12. janúar 2004
Þeysill ehf. er litið fiskverkunarfyrirtæki á Siglufirði, sem kaupir fisk frá nokkrum smærri bátum á Siglufirði og verkar hann til útflutnings.
Fyrirtækið er í eigu Óðins Gunnarssonar (Gunnars Jóhanns og Valey), þar vinna nú 5 manns. Ég hitti á þau í kaffitímanum í morgun,
Hildur Una Óðinsdóttir og Haraldur Gísli Árnason >>>>
13. janúar 2004
Rafmagnið fór af Siglufirði og víðar um 9 leitið í morgun, grunur lék á að snjóflóð hafi fallið á raflínu, sunnan við Ólafsfjarðarmúla á leiðinni til Dalvíkur. Menn eru á leið á vettvang og leita bilunar. Rafmagn komst aftur á, á Siglufirði eftir 20 mínútur til 45 mínútna, eftir hverfum, en dieselvélar á Siglufirði og Dalvík voru gangsettar á meðan landsstrengurinn er rofinn.
Myndin svarta var sett þarna að beiðni "Stefáns, hjá OLÍS" en honum langaði að sjá hvernig rafmagnsleysið liti út.
13. janúar 2004
Samkvæmt korti Vegagerðarinnar klukkan 11:20, þá er leiðin til og frá Siglufirði ófær vegna snjóa,
14. janúar 2004
Siglunes ehf. er lítið útgerðarfélag á Siglufirði, rekið af Gunna Odds. (Gunnlaugur Oddsson)
Þar voru er ég kom, Gunni og Tómas Pétur Óskarsson að setja upp grásleppunet, um 50 stykki. Þegar ég var að fara þaðan kom Óðinn Gunnarsson í heimsókn og auðvitað.
<<<< Óðinn Gunnarsson, Tómas Pétur Óskarsson og Gunnlaugur Oddsson
14. janúar 2004
Það er farið loftið úr hinum yfirlýsingafullu aðilum frá því að þeir tilkynntu: "gífurlegt magn" af loðnu fyrir Norðurlandi þann 5. janúar sl. --- Samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag, þá eru:
Loðnuveiðar bannaðar í hálfan mánuð. Loðnuveiðar hafa verið bannaðar í hálfan mánuð meðan Hafrannsóknastofnun endurmæli stofninn. Sjávarútvegsráðuneytið hefur bannað allar loðnuveiðar í hálfan mánuð, eða til 29. janúar.
Er þetta gert að tillögu Hafrannsóknastofnunar sem hefur lokið mælingu á stærð loðnustofnsins, sem gerð var eftir að 10 loðnuskip höfðu kannað hugsanlegt útbreiðslusvæði loðnunnar í samvinnu við stofnunina 3.-5. janúar.
Segir Hafrannsóknastofnun að enda þótt víða yrði vart við loðnu út af Norður- og Norðausturlandi hafi hún verið mjög dreifð.
15. janúar 2004 --- Hús rýmd á Siglufirði vegna snjóflóðahættu Ákveðið var í gærkveldi að rýma húsin á svonefndum G reit á Siglufirði, (það eru húsin ofan Hávegar, frá Kára Jóns norður að kirkjugarði) að höfðu samráði Veðurstofu Íslands, sýslumanns og almannavarnanefndar á Siglufirði.
Þetta voru fyrst og fremst öryggisráðstafanir. Um er að ræða fjögur íbúðarhús með alls 14 íbúum sem eru í umsjá Rauðakrossdeildar Siglufjarðar og gista þeir ýmis í Skeljungshúsinu svonefnda og á Gistiheimilinu Hvanneyri.
15. janúar 2004 Fjallið (kl. 10:30 í morgun) þar sem óttast var að snjóflóð gæti fallið úr (miðsvæðis) samkvæmt útreikningum veðurstofu, reyndist sem betur fer nær snjólaust í morgunsárið er þessi mynd var tekin.
Þó er erfitt á átta sig á snjóalögum á svæði snjóflóðavarnanna efst uppi í fjallinu, en, það sést þó í grindverkin á milli élja og ekki virðist vera þar mikill snjór frekar en annarsstaðar í fjallinu.
En aldrei er of varlega farið í þessum efnum. Fólkið sem sagt var að yfirgefa hús sín í gærkveldi fékk að fara heim til sín að nýju í morgun. Ég hefi fengið nokkra "pósta" í gærkveldi og í morgun þar sem ég hefi verið beðinn að sýna "hinn mikla snjó" sem lesa má út úr fréttum fjölmiðla, að sé á Siglufirði.
Ég leitaði af þessum snjó, en varð lítils var miðað við þær væntingar sem lesa mátti út úr póstinum til mín (og fréttum) Ég fann aðeins eina snjómynd, sem minnti á "gamla daga" þegar virkilega snjóaði á Siglufirði, - en það tel ég ekki að hafi skeð nú.
15. janúar 2004
Þetta er hann Velli, eins og allir kalla Sverrir Björnsson skipstjóra og útgerðamann, hákarlaveiðimann og verkanda.
Ég heimsótti hann í morgun í "Sunnubraggann" þar sem hann hefur aðstöðu.
Þar var hann var að yfirfara og skoða hákarlabeitur sem hann hefur verkað.
Hann aflaði á síðasta ári um 30 hákarla, tók sjálfur til verkunar 4-5 stykki en seldi restina til smærri og stærri verkanda víðsvegar um landið.
17. janúar 2004
Ég stóðst ekki freistinguna, er ég rakst á þessa ljósmynd af hljómsveitin Stormar, einni af vinsælustu unglingahljómsveit á Norðurlandi um þær mundir er myndin var tekin árið 1966 -
Þetta eru Hallvarður Óskarsson, Theodór Júlíusson, Gestur Guðnason, Ómar Hauksson og Árni Jörgensen.
Svona er gott að birta í tilbreytingarleysinu í skammdeginu , þegar lítið er um fréttir og viðburði..
18. janúar 2004
Þessi mynd birtist í Dagblaðinu MYND sumarið 1961.
það eru ekki margir af ungu kynslóðinni sem vita af hverju myndin er, en þetta er Rauðka, síldarverksmiðja Siglufjarðarkaupstaðar.
Frá þeim tíma þegar nóg var af síld og vinnu.
Tilefni myndatökunnar var þessi sögulegi strompur við aflstöð verksmiðjunnar.
Hann var hlaðinn úr múrsteinum, en kominn vel til ára sinna og kolareykurinn kom út á fleiri stöðum en upphaflega var ráðgert.
Ljósmynd. S.K. Hér birt til að fylla upp í skarð fárra viðburða um þessar mundir.
18. janúar 2004
Það hefur heldur betur lagast veðrið, maður er laus við vindinn og snjókomuna, 2ja gráðu frost og logn var þegar þessi mynd var tekin klukkan 14:38 í dag.
En hún sýnir svæðið sem óttast var að úr kæmi snjóflóð á dögunum.
Lítill snjór hefur myndast á hættuslóðunum efst uppi (sem betur fer) og vel sést í snjóflóðavarnirnar efst uppi nálægt miðju.