Mánudagur 16. maí 2005 -- Veðrið klukkan 18:18 í dag
(Kom heim úr "fríinu" klukkan 18:00)
Hiti 7 °C - Norðan kul - Sólskin
Þriðjudagur 17. maí 2005 --- Ein gömul:
Hjörtur Pétursson SI 80. Þessi bátur fórst í Faxaflóa í febrúar árið 1941 - og með honum öll áhöfnin, 6 menn. Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson
Þriðjudagur 17. maí 2005
Skíðaæfingar á Siglufirði
Frétt af síðu Skíðasambandsins www.ski.is þann 12.5.2005 - Landsliðið í Alpagreinum hóf í dag æfingar á Siglufirði sem standa yfir fram á mánudag. Landsliðsþjálfararnir James Dunlop og Pavel Cebulj eru komnir til landsins og munu sjá um æfinguna.
Um helgina verður nokkrum ungum og efnilegum keppendum boðið að taka þátt í æfingunni.
Nægur snjór er á Siglufirði og snjóaði þar í síðastliðinni viku. Að sögn Pavel var færið mjög gott og hart í morgun.
Hann telur að betri aðstæður finnist hvergi í Evrópu á þessum árstíma og er bjartsýnn á að æfingar verði góðar um helgina.
ATH. Ég fékk ábendingu um þessa frétt í morgun, raunar frétti ég einnig frá "óviðkomandi" aðila af þessu á föstudag, ég fór upp á skíðasvæðið eftir hádegið sama dag, en sá þar enga hreyfingu, frétti raunar að viðkomandi mannskapur hefði farið í sjóferð klukkan 13:00. -
Þar sem ég þurfti úr bænum á laugardag og kom ekki til baka fyrr en seinnipart mánudags, þá gat ég ekki kannað þetta betur. --
En eitt er víst; að ef aðstandendur þessa viðburðar, þar með taldir þeir Siglfirðingar sem tóku þátt í þessum undirbúningi, hefðu haft einhvern snefil af áhuga á að Lífið á Sigló, fjallaði um og birti myndir frá þessum einstöku æfingum og möguleikum í leiðinni á góðri kynningu á Skíðasvæðinu okkar, þá hefðu lesendur mínir örugglega fengið að njóta þess.
Miðvikudagur 18. maí 2005 -- Ein gömul:
Síldarbáturinn Auðbjörg GK 301 á leið inn til löndunar á Siglufirði einhvern tíma um 1940. -- Ellefu manna áhöfn stillir sér upp fyrir ljósmyndarann Kristfinn Guðjónsson.
Báturinn sökk á Húnaflóa 27. júní árið 1979, þá undir nafninu Vinur ST 21, -- Tveir menn sem þá voru um borð björguðust í gúmmíbát, og síðan um borð í Jökulfell, sem fór með þá til lands.
Miðvikudagur 18. maí 2005 --
Ljósmynd: Hrönn Einarsdóttir
Miðvikudagur 18. maí 2005 -- Góður gestur hefur komið sér fyrir í gluggaopi á heimili Júlíusar Þorkelssonar á annarri hæð og verpt þar 5 eggjum.
Glugginn hafði staðið opinn undanfarnar vikur, en límt fyrir með flugnaneti að innanverðu. Þetta er skógarþröstur sem þarna sést í gegn um flugnanetið, liggja í hreiðri sínu á vinstri myndinni en á hinni myndinni var hann floginn en netið fjarlægt til að hreiðrið sjáist betur.
Miðvikudagur 18. maí 2005
Síldarminjasafnið. Í morgun setti starfsmaður safnsins, Sveinn Þorsteinsson upp skilti sem er með upplýsingar varðandi Síldarminjasafnið.
Skiltið hefur verið við innkeyrsluna í bæinn undan farin sumur, en tekið niður að hausti.
Miðvikudagur 18. maí 2005 Aðsent:
Ég var að lesa "ádrepu" þína um skort á myndum af skíðaæfingum í Siglufjarðarskarði um hvítasunnuna. Ég var fyrir norðan um helgina með myndavélina. Fór ég nokkrar ferðir fram á fjörð og skimaði til fjalla. Ekki varð ég var neinna skíðamanna utan ég mætti einum jeppa sem var að koma ofan úr Skarði. Ætlun mín var að ná myndum af fólki á skíðasvæðinu en ég kom ekki auga á þá.
Má vera að ég hafi ekki verið þarna á réttum tíma. --- Aftur á móti hitti ég Gunnar Trausta og Dóru Jónasar þar sem þau voru á göngu fram á firði.
kv Guðmundur J. Albertsson
Miðvikudagur 18. maí 2005
Þessi fríði hópur; 10. bekkur Grunnskólans lauk í morgun "Samræmdu prófi" og eru þarna á tröppum skólans ásamt fararstjóra Sigmundi Sigmundssyni og bílstjóranum Gísli Jónsson.
En hópurinn er að leggja í óvissuferð, eitthvað út í buskann.
Miðvikudagur 18. maí 2005 --
Fyrirtæki mánaðarins; Bás ehf.
Í dag tilnefndi stjórn Kaupmannafélags Siglufjarðar fyrirtæki mánaðarins.
Á myndinni eru Freyr Sigurðsson formaður - Helga Freysdóttir - Elín Þór Björnsdóttir - Sveinn Zophoníasson og Sveinn Ástvaldsson.
Miðvikudagur 18. maí 2005
Maður mánaðarins; Sveinn Björnsson.
Í dag tilnefndi stjórn Kaupmannafélags Siglufjarðar mann mánaðarins; Svein Björnsson, fyrir margvíslega forystu í félagsstörfum og fleiri störf.
Sveinn hefur til langs tíma verið .driffjöður í meðal annars Björgunarsveitinni, Félagi aldraðra og fleiru. --- Á myndinni eru Freyr Sigurðsson formaður, Guðmundur Sveinsson stjm., Guðrún Hauksdóttir stjm., Sveinn Björnsson og kona hans Guðný Guðmundsdóttir og Elín Þór Björnsdóttir
Fimmtudagur 19. maí 2005 -- Ein gömul:
Hringur SI 1 -- Hét áður Siglunes SI 15, þá eign Henrik Henriksen frá 1923 til 1930, skipið fór víða á flakk og skipti oft um nafn og eigendur, síðast Vísundur RE 280, talið ónýtt og tekið af skrá 1963. Heimild: "Íslensk skip" eftir Jón Björnsson
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson
Fimmtudagur 19. maí 2005
Þessi sími er til sölu; MAXON
Þetta er NMT farsími, sáralítið notaður. NMT er kerfi sem er langdrægara en hið hefðbundna GSM kerfi, og því mikið notað á gönguferðum utan byggðarkjarna og úti á sjó.
Hleðslutæki; bæði fyrir 220 volt og kveikjaratengi 12 volt Verð kr 2.000
Upplýsingar hjá Steingrími í síma 892-1569
Ath. "er seldur" sama dag, eftir að síminn var auglýstur hér.
Fimmtudagur 19. maí 2005 (viðkomandi síða ekki aðgengileg árið 2016)
Ég fékk ábendingu um Síðu "Gumma Kobba" Síðan hefur að geyma margar frábærar ljósmyndir frá "Æfingum á Siglufirði vegum Skíðasambands Íslands og alpagreinanefndar," við góðar aðstæður, eins og segir á síðunni. Ekki virk í dag árið 1019
Fimmtudagur 19. maí 2005 HALLÓ ALLIR SAMAN!!! Nú er komið að því, messa og kaffi í Grafarvogskirkju sunnudaginn 22 maí. Viljum minna á hið árlega kaffi Siglfirðingafélagsins sem nú verður haldið í Grafarvogskirkju nk. sunnudag 22 maí og með sérstakri Siglfirðingamessu á undan. Séra Vigfús Þór Árnason ásamt öðrum fyrrverandi og núverandi prestum Siglufjarðar munu messa. Messan hefst kl. 13:30 og kaffið þar í framhaldi um kl. 15:00 --- Meðlæti er ávallt vel þegið og þeir hvattir sem tök hafa á að gera kaffiborðið hið glæsilegasta með sínu framtaki. --
Stjórn Siglfirðingafélagsins
Fimmtudagur 19. maí 2005 -- Safnaráð Íslands var í heimsókn á Síldarminjasafninu í gær og hélt hér fund.
Voru sumir í ráðinu hér í fyrsta sinn þótt það hafi verið Safnaráð sem ákvað það á sínum tíma að senda safnið okkar í Evrópukeppni safna sem svo frægt varð. Þegar ég spurði fólkið hvernig því litist á, þá svaraði Jón Gunnar Ottósson forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar að þetta væri alveg ótrúlegt, hann væri hér í fyrsta sinn og væri alveg undrandi. Ólafur Kvaran forstöðumaður Listasafns Íslands og formaður Safnaráðs sagði að hér á safninu væri allt með þeim hætti að það hlyti að skapa ný viðmið fyrir safnastarf í landinu. Á ljósmyndinni eru: Rakel Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Safnaráðs, Álfheiður Ingadóttir, útgáfustjóri Náttúrufræðistofnunar, Sigrún Ásta Jónsdóttir, safnstjóri í Reykjanesbæ, Jón Gunnar Ottósson, Gísli Sverrir Árnason kynningarfulltrúi Þjóðminjasafnsins, Ólafur Kvaran og Örlygur Kristfinnsson. --
Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður var nýfarin þegar myndin var tekin.
Fimmtudagur 19. maí 2005
Björgunarsveitin Strákar hélt aðalfund sinn í gærkveldi.
Guðmundur Gauti Sveinsson sendi mér nokkrar myndir, sem þú sérð ef smellt er HÉR
Fimmtudagur 19. maí 2005
Í gærkveldi á Kaffi Torgi Siglufirði boðaði til framhaldsstofnfundar félagið "Ný sókn á Norðurlandi". --- Tilgangur félagsins er stuðla að uppbyggingu stóriðju á Norðurlandi og að vatns- og gufuafl á Norðurlandi verði nýtt og beislað í því skyni. Félagið leggur höfuðáherslu á að kynna kosti Eyjafjarðar sem heppilegan staðar fyrir stóriðju.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að standa fyrir opinni umræðu um málið og með útgáfu á kynningarefni. . Myndin hér til hliðar, er af hluta nýkjörinnar stjórnar og þeim sem fluttu erindi á fundinum. Fleiri myndir HÉR
Föstudagur 20. maí 2005
Ein gömul: Haki EA 533 við eina af bryggjum SR, fyrir árið 1940
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson
Föstudagur 20. maí 2005-- Abbý --
Arnfinna Björnsdóttir opnar málverkasýningu sína í vinnustofu sinn að Aðalgötu 13 á Siglufirði klukkan 15:00 í dag. Opið verður um helgina frá klukkan 15-17 - Þarna eru ýmsar eigulegar myndir og raunar munir einnig, sem Abbý hefur gert. Ég leit þar inn í gær er Abbý var að undirbúa sýninguna og tók þessa mynd af henni við það tækifæri.
Föstudagur 20. maí 2005 Sönghópurinn Dyfra verður með söngskemmtun í kvöld á Allanum. Ýmislegt efni verður á boðstólnum, allt frá léttri jazzmúsík til Siglfirskra dægurlaga. Þá koma fram gestasöngvarar, þeir Daníel Pétur Daníelsson – Björn Sveinsson og Þorsteinn Bjarnason. Stjórnandi og undirleik annast Renanta Ivan -
Ég leit inn á æfingu þeirra í gærkveldi og hlustaði stund. Væntanleg uppákoma boðar gott og áhugavert. Siglfirðingar, mætið á Allan Sportbar og hlustið á fjöruga músík.
Sönghópurinn Dyfra og undirleikarinn
Daníel Pétur og undirleikarinn
Föstudagur 20. maí 2005
Söngur barnaskólakrakka.
Barnaskólakrakkar ásamt kennurum fjölmenntu á tröppur kirkjunnar í morgun þrátt fyrir nepjuna sem fremur vísaði til hausts en sumarkomu. Þau mættu þarna til að taka lagið í tilefni af afmælisdegi Siglufjarðarkaupstaðar. Krakkarnir sungu nokkur lög án þess að láta kuldann ná tökum á sér og ánægjan skein úr andlitum þeirra eins og sjá ef smellt er HÉR
Föstudagur 20. maí 2005
Eftir sönginn á kirkjutröppunum hófst allskonar leikjakeppni á Skólabalanum, sem lauk með grilluðum pylsum og góðgæti.
Föstudagur 20. maí 2005 -
Kiwanisklúbburinn Skjöldur afhenti hjálma til sjö ára krökkum barnaskólans, fyrir hádegið fyrir hönd Eimskip.
Þar voru mættir fyrir hönd Kiwanis þeir Guðmundur Skarphéðinsson og Steinar Baldursson, fulltrúi lögreglu Adólf Árnason sem skýrði fyrir krökkunum tilgang og notkun hjálmanna að auki fór hann yfir umferðarmálin.
Fulltrúi Heilbrigðisstofnunar lýsti áhrifum þess að vera með hjálm og þegar ekki væri verið með hjálm er slys ber að höndum.
Föstudagur 20. maí 2005
Landsbjörg, félagar björgunarsveita um allt land koma saman nú um helgina til fundar á Akureyri til skrafs og ráðagerða. Þar verða til sýnis ýmis búnaður sveitanna.
Björgunarbáturinn Sigurvin hefur þegar lagt af stað til Akureyrar, þessi snjóbifreið er að ferðbúast á fleti sem fluttur verður til Akureyrar.
Bílar Björgunarsveitarinnar Strákar eru einnig farnir til þessa móts. Á næsta ári má svo búast við að Björgunarsveitin strákar fái til umráða nýjan og fullkomnari björgunarbát en núverandi bátur Sigurvin, sem þó hefur sýnt og sannað að er góður bátur, en alltaf má fá betra skip.
Föstudagur 20. maí 2005 Hvar eru Siglfirðingar EKKI ? Ég fékk þessa skemmtilegu mynd senda, af Siglfirðingum sem allir starfa hjá VÍS. - Ljósm; ókunnur
Í tilefni þess að afmæli Siglufjarðar er í dag komum við í Siglfirðingafélaginu í VÍS saman og létum smella af okkur mynd. Við störfum öll í höfuðstöðvum Vátryggingafélagi Íslands og rekjum ættir, eða höfum búið á Sigló lengri eða skemmri tíma Við biðjum öll fyrir góðar kveðjur á Siglufjörð!
- Aftari röð frá vinstri: (1) Bragi M. Reynisson foreldrar Reynir Sigurðsson og Sigríður Bragadóttir (Braga Magg). Heimili á Sigló - Suðurgata 78 (1965-1970) (2) Sigurður R Stefánsson: foreldrar Stefán Þór Haraldsson og Fríða Sigurðardóttir. (3) Sigríður Jóhannesdóttir: Bjó á Siglufirði frá 1992-2002 á Hverfisgötu 6. Var í sambúð með Skúla Jóhannessyni.(4) Sverrir Jón Gylfason: faðir Gylfi Eiríksson fæddur og uppalinn á Sigló, amma og afi Eiríkur Guðmundsson og Herdís Ólöf Jónsdóttir úr Fljótum, bjuggu á Siglufirði frá 1945 til 1965. Eiríkur var bæjarverkstjóri á Siglufirði til fjölda ára. (5) Sigurjón Lýðsson: faðir Lýður Ægisson er fæddur og upp alinn á Siglufirði. Amma í föðurætt, Þóra Frímannsdóttir býr á Sigló Einnig var amma í móðurætt frá Siglufirði og langafi hét Ólafur Hvanndal og var lögreglumaður á Siglufirði (6) Ólafur Lúther Einarsson: móðir Aðalbjörg Lúthersdóttir fædd og uppalin á Sigló, amma og afi í móðurætt Sigríður Stefánsdóttir og Lúther Einarsson rafvirki. (7) Guðmundur Albertsson: foreldrar Albert Sigurðsson (Alli í Mó) og Guðborg Franklíndóttir búsett á dvalarheimilinu Skálarhlíð. Fremri röð (1) Guðmundur J. Helgason: fæddur og ólst upp á Siglufirði til 16 ára aldurs. Foreldrar Helgi Jóhannsson og Svandís Óskarsdóttir. Afi í föðurætt Jói á Nesi. (2) Anna Rós Ívarsdóttir: fædd og uppalin á Sigló. Foreldrar Ívar Geirsson og Sigrún Ásta Gunnlaugsdóttir búsett á Siglufirði til 1996. Móðuramma Anna Vignis býr á Siglufirði. (3) Inga Rún Elefsen: fædd og uppalin á Siglufirði. Foreldrar Sverrir Elefsen og Karlotta Evertssen og búsett á Sigló. - Á myndina vantar Gylfa Gaut Pétursson, sonur Péturs Gauts sem var bæjarfógeti á Siglufirði. Gylfi bjó á Sigló frá 1961-1966. Aðrir Siglfirðingar hjá VÍS er Sigurbjörn Bogason þjónustustjóri VÍS á Sauðárkróki og svo að sjálfsögðu Magnús Eiríks og Guðrún hjá VÍS á Sigló.
Laugardagur 21. maí 2005
Ein gömul: Ekki vil ég fullyrða það, - en tel þó nokkuð víst að þessi kofi, verkstjóraskrifstofa og afdrep löndunarmanna hjá SR forðum daga.
Kofinn er enn í notkun hér innan við fjall og notað sem sumarbústaður, bústaður sem gárungar kalla "Sjástvalla staðir" þar sem illa sést til hans frá þjóðveginum.
En þarna er verið að koma skúrnum niður af hábryggjum, rétt áður en þær voru rifnar einhvern tíma eftir 1960
Birgir Agnar Sigurðsson
Laugardagur 21. maí 2005 Aðsent: - - Birgir Agnar Sigurðsson, sonur Sigga og Lóu var að útskrifaðist í gær frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík. Þetta er síðasti árgangur sem útskrifast í nafni Stýrimannaskólans. Á næsta ári verða nemendur útskrifaðir frá Fjöltækniskóla Íslands. Birgir er að útskrifast sem skipstjóri með III stig, sem sagt full réttindi á öll skip nema varðskip. -- Heppilegur dagur til útskriftar; 20 maí, afmælisdagur Siglufjarðar. S.L.
Laugardagur 21. maí 2005 -- Aðsent: Ég var að gramsa í gömlum filmum og rakst þá á þessa gömlu mynd frá bátadokkinni. Þarna er dýpkunarskipið Leó sem var að moka upp sandi þarna í dokkinni. Held að þetta sé á árunum uppúr 1960 en kannski muna einhverjir þetta nákvæmar. Til gamans setti við hliðina myndi sem ég tók um hvítasunnuna á svipuðum stað. Guðmundur Albertsson
Laugardagur 21. maí 2005 Borgarísjaki. Þessi tignarlegi borgarísjaki hefur síðustu vikur og daga verið að færa sig austar og austar. Ég tók mynd af honum síðastliðinn Laugardag 14. maí 2005, þá djúpt norður af Sauðarnesi (myndin til vinstri). Sveinn Þorsteinsson tók myndina til hægri í gær klukkan 14:00 í gær, þar sem jakinn er strandaður við Árskógsströnd inni á Eyjafirði og hefur hann breytt talsvert um lögun vegna bráðnunar.
14. maí
20 maí
Laugardagur 21. maí 2005 -- Gólfplatan steypt í nýja bílskúrinn hans Guðmundar Ó Einarssonar við Hvanneyrarbraut. Þarna er allt tilbúið, og verkið rétt að hefjast. --
Myndin var tekin í morgun klukkan 10:20
Laugardagur 21. maí 2005 -- Miklar breytingar eru að verða á svæðinu þar sem bæjarmörkin til Siglufjarðar byrja, skiltið af korti bæjarins er horfið í bili og vinnuvélar á fullu við að breyta útliti svæðisins, sem sagt er muni verða; mjög skemmtilegt og hreint augnayndi. Myndin var tekin í morgun klukkan 10:10
Sunnudagur 22. maí 2005 --
Ein gömul:
Sigurður Jónsson (á bak við) - Gunnar Tómasson og Salmann Kristjánsson, staddir á veitingastaðnum Wintergarden í Grimsby í Englandi. 1967(68)
Sunnudagur 22. maí 2005 Vortónleikar Tónskóla Siglufjarðar og skólaslit fór fram í Siglufjarðarkirkju seinni partinn í gær. Þarna var góð stemming er nemendur og kennarar létu heyra í hljóðfærum sínum, svo og tóku tveir nemendanna lagið. Krakkar sem þarna voru með foreldrum sínum nutu þess einnig vel og voru greinilega í góðu skapi. -- Dagskrána má lesa neðst á þessari síðu
Sunnudagur 22. maí 2005 Hjólað í vinnuna - Hópur starfsmanna Sjúkrahússins á Siglufirði fór klukkan 13:00 frá dyrum sjúkrahússins áleiðis hjólandi til Reykjavíkur. Þetta er um 400 kílómetra leið eins og flestir vita, en hjólreiðunum mun þannig háttað að einn mun hjóla í einu. og annar leysa af til skiptis. Fyrstur fór af stað frá anddyrinu, yfirlæknirinn sjálfur Andrés Magnússon sem mun hjóla samkvæmt áætlun fyrsta áfangann á Ketilás í Fljótum, en þar mun Valþór Stefánsson læknir taka við af honum og síðan koll af kolli, en þátttakendur eru alls 12 plús fylgdarlið. Smelltu HÉR og skoðaðu Ljósmyndir: SK og Hrönn
Sunnudagur 22. maí 2005 klukkan 16:25 - Hjólað í vinnuna -- Hópurinn var kominn til Varmahlíðar klukkan 16:20 í dag - erfiðasti hluti leiðarinnar reyndist vera síðasti spölurinn, frá gatnamótum þjóðvegar 76 og þjóðvegi nr. 1 á leiðinni til Varmahlíðar, en þar var allsnarpur íssssssssssskaldur vindur beint í fangið á þeim sem hjólaði þann spölinn. -- Og að Staðarskála voru þau komin klukkan 21:00
Mánudagur 23. maí 2005 --- Ein gömul:
Skagfirðingur SK 1, - við Pólstjörnubryggju, einhvern tíma fyrir 1940
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson
Mánudagur 23. maí 2005
Guðmundur Albertsson sendi mér nokkrar myndir frá kaffifundi Siglfirðingafélagsins í safnaðarheimili Grafarvogskirkju.
Mánudagur 23. maí 2005
Aðsent:
Nítján nemar útskrifuðust með full réttindi eða 4.stig frá Vélskóla Íslands síðastliðinn laugardag 21.maí. - 4.stigið gefur réttindi á ótakmarkaða vélarstærð í skipum. Í þessum hópi var einn Siglfirðingur; Hjalti Gunnarsson og er hann að flytja norður á Siglufjörð aftur ásamt unnustu sinni Söndru Finnsdóttir og stefnir hann á að leggja stund á sjómennsku nú strax að loknu námi. -
Á myndinni hér eru Hjalti og Sandra.
Ókunnur ljósmyndari
Mánudagur 23. maí 2005 -- Álftirnar á hólmanum sem þeim var ætlaður á Langeyrartjörn.
Myndin til vinstri var tekin 11 maí síðast liðinn, er Örlygur Kristfinnsson var að dreifa heyi á hólmann, í von um að álftirnar settust þar að til varps. Í morgun voru þær komnar (í þriðja eða fjórða sinn ?) á hólmann og létu fara vel um sig, en þó aðallega að virtist í heimsókn og til að bíta gras. Við vonum að þær fari að gera sig heimakomna.
Mánudagur 23. maí 2005
Hjólað í vinnuna -
Nýjustu fréttir af hópi starfsmanna Sjúkrahússins á Siglufirði: Þeir mættu á réttum tíma í Húsdýragarðinn klukkan 12:00 til að taka við 2. verðlaunum í margræddu keppni "Hjólað í vinnuna" Þau komu raunar um þrjú leytið í Mosfellsbæ, en hópurinn gisti hjá Jóni Sigurbjörnssyni fyrrverandi forstjóra Sjúkrahússins, í nótt. --
Hópurinn lagði svo aftur stað hjólandi frá Mosfellsbæ upp úr klukkan 10 og mættu sem fyrr segir klukkan 12 í Húsdýragarðinum í Reykjavík.
Ljósmynd: Hrönn Einarsdóttir
Mánudagur 23. maí 2005 Við erum nú ókunnir hérna. Sagði skipstjórinn á Gísla KÓ 10 1909 Guðmundur Geirdal, hæverskur var hann þegar ég spurði um aflann sem var 8 tonn, fiskað á línu úr 20 bölum. -- Mjög góður afli sýnist mér, enda báturinn hlaðinn. Mér er sagt að hann sé "smitaður" Siglfirsku blóði, en hann býr í Kópavogi og er að byrja róðra héðan frá Siglufirði, og afi hans mun vera Gísli Sigurðsson "Grímseyingur" sem eldri Siglfirðingar þekkja vel. Mér var einnig sagt að sá sem er með honum heiti Sævar.........
Guðmundur Geirdal og Sævar
Gísli KÓ 10 1909
Þriðjudagur 24. maí 2005 Ein gömul / löngu horfið:
Ásgeirshús, var þetta stóra lagerhús kallað í "gamla daga" þegar það stóð norðan við Ránargötu og var notað til að hýsa allskonar varning, allt frá síldarafurðum, tunnum, salti, ýmsum áhöldum, til heilu svifflugvéla, sem þarna voru einnig geymdar. --
Stóra SR- mjölhúsið "Ákavíti" stendur nú sunnan við Ránargötu, "hinum megin" götunnar
Þriðjudagur 24. maí 2005 Unnið er að því nú að endurgera gangstíg sem var raunar áður var bæði "gangstígur" akvegur fyrir vörubíla eins og þeir voru í kring um 1940-1950 -
En nú á að gera þarna um eins og hálfs metra breiðan gangstíg frá Suðurgötunni og niður að Snorragötu við Síldarminjasafnið. Á myndunum er Arnar Heimir Jónsson garðyrkjufræðingur bæjarins, - sem því miður fer að yfirgefa okkur, en hann heldur til frekara náms í Svíþjóð áður en langt um líkur.
Þriðjudagur 24. maí 2005 Aðsendur texti. Undanfarnar vikur hefur verið unnið við lagfæringar, breytingar og viðbætur á golfvelli okkar Siglfirðinga. Verktakafyrirtækið BÁS hefur séð um framkvæmd verksins. Fyllt hefur verið í skurð á brautum 3 og 4 og fyllt í skurð á braut 6 þar sem áður var blár skurður á móts við flötina. Skurðum á milli brauta 1 og 2 hefur verið lokað. Sandglompa við flöt 1 hefur verið stækkuð. Búið er að móta gróflega flötina á braut 2 og verður hún fullmótuð og lagt á hana gras í vikunni. Nú er unnið við að loka skurði við 7 flöt og gerð sandglompu á því svæði ásamt fleiri smá verkum sem of langt mál væri að telja upp. -- Fleiri fréttir síðar. og svo er hér orðsending til FÉLAGSMANNA GOLFKLÚBBSINS: Vinnukvöld hjá Golfklúbbnum nú í vikunni: Þriðjudagur klukkan 19:30 --- Fimmtudag klukkan 19:30 -- Meðal þess sem vinna á við er flötin á 2. - Sandgryfju við 7. flöt, setja saman bekki og flytja á teiga, göngustíg að 4 teig og fleira smátt. -
VONAST EFTIR GÓÐRI ÞÁTTTÖKU FÉLAGSMANNA
Vallarstjóri, ---- V. Ingi Hauksson .--
Meðfylgjandi mynd (sk) var tekin yfir 7. braut, í hríðarmuggu sem var þarna suðurfrá í morgun klukkan 10:00 - en vinnuvél var þarna að fylla upp í skurð.
Þriðjudagur 24. maí 2005 --- Verkfundur "undir vegg"
Hvaða launráð ætli þessi hópur sé að brugga þarna í skjóli við kindakofann hans Hafsteins Hólm? -
Ég sá þá út um eldhúsgluggann minn þar sem ég sat yfir kaffibollanum mínum klukkan 15:40 í dag, og smellti á þá þessari mynd.
Ekkert hættulegt var þarna á ferð, en þarna voru starfsmenn bæjarins Sigurður Hlöðversson tæknifræðingur bæjarins, Verktakinn Sveinn Ástvaldsson (Bás ehf), landslagsarkitektinn Reynir Vilhjálmsson og fleiri að glugga í teikningar vegna útlits á útivistarsvæðinu þarna norðan við aðgengi að snjóflóðagörðunum vegna útivistar og fleira.
En svona verkfundir á vettvangi fara fram vikulega vegna áður nefndra framkvæmda.
Miðvikudagur 25. maí 2005
Ein gömul: Óskarsstöð og SRN og 30 í bak
Miðvikudagur 25. maí 2005 Snjóflóðavarnargarðar & útivistarsvæði. Ég fékk mér göngutúr á vinnusvæðið í morgun til að skoða verkið og aðstæður, ekki síst vegna þess að mér hefur sýnst neðan frá götu séð að verkið hafi gengið mjög vel. Það var alls ekki nein missýn, sem sást vel þegar á vettvang var komið. Myndir HÉR
Miðvikudagur 25. maí 2005 --- Andlitslifting.
Gústi og Hjalli hafa að undanförnu verið að vinna við endurbætur og klæðningu á Suðurgötu 30 - húsi þeirra Baldvins og Ingu sem flestir Siglfirðingar þekkja orðið, sum betur en aðrir eins og gengur. Myndin var tekin í morgun klukkan 11:32
Texti og ljósmynd: Sveinn Þorsteinsson. sveinnth@simnet.is
Fimmtudagur 26. maí 2005 --
Ein gömul: Netamenn á bryggju SR, einhvern tíma fyrir/um 1940
Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson
Fimmtudagur 26. maí 2005
Siglufjarðarkirkja, mynd tekin í gærmorgun frá sjalgæfu sjónarhorni.
Fimmtudagur 26. maí 2005 --- Ég fékk nokkrar skemmtilegar myndir sendar frá kennurum leikskólans Leikskálar sem þú sérð ef þú smellir HÉR
Föstudagur 27. maí 2005
Ein gömul:
Hraðfrystihúsið Ísafold og nágrenni 1963 +/-
Í dag er þarna GENIS til húsa, og húsið gjörbreytt utan sem innan
Föstudagur 27. maí 2005 -- Hún er ekki bangin þessi kolla, sem þarna situr á eggjum sínum við vegarkantinn á Langeyrarvegi. -- Óskar Berg Elefsen sendi mér þessar myndir sem hann tók klukkan 19:00 í gærkveldi. Kollan var mjög spök. Vonandi fær fuglinn að koma sínum ungum á sporð í friði. Og einhverjir setji upp skilti við enda vegarins til að vara við ungum á ferð, áður en mjög langt um líður.
Föstudagur 27. maí 2005 Frá Skíðafélaginu: Ég var beðinn að benda á fréttasíðu Skíðafélagsins; nýjar fréttir. Smelltu HÉR Síðan er ekki fyrir hendi lengur 2019
Stefán B Stefánsson
Ágúst Már Kristinsson
Föstudagur 27. maí 2005 Enn eina ferðina enn.
Nú þarf ég að skreppa suður vegna útskrifta tveggja menntaskólanema, á föstudag sonur Huldu systir, Stefán B Stefánsson (til vinstri) og sonarsonur minn Ágúst Már Kristinsson (til hægri) á laugardag. --
Það er nokkuð öruggt að ég fer ekki fleiri ferðir úr bænum í maímánuði. (ha, ha.)
Síða mín verður ekki uppfærð aftur fyrr en á mánudag 30. maí.
Föstudagur 27. maí 2005 -- Skarphéðinn Guðmundsson stendur í stórræðum, hann er nú að innrétta húsbíl, sem hann ætlar sér að ferðast á í sumar.
Ljósmyndir Sveinn Þorsteinsson svennith@simnet.is
Föstudagur 27. maí 2005 - Verið að byggja sólpall hjá bræðrunum Valtý Sigurðssyni og Jóhanni Sigurðssyni. -- Ólafur Kárason og hans menn vinna þarna hörðum höndum. Suðurgata 80 Ljósmyndir hér fyrir neðan: Sveinn Þorsteinsson svennith@simnet.is
Laugardagur 28. maí 2005 -- Slökkviliðsæfing. Þeir notuðu veðurblíðuna í dag, slökkviliðsmennirnir á Sigló og fóru yfir tækjabúnaðinn og skipulagningu.
Ljósmynd: Sveinn Þorsteinsson svennith@simnet.is
Sunnudagur 29. maí 2005 - Æðarbóndinn blessar búbótina ! Var textinn sem fylgdi þessari mynd af Örlygi Kristfinnssyni þar sem hann er á varpsvæðinu skammt frá sumarbústað sínum í dag. svennith@simnet.is
Mánudagur 30. maí 2005
Ein gömul:
Hjónin Magnús Ásmundsson bifreiðarstjóri og Guðrún Sigurhjartardóttir
Mánudagur 30. maí 2005 Ég fékk þessar tvær sendar frá Hrönn Einars: Önnur af borgarísjakanum á Eyjafirði og hin frá Miklavatni.
Hrönn er komin með nýja myndavél - Eins og sjá má á góðum myndum hennar.
Mánudagur 30. maí 2005
Nýútskrifaður stúdent 27. maí:
Stefán B Stefánsson og móðir hans Hulda Guðbjörg Kristinsdóttir. (Hulda er systir mín, SK)
Stefán hyggur á nám í sálfræði, fyrst hér heima og síðan í Bandaríkjunum.
Mánudagur 30. maí 2005
Nýútskrifaður stúdent 28. maí:
Ágúst Már Kristinsson, sonur Kristins Steingrímssonar og Elínborgar Ágústsdóttur. -- Hjörtur Halldórsson skólabróðir hans og vinur, er til hægri á myndinni. Þeir útskrifuðust sama dag úr Verslunarskólanum. Ágúst Már hyggur á nám í arkitektúr á Ítalíu á næsta ári, en Hjörtur í lögfræðinám hér heima.
Mánudagur 30. maí 2005 --- Árgangur 1945 héldu hér á Siglufirði nú um helgina árgangsmót, þar komu saman 74 fyrrverandi skólasystkini og makar þeirra. Myndir HÉR Ljósmyndir: Sveinn Þorsteinsson - svennith@simnet.is
Mánudagur 30. maí 2005
VEÐURÁHUGAMENN og aðrir lesendur HJÁLP --
Ég verð að játa að ég er ekki einn í þeim hópi sem spái mikið í veðrið eða hlusta og horfi á veðurfregnir og spár.
En eins og allir sem heimsækja þessar síður mína vita, þá eru þar daglegar fréttir og ljósmyndir sem tengjast veðrinu eins og það er í hádeginu á Siglufirði hverju sinni.
(ekki sett inn í þessar uppfærslur, en efnið til enn)Þessi þáttur var í upphafi settur á síðuna eftir ósk brottfluttra Siglfirðinga, sem flestir hafa svo sterkar taugar til Siglufjarðar, að þeir fylgjast með ástandinu heima og þar með veðrinu.
Síðan bættist við mynd af einhverju húsi, sem venjulega var tekin fyrir hádegið og sett við hlið “veðurmyndarinnar” -- Lesa meira: Neðst á þessari síðu
Mánudagur 30. maí 2005 -- Haldið í róður, myndin er tekin eftir hádegið í dag
Ljósmynd: Sveinn Þorsteinsson - svennith@simnet.is
Þriðjudagur 31. maí 2005 -- Ein gömul:
Löndunarbið hjá SR -- einhvern tíma fyrir 1940
Þriðjudagur 31. maí 2005 - Golfkennsla 4. júní. --
Gunnlaugur Erlendsson, golfkennari verður með kennslu á Hóli, Siglufirði laugardaginn 4. júní næstkomandi.
Þriðjudagur 31. maí 2005
Nýjar Heimasíður Siglfirðinga:
Strandir.is (Ester Sigfúsdóttir og maki) og Íris Gunnarsdóttir
Þriðjudagur 31. maí 2005 Aðsent: Ég vildi bara vekja athygli á að Íris Gunnarsdóttir var að gefa út geisladisk með nokkrum af hennar bestu lögum. Diskurinn var tekinn upp í febrúar með aðstoð Helga Sv. Helgasonar og Davíðs Þórs Jónssonar auk þess sem Bogomil Font syngur með Írisi í einu lagi. Fjöldi annarra tónlistarmanna lagði hönd á plóginn við gerð disksins með Írisi.
Endilega kíkið inn á heimasíðuna: www.irisgunnars.com þar sem hægt er að heyra brot úr lögunum, skoða texta, myndir o.fl. -- S.H.
Þriðjudagur 31. maí 2005
Smábátarnir sem gerðir eru út nú á sumarvertíð, línu og færabátar hefur fjölgað upp á síðkastið, enda drjúgur aflinn - og stundum svo að komið hefur fyrir að bátarnir hafi ekki borið allan aflann í einn ferð frá einni lögn og þurft því að fara tvær ferðir til að klára að draga línuna. Aukning flotans sem gerður er héðan út, starfar aðallega frá aðkomumönnum sem frétt hafa af aflasældinni og fá þá gjarnan senda línubalana annarsstaðar frá með flutningabílum. Þá hefur það borið við að um hreina löndunarbið sé að ræða þar sem aðeins eru tvö löndunartæki fyrir bátana.
En þetta eru rólegir drengir og þolinmóðir.
Þriðjudagur 14. júní 2005
Eins og sést hér fyrir neðan þá óskaði ég aðstoðar lesenda minna til að fjárfesta í veðurstöð. Árangurinn var mjög góður, en stöðin upp komin; það er stöðin sjálf með tilheyrandi, efni, framlag og sjálfboðavinna má meta sem 3/4 af kostnaðar, sem alls var um 140 þúsund krónur.
Restina réði ég vel við, en enn er eftir að kaupa tengi og hugbúnaðinn til að koma upplýsingunum lifandi beint á síðuna, þannig að hægt verði að skoða á netinu um ástand líðandi stundar, þær fjölmörgu upplýsingar sem stöðin býður upp á. Það mál verður bráðlega í höfn.
En nú er annað mál komið í gang, ekki síður áhugavert.
En eftir hvatningu góðra manna hefi ég ákveðið að kaupa vandaða vefmyndavél, og er vinna við það verkefni á fullu meðal annars er verið að semja um það mál við erlendan aðila.
Myndavélin hefur verið keypt, og allur undirbúningur á lokastigi -- nema búið er að bíða yfir 10 daga eftir ADSL tengingu fyrir vélina hjá símanum. (1. september 2005)
Mjög margir hafa hvatt mig í orði, tölvupósti og í "Umræðunni"
Og einnig hefur mér borist góður styrkur vegna þessara kaupa.
Það eru eftirtaldir aðilar:
Baldvin Einarsson
Box ehf
Erla Bjartmarz
Geirlaug Helgadóttir
Guðmundur Albertsson
Hinrik Aðalsteinsson
Katrín Sif Andersen
Kristján Sigtryggsson
Leó R Ólason
Merkismenn ehf
Norðurfrakt ehf
Óskar Berg Elefsen
Róbert Guðfinnsson
Sigurður Stefán Sigurðsson
Sigurður Þór Bjarnason
Skarphéðinn Fannar Jónsson
Sparisjóður Siglufjarðar
Sturlaugur Kristjánsson
SR-Vélaverkstæði
Sveinn Þorsteinsson
Sölvar ehf (bensínstöðin)
Sæmundur Rúnar Þorgeirsson
Theodór Júlíusson
Tryggvi Örn Björnsson
Örlygur Kristfinnsson
Þorsteinn Sveinsson
Þórir Kristinn Þórisson
Verkalýðsfélagið Vaka
Vefmyndavélin kom í gagnið 16. september 2005: Sjá HÉR
Allar upphæðir litlar sem stórar til þessa verkefnis eru vel þegnar.
Steingrímur Kristinsson
kt. 210234-4549 - Reikningur: 1102-26-1569 í Sparisjóðnum á Siglufirði.
========================================
Mánudagur 30. maí 2005 -- VEÐURÁHUGAMENN og aðrir lesendur HJÁLP -- Ég verð að játa að ég er ekki einn í þeim hópi sem spái mikið í veðrið eða hlusta eða horfi á veðurfregnir. En eins og allir sem heimsækja þessar síður mína vita, þá eru þar daglegar fréttir og ljósmyndir sem tengjast veðrinu eins og það er í hádeginu hverju sinni. Þessi þáttur var í upphafi settur á síðuna eftir ósk brottfluttra Siglfirðinga, sem flestir hafa svo sterkar taugar til fjarðarins okkar, að þeir fylgjast með ástandinu heima og þar með veðrinu. Síðan bættist við mynd af einhverju húsi, sem venjulega var tekin fyrir hádegið og sett við hlið “veðurmyndarinnar”
Nú upp á síðkastið hafa komið ábendingar um að gott væri ef fleiri upplýsingar um veður kæmu fram á síðu minni, jafnhliða var bent á að til væru sjálfvirkar veðurstöðvar sem sendi þráðlaust allar mögulegar veðurfarsupplýsingar beint í tölvuherbergið á skjá sem þar væri og einnig væri hægt að koma þessum upplýsingum beint á netið á síðu minni.
Ég skrapp suður síðastliðinn föstudag, og eitt af erindi mínu var að skoða fjölvirka veðurstöð sem vinur minn Baldvin Einarsson hafði fundið fyrir mig. Þetta er veðurstöð af tegundinni Vantage Pro2 Plus, mjög fullkomin.
1. Eifaldasta einingin er Veðurstöðin + móttökuskjár, þar sem allar hugsanlegar upplýsingar um veður líðandi stundar kemur fram á. (Veðurstöðin væri staðsett neðan við hús mitt)
2. Hægt er að kaupa/tengja viðbótarbúnað, sem gerir kleift að skoða allar þessar upplýsingar á vefsíðu.
3. Við þann búnað er einnig hægt að tengja vefmyndavél og setja lifandi myndir frá henni inn á sömu vefsíu.
Hluti 2 og 3 þarf að kaupa sérstaklega. Nú þegar hefi ég ákveðið að fjárfesta í 1. áfanga, þó svo að fjárhagurinn leyfi það tæpast. (þetta er dýr búnaður)
1. júní: Ég er búinn að kaupa stöðina, 1. áfanga. -- (tók lán fyrir henni) Undirbúningur vegna masturs fyrir stöðina er þegar hafinn (2. júní, holan grafin)
En eftir hvatningu frá þeim sem þegar vita af þessum hugleiðingum mínum, þá óska ég eftir stuðning frá veðuráhugafólki og öðrum til þessara kaupa þennan búnað.
Hvort sá væntanlegi(?) stuðningur nægir til að kaupa 1. áfanga, - eða jafnvel 2. og eða 3. verður að koma í ljós.
Hver þúsundkallinn frá einstaklingum eða fyrirækjum hefur sitt gildi.
Máltækið segir: “Margt smátt gerir eitt stórt”
Hérna er tengill Sem segir frá veðurstöðinni: http://www.davisnet.com/weather/products/stations.asp
Íslensk einkaveðurstöð: http://www.verksud.is/vedur/reynivellir-nu.cfm - Sama tegund
Og hérna er sýnishorn frá danskri vefsíðu sem notar samskonar búnað og ég hefi sagt frá hér fyrir ofan. http://www.mmc.dk/davis/vejret_paa_masnedoe/Current_Vantage_Pro.htm
Með vinsemd og góðum tilgangi,
Steingrímur Kristinsson
kt. 210234-4549 - Reikningur: 1102-26-1569 í Sparisjóðnum á Siglufirði.
HÉR er tengill til mynda frá uppsettningunni
Að mestu unnið af Guðna Sölva og Óskari Berg Elefsen, nema hið einfalda, sjálf tenging við tölvu mína og netið, það gerði ég sjálfur
ooooooooooooooOoooooooooo
Vortónleikar í kirkjunni
laugardag 21. maí 2005 kl. 17.00
Dagskrá:
1. Ágúst Stefánsson, Guðm. Skarphéðinsson og Sandy blása nokkur lög á söngloftinu
2. Patrekur Bjarni Adolfsson harmonika: Indíánalag
3. Eyrún Brynja Valdimarsdóttir, píanó: Göngum, göngum
4. Hrafn Örlygsson gítar: Das klinget so herrlich / W.A. Mozart
5. Andri Freyr Sveinsson, gítar: Love me tender
6. Rebekka Rut Ingvarsdóttir, píanó: Hrafnaþing
7. Baldvin I. Baldvinsson og Guðný Rós Þorsteinsdóttir, harmonika: Kinderparadise
8. Hugljúf Sigtryggsd. þverfl. Kristín Margrét Halldórsdóttir þverfl. Sólveig Sara Ólafsdóttir fiðla:
Áfram, Kristsmenn, krossmenn
9. Finnur Mar Ragnarsson, gítar: Love me tender
10. Elsa Hrönn Auðunsdóttir, píanó: Óðurinn til gleðinnar / Beethoven
11. Ágúst Stefánss. trompet, Magnús Bjartur Ólafsson, trommur ásamt kennurum
12. Hildur Örlygsdóttir, píanó: Krummi svaf í klettagjá
13. Bjarni Mark Antonsson rafgítar: Síðan hittumst við aftur / Helgi Björnsson
14. Ágústa Margrét Úlfsdóttir, píanó: Rokklag
15. Sabrína Lind Adolfsdóttir, píanó / Hrafnaþing
16. Markús Rómeó Björnsson, píanó: Hlaupa út í búð fyrir mömmu!
17. Þverflaututríó:Elín Arnard. Erla Gunnl. og Guðný Pálsd.Molly Malone / Írskt þjóðlag
18. Aðalsteinn Ragnarsson rafgítar: From me to you / Lennon McCartney
19. Selma Dóra Ólafsdóttir, píanó: C-dúr æfing e. Czerny
20. Fjölskylduhljómsveit: Patrekur, Tóti og afi: Á Sprengisandi / S. Kaldalóns
21. (klarínett, gítar og tenorsaxofónn)
22. Blandaður hópur – Flautur, tenor sax. trompet og klarínett: American Patrol Daníel P. Daníelsson, söngur: Jealous guy
23. Valhópur í tónlist: Helen Sigurðardóttir. Vignir Ólafsson. Örn Viggósson og Hlynur G. Sigurðsson,
(hljómborð gítar, trommur, bassi).: Imagine / Lennon, McCartney
24. Helen Sigurðardóttir, harmonika: Spönsku augun
25. Eva Sigurðardóttir, píanó: Mars eftir Bach
26. Vigfús Fannar Rúnarsson / rafgítar: Apache (Shadowslag)
27. Þorsteinn B. Bjarnason, söngur: Í dag / Sigfús Halldórsson
28. Trió: Eva Sigurðardóttir, píanó, Helen Sigurðardóttir, harmonika, Sólveig Sara Ólafsdóttir, fiðla:
Vilia úr Kátu ekkjunni eftir Lehar og Hallelujah / lag frá Ísrael
Góða skemmtun og takk fyrir veturinn!
Athugasemd:
Atriði nr. 9 (Finnur Mar) féll niður en Andri Freyr og Finnur spiluðu saman í atriði nr. 5.
Atriði nr. 23, 24, og 26 féllu niður.
Einnig vantaði Helen í atriði nr. 28.
oooooooooooooOoooooooooooooo
Gunnlaugur Erlendsson, golfkennari verður með kennslu á Hóli, Siglufirði laugardaginn 4. júní næstkomandi.
Kynning fyrir börn og unglinga.
Frá kl. 10-11 verður ókeypis kynning á golfi fyrir 8 ára (f. 1997) til 11 ára (f. 1993).
Frá kl. 11-12 verður ókeypis kynning á golfi fyrir 12 ára (f. 1992) til 15 ára (f. 1990).
Þeir sem ætla að mæta í kynninguna verða að tilkynna þátttöku í síma 863 2417 + 863 2417 (Ólafur Þór).
Kylfur og kúlur á staðnum.
Kennsla fyrir 16 ára og eldri frá kl. 12:30.
Tímapantanir eru í síma 863 2417 (Ólafur Þór). Verð á hverjum 30 mínútna tíma er kr. 2.500.
Golfkennsludagar í sumar: 26. júní, 9. júlí, 23. júlí og 13. ágúst.
Golfklúbbur Siglufjarðar.