16. júlí:
"Ummæli Boga"
Á "Hátíð í bæ" þar á Bogi að hafa gefið í skyn eða sagt, "Ég hefi að vísu verið fjarverandi frá minni byggð í nokkra daga, en að gefnu tilefni hafði ég uppi spurnir um þennan hátíðarbrag, sem gefið er í skyn að hér hafi ríkt eftir síðustu kosningarloforðin sem notuð verða aftur fyrir næst kosningar."
Enginn af þeim sem ég hefi rætt við, kannast við neina gleði vegna þeirra yfirlýsinga sem síðast hafa komið frá loddurunum.
Þar á meðal voru tveir harðir (e.t.v. fyrrverandi) framsóknarmenn og einn áður fyrr, eldharður sjálfstæðismaður (ekki lengur í flokknum).
Enginn viðmælanda hafði trú á að staðið yrði við þessi loforð frekar en hin fyrri. Og ef einhver Siglfirðingur er í raun ánægður með þennan litla mola, eða í raun bragð af mola sem upp í þá var stungið, þá segi ég "Svei skít" S.K.
16. júlí: Hvar verður þú um verslunarmannahelgina? (Fréttabréf frá bænum)
Þegar Siglufjörður var síldar höfuðstaður heimsins unnu þúsundir verkamanna og kvenna við síldina og nokkurs konar gullgrafara stemning var ríkjandi.
Íbúafjöldinn var eins og í stórborg, allstaðar líf og fjör. Þessa stemmingu viljum við endurvekja um verslunarmannahelgi, vonandi með þinni þátttöku.
Margt verður til skemmtunar - Hljómar, Miðaldamenn, Stormar, Harmonikkuleikarar ofl. spila fyrir dansi, Fílapenslar skemmta, Sprell leiktæki verða á staðnum, Leikfélagið verður með barnadagskrá, Síldarsöltun og söngvakeppni, messa í Hvanneyrarskál, hestaleiga, golf og fleira mætti telja. Láttu þig ekki vanta - maður er manns gaman - fjörið verður á Sigló!
16. júní 13:00 Alls eru nú komin á land hér á Sigló um 28 þúsund tonn af loðnu og eitt skip á leiðinni, Færeyingurinn Finnur fríði með 450 tonn
7. júlí
Gosbrunnurinn, sem nýlega var settur upp á torginu, ekki hafði ég enn tekið af honum ljósmynd, en ég var að bíða eftir "réttu augnablikinu" en nú hefur hann verið eyðilagður.
Viðkomandi mynd af vatnslausum brunninum eftir skemmdina, tók Svava Guðmundsdóttir. (Júlíus Hraunberg) -- Ekki er enn á almennu vitorði hver sá vanþroskaði er.
En ég hefi smá skilaboð til hans. Ég reikna með að þú sért óþroskaður "karlmaður" (þú villt eflaust vera álitinn karlmaður, en það ertu greinilega ekki.) -
Sennilega ertu í yngri kantinum. Skilaboðin eru þessi: Láttu mig vita hvar þú átt heima, ég skal gera mitt besta til að útvega einhvern á svipuðu þroskaskeiði og þú ert, útvega honum sleggju og biðja hann að brjóta eitthvað inni í herberginu þínu, hljómtækin þín til dæmis, þú getur eflaust valið og farið verður eftir óskum þínum. S.K.
7. júlí 10:30
Allir þekkja Ragga á Kambi, Ragnar Helgason, hann hefur stundum, nú seinni árin verið kallaður "unglingurinn á reiðhjólinu".
Ragnar er orðinn rúmlega 76 ára. Hann er gamalreyndur sjómaður, en löngu hættur störfum.
Hans aðal áhugamál er flakk á reiðhjóli sínu og göngutúrar. Varla er sá blettur innan fjarðarins og nágrennis, sem hann hefur ekki kannað á ferðum sínum sem hann sinnir daglega, hvernig sem viðrar.
Hann hefur að sínu mottói; skilaboð frá Ólafi Þorsteinssyni heitnum lækni. "Láttu ekki deigan síga og hreyfðu þig sem mest."
7. júlí 10:15
Neta og veiðafæragerðin.
Ég leit inn á verkstæðið og þar fyrir voru hin gamla kempa Páll Gunnlaugsson, fyrrverandi togarasjómaður af gamla skólanum og nú netamaður - Og ungur Siglfirðingur Ingvar Kristjánsson á fullu við að hnýta net í nýja flotvörpu.
Utandyra var einnig gömul kempa frá gömlu togurunum, Kári Jónsson, ásamt sér yngri; Hörður Harðarson og Ásgrímur Antonsson á splæsa "kuntu" eins og það heitir á togaramáli.
8. júlí 09:45
Vinna við undirbúning að gerð snjóvarnargarðana fyrir ofan bæinn gengur vel að manni sýnist.
Ég fór á vettvang í morgun, en þar voru menn önnum kafnir við vegagerð, til að auðvelda vinnu við sjálfan garðinn.
Ekki náði ég tali af starfsmönnum að þessu sinni. Verið var að keyra stórgrýti á stóran flöt sem virtist frekar hreyfanlegur er þessi stóru tæki fóru yfir hann, en fyrst fóru grjót bílarnir yfir svæðið, sturtuðu grjótinu og ýtan sléttaði síðan hauginn svo bílarnir kæmust til baka. Fleiri myndir á tenglinum "Garðarnir 2003"
8. júlí 14:15 -
Málningarvinna við hús voru í framkvæmd á nokkrum stöðum í bænum.
Þarna er Mark Duffield að störfum við hús í Aðalgötunni.
9. júlí 10:15 -
Víkingur AK 100, kom hingað í gærkveldi með tæpleg 600 tonn af loðnu og rifna nót til viðgerðar, sem unnið er að viðgerð á hjá Neta og veiðafæragerð Siglufjarðar nú í dag.
9. júlí 10:30 -
Byggingafélagið Berg, hefur hafið undirbúning að smíði "báta húss" fyrir Síldarminjasafnið. Áætlað er að það verði fokhelt í nóvember, en verki ljúki í maí á næsta ári. Þarna er Birgir Guðlaugsson byggingameistari, að taka úr hæðarlínur og stefnur, vegna límtrés bita, sem þar koma. Að sögn hans var forverk grunnarins og undirstöður, ekki samkvæmt því sem æskilegt er við svona verk, mikið um stóra +/- hæðarflata og stefna.
9. júlí -
Mikið og gott starf vinnuhópa unglinganna hefur verið unnið það sem af er sumri og stendur enn.
Þarna eru tveir, eða fleiri vinnuhópar í pásu og sumir að næra sig.
10. júlí 08:30 -
Norska loðnuskipið Inger Hildur kom hingað rétt fyrir kl. 10 í gærkveldi með rúm 700 tonn af loðnu.
Þá var að landa Furen með tæplega 300 tonn.Nú bíður Liafjell frá Bergen, með um 800 tonn.
Alls eru þá komin til bræðslu hjá S.V. um 21.200 tonn
16. júlí 07:45 -
Þessar rollu tu..... eru ekki út í sveit, þær eru við húsgaflinn minn norðast í bænum, voru raunar fyrir neðan svefnherbergisgluggann minn mestan hluta fyrrverandi nætur og héldu fyrir mér vöku.
Annar rolluhópur hélt íbúum sunnar í Hvanneyrarbrautinni einnig ónæði í nótt. Hvaðan þær eru, hvort mark þeirra sé eitthvað í nánd við "Mark aftan vinstra og gat undir rófunni" veit ég ekki.
En við viljum þessar rollur burt úr byggðarlaginu.
Þetta eru að minnsta kosti 10-12 stykki.
16. júlí - 467-1170 er símanúmer lögreglunnar á Siglufirði, samkvæmt símaskrá 2002 sem er flestum Siglfirðingum ferskt í minni.
Ég átti "lítilfjörlegt" erindi til lögreglunnar sl. fimmtudag (10. júlí) og hringdi í 467-1170 og svarið var "þetta númer er ótengt" Ég hélt að minni mitt væri farið að rýrna og leitaði því uppi símaskrá og fann skrána frá 2002 - jú ég hafði munað númerið rétt og hringdi aftur, en sama svar. Ég hringdi þá í uppgefinn farsíma í sömu skrá, en hann svaraði alls ekki.
Þegar ég kom heim í gærkveldi, þá fletti ég nýjustu skránni og fann þar nýtt númer 460-3950 og farsími 852-0439 auk 112 sem samkvæmt tilmælum í fjölmiðlum, er ekki ætlað til "lítilfjörlegra" erinda.
En smá ráðlegging - það er hægt að láta svarsíma 467-1170 segja "þetta númer er ótengt" Af hverju ekki "Vinsamlega hringdu í 460-3950"
En talandi um símaskrá. Af hverju í fjan..... erum við Siglfirðingar í símaskránni, sagðir tilheyra Norðurlandi vestra ?
Öll rök mæla á móti því: Siglufjörður hefur frá aldaöðli tilheyrt Eyjafjarðarsýslu - og nú Austur kjördæminu - og ofan á allt saman "miðað við skrif og talsmáta" sumra Skagfirðinga þá vilja þeir helst ekkert af okkur vita og sem allra minnst samband við okkur hafa -og það virðist vera að þróast upp í það gagnkvæma, þar sem krakkarnir á Sigló eru farnir að neita að fara þangað í skóla, ma. vegna "áreitni" í garð Siglfirskra krakka. Þetta hafa krakkar sagt mér.
15. júlí - Alvarlegt umferðarslys á Siglufirði. Frásögn á Lögregluvefnum
Alvarlegt umferðaslys varð á Siglufirði á gatnamótum Langeyrarvegar og Norðurtúns í morgun. Sautján ára ökumaður sport bíls sem ók norður Langeyrarveg á miklum hraða missti stjórn á bílnum og ók á jeppa sem var kyrrstæður á gatnamótunum með þeim afleiðingum að jeppinn valt.
Ökumaður fólksbílsins, sem var einn í bílnum slasaðist alvarlega og var fluttur með sjúkraflugi til Akureyrar. Talið er að hann hafi m.a. mjaðmagrindarbrotnað. Ökumaður jeppans, sem einnig var einn í bílnum slasaðist ekki alvarlega. Fólksbíllinn lenti á farþegahurð jeppans, en skömmu fyrir áreksturinn hafði fólk stigið út um hana þannig að litlu munaði að slysið yrði enn alvarlegra.
Hámarkshraði á Langeyrarvegi er 50 km/klst. Mjög vinsælt er að ganga eftir veginum og börn sem sækja íþróttir að Hóli hjóla mikið eftir veginum, þannig að mikil hætta stafar af hraðakstri þar. Þetta er þriðja alvarlega umferðarslysið á Siglufirði á rúmu ári, en þau má öll rekja til hraðaksturs ungra ökumanna. ---- Ljósmynd: Halldór Þ. Halldórsson.
16. júlí 09:40 -
Þetta er hann Stefán Friðriksson, afgreiðslumaður hjá Olíudreifingu á Sigló.
Hann er alltaf jafn broshýr og aldrei í vondu skapi.
Þarna er hann að afgreiða olíu á dragnótarbátinn Guðrún Jónsdóttir.
16. júlí 09:20
Það var líf við höfnina á Sigló í morgun, ekki bar þó á löndunum á afla, nema hjá S.V. þar sem Norska skipið Krossfjörd var að landa loðnu.
En verið var að dytta að nokkrum smærri bátum.
þarna var verið að hífa bátinn Heddi frændi EA-23, á þurrt.
16. júlí 09:00 -
Allir þekkja Eystein Aðalsteinsson, en þarna er hann innandyra í fiskbúð sinni Fiskbúð Siglufjarðar, en Eysteinn er gamalreyndur togarajaxl, en árið 1977 hóf hann vinnu í þessari fiskbúð Hjá Jósa og Bödda. Síðar keypti hann verslunina sem hann rekur nú af dugnaði með aðstoð konu sinnar Arnfinnu Björnsdóttir. Samkeppnin er hörð, við Versló og Úrval, en Eysteinn gefst ekki upp.
16. júlí. -
Þarna eru bæjar starfsmennirnir, harðjaxlinn Hörður Þór Hjálmarsson og Sölvi Sölvason.
Þeir hafa í nógu að snúast, enda var erfitt á fá þá til að stoppa, til myndatökunnar.
16. júní 13:00 -
Alls eru nú komið á land hér á Sigló um 28 þúsund tonn af loðnu og eitt skip á leiðinni, Færeyingurinn Finnur fríði með 450 tonn.
16. júlí: - Hvar verður þú um verslunarmannahelgina? (Fréttabréf frá bænum)
Þegar Siglufjörður var síldahöfuðstaður heimsins unnu þúsundir verkamanna og kvenna við síldina og nokkurs konar gullgrafara stemming var ríkjandi.
Íbúafjöldinn var eins og í stórborg, allstaðar líf og fjör. Þessa stemmingu viljum við endurvekja um verslunarmannahelgi, vonandi með þinni þátttöku.
Margt verður til skemmtunar - Hljómar, Miðaldamenn, Stormar, Harmonikkuleikarar ofl. spila fyrir dansi, Fílapenslar skemmta, Sprell leiktæki verða á staðnum, Leikfélagið verður með barnadagskrá, Síldarsöltun og söngvakeppni, messa í Hvanneyrarskál, hestaleiga, golf og fleira mætti telja.
Láttu þig ekki vanta - maður er manns gaman - fjörið verður á Sigló!