20. júní 2004
Ein gömul: Þeir sem eldri eru ættu að muna eftir og vita hvar þetta hús var - og hvaða starfsemi er þar nú í dag á svæðinu og öllu eldfimara að líkindum hvað innihald snertir en þetta hús, þó það hafi brunnið glatt- og nær óáreitt til kaldra kola. Húsið hét ?
Einco hét húsið og í því var kveikt af Slökkviliði Siglufjarðar og notað í því sambandi til æfinga fyrir starfsmenn
20. júní 2004
Sagt var frá því í gær að Sigurvin hefði farið til aðstoðar bát sem leki hefði komið upp hjá, sem betur fór varð komið fyrir lekan með aðstoð nærstands báts sem hafði dælu um borð og lánaði hana.
Allt gekk að óskum og viðkomandi bátur komst án frekari aðstoðar til sinnar heimahafnar og Sigurvin snéri við til Siglufjarðar.
21. júní 2004
Ein gömul:
Hafliðaplan.
Á myndinni eru ma. Eyvindur Júlíusson, Katrín Guðmundsdóttir og Ásgrímur Sigurðsson.
21. júní 2004
Að gefnu tilefni ! Þegar allt er orðið grænt, það sem á annað borð á að vera grænt samkvæmt lögmálum náttúrunnar og ætluðum mannanna verkum hvað gróðurinn varðar.
Þá er það víst, að eitthvað hefur farið úrskeiðis hvað varðar gróðurinn, það er þau fræ sem notuð voru til að koma af stað grænu grasi (væntanlega) í hlíðum og nágrenni bolanna tveggja.
Grasið sem spratt í fyrstu var grænt og lét garðana falla svo vel inn í umhverfið að ókunnir sáu vart að þetta var ekki náttúrunnar verk. En nú er þarna grámygluleg sina. Vonandi tekst betur með frævalið við hina garðanna. Ekki veit ég um orsök þessa, enda lítið hneigður til garðræktar - (er hrifnari af malbikinu.) En þetta stingur óneitanlega í augu.
Hvernig væri að sá þarna lúpínufræi og í væntanlega garða einnig?. Lúpínan hefur sýnt það að hún er lífseig og fljót til og ekki ljótari þó síður væri, en grasið GRÆNA. S.K.
22. júní 2004
Ein gömul:
Páll Hlöðversson, Jón Rögnvaldsson og Helgi Magnússon (1965)
22. júní 2004
Þessa mynd hér til hliðar, og fyrir neðan, sendi Sveinn Þorsteinsson mér, en hann tók þær um klukkan 23:00 í gærkveldi.
Þetta munu vera Þjóðverjar, sem hafa komið sér þægilega og vel fyrir í lognmollunni og 15 °C hita vestan við Strákagöng til að njóta sólstöðunætur.
Myndin hér er af starfsmanni Vegagerðarinnar:
Stefán Grétarsson, - en hann mun stjórna tækinu sem sér um "rammbúkkið"
22. júní 2004 ------ Hólsbrúin:
Framkvæmdir við smíði nýrra brúar yfir Fjarðará (Hólsá eins flestir kalla hana) Í gær kom hingað heljarmikið tæki, það eina sinnar tegundar á landinu og er í eigu Vegagerðarinnar, verkfæri sem rammar niður nokkra steinsteypta staura við sitt hvorn enda fyrirhugaðrar brúar. Þetta er undirbúningsvinna sem Vegagerðin sér um, en sjálfur verktakinn er væntanlegur um mánaðarmótin. (ekki verið ákveðinn nánar enn) Önnur myndin er af vinnuvélum Bás ehf. að grafa fyrir vestari enda brúarinnar, jarðýta og krani frá þeim er þarna einnig, en verkfærið sem ramma mun niður staurana þar á bak við.
22. júní 2004
Ég nefndi hér á dögunum (15. júní) hvað það væri gott að hafa vefmyndavél í kirkjuturninum og hvatti einhverja til að gera eitthvað í málinu. -
Mörg og mikil viðbrögð urðu við þessu erindi, það er í orði auglitis og í fjölmörgum tölvupóstum. -- Allir voru á einu máli um hvað þetta myndi vera skemmtilegt, raunar nauðsynlegt einnig. -- En enginn gat áttað sig á hver ætti að hafa raunverulega forystu um málið.-- Einn taldi þetta óraunverulegt vegna kostnaðar því svona “ævintýri” kosti fleiri hundruð þúsund, jafnvel miljón. --- Ég hafði samband áðan við upplýsinga og kynningarfulltrúa Akureyrarbæjar Ragnar Hólm Ragnarsson- og spurði hvað ný uppsettur búnaður á Akureyri hefði kostað. Hann sagðist raunar ekki hafa reikninginn fyrir framan sig, en vildi þó fullyrða að myndavélin hafi kostað um 60.000 kr. Síðan kom reikningur upp á 28.700 kr. frá rafvirkja vegna uppsetningar og lagnavinnu. Þá vonast fulltrúinn til þess að viðhaldskostnaður og rekstrarkostnaður (aukakostnaður) verði enginn, því vélin sé tengd beint inn á netið hjá þeim í Listasafninu. Þetta eru ekki stórir peningar. -- Hver tekur málið að sér?
23. júní 2004 Bæjarstarfsmenn hafa notað tíman vel í þurrkunum að undaförnu við að mála og merkja gangbrautirnar í bænum. Þarna er verið að mála einu hraðahindrunina á Hvanneyrarbrautinni.
23. júní 2004 Ein gömul, sem skýrir sig sjálf, sumt er horfið - annað breytt
23. júní 2004 Varúð - Þeir sem aka eftir Langeyrarveg þurfa ekki aðeins að virða hraðatakmörk sem eru 50 km/klst., heldur þarf einnig að huga að fuglalífinu á veginum, fuglar sem oft og tíðum vita ekki í hvaða átt þeir ætla að fara.
23. júní 2004
E.B.S. Nú fer brátt að líða að því tímabili, að öllum verður óheimilt við viss tækifæri ! - að keyra og eða ganga um ákveðin hafnarsvæði. Þetta er vegna reglna sem sett hafa verið úti í Brussel (?) - Unnið hefur verið að því undanfarið að búa til færanlegar girðingar sem hindra eiga hryðjuverkamenn um að komast inn eða út af hafnarsvæðinu. Væntanlega verða einhverjir öryggisverði ráðnir, hver veit. (?)
23. júní 2004
Hólsbrúin. kl 14:00 -
Vegagerðar menn eru byrjaðir að ramma niður 14 stykki 12 m langa steinstaura (um 27 sm. í þvermál) Meðfylgjandi mynd sýnir er sá þriðji var tilbúinn til "ferðarinnar" niður- og ekki tók nema 10 mínútur að koma þessum 12 metrum á sinn stað, það er um 11,90 m.
Fyrstu metrarnir runnu ljúflega niður, en síðar fór hann niður sentimeter fyrir sentimeter í hverju slagi "rammbúkkans"
23. júní 2004 Aðsend, góð ábending: Sæll Steingrímur. -- Vildi aðeins benda á að reglur sem settar hafa verið um aðgengi að höfnum og öryggismál í þeim koma ekki frá Brussel þó ýmislegt komi þaðan. --
Þetta eru alþjóðlegar reglur, ekki aðeins evrópskar og við verðum bara að hlýða þeim þó svo að þær þyki nokkuð vafasamar hér á Siglufirði. --- Í desember 2002 samþykkti Alþjóðasiglingastofnunin I.M.O., sem er ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, sérstakar ráðstafanir til að auka og efla siglingavernd í skipum sem eru í alþjóðlegum siglingum og hafnarvernd í höfnum sem þjóna slíkum skipum. Þessar kröfur eru settar fram í kafla við alþjóðasamþykktina um öryggi mannslífa á hafinu, SOLAS-samþykktina og í svokölluðum ISPS-kóða (International Security Port Security Code). --
Breytingarnar á alþjóðasamþykktinni eru árangur vinnu á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september árið 2001. Þær fjalla um ráðstafanir sem aðildarríkjum ber að gera til að hindra ólögmætar aðgerðir í höfnum og gegn siglingum og koma í veg
fyrir að skip verði skotmark alþjóðlegra hryðjuverka. -- Kveðja Þ.H. ---
Vegna fréttar hér fyrir ofan um girðingavinnu. SK Takk fyrir upplýsingarnar Þ.H.
24. júní 2004
Ein gömul.
Hafnarbryggjan og svæði á Siglufirði 1978 +/-
24. júní 2004 Þessar myndir,voru teknar í gærkveldi, rétt fyrir kl. 20:00, en Dormier flugvél frá Íslandsflugi magalenti á Siglufjarðarflugvelli. Vélin var að sögn að æfa lendingu og aðflug vegna fyrirhugaðrar heimsóknar Noregsprins. Sjónarvottum ber ekki saman um ástæður magalendingar, sumir segja nefhjólið ekki hafa komið niður- og enn aðrir fullyrða að ekkert hjól hafi komið niður- og því farið sem fór.
Plaststykkið á einni myndinni, er merki um fyrstu viðkomu brotlendingar, en brotið var í um 400-500 metra frá þeim stað er flugvélin stöðvaðist. Tveir menn voru í vélinni og hvorugur mun hafa hlotið líkamleg meiðsl. Flugslysanefnd mun hafa komið á vettvang í gærkveldi, en áður voru þar mættir, lögregla, sjúkrabíll, læknar og slökkvilið.
25. júní 2004 Starfsmenn flugslysanefndar voru enn á slysstað eftir hádegið.
Ekkert veit ég frekar af störfum þeirra. Myndin er tekin frá Langeyrarvegi.
25. júní 2004 Ein gömul: Sigurður Sigurðsson læknir, Ármann Jakobsson bankamaður- og Elías I Elíasson bæjarfógeti (við vígslu núverandi sjúkrahúss 1966)
25. júní 2004
Flugvélin sem brotlenti á Siglufjarðarflugvelli sl. miðvikudag var hífuð upp og hjólabúnaði náð að smella í sín sæti.
Vinstra búkhjólið virtist skemmt svo það var tekið undan.
Áætlað er að koma vélinni út af brautinni að sjónum, en þar verður vélin hífuð um borð í gamlan “innrásarpramma” en síðar verður vélin hífuð um borð í skip sem flytja mun vélina suður.
Að sögn munu báðir hreyflarnir ónýtir, þar sem skrúfublöðin náðu að snerta völlinn.
25. júní 2004 Loðnan sem "fiskifræðingarnir" héldu að væri ekki til er fundin.-
Tvö skip, Björg Jónsdóttir ÞH 321 og Súlan EA 300 eru væntanleg til Siglufjarðar um 22:00 (Björg) í kvöld með fullfermi (væntanlega) af loðnu frá miðum 7-8 klukkutíma siglingu norður af Siglufirði.(?)
25. júní 2004 Kolmunni. Og nú er að koma kolmunni til Siglufjarðar,
Færeyska veiðiskipið Finnur fríði kemur á morgun með um 2.500 tonn af kolmunna til bræðslu hjá Síldarvinnslunni.
Nú fer hann Þórður að hressast.
26. júní 2004 Ein gömul: Trillan Guðmundur Jón og eigandinn Páll Pálsson á ufsaveiðum inni á Siglufirði.
Hætt hefur verið við að flytja flugvélina sem "brotlenti" á Siglufirði, sjóleiðis til Reykjavíkur.
Dæmið var ekki hugsað nema að hálfu ! - en ef skip hefði flutt vélina suður, þá var hvergi aðstaða fyrir sunnan til að koma henni á endanlegan áfangastað vegna þrengsla. Vélin var því flutt að flugskýlinu, þar sem vængirnir verða teknar af henni.
(Heimild: Starfsmaður flugmálastjórnar)
26. júní 2004 Fyrsta loðnan kom til Siglufjarðar í gærkveldi klukkan 22:50. Það var Björg Jónsdóttir ÞH 321 sem kom með um 1100 tonn - Að venju færði forseti bæjarstjórnar (nú Guðný Pálsdóttir) skipstjóra þeim er fyrstur kemur með loðnufarm til Siglufjarðar, tertu frá bæjarbúum.
26. júní 2004 -
Einn "trillukarlinn" var fljótur til og fékk hjá skipverjum Bjargar Jónsdóttur, slatta af loðnu til að beita.
26. júní 2004
Í nótt og í morgun kom Súlan EA 300- með loðnufarm og er þarna á myndinni að landa.
Það ber lítið á Súlunni fyrir aftan Færeyska skipið Finnur fríði, sem er með 2500 tonn af kolmunna innanborðs- og bíður eftir að Súlan ljúki við sitt, en því lauk rúmlega 9 í morgun
26. júní 2004
Flugvél Flugmálastjórnar lenti hér um 8 leitið í morgun, en hafinn er undirbúningur á því að taka vængina af Dornier flugvélinni, vegna flutnings hennar landleiðina suður.
26. júní 2004
Unnið er hörðum höndum við að ljúka við frágang "kirkjutrappanna" - Meðal annars við tvær tjarnir sem þar eiga að vera miðsvæðis, sitt hvoru megin við tröppurnar.
26. júní 2004
Ég mætti á kjörstað klukkan 14:25 í dag, til að velta fyrir mér hvorn þeirra ég ætti að kjósa af þeim tveim sem ég "þekkti" áður en kynning framboða hófst.
Mér finnst þeir báðir hafa svipaða "kosti" - eða þennan sem ég hafði aldrei heyrt getið um fyrr en nú síðustu vikur.
Ég tek það fram að ég er hvorki með steinhjarta né skítugt eðli og kaus því það sem samviskan bauð, ekki kött í sekknum. ---
Mjög lítil kjörsókn hafði verið fram að þess-
Og eins einn starfsmanna kjörstjórnar sagði: Það kemur einn og einn og enginn á milli. (gamalt Siglfirskt máltæki) -
Á myndinni eru: Kjósandi: Sigtryggur Sigurjónsson, - Starfsmenn: Pétur Garðarsson, Rögnvaldur Þórðarson og Sigurður Fanndal.
27. júní 2004
Ein gömul: -
Falskt öryggi. þessir menn sem þarna sjást vinna í 50 metra hæð, við að mála efsta hluta stóra strompsins við gömlu ketilstöðina.
Þeir unnu ekki þarna við þessar aðstæður samkvæmt ströngustu reglum um öryggi á vinnustað miðað við árið 2004.
En þeir kláruðu sitt verk, að þessu sinni a.m.k. Þetta voru erlendir verktakar.
(starfsmennirnir voru á tréklossum)
27. júní 2004 Síldarvinnslan á Siglufirði hóf bræðslu á loðnu strax í morgun og gengur vel eins og alltaf hjá góðum starfsmönnum, þótt fáliðaðir séu orðnir. Nú er það svo að ekki sést lengur reykur frá verksmiðjunni, nema við viss skilyrði og þarf að gæta vel að til að sjá reyk, -enda hringja sumir til að spyrja um hvenær verði byrjað á að bræða, þó svo að viðkomandi hafi gott útsýni til verksmiðjunnar. Það gerði ég td. í gærkveldi, til að vera viss um að verið væri að bræða.
27. júní 2004 Enn einu sinni breytist áætlun vegna flugvélarinnar sem magalenti á dögunum, nú er hætt við að taka vængina af vélinni- vegna þess að sagt er - það er ekki gert ráð fyrir slíku- og ekki mögulegt. Þannig að Stefán Einarsson og "co" munu sjá um að koma vélinni í pramma og síðan um borð í skip eins og ráðgert var í fyrstu
28. júní 2004
Ein gömul (1967)
Helgi Sigurðsson á leið niður í tanka á Haferninum vegna löndunar. Hinn er örugglega Örlygur Kristfinnsson.
28. júní 2004 Þessir ungu drengir sátu við hlið mér og röbbuðu við mig seinnipartinn í gærdag, þegar tilraun var gerð til að koma flugvélinni frægu í prammann til frekari flutnings frá enda flugbrautar. Við vorum að fylgjast með atburðunum við flugbrautina. Þeir heita: Örn Ingi Arnarson (Örn Pálsson) og Sveinn Filippus Sverrisson (Sverrir Gíslason)
28. júní 2004 Blómaskreyting og sala. Ég er að vísu ekki mikið gefinn fyrir blóm. -
En í sumar hafa hangið fallegar blómakörfur á veggjunum húsanna frá Aðalbúðinni (blómabúð með fleiru) og alla leið upp að Íslandsbanka. þetta er til mikillar prýði - Og til viðbótar, - Blómasýnishorn sem Aðalbúðin hefur á boðstólnum eru öllu jafnan utandyra, ekki aðeins á opnunartíma, heldur einnig allan sólarhringinn og þau fá að vera þar óáreitt. -- Myndin var tekin seinnipartinn í gær.
(það gengi sennilega ekki á Laugarveginum í Reykjavík um helgar ?)
28. júní 2004
Andstæður ljóss og skugga --
Myndin var tekin klukkan 02:00 sl. nótt
28. júní 2004
Gerð var tilraun fyrripartinn í gær til að hífa flugvélina um borð í prammann, en eitthvað var ekki eins og ætlast var til svo hætt var við að nota prammann og ákveðið að draga vélina eftir "þjóðveginum" í gegnum bæinn niður að höfn.
Ekki leist mörgum á þessa hugmynd, en leiðin var þó valin.
Frekar langsótt var ferðalagið, eða rúmir 7 tímar, en "örninn" lenti kl.04:04 eftir miðnætti, eftir allskonar kúnstir, ljósastaurar og umferðarmerki beygð og sveigð, kranahífingar framhjá erfiðustu hindrunum, raunar yfir suma staurana. -
En gefist var upp á miðri leið, það er við innri höfnina þar sem pramminn áðurnefndi var við bryggju.
Vélin var hífuð þar um borð, og nú var pramminn nógu stór og leiðin að :- Hafnarbryggjunni gekk að óskum -- Og miðað við allar þrengingarnar, má teljast heppni að ekki kom á vélina hin minnsta skráma. Myndir HÉR
28. júní 2004 Húseignin Pólar, áður Sigló hefur verið seld til Þormóðs Ramma, Sæberg hf.
Ekki á að reka þar verksmiðju, þar sem rækjuverksmiðja Þ.R.S. fullnægir núverandi þörfum. - Ætlunin að nýta hinar góðu frystigeymslur og lagerpláss sem er í húsinu.
29. júní 2004
Ein gömul:
Hádegisverður um borð í Haferninum stöddum í höfn í Frakklandi.
Salmann Kristjánsson, Guðmundur Björnsson, Snorri Jónsson, Hafþór Rósmundsson, Halla Jóhannsdóttir, Birna H Björnsdóttir, þekki ekki baksvipinn og Stefán Árnason.
Mennirnir á bak við eru erlendir sölumenn úr landi.
29. júní 2004
Blóm á Torginu. Eitt blóm á Torginu virðist fyrir ókunna vera torkennilegt- og margir hafa spurt garðyrkjufræðin bæjarins hvað það heiti.
Til að bæta úr því þá sendi Arnar mér eftirfarandi:
Sæll Steingrímur, myndin er af plöntu sem kallast Hengibaunatré eða hengi kergi. Þessi planta er með ágræddar greinar í krónuna. Hliðargreinar af venjulegu baunatré er ágrætt á stofninn með þessari skemmtilegu útkomu.
Þessi planta er náskyld Gullregni sem víða sést í görðum hér í bænum og blómstrar með litlum gulum blómum í júní júlí. Eftir því sem ég kemst næst eru margar tegundir af þessari ætt seltuþolnari en margt af því sem er í görðunum hérlendis.
Allavega hef ég séð töluvert af gullregni í Vestmannaeyjum á skjólgóðum stöðum. Svo tekur maður pottinn fyrir haustið og setur í skjól eða inn í kalt hús þangað til næsta sumar. Gott er að pakka yfir krónuna með striga fyrir veturinn. -
Kveðja, Arnar Heimir Jónsson
29. júní 2004
Aðsent:
Þarna eru Fríða og Þórunn. -
Þær eru að gera sig sýnilegar með því að mála gul fótspor í gangstéttina. Þær eru með þessu að auglýsa galleríið sitt og er gaman að kíkja þar inn og skoða það sem þær eru að bralla.
Ég stóðst ekki mátið að smella af þeim nokkrum myndum í kvöldblíðunni. Galleríið er í Norðurgötu Kveðja: S.G.
Fríða Gylfadóttir til vinstri - Þórunn Kristinsdóttir til hægri
29. júní 2004 Björg Jónsdóttir ÞH kom klukkan 9 í morgun með um 1100 tonn af loðnu til bræðslu hjá Síldarvinnslunni.
Gert hafði verið ráð fyrir að bræðslu lyki um kl.18:00 í dag en ljóst er að bræðslu líkur sólarhring seinna eftir þennan farm.
29. júní 2004 Þessi "skonnorta" er hvalaskoðunarbáturinn Haukur frá Húsavík, en hann mun liggja þarna við Roalaldsbryggju (?) amk. í dag.
Myndin er tekin í morgun þegar þokunni sem þakið hafði fjörðinn, var að létta.
Athugasem vegna þessara skrifa frá hafnarverði.
Er aðeins neðar (30. júní)
29. júní 2004 Aðsend ATHUGASEMD: Mig langar svo að koma með smá ábendingu sem allir foreldrar og forráðamenn ættu að sjá. En mig langar samt ekki að mitt nafn komi undir.
En málið er að í gær (28.júní) fór sonur minn og tveir aðrir strákar niður á flotbryggjuna til að skoða báta. Þeir eru allir á áttunda ári.
Enginn fullorðinn fór með þeim og enginn vissi að þeir ætluðu að fara þangað. Þeir sem sagt bara stálust. En svo dettur sonur minn út í sjó. Fer á bólakaf, en nær sjálfur að synda upp aftur. Strákarnir tveir sem með honum voru gátu tosað hann upp aftur. En í fallinu, lendir hann með hökuna í bryggjuna og fær ljótan skurð á hökuna og þurfti að sauma 5 spor.
Hann sagði mér að þeir hafi litið ofan í kassa með flotvestum en engin vesti verið þar. Ég veit ekki hvort það sé satt því ég hef ekki farið sjálf og skoðað í hann. En í dag hugsar maður og sér hve heppinn hann var. Hann er ekki fullsyndur og hvað ef hann hefði ekki getað synt upp aftur ?
Rotast við höggið ? Synt undir flotbryggjuna og ekki komist undan henni ? Strákarnir ekki getað náð honum upp ? Eða jafnvel bara orðið hræddir og hlaupið í burtu? Því enginn fullorðinn var þarna nálægt. En eitt er víst að hann hefur haft góða verndarengla með sér þarna. --Þannig að ég vil endilega að foreldrar brýni það fyrir börnunum sínum að fara ekki ein niður að bryggju. Því það getur allt gerst. Og kannski ekki endað jafn vel og í gær. - Mig langaði bara að koma með þessa ábendingu því að krakkar og kannski sérstaklega strákar eru mikið fyrir að lenda í "ævintýrum". Kveðja n.n.
29. júní 2004 Karl Pálsson ræðir við Sigurð Ægisson vegna þáttarins Laufskálinn, á Rás eitt næsta mánudag. Þátturinn hefst kl. 09:05.
Þeir sitja þarna á kirkjutröppunum klukkan 12 í dag.
29. júní 2004 Siglfirðingurinn Grímur Karlsson, Hann heldur mjög athygliverða sýningu á verkum sínum, sem er skipslíkön og ómetanlegar heimildir sem hann hefur safnað saman. Ég hvet Siglfirðinga sem og aðra til að skoða sýninguna sem er í Íþróttahúsinu. Grímur við eitt af sínum snilldarverkum, í hádeginu í dag.
29. júní 2004
Það fór ekki framhjá Siglfirðingum í dag að Norski krónprinsinn Hákon, heimsótti Siglufjörð ásamt föruneyti.
Farið var víða um völl í blíðskapar veðri (eins og er alltaf á Sigló !)
Ég tók góðann slatta af myndum af þessari heimsókn.
En þar sem magnið er talsvert og mikil vinna eftir, þá hlýtur mér að fyrirgefast að myndasyrpan komi ekki fyrr en á morgun.
Ekki var Ríkissjónvarpið að flýta sér með sínar myndir með því að sýna þær í kvöld og ekki sá ég Stöðvar2 menn á vettvangi. (?)
30. júní 2004
Ein gömul:
Kajakar á ferð og á fullu innan um jaka sem voru inni á Siglufirði árið 1963 +/-
30. júní 2004
Hákon krónprins Noregs kom til Siglufjarðar í gær klukkan 14:00 eins og kunnugt er.
Myndin hér sýnir Norska krónprinsinn skrifa í gestabók Síldarminjasafnsins.
Í fylgd með honum var forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson og fleiri.
Á Siglufjarðarflugvelli fór fram stutt móttökuathöfn, þar sem mættir voru fulltrúar úr bæjarstjórn og afmælisnefndar Síldarævintýrsins, sýslumaður ofl.
Auk þess var þar fjöldi erlendra og innlendra fréttamanna viðstaddir, sumir komu með flugvél rétt á undan krónprinsinum. Þá var ekið niður í miðbæ að Torginu, þar var mikill fjöldi fólks- og áður en varði, var prinsinn og forsetinn ásamt taugastrekktum lífvöðunum nær horfinn í mannfjöldann sem tók gestunum fagnandi, bæði ungir og gamlir.
Haldið var áleiðis til kirkju, þar sem Sigurður Ægisson tók á móti gestunum. Þá var ekið að Íþróttahúsinu, þar sem Grímur Karlsson tók á móti gestunum og vísaði þeim til hinnar glæsilegu sýningar á bátslíkönum og fleiru tengt sjónum, en Grímur er einn af fáum íslendingum sem stundar (og er fær um) bátslíkanasmíði.
Þar dvöldu gestir nokkra stund en héldu síðan til Síldarminjasafnsins þar sem Örlygur Kristfinnsson tók á móti þeim og fylgdi þeim um safnið. Þar var boðið upp á kaffi og ekki má gleyma rúgbrauðinu, síldinni og brennivíninu.
Að því loknu fór fram athöfn í Bátahúsinu, en þar vígði krónprinsinn formlega hið nýja safnhús, Bátahúsið. Heimsókninni lauk svo formlega á flugvellinum klukkan 16:15 er gestirnir stigu um borð í flugvélina.
Vel á annað hundrað myndir frá þessari heimsókn sérðu ef þú smellir á tengilinn: Myndasyrpa HÉR
30. júní 2004 - Að gefnu tilefni, hafði hafnarvörður samband við mig vegna aðsendrar athugasemdar, hér ofar, þar sem sagt var frá (haft eftir ungum syni sendanda) að engin bjargvesti hefðu verið í þar til gerðum kassa.
Í gærmorgun rakst hafnarvörður á þessa athugasemd og fór samstundis á vettvang til að huga að kassanum, því hann vissi að fyrstu vorverkin, áður en börn losna úr skóla, þá er bjargvestum komið fyrir í kössunum víða um höfnina. Honum þótti ótrúlegt að einhver hefði tæmt kassa, því slíkt hafði aldrei skeð.
Og það kom á daginn nefndur kassi var fullur, svo og aðrir kassar,- Það kannaði ég einnig nú í morgun..--
KRAKKAR, NOTIÐ ALLTAF, bjargvesti þegar þið komið á bryggjurnar, og skilið þeim síðan á sama stað.
30. júní 2004
Súlan EA 300 kom í morgun um 07:30 með fullfermi af loðnu til löndunar.
30. júní 2004
Alvarlegt umferðarslys varð í morgun er lítill fólksbíll fór útaf Suðurgötunni.
Fimm unglingar voru í bílnum, þar af einn sem sat afturí á milli tveggja félaga sinna án bílbeltis þar sem það var ekki fyrir hendi.
Hinir voru í bílbelti.
Að sögn sjónarvotta mun óvarlegur akstur vera orsök slysins.
Þeir voru allir í vinnu, en skruppu í bíltúr í "hefðbundinni pásu" Drengurinn sem ekki var í bílbelti var fluttur til Akureyrar í sjúkraflugvél fljótlega eftir slysið, eða rúmlega kl. 9 í morgun. X sýnir staðinn þar sem bíllinn kom fyrst niður, en bíllinn var strax fluttur af vettvangi.
30. júní 2004
Í tengslum við slysið sem sagt er frá hér fyrir ofan, spurði einn viðmælandi minn:
Hvernig hefði farið fyrir húsvagni, tjaldi eða húsbíl sem gæti hafa verið þarna?
Þessi spurning veltir svo upp annarri spurningu. Væri ekki ráðlegt fyrir bæjaryfirvöld sem komið hafa upp mjög snyrtilegum og góðum tjaldvagnastæðum á flötunum fyrir neðan Suðurgötu, að koma fyrir vegriðum á þessum kafla sunnan og norðan "Vella-húsið"?-
Það væri hörmulegt ef bíll færi þarna niður á meðan tjaldsvæðin eru yfirsetin eins og til dæmis um Verslunarmannahelgi, Pæjumót og af fleiri tilefnum. Það þyrfti ekki óvarkára unga ökumenn til að valda slíkum hörmungum, það gæti líka verið "stútur við stýrið", eða veikindi, - jafnvel bifreið sem renin óvænt af stað vegna mistaka þess sem lagði honum. Þessu er hér með komið á framfæri til yfirvalda.