Lifið 19.-31. Desember 2004

Fréttavefurinn Lífið á Sigló 

19. til 31. desember 2004



Sunnudagur 19. desember 2004  

Ein gömul:    Spennandi lesefni.


   Tekið í Bókasafninu 16. nóvember 1964 

Sunnudagur 19. desember 2004   

Aðsend hugmynd:   Til mín hefur borist hugmynd í tölvupósti, sem mér finnst ekki svo galin, raunar hefur þetta áður verið nefnt við mig, en það var í  jákvæðri umræðu úti á vinnustað, en hvarf svo úr minni mínu.

    Hugmyndin felur í sér beiðni um að ég komi upp gagnagrunni á vef mínum um Siglfirðinga, öðruvísi "símaskrá eða netfangaskrá" þar sem tekin verði fyrir nöfn einstaklinga, símar, netföng, heimilisfang og mynd af viðkomandi.

    Jafnvel mætti koma þar fyrir í viðkomandi reit, nafni maka og barna og etv. einhverjum öðrum vísbendingum sem viðkomandi vill koma á framfæri, ásamt ljósmyndum af fjölskyldunni.

    Nú þegar eru flestar þessar upplýsingar til í netfangaskrám á síðu minni, en "hugmyndin" myndi gera skrána líflegri og betur leiðbeinandi.

   Þetta er að sjálfsögðu ekki hægt nema með samþykki hlutaðeigandi, annað er bannað í lögum. Gaman væri að fá viðbrögð frá lesendum síðu minnar um þessa hugmynd, og fer það að sjálfsögðu eftir áhuga fólks hvort þessu verður ýtt úr vör. Þeir sem eru nú þegar skráðir hér með netfang; hugsið málið.  

Sendið mér tölvupóst S.K. 

Sunnudagur 19. desember 2004  -- Logn og blíða var í ljósaskiptunum á Sigló klukkan 10:30 í morgun, er þessi mynd var tekin. 

 Mánudagur 20. desember 2004 -- Ein gömul:   Glatt á hjalla, var skólaskemmtun Gagnfræðaskólans (?) í Nýja Bíó, í desember 1964

Mánudagur 20. desember 2004   Aðsent:  Þær eru vart mjög margar kaupstaðar konurnar sem standa í því að baka flatbrauð. En ein af þeim er Sólveig Halla Kjartansdóttir (þessi í hvítu blússunni) og er að því að Hvanneyrarbrautar 60 á Siglufirði. Með henni fylgist Berta Jóhannsdóttir hrifin af framtaki hennar.  
Sveinn Þorsteinsson

Þriðjudagur 21. desember 2004  

Sólstöðutónleikar í  Bátahúsinu verða á miðvikudaginn 22. desember klukkan 20:00.   Hlöðver Sigurðsson, tenór og Renata Ívan, píanó. 

Á efnisskrá eru Íslensk og erlend sönglög og jólalög. Létt jólastemning og heitt á könnunni. 

Verður uppákoma í hléinu? 

Aðgangseyrir kr 1000  

Þriðjudagur 21. desember 2004   --   Ein gömul:   

Stefán Friðriksson og Erlendur Magnússon Siglunesi 

Þriðjudagur 21. desember 2004  -- Mjölskipið Trinket var í morgun að lesta loðnumjöl frá Síldarvinnslunni á Siglufirðir, alls munu fara um borð um 800 tonn af gæðamjöli.. --


Miðvikudagur 22. desember 2004 --   Ein gömul:     >>>>>>>>>>>>>>>

     Hvað er að ske;   Gestur Fanndal í átökum ?  Þetta eru Jónmundur Hilmarsson og Gestur Fanndal í einhverskonar átökum, ekki þó alvarlegum því það var brugðið á leik í brúðkaupsveislu Jónmundar 19. janúar 1964 

 Miðvikudagur 22. desember 2004     "Gagnagrunnurinn" sem nefndur er hér aðeins ofar (Sunnudagur 19. desember 2004 ) er að fæðast. 

Nokkrir hafa nú þegar sett sig á listann. Fyrstu gögnin, það er  viðkomandi síða, verður sett á vefinn strax eftir áramótin. 

 Miðvikudagur 22. desember 2004  -    Karlakór Siglufjarðar undir stjórn Elíasar Þorvaldssonar var við æfingu í Bátahúsinu í gærkveldi, ásamt Hlöðver Sigurðssyni sem tók með þeim lagið er mig bar að garði. En Karlakórinn mun halda Söngskemmtun; Brennið þið vitar í Bátahúsinu þann 30. desember klukkan 20:30. Hlöðver mun eins og getið er um  hér fyrir ofan, halda Sólstöðutónleika ásamt Renata Ívan, í kvöld kl. 20:00

 Fimmtudagur 23. desember 2004  --    Ein gömul:  

Halldóra Bjarnadóttir, - Jónína Sveinsdóttir ljósmóðir og Erna Rósmundardóttir.

Barnið heitir Helga Kristín Einarsdóttir. 

Ljósmynd: Einar Hermannsson  

 Fimmtudagur 23. desember 2004 

  Sólstöðutónleikar í Bátahúsinu voru í gærkveldi. Þar komu fram meðal annarra Hlöðver Sigurðsson tenór og Renata Ívan píanóleikari. 

Þá var óvænt uppákoma í hléinu er bróðir Hlöðvers; Þorsteinn Sigurðsson lék og söng nokkur lög og að auki spiluðu þeir Sigurður Hlöðversson og Daníel Pétur Daníelsson nokkur jólalög á trompet á meðan gestir nutu kaffiveitinga og meðlætis -

- Um 130-140 manns mættu á hljómleikana og var þeim Hlöðver og Renátu ákaflega vel tekið og þau  margsinnis klöppuð upp í lokin. Bátahúsið hefur margsannað sig hvað hljómburð snertir, þannig að gestirnir sem sátu vítt um salinn nutu vel, auk þess sem umhverfið er stórkostlegt. 

Ég tók þarna nokkrar myndir sem koma í ljós ef þú smellir HÉR

 Fimmtudagur 23. desember 2004 -- Það var vel tekið á móti viðskiptavinum Sparisjóðsins í morgun eins og venjulega, og var viðskiptavinum boðið upp á kaffi, kakó með rjómatertum og fleira góðgæti - og svo verður í allan dag.  Þarna voru allir í góðu jólaskapi er ég mætti á staðinn, laust upp úr klukkan 10:30

Þarna eru meðal annarra Ingeborg Svensson og maður hennar Jón Björnsson smiður

Guðrún Jónasdóttir starfsmaður Sparisjóðsins

 Fimmtudagur 23. desember 2004   -- Hinar hefðbundnu Skötuveislur voru haldnar í hádeginu í dag í Allanum og Kaffi Torg og einnig verður annar skonar athöfn í kvöld frá 18 - 20 í Allanum:  Pizzuhlaðborð í stóra salnum að Kaffi Torg.

Ég leit inn á báðum stöðum í hádeginu.

Aðfangadagur jóla  24. desember 2004.    - Ein gömul:  

Kveikt á jólatrénu árið 1964              

Fossvegur  17 

Aðfangadagur jóla, 24. desember 2004 "Besta" jólaskreytingin 

Fulltrúar Bæjarstjórnarinnar afhentu í gærkveldi viðurkenningu fyrir "bestu" jólaskreytinguna nú um jólin.

Aðalbúðin og  Fossvegur  17 

Verðlaunahafar og  f.t bæjarins

Af hálfu fyrirtækja fékk Aðalbúðin viðurkenningu og íbúarnir við Fossveg  17  fyrir "bestu" skreytingu íbúðarhúsa. Það var erfitt að velja á milli húsa sögðu nefndarmenn, en þetta var niðurstaðan í ár. 

inni í Aðalbúðinni: Þorgeir Bjarnason, Guðrún Hauksdóttir, ? og Rögnvaldur Þórðarson

Verðlaunahafar og  fulltrúar bæjarins



 Aðfangadagur jóla 24. Desember 2004

  Pizzuhlaðborð var í gærkveldi í stóra salnum að Kaffi Torg þar borguðu viðkomandi gestir eitt gjald og gátu svo borðað eins og þeir gátu torgað af úrvali pizzutegunda. Þetta er sérstaklega vinsælt á meðal barna og unglinga, sem gjarnan koma með foreldrum sínum.  Myndir HÉR

 Aðfangadagur jóla 24. desember 2004 Samkvæmt frétt Morgunblaðsins í morgun féllu tvö snjóflóð á Siglufjarðarveg við "Miðstrandargil" Flóðið er sagt hafa verið 40-50 metra breytt og 3-4 metrar á hæð. Snjóflóðið hindraði för nokkurra bíla á leið til Siglufjarðar, en engin hætta stafaði af fyrir fólkið sem lét vita af sér á 112 neyðarlínunni og snjóruðningstæki komu fljótt á staðinn og kom fólkinu til Siglufjarðar.   ----  Samkvæmt  korti Vegagerðarinnar á http://www3.vegag.is/faerd/nordurl1.html  þá er vegurinn, nú klukkan 11:00 sagður ófær . - En talsverðum snjó hefur kyngt niður á Siglufirði í gær, nótt og í morgun. 

Aðfangadagur jóla 2004  -- SR-Byggingavörur - Lukkupotturinn  Dregið var í lukkuleik SR Byggingavara í gærkveldi klukkan 22:00  í votta viðurvist. Hrist  og dregið !

Fyrst var kassanum snúið og hann hristur rækilega og síðan sótti stúlkan vinningsmiðana án þess að sjá ofaní kassann;  fyrst var dreginn vinningur númer 5 og svo koll af kolli og niðurstaðan varð þessi: 

Vinningur, vekjaraklukka með útvarpi – Elísa Ýr Gylfadóttir Hólavegi 36  --- Myndirnar hér fyrir neðan

Verslunarstjórinn Guðmundur Ó Einarsson og hristarinn ?

Kassinn hristur rækilega


Laugardagur 25. desember 2004  


Ein gömul:  

Þessi er tekin í eldhúsinu að Hótel Hvanneyri 19. janúar 1964.  

   Una Guðmundsdóttir, Páll Jónsson og Kristín Kristjánsdóttir 

Laugardagur 25. desember 2004  

Ég vona að mér verði fyrirgefið-  Ég ákvað að taka daginn rólega, borða lesa og vinna í tölvunni og hlíða kalli konunnar í eldhúsinu ofl. - en fara ekki út úr húsi. Enda væntanlega lítið að frétta, nema að talsvert hefur snjóað  en þó ekkert í líkingu við það sem sagt er frá í Mbl. að sé fyrir austan og lítið spennandi myndefni í skammdeginu. Það er það sem ég sá í fjöllunum og við hús mitt út um gluggann.  Hafið það gott  - Þökk fyrir allan póstinn sem ég hefi ekki enn gefið mér tíma til að  svara öllum. 

Sunnudagur 26. desember 2004  


Ein gömul: 


Bráðum kemur að áramóta brennu- og ef að líkum lætur, þá verða þar "Evrópubretti" aðal eldsmaturinn - en á árunum 1960-1965 þá var aðal eldsmaturinn aflaga snuprunótabátar, sem oftast var fargað með því að brenna þá um áramót og á þéttandakvöldum. Þessi mynd er tekin um áramótin 1964-1965 

 Sunnudagur 26. desember 2004 

Veðrið og snjórinn sem gengið hefur yfir norðausturland yfir jólin hefur ekki angrað Siglfirðinga mikið, það var jú leiðinda veður og snjókoma á aðfangadag en ekkert í líkingu við það sem var á Akureyri og þar fyrir austan ef marka má fjölmiðlana. 

Hér er varla hægt að tala um snjóþunga, sáralítill snjór í fjöllunum og allar götur færar, jafnvel þó sumar þeirra hafi lítið eða ekkert verið mokaðar.

 Bæjarkarlarnir voru þó á varðbergi og sáu til þess að engar götur lokuðust. Að beiðni fjölmargra þá fór ég á vettvang til að taka "snjómyndir" en átti erfitt með að finna einhvern slíkan vettvang, en tók þó nokkrar myndir til að sýnast. 

Smelltu HÉR til að skoða myndir. 

Mánudagur 27. desember 2004  --- Ein gömul:   Árshátíðardansleik Bridsfélags Siglufjarðar, 20. febrúar 1965  --  Sigurður Sigurðsson læknir - kona hans (Dóra(?) - Erla Finnsdóttir - Magðalena Hallsdóttir - Helgi Sveinsson - Steinunn Rögnvaldsdóttir - Birgir Schiöth og Haukur Magnússon.

Mánudagur 27. desember 2004  

Jólaball fyrir börn á vegum Lionfélags Siglufjarðar var að Kaffi Torg seinnipartinn í gær.  Ég leit þar við, ég stoppaði stutt en tók samt nokkrar myndir.

 Mánudagur 27. desember 2004   ---  Magnúsarmót og Jólamót Allans í tvíliðakeppni í  billiard fór fram í Allanum í gærdag og lauk um kvöldið  Sigurvegarar á Magnúsarmóti voru: 

1. Guðjón Marinó Ólafsson - 

2. Björn Gaui Haraldsson - 

3. Eyjólfur Bragi Guðmundsson. 

Sigurvegarar á Jólamótinu voru; 

1. sæti: Daði Már Guðmundsson og Grétar Örn Sveinsson - 

2. Guðjón Marinó Ólafsson og Árni Valgarð Stefánsson - 

3. Páll Þorvaldsson og Björn Gaui Haraldsson.    Myndir HÉR

 Mánudagur 27. desember 2004  --    Aðsendar myndir frá Jólaballi Lions. 

Eins og kom fram með myndunum sem ég tók af jólaballinu, þá var Jón Dýrfjörð einnig með myndavél á vettvangi. 

Jón sendi mér myndir sínar, en hann dvaldi lengur en ég á vettvangi. 

Þriðjudagur 28. desember 2004  -- Ein gömul:   

  Kaupstaðirnir keppa, spurningaþáttur á vegum Ríkisútvarpsins, (bein útsending frá Nýja Bíó Siglufirði) 19. febrúar 1965.-  Spekingarnir; Pétur Gautur Kristjánsson - Benedikt Sigurðsson og Hlöðver Sigurðsson, kepptu fyrir Siglufjörð og stóðu sig vel. 


 Þriðjudagur 28. desember 2004  --  Aðsent:  Jóla-barna-ball. 

Vel á annað hundrað manns skemmtu sér á jólaballi Siglfirðingafélagsins í Reykjavík og nágrennis, þetta árið. 

Hljómsveitin Fjörkallar spiluðu undir og ungir jafnt sem aldnir skemmtu sér vel. Veitingarnar voru ekki af verri endanum, enda stóð "nefndin" í ströngu í eldhúsinu og bakaði vöfflur. 

Vöfflunum og smákökunum var rennt niður með heitu súkkulaði með rjóma. Gáttaþefur mætti á staðinn, söng og trallaði. Eftir að hann hafði dansað í kringum jólatréð með krökkunum settist hann niður og gaf góðgæti. 

Allir skemmtu sér frábærlega og eru strax farnir að hlakka til að hitta vini á næsta jólaballi sem verður eflaust á sama stað eftir ár. G.Þ.A. 



 Þriðjudagur 28. desember 2004



  Bátadokkin í morgun klukkan 10:15

 Miðvikudagur 29. desember 2004  -- Ein gömul:  

Helstu topparnir hjá Síldarverksmiðjum Ríkisins á Siglufirði á leið í Danmerkurferð, í boði stjórnar SR þann 24. febrúar 1965. 

Steinn Skarphéðinsson verkfæravörður - Björn Friðbjarnarson verkstjóri SR-frystihúss  - Baldur Steingrímsson rafvirkjameistari - Páll G Jónsson byggingameistari - Sigurður Elefsen vélvirkjameistari, Jóhann Garibaldason lýsismeistari og Magnús Þorláksson vélstjóri. 

Myndin er tekin er Drangur lagði frá bryggju á Siglufirði til Akureyrar, með kappana í fyrsta áfanga ferðarinnar, en fleiri SR-ingar áttu eftir að bætast í hópinn. 

Miðvikudagur 29. desember 2004  --  

Aðsent: Gleðileg jól Steingrímur minn, okkur í BJ.SV.STRÁKAR hefur borist til eyrna að björgunarsveitin hafi ekki getað farið á aðfaranótt aðfangadags til að aðstoða bíla í vandræðum á leiðinni Ketilás-Siglufjörður. 

ÞETTA ER EKKI RÉTT, OKKUR BARST EKKI NEIN BEIÐNI UM AÐSTOÐ ÞESSA NÓTT og í annan stað vegurinn var lokaður vegna snjóflóðs. 

Svo mættu einhverjir góðir pennar aðstoða okkur við að þrýsta á yfirvöld um að fá GSM endurvarpa td. á Reykjarhól, þá er komið GSM samband á ALMENNINGUNUM og í Sléttuhlíð, við óskum svo öllum Siglfirðingum nær og fjær og öðrum velunnurum gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum. ( munið það þarf einhver að láta okkur vita svo að við getum aðstoðað )

Kærar þakkir : BJ.SV.STRÁKAR. Ó.G. ---    

Björgunarsveitin Strákar



Ekki hefi ég heyrt þessa gróusögu fyrr, um að "Strákarnir" hafi ekki getað sinnt kalli, það væri eitthvað meir en lítið að ef þeir þyrftu að hafna slíku, ég er þess fullviss að þeir mundu einskis svífast til þess eins að geta veitt aðstoð þegar á þarf að halda, og þá mundi ekki ein eða tvær snjóskriður hindra slíkt. 

Þeir mundu gera viðeigandi ráðstafanir og útvega tæki til að ryðja slíkum hindrunum úr vegi. En eins og segir hér ofar; þeir þurfa að fá vitneskju um aðstoðarþörfina til að geta sinnt henni. Og hvað varðar GSM endurvarpann, þá hefur þetta verið nefnt áður en án árangurs, ef til vill þarf einhver að verða úti (frjósa í hel) áður en "herrarnir" þarna fyrir sunnan gera eitthvað í málinu. Hvernig er það með þig Kristján Möller, getur þú ekki gert ?  SK 

00000000000000000

 Miðvikudagur 29. desember 2004  

Aðsent: Heill og sæll Steingrímur og gleðilega hátíð. 

Vegna umfjöllunar um GSM samband í Fljótum og á Almenningum vil ég benda á að ítrekað hafa bæjaryfirvöld á Siglufirði verið með þetta til skoðunar og reynt eftir megni að þrýsta á málið hjá Landsímanum.  

Þann 4. júlí 2002 var eftirfarandi t.d. bókað á fundi bæjarráðs: “-  GSM samband í Fljótum og Almenningum. -

 Borist hefur bréf frá Landsímanum þar sem svarað er erindi þess efnis að komið verði á GSM – sambandi í Fljótum og Almenningum.  Landssíminn telur ekki fjárhagslegan grundvöll fyrir því að bæta GSM – sambandið á svæðinu þar sem það krefðist uppsetningar einnar eða fleiri nýrra sendistöðva.  -- 

Bæjarráð harmar mjög afstöðu Landssímans og felur bæjarstjóra að kanna málið nánar.”  Síðar hefur málið verið kannað nánar og viðbrögðin hafa því miður verið á sömu lund, þ.e. ekki er grundvöllur fyrir því að setja upp þessar sendistöðvar og þar við situr.    ÞH  

 Miðvikudagur 29. desember 2004  -- 

Og enn um farsíma  Morgunblaðið Tækni & vísindi | AP | 28.12.2004 | 13:35  - 

Farsími varð 36 breskum ferðamönnum á Sri  Lanka til bjargar. ---  

36 breskum ferðamönnum sem urðu strandaglópar við Hikkaduwa-ströndina í suðurhluta Sri  Lanka var bjargað þaðan í dag. Það varð fólkinu til hjálpar að einn úr hópnum hafði á sér farsíma sem björgunarmenn gátu staðsett, að því er stjórnandi björgunaraðgerðanna á Sari Lanka sagði í samtali við AFP-fréttastofuna. -- 

Vonandi verður aldrei þörf fyrir farsíma í álíka hörmungum hér á landi SK 

Fimmtudagur 30. desember 2004  -- 

Ein gömul:   Þessi mynd er tekin 6. apríl 1965 - 

Myndin ætti ekki að þarfnast frekari skýringa. 

Fimmtudagur 30. desember 2004  -- Aðsend mynd.  Þessi einmanna skarfur virðist vera eitthvað vankaður, eða kannski óhræddur við mannaferðir og blossa myndavélarinnar, en myndasmiðurinn Sverrir Gíslason tók nokkrar myndir af skarfinum án þess að hann gerði neinar athugasemdir við það, og hér kemur ein þeirra.  Myndavél: Canon PowerShot A75- Myndin er tekin 27.12 klukkan 13:18 



Fimmtudagur 30. desember 2004

BRENNIÐ ÞIÐ VITAR 

SÖNGSKEMMTUN KARLAKÓRS SIGLUFJARÐAR

Í BÁTAHÚSINU

30.DES 2004 KL  20,30   

Fimmtudagur 30. desember 2004 

Það hefur verið hefð í áratugi, að þegar starfsmenn SR og síðar Síldarvinnslu og SR-Vélaverkstæðis á Siglufirði eiga afmæli, þá komi þeir með tertu á borð þeirrar kaffistofu sem þeir venjulega drekka sitt kaffi á vinnustað. 

Þetta vissi ég sem gamall starfsmaður og mætti því í morgunkaffið á SR-Vélaverkstæði.  

Ég vissi að einn starfsmaðurinn, Steingrímur Garðarsson  varð 60 ára í dag og ekki brást það frekar en venjulega, tertan var mætt, raunar margar, svo og vinnufélagarnir, fyrrverandi  bæði frá vélaverkstæði, skrifstofum og Síldarvinnslunni.    Myndir HÉR

 

Fimmtudagur 30. desember 2004 


Björgunarsveitin Strákar  með sína árlegu flugeldasölu í Þormóðsbúð. 

Salan gengur mjög vel og voru drengirnir glaðhlakkalegir á svip, enda sitja þeir nú einir af sölunni í ár þar sem Kiwanisfélagar hafa hætt afskiptum á þessum markaði.



Fimmtudagur 30. desember 2004 


   Hugmyndasamkeppni um atvinnutækifæri og fjölgun starfa í Siglufirði. Siglufjarðarkaupstaður efndi til hugmyndasamkeppni um atvinnutækifæri og fjölgun starfa á Siglufirði, skilafrestur á hugmyndum var til 20. nóvember 2004. Skila átti hugmyndum inn undir dulnefni og nöfn höfunda með í lokuðu umslagi.  

Þrjár tillögur bárust. 

 Föstudagur 31 desember 2004  Ein gömul:Siglufjörður: Mynd frá apríl 1965  - tekin ofan frá mæmi á norðasta verkamannabústað við Hvanneyrarbraut (sett saman frá þremur ljósmyndum)

Föstudagur 31 desember 2004 -  

  Brennið þið vitar. 

Fjölbreytt söngdagskrá fór fram í Bátahúsinu í gærkvöld eins og auglýst var hér ofar á síðu minni. Húsfyllir var, hvert sæti skipað eða vel á þriðja hundrað manns mættu. Þeim sem fram komu var ákaflega vel fagnað og margsinnis klappað upp. Ég mætti og tók drjúgan slatta af myndum. 

Vegna fjölda mynda af þeim sem ég "pikkaði út," kemur aðeins um helmingur þeirra á síðuna á þessu ári........... restin verður að bíða til næsta árs. 1. janúar 2005   Myndirnar HÉR

  Föstudagur 31 desember 2004  

Áramótabrennan sem vera átti á Suðurtanga klukkan 16:30 í dag verður frestað til morguns (tími ekki ákveðinn) og flugeldaskotin sem hefjast áttu, eins og venjulega klukkan 21:00 á Gamlárskvöldi, hefur einnig verið frestað, allt vegna mjög slæmrar veðurspár.

Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær flugeldasýningin verður, en það verður ekki á þessu ári, samkvæmt upplýsingum frá skotdeildinni. 

Tilkynnt verður frekar um væntanlegan skotdag síðar hér á síðunni 

 Föstudagur 31 desember 2004

   Myndin hér til vinstri var tekin um klukkan 10:30 í morgun, en þá var nánast logn og hiti um frostmark. Hinar tæpum 12 tímum síðar. Eins og kemur fram hér fyrir ofar, þá ollu veðurguðirnir - eða eigum við að segja veðurfræðingarnir nokkrum usla á meðal skipuleggjanda brennu og flugeldaskota og talsverðum vangaveltum og að einnig þeim ákvörðunum að öllu eldfimum aðgerðum skyldi frestað. En eins og þegar er á allra vitorði spáðu fræðingarnir vitlausu veðri á viðkomandi tímapunktum. Leiðinda veðri með snjókomu og norðan kalda var "á tíma" brennunnar 16:30, svo það var greinilega rétt ákvörðun þess augnabliks brennumanna að fresta brennunni. (sem var samkvæmt ráðleggingu veðurstofunnar) Þó svo að veðrið sem sagt var að mundi koma hafi ekki komið. Rétt upp úr klukkan 18:30 var komið logn og orðið úrkomulaust. Þannig var veðrið þar til um kl, 23:00 er fór að snjóa (jólasnjór), með smá andvara. Það hefði sem sé ekki getað verið betra veður til flugelda skota á áður tilsettum tíma, en þeir voru í vanda staddir drengirnir, ekki síst með tilliti til veðurfræðinganna, sem í gegn um tíðina hafa átt ákaflega erfitt að spá til um veður innan fjallanna okkar. En hvað sem því líður, þá gerði logndrífan ekki mikið tilefni til myndatöku af minni hálfu um miðnættið.

Föstudagur 31 desember 2004 

Lífið á Sigló, Ljósmyndasafn Steingríms, -

 Ég og kona mín óskum öllum gleðilegs árs með þökk fyrir samfylgdina á liðnu ári. 

Ég ætlaði ekki að taka neina mynd um miðnættið vegna logndrífunnar sem hófst upp úr 23:00- en mér datt svo í hug að fara og taka mynd, svona til að athuga hverju ný myndavél mín gæti skilað við flugeldamyndir.

 Niðurstaðan var sú að stafræn myndavél mín þó fullkomin sé „getur ekki haft“ opið nema í 30 sekúndur, ekki ótakmarkað eins og gömlu góðu filmuvélin mín. 

Myndin sem ég tók var vélin opin í aðeins 20 sekúndur svo ljósadýrðin er ekki mikil, auk þess sem skyggnið var takmarkað.