Eldstöðvavakt á Fimmvörðuhálsi

Post date: Apr 6, 2010 11:16:04 PM

Hópur frá Kyndli og liðsauki frá nágrannasveit okkar Kili á Kjalarnesi tók þátt í eftirliti við eldstöðina og aðstoð við ferðamenn á Fimmvörðuhálsi um Páskana. Mikill fjöldi ferðamanna kom og skoðaði eldsumbrotin bæði á jeppum og tveimur jafnfljótum. Helstu verkefni Kyndils voru að leiðbeina fólki um svæðið og vera til taks ef einhver áföll dyndu yfir. Veður var með besta móti en afar kalt og voru margir göngumenn þar af leiðandi nokkuð þrekaðir þegar á áfangastað var komið.

Einhverjir treystu sér ekki í að ganga aftur að Skógum og þurfti þ.a.l. að aðstoða þá að Fúkka þar sem halla fór undan fæti.

Við lok sólarhringsvaktar okkar var hópurinn beðinn að kanna breytingar á gosinu sem vísindamenn norðvestan megin við gíginn tilkynntu um. Urðum við vitni að fyrstu spýjunum úr nýrri sprungu og staðfestum við svæðisstjórn að ný sprunga hefði myndast með talsverðri eldvirkni. Þar sem ný sprunga hafði læðst aftanað jarðfræðingum án nokkurra fyrirboða eða umbrota þótti Almannavörnum tilhlýðilegt að rýma jökulunn þar til vísindamennirnir væru komnir með yfirsýn yfir breytingar á eldvirkninni. Tókum við því þátt í rýma svæðið og tókst það með ágætum á hæfilegum tíma.

Nýja sprungan vestan megin við "gamla" gíginn.

Sjá má fyrsta hraunið vella uppúr sprungunni fyrir miðri mynd.

(Smellið á mynd til að stækka)