Týndur maður á Esjunni

Post date: Jan 21, 2013 1:13:17 PM

Hópur frá Kyndli tók þátt í leit að manni á Esjunni nú um helgina. Maðurinn sem var þaulvanur fjallamaður gekk við annan mann upp á Kerhólakamb og hugðist koma niður Þverfellshorn. Veður var afar slæmt á toppi Esjunnar og varð maðurinn því viðskila við ferðafélagann. Þar sem ferðafélagarnir voru í símasambandi ákvað annar að snúa við niður Kerhólakambinn en hinn ákvað að halda áfram niður Þverfellshornið. Þar tapaði hann áttum og ákvað þá að hringja í 112 og óska eftir aðstoð björgunarsveita. Alls leituðu um 120 björgunarmenn mannsins við erfiðar aðstæður austan 22 m/s, skafrenning og hríð á köflum. Maðurinn fannst heill á húfi í austanverðu Gunnlaugsskarði.

Ferðamenn mega vara sig á ferðum á Esjuna núna því í Gunnlaugsskarði er snjóflóðahætta svo og á allri norðurhlíð fjallsins. Gönguferðir á fjöll að vetrarlagi eru alltaf hættulegar og ætti enginn að fara á fjöll án þess að vera með GPS, áttavita, snjóflóðaýli, skóflu og stöng. Hlýr fatnaður, aukaföt og nesti eru síðan alltaf með.

Á vef SafeTravel er að finna afar góðar leiðbeiningar um ferðalög í Íslenskri náttúru.