1. júlí 2004
Ein gömul:
Þegar þessi mynd var tekin árið 1964, þá voru engir krana á Siglufirði sem gátu teygt sig nógu langt til þessa verks- og því þurfti handafl til svona hluta. Búið var að reisa sjálfan "reykháfinn" en eftir var að koma hattinum (vindskilju) ofan á hann- og þetta voru vinnubrögðin. Allt gekk vel undir stjórn Sigurðar Elefsen verkstjóra á Vélaverkstæði SR, sem sjálfur var uppi á pallinum og tók þátt í átökunum. Þetta var vegna soðmjölsverksmiðju SR, sem staðsett var í norðvesturenda stóra mjölhússins. (Ákavíti) Verksmiðjan gekk undir nafninu "Niro"
1. júlí 2004
Til þjónustu reiðubúnar. Þessar brosmildu meyjar þjónuðu gestum Síldarminjasafnsins vegna heimsóknar Hákons krónprins þann 29. júní síðastliðnum. -- Margrét Ósk sendi mér myndina.
(ég er ekki alveg viss um nöfn þeirra allra, einhver láti mig vita?)
1. júlí 2004
Ég var spurður að því í morgun, af hverju engar myndir hafi komið á síðu mína frá veislunni sem haldin var sl. þriðjudagskvöld á vegum Síldarminjasafnsins til heiðurs ýmsum "stórmennum" og völdum stuðningsmönnum safnsins.
Ég kom "af fjöllum" því þetta var í fyrsta sinn sem ég heyrði af nefndri veislu, raunar eru nokkrir í viðbót búnir að nefna þetta við mig í morgun. Aðspurður sagði mér Hafþór Rósmundsson stjórnarformaður safnsins, (í morgun) að þarna hefðu verið ýmsir þekktir menn, forseti alþingis, þingmenn, fv. þjóðminjavörður, fv. fiskifræðingur og fleiri þekktir fyrrverandi og núverandi embættismenn, utanbæjar sem innanbæjar- svo og ýmsir þeir sem við uppbyggingu safnsins hafa starfað auk maka.
En þar sem ég var ekki á vettvangi af augljósum ástæðum, koma engar myndir né frekari frásagnir af þessari veislu hér á mínum síðum. -
En áhugi minn á safninu mun halda áfram sem hingað til- og ég mun að sjálfsögðu halda áfram að kynna atburði í kringum safnið, fái ég að vita af þeim- og þjóna hagsmunum þess sem hingað til. S.K.
1. júlí 2004
Að gefnu tilefni: Það var löngu ákveðið að láta mig vita af veislunni sem sagt er frá hér fyrir ofan- og raunar ákveðið að mér yrði boðið í veisluna ásamt maka, (nafn mitt var á listanum) sem eins af velunnurum safnsins, og einnig sem fréttamanns.
Við erum öll mannleg- en röð mistaka ollu því að talið var að haft hefði verið samband við mig, en það hafði misfarist. -
Og var ég nú fyrir hádegið beðinn afsökunar á því öllu saman.
Þá vitum við það og allt í góðu lagi.--
2 júlí 2004 Ein gömul: Eðvald Eiríksson og Þorsteinn Einarsson.
2 júlí 2004 Björgunarskólaskipið Sæbjörg kom hingað í morgun, í ferð sinni umhverfis landið, til að gefa sjómönnum tækifæri til frekari náms og upprifjunar á störfum sjómanna hvað slysavarnir og hvað gera skuli ef slys ber að höndum. Hér verða þeir fram í næstu viku.
2 júlí 2004 Það er ekki óalgengt að brottfluttir Siglfirðingar komi heim með vissu millibili á æskustöðvarnar og er ekkert nema mjög gott um það að segja. Nú um komandi helgi verða hér 2 árgangar í heimsókn, árgangur 1939 og 1954. Skiltið hér sýnir gjarnan, hvernig þessum árgöngum er fagnað af heimamönnum.
2 júlí 2004 Vinsæll samkomustaður. Það var "fjölmennt" á þaki húss sýslumannsskrifstofunnar í morgun. Ef til vill eru þær að ræða herferðina sem nú er í gangi á móti veiðibjöllunni. Og veiðibjöllurnar að mótmæla þarna á þakinu ?
2 júlí 2004 Undanfarnar vikur og þó sérstaklega síðasta sólarhring hafa margar tölvur orðið fyrir harkalegri árás tölvu glæpamanna, bæði hvað varðar í póstkerfin og netkerfin almennt varðar. Tölvan mín hefur ekki sloppið við þetta frekar en aðrar fasttengdar vélar. Þúsundir þrjóta hafa reynt það að komast inn á mína tölvu síðust 30 daga og yfir 4600 það sem af er núverandi viku og um 95 bara í dag, þó svo að ég hafi lokað fyrir netið meirihlutann í dag vegna keyrslu forrita sem leita vírusa sem hugsanlega kynnu að hafa sloppið inn fyrir (samkvæmt eindregni ráðleggingu McAffee). - Meðal annars fékk ég á einum klukkutíma um hádegisbilið 6 heimsóknir frá W32-Netsky.b.eml.zip (póstvírus) - Skriftuveirur og trójuhesta, eru hin mesta plága, þó svo að góður hugbúnaður nái til að stöðva þá flesta, geta sumir tafið og eða hreinlega stöðvað umferðina. Eins og nú hjá mér frá klukkan 10:30 til 14:30 á meðan ég vann við að útiloka og tortíma þessum kvikindum.
2 júlí 2004
Síðan Lífið á Sigló á afmæli í dag.
Einn af lesendum síðunar Lífið á Sigló -hringdi í mig um kaffileytið í dag og óskaði mér til hamingju með daginn. Ég áttaði mig ekki á hvað því hvað vakti fyrir vini mínum fyrr en hann minnti mig á að síðan mín "Lífið á Sigló" fór fyrst á netið 2. júlí 2003, kl. 20:00 og ætti því eins árs afmæli í dag. Ekki verður nein veisla í tilefni af þessum degi, en ég minnist þess er ég ræddi við fyrrverandi vinnufélaga mína, um það hvað ég myndi gera þegar ég verði látinn hætta vinnu hjá Síldarvinnslunni vegna "elli", fyrir rúmu ári síðan. Þá sagði ég að ég mundi hafa nóg að gera við ljósmyndasafnið mitt, skráningu o.s.f.v. Og svo gæti orðið ágæt viðbót að gefa út fréttablað á netinu svona til að hvíla mig frá skráningunni. Fréttablaðið varð að veruleika, því ég hófst handa strax þegar ég hætti störfum hjá SV. (SR) En dæmið snérist við, - nú fer 70% af "frí"-tíma mínum, 4-10 tímar (stundum sólarhringur) á dag í Lífið á Sigló, 10-20% í skráninguna og restin í konuna og sjónvarpsgláp.
Laugardagur 3. júlí 2004
Ein gömul: 1964 +/-
Unglingar síldarstúlkur á Hafliðaplani:
María Jóhannsdóttir og systir hennar Ólína Sigríður Jóhannsdóttir
Laugardagur 3. júlí 2004
Velli, eins og allir þekkja hann, fullt nafn Sverrir Björnsson kom í morgun að landi á fleytu sinni Viggó SI um klukkan 10:00 -með tvo hákarla.
Hann var búinn að koma öðrum þeirra í frystir, til sölu á Dalvík, en var að gera að hinum á Óskarsbryggju er mig bar að garði.
Skepnan var "hrognafull" eða á maður að segja "eggjafull", en miðmyndin sýnir það sem inni í skepnunni var.
Hvert egg er á stærð við tennisbolta.
Lifrina var Sverrir búinn að fjarlægja að mestu og gefa fuglinum sem á tæpum 10 mínútum náði að éta alla lifrina úr hákarlinum, um 100 kg.
Laugardagur 3. júlí 2004
Ég frétti af árgangi 1939 sem var í heimsókn í Barnaskólann í morgun klukkan 10:30 og stilltu þau sér góðfúslega upp fyrir mig til myndatöku- og þetta er árangurinn. Nöfnin koma seinna.
Einhverja vantar þó á myndina td, Sverrir Björns, sem hafði um annað að snúast eins og myndirnar hér fyrir ofan bera með sér.
Laugardagur 3. júlí 2004
Það er algengt að bílar séu dregnir af bílum og öðrum farartækjum á hjólum, en ekki er það algengt að bílar séu dregnir sjóleiðina af bátum í bókstaflegri merkingu.
þetta átti sér stað í dag um hádegið, er Sigurvin, björgunarsveitarbáturinn kom með fólksbíl í togi inn á Siglufjarðarhöfn.
Þetta var bifreið vegagerðarinnar sem rann út af Siglufjarðarvegi niður í fjöru 15. júní sl. neðan við Skriðurnar. Vegagerðin er vön að hreinsa til eftir sig og lét því sækja hræið úr fjörunni- og einfaldasta leiðin var sjóleiðin.
Sunnudagur 4. júlí 2004 Ein gömul: Henriksenplaninð
Sunnudagur 4. júlí 2004 Nú í fyrsta sinn reynir á og er framkvæmd á Siglufirði, alþjóðleg tilskipun um lokun hafnarsvæðis þar sem erlend skip koma í höfn.
En erlenda gámaskipið Mánafoss, kom hingað í morgun eins og raunar um hverja helgi, undanfarna mánuði. Hafnarsvæðinu var lokað- og engin óviðkomandi umferð leyfð.
Mánudagur 5. júlí 2004 Ein gömul: SR árið 1960
Mánudagur 5. júlí 2004
Aðsend mynd, tekin þann 21. júní sl. í Kálfsdal, í fjallinu austur af Siglufirði (Kálfsvatn) Arnar B
Mánudagur 5. júlí 2004
Í góða veðrinu í gær skrapp ég inn í Skútudal ásamt konu minni.
Í bakaleiðinni var okkur boðið í kaffi í sumarbústaðnum þeirra Eysteins og Abbíar.
Mánudagur 5. júlí 2004
Skólaskipið Sæbjörg er hér enn eins og sagt var frá hér fyrir helgi.
Ég fór þar um borð í morgun, en áhafnir flestra togaranna okkar Siglfirðinga/Ólafsfirðinga eru í höfn og eru þar á námskeiði og upprifjun í slysavörnum og fleiru tengt sjómannsstarfinu.
Ég ræddi lítillega við suma þeirra og var ekki annað að heyra en þetta væri kærkomin viðbót og fullyrtu þeir að þessar ferðir Sæbjargar um landið hafi margsannað sig- og bjargað mörgum mannslífum, sem er jú höfuðtilgangur þessara námskeiða.
Mánudagur 5. júlí 2004
Á fundi bæjarráðs Siglufjarðar 25. júní sl.: Sameiningarmál. Ólafur Kárason greindi frá fundi stýrihóps um sameiningarmál í Eyjafirði sem haldinn var s.l. þriðjudag. Samþykkt var á þeim fundi að Háskólinn á Akureyri gerði hagkvæmnisathugun á því að sameina öll sveitarfélög í Eyjafirði og verður þeirri vinnu hraðað eins og kostur er. Jafnframt var fundað með sameiningarnefnd ríkisins.
Mánudagur 5. júlí 2004
Sparisjóður Siglufjarðar afhenti Knattspyrnufélagi Siglufjarðar nýjan og fullkominn tölvubúnað í morgun og vildi með því veita félaginu sérstaka viðurkenningu fyrir að ná þeim árangri að vera Fyrirmyndarfélag ÍSÍ en félagið fékk þá viðurkenningu afhenda á ársþingi ÍBS fyrir skömmu.
Sparisjóðurinn hefur lengi verið einn af aðal styrktaraðilum KS og hefur með þessari gjöf enn og aftur sýnt félaginu einstakan velvilja.
Ólafur Jónsson afhenti Þóri Hákonarsyni formanni KS búnaðinn í hádeginu og kemur hann sér afar vel fyrir félagið, sérstaklega nú þegar mikil vinna við skipulagningu Pæjumótsins fer í hönd.
Þriðjudagur 6. júlí 2004
Ein gömul:
Guðrún Halldórsdóttir og Valgerður Ólafsdóttir
Þriðjudagur 6. júlí 2004
Ég verð ekki í bænum í dag- kem seinnipartinn til baka. S.K. 892-1569
Þriðjudagur 6. júlí 2004 Loðnuveiðiskipið SIKU kom inn í dag með fullfermi af loðnu. Það voru ekki allir hressir með það að veiðiskipið þurfti að bíða löndunar einhverja klukkutíma á meðan losuð var olíu úr olíuskipinu OLIVIA. Myndin hér sem Sveinn Þorsteinsson tók, sýnir olíuskipið yfirgefa höfnina og Siku sigla að löndunarbryggjunni. - Það var raunar mjög mikið um að vera í Siglufjarðarhöfn. Væntanlega koma fleiri yfirlitsmyndir á síðuna mína á morgun.
Þriðjudagur 6. júlí 2004 Siglufjarðarskarð var mokað í dag, af þeim litla snjó sem þar var eftir á veginum. Umferð verður þó ekki hleypt á veginn fyrr en hann hefur náð að þorna, -sennilega ekki fyrr en n.k. laugardag.
Myndin er tekin í dag kl. 18:15
Þriðjudagur 6. júlí 2004
Allir Siglfirðingar þekkja Siv Friðleifsdóttir ráðherra, enda mikið af Siglfirsku blóði í æðum hennar. Hún heldur úti öflugri heimasíðu, -þar á meðal skrifar hún dagbók. Í dagbók hennar á síunni http://www.siv.is undir dagsetningunni:
Vikan 27. júní-3. júlí 2004 má lesa fróðlegar upplýsingar um ferð hennar með Norska krónprinsinum, er hann heimsótti Siglufjörð 29. júní sl..
En heimsókninni er lýst nákvæmar en hingað til hefur komið fram á prenti.
Miðvikudagur 7. júlí 2004 Ein gömul: Tveir góðir saman,
Páll Erlendsson og Georg Andersen.
Miðvikudagur 7. júlí 2004 Eins og sagt var frá í gær kom Grænlenska loðnuskipið Siku með loðnu til Siglufjarðar, það voru um 1100 tonn- og bræðslan var sett í gang seinnipartinn í gær til að vinna aflann.
Miðvikudagur 7. júlí 2004 Grænlenska rækjuveiðiskipið Regina C kom hingað í gær með rúmlega 600 tonn af frosinni rækju og var byrjað að losa skipið um kl 4 í nótt.
Það er Þormóður Rammi Sæberg hf. sem kaupir þennan afla skipsins, auk þess sem systurskip þessa stóra veiðiskips er væntanlegt með svipaðan afla næstkomandi laugardag.
Miðvikudagur 7. júlí 2004 Siglufjarðarhöfn í gær. það var óvenju mikið um að vera hjá hafnarvörðunum í gær. Í höfninni voru og komu, fjórir togarar, skólaskipið Sæbjörg, loðnuskip, olíuflutningaskip, rækjuveiðiskip, seglskútur og fleiri.
Þessa mynd tók Þórleifur Haraldsson í gærdag af hluta hafnarinnar.
Miðvikudagur 7. júlí 2004
Íslenskir aðalverktakar vinna nú af kappi við að bora fyrir festingum vegna snjóflóðavarnargirðinga sem koma eiga sunnanverðu í fjallinu ofan við Hvanneyrarhlíð.
Miðvikudagur 7. júlí 2004
Loðna:
Morgunblaðið í dag: Sjávarútvegsráðuneytið hefur gefið út reglugerð um loðnuveiðar íslenskra skipa á loðnuvertíðinni árin 2004 og 2005.
Samkvæmt reglugerðinni er íslenskum skipum nú heimilt að veiða 224.138 lestir af loðnu og byggir sú ákvörðun á tillögu Hafrannsóknastofnunar um bráðabirgðakvóta.
Ráðuneytið segir að ekki liggi nákvæmlega fyrir á þessari stundu hvenær endurmat fari fram á loðnustofninum og ráðist það m.a. af gangi veiðanna í sumar.
Miðvikudagur 7. júlí 2004 Þessi stúlka, Soffía Guðmundsdóttir heldur þarna á kassa með fjórum stokkandarungum sem að líkindum hafa misst móður sína. Ungana fann móðir hennar Ragna Ragnarsdóttir á bílastæði sínu upp við girðingu við hús hennar við Hvanneyrarbraut 52.
Frekar óvenjulegur staður fyrir andarunga. Hafin var leit af andamömmu og í nokkur hundruð metra fjarlægð og langt frá sjónum fannst dauð stokkönd, líklega móðirin. Ekki gátu sjónarvottar getið sér um hvernig dauða hennar hefði borið að. Ungarnir voru fengnir í hendur sóknarprestinum Sigurði Ægissyni sem ætlaði að gera sitt besta til að vernda þá og ala með aðstoð góðra manna.
Miðvikudagur 7. júlí 2004 Ánægðir veiðimenn. Þær voru ánægðar þessar hnátur, þó svo að enginn afli hafði fengist enn, -en þær voru að leita af sílum sem oft er nokkuð af í pollinum við Síldarminjasafnið.
Veiðarfærin voru heimatilbúnir háfar, rétt eins og fyrir rúmum 60 árum er ég sjálfur stundaði svona veiðiskap, þó svo veiðislóðirnar hafi verið all fjarri byggð á þeim tíma, en þessar. núna. Þær heita Rósbjörg Jenný Magnúsdóttir, Guðrún Hulda Ólafsdóttir og Bryndís Erla Róbertsdóttir. -
Þær sendu mér nöfn sín í tölvupósti og létu þetta fylgja: „Við vorum búnar að veiða eitt síli þegar þú tókst myndina en vissum ekki af því, við veiddum fjögur síli í allt“.
Miðvikudagur 7. júlí 2004 Bréf til " Lífið á Sigló" frá bæjarbúa. Bærinn okkar er alveg sérstaklega þrifalegur og fínn um þessar mundir eins og alltaf, en þó má alltaf gera betur. -- Það sem stingur í stúf núna er aldeilis lélegur frágangur og trassaskapur hjá RARIK á nokkrum stöðum í suðurbænum þar sem þeir voru að grafa skurði fyrir kapal og þvera í sundur götur með því að saga í burtu malbik. -
Miðvikudagur 7. júlí 2004 - Hvers vegna í ósköpunum ganga þeir ekki frá eftir sig, moka ofan í skurði (eins og td. hjá Dúdda Eggerts ) og malbika og ganga frá götunum þar sem þeir grófu þær í sundur. -- Eitt í viðbót. -- Bærinn má svo líka sjálfur fara að gera við illa farnar gangstéttar eftir snjóruðningstæki þar sem hrein slysahætta er fyrir gangandi vegfarendur.-- Hérna er ég sérstaklega að tala um þar sem stór skörð eru í gangstéttarinnar. -- Drífið ykkur nú í að laga þetta RARIK og bærinn, þetta er ykkur ekki til sóma. Bæjarbúi.
Fimmtudagur 8. júlí 2004 Ein gömul:
Árni Kristinsson (Árni Shell), Guðlaugur Sigurðsson (Laugi póstur) og Ágúst Gíslason (Gústi guðsmaður) Tekið á eldrimanna skemmtun 1964(+/-)
Fimmtudagur 8. júlí 2004 - Aðsent: Þetta er Katrín Dröfn Haraldsdóttir og Ofsi á landsmóti hestamanna . Katrín keppti í unglingaflokki og komst í milliriðil. Það er mjög góður árangur. Hún keppti fyrir hönd Glæsis á Siglufirði.
K.G.
Fimmtudagur 8. júlí 2004 Aðsent: Orðaruna mánaðarins:
- Ég var á móti "fjölmiðlalögunum" eins og þau voru sett fram ásamt breytingunum.
Ég var á móti afskiptum forsetans- og hans (að mér fannst) ótrúverðugum málflutningi hans. Ég var á móti fyrirhuguðum kosningum um "fjölmiðlalögin" það er margt skynsamlegra hægt að gera við þá peninga sem í það færu. Ég var á móti þessum skrípaleik sem fram hefur farið á alþingi síðustu daga. Það var í lagi að afturkalla lögin, en fáviska að setja þau aftur fram með órökstuddum breytingum. stjórnarherrar (með litlum staf) látið nægja að afturkalla lögin og reynið að komast að samkomulagi við hina rugludallana um hvernig standa skuli að nýju frumvarpi um fjölmiðla almennt. Gleymið ekki að ríkið er engin undantekning um eignarhald á fjölmiðlum, þið gefið út blöð og tímarit, jafnhliða sjónvarpi. Þeir óflokksbundnu hlæja af ykkur öllum rugludöllunum (þingmönnum) í Alþingishúsinu. Þó sumir láti sér nægja að hrista höfuðið yfir málatilbúningi ykkar flestra. K.
Fimmtudagur 8. júlí 2004
Aðsent: Sjálfsagt er erfitt að hirða gamla kirkjugarðinn. Lítið eða ekkert er hugsað um fjölmörg leiði, ættingjar farnir úr bænum osfrv. Kostnaðurinn við hirðingu osfrv. lendir því á kirkjunni eða bænum. Ég kem tvisvar til þrisvar sinnum í garðinn á sumrin til að huga að leiði. Oftar en ekki er gámurinn undir úrgang yfirfullur.
Þetta ætti að vera tiltölulega auðvelt fyrir bæjaryfirvöld að lagfæra og ekki kostnaðarsamt. Samt sem áður er þetta svona ár eftir ár. Kannski kem ég alltaf á versta tíma, en samt sem áður efast ég um það.
Annað sem vekur furðu mína er að engin garðáhöld eru í skúrnum efst í garðinum. Ekki einu sinni hrífa. Heldur ekki kanna til að ná í vatn. Kannski er ógerningur að hafa áhöld þar, en því á ég samt sem áður bágt með að trúa.
Ég hef rætt þetta við nokkra bæjarbúa og þeir eru almennt sammála mínum ábendingum. Nú veit ég ekki hvað kirkjan eða bærinn fær háa upphæð í formi kirkjugarðsgjalda. En mér sýnist vandinn vera ærinn. Engu er líkara en að tekjur garðsins hrökkvi alls ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Getur einhver svarað því ?
Brottfluttur Siglfirðingur.
Fimmtudagur 8. júlí 2004
Þjóðlagahátíð hófst í gærkveldi í Siglufjarðarkirkju með tónlist úr Eddukvæði. - Ég var að vísu ekki á staðnum, en ég mun fá myndir frá hátíðinni- og birta hér á síðunum í dag og næstu daga.
það verða í bland myndir Sveins Þorsteinssonar, Þórleifs Haraldssonar og mínar eigin eftir atvikum. Þessi mynd og fleiri. eru frá Skoskum þjóðlagaflutningi í Bátahúsinu í gærkveldi.
Ljósmyndir Sveinn Þorsteinsson.
Fimmtudagur 8. júlí 2004
Aðsent: Ég vildi benda á nokkuð sem getur reynst stórhættulegt fyrir fólk sem ekki þekkir til við fyrrverandi verslun Hauks við Túngötu.-- Ég hef vitað af þessu lengi og vonað að ekki kæmi slys fyrir á þessu svæði. Það sem ég er að tala um er niðurgröftur í gangstéttina fyrir framan inngang í íbúðir sem eru í suður enda hússins. Fólk sem ekki þekkir til og væri nokkur saman á göngu þarna gætu hæglega fallið þarna niður og stórslasað sig. Þarna þarf að setja einhverskonar aðvörun, eða kant ,grindverk eða annað. Ekki að bíða eftir slysi. Skoðaðu þetta fyrir mig og láttu mig vita hvað þér finnst. Með kveðju heim. M ---
Ég (SK) skoðaði þetta í morgun og tók þessa mynd. Sennilega á bréfritari við gryfjuna fyrir framan dyrnar á gamla hluta hússins við dyr sem sennilega, miðað við gróðurinn sem þarna hefur fest rætur, hafa ekki verið notaðar lengi. Þetta er um 40 sentímetra djúpt- og getur vissulega verið hættulegt. Upphaflega varð þessi gryfja til vegna þess að Túngatan var hækkuð fyrir mörgum árum. Auðvelt væri að setja þarna handrið, svona til að "byrgja brunninn áður en..." -spurningin er: Hver á að gera það, sennilega bærinn í samráði við húseiganda, því gryfjan varð til vegna skipulagsbreytinga. S.K.
Fimmtudagur 8. júlí 2004 Þjóðlagahátíð: Námskeið í Grískri menningu. Tónlist og dans stóð yfir í efra skólahúsinu í morgun. Kennari er Geporgios Sfirids, Grikklandi.
Fimmtudagur 8. júlí 2004 Þjóðlagahátíð: Námskeið í gerð þjóðlegra listmuna og skartgripa úr silfri, fór fram í efra skólahúsinu í morgun. Kennari er Dóra Jónsdóttir gullsmiður.
Fimmtudagur 8. júlí 2004 Þjóðlagahátíð: Í dag klukkan 13:00 hélt Heimir Pálsson fyrirlestur um flutning Sequentia á Eddukvæðum. >>>>>>>>>>>>>
Fimmtudagur 8. júlí 2004
Þjóðlagahátíð:
Frá atriði í gærkveldi í Siglufjarðarkirkju: Tónlist við Eddukvæði. -- Sequebia frá París. Benjamin Bagby söngur og líra, Lena Susanne Norin söngur, Agenthe Christiensen söngur, Elizabeth Gaver fiðla, Norbert Rodenkirchen flauta.
Fimmtudagur 8. júlí 2004 Úr smiðju Gríms Karlssonar. Sýning Gríms Karlssonar var formlega opnuð í dag af Theodór Júlíussyni.
Til stóð að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra opnaði sýninguna- og undirbúin hafði verið sérstök dagskrá í tilefni af komu hennar víðar í bænum með borðhaldi ofl. ásamt forráðamönnum bæjarins, en af því varð ekki þar sem ráðherrann sem komin var hálfa leið landleiðina frá Reykjavík í dag, veiktist og varð að snúa við til Reykjavíkur aftur. Grímur Karlsson kom ekki heldur norður vegna veikinda.
Föstudagur 9. júlí 2004
Ein gömul:
Ottó Jörgensen póst og símafulltrúi með flautuna sína sem hann gjarnan greip til á dansleikjum sem hann mætti á, sérstaklega í tengslum við árshátíðir sem flest félög og vinnuhópar héldu árlega í þá daga. (matur, dans og önnur skemmtiatriði.)
Með honum á myndinni er Ragnar Páll Einarsson listmálari, þá í hljómsveitinni Gautar (1964 (+/-)
https://www.flickr.com/photos/136670970@N04/sets/72157662068476226
Föstudagur 9. júlí 2004 Þjóðlagahátíð: Síldin syngur.
Hátíðin hélt áfram, í Bátahúsinu í gærkveldi með músík og gleði. Það má heita að vart hafi verið pláss fyrir fleiri áheyrendur í húsinu, en það mun hafa verið um 350 manns saman komin við mikla gleði og ánægju.
Dagskráin var fjölbreytt, með "síldina fyrir stef" Fram komu Kristjana Stefánsdóttir, - Bogomil Font, - Flís tríóið, - Davíð Þór Jónsson píanó og harmonikka, -Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson kontrabassi, - Helgi Svavar Helgason trommur.- Einnig: Fornir söngvar frá Orkneyjum Agnethe Christiensen söngur og harpa -
Smelltu á myndina og skoðaðu myndir sem Sveinn Þorsteinsson tók fyrir Lífið á Sigló.
Föstudagur 9. júlí 2004 Þjóðlagahátíð: Síldin syngur.
Hátíðin hélt áfram, í Bátahúsinu í gærkveldi með músík og gleði. Það má heita að vart hafi verið pláss fyrir fleiri áheyrendur í húsinu, en það mun hafa verið um 350 manns saman komin við mikla gleði og ánægju.
Dagskráin var fjölbreytt, með "síldina fyrir stef" Fram komu Kristjana Stefánsdóttir, - Bogomil Font, - Flís tríóið, - Davíð Þór Jónsson píanó og harmonikka, -Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson kontrabassi, - Helgi Svavar Helgason trommur.- Einnig: Fornir söngvar frá Orkneyjum Agnethe Christiensen söngur og harpa -
Smelltu HÉR og skoðaðu myndir sem Sveinn Þorsteinsson tók fyrir Lífið á Sigló.
Föstudagur 9. júlí 2004 Þessar hnátur voru á leið á fótboltaæfingu fram á Hóli í morgun. Þær heita: Dagný Harðardóttir og Svava Steinarsdóttir
Föstudagur 9. júlí 2004 Þjóðlagahátíð: Námskeiðahald, það fór fram í morgun eins og í gær , á vegum Þjóðlagahátíðar víða allskonar námskeið. Þjóðdansar þjóðlagasöngur, ásláttar hljómar ofl. Nokkrar myndir koma í ljós, frá sumum þessara námskeiða koma í ljós er þú smellir HÉR
Föstudagur 9. júlí 2004 SR-BYGGINGAVÖRUR gerði sér og viðskiptavinum sínum dagamun í hádeginu í dag er þeir buðu viðskiptavinum sínum, iðnaðarmönnum sérstaklega - og vegfarendum upp á grillveislu með tilheyrandi góðgæti og kaffi á eftir. Ég rann á lyktina og tók nokkrar myndir.
Föstudagur 9. júlí 2004 Þjóðlagahátíð: Fyrirlestur, söngur og hljóðfæraleikur. Flutt voru erindi um hljóðfæratónlist frá miðöldum. Fyrirlesarar voru Poul Høxbro miðaldahljóðfæri Danmörk- og Miriam Anderén söngur Svíþjóð. Margskonar afbrigði blásturshljóðfæra voru sýnd og hljóð þeirra bárust eyrum áheyranda, svo og fleiri hljóðfæri sem ég kann ekki að nefna. Myndir HÉR
Föstudagur 9. júlí 2004
Aðsent: Sæll Steingrímur. Einhver brottfluttur Siglfirðingur taldi sig ekki fá þjónustu sem skyldi í gamla kirkjugarðinum og vildi fá svör. Það er sjálfsagt að formaður sóknarnefndar taki það að sér ef þú vildir birta þetta. Það er hárrétt athugað að það er dýrt að reka kirkjugarðana - þeir eru í raun þrír, og það fjármagn sem fæst til þess allt of lítið enda eru málefni allra kirkjugarða á borðum kirkju yfirvalda núna. Þeim fækkar óðum sem standa undir rekstrinum hér en kröfurnar eru þær sömu.
Bæjaryfirvöld reka ekki kirkjugarðana heldur kirkjan undir stjórn sóknarnefndar. Hún réði á sínum tíma kirkjugarðsvörð sem er Magnús Jónasson og til hans getur fólk leitað ef það þarf að fá leyst úr sínum málum.
Ekki veit ég hvenær "brottfluttur" kom síðast í gamla garðinn en í júní á hverju ári byrjar fólk að vinna í görðunum og vinnur út ágúst. Það er ærin vinna sem þar fer fram við hreinsun, slátt og hirðingu m.m. Körin eru samviskusamlega tæmd af ágætum bílstjóra hér í bænum svo "brottfluttur" hlýtur að hafa komið þar áður en vinna hófst.
Í skúrnum er fullt af áhöldum sem vinnufólk garðanna notar við vinnu sína og í vor voru margar hrífur ásamt klippum og fleiri áhöldum þar. Ekki veit ég hvernig "brottfluttum" gat sést yfir þau en þau voru þar í júníbyrjun þegar ég fór yfir áhaldaeignina. Þegar fólk kemur til að lagfæra þau leiði sem eru í þeirra umsjá kemur það að sjálfsögðu með þau áhöld sem þarf en hafi vinnufólk verið í görðunum hefur það reynt að leysa úr vanda þeirra sem beðið hafa um aðstoð. Margar grænar vatnskönnur eru í görðunum og hanga þær yfirleitt á snögunum.
Séu þær ekki þar þá er það oftast vegna þess að fólk hefur borið þær burt við notkun og gleymt að setja þær á sinn stað. Vona ég að þessar upplýsingar komi í veg fyrir misskilning og fólk átti sig frekar á hvernig málum er háttað. Ég er líka reiðubúin til að veita "brott fluttum" og öðrum fleiri upplýsingar ef vantar og tek gjarnan við ábendingum. Ég er þessum nafnlausa brott flutta Siglfirðingi þakklát fyrir að sýna görðunum áhuga og við reynum að sjálfsögðu að veita alla þá þjónustu sem okkur er skylt. Með vinsemd og fyrir hönd sóknarnefndar, Guðný Pálsdóttir.
Ath. "Brottfluttur" skrifaði nefnd ummæli hér ofar á síðunni.
Laugardagur 10. júlí 2004 Ein gömul:
Síldarsöltunar-kóngar Kristján Ásgrímsson og Skafti Stefánsson. 1964 +/-
Laugardagur 10. júlí 2004 Hús á „faraldsfæti“. Í gær fór eitt af gömlu húsunum hér í bæ á flakk. Húsið Hverfisgata 14 (áður eign Óskars Garðars) var flutt á bifreið í lögreglufylgd yfir á Ásinn (Saurbæjarás), þar sem það fær nýtt hlutverk; sumarbústaður. Ferðasagan í myndum kemur í ljós, ef þú smellir HÉR
Laugardagur 10. júlí 2004 - Margar uppákomur voru á Torginu í gær, bæði á sviði Torgsins og á torginu sjálfu, flest á vegum Þjóðlagahátíðar.
Margt var um manninn í sól og hitamollu. Smelltu HÉR til skoða myndir
Laugardagur 10. júlí 2004 Veraldarvinir-Worldwide friends
Í sumar munu tveir hópar á vegur sjálfboðaliða samtaka sem kalla sig veraldarvini eða World Wide friends starfa við umhverfisverkefni í Siglufirði. Fyrsti hópurinn muna koma 5 júlí og eru það um 12 manns og sá seinni kemur um miðjan ágúst og telur tæplega 20 manns.
Meira um þetta efni er neðst á þessari síðu
Laugardagur 10. júlí 2004
Askur SI 41 var seldur frá Siglufirði til Reykjavíkur í vikunni.
Báturinn var keyptur á s.l ári til að veiða á hann byggðarkvóta sem eigendum var úthlutað og þeir töldu til 5 ára.
Reyndin var sú að breytt var um aðferð við úthlutun, þannig að þeim var úthlutað 500 kg. í stað 24 tonna á s.l. ári, þannig að ekki var lengur grundvöllur til að reka bátinn og urðu þeir því að selja bátinn.
Myndin sýnir kaupandann og einn fyrrverandi eiganda, Sverrir Sveinsson við afhendinguna.
Ljósmyndari: ókunnur
Laugardagur 10. júlí 2004
Þjóðlagahátíð: Tónleikar í Bátahúsi 8. júlí 2004.
Smelltu HÉR til að skoða fleiri myndir, sem Þórleifur Haraldsson tók fyrir Lífið á Sigló.
Laugardagur 10. júlí 2004 Siglufjörður í sólskininu í morgun klukka 9:30 -- Þokuslæðan var horfin 30 mínútum síðar.
Laugardagur 10. júlí 2004
Loðna og kolmunni.
Súlan EA 300 landaði í nótt tæpum 200 tonnum af loðnu og nú klukkan 10:30 í dag mun kolmunnaskipið Örn KE 13 að koma með afla.
Á myndinni eru þrír Frakkar, sem heita; Greg Chandanson - Anne Kervella og Yann Kerguntevil og Þau standa við Herhúsið
Laugardagur 10. júlí 2004
Í sumar munu tveir hópar á vegur sjálfboðaliða samtaka sem kalla sig veraldarvini eða World Wide friends starfa við umhverfisverkefni í Siglufirði. Fyrsti hópurinn muna koma 5 júlí og eru það um 12 manns og sá seinni kemur um miðjan ágúst og telur tæplega 20 manns. Fyrsti hópurinn mun starfa við að ganga frá lóðunum í Kringum Herhúsið og Þjóðlagasetrið, einnig verða einhverjir við vinnu í Síldarminjasafninu og sitthvað fleira er lýtur að fegrun bæjarins og þá í samvinnu við Vinnuskóla Siglufjarðar.
Seinni hópurinn sem von er á um miðjan ágúst mun starfa í skógræktinni við lagningu göngustíga, grisjun og gróðursetningu. Einnig er ráðgert að stika gönguleið frá skíðasvæðinu og verður hópurinn væntanlega notaður í það verkefni.
Veraldar vinir eru alþjóðleg samtök sem hafa það á stefnuskrá sinni að stuðla að náttúruvernd og vináttu tengslum sjálfboða liða um allan heim.
Hver hópur mun starfa í tvær vikur og sjálfboðaliðarnir koma frá sex þjóðlöndum.
Sumarið 2003 tóku veraldarvinir á móti sjö hópum enn í sumar er ráðgert að hóparnir verði um 15 talsins hér á landi.
Sumarið 2003 voru neðantalin verkefni meðal þeirra sem samtökin unnu hér á landi
Hreinsun stranda á Þórshöfn, endurbygging hleðslugarða á Akranesi, aðstoð við framkvæmd bindindsmótsins í Galtalæk, stígagerð í Skaftafelli og gróðursetning að Sólheimum í Grímsnesi.
Veraldarvinum er skaffað húsnæði og fæði meðan á vinnu þeirra stendur yfir og munu þau félagasamtök sem hóparnir vinna fyrir taka þátt í kostnaði vegna fæðis.
Tengiliðir hópsins hér eru: Arnar H Jónsson Hörður Júlíusson Hálfdán ?? Guðrún Árnadóttir