1. maí 2004
Ein gömul:
Benedikt Sigurðsson, Bjarni Jóhannsson og Kristján Sigtryggsson, Þarna viðstaddir vígslu Sjúkrahússins 15. desember 1966
1. maí 2004 Aðsend frétt:
Silja Arnarsdóttir, Herbalife ráðgjafi óskar að koma á framfæri við Siglfirðinga, að hún hefur hafið sölu á vörum frá Herbalife. Hún veiti persónulega þjónustu og ráðgjöf á því sem hentar fyrir hvern og einn. Einnig býður hún upp á vigtun og mælingar fyrir þá sem óska eftir því. Hún segist sjálf hafa persónulega reynslu af vörunum, og býð alla hjartanlega velkomna sem vilja kynna sér kosti vörunnar. S:467-2005, 863-8807 - siljaa@simnet.is
1. maí 2004 -- Ath. Vegna fjarveru, mun uppfærslu síðunnar ekki sinnt næstu daga, eða þar til 5. maí nk.- Sveinn Þorsteinsson (s. 848-4143) mun vera með myndavél sína í viðbragðsstöðu og taka myndir fyrir mig, "veðurmyndir" og ef eitthvað markvert á sér stað, - og ég síðan birta sem "seríu síðustu daga" ásamt viðeigandi texta þegar ég kem til baka.
5. maí 2004 - Ég kom seinnipartinn í gær. - Eins og landsmönnum er kunnugt, en ef til vill ekki Siglfirðingum erlendis, þá gekk yfir landið kuldakast, Siglfirðingar fengu ma. að kenna á því, en það snjóaði nokkuð fyrir norðan og austan, Sunnlendingar sluppu við snjókomuna, en þar var þó bölvuð nepja. Ég var varaður við á mánudag og ráðlegt að halda ekki norður í gær (þriðjudag) eins og ég hafði áætlað, en síðan uppgötvaðist að lýsing fjölmiðla og "gangandi" átti ekki við daginn í gær og ég lagði af stað eins og áætlað var, gerði þó ráðstafanir með hjálp góðra manna ef á þyrfti að halda að fá send snjódekkin mín á móti mér, en bíllinn minn var fyrir löngu kominn á sumardekkin. En þrátt fyrir snjóföl á Siglufjarðarveg og slyddu, þá gekk allt vel á sumardekkjunum, svo vetrardekkin voru látin hvíla sig áfram. Góðir ökumenn haga akstri sínum í samræmi við aðstæður, það gerði ég
5. maí 2004
Ein gömul:
Björn Þór Haraldsson og Símon Márusson
1. maí 2004
Myndir frá Sveini Þorsteinssyni frá hátíðarfundi og kaffisamsæti Verkalýðsfélagsins Vöku í "Alþýðuhúsinu" -
Hafþór Rósmundsson bauð bæjarbúa velkomna, boðið var upp á kaffi og meðlæti með svipuðu sniði og var fyrir 70 árum, þegar Alþýðuhúsið var tekið í notkun. Einnig voru tónlistaratriði, ofl. -- Smelltu HÉR
1. maí 2004
Myndir frá Sveini Þorsteinssyni:
Ungmennafélagið Glói 10 ára, dagskrá í Ráðhúsinu þann 1.maí.
5. maí 2004
Sparisjóður Siglufjarðar hefur gert samning við Sigurð Ægisson um ritun sögu Sparisjóðsins frá upphafi til okkar daga.
Stefnt er að útgáfu bókarinnar fyrir jólin 2005. Þeir sem kunna að eiga í fórum sínum einhverjar myndir eða áhugavert efni tengt Sparisjóðnum eru beðnir um að hafa samband við Sigurð Ægisson.
5. maí 2004
Ég kom við á Blönduós á leiðinni heim - (í gær) og kom þar við í fyrirtækinu Ísgel.
Þar ræður húsum Siglfirðingurinn Guðfinna Ingimarsdóttir, en hún er einn aðal eigandinn ásamt Fríðu Pálmadóttur, en þær stofnuðu fyrirtækið 5. júní árið 1999.
Þetta er hlutafélag í blómlegum rekstri. Það eru ekki margir starfsmenn hjá félaginu, enda búnaðurinn nær alsjálfvirkur og það skemmtilega við þann búnað, vélasamstæðuna.
Þær stöllur létu framleiða vélina úti í Frakklandi samkvæmt teikningu og hugmynd Guðfinnu. Framleiðslan er kælipokar fyrir fiskiðnað, íþróttafólk og allt mögulegt. Greinagóð vörulýsing er á heimasíðu þeirra www.isgel.is
5. maí 2004 -- Frá Stjórn Skógræktarfélags Siglufjarðar.
Í byrjun apríl var úthlutað styrkjum úr Landgræðslusjóði til verkefna á sviði umhverfismála. Skógræktarfélag Siglufjarðar fékk 250.000 króna styrk sem nota á til kortagerðar á skógræktarsvæðinu og til göngustígagerðar.
5. maí 2004 Aðsent:
Farið var á hængsmót í boccia 30 apríl - 2 maí.
Með í för voru Hulla, Anna, Hrafnhildur, Jóhanna, Anna Lára , Hrefna, Vilborg, Björg, Pálína S., Elsa B., Nanna, og Erna, auk fararstjóranna Helgu, Rósu og Jósteins.
Gist var á Leifsstöðum sem er frábær staður og öll aðstaða til fyrirmyndar.
Keppni gekk vel. 5 lið voru skráð í opinn flokk og sigurvegarar voru Snerpa B - Anna Lára, Vilborg, Helga, Í öðru sæti voru lið Snerpu A - Hrefna, Erna, Nanna og í Þriðja sæti Urðu Akur A. Spilað var bridge, vist og Kana fram á nótt og hinn fjölhæfi fararstjóri okkar hann Jósteinn Snorrason tók að sér að naglalakka konurnar og varð Kanakóngur.
Myndir HÉR - Kveðja Helga Hermannsdóttir
5. maí 2004
það snjóaði ! Myndin til hægri sýnir snjóinn sem blasti við mér á stétt minni og tröppum þegar ég fór út rétt fyrir klukkan 9 í morgun.
Hin sýnir upp Gránugötuna stuttu síðar. Það er ekki óvanalegt að snjór komi á þessum tíma árs, en hann er sko ekki velkominn á þessum tíma þrátt fyrir allt.
Kannski við pöntum lög fráríkisstjórninni til að banna snjókomu í maí, það væri ekki það vitlausasta sem gert hefur verið á alþingi.
5. maí 2004
Þó að nú snjói, þá trúum við að sólin verði okkur hliðholl í sumar:
Fjölbreytt dagskrá sumarsins á Siglufirði 2004
Smelltu á "sólina" og skoðaðu dagskrána í sumar á vef Siglufjarðarkaupstaðar.
Því miður þá er þessi tengill ekki virkur í dag >2015>
6. maí 2004
Ein gömul: Á myndinni eru ma. Þorleifur Sigurðsson,
Einar Björnsson, Halldór Pétursson, Jörgen Hólm og Eggert Theódórsson. Snorri Dalmar er við stýrið.
Svona var fólkinu hjá SR & frystihúsi SR keyrt heim í matartímum (það er suðurbæingum)
6. maí 2004
Alvarlegar hvatningar og skondin auglýsing.
Undanfarnar vikur hafa birst í "Tunnunni" auglýsingar, frá sýslumanni og bæjartæknifræðingi, þar sem áréttað er að skipta frá nagladekkjum bifreiða yfir á sumardekkin fyrir 15. apríl sl. að viðlagðri hættu á sektum.
Í gær er Tunnan kom út var að finna svohljóðandi auglýsingu: "Nagladekkin undir strax, Sýsli og bæjarapparatið. Gleðilegt sumar."
(kímnigáfan er í lagi hjá sýslumanni)
6. maí 2004
Þetta eru:
Helgi Rafn bifreiðarstjóri hjá Vörumiðlun og Jón Sigurðsson hjá Olís
6. maí 2004
"Það er margt skrýtið í kýrhausnum" Í fréttum og auglýsingum kemur margt furðulegt fram.
Á síðastliðnu ári (held ég) komu fram í auglýsingum frá Mjólkursamsölunni, að búið væri að uppgötva það að óhætt sé að drekka mjólk, eins og við höfum drukkið frá fæðingu, ef marka má nafn á umbúðum nefndrar vöru "Drykkjar mjólk" og nú í hádeginu var sagt frá nefnd á vegum forsætisráðuneytisins, sem hafði uppgötvað eftir 17 funda setu, "að þeir lægst launuðu byggju við lökustu kjörin" Þeir eru gáfaðir þessir menn sem eru valdir í nefndir ráðuneytanna ?
7. maí 2004
Ein gömul:
Um borð í Haferninum.
Gunnar Tómasson háseti, Sigurjón Kjartansson dælumaður og Steingrímur Kristinsson timburmaður.
Það eru að líkindum liðin meir en 40 ár síðan ég fór í heimsókn í fjárhús, þar til í morgun að ég heimsótti Hafstein Hólm.
Hafsteinn er með þau sérréttindi að vera eini fjárbóndinn á Siglufirði sem fær að hafa kindurnar sínar innan bæjarmarkanna, en samkvæmt lögreglusamþykkt bæjarins er slíkt óheimilt. En undanfarnar bæjarstjórnir- og núverandi hafa leyft þetta. (skriflegt) -- Hafsteinn hefur alist upp við svona búskap frá barnæsku. -
Er mig bar að garði voru þeir feðgar að rýja eina kindina af þeim 7 sem þarna eru, en burður hefur staðið yfir hjá þeim - og allt gengið að óskum.
Á annarri myndinni er Jón Hólm Hafsteinsson og faðir hans Hafsteinn Hólm Þorleifsson, sem heldur á þrílembingum. Hin myndin er af einmanna nýrúinni kind, en lömb hennar skruppu undir "garðann" og yfir í hlöðu. (sennilega ? hrædd við "rollu hatarann"=
8. maí 2004
Ein gömul:
Björn Þór Ingimarsson, Jón Bergsveinsson (Sigurðssonar) og Kristinn Steingrímsson
8. maí 2004
Fréttaskeyti frá Grikklandi: Síldarminjasafnið tekur þátt í Ólympíuleikum safna sem fram fer í Aþenu þessa dagana.
Eins og hæfir tilefninu var hinn forni leikvangur Grikkja opnaður fyrir keppnina.
Fulltrúi síldarminjasafnsins, Örlygur Kristfinnsson hefur lokið keppni en þar var aðalkeppnisgreinin "alhliða þrek- og fegurðarsýning með hjálpargagni" sem 45 söfn kepptu.
Siglfirðingurinn sveiflaði díxli sínum ákaft og var talinn hafa staðið sig þokkalega.
Í gær var farið í hof Póseidons, þar sem heitið var á sjávarguðinn að senda okkur aftur síldina á Norðurlandsmið. --- G.P.
9. maí 2004
Ein gömul: Þeir höfðu í ýmsu að snúast lögregluþjónarnir í "gamla daga" en þó alls óskyldum verkefnum en nú í dag, af sumu leiti að minnsta kosti.
Þessi mynd sýnir lögregluþjóninn Braga Magnússon dorga einn af mörgum kajökum, sem sökkt hafði verið frekar en að láta hann lenda í "höndum óvinarins", sem var löggan í þessu tilefni.
Mynd þessi er tekin árið 1965 þegar stórir ísjakar lónuðu hér innanfjarðar og strákarnir í Bakka og á Eyrinni smíðuðu sér kajaka í tugatali og sigldu stoltir á milli ísjakana.
Þetta var ekki vel liðið af foreldrum og eða "kjaftakerlingunum" sem hringdu gjarnan í lögguna þegar til drengjanna sást.
Þessi siður drengjanna var þekkt fyrirbæri áratugi aftur í tímann, þó svo lögreglan hefði haft minni afskipti þá, áður en sími kom í hvert hús.
9. maí 2004
Píluklúbbur Siglufjarðar hélt stigamót í Allanum í gærdag.
Þetta er liður í stigakeppni á landsvísu, en Siglufjarðarklúbburinn er í "landssambandinu"
Ég kom þar við er mótið stóð sem hæst og tók nokkrar myndir sem þú sérð ef þú smellir HÉR
9. maí 2004
Allinn er nafn, það sem Guðmundur Davíðsson forðum gaf Alþýðuhúsinu formlega með því að skrifa á stafn þess stórum stöfum nafnið; "Allinn". -
Annan desember á síðastliðnu ári seldi Guðmundur eign sína "Allann" og afhenti nýjum eigendum staðinn, sem eru hjónin Ólafía Ingibjörg Sigríður Guðmundsdóttir, sem allir þekkja sem "Lóu" - og mann hennar Haraldur Björnsson.
Reksturinn hefur gengið vonum framar og ljóma þau af ánægju, en bæði hafa starfað lengi sem launþegar í veitingageiranum og töldu sig fær um að sinna slíku á eigin spýtur.
Þjónusta þeirra er fjölbreytt; auk almenns veitingarekstur, dansleikja, fjölbreyttan mat í hádeginu og á kvöldin, bjóða þau upp á veislur, bingó, spilavist, biljard (en nýr biljard klúbbur hefur verið stofnaður) Þá er staðurinn tilbúinn til að taka við og þjóna hinum árlegu "árgangsmótum" brottfluttra Siglfirðinga. Og þá má nefna samstarf "Stöðvarinnar" og Allans, ef einhver hefur áhuga á Pizzuveislu. Og nefndu það, þau eru til í allt sem lífgað getur upp á lífið á Sigló. Myndin er af þeim hjónum, ásamt lukku grísnum.
9. maí 2004
Kóramót eldri borgara á Norðurlandi var haldið á Siglufirði í gær laugardag í Siglufjarðarkirkju.
Þar voru mættir kórar eldri borgara frá Húsavík, Akureyri, Skagafirði, Dalvíkurbyggð og Hrísey auk frá Siglufirði.
Meðfylgjandi mynd er af kór félags eldri borgara á Akureyri.
Einnig nokkra myndir sem Guðný Friðriksdóttir tók. Smelltu HÉR
9. maí 2004
Nýtt fréttaskeyti frá Evrópu: - Safnið okkar hlýtur verðlaun ! Síldarminjasafnið hlaut önnur aðalverðlaun Safnaráðs Evrópu (European Museum Forum) sem eru Micheletti - verðlaunin sem veitt eru fyrir framúrskarandi safnastarf á sviði vísinda, iðnaðar eða tækni.
Aðalverðlaunin, "Safn Evrópu ársins 2004" hlaut hið mikla og glæsilega fornminjasafn í Alicante a Spáni. Þriðju verðlaunin voru á vegum Evrópuráðsins komu í hlut Heilsugæslusafnsins í Edirne í Tyrklandi.
Þess má geta að allt að 40 Þúsund söfnum víðsvegar í Evrópu stendur til boða þátttaka í þessari virtu keppni. 45 söfn, sum afar stór og öll mjög glæsileg voru í þessari úrslitakeppni í Aþenu G.P.
9. maí 2004 - -Aðsend grein. 8. maí 2004
Athygliverð grein, sem ég fékk senda í gærkveldi, grein sem varðar ferðamál á Siglufirði. Greinin hefst með þessum orðum:
Ferðamálefni Siglufjarðar
Ég hef um nokkurt skeið haft í hyggju að skjóta ýmsum hugmyndum að heimamönnum hvernig festa má Siglufjörð betur í huga manna sem verðugan áfangastaða ferðamanna. Þetta geri ég að sjálfsögðu til að ég og mínir geti haft það ennþá betra þegar við dveljum á Siglufirði, en líklegt er að þetta geti dregið miklu fleiri ferðamenn til Siglufjarðar, sem margfaldar áhrifin.
Það er ekki aðeins álit mitt og annarra brottfluttra Siglfirðinga að Siglufjörður er stórkostlegur sumarleyfisstaður. Í sumar mun ensk fjölskylda dvelja í okkar húsi á Siglufirði í tvær vikur á meðan við fjölskyldan munum búa í þeirra húsi í London. Við urðum að hafna mörgum tilboðum um íbúðaskipti. Í ljósi þessara atriða tel ég Siglufjörð hafa mikla og einstaka yfirburði í ferðamálum og hefjast þarf markvisst vinnu í þeim málum.
Ástæða fyrir því að ég valdi þennan vettvangi til að viðra þær hugmyndir sem undirritaður hefur gengið með er sú að mjög margir eru farnir að skoða þennan ágæta vef Steingríms Kristinssonar, bæði Siglfirðingar og brottfluttir. Ég tel því að þessar hugmyndir muni ná til þeirra sem þær þurfa að ná til, en tel óþarft að þær séu viðraðar víðar.
Hér er haft að leiðarljósi að þessi skref mega ekki kosta mikið og helst ekki neitt. Þegar menn síðan fá reynslu af viðtökum geta menn tekið áhættu og kostaða meiru til.
Sérstaða Siglufjarðar er mikil, en ekki er víst að allir heimamenn sé meðvitaðir um hana eða áhrif hennar á ákvörðun ferðamanna fara þangað, en ekki eitthvert annað.
Hér er lítið dæmi;
Fyrir nokkrum árum vissi ég af fjölskyldu sem ákvað að verja verslunarmannahelgi á Siglufirði vegna þess að á dagskrá var sigling á firðinum og börnin voru afar spennt fyrir því. Börn af höfuðborgarsvæðinu hafa svo til engin tækifæri til að sigla, því lítið er um að boðið sé upp á slíkt í tengslum td við Sjómannadaginn. Að öðru leyti var dagskráin nákvæmlega eins og á öðrum stöðum. En svo illa tókst til að þrátt fyrir að þetta væri auglýstur dagskrárliður þá féll hann niður án þess að tilkynnt væri um það. Fólk mætti í hópum niður á bryggju þrisvar sinnum í veikri von um að nú yrði farið. Næsta ár lögðu börnin enga áherslu á að farið yrði til Siglufjarðar, þeim var orðið ljóst að sérstaðan umfram aðra staði um verslunarmannahelgi var engin. Uppblásnir hopp kastalar og leiktækjasirkus eru alls staðar og skemmtiatriði eins Stuðmannaböll fara um allt land.
Það er þó alltaf gaman á Siglufirði um verslunarmannahelgi. En þessi helgi hefur þróast í þá átt að uppistaðan í hópi gesta er fólk með tengsl við staðinn sem notar þessa helgi sem allsherjar heimsóknartíma.
En hver er sérstaðan sem getur dregið að ferðamenn?
Sérstaðan felst í umhverfinu og sögu þess. Ég ætla ekki að fara að lýsa hér umhverfi og sögu staðarins heldur koma með tillögur um hvernig menn geta hagnýtt sér þetta staðnum og íbúum til hagsbóta. Markmiðið sem menn eiga að setja sér er að fólk sjái ástæðu til að tefja meira á staðnum en í þær tvær klst sem tekur að skoða Síldarminjasafnið, skreppa á klósett á bensínstöðinni og kaupa þar einn ís. Best væri að fá sem flesta til að gista, þannig margfaldast tekjur af hverjum einstaklingi.
Hér á eftir verða taldir upp nokkrir framkvæmdaliðir sem auðvelt og ódýrt er að gera að veruleika, en geta haft margföld áhrif á ferðamennsku Siglufjarðar.
Göngubrýr.
Til að auðvelda göngufólki að fara um svæðið þarf að koma upp aðstöðu til að fara yfir ár. Þetta geta verið göngubrýr eða steinar í ám sem unnt er að nota til að stikla yfir. Slíkir staðir þurfa að vera merktir bæði á göngukortum og með snyrtilegum skiltum á stöðunum.
Mikilvægt er að koma slíkri aðstöðu yfir Héðinsfjarðará, bæði við ósinn og Vatnsenda. Þá er komin skemmtileg hringleið um vatnið. Við ósinn er nægjanlegt að koma grjóthrúgu fyrir í miðri á og skorða síðan rekaviðardrumba yfir ána. Sama mætti gera við vatnsendann.
Einnig væri æskilegt að koma slíkri “brú“ yfir Skarðsána í beinu framhaldi af skógræktarsvæðinu. Þá myndu menn komast yfir í hlíðina með auðveldum hætti. Ennfremur mætti athuga stiklur á Hólsá en hún er þó mun auðveldari fyrir göngufólk þegar innar dregur í dalinn.
Upplýsingamiðstöð
Æskilegt er að til sé einn staður í bænum þar sem menn geta aflað upplýsinga um hvað menn geta gert á staðnum, upplýsingar um heimagistingu eða í sumarhúsum, skráð sig í ferðir eða keypt veiðileyfi. Einhver vísir af þessari þjónustu hefur verið staðar, en þar var vísað á bensínstöðina varðandi veiðileyfi í Héðinsfirði og um veiðileyfi í Miklavatni var ekkert að hafa. Þetta þarf að taka mjög föstum tökum.
Ég tel að auðvelt væri að koma upp þessari aðstöðu upp í bókasafninu. Þar myndi einn starfsmaður ferðamála nýtast vel við afleysingar bókavarðar sem auðveldar að halda bókasafninu opnu yfir sumartímann þegar margir dvelja í sínum sumarhúsum og vilja liggja í bókum þegar rignir. Á staðnum mætti bjóða upp á góða netþjónustu fyrir ferðamenn, en nú þegar er netaðgangur þar. Þessi starfsmaður þarf að vera nokkuð öflugur og góður sölumaður því hann er lykill að því að unnt sé að selja þjónustu til þeirra sem rekast kunna inn.
Útbúa þarf bækling sem upplýsir ferðamenn um það sem staðurinn hefur upp á að bjóða og hvernig eigi að nálgast það.
Ef einhver þjónusta eða ferðamanna viðburðir krefjast lágmarksfjölda, gætu menn skráð sig þar og fengið síðan SMS boð þegar nægur fjöldi er kominn.
Göngukort
Vinna þarf gott göngukort fyrir svæðið. Þetta kort þarf að ná inn í Fljót og hugsanlega til Ólafsfjarðar Það þarf að ná yfir allar fornar gönguleiðir á svæðinu. Á þetta kort þarf að sjálfsögðu að merkja bæi og merka staði, ennfremur vettvang þjóðsagna og hrakfara. Þar sem sífellt fækkar þeim sem smala fé yrði unnið ákveðið varðveisluverk um rétta staðsetningu örnefna og staða.
Göngukortið gæti þróast upp í handhæga handbók um svæðið. Þótt alltaf sé best að fara um svæði í fylgd kunnugra þá er lítil peningaleg framlegð af slíku og framboð af fólki sem er bæði mjög staðkunnugt og gönguglatt kann að vera takmarkað þegar gönguhópar vilja fara. Best er að ganga frá hlutum þannig að ferðafólk geti bjargað sér sjálft á svæðinu og skaffa þá aðstöðu að það sé mögulegt.
Ferðamannaviðburðir
Síldarminjasafnið hefur þegar unnið sér verðugan sess, sömuleiðis pæjumótin.
En möguleikarnir eru miklu meiri. Hér verður nokkrum hugmyndum varpað fram.
a) Reglubundinn akstur með göngufólk inn að Siglufjarðarskarði og innar í Fljót fyrir þá sem vilja ganga Skarðið eða fara Botnaleið. Þá geta menn skilið bíla sína eftir á Siglufirði og gengið aðra leiðina, það er til Siglufjarðar.
b) Reglubundin sigling í Héðinsfjörð með göngufólk líkt og Ólafsfirðingar hafa boðið upp á laugardögum yfir sumartímann.
c) Sjóstangaveiði fyrir ferðamenn. Sjóstangveiðimót virðist vera haldið um verslunarmannahelgar en virðist lokað fyrir öðrum en heimamönnum. Aðstaðan og búnaður virðist þó vera til staðar og þetta yrði eflaust vinsælt af ferðamönnum.
d) Þjóðsagnasigling inni á firðinum. Siglt verði yfir að Staðarhólsbökkum og síðan nálægt landi út í Neskrók og síðan til baka. Hugsanlega mætti koma upp aðstöðu í Neskróknum þannig að unnt sé hleypa göngufólki í land sem gæti síðan gengið Nesdalinn eða tekið sé göngufólk sem komið er á Siglunes. Í siglingunni yrði sagan kynnt; snjóflóðin 1919, draugasögur af Staðarhóli, reið klerksins út Nesskriður, dráp Melbreiðar á Siglunesi og þannig mætti lengi telja. Þessi siglingaleið býður upp á einstaka samsetningu á skemmtisiglingu og sögum þar sem benda má á sögustaði jafnharðan og þeir bera fyrir augu. Brottför gæti verið frá Síldarminjasafninu og rekstur tengdur því.
e) Kajakamót Siglufjarðar. Kajakaeign Íslendingar er þegar orðin nokkuð algeng. Lygn fjörður á borð við Siglufjörð býður upp á einstaka aðstöðu fyrir þessa íþrótt. Halda mætti mót fyrir eigendur Kajaka, þetta gæti bæði verið keppnismót eða almennt mót áhugamanna. Þess má geta að keppni á kajak er Ólympíugrein og Siglufjörður gæti sett sig rækilega á kortið með reglulegu Íslandsmeistaramóti ef menn eru snemma á ferðinni. Unnt væri að fá styrki eða stuðning frá seljendum búnaðar til slíkra siglinga. Slíkur atburður myndi kalla á fjölda gesta, þátttakenda og áhorfenda. Selja mætti áhorfendum aðstöðu í bátum til að horfa á slíka keppni. Merking “keppnisbrauta” felst aðallega í belgjum og baujum sem komið yrði fyrir á ákveðnum stöðum í firðinum. Stofnkostnaður fyrir mótin yrði því mjög lágur miðað við aðra fjölmenna íþróttaatburði.
Mjög er margt er til staðar á Siglufirði, bátar, sjór, fjöll, þjóðsögur og sagan. Margir staðir í Evrópu mundu gefa mikið til að hafa úr slíkum pakka að moða. Sem dæmi má nefna að flestir vita að Siglunes var síðasta vígi heiðni á Íslandi. En það þýðir einnig að Siglunes var síðasta heiðna svæðið á Norðurlöndunum ef ekki í allri Evrópu. Þetta atriði getur haft aðdráttarafl fyrir norræna ferðamenn og jafnvel fleiri. Saga síldaráranna og hlutverk Siglufjarðar í þeim atburðum er afar merkileg. En það er engin ástæða til að staðnæmast eingöngu við það tímabil eða þá atburði sem tengdust síld með beinum eða óbeinum hætti.
Ég vona að menn taki þessi skrif mín ekki illa upp. Hugmyndirnar eru settar fram með jákvæðu hugarfari og velvilja í garð staðarins. Megintilgangur er að benda á hversu lítið í raun þarf að gera til þess að stórauka aðdráttarafl staðarins á sumrin.
Reykjavík 8 maí 2004 - Með sumarkveðju
Hlynur Jónsson Arndal