Lífið 1.-10. Desember 2005

Fréttavefurinn Lífið á Sigló

1. til 10. desember 2005



Fimmtudagur 1. desember 2005

Gömul myndasyrpa :

Árshátíð og 50 ára afmæli SR í boði Síldarverksmiðja ríkisins í janúar árið 1963

Fimmtudagur 1. desember 2005 -- Stafrænar ljósmyndir og ljósmyndun -- Nú hafa stafrænu myndavélarnar fallið mjög í verði, bæði sökum stærri markaðar og meiri tækni í framleiðslu. Enda eru þessir gripir fyrir löngu búnir að yfirtaka gamla filmuvélamarkaðinn og eru stafrænar myndavélar að verða til á öðru hverju heimili í dag. Þá er einnig að færast í vöxt að gömlu filmurnar séu skannaðar til stafræns forms, prentaðar í albúm eða sett á geisladisk til að senda vinum og vandamönnum. Allt er þetta hið besta mál, en með ADSL Internetvæðingunni sem einnig er komin inn á annað hvert heimili hefur skapast sá möguleiki að senda ljósmyndir á milli staða með netpósti og enn aðrir, sem eru þó færri, hafa gert sínar eigin heimasíður. Það mál er fyrir flesta byrjendur flókið mál. Sumir hafa kosið að blanda myndum sínum á hinar svokölluðu Bloggsíður sem er í raun einfat mál og hægt að fá víða ókeypis, en þær síður eru yfirfullar af leiðinlegu auglýsingaskrumi. En nú fyrir nokkru kom til Íslenskur aðili sem gerir málið svo einfalt að allir sem kunna á annað borð að lesa, geta án vandræða gert sína eigin heimasíðu, og komið sínum myndum á sinn einkavef, vef sem viðkomandi getur haft að öllu eða að hluta til lokaðan almenningi með lykilorði. Möguleikar þar til viðbótar eru nær óendanlegir - og einfaldleikinn í fyrirrúmi. Þetta er þjónustuvefurinn www.123.is Venjulegur áhugaljósmyndari á varla til svo mikið af myndum að ekki sé pláss á svæði sem 123.isselur þér fyrir aðeins 2.990 krónur í 12 mánuði. Ég veit um þrjá Siglfirðinga sem þarna hafa komið fyrir myndum, en það eru svæðin www.123.is/hippi Hrönn Einars -www.123.is/svennisiglo Sveinn Þorsteins og ég sjálfur á www.123.is/sksiglo - þar til viðbótar eru nokkrir að velta málinu fyrir sér Skoðið málið, þetta er einfaldara en þú heldur, smelltu þér á www.123.is

Fimmtudagur 1. desember 2005

Dagur net: Viðtal við Stefaníu Traustadóttur, bæjarstjóra í Ólafsfirði --- Stefanía hefur verið bæjarstjóri í Ólafsfirði þetta kjörtímabil.

Hún hefur staðið í ströngu með sinni bæjarstjórn og í liðinni viku voru fréttir á dagur.net um sölu á Hitaveitu Ólafsfjarðar, samþykkt um kosningu um sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar og nú síðast um endurskoðun fjárhagsáætlunar Ólafsfjarðar. --

En hver er Stefanía? Um það færðu að vita Hér Tengill óvirkur í dag

Viðbót frá Sigló: Til gamans, þá var langafi okkar Stefaníu, Jón Kristinn Jónsson bóndi í Leyningi. Ef einhver hefur ekki áttað sig á því hverra manna hún er. Kveðja, Magna Sigbjörnsdóttir

Fimmtudagur 1. desember 2005 Síldarminjasafnið: Nú er safnstjórinn Örlygur Kristfinnsson með aðstoð Sveins Þorsteinssonar að vinna við undirbúning að dreifingu yfir 3000 jólakorta til áskrifanda sem eru um 100 talsins, og á þann hátt að styrkja Síldarminjasafnið með kaupum á kortapakka. Myndin á kortinu er "vatnslitamynd" eftir Örlyg af Bakkastöðinni Siglufirði árið 1938. Útgefandi er FÁUM

Fimmtudagur 1. desember 2005 Aðsent: Sælt veri fólkið. Við presthús í dag: 7 skógarþrestir, 3 gráþrestir, 3 svartþrestir (2 kvk, 1 kk), 2 silkitoppur og sönglævirkinn. Tókst að ná eilítið skárri mynd af honum en síðast; toppurinn liggur aftur. Kveðja - Sigurður Ægisson

Fimmtudagur 1. desember 2005

Nóvemberblað Hellunnar er komin út.

Meðal annars efni: Viðtal við Elías Þorvaldsson - Viðtal við Hannes Baldvinsson - Frásögn af ferð kennara til Póllands - Lokahóf Boccia fólksins - Grunnskólinn og ýmsar fréttir úr bænum

Föstudagur 2. desember 2005 Ein gömul: Vigfús Þór Árnason prédikar 17. júní 1987 á "Skólabala"


Föstudagur 2. desember 2005

Iðja Dagvist opnaði í gær myndlistar og handverkssýningu í Ráðhúsin. ---

Myndin hér við hliðina sýnir eitt verkið.


Ég mætti þar og tók nokkra myndir sem eru hér.

Föstudagur 2. desember 2005 Tunnan færir út kvíarnar. Opnuð var í gær ný verslun í syðri hluta húseignarinnar þar sem Prentþjónusta Tunnunnar og Hellan er til húsa. Í versluninni eru til sölu flest, ef ekki allt sem tilheyrir tölvum og vinnslu, ýmsu vegna föndur vinnu, og margt fleira er þar á boðstólnum.

Þá er hjá Tunnunni til staðar öll almenn þjónusta vegna töfluviðgerða og uppfærslu.

Á myndinni er Albert Guðmundsson framkvæmdastjóri Tunnunnar og Friðfinna Símonardóttir verslunarstjóri.

Föstudagur 2. desember 2005 Fyrir nokkrum árum barst það í tal hjá Sjálfsbjörg á Siglufirði, að félagar ættu að stefna að því að kaupa lyftubúnað fyrir æfingarlaugina hjá Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar. Leitað var eftir tilboðum í slíkan grip, sem reyndist allt of stór biti fyrir jafn litla félagsheild. Þá datt þeim í hug að leita ráða hjá Jóni Dýrfjörð, sem þá var hættur störfum og hafði selt verkstæði sitt og "lagst í helgan stein" eins og það er kallað þegar menn eru komnir á háan aldur. Jón á fatlaða dóttur og þekkti því vel þörfina fyrir slíkan búnað og .............. Lestu meira og skoðaðu myndir: >

Föstudagur 2. desember 2005 Ný og glæsileg hesthúseining var vígð á hesthúsasvæðinu um síðustu helgi. Innréttingarnar eru að mestu úr ryðfríu stáli og hinar glæsilegustu, en smíði og uppsetning var í höndum SR-Vélaverkstæði á Siglufirði, en þeir taka að sér smíðar hönnun og uppsetningu á slíkum innréttingum. Hesthúsið er að auki með sjálfvirka brinningu og úrgangshreinsun vegna hestanna og fleiri þægindi.

Laugardagur 3. desember 2005 Ein gömul: Þessi mynd er tekin árið 1930 (31)

Verið er að byggja Siglufjarðarkirkju þarna, sem sést í bakgrunni, en Hótel Siglufjörður stóð neðan við Lindargötu, rétt norðan við þar sem kirkjutröppurnar eru nú í dag 2005

Ókunnur ljósmyndari.

Laugardagur 3. desember 2005

Aðsent og....

Hérna færðu nokkrar myndir til að birta með þeim sem þú tókst í gær. - Þessar myndir eru frá ferð minni og Jóa (Réttingaverkstæði Jóa) til Hollands á leik AZ-Alkmaar á móti Middlesbrough í Evrópukeppni félagsliða, að sjálfsögðu var Siglfirðingurinn Grétar Rafn Steinsson í liði AZ .

Í leikslok er það hefð í svona stórleikjum að menn skiptast á treyjum, en okkar maður var ekki með hugann við það heldur passaði hann uppá að við færum með hans treyju heim og færðum Mumma hans fyrsta þjálfara, sem og hefur komið að þjálfun flestra barna og unglinga sem hafa stundað fótbolta á Siglufirði síðustu árin. --

Það var ekki að því að spyrja að Grétar var með betri mönnum í góðu liði AZ og var það að heyra á öllum sem við töluðum við að það eru miklar væntingar bundnar við þennan geðuga Siglfirðing. --- Ég ætla að nota tækifærið og þakka Grétari og Eyrúnu þar sem ég veit að þau fylgjast vel með Lífinu á Sigló, kærlega fyrir frábærar mótökur- og það er næsta víst að það er ekkert voða langt í að jólasveinarnir í KS úlpunum mæti aftur á leik. Hörður >>> Myndirnar HÉR

Laugardagur 3. desember 2005 -- "Það var hamagangur í öskjunni" þegar hinn árlegi Jólabasar Kvenfélagsins Von opnaði í húsnæði Leikfélagsins í gær, þar sem á boðstólum voru meðal annars laufabrauð, og fleira góðgæti, ásamt ýmsum handunnum vörum ofl.

Kona mín Guðný Ósk Friðriksdóttir var þar mætt og tók þessar myndir hér fyrir neðan.

Laugardagur 3. desember 2005

Þið sem búið í nánd við Kópavog: Munið eftir tónleikum þeirra Antoníu Hevesi og Hlöðvers Sigurðssonar

Þau verða í Salnum í Kópavogi á morgun sunnudag 4. desember.

Laugardagur 3. desember 2005 Nýfallinn snjór á gömlu trillurnar sem bíða eftir að komast í húsaskjól hjá Síldarminjasafninu, - áður en þær fúna og verða engum til augnayndis og varðveislu. (myndin var tekin í morgun)

Sunnudagur 4. desember 2005 -- Gamlir KS-ingar: Aftari röð: Hilmar Þorkelsson - Sveinbjörn Tómasson - þekki ekki - man ekki - Sigurgeir Þórarinsson - man ekki -- Fremri röð: Óli Geir Þorgeirsson - þekki ekki - Tómas Jóhannsson - man ekki Eftirtaka, ljósmyndari ókunnur:

Sunnudagur 4. desember 2005 SIGLFIRÐINGAFÉLAGIÐ -




Sunnudagur 4. desember 2005

Norðurlandsmót í knattspyrnu 5. flokks drengja var haldið í gær í Íþróttahúsinu á Siglufirði.

Ég leit þar inn og tók nokkrar myndir

Sunnudagur 4. desember 2005 -- Kaupmannafélagið, Sturlaugur Kristjánsson og Kristján Dúi Benediktsson sáu um, og sungu jólalög og fleiri, á torginu frá klukkan 15:00 í gær -

Frekar fámennt var þó í bænum (á Torginu)- ekki þó vegna tónlistarinnar sem var hin ágætasta og kom þeim sem leið áttu um miðbæinn í jólastemmingu eins og til var ætlast. En ég hafði fregnir af því að ekki hefði verið hægt að þverfóta fyrir Siglfirðingum í verslunum á Akureyri fyrripart dagsins í gær.

Sunnudagur 4. desember 2005

Kveikt var á jólatrénu á Torginu með hátíðlegri athöfn sem hófst á klukkan 17:00 í gær.

Talsverður fjöldi var þar samankominn, foreldra með börnum sínum og fleiri. Egill Rögnvaldsson setti hátíðina, séra Sigurður Ægisson flutti smá ritningu, Blásarasveit undir stjórn Elíasar Þorvaldssonar spilaði og svo komu auðvitað sjálfir jólasveinarnir með stæl, og tóku síðan lagið. Lítil stúlka Agnes Ósk Iansdóttir kveikti svo ljósin á jólatrénu.>>> Myndir HÉR

Mánudagur 5. desember 2005

Ein gömul: Þær eru að líkindum komnar af léttasta skeiðinu þessar. Þóra Steinunn Gísladóttir - Guðbjörg Ólafsdóttir (Stúlla) - Rut Sigurðardóttir - Gunnhildur Sigurðardóttir 1941 árgangur. Eftirtaka; ókunnur ljósmyndari.


Mánudagur 5. desember 2005

Forseti Íslands afhenti styrki úr Menningar- og viðurkenningarsjóði KEA -

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhendir Hafdísi K Ólafsson á Siglufirði styrk að upphæð 150 þúsund krónur, en hún var einn af 26 styrkþegum í dag. -- Hafdís K Ólafsson til að koma upp úra- og gullsmíðasafni á Siglufirði. ---

Knattspyrnufélag Siglufjarðar, fékk 100 þúsund krónur vegna Pæjumótsins sem haldið er ár hvert á staðnum --

Frétt af vef KEA Til hamingju, - SK

Mánudagur 5. desember 2005 -- Það hefur víða verið mikið haft fyrir- og oft með miklum kostnaði að koma fyrir jólaskreytingum. Barnaheimilið Leikskálar er engin undantekning, en það er aumt til þess að vita að starfsfólkið þurfi á nær hverjum morgni að hreinsa upp glerbrot eftir brotnar ljósaperur og fleira skraut áður en börnunum er hleypt inn á leiksvæðið. Einhverjir pörupiltar virðast hafa ánægju af því að hafa skrautið fyrir skotmark á kvöldin. Foreldrar, talið við eldri börnin ykkar og gerið þeim grein fyrir hversu alvarlegt þetta athæfi er, ekki hugsa sem svo "þetta geta ekki verið mín börn" -

þetta verður að teljast óvitaskapur en ekki illgirni- og komið að málinu á þann hátt, og vona að orð ykkar flytjist á milli krakkanna og veki jákvæða umræðu þeirra. Eitt lítið glerbrot gæti ratað á litlar hendur á barni, með slæmum afleiðingum.

Aðsend viðbót: Frá Leikskálum

Ábending frá Leikskálum

Nú nálgast jólin og allt sem þeim fylgir.

Bæjarstarfmenn búnir að vera á fullu við að setja upp jólaljós hér og þar fyrir okkur öll til að njóta og til að skapa jólastemmingu í bænum í desember. Það finnst okkur frábært því ekki viljum við vera án jólaljósanna.

Þegar leikskólastarfsmenn mættu til vinnu í morgun var ekki ánægjulegt að líta á jólaseríuna sem snýr út á leikskvæði barnanna. Búið var að brjóta 12 perur og glerbrot út um allt. Það er mjög auðvelt að skipta um perur enda gekk það hratt fyrir sig en það var aftur á móti erfiðara að ná upp öllum smáu glerbrotunum í snjónum. Flest ef ekki öll börn á leikskólaaldri borða snjó og því lítum við þetta mjög alvarlegum augum.

Farið var í alla bekki grunnskólans í morgun og óskað eftir aðstoð þeirra við að stöðva svona skemmdarverk og tóku þau vel í samstarfið. En við hvetjum ykkur foreldra til að ræða um þetta við börnin ykkar og gera þeim grein fyrir alvarleika málsins.

Njótum aðventunnar kveðja leikskóastóri

Mánudagur 5. desember 2005 -- SR-Vélaverkstæði. Þeir hafa staðið í ströngu drengirnir á SR-Vélaverkstæði við að smíða og útbúa jólaskraut, sem ýmis fyrirtæki um land allt hafa verið að panta hjá þeim nú fyrir jólin eins og fyrir síðustu jól. Þeir smíða nánast hvaða "prófíla" sem viðskiptavinurinn óskar. Hér fyrir ofan er eitt tilbúið til pökkunar í dag og verður sent á Blönduós

Þriðjudagur 6. desember 2005 Ein gömul: Húsið Vetrarbraut 10 rifið af Lions mönnum. Ljósmynd ???

Sigurður Gunnlaugsson - Sigurður Fanndal - Hinrik Andrésson - Haraldur Árnason - Jónas Stefánsson - Haukur Jónasson - Hjörleifur Magnússon - Óli J Blöndal - Sigurður Þór Haraldsson - Gottskálk Rögnvaldsson og Ásgeir Björnsson. Þarna eru þeir félagar að vinna við niðurrif á húsinu Vetrarbraut 10 - En þar var bústaður ýmissa merkismanna í gegn um tíðina, auk þess að hafa hýst hluta kennslustofa Barnaskólans - Skrifstofu Þormóðs Eyjólfssonar -- Eimskip - Verbúð og mötuneyti SR og fleira. En húsið var að lokum rifið til grunna af Lions mönnum árið ????

Þriðjudagur 6. desember 2005

Fjölveiðiskipið Svanur RE 45 2530var hér í morgun að taka um borð flottroll fyrir kolmunaveiðar

Þriðjudagur 6. desember 2005

Frystiskipið Belbek kom í morgun til að lesta hér frosna síld, sem er í geymslum Þormóðs Ramma Sæberg.


Miðvikudagur 7. desember 2005

Ein gömul:

Aðsendar upplýsingar:

Þessa krakka þekki ég, að framan eru ég og Fríða Birna systir mín, til hliðar Siggi (Óla Blöndal), sitjandi að ofan, frá vinstri Öddi (Halla Alberts vörubílstjóra) Bjössi ( Jóns og Ingeborgar), og Kjartan skólabróðir minn sonur Óla löggu.. > Inga Sjöfn Kristinsdóttir ---- Ljósmyndari: ???

Miðvikudagur 7. desember 2005

Fjórir merkir Siglfirðingar fallnir í valinn. - Nú á síðustu dögum og vikum, hafa fjórir þekktir Siglfirðingar frá gamalli tíð fallið frá, allir á háum aldri, en það er: Bjarni Bjarnason (Bjarni Finnu) sem lést í gærmorgun í Vestmannaeyjum 83ja ára gamall - Bjarni Bjarnason (Boddi Gunnars) sem allir eldri muna eftir, en hefur búið í Hafnarfirði síðustu árin -- Sigurbjörn Frímannsson bifreiðarstjóri (Bjössi Frímanns), sem búið hefur hér í áratugi. - Þá Óli J Blöndal sem flestir þekkja, þar sem hann heimsótti fjörðinn sinn reglulega, en hann flutti suður fyrir nokkrum árum. Þessir menn falla ekki úr minni þeirra sem áttu með þeim samleið hér á árum fyrr. Við munum minnast þeirra.

Miðvikudagur 7. desember 2005 Nýlega leitaði Adolf H. Berndsen svara á alþingi hjá sjávarútvegsráðherra, um afla og landanir smábáta umhverfis landið. Það sem vekur athygli í svarinu, er hvað Siglufjörð varðar, er aukning afla og löndunar á milli ára í hlutfalli við aðrar hafnir. Skoðið svarið & skýrslu HÉR

Miðvikudagur 7. desember 2005

Þessi mynd var tekin frá Vefmyndavélinni í dag klukkan 13:30 -- sett hér til uppfyllingar. -- En auðvelt er að "taka mynd" frá vélinni í þessari upplausn. E

kki fullkomin mynd, en dugar !

Fimmtudagur 8. desember 2005 -- Systrafélag Siglufjarðarkirkju bauð eldra fólkinu að Öldrunardeild og Sjúkradeild Sjúkrahússins til árlegs kaffisamsætis ásamt uppákomum. En meðal skemmtiatriðanna sáu nemendur Tónskóla Siglufjarðar og kennarar um. --

Kella mín Guðný Ósk Friðriksdóttir er ein af systrunum og mætti þar og tók auðvitað slatta af myndum sem eru hérna




Fimmtudagur 8. desember 2005

Ein gömul: Hlíðarvegur 1 og..... Sennilega frá árinu 1976

Fimmtudagur 8. desember 2005 -- "Eins og skrattinn úr sauðarleggnum" - kom auglýsing í Tunnunni í gær, frá Kjörstjórn Siglufjarðar flatt upp á mig, þar sem það hefur alveg farið framhjá mér sú ákvörðun, væntanlega beggja kaupstaðanna Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, að kjósa skuli um sameiningu bæjanna í janúar næstkomandi.

Ég hafði heyrt á það minnst og raunar lesið um að þessir aðilar hefðu verið að ræða hlutina, en hvergi séð eða heyrt á það minnst að þessi kosning hafi verið ákveðin, hvað þá frekar um kynningu, td. borgarafund.

Ég fór á www.siglo.is til að vita hvort eitthvað væri þar auglýst, svo var ekki og ekki fann ég heldur auglýsingu á Ólafsfjarðarvefnum. Ég fór meir að segja á www.dagur.net en fann ekkert. En það hlýtur að vera eitthvað til í þessu þar sem Kjörstjórn Siglufjarðar hefur auglýst utan kjörfundar atkvæðagreiðslu vegna kosninga um sameiningu 28. janúar 2006 -- Þær virðist vera fljótari upplýsingamiðlanir nú á tímum Internetsins að koma svona upplýsingum í fjölmiðil sem kemur út einu sinni í viku, frekar en að nota einnig "hraðvirkari" miðla, eins og tildæmis "sinn egin" www.siglo.is


Fimmtudagur 8. desember 2005

Fyrirtæki desembermánaðarfékk viðurkenningu Kaupmannafélagsins í morgun.

Við viðurkenningunni tóku fyrir hönd Fiskmarkaðar Siglufjarðar, Pétur Bjarnason aðstoðar framkvæmdastjóri og Steingrímur Óli Hákonarson framkvæmdastjóri

Fimmtudagur 8. desember 2005 Maður desembermánaðar fékk viðurkenningu Kaupmannafélagsins í morgun. Fyrir valinu að þessu sinni var Valur Johansen, sem lamaðist fyrir nokkrum árum en hefur sýnt eindæma elju og dugnað við að bjarga sér, og fer nú allra sinna ferða án mikillar aðstoðar- og ferðast um utandyra á reiðskjótta sínum.

Á myndinni til hægri er kona hans Sigurlína Gísladóttir með honum: Ljósmynd: Tunnan

Fimmtudagur 8. desember 2005 Frétt frá dagur.net Siglfirðingurinn Aðalheiðar S Eysteinsdóttur: - Laugardaginn 10. des.kl. 15-17 verður sýning á fatnaði sem Aðalheiður S. Eysteinsdóttir hefur hannað og saumað úr notuðu og nýju, í Populus Tremula ( í kjallara Listasafns Akureyrar ). Sýningin ber yfirskriftina " endurhönnun / redesign " og er áhersla lögð á.............. lesa meira HÉR Tengill erki virkur lengur

Föstudagur 9. desember 2005 Aðsent og... Myndina hérneðar til hægri fékk ég senda frá Jón Gunnari Jónssyni, (maðurinn hennar Fríðu Birnu, dóttir Kidda G.) En þetta hús er á Stokkseyri. Hann leitaði upplýsinga um uppruna hússins sem hann vissi að hefði verið á Siglufirði og ávalt kallað "Amsterdam" Ég þekkti lítilsháttar til fyrri staðsetningar; myndin til vinstri sennilega um 1940 ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson. En þar sem ég vissi að Örlygur safnvörður vissi betur, þá leitaði ég til hans og hér kemur hans frásögn í stuttu máli: Amsterdam, Tjarnargata 11, stóð norðan við Henriksen húsið (sem er neðst við Aðalgötu) og skáhallt á móti Þormóðsbúð, björgunarsveitarhúsinu. - Það var eitt af mörgum húsum sem norski útgerðarmaðurinn Thormod Bakkevig byggði hér á Siglufirði frá 1904-1919. Meðal húsa Bakkevigs þarna á svæðinu voru fyrsta fiskimjölsverksmiðjan á Íslandi og fyrsta tunnuverksmiðjan.--- Ástæða fyrir þessari nafngift, Amsterdam, er ekki vitað en annað hús Bakkevigs sem stóð frammi á bryggju hét Rotterdam. -- Síðast átti Þórður Þórðarson í Hrímni húsið og um 1980 bauð hann það nokkrum mönnum að gjöf. Sá sem þáði það var Þórður Vigfússon, þáverandi framkvæmdastjóri Þormóðs ramma. Með hjálp nokkurra Siglfirðinga tók hann húsið niður (en það er stokkbyggt) og setti það saman aftur á Stokkseyri á nýjum kjallara.

Og þar sómir það sér vel þetta gamla Norsk-Siglfirska hús.

Amserdam. Ljósmynd: Kristfinnur Guðjónsson

Nýtt heimilsfang: Amserdam: Ljósmynd: Gunnar Jónsson

Föstudagur 9. desember 2005

Ein gömul, aðsend: Sæll Steingrímur... Datt í hug að senda þér þessa mynd sem ég held að gæti alveg átt heima í “horfin hús.” -

Ég er ekki alveg viss um hvaða strákar það eru sem horfa yfir brekkuna, en mér er samt næst að halda að það gætu verið Óli Kára og Úlfar Gull (bróðir Erlu Gull.) Allar nánari upplýsingar um það eru annars vel þegnar. Það hefur mikið breyst á brekkunni frá því að þessi mynd var tekin sem gæti hafa verið 1967. Hávegur 11 fyrir neðan hús Kára Jóns, þar sem bjuggu Páll og Gyða (foreldrar Stínu Páls) er horfið fyrir nokkrum áratugum. Fyrir neðan það er hús Óskars Garðars (áður Garðars faðir hans) ásamt bílskúrnum á lóðinni sem urðu að víkja fyrir tengingu Hverfisgötu og Hávegs, en hús Óskars var flutt yfir á Saurbæjarás. Við Hverfisgötu 10 stendur Aðventistakirkjan sem var breytt í bílageymslu á sjöunda áratugnum. Hús Heiðu Jónu og Ella Ísfjörð var númer 12 við Hverfisgötu og stóð lengi fjárhús og hlaða uppi í lóðinni. Þessi tvö síðast nefndu eru bæði horfin fyrir einhverjum áratugum síðan. - Kveðja – Leó R. Ólason.

Föstudagur 9. desember 2005

Ný heimasíða:

Gauti í Versló, hann losnar að líkindum seint við það nafn sem á heima og er væntanlega komið í gælunafnaskrá Bjarna Kristjáns - Hann Guðmundur Gauti Sveinsson er búinn að kaupa sér myndavél og hefur sett upp heimasíðu www123.is/ggs

Hann er byrjaður að setja inn myndir, en lesendur eru beðnir að fylgjast vel með drengnum, og skamma hann ef hann stendur sig ekki vel við að setja inn myndi á nýju síðuna sína.

Hann er góður á ritvellinum (þegar hann má vera að því að setjast við tölvuna) og ætti að hafa hæfileika sem myndasmiður einnig. >>> Áfram GGS <<<

Föstudagur 9. desember 2005 Aðsent: Hér eru nokkrar síðbúnar myndir frá jólahlaðborðinu á Bíóinu sem haldið var síðastliðinn Laugardag 3. desember.

Kveðja Kristján L. Möller Myndirnar HÉR

Föstudagur 9. desember 2005

Það er BANNAÐ.

Athygliverður listi yfir fáránleg lög á bloggsíðunni hans Leós -

(óvirkur tengill í dag)

Þess virði að skoða- og gleðjast yfir því að vera laus við svona lög hér heima á fróni --

Þó svo að í Lögreglusamþykkt Siglufjarðar séu enn til frá fornu fari, reglur sem enga stoð eiga í raunveruleikanum, hvað þá að eftir þeim sé farið, hvorki af yfirvöldum né einstaklingum (sem í raun er alls ekki óeðlilegt)

Föstudagur 9. desember 2005

Aðsent: Ljósmynd: Sveinn Þorsteinsson

Það eru að koma jól, segir almannakið og allt jólaskrautið

Jólakaktusinn hennar Bertu, konu Sveins.

Föstudagur 9. desember 2005 Fjölveiðiskipið Guðmundur Ólafur ÓF 91 2329 kom hér í morgun til að losa um 150 tonn af frosinni loðnu til geymslu hjá Þormóði Ramma Sæberg. En um borð voru einnig um 200 tonn af nýrri loðnu sem skipverjar áttu eftir að frysta um borð, en skipið hefur verið við loðnuleit hér fyrir norðan land. Frekar lítið hefur fundist af loðnu til þessa. "Einstaka pollur" eins og einn komst að orði.

Laugardagur 10. desember 2005 Ein gömul: Ekki veit ég hver maðurinn er, en bærinn á bak við hann mun vera Skúta sem var austan við Siglufjörð ("á" Ásnum). Ókunnur ljósmyndari. Ef einhver á betri mynd af "Skútu" þá þætti mér vænt um að birta hana

Laugardagur 10. desember 2005

Jóladagar í Íslandsbanka á Siglufirði.

Í gær föstudag var uppákoma í Íslandsbanka, þar sem nemendur í Tónskóla Siglufjarðar spiluðu fyrir viðskiptavini og þá aðra sem leið áttu um angrið.

En slíkar uppákomur munu verða næstu föstudaga fram að jólum.

Vorboðarnir, kór eldriborgar mæta á næsta föstudag.

Myndir frá uppákomunum HÉR

Laugardagur 10. desember 2005

Brunamálaáætlun. Undirrituð var seinnipartinn í gær í BíóSalnum, Brunamálaáætlun Siglufjarðarkaupstaðar en að undirskriftinni stóðu af hálfu Brunamálastofnar dr. Björn Karlsson brunamálastjóri og bæjarstjórinn okkar Runólfur Birgisson. -- Og Slökkviliðsstjórinn Ámundi Gunnarsson að sjálfsögðu, nokkrir slökkviliðsmenn og makar til að vera vitni að þessum viðburði.

Boðið var upp á léttar veitingar -

Og Lífið á Sigló staðfesti samkomuna með ljósmyndum sem hér eru.

Laugardagur 10. desember 2005

Það er ekki á hverjum degi sem svona stórlúða fæst á línu út af Siglufirði.

Reynir Karlsson sem rær á henni Júlíu sinni SI 62 á daginn en sefur hjá Júlíu konu sinni á næturnar, fékk þessa fallegu lúðu á línu í gær, en myndirnar sýna lúðunni landað á bryggju, -

Reynir ásamt háseta sínum "Radek" Pólverja sem flutti hingað til Siglufjarðar frá Tálknafirði með konu og tvö börn, gagngert vegna auglýsingar frá Reyni um að hann vantaði háseta.

Á þriðju myndinni stendur Reynir við hlið lúðunnar, en "hæð" hennar reyndist vera 180 sentimetrar - um þyngdina veit eg ekki. Alls var afli dagsins tæp 3 tonn.

Laugardagur 10. desember 2005 Jólakveðjur til ættingja og vina

Allir Siglfirðingar og firðinum okkar tengdir, sem þess óska geta fengið pláss á Lífinu á Sigló til að senda vinum og ættingjum sem eru fjarri, jólakveðju. Opnuð verður sérstök SÍÐA þann 20. desember næstkomandi, þar sem fyrir verður komið kveðjum sem berast mér til birtingar, fram að þeim tíma og til áramóta. Viðkomandi sendir mér mynd að eigin vali ásamt texta, fjölskyldumynd eða annarskonar mynd sem birt verður með kveðjunni. Þetta á einnig við fyrirtæki sem vilja nota þetta tækifæri til að senda viðskiptavinum sínum og starfsfólki jóla og áramórakveðju. --- ÞETTA ER ÓKEYPIS

ugardagur 10. desember 2005 Guðmundur Ólafur ÓF 91 2329 hefur látið reka inni á Siglufirði - að líkindum hafa skipverjar verið að frysta þessi 200 tonn sem þeir vor með í lestum á gær þegar þeir losuðu um 150 tonn af frystri loðnu til geymslu í landi

Þessi mynd var tekin í morgun

Laugardagur 10. desember 2005

Jólatréð og Ráðhúsið í morgun


Laugardagur 10. desember 2005

SR-Byggingavörur eiga 2ja ára afmæli í dag. Þar var ös í morgun þegar ég kom þar við til að fá mér afmæliskaffi.

Mig vantar "bílskúr" til kaups á Siglufirði, helst á láglendi, en "skúrinn" verður væntanlega notaður undir lítinn vélknúinn plastbát ásamt viðkomandi kerru --

Upplýsingar: Steingrímur í síma 892-1569