Sunnudagur 25. september 2005 Ein gömul: "Síðasta steypan" - þegar þakveggir ofan á frystigeymslu Þormóðs Ramma hf. var steypt árið 1974
Sunnudagur 25. september 2005 -- Fréttatilkynning - Skólatónleikar - Næstkomandi mánudag, 26.september, klukkan 11:10 verða skólatónleikar í Siglufjarðarkirkju. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar kemur í heimsókn og flytur söguna „Stúlkan í Turninum“ eftir Jónas Hallgrímsson við tónlist eftir Snorra Sigfús Birgisson sem verður sögumaður á tónleikunum. Hingað kemur 13 manna hljómsveit auk sögumanns og stjórnanda. -- Eins og gefur að skilja er talsverður kostnaður við tónleika sem þessa. Hljómsveitin hefur fengið styrki úr Menningarborgarsjóði, Minningarsjóð Margrétar Björgvinsdóttur og Menningar- og viðurkenningarsjóði KEA. Sparisjóður Siglufjarðar stendur þó undir mestum hluta kostnaðarins með myndarlegum styrkjum, auk þess sem Siglufjarðarkirkja leggur til húsnæðið endurgjaldslaust. - - Pétur Garðarsson
Sunnudagur 25. september 2005 -- Starfsmenn KB Banka nutu hér helgarinnar við að skoða og funda í Bátahúsinu og fengur sér síðan veislumat og fleira á Bíó Café um kvöldið. --- Þar sem þetta var einkasamkoma, og mér ekki boðið að taka þar myndir, þá þótti mér ekki tilhlýðilegt að ryðjast þangað inn, ef til vill í óþökk. Þannig að engar myndir eru frá þessari heimsókn. En ég frétti af því að starfsmennirnir hafi notið heimsóknarinnar þrátt fyrir að vetur konungur hafi látið á sér kræla um þessa helgi. Alls munu gestir sem heimsóttu Siglufjörð þessa helgi, aðallega þrír hópar, verið vel á þriðja hundrað manns.
Sunnudagur 25. september 2005
Það var þessum krökkum að þakka að ég losnaði úr smá prísund í morgun er ég fór á morgunrúntinn.
Bíllinn minn er enn á sumardekkjunum (bjartsýnn) og ég ætlaði bílnum of mikið er ég var að snúa við suður á enda Norðurtúns.
Bíllinn rann út af malbikinu og út í grasið. Engin hætta var þó á ferðum, en þessir krakkar hér á myndinni sýndu krafta sína, sem dugðu til að losa bílinn.
Um 15 - 20 sentímetra snjólag er í byggð, og ekki gott að vera á sumardekkjum á ótroðnum götum eins og ég gerði á götu í Norðurtúni í morgun. ---
Takk fyrir krakkar
Sunnudagur 25. september 2005-- Þetta er eins og að horfa bara út um gluggann hjá sér niður í bæ. Önnur tölvanna er "glugginn" (GSM myndir). Svo er líka fylgst með fyrir ofan hvað tímanum líður. Með kveðju, Kalli Lilliendahl. ---- Þarna á Kalli við að önnur tölvan er með mynd frá vefmyndavélinni hjá www.sksiglo.is -- heiman frá sér.
Mánudagur 26. september 2005
Frétt af Húnahorni :
23. september 2005-- Stafrænn búnaður afhentur sjúkrahúsinu á Blönduósi Í dag (23.) var formlega afhentur nýr stafrænn búnaður við myndgreiningatæki Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi en framköllunartækin voru orðin ónýt.
Voru það nýstofnuð Hollvinasamtök Heilbrigðisstofnunarinnar sem afhentu framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Valbirni Steingrímssyni tækið að viðstöddu fjölmenni.
Lesa meira Valbjörn er Siglfirðingur.
Mánudagur 26. september 2005
Ein gömul: Ætli að þetta hafi verið í síðasta sinn, sem saltfarmur var losaður í lausu formi á bíl á bryggju hér á Siglufirði?
Ekki vil ég neitt um það fullyrða, en það er orðið langt síðan og er sennilega horfin tíð. Myndin er tekin í nóvember 1974
Mánudagur 26. september 2005 -- Hrönn Einarsdóttir ætlar að framlengja ljósmyndasýningu sína í Allanum. opið verður frá klukkan 16:00 næstu daga.
Allar myndir hennar draga svip náttúrunnar, myndin hér fyrir ofan er ein af mörgum mynda hennar á sýningunni. - Allir velkomnir og munið að skrifa í gestabókina
Mánudagur 26. september 2005
Lionsklúbbur Siglufjarðar Það hefur ekki farið framhjá okkur sem hér á Siglufirði búa, að það er mikill hugur og fjör í starfsemi Lionsklúbbsins hér. Ekki síst þar sem félagsheimili þeirra er í hjarta bæjarins og allir sjá. Þeir hafa unnið hörðum höndum við að gera gamla "Fanndalshúsið," félagsheimili sitt enn glæsilegra og betra. Þeir hafa klætt suðurgafl hússins, skipt um glugga í því og margt fleira, en flestir félagar eru þar öllum frístundum við eitthvað nytsamlegt. Þá má minna á það að þeir söfnuðu hjá bæjarbúum fyrir nýjum líkbíl og sjá að auki um rekstur hans - og fleira mætti nefna - En starf þeirra hefur hlotið verðuga athygli. Ég er ekki klúbbfélagi, en í svona litlu bæjarfélagi eins og Siglufirði kemst maður ekki hjá því að þekkja þá marga og eiga jafnvel bæði góða kunningja þar og vini. Það er þess vegna sem ég fór að ráfa um vefi Lionsklúbba víðsvegar um landið, það er erfitt að meta vefina almennt en í samanburði við klúbba af samsvarandi stærð, þá mega klúbbfélagar hér vera ánægðir með sinn vef. Skoðið vefinn, þar er fjöldi ljósmynda frá félagsstarfinu, úti og inni. Tenglar í dag (2019) óvirkir
Mánudagur 26. september 2005
Wikipedia, the free encyclopedia - Mér var bent á þennan upplýsingavef nú eftir hádegið, þar sem nokkrar upplýsingar eru um Siglufjörð - og þar sem mér kom á óvart: Tengill er þarna á Lífið á Sigló - undir External links. neðst á síðunni.
Og þeir vita að Siglufjörður er á Norðurlandi eystra, ekki vestra: Eyjafjarðarsýslu
Mánudagur 26. september 2005
Skólatónleikar í Siglufjarðarkirkju fóru fram í morgun. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands lék þar undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar.
Ég mætti þar með myndavélina og tók nokkrar myndir frá tónleikunum sem sjást ef smellt erHÉR
Þriðjudagur 27. september 2005 -- Aðsent Varð að senda þér þessa ágætu mynd sem ég náði af firðinum okkar með hjálp forritsins Google Earth! Gott að sjá að Google eru ekki að gleyma merkilegustu stöðum heimsins, en ég reyndi einmitt að finna staði í Danmörku sem ég heimsótti í sumar enn ekkert fannst, staði með margfaldan íbúafjölda Siglufjarðar. --- Kv. Óli Biddýar -- Forritið er að finna á slóðinni http://earth.google.com
Þriðjudagur 27. september 2005
Ein gömul:
Götumynd frá Siglufirði 1976
Þriðjudagur 27. september 2005 -- Rigning og aftur rigning. Frá miðnætti til hádegis hefur úrkoman numið yfir 20 mm. Þessi mynd sýnir skólavörð og skólakrakka á göngu klukkan 09:25 í morgun frá efra skólahúsi til neðra skólahúss (Barnaskólans) en í morgun voru þau í handavinnu tíma í efra húsi. Þeim þótti ekki mikið til ausandi rigningar og slagveðurs komið, enda vel búinn á þessari um tæplega 500 metra gönguleið. Þarna eru þau á Eyrargötunni
Þriðjudagur 27. september 2005
Þessi mynd er tekin frammi í firði sunnan flugvallarins, en þar rennur vatn yfir vegin, regnvatn sem ekki kemst lengur venjulega leið í Hólsána vegna úrkomumagns, ræsin hafa ekki undan.
Þetta er svæðið sem marka mun leiðina að Héðinsfjarðargöngunum væntanlegu.
Þriðjudagur 27. september 2005
Talsverð kvika hefur fylgt þessum norðan garra sem ríkt hefur hér að undanförnu.
Þessi mynd var tekin klukkan:12:45 í dag út um svefnherbergis gluggann minn.
Veðurstöðin í Bakka sést í forgrunni:
Þriðjudagur 27. september 2005 Litla prinsessan kom í heiminn 25. september og var 16 og hálf mörk og 53 cm. Þeim mæðgum líður einstaklega vel, enda starfsfólkið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands frábært og svo er bara svo gott að vera í sveitinni. Líklega komum við öll heim í El Dorado á morgun. Nokkrar myndir af fyrstu klukkutímunum eru komnar á síðuna mína. -Þetta sagði ánægður nýorðinn faðir, Steindór Örvar Guðmundsson um dóttir sína og konu Önnu Rós Ívarsdóttir. Svart hvíta myndin er af föðurnum nýfæddum árið 1974 - (Prinsessan er eitt af langafa börnum mínum, sk)
Miðvikudagur 28. september 2005
Ein gömul:
"Beitningaskúr"
Þarna má sjá nokkra þekkta beitningagarpa frá árinu 1975, ma eru þarna:
Sigurbirna Baldursdóttir - Guðni Albert Egilsson - Kjartan Einarsson - Árný Jóhannsdóttir - Ragnheiður Rögnvaldsdóttir - Steingrímur Viggósson
Miðvikudagur 28. september 2005 -- Enn rigndi þegar þessar myndir voru teknar seinni partinn í gær. Önnur myndin sýnir eiganda íbúðarinnar að vestanverðu í húsinu númer 13 við Lækjargötu á leið heim til sín, en nokkuð djúpt vatn (rigningarvatn) er á leiðinni frá götunni að tröppum hússins að vestan þar sem hann á heima. Til að komast þangað þurfti hann að keyra bíl sínum alveg að neðstu tröppu til að komast þurrum fótum inn. Hin myndin sýnir bæjarstarfsmenn vera að koma fyrir dælu til að reyna að grynna á vatnsflaumnum. --- Einhver tæknileg mistök virðast hafa átt sér stað þegar þessi hluti Lækjargötu var hannaður þar sem stórt niðurfall sem var á stað um það bil sem græna doppan sýnir á myndunum, en var fjarlægt eða fært á stað þar sem gula doppan er, en þar við hliðina er annað niðurfall fast við malbikið, þar sem rauða doppan er á myndinni. Einhver mistök hljóta að hafa átt sér stað við hæðarmælingarnar. - Eða þá að átt hefur að fylla upp svæðið, en ekki gefist tími til þess að koma uppfyllingarefninu á staðinn ?
Miðvikudagur 28. september 2005 -- Þessi glæsilegi bátur hefur nýlega verið lengdur um 180 sentímetra hjá JE-Vélaverkstæði. Þarna er báturinn nýkominn úr húsi og á leið inn aftur eftir að hafa verið vigtaður á Hafnarvoginni eins og lög gera ráð fyrir eftir stórvægilegar breytingar, en ýmsar aðrar lagfæringar hafa farið fram á bátnum á verkstæðinu. Báturinn heitir Óli Lofts EA 16 2483 og er frá Árskógsandi
Fimmtudagur 29. september 2005
Ein gömul Bræðurnir Þormóður Birgisson situr í skut , og Þorsteinn Birgisson rær -- sá er í stafni er enn óþekktur. Myndin er tekin við Ríkisbryggjur árið ? 1964 ?
Fimmtudagur 29. september 2005
Eftirfarandi uppákoma verður í Allanum á laugardaginn: Glaðheimar kynna Grái fiðringurinn ---
Aldurinn er það sem enginn getur tekið frá manni nema maðurinn með ljáinn, honum fylgja ýmsir kvillar (aldrinum sko) ég greindist með einn síðasta sumar nánar tiltekið laugardaginn 19.júní þar sem ég var ný kominn út úr Strákagöngunum. --- Vissi ekki þá hvað var á ferðinni en veit það núna, grái fiðringurinn hafði tekið sér bólfestu í stæltum líkama mínum. Nú rúmu ári seinna mæti ég aftur drengurinn úr sveitinni sem fékk þann gráa á Sigló og miðla af reynslu minni í uppistandi sem fram fer á Allanum laugardaginn 1.október og hefst kl. 21:46 all stundvíslega. --- Miðaverði er stillt í hóf aðeins 700.kr. --- Sum atriði gætu vakið óhug femínista og annarra minnihluta hópa --- 10 hver gestur fær kofareykt sveitabjúgu (ósoðin) -- Stórbrotið tónlistaratriði --
Hlakka til að sjá ykkur öll kæru Siglfirðingar --- Bestu kveðjur, Fíllinn, alltaf ferskur. -- http://blog.central.is/fillinn
Ljósmyndari ókunnur.
Fimmtudagur 29. september 2005 Ályktun Bæjarráðs vegna þjónustuskerðingar Símans. --- Bæjarráð Siglufjarðar samþykkti eftirfarandi ályktun á fundi sínum í gær, 28. september 2005:
“Bæjarráð Siglufjarðar mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Símans að leggja niður starfsstöð fyrirtækisins á Siglufirði og segja upp tveimur starfsmönnum. Ljóst er að með aðgerðum þessum eru forsendur samnings, er Siglufjarðarkaupstaður hefur nýlega gert við Símann um þjónustu, brostnar af hálfu kaupstaðarins. Á tímum getur Siglufjörður verið einangraður staður og gríðarlega mikilvægt er að á staðnum séu aðilar sem geta sinnt fyrirtækjum og einstaklingum varðandi fjarskiptamál. Siglfirðingar munu ekki sætta sig við þá skerðingu á þjónustu og öryggi sem þessi ákvörðun hefur í för með sér og munu bæjaryfirvöld leita allra leiða til þess að úr þessum þáttum verði bætt.”
Virðingarfyllst, -- Þórir Hákonarson Skrifstofustjóri
Fimmtudagur 29. september 2005 -- Kynningarfundur um sameiningarmál, boðaður af hálfu Bæjarstjórnar Siglufjarðar verður í kvöld klukkan 20:00 á Bíó Café/BíóSal Þar munu bæjarfulltrúar setja fyrir svörum auk þess sem flutt verða stutt framsöguerindi. Þetta var auglýst í Tunnunni í gær. -- Þar var einnig önnur auglýsing sem ég stoppaði við, en hún var undirskrifuð "Vinir Siglufjarðar" Þessir "vinir" hvetja Siglfirðinga til að segja NEI við sameiningunni. Ekki veit ég hvort þetta eigi að skilja þannig að þeir sem hyggja á eða ætla að kjósa með sameiningunni séu EKKI vinir Siglufjarðar. Gaman væri að fá að vita hverjir þessir vinir eru. Er þetta stór eða lítill hópur manna. Eru þessir vinir bæði með og án kosningaréttar í þessu máli? ----- Ég ætla ekki að hvetja menn til að greiða atkvæði með eða á móti sameiningu hér á þessum vettvangi, ég tel betur að menn kynni sér kosti og galla sameiningar og vegi síðan og meti út frá því á eigin forsendum. En það sem allir ættu að vita, er að sama er hvort sveitarstjórnin heitir Byggðastjórn Eyjafjarðarsýslu eða Bæjarstjórn Siglufjarðar, það verða alltaf kjörnir fulltrúar á endanum sem taka ákvarðanir, bæði vinsælar og óvinsælar - Við hin ráðum litlu sem engu um þá hluti nema þá með okkar atkvæði á fjögurra ára fresti. -- En hvort það atkvæði nægir til að breyta einhverju það er svo spurningin, þannig er þetta bara. Og gleymið því ekki: Siglfirðingar eru og verða ávalt SIGLFIRÐINGAR, hvað svo sem "væntanlegt" sveitarfélag verður nefnt.
Fimmtudagur 29. september 2005
Frystiskipið Silver Kopenhagen kom hér í morgun til að lesta um 500 tonn af frosinni síld sem Huginn VE kom með hingað á dögunum úr veiðiferð á norðurslóðum.
Fimmtudagur 29. september 2005
Útsala í Versló -- Nú stendur yfir í dag og á morgun, ÚTSALA á öllum vörum innanbúðar í Versló.
Vegna þess að verslunin lokar nú um mánaðamótin og er hætt öllum rekstri. Allar vörur seljast með 50% afslætti.
Nú verður engin samkeppni á matvörumarkaðinum á Siglufirði lengur. En margir hafa tjáð mér að nú muni innkaupaferðum í Bónus á Akureyri frá Siglufirði fjölga, þar sem munurinn á vöruverði þar og hér á Siglufirði sé það mikill að ekki þurfi að versla nema fyrir um 20 þúsund krónur í Bónus, til að eiga í afgang (vegna verðmismunar) fyrir bensíni og léttrar máltíðar fyrir tvo, og hagnast samt á ferðinni.
Ekki þori ég að fullyrða neitt um hvort þetta sé rétt, en margar svipaðar raddir hefi ég heyrt og fengið tölvupóst um.
Föstudagur 30. september 2005 -
Ein gömul: Þessi mynd hefur að vísu áður komið fyrir sjónu margra.
En þetta er frá þeim tímum, sem þá lifðu, munu aldrei gleyma.
Löndun og fullar þrær hjá SR á Siglufirði
Þessi ljósmynd er tekin er árið 1961 -- Stórt eintak hennar hangir uppi á vegg í andyri Gránu- Síldarminjasafnins. -- Þessi mynd er sett saman frá tveim ljósmyndum.
(filmum 24x24mm) skFöstudagur 30. september 2005 Kynningarfundur um sameiningarmál á vegum Bæjarstjórnar fór fram í gærkveldi í Bíó Salnum. Fjölmenni var og margir tóku til máls. Umræður voru málefnalegar og einnig var slegið á létta strengi eins og góðum ræðumönnum er tamið. Og Jonni vinur minn Tanni, var óvenju góður og málefnalegur. En öllu gamni fylgir þó ætíð alvara. --- Mat mitt eftir fundinn er það að mikill meirihluti þeirra sem tóku til máls væru jákvæðir gagnvart sameiningunni
Föstudagur 30. september 2005 -- Andlitslyfting og viðhald. Strákagöngum hefur verið nokkuð vel viðhaldið undan farin ár, sérstaklega þau síðustu. Járnavirkið við gangnamunnana, það er dyraumbúnaður er farinn að sýna elli merki, það er komnir eru fram riðblettir. Nú eru málararnir Mark Duffield og Þorgeir Bjarnason að bæta úr því og í leiðinni stendur til að fríkka inngangana örlítið, mála þá frísklegri litum í stað hinnar grámyglulega ómáluðu steinsteypu. Það mun örugglega gleðja augu þeirra sem um göngin fara og koma. Myndirnar eru teknar að austanverður, í morgun.