Sunnudagur 26. júní 2005
Ein gömul:
Gæfusamt upphaf góðs hjónabands, hófst um þær mundir sem þessi mynd var tekin af parinu Margréti Hallgrímsdóttur og Skarphéðni Guðmundssyni.
Myndina tók Hulda Kristinsdóttir. Sennilega nokkrum mánuðum áður en framleiðsla tvíburanna hófst eins og Hulda systir komst að orði, - og ég get ekki stillt mig um að endurtaka. -- Til hamingju.
Sunnudagur 26. júní 2005 Þetta er Jaðrakan
Sunnudagur 26. júní 2005
<<< Tveir hestar að "gantast" - Takið eftir drengnum sem er á hlaupum, en gefur hestunum hornauga á leið sinni. Myndin var tekinn í morgun klukkan 10:50 . Strákurinn sem þarna sést bak við hestana er Mikael Már Unnarsson
Sunnudagur 26. júní 2005
Ein gömul: Myndin er sennilega tekin um 1950
Ljósmyndari: Ókunnur.
Mánudagur 27. júní 2005 -- Ekki veit ég hvort þeir hafa verið að fá hann, eins og sagt er, en ég gat ekki betur séð en að þessir drengir hafi verið þarna einnig á laugardag þarna við Hólsána, en myndin var tekin klukkan 16:40 í gær
Mánudagur 27. júní 2005 -- Golfíþróttin er alltaf í sókn, hér á Siglufirði sem og væntanlega annarsstaðar, ef marka má að það er nánast á sama hvaða tíma dags "skroppið er á fjörðinn" þá sér maður einhvern að munda kylfunni og eða draga kylfuvagninn á eftir sér. Hér á Sigló er félagslífið á meðal "golfara" mjög virkt.
Myndin var tekin klukkan 16:45 í gær
Mánudagur 27. júní 2005 -- Loðnumjölsmagnið sem til hefur verið hér hjá Síldarvinnslunni á Siglufirði fer óðum minnkandi, og því miður ekki mjög miklar líkur á að við það bætist nú í sumar, ef marka má fréttir frá Hafrannsókn. Þetta skip kom í gærkveldi inn fjörðinn og að bryggju með aðstoð hafnarvarðar, en "b/s Sigurvin" þurfti að lóðsa skipið inn alla leið frá fjarðarmynni, sem er óvenjulegt. Rúmlega 1200 tonn verða lestuð í skipið í dag.
Mánudagur 27. júní 2005 - Frásögn úr Fiskifréttum: Mokafli fyrir norðan -- 14 tonn dagsafli á 8 tonna bát. -- Vilborg GK-320, sem er 8,7 tonna bátur frá Grindavík, landaði fyrir tveimur vikum 14,3 tonnum á Siglufirði á einum degi en í tveimur löndunum. Svo mikið var fiskiríið að gera þurfti hlé á línudrættinum til þess að fara með aflann í land og síðan farið út á ný að lokið við dráttinn. Vilborg kom norður 28. maí síðastliðinn og síðan þá er afli bátsins orðinn um 80 tonn. Afli á bala hefur farið upp í 800 kíló. --- Ástþór skipstjóri á bátnum segir ekkert lát virðist vera á hinu mikla fiskirí á Fljótagrunninu og þar austur af köntunum. Þetta er yfirleitt mun stærri fiskur en hefðbundinn "Norðlendingur" Ekki er mikið æti í fiskinum. Skipstjórinn segist eiginlega vera agndofinn yfir þessu moki. Aflanum er ekið til Hafnarfjarðar til verkunar. Búist er við ýsugöngu á þessum slóðum innan tíðar.
Mánudagur 27. júní 2005
Mikið líf er í sjónum miðað við fuglager um allan fjörð.
Kríur, máfar og múkkar í hundraðatali í stórum hópum stinga sér eftir æti og allir virðast fá nóg í sinn gogg.
Gamalreyndir sjómenn hafa talið að þarna sé síli á ferð í miklu magni og fiskur undir sem raði þeim í sig og reki upp í yfirborðið þar sem hin fiðruðu átvögl taka við. Trillukarlarnir hafa einnig sagt að það séu ufsatorfur en ekki síld sem reki áfram þessi veisluhöld.
Og það hefur reynst rétt miðað við svarta ufsana sem flugu upp í loftið innan um kríurnar framan við Síldarminjasafnið í morgun. Texti: ÖK
Mánudagur 27. júní 2005
Líf og fjör á Lónkoti í Skagafirði --
Þar voru nokkrir Siglfirðingar að sýna sig og sjá aðra nú um síðastliðna helgi -
Og auðvitað var verslað á Markaðnum í leiðinni.
Sveinn Þorsteins, var þarna mættur og tók þessar myndir hér til hliðar og fyrir neðan .
Þriðjudagur 28. júní 2005
Síldarminjasafnið er ekki aðeins sýningarstaður þeirra sem muna Síldarævintýrið eins og það var hér áður fyrr, heldur ekki síst fyrir núverandi yngri kynslóð og þeirra sem á eftir koma.
Bátahús Síldarminjasafnsins er einn heimur út af fyrir sig, sem sýnir glögglega hvernig umhorfs var við ósköp venjulegra síldarbryggju, bryggju sem gæti verið hvar sem er á norður eða austurlandi.
Ég hvet alla sem ekki hafa enn komið norður á Siglufjörð og barið þessar gersamir augum, að drífa nú í því og koma og skoða Síldarminjasafnið. Slík heimsókn er á við hvaða utanlandsferð sem er og það sem meira er; skilur meira eftir, ekki aðeins í pingjunni, heldur einnig í hinu andlega umhverfi einstaklingsins.
Hér eru nokkrar myndir sem sýna lítið brot af því sem er í Bátahúsinu,
Þriðjudagur 28. júní 2005 -- Grenndar kynning -- Laust eftir hádegið voru bæjartæknifræðingurinn Sigurður Hlöðversson og Ólafur Kárason bæjarráðsmaður og Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt á vettvangi snjóflóðavarnargarða ofan við Hólaveg með íbúum við Hólavegin að skoða og ræða um framkvæmdirnar og frágang á svæðinu, meðal annars vegna vatnsfráfalls úr fjallinu
Þriðjudagur 28. júní 2005
Ein gömul: Sigríður Pálsdóttir og Björk Vilhelmsdóttir
Ljósmynd: Hulda Kristinsdóttir
Miðvikudagur 29. júní 2005
Ein gömul:
Ábending hefur komið um nöfn þessara manna:
Stefán Þórarinsson -- Jón í Koti og Ægir Jóakims ????????? Stefán Þórarinsson - Stebbi Gústa Ólafur Eiríksson - Óli Eiríks. ????
Miðvikudagur 29. júní 2005 Hólsbrýr - Þessar tvær myndir eru teknar frá svipuðu sjónarhorni, en með 13 mánaða millibili 2004 - 2005. Spurning vaknar: Hvenær ætli þessi nýja Hólsbrú, eða brúin yfir Hólsá (Fjarðará), verði tekin í gagnið. Því þó svo að göngin verði svikin einu sinni enn, þá er jú búið að byggja "friðþæginguna" og ætti ekki að skaða neinn að taka hana í gagnið, því fyrr því betra
Miðvikudagur 29. júní 2005
Reiknimeistarinn Gunnar Birgisson, varð allt í einu "heimsfrægur" á síðastliðnum vetri þegar hann lagði fram sínar "rökstuddu" forsendur fyrir arðsemi Héðinsfjarðargangna, sem voru allt aðrar en þær sem Vegagerðin hafði lagt fram og hann á sínum tíma skrifaði undir.
Nú hafa vaknað grunsemdir um að ástæða sé til að hann endurreikni þá útreikninga sína, og eða skýri frá hvernig arðsemisútreikninga hann noti til að reikna arðsemi óperuhallarinnar sem hann vill reisa í Kópavogi.
Hvort það sé höfðatala þeirra sem búa á stór Reykjavíkursvæðinu, eða þeirra sem koma til með að NOTA meint óperuhús ?
Vissulega er þörf á að halda við og byggja upp menningarþætti, hverju nafni sem þeir nefnast, jafnvel fyrir mjög þröngan hóp eins og óperu unnendur. En maður eins og Gunnar sem væntanlega vill láta taka sig alvarlega, verður að fara varlega fram á völlinn þegar hann leggur fram hugmyndir sínar, hvort heldur hann er með eða á móti þessu eða hinu.
Hann þarf að vera sjálfum sér samkvæmur þegar hann reiknar. Eða finnst honum hann vera það?
Miðvikudagur 29. júní 2005 Heill og sæll Steingrímur --
Ég er ein af '65 árganginum sem ætlar að hittast á Siglufirði um þjóðlagahátíðarhelgina.
Ég er þessa dagana að skanna inn myndir af okkur frá gamalli tíð og datt í hug að senda þér þessa sem var tekin í Reykholti þegar við vorum í 12. ára skólaferðalaginu, með áskorun til allra í árganginum um að mæta á mótið --
Herdís Sigurjónsdóttir
Miðvikudagur 29. júní 2005 --- Væntanlegar aflaklær. Þessir ungu veiðimenn eru annar svegar að huga að hornsílum í tjörninni framan við Síldarminjasafnið, en hins vegar að veiða síli með vatnsfötu við flotbryggju í Bátahöfninni.
Miðvikudagur 29. júní 2005
Óskemmtilegt er að horfa á veiðibjölluna hakka í sig nýfædda kolluunga, eins og þessi sem var að gæða sér á unga, úti á hólmanum á Eyrartjörn í morgun.
Fimmtudagur 30. júní 2005
KK og Ellen koma á Sigló á föstudaginn. 1. júlí
Ellen og KK ferðast um landið – Raddir og gítar ---
Systkinin Ellen og Kristján Kristjánsbörn ferðast um landið og leika á tónleikum þessa vikuna. Þau leika lög frá löngum og farsælum ferli beggja í bland við nýjar perlur sem þau hafa verið að taka inn á efnisskrána undanfarið ásamt nokkrum tökulögum.
Síðustu vikurnar hafa þau komið fram á nokkrum tónleikum og hafa viðtökurnar verið frábærar og skemmst er að minnast tónleika á Kirkjudögum þar sem þau léku í sneisafullur Hallgrímskirkju.
Flutningur þeirra þykir vera einlægur og að sama skapi laus við óþarfa skraut enda er ekki annað á ferðinni en gítar og raddir. G.A.
Fimmtudagur 30. júní 2005 -- Ein gömul: Sigurjón Jóhannsson - Þorsteinn Jóhannsson og Alexander Helgason 1948 (?)
Fimmtudagur 30. júní 2005
Þéttur þokubakki lá yfir í botni fjarðarins klukkan 09:30 í morgun - raunar einnig að hluta í austurfjöllunum - en frá miðnætti hefur verið rakasamt loft og náð hefur 2,2mm regnmagni til hádegis í dag.