Lífið 6.-12. Júní 2004

Fréttavefurinn Lífið á Sigló 

6. til 12. júní 2004

 6. júní 2004  Fyrir tæpum 50 árum, heyrði ég eftirfarandi samtal þriggja kvenna, ein þeirra var mjög háróma svo ég lagði við hlustir, en ég var á leið til að heimsækja móður mína, sem átti heima í næsta húsi sunnan við garðinn þaðan sem raddirnar komu.

 ............."þetta gengur aldrei hjá þeim, hann er alltaf á kvennafari og potar í hvert gat sem hann getur, auk þess sem hann er farinn að drekka líka." Önnur rödd: "Og þú veist að hann hefur alltaf verið mesti villingurinn hérna á eyrinni og lætur engan í friði" og svo síðustu árin hefur hann verið algjör kvennabósi. 

Þriðja röddin: "Látið ekki svona hann er ekki eins slæmur og þið haldið, ég ætti að þekkja hann, því oft hefur hann fengið hjá mér kleinu og góðgæti þegar hann var krakki og hann er ekki eins slæmur og þið lýsið". 

Tvær raddir nærri samhljóða: "Við ættum að þekkja hann, ekki verr en þú, auk þess er þetta altalað, ég er viss um að þau verða skilin innan árs." -- 

"Sjáum til, en ég er ekki sammála" sagði "þriðja" röddin, sem var rödd Ingibjargar Sveinsdóttur. Hinar raddirnar ætla ég ekki að nefna. 

En eitthvað á þessa leið hljómuðu raddirnar.  En Ingibjörg var gleggri en vinkonur hennar sem báðar eru látnar. - 

En það var ég Steingrímur og kona mín Guðný Ósk Friðriksdóttir sem þarna var talað um, þá nýkomin úr stuttri brúðkaupsferð. 

En í dag eigum við 50 ára hjúskaparafmæli og rifja ég þetta því upp. Myndin er tekin fyrir um 40 árum  af villingnum ógurlega- og temjaranum. (ljósmynd: Kristinn sonur okkar þá 4 ára (1964))    (ath. myndin var síðan handlituð og inn settur bakgrunnur) 

Tveir heiðursmenn; Páll Ásgrímsson og Andrés Hafliðason.  Tekið á sjómannadaginn 1966 (með 800 mm.. linsu, langt frá) 

6. júní 2004  


  Sjómenn: Til hamingju með daginn 

6. júní 2004   Sjómannadagurinn:   

Öllum sem vildu, var boðið í siglingu með Múlaberg SI 22, auk þess sem nokkrir minni bátar slógust í för. Farið var út undir Siglunes og aftur til baka. Myndirnar sem koma í ljós er þú smellir HÉR tala sínu máli 

6. júní 2004  

Sjómannadagurinn:    Myndir HÉR

Lagður var blómsveigur við minnismerki um drukknaða sjómenn klukkan 14:30 í dag við hátíðlega athöfn. 

7. júní 2004    Ein gömul:   Gamlir sjóhundar af Haferninum 1967:  Bjarni Þorsteinsson, Salmann Kristjánsson, Sigurjón Kjartansson, Gunnar Tómasson og Steingrímur Kristinsson. 

8. júní 2004 

Ein gömul: 

Jón Sigurðsson og Eðvald Eiríksson 


 7. júní 2004   

Sjómannadagurinn:  

Hátíðarhöldin héldu áfram í Siglufjarðarkirkju með fjölbreyttri dagskrá í gærkveldi klukkan 20:00 : - Forspjalli (af geisladisk),  Kirkjukórinn, ávarp; séra Sigurður Ægisson, sem jafnframt stjórnaði samkomunni. Almennur söngur, þá kom Gylfi Ægisson fram og söng,   Annar lestur: Gömul Sjóferðabæn, - Karlakórinn söng, Heiðruð voru sjómannshjón, - Sönghópurinn Dyfrurnar,  - Sveinn Björnsson flutti stutta sjóferðasögu, - Kvennakórinn söng,  Gústi guðsmaður söng (af geisladisk) - 

Þá komu kórarnir aftur fram og að lokum söng Gylfi Ægisson gamalt og þekkt lag, sem allir þekktu.  Myndir HÉR

 8. júní 2004  

Vegageð: 

Nú er unnið að því að leggja nýjan og breiðan veg upp í Hvanneyrarskál, áður var farið Z lagað (Hólavegur / Skálarvegur) upp í Hvanneyrarskál, en nú verður vegurinn nánast beinn, ef frá er talinn sveigurinn inn á veginn sem hefst við enda Suðurgötu norðan snjóflóðavarnargarðsins "Stóra bola" og síðan skáhallt upp norður að Hvanneyrará og- brún. 

Suðurverk vinnur verkið. 

 


8. júní 2004 

100 ára fjármálasaga.

 Þann 7. júní 2004 voru liðin 100 ár frá því að Íslandsbanki gamli opnaði. 

Af því tilefni er minnst fjármálasögu Íslandsbanka með opnun sögusýningu í útibúum bankanna um land allt. Það á að sjálfsögðu einnig við á Siglufirði, þar sem Siglfirðingum sem öðrum var einnig boðið upp á kaffi og meðlæti í gær og í dag. Sýningin stendur yfir til 9. júlí. 

En það er þó alla aðra daga  heitt á könnunni í afgreiðslunni, og allir velkomnir. 

Meðfylgjandi mynd er tekin í morgun og er af starfsfólki útibúsins á Siglufirði: 

Sigurlína Káradóttir, Kristín G Baldursdóttir, Erla Ingimarsdóttir, Kolbrún Marvia Passaro, - Sigurður Hafliðason útibússtjóri, Hörður Júlíusson og Rögnvaldur Gottskálksson 

8. júní 2004     - Á sjómannadaginn, buðu björgunarsveitin Strákar og fleiri aðilar uppá grillaðar pylsur ofl. góðgæti við Þormóðsbúð í tilefni af deginum. Á sama tíma var "opið hús" hjá sveitinni. Einhverjum af gestunum hefur ekki þótt nægjanlega vel veitt, eða vanta upp á gestrisnina,  því viðkomandi laumaði sér á bak við þar sem hann hefur séð að sótt var skiptimynt frá merkjasölu dagsins og stal þar um 20 þúsund krónum, sem þar voru í poka. Menn eru ekki vanir því að þjófar gangi hér lausir á Siglufirði og höfðu því ekki læst þessa peninga niður. - Þeir sem tekið hafa eftir óeðlilegri eign eða eyðslu einhverra, e.t.v. unglinga. Vinsamlega látið lögreglu vita af því, (þar með taldir foreldrar) - eða þá þú sem tókst þessa peninga skilir þeim,- Því athuguðu: Þú gætir þurft á aðstoð sveitarinnar að halda  og þér liði ekki vel með það á samviskunni eftir á, að hafa stolið frá þeim sem stundum leggja líf sitt í hættu til að hjálpa fólki. 

9. júní 2004    Ein gömul:  Gísli Hallgrímsson og Mikael Þórarinsson 

9. júní 2004  Þessa tvo hitti ég niður við höfn í morgun í góða veðrinu, en þetta eru Ólafur Guðmundsson og Einar Þórarinsson 

9. júní 2004  - Kanínur eru ekki algengt fyrirbæri hér í bæ, en þessi litla snót (7 ára) Katrín Valdís Arnarsdóttir á nokkrar kanínur sem hún hýsir í litlu snotru húsi í garði foreldra sinna. Þarna stendur hún við hlið kanínukofans með nýlega fæddan kanínuunga í fanginu. 

 9. júní 2004  - Bara biðja um það,- og þá kemur það. - Hersteinn Karlsson bað um og SR-Vélaverkstæði brást fljótt við, smíðaði tröppur handa honum og færði honum heim að dyrum. 

10. júní 2004    Ein gömul:    Jóhann G Möller og Pétur Pálsson 

10. júní 2004  -   það var blómlegt lífið fyrir utan Fiskbúðina í sólinni í gær, þarna Arnfinna Björnsdóttir  með ýmsan handiðnað til sölu, hjá henni eru gestir. 

10. júní 2004  -   Þessir krakkar voru á hjólaskautum að leika sér í gær og báðu um myndatöku, sem þeir fengu - en tveir þeirra fengu í leiðinni hjá mér átölur fyrir það að vera ekki með hjálm á höfðinu, eins og lögreglan hefur verið að brýna fyrir þeim, en aðeins einn þeirra var með hjálm, sem hann tók að vísu ofan vegna myndatökunnar, "svo hann félli í hópinn" 

10. júní 2004  - 

  Þessir krakkar voru að selja ýmsan mjög fjölbreyttan varning í gær, til styrktar fötluðum og langveikum börnum. þau voru á tveim stöðum við  Aðalgötuna og gekk vel salan sögðu þau- og voru ánægð.   

10. júní 2004   

(þeir sem þekkja nöfn þeirra, vinsamlega sendið mér) 

10. júní 2004    Unglingavinnan í bænum er fyrir löngu komin á fullt. - Þarna eru nokkrir að hreinsa til og hlúa að gróðrinum norðast við Hvanneyrarbraut 


10. júní 2004  

Hann er ekki aldeilis af baki dottinn hann Kiddi G.,   unglingurinn síkáti. 

Nú er hann búinn að kaupa sér bát, að vísu með syni sínum sem heitir Georg Páll Kristinsson og býr á Ólafsfirði. Báturinn heitir Rán. - 

En spurningin er hvort sett verður í staðinn fyrir Reykjavík (þaðan sem báturinn var keyptur) komi „Siglufirði eða Ólafsfirði“, eða bara "Ólafsfirði-Siglufirði" að minnsta kosti þangað til bæjaryfirvöld beggja staða ákveða kosningadaginn um sameiningu bæjanna. 

Kiddi ætlar ekki að sækja um byggðakvóta, sagði hann og glotti, en maður fiskar í soðið. 

Myndin var tekin í morgun af Kristni Georgssyni er hann var að dytta að bátnum sínum. 

11 .júní 2004   -  Ein gömul:  Jakob Björnsson, Ólafur Gíslason, Njáll Hallgrímsson og Jón Sigurðsson 

11 .júní 2004 - Unnið er á fullu við að þekja og ganga frá Torginu, fyrir 17. júní næstkomandi 


11 .júní 2004 

BOMMB

Enn eru þeir að sprengja í fjallinu vegna snjóflóðavarnargarðanna og nú síðast seinnipartinn í gær. 

Grjótið, stórt sem smátt hentist á annan tug metra upp í loftið.

Engin hætta hefur þó verið á ferðum, fyllsta öryggis hefur ætíð verið gætt, mannaferðir og umferð  um nágrennið stöðvuð á meðan. 

En þarna eru greinilega fagmenn að verki, þar sem grjótið fer nánast beint upp í loftið, en ekki niður hlíðina að byggðinni- og akvegum. 

11 .júní 2004   - Fyrsta vinna vegna snjóflóðagirðinga ofan og norðan Hvanneyrarár eru hafnar, en þarna uppi er nú grafa að störfum. 

11 .júní 2004   - Síldarminjasafnið: Aníta Elefsen, Steinunn Sveinsdóttir og ? að selja
T-boli fyrir safnið



11 .júní 2004 


Gallerí Sigló Suðurgötu 6 á Siglufirði. "Stelpurnar" í gallerí Sigló eru í óða og önn að vinna að hinum fjölbreytilegustu minjagripum tengdum síldarævintýrinu og Siglufirði. 

Hjá þeim kennir margra "grasa" handmálað postulín og margt fleira. - 

Þá taka þær við sérpöntunum, bæði mynstur og texta að ósk kaupanda, 

Tilvalið til tækifærisgjafa og minninga svo dæmi sé nefnt. 

Þær senda hvert á land sem er og  hafa opið alla daga frá klukkan 13-18.

Sími þeirra er: 846-9212 og 846-7065 

12 .júní 2004  - Ein gömul:   Þorleifur Halldórsson, Ámundi Gunnarsson, Halldór Bjarnason og Þórður G Andersen. 

12 .júní 2004   -  Kirkjutröppurnar.  Verið var að hella steypu í mót  neðstu trappanna, seinnipartinn í gær. 

12 .júní 2004  

Þekktir kappar:  

Eysteinn Aðalsteinsson fisksali og Bjarnason pípari.  

(myndin var tekið seinnipartinn í gær)

 

Það skal tekið fram vegna þess sem fyrir aftan þá stendur, að þeir félagar eru ekki á útsölu, og kosta meira en 500 krónur stykkið. - 

Verðmiðinn á við um torgsölu varning, hálsklúta. 

12 .júní 2004 Þessi litla snót heitir Brák Jónsdóttir, hún er þarna framan við Fiskbúðina og er að bjóða til sölu varning sinn sem hún hefur sjálf unnið. Snemma beygist krókurinn því bæði móðir og amma eru listakonur.

Við hlið hennar situr viðskiptavinur; Geirrún Jóhanna Viktorsdóttir.

(tekið seinnipartinn í gær) 

 12 .júní 2004  -  Fyrir framan Fiskbúðina var "Síldarminjasafnið" að selja skemmtilega merkta boli í úrvali lita. (tekið seinnipartinn í gær)

 

  Dagskrá 17. júní hátíðarhaldanna  hér fyrir neðan  

17.júní- 60 ára lýðveldisafmæli 2004

 Kl.       08.00   Fánar dregnir að húni

 Kl.       10.30                Dagskrá að Hvanneyri

                                     Ávarp þjóðhátíðarnefndar

                                     Kórsöngur

                                     Ávarp forseta Bæjarstjórnar

                                     Lagður  blómsveigur að leiði séra Bjarna Þorsteinssonar

                                     Hugvekja

 Kl.       11.00               Víðavangshlaup U.M.F. Glóa

                                     Mæting í skráningu kl.10.30 við Ráðhúsið.

                                     Verðlaunaafhending að keppni lokinni

 Kl.       13.30               Skrúðganga frá Siglufjarðarkirkju

                                    Gengið um bæinn og að Torginu         

 Kl.       14.00               Dagskrá af hátíðarsviði á Torgi

                                     Blásið úr kirkjuturni

                                     Kórsöngur

                                     Hátíðarræða

                                     - Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, fyrrverandi skólastjóri

                                     Ávarp fjallkonu

                                     Anna Snorradóttir heiðruð

                                     Dyfrurnar syngja

                                     Atriði úr Silfri hafsins

                                     Vígsla á ný  endurbættu Torgi

                                     Karíus og Baktus

                                     Götuleikhús

                                     Tóti og félagar

                                     Hljómsveitin Tvöföld áhrif

 Kl.       15.00-17.00    Kaffisala á vegum K.S. og S.S.S. á Kaffi Torg

 Kl.       17.00   Dagskrá á tjaldsvæði

                                     Knattspyrna 7. flokkur Norðurbær - Suðurbær

                                     Krakkablak

                                     Slábolti meirihluti-minnihluti

                                     Limbókeppni

 Kl.       20.30               Dagskrá af hátíðarsvæði

                                     Harmonikkusveitin

                                     Dansklúbbur Siglufjarðar

                                     Tóti og félagar

                                     Tvöföld áhrif

 Kl.       23.30               Dagskrárlok

 Sérstakt fyrir börnin:  

Hoppukastalar -  Andlitsmálning -  Fánar, gasblöðrur - candyflos,  tívolí sælgæti.      

 Ef veður hamlar verða hátíðarhöldum af hátíðarsviðinu færð inn í Bátahúsið.

 Bæjarbúar hvattir til að mæta