Lífið 16.-22. Janúar 2005

Fréttavefurinn Lífið á Sigló 

16. til 22. janúar 2005

Sunnudagur 16. janúar 2005 

Þessi einstaka mynd er erlend, en ég gat ekki stillt mig um að lofa fleirum að njóta - og stelst því til að birta hana hér. 

Þetta er verðlaunamynd mánaðarins af síðu ADCSee: 

"Winds of Change" by Louise DaFies of Wilmington, IL, USA. 

Það getur varla hafa verið mjög hvöss norðanátt sem þarna hefur geisað, en stöðug hefur hún verið. 

Sunnudagur 16. janúar 2005--   Ein gömul:  

Horft á tuðruspark, kappleikur KS og ? árið 1965.  

Á myndinni eru: 

Jón Kr Jónsson bifreiðastjóri - sonur Jóns - Geir Guðbrandsson smiður - Jónas Guðmundsson málari og Jón Pálsson smiður. 

  Sunnudagur 16. janúar 2005 --  Í gærdag var Björgunarsveitin Strákar send af stað til að leita 5 manna sem sagt var að hefðu farið á vélsleðum frá Siglufirði áleiðis til Héðinsfjarðar en höfðu ekki látið í sér heyra. Sagt var að þeir hefðu farið til þess að smala saman rollum sem sést hefði til, og koma þeim niður að vatni í Héðinsfirði, þar sem bátur kæmi á móti og tæki við rollunum. 

Sleðamenn Björgunarsveitarinnar kunnir staðháttum lögðu af stað með tilheyrandi búnað til leitar. Fljótlega munu þeir hafa fundið einn af félögunum. Sá sem fannst, hafði orðið viðskila við hópinn, festi sleðann sem hann var á og týndi síðan sleðanum, Þ.e. skyggni var mjög lítið sem ekkert. Og þar fyrir utan varhugavert sleðafæri. Snjótroðari sem var með í för leitarmanna kom með manninn til byggða. Síðar náði hópurinn sem saknað var, sambandi úr Björgunarskýli Slysavarnafélagsins í Héðinsfirði og lét vita af sér, en einn þeirra félaga mun hafa farið fram af hengju og meiðst á fæti.  Að öðru leiti var allt í lagi með þá. - Þegar þetta er skrifað, seint í gærkveldi, var Sigurvin, björgunarsveitarbáturinn lagður af stað til að sækja mennina.  --  Það skal tekið fram að þessi frétt hefur ekki fengist staðfest í aðalatriðum, þrátt fyrir að þess hafi sérstaklega verið óskað og raunar fengið loforð um frekari fréttir hjá stjórnstöð Björgunarsveitarinnar þegar mennirnir væru fundnir. En fréttin er soðin saman úr 11 tölvupóstum og símtölum til mín frá ýmsum góðkunningjum, nöfn þeirra týndu voru þar einnig, en ég sleppi þeim hér. Það hefði þó verið betra að fá þessar upplýsingar frá Björgunarsveitinni sjálfri.  --  VIÐBÓT vegna gagnrýni við þessa frétt, er neðst á þessari síðu

 Sunnudagur 16. janúar 2005 

Kennsla í skíðagöngu fyrir börn og fullorðna og æfingar í Alpagreinum hafa staðið yfir að undanförnu. Misjafnlega hefur viðrað þessa daga til skíðaiðkunar, en þeir sem þessar íþróttir stunda eru harðir af sér og láta það ekki aftra sér, sérstaklega ekki yngri kynslóðin. Ég leit við á svæðunum að Hóli og uppi í Skarðsdal og tók örfár myndir, en veður var ekki ákjósanlegt til myndatöku, hann gekk á með éljum og vindstrekkingi. Það var fínt veður fyrir hádegið sagði Hákon Antonsson. En takið viljann fyrir verkið og  Smellið HÉR 

Mánudagur 17. janúar 2005  - Ein gömul:   

Tunnuverksmiðjan 1965.   Á myndinni sjást;  Guðjón Eggertsson, Guðmundur Bjarnason og Halldór Þorleifsson, lengst til hægri.   

Mánudagur 17. janúar 2005 -    Aðsend mynd:   

Rjúpur;  Svona sé ég á lóðinni hjá mér daglega,  mest  hef séð 16 stk í einu.  

kv. Óskar Berg Elefsen

Mánudagur 17. janúar 2005   --  Meiri loðna.  

Guðmundur Ólafur ÓF 91 2329 kom með til löndunar hjá Síldarvinnslunni um 1.200 tonn af loðnu í gærkveldi. Og væntanlegur er loðnubáturinn Bjarni Sveinsson (gamla Björgin) með um 900 tonn.  --  Alls eru þá komin hér á land, þegar þeirri löndun er lokið; um 5.500 tonn. Myndin er tekin kl 20:00 í gærkveldi.

 Mánudagur 17. janúar 2005  --  Enn meiri loðna. 

Þessi mynd sýnir Bjarna Sveinsson með um 900 tonn, bíða eftir löndun og Gullberg VE að landa um 1.100 tonnum. Svo er von á Erninum með loðnu til löndunar, en Örninn er eitt af "flutningaskipunum" sem veiða ekki loðnuna, heldur dæla upp úr nót veiðiskipanna og sigla með farminn til lands.

Mánudagur 17. janúar 2005  Aðsent: 

Ábending til foreldra og forráðamanna barna sem renna sér niður úr Siglufjarðarskarði."  Við viljum benda fólki á; að upplýsa börnin sín vel um þær hættur sem fylgja því að renna sér niður úr Siglufjarðarskarði. (meðfram akveginum)  Þetta er ótrúleg slysagildra ef ekki er vel að sér gáð.  Það má ekki mikið út af bera þegar börnin eru að renna sér niður, eins og í ljós kom í gær þegar við lentum í þeirri skelfilegu lífsreynslu að keyra næstum því yfir dreng sem var að renna sér niður úr skarðinu í gær. Hann var á bretti og renndi sér niður meðfram veginum og allt í einu skipti engum togum að hann missir vald á brettinu þannig að hann stefndi beint út á veginn og fyrir bílinn, mikil hálka var á veginum en fyrir snarræði ökumanns og ABS bremsukerfi bifreiðarinnar gat hann afstýrt stórslysi og betur fór en á horfðist. 

Drengurinn lá eftir á miðjum veginum skelfingu lostinn en bifreiðin lenti út í móum og þar sátum við pikkföst og í algjöru sjokki.

Eftir þessa lífsreynslu í gær þá þykir mér full ástæða til að vara bæði ökumenn sem keyra upp og niður Skarðsveginn og foreldra barna, við því að leyfa þeim að renna sér meðfram veginum.   -- Með vinsemd og þökk -- Helga Kristín Einarsdóttir og Úlfur Guðmundsson 

 Mánudagur 17. janúar 2005  

Eftirfarandi styrkveitingar voru samþykktar af bæjarráði Siglufjarðar, þann 9. desember síðast liðinn fyrir árið 2005:

Þriðjudagur 18. janúar 2005 

Ein gömul: 

Fiskidælur (síld) á tilraunastigi sumarið 1965 - Þarna eru tvö síldarflutningaskip við löndunarbryggju SR á Siglufirði. Annað var leiguskip síldarverksmiðjunnar Rauðku; Gulla og hitt leiguskip Síldarverksmiðja Ríkisins; Basto. - 

Þarna er verið gera tilraun með fiskidælur, dælt er í hring til og frá Gullu, það er frá Basto til Gullu og aftur látið renna til Basto. Síldin var misjafnlega vatnsblönduð til að finna getu dælunnar. 

Á sama tíma var önnur tegund löndunardælu á bryggjunni í notkun vegna löndunar frá Basto til verksmiðjunnar. 

Hvorug þessara tegunda var notuð á næstu árum, 1966 né síðar. 

Þriðjudagur 18. janúar 2005  - Aðsent:

Haustið 2004 er að vísu löngu komið og farið, en svona til að minna á litadýrðina í fjöllunum okkar á haustin, þá birti ég myndina.  

Ljósmynd: Hrönn Einarsdóttir á nýju stafrænu myndavélina sína, nýbyrjuð í kennslu á ströngum skólabekk í áhugaljósmyndun.   (Hrönn hefur gott ljósmyndaauga, sk)

Miðvikudagur 19. janúar 2005  -- Ein gömul:  

Síldarverksmiðjan RAUÐKA árið 1965. Fremst; skrifstofa, efnarannsókn og fleira -- Ketilhús og vélasalur -- Soðkjarnastöð - þar á bak við verksmiðjan og þrær - mjölhúsið lengst til vinstri.  Í dag er þarna autt svæði, ef undan er skilið minnismerkið á miðju svæðinu. Það er Tjarnargata og Gránugata sem þarna skerast. 

 

Miðvikudagur 19. janúar 2005  

Samkvæmt fréttabréfi Skólaskrifstofu, er meðal annars á það minnst að Foreldraráð hefur verið endurskipað, í ráðinu eiga nú sæti Katrín Sif Andersen formaður (myndin) - Hulda Ósk Ómarsdóttir og Sævaldur Jens Gunnarsson.

 Áður hafa Margrét Ósk Harðardóttir, Elín Þór Björnsdóttir og Ásta Kristjánsdóttir setið í Foreldraráði síðan 1996 og þakkar Grunnskólinn þeim fyrir óeigingjarnt starf í þágu menntunar barna á Siglufirði. 




 Miðvikudagur 19. janúar 2005  -- Frétt af síðu Síldarvinnslunnar  

Mikið um að vera í loðnunni.  Það er mjög góð veiði á loðnumiðunum og stanslaus straumur skipa með afla í land. Veiðisvæðið hefur verið að færast suður með Austfjörðum og er veiðin nú meðal annars í Seyðisfjarðardýpi. 

Síldarvinnslan hefur tekið á móti um 33.000 tonnum af loðnu frá áramótum á Siglufirði, Seyðisfirði og í Neskaupstað. 

Börkur NK fyllti sig á miðunum síðastliðna nótt og dældi loðnu um borð í Örn KE sem flytur hráefni af miðunum í land fyrir Síldarvinnuna. 

Örn er á leið með farminn til Siglufjarðar og er þetta önnur ferð skipsins þangað í vikunni. Áskell EA er einnig á leiðinni til Siglufjarðar með loðnu. 

Börkur er að landa á Seyðisfirði og Súlan EA landaði þar í gær. Tvö norsk skip lönduðu afla á Seyðisfirði í gær og eitt er þar til löndunar í dag. Guðmundur Ólafur ÓF er á leið til Seyðisfjarðar með fullfermi. 

Beitir NK landaði loðnu til vinnslu í Neskaupstað í nótt og er á leið á miðin og Bjarni Ólafsson AK er væntanlegur þangað í kvöld með loðnu fyrir vinnsluna og landar auk þess frosnum afurðum. 

Eitt norskt skip landaði loðnu í Neskaupstað í gær. 

 Fimmtudagur 20. janúar 2005 Ein gömul:  

Frumlegur stýrisbúnaður

Þessi krani sem var í eigu Síldarverksmiðja ríkisins, var til margra ára eini færanlegi kraninn á Siglufirði. Þetta var breskur krani framleiddur á stríðsárunum og erfitt að nálgast í hann varahluti og þess vegna oftar en ekki voru smíðaðir hjá SR-Vélaverkstæði, en stundum varð að hafa öll ráð til að hafa hann í notkun á meðan varahlutir voru smíðaðir.

 Í einu tilfellanna bilaði stýrisbúnaðurinn, en til bráðabirgða var þessi "mannlegi" búnaður gerður til að bjarga málinu. Maður, í þessu tilfelli Kristinn Jóakimsson sem gekk á undan og vísaði krananum veginn með vogarstöng, en ekki sá sem beitti bensíngjöfinni. 

Þarna var kraninn að ljúka vinnu við togarann Hafliða árið 1965 - tilbúinn til annarra verka

 Fimmtudagur 20. janúar 2005  

Fréttatilkynning:  

Síðastliðinn þriðjudag undirritaðu Hermann Einarsson fyrir hönd  SR-Vélaverkstæðis og Sigurður Bjarnason fyrir hönd ESSO, þjónustu og umboðs samningur milli Olíufélagsins ESSO og SR-Vélaverkstæði, þess efnis að SR-Vélaverkstæði sér um sölu og dreifingu á öllum vörum frá ESSO á Siglufirði. - SR-vélaverkstæði er með lager af smurolíum, smurfeiti ofl sambærilegum vörum. Einnig verður til sölu í SR-Byggingavörum; vörur í neytendapakkningum fyrir bílinn og heimilið.

Á næstu dögum munu viðskiptavinir verslunar okkar sjá þess merki að ESSO vörur verða sýnilegar og á mjög góðum verðum. Nánari auglýsing verður birt í næstu "Tunnu" með opnunar tilboðum á ýmsum vörum

Fimmtudagur 20. janúar 2005  Loðnuskipið Áskell kom seinnipartinn í gær með loðnufarm og Örninn kom um miðnættið, báðir með fullfermi til löndunar hjá Síldarvinnslunni á Siglufirði. 

 Fimmtudagur 20. janúar 2005 --  Þessir kátu drengir, léku á alls oddi eftir sundsprett í Sundlaug Siglufjarðar (og fótbolta í Íþróttahúsi?) í gærkveldi, þeir vildu endilega fá af sér mynd, sem þeir fengu. Mér láðist að spyrja um nöfn þeirra. -   Einhver laumar þeim að mér, vonandi?      

 Fimmtudagur 20. janúar 2005  -- Minningarmót um Benedikt Sigurjónsson, haldið af Skákfélagi Siglufjarðar var haldið í Safnaðarheimilinu Siglufirði í gærkvöld. 

Alls voru mættir 10 keppendur og tefldar voru 5 mínútna skákir, tvær umferðir. Mótið var öllum opið og ekkert þátttökugjald. Ekki beið ég eftir úrslitunum, en þau koma síðar, væntanlega. --    Myndir HÉR

 Fimmtudagur 20. janúar 2005 --   Aðsent frá Skákmótinu í gærkvöld. Úrslitin.  Í gærkvöldi, kl. 20.00, var haldið minningarskákmót um Benedikt Sigurjónsson, í safnaðarheimili kirkjunnar, og mættu 10 til leiks. Þeir voru í stafrófsröð:  (myndirnar hér fyrir neðan)

Ástþór Árnason, Bogi Sigurbjörnsson, Jóhann Jónsson, Jón Kort Ólafsson, Ólafur Jóhannsson, Sigurður Gunnarsson, Sigurður Helgi Sigurðsson, Sigurður Ægisson, Þórhallur Benediktsson og Þórhallur Dúi Ingvarsson. Tefldar voru 5 mínútna skákir, tvær umferðir. Sigurvegari var Sigurður Gunnarsson, með 17 vinninga, annar varð Bogi Sigurbjörnsson með 15,5 vinninga og í þriðja sæti varð Sigurður Ægisson með 14,5 vinninga. Fjölskylda Benedikts gaf veglegan farandbikar og verðlaunapeninga og er ráðgert að þetta mót verði árlegur viðburður á Siglufirði í janúar héðan í frá.    (einnig hér ofar, frá mótinu)  

 Föstudagur 21. janúar 2005  

Ein gömul: 


Frá verðlaunaafhendingu eftir skíðamót á Siglufirði 20. nóvember 1965. Ekki veit ég hvaða skíðamót þetta var, en sá sem gaf verðlaunagripina var Kristinn Benediktsson skíðakappi frá Ísafirði. Gaman væri að fá frekari vísbendingu um mótið og hvert var tilefni verðlaunagjafar Kristins. Á myndinni eru: Björn Ólsen - Sigríður Júlíusdóttir - Kristinn Benediktsson - ???? og Sigurbjörn Jóhannsson 


 Föstudagur 21. janúar 2005 

Þorrablót 

Ég var spurður (í tölvupósti) um áætluð þorrablót á næstunni. 

Þar sem ég hefi ekki heyrt um nein ennþá, þá er það vinsamleg beiðni til þeirra sem eitthvað vita af slíkum uppákomum, að lofa mér að vita svo ég geti komið þeirri vitneskju (yfirliti) á vefinn hér. Gera má ráð fyrir að einhverjir hafi áhuga á að heimsækja heimabyggð í tengslum við þorrablót.  Mynd: Sjálfsbjörg

 Föstudagur 21. janúar 2005  

Fyrsta Eyrarrósin var veitt í dag --- 

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði hlaut fyrstu Eyrarrósina, sem veitt var við hátíðlega athöfn á Bessastöðum fyrir stundu. 

Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Verðlaunin eru ein og hálf milljón króna og verðlaunagripur eftir Steinunni Þórarinsdóttur. 

Myndin er frá Þjóðlagahátíð síðastliðið sumar.

 Ljósmynd: Þórleifur Haraldsson

Kristinn Georgsson 2004

Sveinn Friðfinnsson 1960

 Föstudagur 21. janúar 2005  

ÞORRABLÓT -

 Í framhaldi af fyrirspurn um þorrablót á döfinni, þá eru hér eftirfarandi upplýsingar: 

Eina opna þorrablótið á döfinni og er opið öllum, er Þorrablót Allans Sportbar, sem verður þann 19. febrúar næstkomandi. Heilbrigðisstofnun og starfsfólk fyrirhugar einkablót á sama stað þann 26. febrúar, möguleiki er á að "klúbbarnir" haldi sín "lokuðu" blót í sínum félagsheimilum.


Og svo rúsínan í pylsuendanum - Kveðja frá Kidda G sem er á Kanarí, þar mætir unglingurinn á  þorrablót í kvöld á stað sem heitir Casa Antonio og er í spænska hverfinu. Kokkurinn er auðvitað Siglfirðingurinn Sveinn Friðfinnsson. Góða skemmtun Kiddi G og skilaðu kveðju til Svenna vinar míns 

 Föstudagur 21. janúar 2005    -- Skíðasvæði Siglfirðinga í "Panorama"  

Nægur snjór er nú allsstaðar innan Siglufjarðar, jafnt á hinum hefðbundnu skíðasvæðum í Skarsdal og suður af Hóli - það er allsstaðar góður skíðasnjór. Lítil umferð var þegar þessi mynd(ir) var / voru teknar klukkan 13:00 í dag enda vinnudegi og skóla ekki almennt lokið. Þessi mynd er sett saman úr 10 myndum, Hún er nokkuð stór á skjánum svo tíma gæti tekið að hlaða henni niður með hægvirkri tengingu.  

 Föstudagur 21. janúar 2005 Aðsent:     Kæru Siglfirðingar! 

Nú er kominn sá tíma að ásókn í útivist á firðinum okkar frábæra er að aukast með hækkandi sól! Það er mjög fjölbreytt útivist stunduð á Hólsdalnum, í Skarðinu og hér upp um öll fjöll. Þess vegna er mjög áríðandi að við tökum tillit til þarfa hvers annars í umferðinni. 

Nú þegar einungis Drottningarbrautin (Snorrabraut) er fær, fer um hana mikil umferð. Það er bæði gönguskíðafólk, göngufólk, skokkarar, hundafólk, ríðandi umferð og fólk á bílum á leið úr og í Skarðið eða bara fólk á “rúntinum”. Öll eigum við þarna jafnan rétt til að njóta. 

 Mig langar að biðja vegfarendur til að taka meira tillit til okkar ríðandi manna en stundum hefur verið. Því miður höfum við ekki aðra leið að ríða en þessa fyrr en snjóa leysir fram á Hólsdal og víðar.

 Við reynum eftir fremsta megni að taka tillit til annarra en hestarnir eru sumir viðkvæmir fyrir hraðri umferð og hávaða og gætu því átt til að hlaupa út undan sér og það valdið slysi ef ógætilega er farið. 

Við viljum gera hvað sem er til að koma í veg fyrir það og biðjum ykkur vegfarendur að sýna okkur meiri tillitssemi. Um leið vil ég minna félaga mína á að sýna annarri umferð tillitssemi og muna eftir endurskinsmerkjum á hrossin, fatnað og tilheyrandi

Fyrir hönd hestamanna   ---   Sævaldur Jens Gunnarsson

Laugardagur 22. janúar 2005  

Ein gömul: 

 Bátadokkin, og svæðið sem Síldarminjasafnið er á núna. 

 (ég er ekki viss um ártalið sem myndin er tekin. (1962 +/-) 

 Laugardagur 22. janúar 2005 Aðsent:  Já ég var upp í Skarði í dag í þessu frábæra veðri og blíðu þannig að ég ákvað að taka með mér myndavél. Veðrið í dag var eins og best var á kosið og ekki var færið mikið verra. Ég mæli bara með að allir skelli sér á skíði/bretti á morgun (22) og njóti útiverunnar í Skíðaparadís þ.e.a.s ef viðrar vel. Kveðja Aron Ingi.

      Það var greinilega  roði á himni, sem sýnir að ekki verður langt í að sólin sjálf ná að skína yfir fjöllin á bæinn okkar og skíðasvæðin. SK  --  Myndir: Aron Ingi

Laugardagur 22. janúar 2005  --  Trinket, mjölflutningaskip lestaði hér í gærkvöld loðnumjöl frá Síldarvinnslunni. Um 200 tonn. "til að blanda saman við og bæta framleiðsluna fyrir austan" Sagði einn gamansamur gárungi, en skipið fer austur til að taka þar til viðbótar, meira mjöl  til útflutnings. 

 Laugardagur 22. janúar 2005 --     Síldarvinnslan. Ég skrapp og heimsóttir fyrrverandi vinnufélaga mína hjá Síldarvinnslunni í gær, ég hitti að vísu ekki alla (þessa fáu sem eru á vöktum í dag) - sumir virðast hræðast myndavélin mína eða í það minnsta, ég náði þeim ekki öllum. 

 Laugardagur 22. janúar 2005 


Skíðasvæðið í Skarðsdal.


Þar var gott skíðaveður og færi í dag er ég skrapp þangað upp um klukkan 14 í dag

Lífið: 16.-22. Janúar 2005‎ > ‎

Hrakfallasaga

Að gefnu tilefni, vegna fréttar minnar af Héðinsfjarðarferð 5 sleðamanna 15. janúar 2005 - en einhverjir voru ekki sáttir við mína frásögn sem ég birti þó með fyrirvara vegna skorts á upplýsingum frá "réttum" aðilum. --- Þá birti ég hér orðrétt það sem var á vef Landsbjargar í morgun 16. janúar - Og mín skrif mjög samhljóða fréttum í dagblöðunum og útvarpi. Raunar svo samhljóða að ég sé ekki ástæðu til að breyta minni frásögn, nema viðkomandi gagnrýnendur sendi mér skriflega sína útgáfu af atburðunum, þá skal ég með ánægju birta það í heild hér. Því svona atburðir eru ekkert einkamál viðkomandi þegar kallað er eftir aðstoð.  

Hér fyrir neðan er það sem fjallað er um atburðinn á síðu Landsbjargar ORÐRÉTT 

Af síðu Landsbjargar: 

15.01 | Leit að vélsleðamönnum við Héðinsfjörð 

Slysavarnafélagið Landsbjörg 15.01.2005 kl.21:55 

Klukkan 20:15 í kvöld fundu björgunarsveitarmenn úr Björgunarsveitinni Strákum frá Siglufirði vélsleðamennina 4 sem grennslast hafði verið um fyrr um kvöldið. Þeir höfðu komist í slysavarnarskýlið í Héðinsfirði þar sem þeir biðu aðstoðar. Þegar björgunarsveitamenn komu á staðinn kom í ljós að 2 mannanna voru lítils háttar slasaðir og þörfnuðust læknisaðstoðar. Sökum þungrar færðar var ákveðið að björgunarskipið Sigurvin myndi fara með björgunarsveitarmenn og lækni út í Héðinsfjörð en að sögn björgunarsveitarmanna er ágætt í sjóinn á þar núna og góðar aðstæður til að komast í land. Mun björgunarskipið flytja mennina sjóleiðis til Siglufjarðar og er reiknað með að þeir komi þangað á tólfta tímanum í kvöld.  

Slysavarnafélagið Landsbjörg 15.01.2005 kl.20:20 

Björgunarsveitin Strákar á Siglufirði var kölluð út á fimmta tímanum í dag eftir að beiðni um aðstoð barst frá vélsleðamanni sem varð viðskila við félaga sína. Maðurinn hafði verið á ferð ásamt 4 öðrum félögum sínum en mennirnir voru á ferð frá Siglunesi og voru á leið upp frá Héðinsfirði þegar maðurinn varð viðskila en hann lenti í ógöngum með sleða sinn í slæmu færi með þeim afleiðingum að hann komst ekki áfram. 

Mjög slæmt skyggni er á þessum slóðum ásamt djúpum snjó sem er afleitur fyrir gangandi fólk þar sem það sekkur upp fyrir mitti í honum. Það var manninum til happs að hann var með farsíma og gat látið lögregluna á Siglufirði vita af vandræðum sínum sem kallaði út Björgunarsveitina Stráka til aðstoðar. 

21 björgunarsveitarmaður var sendur til leitar á vélsleðum og snjóbíl sem eru einu tækin sem virkar við aðstæður eins og núna. 

Um kl.18:30 fannst síðan maðurinn sem óskaði aðstoðar en þá hafði hann verið í símasambandi við björgunarsveitarmenn og gat þannig leiðbeint þannig um staðsetningu sína og með því að skjóta upp blysi var hægt að staðsetja hann nákvæmlega. 

Hinsvegar hefur ekkert heyrst í 4 félögum mannsins og eru björgunarsveitarmenn nú að grennslast fyrir um þá.