Um Elísabetu Erlingsdóttur (29. ágúst 1940 - 5. júní 2014)
“Elísabet með röddina” hóf söngnám hjá Sigurði Demetz og hélt síðan til náms við Staatliche Hochschule für Musik í München en þaðan lauk hún prófum í einsöng og söngkennslu. Koma Elísabetar inn í íslenskt tónlistarlíf var eins og vítamínsprauta hvar sem hún lagði hönd á plóg. Íslensk tónskáld kepptust við að semja tónlist fyrir hana og hún frumflutti fjölda sönglaga, lagaflokka, útsetningar á þjóðlögum og kammerverk þar sem einsöngsröddin var notuð á nýstárlegan hátt í “atonal” tónsmíðum og á þessum tíma var þetta nær óþekkt hér á landi. Mörg þessara verka koma einmitt fyrir á geisladiskum plötunnar Söngvaglóð.
Þegar Íslenska óperan var stofnuð árið 1982 var Elísabet meðal söngvara í fyrstu sýningunni, Sígaunabaróninum. Hún söng mörg hlutverk bæði hjá Íslensku óperunni og Þjóðleikhúsinu, m.a. titilhlutverk í Orfeus og Evridís sem var jólaópera Þjóðleikhússins 1979 í tilefni af 30. leikári hússins.
Það var ekki síst framlag hennar til tónlistarmenntunar þjóðarinnar sem var einstakt og ómetanlegt. Fyrsti nemandinn sem lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla Kópavogs var nemandi Elísabetar, sópransöngkonan Ólöf Kolbrún Harðardóttir, vorið 1973. Síðar varð Elísabet deildarstjóri söng- og söngkennaradeildar Tónlistarskólans í Reykjavík og frá stofnun tónlistardeildar Listaháskóla Íslands árið 2001 hafði hún yfirumsjón með söngmenntun skólans. Hún kenndi á meistaranámskeiðum við tónlistarháskóla á Norðurlöndum, í fjölmörgum Evrópulöndum og í Bandaríkjunum. Enginn kennari landsins hefur leiðbeint jafnmörgum nemendum sem hafa síðar lagt fyrir sig söng sem atvinnu.
Elísabet var einnig brautryðjandi í raddþjálfun kóra og m.a. Pólýfónkórinn, Söngsveitin Fílharmonía og Kór Langholtskirkju, nutu hæfni hennar og starfskrafta um árabil. Hún gegndi einnig ótal trúnaðarstörfum í tónlistarmálum; var m.a. formaður Félags íslenskra einsöngvara og formaður óperudeildar Félags íslenskra leikara.