Greinar og fleira 2003

Fréttavefurinn Lífið á Sigló 

2003

Sendingar / ábendingar um efni 

21. júlí 2003

Samkvæmt bendingu B.H. --- 

Þetta efni, "Reimleikar í Alþýðuhúsinu" er tekið með bessaleyfi frá þessari heimasíðu:

http://www.sigurfreyr.com/

Reimleikar í Alþýðuhúsinu

Hinn 29. júní árið 1951 skýrði Runólfur Heydal, Þórbergi Þórðarsyni rithöfundi, frá reynslu sinni of reimleikum sem hann varð vitni að í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Frásögn hans er svohljóðandi: ,,Sumarið 1938 réðst ég sem þjónn í Alþýðuhúsið á Siglufirði. Ég kom þangað um miðjan júní og svaf einn í húsinu. Þegar nótt tók að skyggja, fór ég að heyra kynlegan hávaða á leiksviði hússins og undir leiksviðinu. Heyrði ég hann flestar nætur, þó misjafnlega mikinn, og stóð hann oftast meira og minna alla nóttina. Einstöku nótt heyrðist ekkert óvenjulegt. Hræringar þessar hófust venjulega, þegar búið var að loka húsinu og ganga frá öllu eftir veitingar á kvöldin. Þó kom það fyrir, að hann byrjaði, áður en þessum verkum var lokið. 

Á leiksviðinu voru ýmiss konar hljóðfæri, svo sem píanó, tvær eða þrjár trommur, stundum harmoníka og fleira. Hávaðinn stafaði af því, að þessi hljóðfæri voru dregin til og frá um leiksviðið af einhverjum ósýnilegum krafti. Af því gerðist mikill skarkali, því að þarna var hátt til lofts og húsið mjög hljóðbært. Stundum kom hávaðinn undan leiksviðinu, en var þá léttari. Þar var geymt hitt og annað hafurtask til leiksýninga. Yfirleitt heyrðist hávaðinn aldrei frá báðum stöðum samtímis. 

Þessi gauragangur var ekki nein ímyndun. Ég gaf stundum nánar gætur að því, sem fram fór á leiksviðinu. Sá ég þá hljóðfærin færast til um sviðið, án þess að þar væri nokkur sýnileg vera. Og einum tvisvar sinnum horfði ég á ekki minni hlut en píanóið dregið yfir hér um bil hálft sviðið. Aldrei var neinu kastað og aldrei sá ég nokkurt kvikindi á leiksviðinu. Sumar nætur gekk svo mikið á, að mér kom ekki dúr á auga, og þessi ófögnuður færðist því meira i aukana, því meira sem dimmdi nótt. Þegar komið var fram undir miðjan ágúst, gafst ég upp á að hafast þarna við að næturlagi og fékk mér leigt herbergi úti í bæ.

Ég færði reimleika þessa í tal við fólk, sem vann og unnið hafði í húsinu. Það kannaðist við að hafa séð og heyrt þetta sama og ég. En enginn sem ég átti tal við, vissi of hverju reimleikar þessir stöfuðu." 

oooO---Oooo

8. júlí: Þessi frétt/grein er send af fréttavef BB: www.bb.is. Frá: vs.

Halldór Jónsson | 02.07.03 | 16:49 

Til hamingju kjósendur

Eins og íbúar við Djúp muna riðu margir stjórnarþingmenn um sveitir síðla vetrar og lofuðu gulli og grænum skógum eftir kosningar. Dustað var rykið af gömlum kosningaloforðum og þau endurnýjuð þ.e. reynt var að selja að minnsta kosti tvisvar sama hlutinn.

Flestum mátti vera ljóst að þarna væri um svikna vöru að ræða. Því miður er það nú svo að þegar sverfur að er oft auðvelt að lokka fólk með fagurgala. Tóku enda heilu sveitarstjórnirnar þátt í skrautsýningunni með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í fararbroddi.

Eftir kosningar fór eins og vænta mátti að losna um þessa loforða grímu stjórnarflokkanna. Hún féll síðan alveg í dag þegar ákveðið var að fresta (hætta við) byggingu Héðinsfjarðargangna milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar.

Það verður þó að segja samgönguráðherra það til hróss að hann hefur gálgahúmor. Ástæða frestunarinnar er þensla. Jú þið lásuð rétt, þensla var það. Ekki er að efa að landsbyggðarfólk mun hafa ríkan skilning á þessari ákvörðun. Við erum jú á kafi í þenslu og uppsveiflu á landsbyggðinni.

Í tilefni dagsins skal 9.589 kjósendum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Norðvesturkjördæmi óskað til hamingju með árangurinn. Þeir bera jú höfuðábyrgð á þeim ráðamönnum sem nú hafa fellt grímuna.

Hvað skyldi verða hægt að selja Héðinsfjarðargöng oft?  –Halldór Jónsson. http://www.bb.is/fullfrett.php?uid=23941

8. júlí. Hljómsveitin Daysleeper 

hefur nýlega sent frá sér myndband við lagið "Looking to climb" sem verður að finna á næstu breiðskífu þeirra.. 

Í myndbandinu má sjá Hilmar Elefsen (Sverris Elefsen) fjötraðan að reyna að losa sig og svo að sjálfsögðu Daysleeper menn .. 

Daysleeper er skipuð.::

Sverrir Bergmann ( Frá Sauðárkróki )

Víðir Vernharðsson (Venna Hafliða)

Jón Svanur Sveinsson ( Sveins Ástvalds)

Helgi Svavar Helgason ( Helga Magg)

Kær kveðja / Best regards - Gottskálk Hávarður Kristjánsson - Skjalavinnsla / Documentation





Sett inn 24. Júlí 2003

Grein: Júlíus Hraunberg:

Ekki var mikið á ráðamönnum að græða.

Þegar ég sest niður og skrifa þessar hugleiðingar mínar vegna þess sem fram fór á hinum almenna borgarafundi sem haldinn var á Bíóinu þann 22. júlí 2003, vil ég taka það skýrt fram að allt sem ég segi er á mína ábyrgð og eru mínar hugleiðingar, einskis annars.

Það var svo sem auðvitað að ekki fengju almennir borgarar Siglufjarðarkaupstaðar að njóta þeirrar sjálfsögðu kurteisi alþingismanna kjördæmisins að vera virtir svars vegna þeirra spurninga sem fyrir þá voru lagðar. Ekki einn þeirra gat virt okkur svo að við fengjum vitræn svör er á þá var knúið. Birkir Jón skal þó njóta þeirrar sanngirni sem honum ber, þar sem ég fann að innst inni er hann ekki sáttur við þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. FramkvæmdumviðHéðinsfjarðargöng hefur verið frestað, svo við hinir almennu borgarar megum bara þegja og vera ánægð með það nammi sem að okkur var rétt, eins og við værum smábörn sem vældum eftir því á nammidegi.

En ég segi nei. Svona snuð vil ég ekki. Það, að leggja að okkur svona bull eins og að okkur var rétt þetta kvöld, er eins og að teikna fyrir okkur hænu og kartöflur sem okkur væri svo sagt að eta.

Ég trúi reyndar því sem Halldór Blundal (minnir mig að hann heiti) sagði, að hann hafi ekki vitað frekar en við hvað um var að vera áður en hinn svarti dagur skall á Siglufirði og að ég held líka á Ólafsfirði. Ég trúi því að hann hafi ekki verið hafður eins mikið í ráðum um þessi göng eins og hefur verið látið í veðri vaka. Hann viðurkenndi á fundinum að hann hafi tapað flestum þeim orrustum sem hann háði vegna þeirra. Ég er farinn að hallast að því sem svo sem ekki margir hafa trú á, allavega ekki framsóknarmenn hér á staðnum, að Kristján Möller (en ekki Muller), hafi átt með vöku sinni á Alþingi Íslendinga, meiri þátt í þeim framgangi en sýnist í fyrstu. Það leið varla sá fyrirspurnartími á Alþingi að hann væri ekki kominn í pontu til að spyrjast fyrir um göngin.

Jón Kristjánsson ríkisstjórnarmeðlimur, tók það skýrt fram að þótt svo að hann hafi verið aðili að þessari samþykkt ríkisstjórnarinnar, hafi hann samt verið á móti því og væri hryggur yfir þessari seinkun. Hann sagði aðspurður að þeir sem væru á móti í ríkisstjórninni yrðu að segja af sér. Það var þá sem ég gerði mér grein fyrir því, að við lifum í BANANALÝÐVELDI. Hann var samþykkur en samt á móti, svo honum hlýtur að vera annarra um stólinn og þeim hlunnindum sem honum fylgja, en að framfylgja vilja nema þá sumra kjósenda sinna. Það væri kannski athyglisverð tilhugsun, hvað hefði getað gerst ef fyrrnefndur Jón og Valgerður línudansari hefðu sagt af sér ráðherradómi til þess að fylgja þeirri stefnu sem loforð fyrir kosningar gáfu til kynna að þau myndu halda. Birkir Jón hefði kannski rokið til sem nýr þingmaður með ferskar hugmyndir og þor unga mannsins og lagt þeim lið. Búúúúúmmm. Stjórnin fallin.

Einnig hefði mátt hugsa sér að Baráttumaðurinn Halldór Blundal hefði stokkið til og verið samferða í þeirri von að betra væri í ylnum með öðrum meirihluta heldur en í þeim kulda sem hann er nú að komast í hjá Davíð. Má ske að það hefðu kannski fleiri fylgt á eftir. Ég er ekki með þessum orðum að segja að jarðgangamáli yrði frekar bjargað með slíku ráðslagi, alls ekki. Ég veit að innan allra flokka eru skiptar skoðanir um tilvist þeirra almennt. Nei, en með þessháttar aðgerðum hefðum við fengið að sjá að heiðarleikinn sem hvert um sig reyndi að selja okkur fyrir kosningarnar, væri þeim meira virði en það að láta það viðgangast að komið væri aftan að kjósendum þeirra.

Um þátt framsóknarmannanna í heimabyggð vil ég sem minnst tala, en held því þó fram að Sverrir Sveinsson hafi ekki vitað frekar en Halldór títtnefndur Blundal, að hnífurinn sem notaður var í bakið á Þorsteini Pálssyni þegar ríkisstjórn hans var skorin við trog og í búta, að sá hinn sami hnífur hafði verið brýndur til baks okkar Siglfirðinga (þótt einstaka maður vilji ekki enn viðurkenna mig sem slíkan). Ég skil vel vörn Boga sem þarf að réttlæta það fyrir okkur hinum af hverju hann stóð ekki við stóru orðin og hef ekki fleiri orð þar um.

Mér kom spánskt fyrir sjónir að framan af tók enginn sjálfstæðismaður til máls, ekki fyrr en Haukur Ómarsson gerði það, og kann ég honum þakkir fyrir hans orð. Hann kom að mínu mati heiðarlega fram. En það mætti kannski spyrja sem svo. Eru allir hinir hættir í félaginu? Ekki var hægt að sjá að þeir vildu tala opinberlega um gjörðir sinna flokksmanna. Enginn, sem ég þó vissi að áttu ekki orð yfir þeirri aðgerð sem framin var þann 30. júní síðastliðinn, enginn þeirra fann sig knúinn til að segja Siglfirðingum hver hugur þeirra væri til þessarar frestunar. Eru þeir kannski svona ánægðir og trúa blint á sinn formann. Ég segi nú bara eins og Steingrímur um gömlu konuna.

Þegar þingmennirnir fóru svo að svara þeim fáu sem tjáðu sig, læddist að mér þessi hugsun. Hvers vegna var maður að kveða sér hljóðs? Hvers vegna var eiginlega boðað til þessa fundar? Hvað er eiginlega um að vera? Þetta eru engin svör. Þó má segja að forseta alþingis (títtnefndum Blundal) tókst með ágætum að fara rangt með nöfn þeirra sem upp stóðu rétt eins og á alþingi. Ekki veit ég hvort við sem í því lentum hefðum átt að vera upp með okkur að vera komnir í hóp þeirra sem Blundalinn rangnefnir eða láta okkur bara fátt um finnast. Mér fannst það ekki fyndið.

Frá Jóni kom ekkert annað en hollusta við sína forustu og var ég svolítið hissa á því miðað við hvernig ég hafði heyrt konu mína tala um þann annars ágæta mann.

Þar var ekkert annað að græða en sú staðreynd sem honum fannst vera, að ekki þyrfti að skrifa undir plögg sem gefin eru út af ríkisstjórninni og að lýðræði er ekki til innan þess ágæta félagsskapar.

Ég held því Siglfirðingar góðir, að nú séum við komin á vaktina hvað varðar útgjöld ríkisins á næstu árum og muna eftir að spyrja reglulega hvort hin og önnur framkvæmdin sé ekki svo þensluvaldandi að ekki sé réttlætanlegt annað en fresta, fresta, fresta. Tökum nokkur dæmi. Nú um daginn var tilkynnt að bjóða ætti út og hefja framkvæmdir við byggingu víð Háskólann á Akureyri. Ekki ætla ég að berjast gegn því, en spyr. Má ekki fresta þeirri framkvæmd sem áætluð er að kosti 1.5 milljarð eða þar um bil. Þar á líka að byggja menningarhús upp á milljarð svo þá eru þeir orðnir tveir og hálfur, bara á Akureyri.

Ekki ætla ég að gagnrýna byggingu menningar, lista og leikhúsa á þessu svæði. En hvernig er svo með rekstrargrundvöllinn? Hver á að reka þessi hús. Þau eru nú þegar á svo bullandi tapi (ss leikhúsið,(leikfélagið) gamla á Akureyri) að ekki dettur ríkinu í hug að grípa þar inn í. Það gæti skapað fordæmi. – Það er verið að tvöfalda Reykjanesbrautina, sem þó átti ekki að framkvæma fyrr en eftir að þau þensluáhrif sem Jarðgangagerð hefði í för með sér. Það mætti kannski fresta þeirri framkvæmt og verja hluta þess fjármagns sem sparaðist (í þensluþjóðfélagi) í það að kenna suðurnesjamönnum og öðrum sem þurfa að aka þessa leið, að virða umferðarreglurnar. Rannsóknir sýna nefnilega að flest þeirra umferðarslysa sem á þeirri ágætu braut hafa orðið séu vegna ógætilegs aksturs. Það breytist ekki með tvöföldun. Eða ætla menn eftir að tvöföldun hefur átt sér stað að fara fram á 110 km. hámarkshraða vegna ágætis vegarins? Ég bara spyr. Ég segi að þarna mætti spara rúman milljarð nú þegar með því að fresta þeirri framkvæmd.

Birkir Jón, talaði um að á framboðsfundi í Grafarvogi, hafi Ingibjörg Sólrún talað fjálglega um nauðsyn Sundabrautar. Við höfum öll heyrt málflutning Stefáns Jóns Hafstein um nauðsyn þeirrar brautar til að geta tekið í sigurvímu á móti íþróttahetjum landsins eftir stóra vinninga í útlandinu. Þetta sagði nú blessaður maðurinn eitt sinn í dægurmálaútvarpinu sem hann eitt sinn ritstýrði sjálfur. Mín persónulega skoðun á þeim ágæta manni er sú, að hann sé eins og Svavar heitinn Gests sagði um Árna Johnsen, þegar hann hafði spilað með honum lag, að hann væri ágætur blaðamaður. Stefán var skárri sem fréttagepill. – En aftur til Sundabrautar. Við verðum vakta hvert skref sem þar er tekið. Því ef framkvæmd upp á sex milljarða er þensluhvetjandi, hvað er þá framkvæmd sem þessi upp á 12 – 15 milljarða.

Eins hefur nú verið talað um þriggja hæða mislæg gatnamót á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrabrautar. Menn hafa verið að tala um kostnað frá 2 milljörðum upp í ef þriggja hæða mannvirkið verður reist allt að 11 milljörðum. Þensluhvetjandi? Erfitt að segja til um það. Eða hvað finnst þér sem lest þetta bréf?

Nóg í bili, en munið Siglfirðingar að nú er þensluvaktinni komið yfir á okkur að okkur algjörlega forspurðum, en við skulum sýna okkar ástsælu forustumönnum á Alþingi að við erum tilbúin að axla þá ábyrgð eins og heiðarlegum Íslendingum sæmir.

Þar til næst. -- Júlíus Hraunberg.