björnsson -Geir Guðbrandsson og Marteinn Jóhannesson.
Fimm smiðir, Pálsmenn austur á Seyðisfirði á hlaupársdegi 1964
Laugardagur 20. nóvember 2004 -- Sólin sést ekki lengur í byggð á Siglufirði, en nú er einnig farið að líða að þeim tíma sem sólargeislarnir á fjallstoppana hverfa einnig og koma ekki í ljós fyrr en á næsta ári.
En þann 21. desember ætti þó síðustu geislar sólar á árinu að sjást í heiðskíru veðri á blátoppi Hafnarhyrnu og Strákafjalls. Þessi mynd er tekin eftir hádegið í dag, framan við Síldarminjasafnið.
Laugardagur 20. nóvember 2004
Nýir bílar.
Björgunarsveitin Strákar keypti sér tvo nýja öfluga bíla í flota sinn- og verða þeir til sýnis kl. 13:00 í dag.
Þetta eru breyttir Land Rover jeppar með öllum nauðsynlegum búnaði sem krafist er í dag til björgunarstarfa. Þetta er fjárfesting upp á um 9 miljónir króna. Þeir áttu fyrir helmingnum af verðinu, en fengu hitt að láni.
Þeir gera ráð fyrir að leita eftir aðstoð vegna fjáröflunar á næstunni og er því hver króna í sjóðinn vel þegin. En nú má segja að Björgunarsveitin Strákar, með aðstoð margra góðra manna sem og auðvitað heimamanna, sé nú eins vel búin tækjum og kostur er, bæði til lands og sjávar. Og félagarnir ávalt reiðubúnir til að fórna tíma sínum og jafnvel lífi, til að aðstoða þá sem í nauð lenda.
Á myndinni eru bílarnir og bílstjórarnir Ómar Geirsson og Ægir Bergsson
Laugardagur 20. nóvember 2004
Afmælismót Tennis og Badmintonfélags Siglufjarðar er haldið í Íþróttahúsi Siglufjarðar í dag.
þar keppa unglingalið frá Akranesi Hafnarfirði og fleiri stöðum.
Mikil stemming var þar þegar ég heimsótti mótið um klukkan 15:00 í dag.
Félagið var 40 ára á þessu ári.
Jólakveðjur til vina og vandamanna. Nú fyrir jólin gefst ÖLLUM sem það vilja, tækifæri til að koma jólakveðju með mynd og stuttum texta hér á Lífið á Sigló. Viðkomandi sendir mér á Netfangið mitt einfaldan texta og mynd, og ég birti það síðan á sérstakri síðu. Allt án endurgjalds. Ljósmynd gæti verið fjölskyldumynd eða einhver falleg sem einhver úr fjölskyldunni hefur tekið.