Þýskur ferðamaður fundinn á jökli

Post date: Jan 29, 2011 7:54:24 AM

28. janúar 2011

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar fundu rétt fyrir klukkan sex þýskan ferðamann sem saknað hafði verið á Eyjafjallajökli frá því í fyrradag. Vélsleðahópur ók fram á hann austan við gígbrúnina. Á þessari stundu (kl 06:20) er ekki mikið vitað um ástand mannsins annað en að það sé þokkalegt miðað við aðstæður en hann er e.t.v. eitthvað kalinn á fingrum.

Björgunarsveitir eru nú að flytja manninn til byggða og er reiknað með að hann verði kominn undir læknishendur á Hellu eða Hvolsvelli um klukkan níu.

Um 150 björgunarsveitamenn af Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í leitinni en aðeins mjög vant fjalla- og jöklafólk var kallað til. Aðstæður til leitar voru slæmar í nótt, éljagangur og lítið skyggni auk þess sem jökullinn er mikið sprunginn og hættulegur yfirferðar.