Glæsir  --Fréttavefurinn Lífið á Sigló  

19. til 25. apríl 2004

Fréttavefurinn Lífið á Sigló 

19. til 25. apríl 2004 -- Glæsir

Lífið 19.-25. Apríl 2004

Glæsir 2004

20. apríl 2004  -   Aðsent efni:

Vor í lofti? ! ?

 Eitthvað voru skaparanum mislagðar hendur með veðrið nýliðna helgi.  Á meðan fresta varð atburðum í skíðabrekkunum fór fram vormót hestamannafélagsins Glæsis á íþróttavellinum við Hólsá.

 Um morguninn var völlurinn mokaður til að gera hann eins keppnisfæran og mögulegt var miðað við aðstæður.  Knapar og keppnisstjórn funduðu svo eftir hádegið og voru sammála um að mótið færi fram skv. áætlun.  Veðurútlit um morguninn varð sennilega til þess að þeir erlendir keppendur sem skráðir höfðu verið til leiks forfölluðust.

 Dómarar voru þeir Símon Gestsson frá Barði og Sverrir Jónsson heimamaður.  Mótið hófst með að þulurinn og formaðurinn Hreinn Júlíusson bauð knapa og áhorfendur velkomna á þetta stórmót.  Áhorfendur voru ekki margir og vindurinn feykti orðum þularins til og þegar þau bárust yfir völlinn til knapanna sem biðu í ofvæni eftir að taka gæðinga sína til kostanna þá hljómaði þetta eins og formaðurinn hefði boðið menn velkomna á stormmót sem var sennilega nær sanni en stórmót.  Keppni hófst í barnaflokki, þar voru 4 keppendur sem allir stóðu sig með sóma, röðuðust þeir þannig:

     Finnur Ingi Sölvason á Jarli eink. 5,78

    Hilmar Snær Símonarson á Bassa eink. 5,09

    Brynhildur Svava Ólafsdóttir á Blesa  eink 4,50

    Guðný Eygló Baldvinsdóttir á Hrana eink. 3,75

 Gaman verður að fylgjast með þessum keppendum í sumar þegar keppni harðnar og bæði hestum og knöpum fer ört fram.  Fleiri börn eiga svo eftir að bætast við með hækkandi sól.  Glæsismönnum finnst sérstaklega ánægjulegt að fá svo sterka “nýliðun” í hestamennskuna.

 Keppni í fjórgangi hófst eftir að brautin hafði verið skafin.  Þá biðu menn í ofvæni eftir að berja Harald og Ofsa augum eftir frábært gengi þeirra undanfarið, hann brást okkur ekki en umræður voru um að sennilega þyrfti að stofna sér atvinnumannadeild svo við hinir ættum möguleika á einhverjum verðlaunum!  Þó verður líklegt að teljast að atvinnumannadeildin yrði fámenn!  Ólafur meðeigandi í hestinum fylgdist aðdáunaraugum með hestinum sínum og þykir líklegt að hann geri þá kröfu að fá að ríða Ofsa hér eftir á öllum innanfélagsmótum en Halli keppi á honum á landsvísu!

 Annars urðu úrslit þessi:

    Ofsi frá Engimýri, knapi Haraldur Marteinsson eink. 6,90

    Skorri frá Ragnheiðarstöðum, knapi Katrín Haraldsdóttir eink 4,9

    Erill frá Miðsitju, knapi Símon Símonarson eink 4,3

 Strax að lokinni keppni í fjórgangi hófst keppni í tölti.  Þar var keppni jöfn og spennandi og til að skilja á milli sumra sæta þurfti að nota svipaða nákvæmni og í Formula 1! Þar var eins og nú er í enska boltanum að fallbaráttan var mest spennandi, þar börðust þeir hart Rúnar Marteins á Mána og Sævaldur Gunnarsson á Daða.  Rúnar hafði betur með minnsta mun, og hlaut í einkun 6,41 á meðan Sævaldur og Daði hlutu 6,40.  Þar eð munur varð svo lítill var farið fram á endurtalningu líkt og í Florída um árið, en sú talning skilaði engu og breytti ekki niðurstöðunni hér heldur. 

 Úrslit urðu:

     Fálki frá Ey, knapi Haraldur Marteinsson, eink. 7,70

    Skorri frá Ragnheiðarstöðum, knapi Katrín Haraldsdóttir eink. 7,10

    Erill frá Miðsitju, knapi Símon Símonarson, eink. 6,82

 Að móti loknu fengu hestamenn sér kaffi og kex í félagsheimilinu Glæsibæ þar sem verðlaunaafhending fór fram.  Þar skipulögðu menn áframhaldandi mótahald, grillveislur, hestaferðir og félagsreiðtúra, einnig voru lögð á ráðin um áframhaldandi þjálfun keppni gæðinga.  Þar eru margir hestar að koma góðir fram á sjónarsviðið, Sölvi Sölvason á góða hesta sem forfölluðust á síðustu stundu á þessu móti en verða með næst.  Héla frá Barði sú gráa sem Símon ætlaði stóran hluti varð fyrir “heimilisofbeldi” í hesthúsinu rétt fyrir mót.  Svona vill stundum fara þegar saklaust sveitafólkið kemur í sollinn á mölinni!  Aðrir efnilegir kusu einnig að sitja hjá þetta mót, t.d. Unnar og handbremsu-Jarpur sem eru gamlir refir og líklegir til afreka, einnig kaus Sævaldur að geyma staða-Rauð amk eitt mót enn og þykir líklegt að þá komi hann fram undir nafninu hraði-Rauður en komi svo seinna á árinu fram undir réttu nafni sem er Flugeldur og þá verði “flugeldasýning” sem lengi verði í minnum höfð!

 Næsta mót hjá Glæsi verður sennilega Stefánstölt í byrjun júní þar sem keppt er um stórglæsilegan farand verðlaunabikar sem ekki er fyrir nema hraustustu menn að jafnhenda!  Haraldur er núverandi handhafi bikarsins sem er fram að móti til sýnis í hestahorninu í Aðalbúðinni.

nn