Björgun

Post date: Oct 22, 2012 1:54:23 PM

Metaðsókn var á ráðstefnunni Björgun sem haldin var dagana 19. til 21. október á Grand hotel Reykjavík og létu Kyndilsmenn sig ekki vanta þar. Þétt dagskrá stóð frá föstudegi til sunnudags og voru yfir 60 fyrirlestrar, bæði á íslensku og ensku, um ýmis efni sem tengjast björgunarmálum á einhvern hátt. Meðal fyrirlestra var m.a. Tetra - í nútíð og framtíð, Meðferð sjúklinga á snjóflóðavettvangi, Áhrif ofkælingar á sjúkling sem orðið hefur fyrir áfalli, Fjarskipti í leit og björgun - staðan í dag og framtíðin og margt fleira.

Einnig voru kynningarbásar þar sem fyrirtæki og innflutningsaðilar voru að kynna vörurnar sínar. Þar voru meðal annars Garmin, Taiga, Artic Trucks, Ellingsen, Conterra, Askja, Kendler, Tækivík, Fjallakofinn og margir aðrir.

Björgunarsveitin Kyndill þakkar fyrir sig.