7 tinda hlaupið

Post date: Jun 7, 2009 12:28:12 AM

Nýtt utanvegahlaup, 7 tinda hlaupið verður haldið í fyrsta skipti laugardaginn 13. júní 2009. Skátafélagið Mosverjar, Björgunarsveitin Kyndill og Mosfellsbær standa að hlaupinu sem hefst kl 10:00 við Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Hlaupið er utanvega um fjöll, heiðar og dali í bæjarlandi Mosfellsbæjar og komið aftur í mark við Lágafellslaug.

Vegalengd

Tvær vegalengdir utanvega eru í boði fyrir keppendur 37,45 km og 17 km.

Skráning og skráningargjald

Gjaldið fyrir 37 km er 2.500 kr og fyrir 17 km er gjaldið 1.500 kr. Forskráningu lýkur kl. 22:00 miðvikudaginn 10. júní og er fjöldi þátttakenda takmarkaður. Skráning fer fram hér á hlaup.is .

  • Þátttakendur séu komnir að Lágafellslaug minnst 30 mín fyrir hlaup.
  • Frítt er í Lágafellslaug að hlaupi loknu..
  • Drykkjarstöðvar verða á leiðinni.
  • Þátttakendur eru að öllu leiti á eigin ábyrgð í hlaupinu.

Hlaupaleiðin 37,45 km - 7 tinda hlaupið

Kort af leiðinni.

Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali. Aðeins lítill hluti leiðarinnar er í byggð og á vegi.

Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Hlaupið er gegnum íbúðarhverfi að undirgöngum á Vesturlandsvegi. Farið þaðan um skógræktarsvæðið við Hamrahlíð og hlaupið austur Úlfarsfellið með viðkomu á tindinum (1).

Þaðan austur af fjallinu með stefnu á Hafravatn. Áfram áleiðis á Reykjaborg um Borgardal (2).

Þegar komið er á Reykjaborg er stefnan tekin norður af Reykjaborg, um Húsadal og yfir Varmá og upp á Reykjafell (3).

Þaðan er hlaupið niður í Skammadal og áfram upp á efsta hnjúk Æsustaðafjalls (4).

Áfram suður eftir fjallinu og stefnan tekin austur að Torfdalsbrúnum og áfram upp á Hjálminn. Þaðan áfram í austur og alla leið á hæsta tind Grímmannsfells (5).

Farið síðan vestur á Flatafell og áfram niður að Hraðastöðum. Haldið síðan þvert yfir Mosfellsdal um Guddulaug og síðan vestur að Mosfellskirkju. Þaðan farið á Mosfellið. Fyrst í norður frá kirkjunni uns komið er upp fyrir öll gil, og þá sveigt til vesturs rakleiðis á hæsta hnjúkinn (6).

Farið síðan í suður niður af fjallinu og um bæjarhlaðið á Hrísbrú. Haldið áfram niður veginn og yfir Köldukvísl og Suðurá á brú. Síðan farið á Helgafellstind frá Skammadalsvegi og Þingvallavegi (7).

Þegar Helgafellstindinum er náð er farið suð-vestur af fjallinu og komið niður við Helgafell. Farið áfram gegnum Áslandshverfið og niður á malbikaðan göngustíg meðfram Vesturlandsvegi. Þar farið um undirgöng og eftir göngustíg áleiðis að íþróttamiðstöðinni við Varmá. Áfram haldið á göngustígum norður og vestur með Holtahverfi of Tangahverfi að golfvelli og síðan að Lágafellslaug í mark.

Hlaupaleiðin 17 km - 3 tinda hlaupið

Kort af leiðinni verður sett inn fljótlega.

Hlaupið er um vegleysur, fjöll, heiðar og dali. Aðeins lítill hluti leiðarinnar er í byggð og á vegi.

Hlaupið hefst við Lágafellslaug í Mosfellsbæ. Hlaupið er gegnum íbúðarhverfi að undirgöngum á vesturlandsvegi. Farið þaðan um skógræktarsvæðið við Hamrahlíð og hlaupið austur Úlfarsfellið með viðkomu á tindinum (1).

Þaðan austur af fjallinu með stefnu á Hafravatn. Áfram áleiðis á Reykjaborg um Borgardal (2).

Þegar komið er á Reykjaborg er stefnan tekin norður af Reykjaborg, um Húsadal og yfir Varmá og upp á Reykjafell (3).

Þaðan er hlaupið niður í Skammadal, suður með Helgafelli og áfram gegnum Áslandshverfið og niður á malbikaðan göngustíg meðfram Vesturlandsvegi. Þar farið um undirgöng og eftir göngustíg áleiðis að íþróttamiðstöðinni við Varmá. Áfram haldið á göngustígum norður og vestur með Holtahverfi of Tangahverfi að golfvelli og síðan að Lágafellslaug í mark.

Verðlaun

Verðlaun fyrir 3 fyrstu sæti karla og kvenna í báðum vegalengdum.

Nánari upplýsingar

Allar nánari upplýsingar eru á www.mos.is og á www.mosverjar.is